Hér er yfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Einnig er hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Þess má einnig geta að á næsta þriðjudag verður viðtal við okkur í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu. Þátturinn er á dagskrá klukkan 17-18 á þriðjudag.
Stuttar fréttir
Fæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnkar töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Hér er á ferðinni umfangsmikil rannsókn á tengslum milli loftslagsbreytinga og fæðuöryggis. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Óvenjuhátt hitastig norðurskautsins og miklar rigningar í hitabeltinu er talið líklegur orsakavaldur fyrir hinni hnattrænu aukningu í metani í andrúmsloftinu frá árinu 2007 og 2008, samkvæmt NOAA. Áratuginn þar á undan hafði lítil sem engin aukning verið, en metan er önnur mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin – á eftir CO2 (koldíoxíð). Sjá nánar frétt af vef NOAA.
Votlendi sem verður til þegar lónstæði stórrar stíflu í Kína þornar að hluta á sumrin er hugsanlega stór uppspretta metans sem er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Vísindamenn hafa haft vaxandi áhyggjur af gróðurhúsalofttegundum frá gróðurlendi sem fer undir vatn við stíflugerð. Þegar slík lífræn efni rotna, þá losnar metan og CO2 sem bæta á þá hlýnun jarðar sem nú þegar í gangi. Aukning í metani er sérstakt áhyggjuefni þar sem áhrif þess er tuttugu sinnum áhrifameira en áhrif CO2. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:
Síðastliðinn laugardag þá birtum við 2 færslur sem fjölluðu beint og óbeint um jökulísinn og hækkun sjávarborðs. Fyrst má nefna myndband um sjávarstöðubreytingar og síðan frétt um nýjar rannsóknir sem skoðuðu þynningu jökulíssins á Grænlandi og Suðurskautinu. Önnur merkileg frétt úr vikunni sem leið var fréttin um fjórar gráðurnar, sem er ný frétt um rannsóknir á vegum Met Office (bresku veðurstofunnar), þar sem því er haldið fram að óheft losun koldíoxíðs geti leitt til allt að 4°C hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót. Myndbönd vikunnar voru nokkur, má þar helst nefna myndband af sýn Carl Sagan á bláa punktinn sem við lifum á, hversu agnarsmár hann er í samanburði við alheiminn, auglýsing frá Bandaríkjunum sem hefur vakið furðu og svo heimildamynd um súrnun sjávar. Einnig skrifuðum við um Sea Level Explorer, þar sem hægt er að skoða áhrif sjávarstöðubreytinga á hina ýmsu staði í heiminum. Síðast en ekki síst þá skrifaði Einar Sveinbjörnsson gestapistil vikunnar, sem fjallar um “Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals” og kunnum við honum þakkir fyrir.
Leave a Reply