Endurbirting færslu frá síðastliðnu vori.
Nýjasta tölublað New Scientist, frá 15. maí, er sérstaklega helgað umræðu um tímaskeið afneitunar (e. Age of Denial). Í blaðinu er rætt um ýmiskonar afneitun á vísindum, þar með talið afneitun á loftslagsvísindum. Það virðast vera svipaðar aðferðir notaðar við afneitun vísinda í sambandi við tengsl krabbameins tóbaksnotkunnar og afneitun á loftslagsvísindum.
Mig langar að benda á grein úr þessu tölublaði, sem nefnist, Lifað í afneitun: Þegar efasemdarmaður er ekki efasemdarmaður (e. Living in denial: When a sceptic isn’t a sceptic). Í þessari grein er munurinn á efasemdarmönnum og afneitunarsinnum skoðaður. Greinin er skrifuð af Michael Shermer þar stendur meðal annars, í lauslegri þýðingu:
Hver er munurinn á efasemdarmanni og afneitunarsinna? Þegar ég kalla sjálfan mig efasemdarmann, þá á ég við að ég noti vísindalega nálgun til að leggja mat á rökin. T.d. mun efasemdamaður um loftslagsmál, skoða hverja staðhæfingu fyrir sig og varfærnislega skoða rökin og er tilbúinn að fylgja staðreyndunum þangað sem þær leiða hann.
Sá sem afneitar loftslagsvísindunum, er með fyrirfram ákveðnar skoðanir og fer í gegnum gögnin með notkun “hlutdrægrar staðfestingar” – sem er hneigðin til að leita að og finna gögn sem staðfesta fyrirfram ákveðnar skoðanir og vísa öðru á bug.
Í greininni er rætt um efasemdar í sambandi við vísindalegar aðferðir, þar sem nota þarf gagnrýna hugsun til að skoða gögn og mælingar. Það má segja að til að vera vísindamaður, þá þurfi að koma til nokkuð mikið af hugsun byggða á efasemdum og gagnrýnni hugsun. Það koma nefnilega fram fjöldi rannsókna í vísindum sem reynast rangar þegar upp er staðið. En afneitun er öðruvísi, það sem á sér stað þar er afneitun á gögnum, sama hversu góð rök eru til staðar og oft þrátt fyrir mjög góð rök fyrir gagnstæðum hugmyndum.
Afneitun er að jafnaði drifin áfram af hugmyndafræði eða trúarlegri skoðun, þar sem fylgni við skoðunina er mikilvægari en rökin sem sett eru fram. Skoðunin kemur fyrst, svo röksemdir skoðunarinnar og þær röksemdir eru aðskildar öðrum til að tryggja að skoðunin varðveitist í sinni mynd.
Ég mæli með grein New Scientist fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar. Við höfum einnig skoðað þessi mál hér á loftslag.is, t.d. í greininni, Rökleysur loftslagsumræðunnar, þar sem við ræðum m.a. um efasemdir eða afneitun:
Það má hugsanlega færa rök fyrir því að efasemdarmenn eða efahyggja nái hugsanlega ekki nógu vel að skilgreina þá sem afneita vísindunum. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:
- Samsæriskenningar
- Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
- Fals sérfræðingar
- Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
- Almennar rökleysur
Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem búið er að hrekja. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð. Erfitt að sitja frammi fyrir því að þurfa að margendurtaka sömu hlutina, þar sem rökin virðast ekki komast til skila, þ.e. sömu falsanir, sérvöldu gögnin, samsæriskenningar, o.s.frv. koma aftur upp í umræðunni. […] Innantómt málskrúð sem oft einkennir umræðuna, virðist til þess fallið að draga athyglina frá því sem vísindin hafa um málið að segja.
Það er að mínu mati ábyrgðarleysi að halda á lofti þeirri óvísindalegu nálgun sem oft sést hjá þeim sem telja að vísindin samrýmist ekki þeirra hugmyndafræði. Þar sem notaðar eru þær nálganir sem rætt er um í grein New Scientist og hér að ofan. Það er í raun afar merkilegt að New Scientist hafi ákveðið að tileinka einu tölublaði afneitun vísindanna og að afneitun loftslagsvísindanna skuli hafa fegnið þar háan sess, á stalli með þeim sem afneita vísindalegum gögnum varðandi HIV, vísindum um tengls tóbaksnotkunar og krabbameins og þeirra sem afneita þróunarkenningunni (sköpunarsinna), svo dæmi séu tekin. En það má kannski segja að það þurfi sömu hugmyndafræðilegu nálgunina í öllum þessum tilfellum, þar sem notkun svipaðra rökleysu virðist vera helst á dagsskrá í öllum tilfellunum. Mig langar að enda þetta á annari tilvitnun úr textanum um rökleysur loftslagsumræðunnar:
Gott er að að hafa nokkur atriði í huga við skoðun á vísindum:
- Athugun heimilda er mikilvægur þáttur
- Athugum hvað sérfræðingar segja (helst einhverja sem vinna við fræðin)
- Skoðum fullyrðingar og heimildir með gagnrýnni hugsun
- Byggjum rök okkar á sanngjörnum grunni og sanngjörnum efasemdum
- Pössum okkur á rökleysum og fullyrðingum sem ekki standast skoðun
Heimildir:
Tengt efni af loftslag.is:
- BBC Horizon – árás á vísindin
- Vísindin sett á gapastokk
- Rökleysur loftslagsumræðunnar
- Climategate
- Hrakningar Lord Monckton – 1. hluti
- Hrakningar Lord Monckton – 2. hluti
- Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin
- Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum
- Sakir bornar af Phil Jones
- Loftslagsvísindin traust
- Mýtur
Leave a Reply