Loftslag.is

Tag: Framtíðarsýn

  • Eftirspurn eftir tvíhjóla rafknúnum farartækjum á eftir að aukast

    Eftirspurn eftir tvíhjóla rafknúnum farartækjum á eftir að aukast

    Eftirspurn eftir tvíhjóla rafknúnum farartækjum (þá mest rafvespum og rafmótorhjólum) á eftir að aukast gríðarlega á næstu árum, ef marka má nýja skýrslu um málið. Í henni er talið líklegt að fjöldi slíkra farartækja eigi eftir að fjölga úr 17 milljónum á þessu ári og upp í 138 milljónir fyrir árið 2017.

    Tvíhjóla rafmagnsfarartæki, sem eru nú þegar mjög vinsæl í Asíu, munu fjölga við hækkandi verðs á olíu og bensíni, auk hvatningar frá yfirvöldum samkvæmt skýrslu Pike Research.

    Kostir slíkra farartækja eru miklir fyrir marga notendur, þ.e. þau eru fyrirferðalítil auk lítils viðhalds og því óneitanlega hagkvæmur kostur fyrir borgarbúa. Markaður fyrir vespur er talin verða um sex sinnum stærri en rafmótorhjóla – en það verður þó misjafnt eftir heimshlutum. T.d. er talið að mótorhjól verði vinsælli í Bandaríkjunum og eflaust verður það svipað hjá okkur Íslendingum – en þau munu komast lengra og fara hraðar yfir.

    Heimildir og ítarefni

    Umfjöllun af heimasíðu Pike Research: 138 Million Electric Motorcycles and Scooters to be on the Road Worldwide by 2017

    Skýrsluna má nálgast hér (hægt er að nálgast Free Executive Summary með því að skrá sig inn):  Electric Motorcycles and Scooters

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar til forna – lærdómur til framtíðar

    Loftslagsbreytingar til forna – lærdómur til framtíðar

    Þegar saga loftslagsbreytinga Jarðar er skoðuð þá virðist allt benda til þess að hitastig Jarðar í náinni framtíð eigi eftir að verða mun meiri en búist er við, vegna áframhaldandi losun CO2 út í andrúmsloftið. Jeffrey Kiehl hjá NCAR lýsir í þessu myndbandi hver staðan gæti orðið ef ekki verður dregið úr losun á CO2 – en í lok þessarar aldar þá gæti styrkur þess verið orðinn svipaður og fyrir 30-100 milljónum ára – en þá var hitastig mun hærra en í dag.

    Hitastig Jarðarinnar mun halda áfram að hækka næstu aldir og þúsaldir vegna hækkandi styrks CO2 í andrúmsloftinu.  Samkvæmt Kiehl þá er jafnvægissvörun loftslags til lengri tíma litið um tvöfallt hærri en skammtímabreytingar gefa til kynna. Það sé vegna þess að loftslagslíkön eigi í erfiðleikum með að herma breytingar eins og bráðnun jökulbreiða – sem gerast á öldum eða þúsöldum og magna upp upprunalegu hlýnunina af völdum CO2.

    Heimildir og tengt efni

    Pistill Jeffrey Kiehl birtist í Science 2011 (ágrip): Lessons from Earth’s Past

    Umfjöllun má finna á heimasíð NCAR: Earth’s hot past could be prologue to future climate

    Tengt efni á loftslag.is

  • Súrnun sjávar og lífríki hafsins II

    Súrnun sjávar og lífríki hafsins II

    Hér er framhald af færslu Hrannar um Súrnun sjávar og lífríki hafsins

    Lindýr (Mollusca)

    Líkt og kóralar eru lindýr stórtækir framleiðendur aragóníts í hafinu, en til lindýra teljast sniglar og samlokur auk margra annarra skeldýra. Sum lindýr mynda eingöngu aragónít og má þar nefna nökkva, sætennur og sumar samlokur og snigla. Á meðal samloka og snigla eru til fjölmörg dæmi þess að dýr myndi bæði aragónít og kalsít og er kræklingur dæmi um slíka samloku. Þau dýr sem mynda kalkgerðina aragónít og lifa á köldum hafsvæðum eins og hér við land, eru í sérstakri hættu vegna súrnun sjávar þar sem mörg reiknilíkön gefa til kynna að aragónít gæti orðið undirmettað í yfirborði sjávar á háum breiddargráðum, þ.e. næst  heimskautunum, fyrir næstu aldamót.

    Vængjasnigillinn Cliona limacina

    Líkt og pandabjörninn er táknmynd verndunar dýra í útrýmingarhættu þá er sviflægur hópur snigla orðinn táknmynd hættunnar sem stafar af súrnun sjávar. Þessir smáu en fögru sniglar eru kallaðir vængjasniglar enda nýta þeir „vængi“ til þess að „fljúga“ um í sjónum.  Margar tegundir vængjasnigla mynda afar þunna skel úr aragóníti og þar sem þéttleiki þeirra er hæstur, við pólanna, er mettun aragóníts í umhverfi þeirra nú þegar orðin mjög lág og lækkar stöðugt með súrnandi sjó. Rannsóknir hafa sýnt fram á að skel sniglanna muni hverfa á þessari öld en óvíst er hvort þetta leiðir til útrýmingar þeirra, eða hvort sniglarnir geti lifað af án skeljarinnar.  Vonir eru bundnar við að skelin sé ekki nauðsynleg fyrir lífslíkur skelmyndandi vængjasnigla enda eru þeir mikilvæg fæða fyrir fiska og hvali í köldum höfum.

    Fyrir utan það að vera mikilvægur hlekkur í fæðukeðjum hafsins þá eru sniglar og samlokur nýttar til manneldis.

    Ostrur og kræklingar eru Íslendingum vafalaust þar ofarlega í huga. Dæmi er um að ostruræktendur á vesturströnd Bandaríkjanna séu byrjaðir að lenda í vandræðum með að rækta ostrur vegna þess hve nýliðun í náttúrulegum stofnum hefur versnað og kemur súrnun sjávar sterklega til greina sem orsakavaldur (sjá grein hér).

    Kræklingur er samloka sem myndar bæði kalkgerðina aragónít og kalsít. Líkt og hjá flestum tegundum þá virðist ungviði kræklingsins vera viðkvæmara fyrir súrnun sjávar heldur en fullorðnir einstaklingar. Gazeau o.fl. (2010) framkvæmdu tilraunir sem sýndu neikvæð áhrif súrnunar sjávar á skelmyndun hjá lirfum og á lífslíkur lirfanna. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að einstaklingar gætu mögulega lifað af súrnun sjávar en að heildarafleiðingar fyrir kræklingastofna verða vafalítið neikvæðar. Erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um hvernig þróun kræklingastofna verður í framtíðinni.

    Aragónít verður undirmettað á 1700 metra dýpi í Íslandshafi (afmarkaða svæðið) og táknar ljós-guli flekkurinn það svæði. Dýpið þar sem aragónít verður undirmettað er að grynnka um 4 metra á ári. Ef sú þróun heldur áfram mun aragónít verða undirmettað á 1300 metra dýpi eftir 100 ár (ljós-appelsínugulur), á 900 metra dýpi eftir 200 ár (dökk-appelsínugulur), og á 500 metra dýpi eftir 300 ár (rauður). Þetta er ekki vísindaleg spá fyrir framtíðana heldur vangaveltur um flatarmál botnsins sem verða umkringdur undirmettuðum sjó þegar aragónít mettunarlagið grynnkar. © Hrönn Egilsdóttir

    Hluti doktorsverkefnis pistlahöfundar felst í rannsóknum á því hvort, og þá hvernig, súrnun sjávar við Ísland gæti breytt dreifingu kalkmyndandi samloka og snigla. Flestar tegundir innan beggja hópa mynda skel úr aragóníti en langtímamælingar á CO2 hafa gefið góðar upplýsingar um súrnun sjávar í Íslandshafi og í Irmingerhafi. Ég mun nýta þær upplýsingar sem til eru um sýrustig og kalkmettun sjávar til þess að kortleggja dreifingu kalkmyndandi samloka og snigla og rannsaka hvort, og þá hvernig, mettun aragóníts takmarkar dreifingu þeirra. Frumniðurstöður úr þessari rannsókn benda til þess að dreifing samloka sem mynda aragónít takmarkist við sjó sem er yfirmettaður af aragónít (ΩARAGÓNÍT > 1). Þessar niðurstöður munu verða skoðaðar í ljósi þess að mettun aragóníts verður minni en 1 á 1700 metra dýpi í Íslandshafi og er þetta mettunarlag (ΩARAGÓNÍT = 1) að grynnka um 4 metra á ári að meðaltali. Þetta jafngildir því að á hverju ári bætast við 800 ferkílómetrar af hafsbotni sem verða baðaðir í sjó sem er undirmettaður af aragónít á ári hverju.

    Skrápdýr (Echinodermata)

    Ígulker, krossfiskar, slöngustjörnur og sæbjúgu teljast öll til skrápdýra en ólíkt kórölum og lindýrum þá mynda skrápdýr ekki kalkgerðina aragónít heldur magnesíum-ríkt kalsít (Mg-kalsít). Afar erfitt er að spá fyrir um áhrif lækkunar kalkmettunar á dýr og plöntur sem mynda Mg-kalsít vegna þess hve erfitt er að reikna mettun þess í sjónum og hlutfall magnesíum í skelinni er breytilegt eftir umhverfisþáttum, t.d. hitastigi.

    Slöngustjarna í Straumsvík

    Þegar litið er yfir birtar tilraunir á skrápdýrum standa tvær niðurstöður upp úr. Í fyrsta lagi virðast tegundir bregðast við súrnun sjávar á mjög ólíkann hátt og getur það einnig átt við mikið skyldar tegundir. Í öðru lagi hafa niðurstöður rannsóknanna ýtt undir fyrri tilgátur um að ungviði dýra sé almennt viðkvæmara en fullorðnir einstaklingar. Báðar þessar staðreyndir virðast einnig eiga við um flesta lífveruhópa en þetta hefur komið best í ljós eftir tilraunir á skrápdýrum.

    Vert er að nefna afar áhugaverðar niðurstöður sem Dupont o.fl. (2008) birtu eftir tilraunir á slöngustjörnunni Ophiothrix fragilis þar sem niðurstöður bentu til þess að súrnun sjávar hefði lítil sem engin áhrif á lífslíkur fullorðinna einstaklinga. Síðar kom í ljós að engin lirfa lifði tilraunina af þegar pH sjávarins var lækkað um 0,2 pH gildi, eins og spáð er að gerist á þessari öld.  Út frá þessum niðurstöðum hafa höfundar rannsóknarinnar ályktað að slöngustjarnan Ophiothrix fragilis gæti dáið út fyrir árið 2050!

    Aðrir kalkmyndandi lífveruhópar

     

    Krabbi situr um snigil

     

    Krabbadýr (krabbar, rækjur, áta o.fl.) mynda einnig kalkstoðgrindur og niðurstöður tilrauna á ýmsum krabbadýrum hafa verið afar áhugaverðar.  Öfugt við flest önnur dýr virðast sum krabbadýr auka kalkmyndun í sjó við lágt sýrustig (pH), en ástæður þess eru illa þekktar.  Ýmislegt bendir þó til þess að sum krabbadýr geti stjórnað sýrustiginu nálægt þeim líkamsvefjum sem skelin er mynduð og hækkað sýrustig og kalkmettun staðbundið.  Óvíst er hvort þessi aukna kalkmyndun hafi í raun neikvæð áhrif til lengri tíma vegna röskunnar á efnaskiptaferlum eða hvort sum krabbadýr muni verða samkeppnishæfari í kjölfar súrnunar sjávar. Í raun hafa of fáar rannsóknir verið gerðar til þess að nokkuð sé hægt að fullyrða um afleiðingar súrnunar sjávar fyrir krabbadýr en ýmislegt bendir til þess að þolmörk þeirra séu betri en spáð hafði verið.

    Bertálkninn Polycera quadrilineata að næra sig á mosadýramottu

    Nýlega er athygli vísindamanna farin að beinast að mosadýrum (Bryozoa) sem eru smá dýr sem mynda oft sambýli af einstaklingum og eru þá með sameiginlega stoðgrind, oft úr kalki. Raunverulega er ekkert vitað um áhrif súrnunar sjávar á mosadýr en þó veit undirrituð til þess að rannsóknir á þeim séu hafnar. Dæmi um lífveruhóp sem lifir á mosadýrum eru bertálknar (Nudibranch) sem eru sniglar án skeljar og finnast oft í skrautlegum litum.

    Botnlægir rauðþörungar og sviflægir kalkþörungar eru stærstu hópar kalkmyndandi þörunga. Kalkmyndandi rauðþörungar mynda Mg-ríkt kalsít og eru hægvaxta og falla því í áhættuhóp vegna súrnunar sjávar. Rauðþörungar eru nýttir af kalkþörungaverksmiðjum og t.d. nýtir fyrirtækið Hafkalk rauðþörunga m.a. til manneldis. Sumir rauðþörungar á Íslandi mynda búsvæði fyrir aðrar lífverur líkt og kóralar gera í hitabeltinu.  Í náinni framtíð er áætlað að rannsaka með tilraunum hvernig súrnun sjávar mun snerta íslenska rauðþörunga.

    Sviflægir kalkþörungar geta framleitt gríðarlega mikið magn kalks og sjást vel á gervihnattamyndum þegar mikill þéttleiki þeirra er í hafinu. Rannsóknir á kalkþörungnum Emiliana huxleyi, sem sést á gervihnattamyndinni, eru nokkrar en hafa gefið afar breytilegar niðurstöður og því er enn ómögulegt að spá fyrir um þol þörungsins gagnvart súrnun sjávar (Kroeker o.fl. 2010).

    Kalkþörungurinn Emiliana huxleyi í blóma við Ísland. Mynd er tekin af gervitungli NASA (http://visibleearth.nasa.gov/)

    Áhrif súrnunar sjávar á önnur ferli en kalkmyndun

    Súrnun sjávar mun hafa mest áhrif á kalkmyndandi lífverur en áhrifin verða vafalaust víðtækari en svo, auk augljósra áhrifa af breytingum á fæðukeðjum í hafinu.

    Sýrustig getur haft bein áhrif á ensím- og prótínvirkni og þannig efnaskipti. Sem dæmi á sér stað nákvæm stjórnun á sýrustigi blóðsins hjá mönnum en í heilbrigðum einstakling er pH gildi blóðsins á milli 7,35 og 7,45. Frávik frá þessu sýrustigi getur leitt til alvarlegra truflana á efnaskiptum í frumum líkamans og jafnvel dauða.

    Áhrif sýrustigsbreytinga á lífeðlisfræðileg ferli í sjávarlífverum eru illa þekkt enda oftast erfitt að rannsaka svo flókin ferli í smáum lífverum. Í ljósi þess að sýrustig sjávar hefur haldist stöðugt yfir milljónir ára hafa verið settar fram spurningar um hæfni lífveranna til að stjórna sýrustigi í líkamanum þar sem ensímvirkni er til staðar. Þetta getur átt við blóðvökva eða t.d. innviði frumu þar sem genastjórnun á sér stað. Fiskar hafa betri stjórnun á sýrustigi líkamans heldur en flestir hryggleysingjar en tilraunir benda til þess súrnun sjávar gæti samt sem áður raskað lífeðlisfræðilegum ferlum í fiskum. Enn ríkir mikil óvissa um hvort slík áhrif yrðu langvinn eða hvort fiskar, og hryggleysingjar hafi næga aðlögunarhæfni svo ekki verði truflun á líkamsstarfsemi þegar til langs tíma litið.

    Dæmi um það hvernig eðlileg líkamsstarfsemi getur verið raskað vegna súrnun sjávar eru neikvæð áhrif sýrustigsbreytinga á lyktarfæri fiska (Munday o.fl. 2009) en hæfni til þess að finna lykt sem er mikilvægur eiginleiki hjá mörgum fiskum og má þar t.d. nefna laxfiska sem þefa upp heimaárnar þegar komið er að hrygningu.

    Hugsanlegt er að dýr sem nýta sér hljóð, t.d. til veiða eða samskipta, geti orðið fyrir áhrifum af sýrustigsbreytingum. Þegar sjórinn súrnar eykst hljóðbærni hans einnig, en það á sérstaklega við um lágtíðnihljóð, allt að 5000 hertz (Hester o.fl. 2008). Þannig er talið að „hávaðinn“ í hafinu muni aukast við súrnun sjávar en ekkert er vitað um hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir t.d. sjávarspendýr.

     

    Að lokum

    Nýlega voru gefnar út tvær athyglisverðar greinar þar sem birtar niðurstöður úr tilraunum eru teknar saman og reynt að draga upp heildarmynd af því hver áhrif súrnunar sjávar gæti orðið á lífveruhópa og samfélög. Helstu niðurstöður beggja greina er að áhrifin verði afar breytileg á milli tegunda og tegundahópa.

    Kroeker o.fl. (2010) benda á að áhrifin verða líklega breytileg en það bendir flest til þess að kalkmyndandi lífverur séu viðkvæmari fyrir súrnun sjávar heldur en þau dýr eða plöntur sem ekki mynda kalk.

    Hendriks o.fl. (2009) vilja meina að áhrifin af súrnun sjávar verði ekki eins alvarleg og búist er við en líkt og í greininni eftir Kroeker o.fl. er bent á þann mikla breytileika sem finna má í viðbrögðum lífvera við sýrustigsbreytingum í sjó. Það má segja að ein stærsta niðurstaða beggja þessara rannsókna sé að þekking okkar er enn mjög takmörkuð og því enn illmögulegt að koma fram með raunhæfa spá um það hvernig súrnun sjávar mun hafa áhrif á lífríki hafsins á Jörðinni

    Rannsóknir á áhrifum súrnunar sjávar á lífríki hafsins eru enn á byrjunarstigi og er vísindasamfélagið því enn langt frá því að geta sagt með vissu hverjar afleiðinganar verða. Þó benda rannsóknir til þess að áhrifin gætu orðið mjög alvarleg fyrir lífríki og þ.á.m. mannkyn, sérstaklega ef jarðsagan er höfð til hliðsjónar. Því miður hljóma enn margar efasemdaraddir um tilvist loftlagsbreytinga vegna útblásturs manna á CO2, og á það sérstaklega við hina margumræddu hnattrænu hlýnun. Það er staðreynd að margir þættir, auk styrkleika CO2, stjórna hitastigi í lofthjúpi jarðar en þegar kemur að súrnun sjávar þá er CO2 óumdeilanlega helsti áhrifaþátturinn. Þess vegna er talsvert erfitt að hrekja þá staðreynd að útblástur mannkyns á CO2 sé að valda súrnun hafanna. Þrátt fyrir að skilningur okkar á því hverjar afleiðingar af súrnun sjávar verða sé enn takmarkaður, hringja háværar viðvörunarbjöllur og nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið taki fastari tökum á útblæstri CO2 augljós.

    Hér í blálokin vil ég benda á heimildamyndina Acid Test sem fjallar á aðgengilegann hátt um súrnun sjávar:

    Acid Test: The Global Challange of Ocean Acidification

    Heimildaskrá

    Cao L, Caldeira K (2008) Atmospheric CO2 stabilization and ocean acidification. Geophys. Res. Lett. 35: L19609

    De’ath G, Lough JM, Fabricius KE (2009) Declining Coral Calcification on the Great Barrier Reef. Science 323: 116-119

    Dupont S, Havenhand J, Thorndyke W, Peck L, Thorndyke M (2008) Near-future level of CO2-driven ocean acidification radically affects larval survival and development in the brittlestar Ophiothrix fragilis. Marine Ecology Progress Series 373: 285-294

    Feely RA, Doney SC, Cooley SR (2009) Ocean Acidification: Present Conditions and Future Changes in a High-CO2 World. Oceanography 22: 36-47

    Feely RA, Sabine CL, Lee K, Berelson W, Kleypas J, Fabry VJ, Millero FJ (2004) Impact of Anthropogenic CO2 on the CaCO3 System in the Oceans. Science 305: 362-366

    Gazeau F, Gattuso JP, Dawber C, Pronker AE, Peene F, Peene J, Heip CHR, Middelburg JJ (2010) Effect of ocean acidification on the early life stages of the blue mussel (Mytilus edulis). Biogeosciences Discuss. 7: 2927-2947

    Hester KC, Peltzer ET, Kirkwood WJ, Brewer PG (2008) Unanticipated consequences of ocean acidification: A noisier ocean at lower pH. Geophys. Res. Lett. 35: L19601

    Kiessling W, Simpson C (2011) On the potential for ocean acidification to be a general cause of ancient reef crises. Global Change Biology 17: 56-67

    Kroeker KJ, Kordas RL, Crim RN, Singh GG (2010) Meta-analysis reveals negative yet variable effects of ocean acidification on marine organisms. Ecology Letters 13: 1419-1434

    Munday PL, Dixson DL, Donelson JM, Jones GP, Pratchett MS, Devitsina GV, Døving KB (2009) Ocean acidification impairs olfactory discrimination and homing ability of a marine fish. Proceedings of the National Academy of Sciences 106: 1848-1852

    Olafsson J, Olafsdottir SR, Benoit-Cattin A, Danielsen M, Arnarson TS, Takahashi T (2009) Rate of Iceland Sea acidification from time series measurements. Biogeosciences 6: 2661-2668

    Pearson PN, Palmer MR (2000) Atmospheric carbon dioxide concentrations over the past 60 million years. Nature 406: 695-699

    Ridgwell A, Zeebe RE (2005) The role of the global carbonate cycle in the regulation and evolution of the Earth system. Earth and Planetary Science Letters 234: 299-315

    Turley C, Blackford JC, Widdicombe S, Lowe D, Nightingale PD, Rees AP (2006) Reviewing the impact of incrased atmospheric CO2 on oceanic pH and the marine ecosystem. In: Schellnhuber HJ, Cramer W, Nakicenovic N, Wigley TML, Yohe G (eds) Avoiding dangerous climate change. Cambridge University Press, Cambridge, pp 65-70

     

  • Súrnun sjávar og lífríki hafsins I

    Súrnun sjávar og lífríki hafsins I

    Hröð aukning CO2 og aukin súrnun sjávar

    Frá því iðnvæðing vesturlanda hófst fyrir 250 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar  á magni koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti jarðarinnar.  Eftir því sem iðnvæðingin hefur orðið hraðari og útbreiddari hefur þetta magn aukist hraðar.  Ein afleiðing þessara breytinga er súrnun sjávar sem er ekki síður alvarleg þróun en hlýnun jarðar.

    Fyrir iðnvæðingu var hlutþrýstingur CO2 í andrúmsloftinu 280 ppm og nú, 250 árum síðar, er hann orðinn 391 ppm og gæti náð yfir 700 ppm fyrir næstu aldamót (ppm = part per million).  Loftslagsbreytingar væru vafalítið fyrirfinnanlegri í dag ef ekki væri fyrir upptöku sjávar og grænna landssvæða á helmingi þess koltvíoxíðs sem menn hafa blásið út í andrúmsloftið frá iðnvæðingu.  Af þessum helmingi hefur sjórinn tekið til sín um 30% og græn landsvæði um 20% (Feely o.fl. 2004).

    Vegna upptöku á CO2 hefur sýrustig sjávarins þegar fallið um 0,1 pH gildi (30% aukning á H+) frá iðnvæðingu og gæti fallið um 0,3-0,4 pH gildi fyrir árið 2100 (~150% aukning á H+).  Sýrustig er mælt á pH skala sem er byggður á neikvæðu veldisfalli á styrk vetnisjóna (H+) en sýrustig lækkar eftir því sem styrkur vetnisjóna vex. Þetta þýðir að fyrir hverja heila tölu sem sýrustig (pH) fellur, þá súrnar sjórinn tífalt..

    Hvaða sögu segir jarðsagan?

    Lífverur sjávar eru margskonar, allt frá örsmáum bakteríum til stærstu spendýra og er umhverfi þeirra að breytast hratt vegna útblásturs mannkyns á CO2. Kalkmyndandi lífverum stafar sérstaklega mikil hætta af aukningu á CO2 þar sem súrnun sjávar leiðir til minni kalkmettunar í sjónum. Til þess að skilja hvernig lífríkið mun bregðast við súrnun sjávar nútímans og framtíðar er óvitlaust að horfa til jarðsögunnar, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem aukning á CO2 verður í andrúmslofti jarðar.

    Hér er farið yfir atburði í jarðsögunni og tengsl þeirra við ástand kóralrifja og líkur á því að súrnun sjávar hafi átt sér stað.

    Fyrir 250 milljónum ára varð einn stærsti útdauði lífvera í jarðsögunni þegar ~95% lífvera í hafinu dóu út. Þá jókst styrkur CO2 í andrúmsloftinu mikið og olli miklum loftslags- og sýrustigsbreytingum í sjónum (sjá pistilinn: Útdauðinn fyrir 250 milljónum ára). Ljóst er að miklar breytingar urðu á lífríki bæði á landi og í hafi en sá langi tími sem liðinn er frá þessum atburði gerir rannsóknir á honum erfiðar. Auk þess jókst CO2 í andrúmsloftinu þá vegna mikillar eldvirkni og ólíklegt að jarðefnaeldsneyti jarðar gæti gefið af sér jafnmikið magn CO2 og þá var blásið út í andrúmsloftið. Betra er að líta okkur nær í tíma ef ætlunin er að bera saman forsögulegann atburð við nútímann.

    Borkjarni úr seti frá 55 milljón árum síðan. Kalkmynandi lífverur hverfa snögglega úr setinu sem myndaðist fyrir 55 milljónum árum en eftir stendur rauður leir.

    Krítartímabilið fyrir 145-65 milljón árum síðan var áhugavert tímabil í jarðsögunni. Þá átti sér stað hæg aukning á CO2 í andrúmslofti jarðar og fór hlutþrýstingur CO2 yfir 1000 ppm (part per million).  Þrátt fyrir þennan háa hlutþrýsting CO2 var mikið um kalkmyndandi lífverur í hafinu á þessum tíma en þegar sjór súrnar þá eiga kalkframleiðendur venjulega erfiðara með að mynda kalkskeljar. Kalkmyndandi lífverur lifðu reyndar svo góðu lífi að hinir hvítu klettar í Dover í Englandi mynduðust á þessum tíma þegar skeljar örsmárra kalkþörunga féllu til botns og mynduðu setlög (sjá gervihnattamynd af Íslandi neðarlega í pistli). Þetta útskýrist af því að aukningin á CO2 í andrúmsloftinu varð yfir gríðarlega langan tíma; milljónir ára og vegna hlýrra andrúmslofts og aukinnar úrkomu var framburður áa á efnum til sjávar mikill, sem olli því að kalkmettun sjávar hélst há, þrátt fyrir súrnun sjávarins (Ridgwell & Zeebe, 2005).

    Fyrir 55 milljónum ára, urðu miklar og snöggar breytingar á loftslagi jarðar en þá hlýnaði mikið og sýrustig (pH) sjávarins lækkaði vegna losunnar á CO2. Setkjarnar frá þessum tíma sýna snögga breytingu frá hvítu og kalkmiklu seti, yfir í rauðan leir, sem bendir til þess að kalkframleiðendur hafi nánast horfið úr sjónum. Þetta er sá atburður sem helst er litið til ef bera á saman þróun dagsins í dag við forsögulega atburði en hafa ber í huga að aukning á CO2 í andrúmsloftinu er líklega 10 sinnum hraðari í dag en fyrir 55 milljónum ára. Nánar er fjallað um þessar náttúruhamfarir í pistlinum Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára.

    Ekki er hægt að segja annað en að vísbendingar jarðsögunnar undirstriki með afgerandi hætti hversu alvarleg áhrif loftslagsbreytingar og súrnun sjávar geta haft og þar af leiðandi hve brýn nauðsyn er til þess að minnka losun á koltvíoxíði verulega nú þegar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að engin fordæmi eru í jarðsögunni fyrir hraðari aukningu á CO2 í andrúmsloftinu en nú á sér stað.

    Síðustu 20 milljón ár einkennast af stöðugleika

    Hugsanlega gætu sumar þeirra tegunda sem eru viðkvæmar fyrir súrnun sjávar aðlagast þeim breytingum sem eru að verða í umhverfi þeirra en aðlögunarhæfni lífvera er almennt illa þekkt og því erfitt að spá þar um. Því miður draga tvær staðreyndir úr líkum á því að lífverur eigi eftir að eiga auðvelt með að aðlagast súrara umhverfi.

    Sýrustig sjávar (pH) hefur verið stöðugt í yfir 20 milljón ár en með útblæstri á CO2 er mannkynið að valda hraðri súrnun sjávar. Nú þegar hefur sýrustig sjávarins fallið um 0.1 pH gildi og er spáð því að pH sjávarins falli um 0.3-0.4 pH gildi fyrir næstu aldamót. (Mynd: Turley o.fl. 2006)

    Hlutþrýstingur CO2 í andrúmsloftinu, og sýrustig sjávar (pH) verið stöðugt í yfir 20 milljón ár (Pierson & Palmer, 2000) og hafa ber í huga að núlifandi lífverur jarðar þróuðust á þessu tímabili stöðugleika. Þetta skapar óvissu um hvort nægur breytileiki eða sveigjanleiki sé í erfðamengi lífveranna til þess að takast á við verðandi breytingar. Að auki er sjórinn að súrna hratt og gefst því lítill tími til aðlögunar. Þær lífverur sem hafa stuttan líftíma, þ.e. kynslóðir endurnýjast hratt, eru líklegri til að geta aðlagast heldur en lífverur sem lifa lengi, t.d. 40 ár.

    Súrnun sjávar og lífríkið

    Súrnun sjávar getur haft áhrif á ýmis lífeðlisfræðileg ferli í lífverum en dýr og þörungar sem mynda kalk eru í mestri hættu vegna þess hve kalkmettun sjávar (ΩCaCO3) er nátengd sýrustigi sjávar. Mikill fjöldi tegunda í hafinu myndar kalk og koma kalkframleiðandi lífverur við sögu í flestum fæðukeðjum ásamt því að byggja upp búsvæði fyrir fjölda annara lífvera og má þar helst nefna kóralrif og rauðþörungabreiður.

    Kalkmyndandi lífríki er í mestri hættu

    Kalkmyndandi lífverur eiga auðvelt með að mynda og viðhalda kalkskeljum þegar kalk er yfirmettað í umhverfi þeirra  (ΩCaCO3>1). Ef kalkmettun sjávarins er of lítil verður kalkmyndunarferlið erfiðara en breytilegt er á milli tegunda við hvaða mettunarstig þær takmarka kalkframleiðslu sína.  Í sjó sem er undirmettaður af kalki (ΩCaCO3<1) byrjar kalk að leysast upp undir eðlilegum kringumstæðum. Til samanburðar má benda á að háa tíðni tannskemmda hjá fólki sem neytir mikið af drykkjum með lágt sýrustig (pH), s.s. kóki eða appelsínusafa.

    Dýpi hefur neikvæð áhrif á kalkmettun og á ákveðnu dýpi (Ωkalk=1) hættir sjórinn að vera yfirmettaður af kalki (Ωkalk>1) og verður undirmettaður af kalki (Ωkalk<1), þ.e.a.s. Þá ætti kalkið að leysast upp fyrir neðan þetta dýpi (blátt svæði). Hér er sýnd mettun kalkgerðarinnar aragóníts í Atlantshafi og Kyrrahafi. Þegar sjórinn súrnar mun dýpið þar sem kalk verður undirmettað grynnka. (Mynd er úr skýrslunni, IPCC fourth assessment report: climate change 2007, sem finna má á vefslóðinni: http://www.ipcc.ch/)

    Auk koltvíoxíðs (CO2) hafa hitastig og dýpi (þrýstingur) áhrif á kalkmettun sjávar. Leysni kalks vex með lækkandi hitastigi og því er kalkmettun í hafinu norður af Íslandi talsvert minni en við t.d. miðbaug. Í ofanálag minnkar kalkmettun með dýpi og á ákveðnu dýpi færist kalk úr því að vera yfirmettað yfir í að vera undirmettað. Þetta dýpi er breytilegt og stjórnast helst af hitastigi, sýrustigi og eftir því hvaða kalkgerð á í hlut. Nú þegar hefur súrnunin valdið því að kalk er að verða undirmettað á minna dýpi en áður og með sömu þróun verður yfirborðsjór kaldra hafsvæða undirmettaður m.t.t. ákveðinna kalkgerða eftir fáa áratugi.

    Kalkmettun á köldum hafssvæðum er minni en á hlýjum hafssvæðum. Mettun kalkgerðarinnar aragónít er lág og ef spár ganga eftir mun aragónít verða undirmettað á köldum hafsvæðum eftir fáa áratugi.

    Ein bestu langtímagögn sem sýna grynnkun á mettunarlagi kalks koma frá Íslandi en CO2 hefur verið mælt í yfirborðssjó við Ísland frá árinu 1985 og úr vatnssúlunni á tveim stöðum við Ísland frá árinu 1994 (Ólafsson o.fl. 2009).  Á þessum gögnum má greinilega sjá hvernig kalk er að verða undirmettað á minna dýpi með tíma. Í Íslandshafi eru breytingarnar hraðar en kalkgerðin aragónít er undirmettuð undir 1700 metra dýpi og er þetta mettunarlag að grynnka um fjóra metra á ári, að meðaltali.

    Nú er í gangi vinna við að meta hver áhrif þessara breytinga í Íslandshafi gætu orðið fyrir þær lífverur sem mynda kalkgerðina aragónít en margar samlokur og sniglar eru dæmi um slíkar lífverur.  Þörf er á að útskýra betur muninn á milli þeirra kalkgerða sem lífverur mynda, og hvernig kalkgerðir geta skipt máli fyrir lífvænleika lífvera í súrnandi sjó.

    Kalkmyndandi lífverur og súrnun sjávar

    Kalkgerðin skiptir máli

    Kalkmyndandi lífverur mynda aðallega tvær kristalgerðir kalks (CaCO3), kalsít og aragónít, sem hafa ólíka eðliseiginleika. Aragónít er uppleysanlegra en kalsít og því er mettun kalsíts ávalt hærri en aragóníts í sjónum. Auk kalsíts og aragóníts er stundum rætt um magnesíum-ríkt kalsít sem þriðju kalkgerðina sem lífverur mynda, þá er hátt hlutfall af magnesíum á móti kalsíum (MgCO3/CaCO3) í kalsít kristalgerðinni. Á svipaðan hátt og aragónít, er magnesíumríkt kalsít (Mg-kalsít) uppleysanlegra en kalsít. Þetta leiðir af sér að þegar sýrustig (pH) sjávarins lækkar verður hann undirmettaður m.t.t. aragóníts og Mg-kalsíts nokkru áður en hann verður undirmettaður m.t.t. kalsíts.  Þess vegna eru þær lífverur sem mynda aragónít (t.d. lindýr og kóralar) og Mg-kalsít (t.d. skrápdýr og rauðþörungar) taldar viðkvæmari fyrir súrnun sjávar heldur en lífverur sem mynda kalsít. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvaða kalktegundir helstu lífveruhópar mynda. Þær lífverur sem eru taldar í mestri áhættu vegna súrnun sjávar eru merktar með gulum lit.

    Kóralar (Anthozoa)

     

    Kóralrif eru ekki einungis ein fallegustu svæði á jörðinni heldur einnig þau mikilvægustu fyrir verndun líffræðilegs fjölbreytileika í hafinu.  Til dagsins í dag hafa kóralar verið sá lífveruhópur sem hefur verið mest rannsakaður m.t.t. súrnunar sjávar enda eru á margan hátt mikilvægir og mynda kristalgerðina aragónít. Þar sem stór kóralrif eru til staðar er aragónít mjög yfirmettað (ΩARAGÓNÍT = 3-5) og sjórinn er hlýr, en við skoðun hefur komið í ljós að hlýsjávarkóralrif finnast sjaldan þar sem mettun aragóníts er lægri en þrír (ΩARAGÓNÍT < 3). Ef útblástursspár á CO2 ganga eftir mun mettun aragóníts í hafinu verða að mestu undir þremur í byrjun næstu aldar (ΩARAGÓNÍT < 3) (Cao & Caldeira o.fl. 2008). Illmögulegt er að spá fyrir um afleiðingar þessara gríðarlegu umhverfisbreytinga en ekki er erfitt að átta sig á alvarleika málsins.

    Hlutþrýstingur CO2 hefur þegar hækkað úr 280 ppm fyrir iðnvæðingu í 380 ppm í andrúmslofti og mun líklega ná 550-750 ppm á þessari öld. Mettun aragóníts hefur þegar lækkað frá iðnvæðngu og mun lækka enn frekar á þessari öld. Hlýsjávarkórala er helst að finna þar sem aragónítmettun er hærri en þrír. (Cho & Caldeira, 2008).

    Mælingar hafa sýnt fram á að kalkmyndun kórala á The Great Barrier Reef hefur minnkað um 14% frá árinu 1990 (De’ath o.fl. 2009) sem skýrist líklega af samverkandi áhrifum súrnunar sjávar og hlýnunar. Silverman og fl. (2009) benda á að hlýsjávarkóralrif gætu hætt að vaxa, og jafnvel byrjað að leysast upp þegar hlutþrýstingur CO2 í andrúmslofti nær 560 ppm en ágætis líkur eru á að það muni eiga sér stað á þessari öld.

    Frá rannsóknarleiðangri á Bjarna Sæmunssyni, sumar 2010, þegar íslensk kóralrif voru mynduð og umhverfi þeirra mælt

    Kóralar finnast einnig á kaldari hafsvæðum og lifa þá ekki í sambýli við ljóstillífandi þörunga og geta því þrifist á mun meira dýpi en hlýsjávarkóralar, enda eru þeir ýmist nefndir kaldsjávarkóralar eða djúpsjávarkóralar. Kaldsjávarkóralrif er m.a. að finna á landgrunnsbrúninni suður af Íslandi og við Noregsstrendur. Því miður eru mörg þessara kóralsvæða ekki svipur hjá sjón í dag vegna margra áratuga togveiða, en þau eru vistfræðilega mikilvæg sem uppeldissvæði fyrir nytjafiska og hýsa mikinn fjölbreytileika lífvera.  Kaldsjávarkóröllum stafar mikil hætta af súrnun sjávar vegna þess að þeir finnast í köldum sjó og á miklu dýpi, en eins og áður sagði minnkar kalkmettun með lækkandi hitastigi og auknu dýpi.  Á ákveðnu dýpi byrjar aragónít að leysast upp, eða þegar mettun þess er undir 1 (ΩARAGÓNÍT<1) og er sá þröskuldur þar sem ΩARAGÓNÍT=1 að grynnka.  Það er talið líklegt að þessi þróun muni valda útdauða kórala úr dýpstu lögunum fyrst en þegar fram líða stundir er talið að djúpsjávarkóralar geti horfið alfarið af ákveðnum hafssvæðum.

    Íslenskir kóralar eru á norðurmörkum dreifingar kaldsjávarkóralrifja, enda finnast engin kaldsjávarkóralrif norður af Íslandi þar sem sjórinn er umtalsvert kaldari en sunnan við landið. Sumarið 2010 fór pistlahöfundur í leiðangur á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni ásamt botndýrateymi Hafrannsóknarstofnunnar og var takmarkið að skoða þekkt íslensk kóralsvæði og að reyna að finna áður óþekkt kóralrif.  Til þess var notuð neðansjávarmyndavél en auk þess voru tekin sýni af sjó á mismunandi dýpi til þess að mæla CO2 í sjónum og fræðast um núverandi mettun aragóníts í umhverfi kóralanna. Enn er verið að vinna úr þeim gögnum sem þá fengust en ljóst er að mettun aragóníts umhverfis kóralana var lág (ΩARAGÓNÍT ≤ 2), en þegar aragónít er undir einum byrjar það að leysast upp. Vegna þeirra langtímamælinga á CO2 sem farið hafa fram við Ísland vitum við að kalkmettun í hafinu hér við land fer minnkandi og því er framtíð íslenskra kóralrifja í óvissu vegna súrnunar sjávar.

    Framhald af þessum pistli má sjá hér: Súrnun sjávar og lífríki hafsins II

  • Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Þessi pistill, eftir Mikael Lind, birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. desember.

    Mikael Lind

    Sendimenn frá fleiri en 190 löndum hafa komið saman í Cancun í Mexíkó til að ræða leiðir til að draga úr áhrifum frá hlýnun jarðar og er góð ástæða til. Árið 2010 er hið heitasta á plánetu okkar síðan mælingar hófust og í fréttunum getum við fylgst með afleiðingunum; skógareldar í Rússlandi sem kæfa íbúa Moskvu og flóð í Pakistan sem setja einn fjórða af landinu í kaf.

    Eins og blaðamaðurinn Johann Hari á The Independent bendir á þá er meiri ástæða að hræðast náttúruhamfarir en þær hagfræðihamfarir sem tröllriðið hafa heiminum undanfarið því það er tvennt ólíkt að bjarga bönkunum frá gjaldþroti og að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.

    Virtustu loftslagssérfræðingar heims hafa bent á að vatnsyfirborð jarðar gæti hækkað um u.þ.b. einn til einn og hálfan metra á þessari öld. Ef þessar spár reynast réttar mundi hafið kaffæra London, Bangkok, Feneyjar, Sjanghæ og Kairó. Rannsókn á plöntusvifum sýndi nýlega fram á að 40% þeirra hafa drepist síðan 1950 vegna hlýnunar hafsins. Þessi svif framleiða helminginn af súrefni jarðar og drekka í sig koltvísýringa sem hafa annars hlýnandi áhrif á jörðina.

    Eins og Noam Chomsky benti á í myndfyrirlestri sínum í Háskólabíói fyrir stuttu er það þannig að þrátt fyrir framsetningu margra fjölmiðla er meginmál umræðunnar um hlýnun jarðar varla eitthvert rifrildi á milli þeirra fræðimanna sem trúa að útblástur gróðurhúsagasa hafi hlýnandi áhrif á jörðina og þeirra sem trúa því ekki. Mjög fáir vísindamenn afneita að hlýnun jarðar er af manna völdum og sums staðar virðist lobbýismi olíufyrirtækja vera partur af spilinu hjá þeim sem þverneita að viðurkenna vandann. Alvöru umræðan í vísindaheiminum á sér stað á milli loftslagsfræðimanna um hversu slæmar afleiðingarnar verða. Það að það verði afleiðingar er þegar álitið sem staðreynd.

    Þrátt fyrir að vera lítið land ber Ísland ábyrgð ásamt öllum öðrum löndum í heiminum. Það er stundum talað um þá sem vilja lifa “grænum lífsstíl” og þá sem vilja það ekki. En ég tel það líklegt að ef ástandið fari að versna samkvæmt spám fræðimanna þá mun varla vera um frjálst val að ræða miklu lengur. Er ekki það að passa vel upp á umhverfið frekar skylda gagnvart heiminum og sérstaklega börnum okkar sem erfa hann? Þynnkuna eftir náttúruhamfarir sem rekja má til kæruleysis í loftslagsmálum verður mun erfiðara að koma lagi á en bankakreppuna vegna kæruleysis stjórnmálamanna.

    Það er margt sem mátti betur fara á Íslandi og til að verða fyrirmyndarland verður að stefna hærra og ekki slaka á markmiðinu. Þar sem Ísland er mikil bílaþjóð verður að vera auðveldara fyrir Íslendinga að keyra á grænu eldsneyti eða rafmagni. Það verður einnig að auðvelda aðgengi fjölgandi hóps hjólafólks með því að byggja fleiri hjólabrautir. Í Reykjavík og stærri borgum vil ég sjá fleiri vistgötur og það þarf að hvetja fólk til þess að nota bílinn sjaldnar í miðborginni. (Strikið í Kaupmannahöfn er vel heppnuð göngugata; getum við ekki reynt að fylgja þessu dæmi eftir?) Æskilegt væri að framleiða eins mikið hér á landi og hægt er til að koma í veg fyrir mengandi innflutning. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum í þróun græns hagkerfis.

    Ef horft er til framtíðar verður að skoða möguleika eins og að byggja lest frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þannig mætti draga verulega úr mengun og einnig einfalda fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn að ferðast á milli þessara staða á þægilegan hátt. Þetta og annað hefur verið rætt og tek ég því fagnandi, sem og frumlegum hugmyndum um notkun jarðvarma í stór gróðurhús varpað fram af Björk Guðmundsdóttur, John Perkins og fleiri. Þessi umræða verður að halda áfram og breiða úr sér. Setjum Ísland í fremstu röð grænna samfélaga!

  • Fjórar gráður

    Fjórar gráður

    Vísindamenn bresku Veðurstofunnar (UK Met office) hafa áður sýnt fram á möguleika þess að Jörðin geti hitnað um yfir 4°C á seinni hluta þessarar aldar, ef ekki verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nú er nýútgefið  hefti Konunglegu Vísindaakademíunnar (A Philosophical Transactions of the Royal Society) þar sem birtar eru ítarlegar rannóknir á því hvernig búast má við að loftslag Jarðar verði við 4°C hækkun hitastigs og afleiðingar þess.

    Meðal þess sem kemur fram í heftinu er hvernig Amazon frumskógurinn mun verða fyrir töluverðum skakkaföllum, auk þess sem monsún hringrásin mun breytast og að hluta til bregðast. Aðalvandamál Jarðar sem er 4°C heitari en fyrir iðnbyltinguna, er samt skortur á vatni. Með því að draga úr losun CO2  þannig að hitastig hækki ekki upp fyrir 2°C þá mun fjölgun mannkyns hafa mest áhrif á vatnsauðlindir Jarðar, en við 4°C hækkun þá munu þurrkar hafa lang mest áhrif á aðgengi fólks að vatni.

    Annað sem kemur fram í hefti Vísindaakademíunnar er að frjósemi svæðisins sunnan við Sahara í Afríku mun rýrna og fyrir vikið er búist við að maís framleiðsla á því svæði muni minnka um 19 % og framleiðsla bauna minnka um 47 % miðað við núverandi ástand. Þá er búist við að öfgaveður, sjávarstöðuhækkun og vatnsskortur muni valda miklum fólksflutningum og flótta.

    Heimildir og ítarefni

    Þemahefti Konunglegu Vísindaakademíunnar má finna hér: Theme Issue ‘Four degrees and beyond: the potential for a global temperature increase of four degrees and its implications’ compiled and edited by Mark G. New, Diana M. Liverman, Richard A. Betts, Kevin L. Anderson and Chris C. West

    Stutt umfjöllun NewScientist um heftið má lesa hér: Royal Society paints picture of a world 4 °C warmer

    Tengt efni á loftslag.is

  • Samkeppnishæfni og orkunýting

    Samkeppnishæfni og orkunýting

    Athyglisvert myndband, þar sem Steven Chu, sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun í eðlisfræði og er núverandi orkumálaráðherra Bandaríkjanna , fjallar um dalandi samkeppnishæfni Bandaríkjanna á sviði nýrrar tækni, þar á meðal í tækni sem mun knýja iðnframleiðsluna inn í nýja öld, þ.m.t. tækni sem stuðlar að betri orkunýtingu og sjáflbæri orkunýtingu sem ekki losar mikið af koldíoxíði.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Styrkur í stormum framtíðar

    Styrkur í stormum framtíðar

    Veðrakerfi á Suðurhveli og Norðurhveli Jarðar eru talin muna bregðast mismunandi við hinni hnattrænu hlýnun, samkvæmt nýrri rannsókn. Þar kemur fram að hlýnun Jarðar muni hafa áhrif á tiltæka orku sem knýr áfram lægðagang og veðrakerfi á tempruðu beltum Jarðar og að breytingin verði mismunandi eftir hvort um Suðurhvel eða Norðurhvel Jarðar verður um að ræða, sem og verður breytileiki eftir árstíma.

    Greind voru tengsl milli styrk storma og þess magns orku sem til staðar er til að keyra lægðagang. Eftir greiningu gagna um vindakerfi Jarðar milli áranna 1981 og 2000 var ljóst að orkan dreifðist mismunandi eftir árstíma, orkan jókst á veturna samfara auknum lægðagangi. Vegna þessara tengsla þá er talið að orkuframboð sé mikilvægt til að tengja saman hitastig og stormabreytingar í hermunum á loftslagi þessarar aldar.

    Samkvæmt rannsókninni þá má búast við verri stormum á Suðurhveli Jarðar allt árið, meðan á Norðuhveli Jarðar þá fer það meira eftir árstíma, þ.e. verri stormar á veturna en kraftminni stormar yfir sumartíman. Þessi munur stafar af því að þótt lofthjúpurinn verði heitari og rakari vegna hlýnunar jarðar, þá mun sú umframorka ekki að fullu ná að keyra áfram lægðaganginn að sumri á Norðurhveli.

    Færri lægðir yfir sumartímann á Norðurhveli geta orðið til þess að auka loftmengun, þar sem loftflæði minnkar. Á sama tíma mun meiri lægðagangur á Suðurhveli auka storma yfir Suður-Íshafið – sem getur haft áhrif á sjávarstrauma – og þar með haft aukin áhrif á loftslag jarðar.

    Þótt þessi greining virðist benda til þess að í heildina verði veikari stormar á Norðurhveli Jarðar yfir vetrartíman, þá er erfitt að áætla hversu mikið þeir veikjast. Það fer eftir því hvernig sambandið milli lofthjúpsins og sjávar mun breytast og þá skiptir miklu máli hversu hratt hafís Norðurskautsins hverfur. Hingað til hefur verið erfitt að henda reiður á hversu hratt það muni gerast.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin er eftir O’Gorman, 2010 (ágrip): Understanding the varied response of the extratropical storm tracks to climate change

    Umfjöllun um greinina á sciencedaily má lesa hér: Global Warming to Bring More Intense Storms to Northern Hemisphere in Winter and Southern Hemisphere Year Round

    Tengt efni á loftslag.is

  • Að fanga hita sólar

    Að fanga hita sólar

    MIT hefur tilkynnt að þeir hafi náð tímamótaskrefi sem gæti verið byrjunin að næstu kynslóð þess að fanga orku sólar. Í myndbandinu hér undir útskýrir prófessor Jeffrey Grossman hvernig efnið sem um ræðir getur fangað og sleppt orku sólar í formi hita.

    Ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Fyrirlestrar Kunda Dixit – Loftslagsbreytingar og bráðnun jökla Himalæjafjalla

    Fyrirlestrar Kunda Dixit – Loftslagsbreytingar og bráðnun jökla Himalæjafjalla

    Fyrirlestrar haldnir á vegum EDDU – öndvegisseturs og GET – Alþjóðlegs jafnréttisskóla

    Loftslagsbreytingar og bráðnun jökla Himalæjafjalla
    Fimmtudagurinn 11. nóvember, kl. 16.30, Háskólatorgi, stofu 105

    Í fyrri fyrirlestrinum fjallar Kunda Dixit um áhrif loftslagsbreytinga á Himalæjafjöllin, þ.e. hvernig hlýnun jarðar er að bræða þessa miklu vatnsturna Asíu. Kunda Dixit mun sýna myndir frá Nepal, en á þeim sést glögglega að sífrerar Himalæjafjallanna eru að hverfa um þrisvar sinnum hraðar en á öðrum stöðum í heiminum. Hvaða áhrif hefur þessi þróun á Nepal og svæðið sem heild? Hvernig geta fátæk lönd tekist á við vandamál sem þau áttu engan þátt í að skapa? Hvernig fjalla fjölmiðlar um þetta ástand?

    Fundarstjóri: Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og rithöfundur.

    Blaða- og fréttamennska á átakatímum
    Föstudagurinn 12. nóvember, kl. 15.00, Árnagarði, stofu 311

    Í fyrirlestrinum mun Kunda Dixit fjalla um átakafréttamennsku. Hann hefur skrifað mikið um blaðamennsku og kennir rannsókna­ og átakablaðamennsku (conflict reporting) við Kathmandu­háskóla og fleira sem tengist menntun og þjálfun blaðamanna. Fyrir allnokkrum árum skrifaði hann bók um skyldur blaðamanna sem vakti mikla athygli. Reynsla hans af borgarstyrjöldinni í Nepal hefur skerpt og á margan hátt breytt afstöðu hans til fréttamennsku og hlutverks blaðamanna. Kunda Dixit hefur skrifað um borgarstyrjöldina og gaf út þriggja bóka ljósmyndaverk um hana. Myndum og textum úr bókaröðinni var síðan stillt upp til sýningar í Museum of Peace í Kathmandu í Nepal, safni sem Kunda Dixit átti þátt í að stofna. Í bók sem kom út á þessu ári, Dateline Earth: Journalism As if the Planet Mattered, fjallar Dixit um viðhorf sín, aðferðir sínar og nálgun í fréttamennsku og hugsjónir. Ísland hefur átt í innbyrðis átökum á liðnum árum. Þessi átök hafa verið og eru erfið þótt ekki séu þau háð með vopnum. Enn er óljóst hvort íslenskt samfélag þolir alla þá sundrungu sem átökunum fylgja. Kunda Dixit hefur áratugareynslu af blaðamennsku um áþekk viðfangsefni.

    Fundarstjóri: Jón Guðni Kristjánsson, fréttamaður hjá RÚV.

    Nánar um KUNDA DIXIT

    Kunda Dixit útskrifaðist í blaðamennsku frá Columbia Univeristy School of Journalism. Hann hefur einnig háskólabakgrunn í jarðfræði og fylgist náið með áhrifum lofstslagsbreytinga á jökla Himalæjafjalla, fallvötn og samfélög manna og þjóðfélagsleg átök sem tengjast loftslagsbreytingum og nýtingu vatns. Kunda er ritstjóri, blaðamaður, rithöfundur og útgefandi og hefur unnið bæði heima og erlendis, t.d. sem fréttamaður hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir breska ríkisútvarpið, BBC, en einnig fyrir Reuters, Time-Life og The Telegraph. Þá eru störf hans sem frumkvöðull að stofnun fréttastofuneta í Suður og Suðaustur Asíu athyglisverð þar sem hann vann ýmist sem ritstjóri eða framkvæmdastjóri og hefur þannig viðað að sér mikilli reynslu og þekkingu. Kunda Dixit hefur gefið út bækur um borgarstríðið í Nepal, blaðamennsku og umhverfismál. Hann er höfundur Dateline Earth: Journalism As if the Planet Mattered sem er kennslubók fyrir blaðmenn. Hann hefur einnig skrifað þrjár bækur um borgarastyrjöldina í Nepal: A People War, Never Again og People After War. Kunda Dixit er gestakennari við fjölmiðladeildina við Kathmandu­háskóla.

    Ítarefni:

    Nánari upplýsingar veita:

    • Irma Erlingsdóttir, 525 4634, irma@hi.is
    • Annadís G. Rúdólfsdóttir, 525 4278, annadis@hi.is

    Tengt efni á loftslag.is: