Taugatitringur sá sem var áberandi fyrstu dagana í Kaupmannahöfn fer nú minnkandi. Samningamenn frá öllum heimshornum sitja fundi og vinna að því að leggja drög að endanlegum samningi, og það lítur út fyrir að eitthvað sé að gerast. Yvo de Boer, loftslagsstjóri Sameinuðu þjóðanna, telur að hinar alvarlegu samningaviðræður séu byrjaðar og að það megi sjá framfarir á ýmsum sviðum.
Stjórnmálamenn koma til fundarins. Loftslagsstjórinn segir að margir ráðherrar komi strax um helgina. Hugmyndin er að embættismenn hafi þá fundið lausnir á ýmsum af þeim tæknilegu vandamálum sem leysa þarf, áður en stjórnmálamenn geta snúið sér að málunum í stærra og pólítískara samhengi. Nú er verið að vinna að þessum atriðum í öllum krókum og kimum að sögn de Boer.
Í frétt the Guardian kemur fram að á ráðstefnunni í dag kynntu haffræðingar skýrslu þar sem kynnt er staðan og horfur varðandi súrnun sjávar. Þar kemur meðal annars fram að súrnun sjávar hefur aukist um 30% frá upphafi iðnbyltingunnar og að óheft aukning CO2 í andrúmsloftinu muni hafa alvarleg áhrif á lífríki víða um heim. Vísindamennirnir telja jafnframt að súrnun sjávar sé jafnmikilvægt atriði fyrir afkomu jarðarbúa og hlýnun jarðar.
Helstu atriði 4. dags loftslagsráðstefnunnar, samkvæmt fréttaritara dr.dk Thomas Falbe:
1. Eyríki krefjast þess að hitastigshækkun verði í mesta lagi 1,5°C
Eyríki og strandríki, með lágtliggjandi landsvæðum, sem stendur ógn af hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga, kröfðust þess í dag að hitastigshækkun megi ekki verða meiri en 1,5°C. Markmið það sem Sameinuðu þjóðirnar vinna út frá, er 2°C yfir hitastiginu við upphaf iðnvæðingar. Fulltrúar eyríkja vilja meina að það markmið sé of lágt sett. Þau vilja meina að við 2°C markið verði fleiri af ríkjunum sjávarbreytingum að bráð. Einnig mun það hafa afleiðingar á mörgum stöðum í Afríku, þar sem talið er að þurrkar verði meiri en áður.
2. Að nota varagjaldeyrisforðann
Fjármálamaðurinn George Soros lagði það til í dag að tekið yrði af varagjaldeyrisforðanum til að fjármagna þá 100 milljarða dollara, sem talið er að þurfi til að berjast gegn loftslagsbreytingum í þróunarlöndunum. Þetta er enn ein tilraunin sem gerð er til að finna þá peninga sem talið er að þurfa til, vegna loftslagsbreytinga í þróunarlöndunum. Önnur tillaga í þessa áttina, sem Danmörk styður, gengur út á að leggja gjald á skipaeldsneyti, hið svokallað “bunker fuel” gjald.
3. Evrópusambandið reynir að ná samstöðu
Mikið af athygli dagsins í Bella Centar var einnig á því, hversu niðurstaða leiðtogafundar Evrópusambandsins í Brussel í kvöld verður. Á þessum fundi leiðtoga Evrópusambandsins, á að setja endanleg markmið varðandi losun koldíoxíðs og hversu miklu fjármagni Evrópusambandið ætlar að leggja til þróunarlandanna. Það er þó nokkurt ósamkomulag meðal Evrópusambandslandanna og þjóðirnar leggja mikið á sig til að ná samstöðu. Þessi samstaða þykir nauðsynleg til að þjóðirnar geti staðið í framlínunni við samningaumleitanirnar á loftslagsráðstefnunni. Hingað til eru ESB þjóðirnar sammála um að sambandið geti skorið losun koldíoxíðs niðurum 30%, svo lengi sem önnur iðnríki setja svipuð markmið. Það ber mest á efasemdum frá austantjaldslöndum og þá helst Póllandi varðandi þessi markmið.
Myndband með aðalatriðum dagsins frá COP15 á YouTube, má sjá hér. Þarna má m.a. sjá fulltrúa eyríkjana Grenada og Tuvalu.
Leave a Reply