Loftslag.is

Tag: Greinar

  • Um niðurstöðuna í Durban

    Um niðurstöðuna í Durban

    Mjög jákvætt er að í Durban varð samkomulag um að þau ríki sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum hefji á ný samningaviðræður um lagalega bindandi sáttmála.* Eftir loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum virtust öll sund lokuð. Samningaviðræðum skal lokið fyrir 2015 en munu ekki hafa áhrif fyrr en eftir 2020, sem er of seint.

    Einnig náðist samkomulag um framlengingu Kyoto-bókunarinnar en hvað það felur í sér fyrir þau ríki sem enn eiga aðild og hyggjast taka á sig skuldbindingar samkvæmt bókuninni er óljóst, Japan, Kanada og Rússland hafa nú sagt sig frá bókunni. Eftir eru Evrópa og Ástralía, Nýja Sjáland, auk þróunarríkja sem ekki taka á sig skuldbindingar líkt og bókunin kveður á um. Það er meginatriði að Kyoto-bókunin verður áfram grunnur að frekari samningagerð. Kyoto-bókunin eru einu alþjóðalögin sem í gildi eru um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

    Þessi tvö atriði eru stór plús og umfram væntingar. Evrópusambandið hrósar sigri yfir að samkomulag náðist um að gera skuli lagalega bindandi samning innan fjögurra ára. Á hinn bóginn veit enginn hvernig sá samningur mun líta út og aftur unnu Bandaríkin því ákvæði fyrirhugaðs samnings um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda munu ekki taka gildi fyrr en eftir 2020.

    Bandaríkin hafa frá upphafi hafnað Kyoto-bókuninni. Vissulega undirritaði Al Gore bókunina í Kyoto árið 1997 en frá sama tíma var ljóst að Öldungadeild þingsins myndi ekki fullgilda hana. Í besta falli var bandaríska stjórnkerfið klofið á þeim tíma. Frá því að Bush tók við völdum hafa Bandaríkin alfarið hafnað þeirri nálgun, sem felst í bókuninni, að iðnríkin beri sögulega langmesta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda og þeim beri því fyrst að draga úr losun og að engar slíkar kröfur verði gerðar til þróunarríkja fyrst um sinn. Þessi nálgun er í samræmi við 2. grein Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1992 („Sameiginleg en mismunandi ábyrgð ríkja“) og varð ein meginniðurstaða 1. aðildarþings samningsaaðila í Berlín þremur árum síðar. Séð frá þessu sjónarhorni má segja að fulltrúar Bandaríkjanna hafi náð fram markmiðum sínum í Durban.

    Á fyrsta fundi aðildarríkja Loftslagssamningsins eftir að Barack Obama settist að í Hvíta húsinu vakti fulltrúi Bandaríkjanna, Todd Stern mikla lukku þegar hann sagði: “We’re back.” Engu að síður hafa Bandaríkin fylgt mjög svipaðri stefnu og Bush forseti mótaði. Helsti munurinn er e.t.v. sá að Hvíta húsið reynir ekki að draga í efa niðurstöður vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Í Durban fóru fulltrúar Bandaríkjanna sér hægt en þæfðu mál og töfðu fyrir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir. Hvort Obama forseti bætir ráð sitt nái hann kjöri á ný skal ósagt látið en innan umhverfisverndarhreyfingarinnar eru fáir sem meta hann mikils.

    Þróunarríkin fagna sigri yfir að Kyoto-bókunin er enn í gildi, sú meginregla að iðnríkjunum beri skylda til að taka forustu um samdrátt í losun, skipti yfir í endurnýjanlega orku og að þau skuli veita fjármagn og tækniaðstoð til þróunarríkja.

    Að óbreyttu stefnir í að hitastig andrúmsloftsins muni hækka um og yfir 3 gráður á Celcíus miðað við fyrir iðnbyltingu. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að halda skyldi meðalhitnun andrúmslofts jarðar innan við 2°C. Öll smá láglend eyríki telja 1,5°C hækkun vera hámark. Ella munu þau hverfa í sæ í fyrirsjáanlegri framtíð. Segja má að 2°C hækkun séu efri mörk þess sem vísindamenn telja að vistkerfi jarðar þoli með von um að ná jafnvægi á ný – eftir margar aldir. Skaðinn verður gífurlegur og nýlega kom út skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem sýnir skýr tengsl milli hækkandi hitastigs og öfga í veðurfari.

    Enn er stórt bil á milli annars vegar þess samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda sem ríki hafa þegar skuldbundið sig til að koma í verk og hins vegar þess samdráttar sem er nauðsynlegur til að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5 – 2°C. Þetta bil stækkar óðum og því verður að grípa aðgerða sem allra fyrst. Sjá skematískt yfirlit hér að neðan, en þar kemur þó ekki fram hvernig súrnunun sjávar eykst í hlutfalli við hækkandi hitastig þótt fram komi að kóralrif muni deyja út í Indlandshafi við 2°C hlýnun. Eftir Durban vitum við að stefnt er að lausn málsins með lagalega bindandi samningi þar sem öll ríki verða að taka á sig skuldbindingar. Slíkt samkomulag náðist fyrst í Kyoto fyrir 14 árum síðan, það er enn í gildi en kolefnisiðnaðinum í Bandaríkjunum hefur tekist að koma í veg fyrir að nái til alls heimsins. Nú er önnur tilraun og við vitum ekki hvort tekst að ná samkomulagi í tæka tíð.

    Árni Finnsson.

    www.climateactiontracker.org
    Smellið tvisvar á myndina til að fá hana stærri – Heimild – www.climateactiontracker.org

     

    *Indland hafnaði reyndar hugtakinu ‘legally binding’ en féllst á málamiðlun þess efnis að nýr samningur hefði ‘legal force’.

  • Grautur af gróðurhúsaáhrifum

    Grautur af gróðurhúsaáhrifum

    Það er merkilegt hvernig umræðan um loftslagsmál hefur oft á tíðum hangið í sama farinu. Fyrir 13 árum síðan birtist grein eftir Pál Bergþórsson, fyrrum Veðurstofustjóra, varðandi umræðu um loftslagsmál. Þá, líkt og nú, var haldið á lofti alls kyns rökleysum sem áttu á einhvern hátt að gera lítið úr rannsóknum vísindamanna varðandi hlýnun Jarðar og breytingum á loftslagi. Núna 13 árum síðar má segja að svipuð öfl ráði enn ferðinni þegar kemur að umræðunni, þar sem reynt er í krafti staðhæfinga og fullyrðinga (sem oftast standast ekki nánari skoðun) að gera lítið úr loftslagsvísindunum og rannsóknum vísindamanna. Það má segja að mýtusíðan hér á loftslag.is sé afsprengi þeirrar umræðu.

    Grein Páls nefnist “Grautur af gróðurhúsaáhrifum” og þar ræðir hann m.a. um aðferðafræði hina sjálfskipuðu “efasemdarmanna” og segir m.a. eftirfarandi:

    Þannig hefur verið reynt að gera tortryggilegar þær staðreyndir sem máli skipta, drepa málinu á dreif.

    Þetta er nokkuð sem við á loftslag.is höfum marg oft séð í umræðunni. Og það virðist ekki hafa mikil áhrif þó svo almennur einhugur virðist ríkja meðal vísindamanna um áhrif gróðurhúsalofttegunda á hlýnun andrúmslofts. Sá einhugur vísindamanna hefur síst minnkað og orðið enn meiri en áður á síðustu árum.

    Um hlýnun Jarðar og tengsl við gróðurhúsalofttegundir komst hann svo að orði, sem er nokkuð í samræmi við einhug vísindamanna í þessum málum:

    Það er enginn vafi lengur á því að loftslag jarðar fer hlýnandi í takt við aukningu svonefndra gróðurhúsalofttegunda sem mannskepnan losar út í andrúmsloftið. Mestan þáttinn í þessu á sú brennsla olíu, jarðgass og kola sem myndar koltvísýring.

    Um þátt hagsmunaaðila í því að dreifa málinu á dreif orðar hann það svo:

    En af hverju hafa menn verið að draga þessar staðreyndir í efa? Þeir sem hafa af því atvinnu og hagsmuni að selja olíu, gas og kol telja sér ógnað ef þjóðirnar gera ráðstafanir til að takmarka notkun þessa eldsneytis. Þess vegna leggja þeir í það mikla fjármuni að gera valdhafa tortryggna á spár loftslagsfræðinga, og þeim hefur orðið talsvert ágengt.

    Já, þetta eru hlutir sem við erum enn að hamra á hér 13 árum síðar, enda virðast röksemdir, mælingar og rannsóknir ekki bíta á afneitun þeirra sem vilja snúa út úr vísindarannsóknum um loftslagsmál. Hitt er líka umhugsunarvert að almenningur virðist ekki vilja vita af þessu vandamáli, en það hefur kannski eitthvað með hina miklu umfjöllun hina sjálfskipuðu “efasemdarmanna” að gera, enda þægilegra að lifa í afneitun um þessi fræði en þurfa hugsanlega að huga að lausnum til framtíðar.

    Grein Páls má lesa í heild á vefnum tímarit.is, GRAUTUR AF GRÓÐURHÚSAÁHRIFUM

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Efasemdir eða afneitun

    Efasemdir eða afneitun

    Endurbirting færslu frá síðastliðnu vori.

    Nýjasta tölublað New Scientist, frá 15. maí, er sérstaklega helgað umræðu um tímaskeið afneitunar (e. Age of Denial). Í blaðinu er rætt um ýmiskonar afneitun á vísindum, þar með talið afneitun á loftslagsvísindum. Það virðast vera svipaðar aðferðir notaðar við afneitun vísinda í sambandi við tengsl krabbameins tóbaksnotkunnar og afneitun á loftslagsvísindum.

    Mig langar að benda á grein úr þessu tölublaði, sem nefnist, Lifað í afneitun: Þegar efasemdarmaður er ekki efasemdarmaður (e. Living in denial: When a sceptic isn’t a sceptic). Í þessari grein er munurinn á efasemdarmönnum og afneitunarsinnum skoðaður. Greinin er skrifuð af Michael Shermer þar stendur meðal annars, í lauslegri þýðingu:

    Hver er munurinn á efasemdarmanni og afneitunarsinna? Þegar ég kalla sjálfan mig efasemdarmann, þá á ég við að ég noti vísindalega nálgun til að leggja mat á rökin. T.d. mun efasemdamaður um loftslagsmál, skoða hverja staðhæfingu fyrir sig og varfærnislega skoða rökin og er tilbúinn að fylgja staðreyndunum þangað sem þær leiða hann.

    Sá sem afneitar loftslagsvísindunum, er með fyrirfram ákveðnar skoðanir og fer í gegnum gögnin með notkun “hlutdrægrar staðfestingar” – sem er hneigðin til að leita að og finna gögn sem staðfesta fyrirfram ákveðnar skoðanir og vísa öðru á bug.

    Í greininni er rætt um efasemdar í sambandi við vísindalegar aðferðir, þar sem nota þarf gagnrýna hugsun til að skoða gögn og mælingar. Það má segja að til að vera vísindamaður, þá þurfi að koma til nokkuð mikið af hugsun byggða á efasemdum og gagnrýnni hugsun. Það koma nefnilega fram fjöldi rannsókna í vísindum sem reynast rangar þegar upp er staðið. En afneitun er öðruvísi, það sem á sér stað þar er afneitun á gögnum, sama hversu góð rök eru til staðar og oft þrátt fyrir mjög góð rök fyrir gagnstæðum hugmyndum.

    Afneitun er að jafnaði drifin áfram af hugmyndafræði eða trúarlegri skoðun, þar sem fylgni við skoðunina er mikilvægari en rökin sem sett eru fram. Skoðunin kemur fyrst, svo röksemdir skoðunarinnar og þær röksemdir eru aðskildar öðrum til að tryggja að skoðunin varðveitist í sinni mynd.

    Ég mæli með grein New Scientist fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar. Við höfum einnig skoðað þessi mál hér á loftslag.is, t.d. í greininni, Rökleysur loftslagsumræðunnar, þar sem við ræðum m.a. um efasemdir eða afneitun:

    Það má hugsanlega færa rök fyrir því að efasemdarmenn eða efahyggja nái hugsanlega ekki nógu vel að skilgreina þá sem afneita vísindunum. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

    1. Samsæriskenningar
    2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
    3. Fals sérfræðingar
    4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
    5. Almennar rökleysur

    Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem búið er að hrekja. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð. Erfitt að sitja frammi fyrir því að þurfa að margendurtaka sömu hlutina, þar sem rökin virðast ekki komast til skila, þ.e. sömu falsanir, sérvöldu gögnin, samsæriskenningar, o.s.frv. koma aftur upp í umræðunni. […] Innantómt málskrúð sem oft einkennir umræðuna, virðist til þess fallið að draga athyglina frá því sem vísindin hafa um málið að segja.

    Það er að mínu mati ábyrgðarleysi að halda á lofti þeirri óvísindalegu nálgun sem oft sést hjá þeim sem telja að vísindin samrýmist ekki þeirra hugmyndafræði. Þar sem notaðar eru þær nálganir sem rætt er um í grein New Scientist og hér að ofan. Það er í raun afar merkilegt að New Scientist hafi ákveðið að tileinka einu tölublaði afneitun vísindanna og að afneitun loftslagsvísindanna skuli hafa fegnið þar háan sess, á stalli með þeim sem afneita vísindalegum gögnum varðandi HIV, vísindum um tengls tóbaksnotkunar og krabbameins og þeirra sem afneita þróunarkenningunni (sköpunarsinna), svo dæmi séu tekin. En það má kannski segja að það þurfi sömu hugmyndafræðilegu nálgunina í öllum þessum tilfellum, þar sem notkun svipaðra rökleysu virðist vera helst á dagsskrá í öllum tilfellunum. Mig langar að enda þetta á annari tilvitnun úr textanum um rökleysur loftslagsumræðunnar:

    Gott er að að hafa nokkur atriði í huga við skoðun á vísindum:

    • Athugun heimilda er mikilvægur þáttur
    • Athugum hvað sérfræðingar segja (helst einhverja sem vinna við fræðin)
    • Skoðum fullyrðingar og heimildir með gagnrýnni hugsun
    • Byggjum rök okkar á sanngjörnum grunni og sanngjörnum efasemdum
    • Pössum okkur á rökleysum og fullyrðingum sem ekki standast skoðun

    Heimildir:

    Tengt efni af loftslag.is:

  • Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Hlýnun jarðar, Cancun og ábyrgð Íslands í loftslagsmálum

    Þessi pistill, eftir Mikael Lind, birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. desember.

    Mikael Lind

    Sendimenn frá fleiri en 190 löndum hafa komið saman í Cancun í Mexíkó til að ræða leiðir til að draga úr áhrifum frá hlýnun jarðar og er góð ástæða til. Árið 2010 er hið heitasta á plánetu okkar síðan mælingar hófust og í fréttunum getum við fylgst með afleiðingunum; skógareldar í Rússlandi sem kæfa íbúa Moskvu og flóð í Pakistan sem setja einn fjórða af landinu í kaf.

    Eins og blaðamaðurinn Johann Hari á The Independent bendir á þá er meiri ástæða að hræðast náttúruhamfarir en þær hagfræðihamfarir sem tröllriðið hafa heiminum undanfarið því það er tvennt ólíkt að bjarga bönkunum frá gjaldþroti og að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.

    Virtustu loftslagssérfræðingar heims hafa bent á að vatnsyfirborð jarðar gæti hækkað um u.þ.b. einn til einn og hálfan metra á þessari öld. Ef þessar spár reynast réttar mundi hafið kaffæra London, Bangkok, Feneyjar, Sjanghæ og Kairó. Rannsókn á plöntusvifum sýndi nýlega fram á að 40% þeirra hafa drepist síðan 1950 vegna hlýnunar hafsins. Þessi svif framleiða helminginn af súrefni jarðar og drekka í sig koltvísýringa sem hafa annars hlýnandi áhrif á jörðina.

    Eins og Noam Chomsky benti á í myndfyrirlestri sínum í Háskólabíói fyrir stuttu er það þannig að þrátt fyrir framsetningu margra fjölmiðla er meginmál umræðunnar um hlýnun jarðar varla eitthvert rifrildi á milli þeirra fræðimanna sem trúa að útblástur gróðurhúsagasa hafi hlýnandi áhrif á jörðina og þeirra sem trúa því ekki. Mjög fáir vísindamenn afneita að hlýnun jarðar er af manna völdum og sums staðar virðist lobbýismi olíufyrirtækja vera partur af spilinu hjá þeim sem þverneita að viðurkenna vandann. Alvöru umræðan í vísindaheiminum á sér stað á milli loftslagsfræðimanna um hversu slæmar afleiðingarnar verða. Það að það verði afleiðingar er þegar álitið sem staðreynd.

    Þrátt fyrir að vera lítið land ber Ísland ábyrgð ásamt öllum öðrum löndum í heiminum. Það er stundum talað um þá sem vilja lifa “grænum lífsstíl” og þá sem vilja það ekki. En ég tel það líklegt að ef ástandið fari að versna samkvæmt spám fræðimanna þá mun varla vera um frjálst val að ræða miklu lengur. Er ekki það að passa vel upp á umhverfið frekar skylda gagnvart heiminum og sérstaklega börnum okkar sem erfa hann? Þynnkuna eftir náttúruhamfarir sem rekja má til kæruleysis í loftslagsmálum verður mun erfiðara að koma lagi á en bankakreppuna vegna kæruleysis stjórnmálamanna.

    Það er margt sem mátti betur fara á Íslandi og til að verða fyrirmyndarland verður að stefna hærra og ekki slaka á markmiðinu. Þar sem Ísland er mikil bílaþjóð verður að vera auðveldara fyrir Íslendinga að keyra á grænu eldsneyti eða rafmagni. Það verður einnig að auðvelda aðgengi fjölgandi hóps hjólafólks með því að byggja fleiri hjólabrautir. Í Reykjavík og stærri borgum vil ég sjá fleiri vistgötur og það þarf að hvetja fólk til þess að nota bílinn sjaldnar í miðborginni. (Strikið í Kaupmannahöfn er vel heppnuð göngugata; getum við ekki reynt að fylgja þessu dæmi eftir?) Æskilegt væri að framleiða eins mikið hér á landi og hægt er til að koma í veg fyrir mengandi innflutning. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum í þróun græns hagkerfis.

    Ef horft er til framtíðar verður að skoða möguleika eins og að byggja lest frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þannig mætti draga verulega úr mengun og einnig einfalda fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn að ferðast á milli þessara staða á þægilegan hátt. Þetta og annað hefur verið rætt og tek ég því fagnandi, sem og frumlegum hugmyndum um notkun jarðvarma í stór gróðurhús varpað fram af Björk Guðmundsdóttur, John Perkins og fleiri. Þessi umræða verður að halda áfram og breiða úr sér. Setjum Ísland í fremstu röð grænna samfélaga!

  • Hagfræði og loftslagsbreytingar

    Hagfræði og loftslagsbreytingar

    Endurbirting færslu frá því í júní hér af loftslag.is.

    Inngangur

    Það er nokkuð almenn einning meðal vísindamanna sem vinna að loftslagstengdum rannsóknum, um að athafnir mannsins og þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis hafi áhrif að loftslagið á hnattræna vísu. Eftir áratuga rannsóknir og umræður, m.a. hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og mikið átak við að miðla þekkingunni áfram til almennings, þá er það almennt álit þeirra sem vinna að þessu á vísindalegum grunni að aðgerða sé þörf og að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.

    Minna er hinsvegar vitað um hvort þetta er einnig tilfellið meðal hagfræðinga (og viðskiptamenntaðra) sem rannsaka loftslagsmál, þ.e. um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda og afleiðingar hækkandi hitastigs á hagkerfið. Umfangsmikil fjölmiðlaumfjöllun um kostnaðinn við aðgerðir við að taka á loftslagsvandanum, getur auðveldlega leitt til þess að utanaðkomandi hafi það á tilfinningunni að hagfræðingar séu á móti reglugerðum varðandi loftslagsmál eða að ekki sé um mikla ógn að ræða fyrir hagkerfið, þó svo losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram nú sem áður. Í þessari skýrslu sem um er rætt í þessari færslu skoða þeir J. Scott Holladay, Jonathan Horne og Jason A. Schwarts hvernig þessi mál standa. Með því að fylgjast með því hvað sérfræðingar á sviðinu eru að gera, reyna þeir að komast að niðurstöðu varðandi málið. Útkoman er sláandi. Hagfræðingar eru almennt sammála um að loftslagsbreytingar séu ógn við hagkerfi heimsins. Það sem meira er, þá eru flestir á því að það sé hagur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að sá hagur geti réttlætt kostnaðinn við það. Flestir styðja einhverskonar markaðskerfi þar sem hægt væri að draga úr losun, með t.d. Cap and Trade eða einhverskonar sköttum. Það eru líka svið þar sem hagfræðingar eru ekki sammála um hvernig á að standa að verki, m.a. um það hvernig á að standa að því að skoða ábyrgð núverandi kynslóðar gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Þar skiptust svörin jafnt á milli aðferða. En heilt yfir þá er myndin skýr; það ríkir almennt samkomulag meðal hagfræðinga sem vinna að rannsóknum tengdum loftslagsmálum, að losun gróðurhúsalofttegunda sé raunveruleg ógn við hagkerfið og að ef rétt er að verki staðið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá muni það skila fjárhagslegum ávinning fyrir hagkerfið í heild. Þó umræðan sé sífellt í gangi, þá getur þessi skýrsla hjálpað til við að beina augum á þær spurningar sem nauðsynlegt er að spyrja varðandi þessa hlið málsins.

    Helstu atriði skýrslunnar

    Í rannsókninni voru skoðuð gögn frá mörgum hagfræðingum sem einnig eru sérfræðingar í efnahagslegum áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta var gert með spyrja sérfræðingana lykilspurninga er varða ákvarðanatöku og stefnu varðandi loftslagsmál. Hópurinn var valinn þannig að leitað var í 25 vinsælustu efnahagstímaritunum að greinum, skrifuðum síðustu 15 árin og fjölluðu um loftslagsbreytingar. Það var haft samband við þá u.þ.b. 300 greinarhöfunda sem fundust við þessa leit og þeir spurðir spurninganna. Meira en helmingur þeirra svaraði. Niðurstaðan sýnir að það var nokkuð gott samkomulag manna á milli varðandi sumar spurningarnar en hvatt er til áframhaldandi umræðu um aðrar.

    Hlutfall svara varðandi "umhverfisleg áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og henni er lýst af leiðandi vísindamönnum, geti valdið marktækri hættu í mikilvægum efnahagslegum geirum Bandaríkjanna og heimsins"

    Niðurstöðurnar eru m.a. eftirfarandi:

    • 84% þeirra sem svöruðu voru annað hvort sammála eða mjög sammála að “umhverfisleg áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og henni er lýst af leiðandi vísindamönnum, geti valdið marktækri hættu í mikilvægum efnahagslegum geirum  Bandaríkjanna og heimsins”.
    • 75% voru annað hvort sammála eða mjög sammála því að “óvissa sem tengist umhverfis- og efnahagslegum áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda eykur gildi þess að stjórna losun, ef gert er ráð fyrir einhverri áhættustýringu”.
    • Landbúnaður var sá innlendi (BNA) efnahagsgeiri sem flestir sögðu að væri “líklegur til að verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna loftslagsbreytinga”, þar sem 86% völdu þann geira.
    • 91,6% vildu heldur eða vildu mikið heldur “markaðsfræðilegar aðferðir, svo sem kolefnisskatta eða markað fyrir kolefnislosun” fram yfir fyrirskipanir og stjórn (command-and-control) reglugerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
    • 80,6% vildu heldur uppboð á kolefnisleyfum heldur en að úthluta þeim frítt
    • 97,9% voru sammála eða mjög sammála því að “setja “verð á kolelfni” með sköttum eða hafa markað fyrir kolefnislosun myndi vera hvataaukandi til skilvirkari orkunotkunnar og til þróunnar á lausnum sem draga úr kolefnislosun.
    • 57% voru sammála því að stjórnvöld í BNA ættu að skuldbinda sig til minni losunar gróðurhúsalofttegunda “hvað sem líður þátttöku annara landa”, á meðan 15,5% í viðbót voru sammála því að þau ættu að gera það “ef stjórnvöld næðu að bindast marghliða sambandi við önnur lönd um að minnka losun” og 21,8% voru sammála því að BNA ættu að vera framarlega “ef aðrar stórar losunar þjóðir gerðu víðtækar skuldbindingar á heimsvísu”. Aðeins 0,7% vildu bíða þar til öll önnur lönd myndu skuldbinda sig til aðgerða og 2,1% telja að BNA ættu að fara út í aðgerðir hvað sem líður aðgerðum annarra þjóða.
    • 92,3% voru sammála eða mjög sammála því að “flest umhverfis- og efnahagsleg áhrif af losun gróðurhúsalofttegunda muni lenda á kynslóðum framtíðarinnar”
    • 37,5% svöruðu “hag komandi kynslóða” ætti að meta “með því að reikna hann út sem fasta ávöxtunarkröfu” á meðan 36,8% vildu að meta ætti hann “með öðrum mögulegum leiðum (eins og t.d. hyperbolic discounting)”
    • Miðgildið fyrir ávöxtunarkröfuna vegna mats áhrifa fyrir kynslóðir framtíðarinnar, ef ávöxtunarkrafa yrði notuð, var 2,4%, en þess má geta að það var mikill breytileiki, sem hægt er að túlka sem svo að ekki hafi verið almennt samkomulag um það atriði.
    • Miðgildið fyrir þjóðfélagslegan kostnað af kolefni var áætlaður $50, en einnig þar var einnig mikill breytileiki, sem er þá hægt að túlka sem vöntun á samkomulagi um hversu yfirgripsmikil skaði geti orðið vegna hverrar einingar af losun gróðurhúsalofttegunda.
    80,6% sérfræðinga vilja heldur uppboð á kolefnisleyfum heldur en að úthluta þeim frítt

    Niðurstaða

    Það tekur oft furðu langan tíma þar til fjölmiðlar bera kennsl á skoðanir sérfræðinga og einnig þar til það kemst áleiðis til þeirra sem taka ákvarðanir svo og almennings. Mörgum árum eftir að meirihluti loftslagsvísindamanna náði einingu um að hnattræn hlýnun væri í gangi og gæti haft alvarlegar afleiðingar, þá koma enn fram fréttir þar sem málið er sett fram eins og að enn séu deilur meðal þeirra um efnið. Það var haldin ráðstefna svo seint sem í september 2009 á vegum Sameinuðu þjóðanna til að ræða hvers vegna fjölmiðlum hefði mistekist að koma einingu vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar í meðvitund almennings. Svipuð mistök í boðskiptum virðast ætla að koma í veg fyrir að fjölmiðlar, ákvarðanatakendur og almenningur komist að því að það er eining meðal þeirra sem skoða hagfræðilegu hlið lofslagsmálanna.

    • Meira að segja í grein þar sem rætt var um að flestir Bandaríkjamenn styddu “Cap and Trade” lausn, sem er markaðsfræðileg lausn, sem 92% af hagfræðingum styðja – var talað um “umdeilanlega” lausn.
    • Öldungardeildarþingmenn halda áfram að deila um það hvort að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á efnahagskerfi og landbúnað í BNA, jafnvel þó að yfir 80% sérfræðinga telji að hnattræn hlýnun muni hafa neikvæð áhrif í báðum tilfellum.
    • Löggjafarþingið hefur farið í þá áttina að gefa losunarheimildir, þó svo yfir 80% sérfræðinga telji að uppboð á þeim sé betri möguleiki í efnahagslegum skilningi.
    • Bandarískur almenningur er enn að velta fyrir sér hvort að það þurfi frekari rannsóknir áður en farið er í aðgerðir, kannski vegna þess að hann er ómeðvitaður um að þrír fjórðu hlutar sérfræðingum í hagfræði telja að með því að með því að draga málin á langin, með tilliti til óvissunar varðandi áhrif loftslagsbreytinga, geri það að verkum að meira virði sé að aðgerðum í dag en síðar.
    • Þingið heldur áfram að vera órólegt yfir efnahagslegum afleiðingum þess að hefja aðgerðir án þess að hafa allt alþjóðasamfélagið með, á meðan mikill meirihluti er meðal sérfræðinga sem telja að einhliða aðgerðir séu réttlætanlegar og að næstum allar aðrar þjóðir myndu styðja aðgerðir í BNA í samhengi við alþjóðlega samninga.

    Hagfræðingar (og aðrir viðskiptamenntaðir) er örugglega ekki sammála um allt þegar kemur að því að meta loftslagsbreytinga og lagalega möguleika varðandi þær. En jafnvel á þeim sviðum þar sem umræður eru um aðferðir, þá gæti nákvæmari lýsing af þeim möguleikum sem uppi eru koma ákvarðanatakendum vel. Með tíð og tíma munu sérfræðingarnir væntanlega ná enn meiri sátt um málið. En varðandi loftslagsbreytingar, þá getur verið að við höfum ekki þann lúxus að geta beðið eftir því að sérfræðingarnir verði smám saman sammála um öll atriði sem hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Sú opnun sem við höfum til að finna kostnaðarhæfa (e. cost effective) möguleika til mótvægisaðgerða, gæti lokast hratt á næstunni. Þessi skýrsla sýnir að hagfræðingar hafa mikið að segja um kostnað og ávinning af því að grípa til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Sérfræðingar eru byrjaðir að tala með nokkuð samhljóða rödd um málið. Nú verðum við að vona að fjölmiðlar, stjórnvöld og almenningur hlusti.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Hnattræn hlýnun 35 ára

    Orðið hnattræn hlýnun (global warming) var, að því er virðist, fyrst notað í vísindatímariti (Science) í grein eftir Wally Broecker (Are we on the brink of a pronounced global warming?) sem kom út 8. ágúst 1975. Þetta virðist hafa verið í fyrsta skiptið sem orðalagið hnattræn hlýnun (global warming) kom fyrir í vísindaritum. Í þessari grein spáir Broecker réttilega fyrir um að sú leitni kólnunar sem þá var ríkjandi myndi víkja fyrir áberandi hlýnun, sem hann taldi að myndi orsakast af auknum styrki koldíoxíðs. Hann spáði því að hnattræn hlýnun yfir alla 20. öldina yrði um 0,8°C vegna CO2 og hafði áhyggjur af afleiðingunum fyrir landbúnað og vegna breyttrar sjávarstöðu.

    Hitastig á heimsvísu fram til júní 2010, samkvæmt gögnum NASA GISS. Gráa línan er 12 mánaða meðaltal, rauðu punktarnir eru meðalársgildi. Rauða línana er leitnilína hitastigsins. Broecker hafði að sjálfsögðu ekkert af þessum gögnum við höndina, ekki einu sinni gögnin til 1975, þar sem þessi gögn voru fyrst sett saman í samantekt hjá NASA síðar (Hansen et al. 1981).

    Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þetta, þá er óhætt að benda á þennan ágæta pistil á RealClimate, Happy 35th birthday, global warming!, þar sem aðferðafræði Broecer er lýst frekar og sagt frá störfum hans.

    Spurning hvort að við þurfum að marka þessi tímamót sérstaklega. Það var fyrst seinna að meira afgerandi gögn komu fram fyrir augu almennings. Það má samt sem áður segja að vísindamenn hafi tiltölulega snemma byrjað að vara við því að hitastig gæti hækkað vegna athafna okkar mannanna. Besta afmælisgjöfin væri kannski sú að nota eitt augnablik og huga að því hvað maður sjálfur getur gert til að minnka losun koldíoxíðs, það er alltént fyrsta skrefið.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Hvað er kolefnisfótspor?

    Það mikið talað um losun koldíoxíðs vegna athafna manna. En hvað er verið að tala um og  hvað er kolefnisfótspor (e. carbon footprints)?

    Þegar talað er um kolefnisfótspor í sambandi við loftslagsbreytingar, þá er fótspor myndlíking fyrir þau áhrif sem eitthvað hefur. Í þessu tilfelli má segja að kolefni sé notað sem einhverskonar samnefnari fyrir þær gróðurhúsalofttegundir sem valda hnattrænni hlýnun.

    Þar af leiðandi má kannski orða það þannig að kolefnisfótspor sé einhverskonar samnefnari á áætluðum heildaráhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda sem eitthvað veldur. Þetta eitthvað getur svo verið hvað sem er, t.d. athafnir, hlutir, lífsstíll, fyrirtæki, lönd eða jafnvel allur heimurinn.

    Hvað er CO2e?

    Loftslagsbreytingar af mannavöldum eða svokölluð hnattræn hlýnun af mannavöldum er talin eiga sér stað vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Aðal gróðurhúsalofttegundin er koldíoxíð (CO2). CO2 verður m.a. til við brennslu jarðefnaeldsneytis. Það eru einnig aðrar gróðurhúsalofttegundir sem við þurfum að huga að en eru þó losaðar í mun minna magni. Metan (CH4) er dæmi lofttegund sem m.a. kemur frá landbúnaði og er 25 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en CO2 á hvert kílógram. Einnig má nefna gróðurhúsalofttegundir, eins og t.d. nituroxíð (N2O), sem er u.þ.b. 300 sinnum öflugri en CO2 og ýmsar lofttegundir frá kælitækjum sem geta verið nokkur þúsund sinnum öflugri en CO2.

    Á Bretlandi eru heildaráhrif á loftslagið eftir gróðurhúsalofttegundum nokkurnvegin á þessa leið: koldíoxíð (86%), metan (7%), nituroxíð (6%) og lofttegundir frá kælitækjum (1%). Hver hlutur eða athöfn getur valdið margskonar áhrifum vegna þess að fleiri gróðurhúsalofttegundir koma við sögu í mismunandi magni í hverju tilfelli. Þannig myndi kolefnisfótsporið ef allt er tiltekið vera nánast óskiljanlegt hrafnaspark þar sem margar gróðurúsalofttegundir í mismunandi magni koma fyrir. Til að koma í veg fyrir það, er kolefnisfótsporinu lýst sem koldíoxíð jafngildi (e. equivalent) eða CO2e. Þetta þýðir að heildaráhrif allra gróðurhúsalofttegunda sem hlutur eða athöfn sem hefur í för með sér er lýst með tilliti til þeirra áhrifa sem yrðu miðað við það magn sem þyrfti að vera af koldíoxíði til að hafa sömu áhrif. CO2e er því það magn sem lýsir því, miðað við ákveðið magn og blöndu af gróðurhúsalofttegundum, hversu mikið magn af CO2 hefði sömu áhrif til hlýnunar andrúmsloftsins, þegar reiknað er á ákveðnu tímabili (almennt eru notuð 100 ár).

    Bein losun og óbein losun

    Það er nokkur ruglingur varðandi kolefnisfótspór, þegar kemur að því að skoða muninn á beinni og óbeinni losun. Hið raunverulega kolefnisfótspor á hlut eins og plast leikfangi, svo dæmi sé tekið, er ekki bara bein losun sem verður til við framleiðslu og flutning leikfangsins til verslunar. Það þarf einnig að skoða margskonar óbeinna losun, eins og t.d. þá losun sem verður til við vinnslu olíu sem notuð er við framleiðslu plastsins. Þetta eru aðeins dæmi um þær athafnir í ferlunum sem hafa áhrif á losunina. Ef við spáum í það, þá getur verið að mjög erfitt að rekja alla ferlana sem eru á bak við þá losun sem kemur frá einum hlut eða athöfn. T.d. eitthvað svo hversdagslegt sem notkun skrifstofufólks í plastverksmiðjunni á pappírsklemmum úr stáli. Til að fara enn nánar út í þessa sálma má svo skoða námaverkamanninn sem vinnur í námunni sem járnið í stálið kemur frá…og svo framvegis nánast út í hið óendanlega. Verkefnið við útreikninga á kolefnisfótspori leikfangs úr plasti, getur í raun innihaldið fjöldan allan af ferlum sem taka mætti inn í dæmið. Nákvæmur útreikningu er nánast ómögulegur og sum áhrifin eru líka mjög smá miðað við heildaráhrifin.

    Til að nefna annað dæmi, þá er raunverulegt kolefnisfótspor við það að keyra bíl ekki einungis sú losun sem verður til við bruna eldsneytisins, heldur einnig sú losun sem varð til við vinnslu olíunnar í bensín, flutningur þess til landsins og á bensínsstöðvarnar, ásamt þeirri losun sem verður til við framleiðslu bílsins og viðhalds, svo eitthvað sé nefnt.

    Hinn nauðsynlegi en ómögulegi útreikningur

    Kolefnisfótsporið eins og það er skilgreint hér að ofan er varðandi þær mælingar sem taka þarf tillit til við athugun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna loftslagsbreytinga. Það er nánast ómögulegt að leysa þetta úrlausnarefni nákvæmlega. Við eigum engan möguleika á að skilja nákvæmlega hver áhrif banana eru samanborið við allt mögulegt annað sem við getum keypt, nema við getum tekið inn í dæmið allan ferilinn, þ.e. ræktun, flutning, geymslu og aðra ferla sem máli skipta. Hvernig er best að nálgast dæmi sem er nánast ómögulegt sökum mikils flækjustigs?

    Ein aðferð sem stundum sést, er að gefast hreinlega upp og mæla á einfaldari hátt, jafnvel þó að stór hluti þess sem verið er að reyna reikna út detti út úr myndinni. Í raun er þó reynt að nálgast viðfangsefnið með því að skoða heildarmyndina og reyna að gera eins raunhæfa áætlun og hægt er varðandi þá losun sem fylgir þeim hlut eða athöfn sem skoða á. Þetta er hægt þrátt fyrir hið háa flækjustig sem oft þarf að hafa í huga í hverju tilfelli. Kunnátta varðandi þá óvissu sem fylgir útreikningunum þarf að vera ljós ásamt því hvernig nálgast beri óvissuna á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Hagfræði og loftslagsbreytingar

    Inngangur

    Það er nokkuð almenn einning meðal vísindamanna sem vinna að loftslagstengdum rannsóknum, um að athafnir mannsins og þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis hafi áhrif að loftslagið á hnattræna vísu. Eftir áratuga rannsóknir og umræður, m.a. hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og mikið átak við að miðla þekkingunni áfram til almennings, þá er það almennt álit þeirra sem vinna að þessu á vísindalegum grunni að aðgerða sé þörf og að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.

    Minna er hinsvegar vitað um hvort þetta er einnig tilfellið meðal hagfræðinga (og viðskiptamenntaðra) sem rannsaka loftslagsmál, þ.e. um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda og afleiðingar hækkandi hitastigs á hagkerfið. Umfangsmikil fjölmiðlaumfjöllun um kostnaðinn við aðgerðir við að taka á loftslagsvandanum, getur auðveldlega leitt til þess að utanaðkomandi hafi það á tilfinningunni að hagfræðingar séu á móti reglugerðum varðandi loftslagsmál eða að ekki sé um mikla ógn að ræða fyrir hagkerfið, þó svo losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram nú sem áður. Í þessari skýrslu sem um er rætt í þessari færslu skoða þeir J. Scott Holladay, Jonathan Horne og Jason A. Schwarts hvernig þessi mál standa. Með því að fylgjast með því hvað sérfræðingar á sviðinu eru að gera, reyna þeir að komast að niðurstöðu varðandi málið. Útkoman er sláandi. Hagfræðingar eru almennt sammála um að loftslagsbreytingar séu ógn við hagkerfi heimsins. Það sem meira er, þá eru flestir á því að það sé hagur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að sá hagur geti réttlætt kostnaðinn við það. Flestir styðja einhverskonar markaðskerfi þar sem hægt væri að draga úr losun, með t.d. Cap and Trade eða einhverskonar sköttum. Það eru líka svið þar sem hagfræðingar eru ekki sammála um hvernig á að standa að verki, m.a. um það hvernig á að standa að því að skoða ábyrgð núverandi kynslóðar gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Þar skiptust svörin jafnt á milli aðferða. En heilt yfir þá er myndin skýr; það ríkir almennt samkomulag meðal hagfræðinga sem vinna að rannsóknum tengdum loftslagsmálum, að losun gróðurhúsalofttegunda sé raunveruleg ógn við hagkerfið og að ef rétt er að verki staðið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá muni það skila fjárhagslegum ávinning fyrir hagkerfið í heild. Þó umræðan sé sífellt í gangi, þá getur þessi skýrsla hjálpað til við að beina augum á þær spurningar sem nauðsynlegt er að spyrja varðandi þessa hlið málsins.

    Helstu atriði skýrslunnar

    Í rannsókninni voru skoðuð gögn frá mörgum hagfræðingum sem einnig eru sérfræðingar í efnahagslegum áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta var gert með spyrja sérfræðingana lykilspurninga er varða ákvarðanatöku og stefnu varðandi loftslagsmál. Hópurinn var valinn þannig að leitað var í 25 vinsælustu efnahagstímaritunum að greinum, skrifuðum síðustu 15 árin og fjölluðu um loftslagsbreytingar. Það var haft samband við þá u.þ.b. 300 greinarhöfunda sem fundust við þessa leit og þeir spurðir spurninganna. Meira en helmingur þeirra svaraði. Niðurstaðan sýnir að það var nokkuð gott samkomulag manna á milli varðandi sumar spurningarnar en hvatt er til áframhaldandi umræðu um aðrar.

    Hlutfall svara varðandi "umhverfisleg áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og henni er lýst af leiðandi vísindamönnum, geti valdið marktækri hættu í mikilvægum efnahagslegum geirum Bandaríkjanna og heimsins"

    Niðurstöðurnar eru m.a. eftirfarandi:

    • 84% þeirra sem svöruðu voru annað hvort sammála eða mjög sammála að “umhverfisleg áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og henni er lýst af leiðandi vísindamönnum, geti valdið marktækri hættu í mikilvægum efnahagslegum geirum  Bandaríkjanna og heimsins”.
    • 75% voru annað hvort sammála eða mjög sammála því að “óvissa sem tengist umhverfis- og efnahagslegum áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda eykur gildi þess að stjórna losun, ef gert er ráð fyrir einhverri áhættustýringu”.
    • Landbúnaður var sá innlendi (BNA) efnahagsgeiri sem flestir sögðu að væri “líklegur til að verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna loftslagsbreytinga”, þar sem 86% völdu þann geira.
    • 91,6% vildu heldur eða vildu mikið heldur “markaðsfræðilegar aðferðir, svo sem kolefnisskatta eða markað fyrir kolefnislosun” fram yfir fyrirskipanir og stjórn (command-and-control) reglugerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
    • 80,6% vildu heldur uppboð á kolefnisleyfum heldur en að úthluta þeim frítt
    • 97,9% voru sammála eða mjög sammála því að “setja “verð á kolelfni” með sköttum eða hafa markað fyrir kolefnislosun myndi vera hvataaukandi til skilvirkari orkunotkunnar og til þróunnar á lausnum sem draga úr kolefnislosun.
    • 57% voru sammála því að stjórnvöld í BNA ættu að skuldbinda sig til minni losunar gróðurhúsalofttegunda “hvað sem líður þátttöku annara landa”, á meðan 15,5% í viðbót voru sammála því að þau ættu að gera það “ef stjórnvöld næðu að bindast marghliða sambandi við önnur lönd um að minnka losun” og 21,8% voru sammála því að BNA ættu að vera framarlega “ef aðrar stórar losunar þjóðir gerðu víðtækar skuldbindingar á heimsvísu”. Aðeins 0,7% vildu bíða þar til öll önnur lönd myndu skuldbinda sig til aðgerða og 2,1% telja að BNA ættu að fara út í aðgerðir hvað sem líður aðgerðum annarra þjóða.
    • 92,3% voru sammála eða mjög sammála því að “flest umhverfis- og efnahagsleg áhrif af losun gróðurhúsalofttegunda muni lenda á kynslóðum framtíðarinnar”
    • 37,5% svöruðu “hag komandi kynslóða” ætti að meta “með því að reikna hann út sem fasta ávöxtunarkröfu” á meðan 36,8% vildu að meta ætti hann “með öðrum mögulegum leiðum (eins og t.d. hyperbolic discounting)”
    • Miðgildið fyrir ávöxtunarkröfuna vegna mats áhrifa fyrir kynslóðir framtíðarinnar, ef ávöxtunarkrafa yrði notuð, var 2,4%, en þess má geta að það var mikill breytileiki, sem hægt er að túlka sem svo að ekki hafi verið almennt samkomulag um það atriði.
    • Miðgildið fyrir þjóðfélagslegan kostnað af kolefni var áætlaður $50, en einnig þar var einnig mikill breytileiki, sem er þá hægt að túlka sem vöntun á samkomulagi um hversu yfirgripsmikil skaði geti orðið vegna hverrar einingar af losun gróðurhúsalofttegunda.
    80,6% sérfræðinga vilja heldur uppboð á kolefnisleyfum heldur en að úthluta þeim frítt

    Niðurstaða

    Það tekur oft furðu langan tíma þar til fjölmiðlar bera kennsl á skoðanir sérfræðinga og einnig þar til það kemst áleiðis til þeirra sem taka ákvarðanir svo og almennings. Mörgum árum eftir að meirihluti loftslagsvísindamanna náði einingu um að hnattræn hlýnun væri í gangi og gæti haft alvarlegar afleiðingar, þá koma enn fram fréttir þar sem málið er sett fram eins og að enn séu deilur meðal þeirra um efnið. Það var haldin ráðstefna svo seint sem í september 2009 á vegum Sameinuðu þjóðanna til að ræða hvers vegna fjölmiðlum hefði mistekist að koma einingu vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar í meðvitund almennings. Svipuð mistök í boðskiptum virðast ætla að koma í veg fyrir að fjölmiðlar, ákvarðanatakendur og almenningur komist að því að það er eining meðal þeirra sem skoða hagfræðilegu hlið lofslagsmálanna.

    • Meira að segja í grein þar sem rætt var um að flestir Bandaríkjamenn styddu “Cap and Trade” lausn, sem er markaðsfræðileg lausn, sem 92% af hagfræðingum styðja – var talað um “umdeilanlega” lausn.
    • Öldungardeildarþingmenn halda áfram að deila um það hvort að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á efnahagskerfi og landbúnað í BNA, jafnvel þó að yfir 80% sérfræðinga telji að hnattræn hlýnun muni hafa neikvæð áhrif í báðum tilfellum.
    • Löggjafarþingið hefur farið í þá áttina að gefa losunarheimildir, þó svo yfir 80% sérfræðinga telji að uppboð á þeim sé betri möguleiki í efnahagslegum skilningi.
    • Bandarískur almenningur er enn að velta fyrir sér hvort að það þurfi frekari rannsóknir áður en farið er í aðgerðir, kannski vegna þess að hann er ómeðvitaður um að þrír fjórðu hlutar sérfræðingum í hagfræði telja að með því að með því að draga málin á langin, með tilliti til óvissunar varðandi áhrif loftslagsbreytinga, geri það að verkum að meira virði sé að aðgerðum í dag en síðar.
    • Þingið heldur áfram að vera órólegt yfir efnahagslegum afleiðingum þess að hefja aðgerðir án þess að hafa allt alþjóðasamfélagið með, á meðan mikill meirihluti er meðal sérfræðinga sem telja að einhliða aðgerðir séu réttlætanlegar og að næstum allar aðrar þjóðir myndu styðja aðgerðir í BNA í samhengi við alþjóðlega samninga.

    Hagfræðingar (og aðrir viðskiptamenntaðir) er örugglega ekki sammála um allt þegar kemur að því að meta loftslagsbreytinga og lagalega möguleika varðandi þær. En jafnvel á þeim sviðum þar sem umræður eru um aðferðir, þá gæti nákvæmari lýsing af þeim möguleikum sem uppi eru koma ákvarðanatakendum vel. Með tíð og tíma munu sérfræðingarnir væntanlega ná enn meiri sátt um málið. En varðandi loftslagsbreytingar, þá getur verið að við höfum ekki þann lúxus að geta beðið eftir því að sérfræðingarnir verði smám saman sammála um öll atriði sem hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Sú opnun sem við höfum til að finna kostnaðarhæfa (e. cost effective) möguleika til mótvægisaðgerða, gæti lokast hratt á næstunni. Þessi skýrsla sýnir að hagfræðingar hafa mikið að segja um kostnað og ávinning af því að grípa til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Sérfræðingar eru byrjaðir að tala með nokkuð samhljóða rödd um málið. Nú verðum við að vona að fjölmiðlar, stjórnvöld og almenningur hlusti.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Áratugasveiflur hitastigs

    Í þessari færslu verður sagt frá efni bloggfærslu af Climate Charts & Graphs, þar sem segir frá greiningu sem þar var gerð. Í færslunni verður litið nánar til sameiginlegra áhrifa áratuga sveiflna í Kyrrahafinu (e. Pacific Decadal Oscillation (PDO)), í Atlantshafinu (e. Atlantic Multidecadal Oscillation (AMO)) og sveiflum í El Nino, (e. El Nino – Southern Oscillation (ENSO)) á langtímaleitni hitastigs borið saman við GISS hitastigi á landi og hafi.

    Þessi færsla er ekki byggð á ritrýndum heimildum og er meira hugsuð sem vangaveltur um þessar sveiflur og ber ekki að taka sem einhvern stóra sannleik í málinu. En þessi könnun virðist þó vera byggð á marktækum gögnum. Mér þætti fróðlegt að fá innlegg frá einhverjum sem er fróður um þetta. Mig langar að taka fram að þýðingin var snúin og langar mig því að benda á upprunalegu færsluna ef vafi leikur á hvað um er að ræða. Svo má líka spyrja um óljós atriði í athugasemdum og við reynum þá að útskýra þau eftir fremsta megni.

    Þar sem þessi færsla er ekkki alveg auðskilin né auðþýdd, þá verður einnig sá háttur hafður á að ég ætla að gera tilraun til að útskýra hvernig ég skil færsluna í persónulegum athugasemdum. Ég vona að ég skilji færsluna rétt í megin atriðum. Ef eitthvað er óljóst eftir lesturinn, þá svara ég gjarnan spurningum varðandi efnið. Þess má geta að við höfum nýlega skrifað færslu þar sem Easterbrook var einnig í aðalhlutverki, sjá nánar í færslunni; Að fela núverandi hlýnun.

    Inngangur

    Því hefur stundum verið haldið fram að ef PDO áratugasveiflan í Kyrrahafinu, fari yfir í kaldann fasa, þá muni það næstum því örugglega hafa áhrif á hitastig, jafnvel þannig að á næstu 30 árum komi tímabil hnattrænnar kólnunar, kannski enn meiri en sú kólnun sem var á tímabilinu 1945 til 1977. heimild

    Prófessor Don Easterbrook sem m.a. heldur þessu fram á síðunni sem vitnað er til, telur að ef að PDO fasinn skipti frá heitum í kaldan, þá muni það hafa marktæk áhrif á hitastig á heimsvísu næstu 30 árin.

    Í þessari færslu verður s.s. skoðað nánar hvernig PDO, AMO og ENSO vísarnir tengjast GISS hitafrávikinu.

    PDO, AMO, ENSO loftslagssveiflurnar sameinaðar

    Til að gera þetta var byrjað á því nálgast gögn um GISS, PDO , AMO og ENSO og vinna úr þeim út frá mánaðargildum frá árinu 1900. Út frá þeim gögnum er búinn til nýr stuðull sem nefndur er PAE kóði. Hver mánuður frá 1900 fær tilgreindan PAE kóða byggt á sameinuðum jákvæðum / neikvæðum stuðli fyrir hverja sveiflu, sjá í töflunni:

    Þar sem til eru nokkrir ENSO fasar, þá er notast við Nino34 vísirinn fyrir ENSO gögnin.

    Hér er verið að flokka mánuði eftir því hvaða sveiflur eru í gangi á hverjum tíma, (-) viðkomandi fasi er ekki í gangi og (+) viðkomandi fasi er í gangi.

    Kassagraf fyrir PAE kóðana

    Mynd 1 sýnir GISS LOTA (LOTA – Land and Ocean Temperature Anomaly) kassagraf fyrir alla 8 sameinuðu fasana (klikkið á myndina til að stækka hana).

    Mynd 1: Kassagröf fyrir GISS hitafrávik eftir PAE fasa

    Þessi kassagröf sýna hvernig GISS mánaðar hitafrávikin dreifast miðað við PAE fasa, án þess að það ár sem frávikið á sér stað í sé haft í huga. Þrjú mikilvæg einkenni á GISS LOTA gagnaröðinni:
    .
    1. Miðgildi hitastigsins í PAE fösunum breytist minna í PAE 1 (- – -) en í PAE 8 (+ + +).
    2. Það er nokkuð mikil skörun á milli PAE fasa. Til dæmis þá eru einhverjir PAE 1 mánuðir með hærri frávik en sumir PAE 8 mánuðir.
    3. Þekking á PAE fösunum gefur okkur ekki nægilegar upplýsingar til að nálgast mánaðar hitastigsfrávikið sjálft.

    Úr þessu er hægt að lesa að margir mánuðir á milli mismundandi fasa falla innan sömu gilda, en þó er hitafrávikið almennt lítillega stærra í (+ + +)  mánuðum en (- – – ) mánuðum.

    Leitni eftir PAE fasa

    Lítum nú á samanburð við GISS hitafrávikið, við bæði árin (tímabilið) og PAE fasana. Með því að skilja að mánaðar GISS gögnin miðað við PAE fasa og draga feril fyrir heildarleitnina, þá getum við séð hvernig PAE fasarnir þróast yfir tíma.

    Mynd 2: GISS LOTA leitnin miðað við sameinaða PAE fasa
    .
    Leitnin á gröfunum á mynd 2 sýnir mánaðar GISS frávikin miðað við PAE fasa fyrir tímabilið 1900-2010.
    1. GISS hitafrávikin hafa aukist fyrir tímabilið í öllum 8 fösunum, frá PAE 1 (- – -) til PAE 8 (+ + +).
    2. Leitnin er breytileg eftir PAE fösum, frá lágu gildi 0,00565 / ár fyrir PAE 1 (- – -) til 0,00737 fyrir PAE 7 (+ + -).
    3. Þekking á PAE fasanum og árinu aflar okkur meiri upplýsinga en bara fyrir einstaka PAE fasa. Lítið á PAE 1 leitni grafið. PAE 1 frávikin fyrir tímabilið 1900 – 1920 eru mun lægri en PAE 1 frávikin fyrir 1960-1980. Það sama gildir um hina 7 PAE fasana.

    Hér eru fasarnir skoðaðir fyrir tímabilið 1900-2010, og leitni hitafráviksins er skoðað í samhengi við tímann.

    GISS fráviks-regression með notkun árs, PDO, AMO og ENSO fasa

    Gerðar voru svokallaðar regression raðir til að sjá hversu áreiðanleg árs gögnin og PDO, AMO, ENSO fasarnir eru til að spá fyrir um mánaðarleg hitafrávik fyrir 1900-2010. 6 regression raðir eru sýndar á mynd 3.

    Mynd 3: GISS fráviks-regression eftir ári, PDO, AMO, ENSO fösum

    Mynd 3 sýnir fram á nokkur önnur atriði í sambandi við samband árs og sveiflu fasa á GISS leitnina:

    1. PDO og AMO hafa í meginatriðum engin útskýrandi áhrif við að spá fyrir GISS hitafrávikum. Þetta er eins og hægt var að gera ráð fyrir þar sem báðar raðir eru án leitni. Sjá hér hér fyrir nánari ústkýringu á því.
    2. Hin árlega regression fylgir heildar GISS hitastigsleitninni, með sveiflur í kringum leitni línuna.
    3. Með því að bæta við PDO-AMO-ENSO fösum við árið bætist við regression afrit af mánaðar til mánaðar breytileikanum.

    Það má segja að fasarnir geti útskýrt hluta af áratugasveiflum hitastigs, en ekki hækkandi leitni hitastigs yfir tímabilið.

    Niðurstöður

    Byggt á niðurstöðunni af greiningunni á gögnum fyrir árin 1900-2010 fyrir mánuði í GISS LOTA, PDO, AMO og ENSO, sést engin vísbending um að skifti á PDO yfir í kaldan fasa muni “…leiða til u.þ.b. 30 ára af hnattrænni kólnun” eins og Prófessor Easterbrook spáir fyrir um. Á meðan að hraði hitastigs aukningarinnar verður fyrir áhrifum af PAE fösunum, þá er leitni langtíma hitastigsfráviksins upp á við fyrir alla PAE fasa á tímabilinu 1900-2010. Það má því kannski segja að PAE fasarnir geti verið hluti af því að útskýra áratuga sveiflur hitastigs, en geti ekki útskýrt ástæður fyrir hækkandi hitaleitni fyrir tímabilið.

    Þegar búið er að skoða muninn á þeim mánuðum sem eru í hverjum fasa, leitni hitastigs yfir tímabilið og svo hvernig þessir fasar hafa áhrif á áratugasveiflur hitastig, þá virðist hægt að draga þá ályktun að fasarnir hafi áhrif á sveiflur í hitastigi en ekki sem útskýrandi þáttur á hækkandi leitni hitastigs fyrir tímabilið 1900-2010.

    Gögn og RClimate handrit

    Til að hjálpa lesendum sem vilja staðfesta, fá nánari, gagnrýna eða vefengja greininguna, þá er boðið nn upp á R handrit og gagna skjöl.

    • RClimate Script to Build consolidated monthly file here
    • RClimate script to prepare Figures 1-3 in this post here
    • Consolidated monthly csv data file: GISS, PDO, AMO, ENSO, PAE phases here
  • Efasemdir eða afneitun

    Nýjasta tölublað New Scientist, frá 15. maí, er sérstaklega helgað umræðu um tímaskeið afneitunar (e. Age of Denial). Í blaðinu er rætt um ýmiskonar afneitun á vísindum, þar með talið afneitun á loftslagsvísindum. Það virðast vera svipaðar aðferðir notaðar við afneitun vísinda í sambandi við tengsl krabbameins tóbaksnotkunnar og afneitun á loftslagsvísindum.

    Mig langar að benda á grein úr þessu tölublaði, sem nefnist, Lifað í afneitun: Þegar efasemdarmaður er ekki efasemdarmaður (e. Living in denial: When a sceptic isn’t a sceptic). Í þessari grein er munurinn á efasemdarmönnum og afneitunarsinnum skoðaður. Greinin er skrifuð af Michael Shermer þar stendur meðal annars, í lauslegri þýðingu:

    Hver er munurinn á efasemdarmanni og afneitunarsinna? Þegar ég kalla sjálfan mig efasemdarmann, þá á ég við að ég noti vísindalega nálgun til að leggja mat á rökin. T.d. mun efasemdamaður um loftslagsmál, skoða hverja staðhæfingu fyrir sig og varfærnislega skoða rökin og er tilbúinn að fylgja staðreyndunum þangað sem þær leiða hann.

    Sá sem afneitar loftslagsvísindunum, er með fyrirfram ákveðnar skoðanir og fer í gegnum gögnin með notkun “hlutdrægrar staðfestingar” – sem er hneigðin til að leita að og finna gögn sem staðfesta fyrirfram ákveðnar skoðanir og vísa öðru á bug.

    Í greininni er rætt um efasemdar í sambandi við vísindalegar aðferðir, þar sem nota þarf gagnrýna hugsun til að skoða gögn og mælingar. Það má segja að til að vera vísindamaður, þá þurfi að koma til nokkuð mikið af hugsun byggða á efasemdum og gagnrýnni hugsun. Það koma nefnilega fram fjöldi rannsókna í vísindum sem reynast rangar þegar upp er staðið. En afneitun er öðruvísi, það sem á sér stað þar er afneitun á gögnum, sama hversu góð rök eru til staðar og oft þrátt fyrir mjög góð rök fyrir gagnstæðum hugmyndum.

    Afneitun er að jafnaði drifin áfram af hugmyndafræði eða trúarlegri skoðun, þar sem fylgni við skoðunina er mikilvægari en rökin sem sett eru fram. Skoðunin kemur fyrst, svo röksemdir skoðunarinnar og þær röksemdir eru aðskildar öðrum til að tryggja að skoðunin varðveitist í sinni mynd.

    Ég mæli með grein New Scientist fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar. Við höfum einnig skoðað þessi mál hér á loftslag.is, t.d. í greininni, Rökleysur loftslagsumræðunnar, þar sem við ræðum m.a. um efasemdir eða afneitun:

    Það má hugsanlega færa rök fyrir því að efasemdarmenn eða efahyggja nái hugsanlega ekki nógu vel að skilgreina þá sem afneita vísindunum. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

    1. Samsæriskenningar
    2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
    3. Fals sérfræðingar
    4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
    5. Almennar rökleysur

    Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem búið er að hrekja. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð. Erfitt að sitja frammi fyrir því að þurfa að margendurtaka sömu hlutina, þar sem rökin virðast ekki komast til skila, þ.e. sömu falsanir, sérvöldu gögnin, samsæriskenningar, o.s.frv. koma aftur upp í umræðunni. […] Innantómt málskrúð sem oft einkennir umræðuna, virðist til þess fallið að draga athyglina frá því sem vísindin hafa um málið að segja.

    Það er að mínu mati ábyrgðarleysi að halda á lofti þeirri óvísindalegu nálgun sem oft sést hjá þeim sem telja að vísindin samrýmist ekki þeirra hugmyndafræði. Þar sem notaðar eru þær nálganir sem rætt er um í grein New Scientist og hér að ofan. Það er í raun afar merkilegt að New Scientist hafi ákveðið að tileinka einu tölublaði afneitun vísindanna og að afneitun loftslagsvísindanna skuli hafa fegnið þar háan sess, á stalli með þeim sem afneita vísindalegum gögnum varðandi HIV, vísindum um tengls tóbaksnotkunar og krabbameins og þeirra sem afneita þróunarkenningunni (sköpunarsinna), svo dæmi séu tekin. En það má kannski segja að það þurfi sömu hugmyndafræðilegu nálgunina í öllum þessum tilfellum, þar sem notkun svipaðra rökleysu virðist vera helst á dagsskrá í öllum tilfellunum. Mig langar að enda þetta á annari tilvitnun úr textanum um rökleysur loftslagsumræðunnar:

    Gott er að að hafa nokkur atriði í huga við skoðun á vísindum:

    • Athugun heimilda er mikilvægur þáttur
    • Athugum hvað sérfræðingar segja (helst einhverja sem vinna við fræðin)
    • Skoðum fullyrðingar og heimildir með gagnrýnni hugsun
    • Byggjum rök okkar á sanngjörnum grunni og sanngjörnum efasemdum
    • Pössum okkur á rökleysum og fullyrðingum sem ekki standast skoðun

    Heimildir:

    Tengt efni af loftslag.is: