Þurrkar framtíðar

Mörg af fjölmennustu ríkjum heims mega búast við aukinni hættu á alvarlegum og langvinnum þurrkum á komandi áratugum, samkvæmt nýrri grein. Samkvæmt greiningu vísindamannsins Aiguo Dai þá má búast við auknum þurrkum víða um heim á næstu 30 árum og jafnvel má búast við þurrkum sem mannkynið hefur ekki orðið vitni að í lok þessarar aldar.

Með því að nota 22 loftslagslíkön, ásamt flokkun á alvarleika þurrka – auk þess að greina fyrri rannsóknir, þá kemur í ljós að mikill hluti Ameríku auk stórra hluta Evrópu, Asíu, Afríku og Ástralíu gætu átt á hættu aukna tíðni alvarlegra þurrka á þessari öld. Á móti kemur að svæði á hærri breiddargráðum, t.d. Alaska og Skandinavía eru líkleg til að verða blautari.

Dai varar þó við að niðurstaðan byggir á bestu núverandi upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda – sem gæti þó breyst í framtíðinni, auk þess sem lítið er vitað hvernig náttúrulegur breytileiki mun hafa áhrif á þurrka í framtíðinni, t.d. El Nino. Dai hefur þó áhyggjur af því að bæði almenningur og vísindasamfélagið geri sér ekki almennilega grein fyrir alvarleika loftslagsbreytinga með tilliti til þurrka og segir: “Ef einungis brot af því sem kemur fram í þessari rannsókn verður að veruleika, þá verða afleiðingarnar á samfélag manna um allan heim, gríðarlegar.”

Þótt mikill hluti af landsvæðum á hærri breiddargráðum fái aukna vætu, þá eru heildaráhrifin þau að stærri svæði verða fyrir þurrkum en áður og sérstaklega landsvæði þar sem fólksfjöldi er mikill. Svæðið í kringum Miðjarðarhafið er talið verða fyrir mestum þurrkum á næstu áratugum og í lok aldarinnar þá benda líkön til þess að skalinn sem hann notaði (Palmer Drought Severity Index) verði ekki nægur til að gefa mælikvarða á alvarleika þurrkanna þar.

Þurrkar framtíðar. Þesssi fjögur kort sýna möguleg þurrkasvæði framtíðar, hnattrænt séð - miðað við núverandi sviðsmyndir varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi kort eru ekki ætluð sem spár, þar sem ekki er vitað hver þróunin verður í losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem náttúrulegur breytileiki getur breytt mynstri þess hvar þurrkar verða. Notaður er Palmer vísir (Palmer Drought Severity Index) sem gefur svæðum jákvæða tölu á svæðum þar sem úrkoma er mikil og neikvæða tölu á þurrum svæðum. Talan -4 og neðar er þar sem búist er við óvenjuslæma þurrka. Svæði sem eru blá eða græn eru þau þar sem minni hætta er á þurrkum á meðan svæði með rauðu og fjólubláu eru talin hættust við þurrkum (mynd Wiley Interdisciplinary Reviews/UCAR). Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.

Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að hin hnattræna hlýnun muni breyta úrkomumynstri og að heittempraða beltið myndi vaxa með tilheyrandi þurrkum og að hærri breiddargráður fengju aukna úrkomu. Að auki benda fyrri rannsóknir til þess að loftslagsbreytingar séu nú þegar farnar að hafa áhrif í auknum þurrkum.

Það eru ekki eingöngu úrkomubreytingar sem skipta máli, heldur einnig hversu heitt er og þá hversu hratt raki gufar upp, auk annarra þátta. Í kjölfar þess  geturjarðvegur orðið það þurr að í mörgum tilfellum geti hann ekki lengur gefið af sér uppskeru, auk þess sem vatnsforðabúr stöðuvatna og grunnvatns getur minnkað, sem myndi valda vatnsskorti. Margir tala einmitt um að vatnsskortur séu í raun alvarlegustu afleiðingar loftslagsbreytinganna sem nú eru að verða og munu aukast á komandi áratugum.

Heimildir og frekari upplýsingar

Umfjöllun um rannsóknina má finna á heimasíðu UCAR: Climate change: Drought may threaten much of globe within decades

Greinin birtist í tímaritinu Wiley Interdisciplinary Reviews: Climate Change og eftir Dai (2010): Drought under global warming: a review

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál