Loftslag.is

Tag: Landbúnaður

  • Grænn Apríl – Dagur Jarðar 2013

    Grænn Apríl – Dagur Jarðar 2013

    dag_litVið viljum vekja athygli á áhugaverðri dagskrá sem er í tengslum við Dag Jarðar og félagasamtökin Grænn Apríl standa fyrir, í Háskólabíói þann 21.apríl en dagskrá hefst klukkan 15:
    Þema dagsins er „Birting loftslagsbreytinga“ og um það verður fjallað í  stuttum fyrirlestrum af okkar færustu vísindamönnum.

    Fyrirlesarar eru:
    Dr. Tómas Jóhannesson, Jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands – Áhrif loftslagsbreytinga á veðurfar.
    Dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Áhrif loftslagsbreytinga á jökla og hækkun sjávarstöðu.
    Dr. Bjarni Diðrik Sigurðarson, prófessor og brautarstjóri skógfræði og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands – Skógar og loftslagsbreytingar: hver er tengingin?
    Dr. Jón Ólafsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Súrnun sjávar.
    Dr.Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Verndun jarðvegs.
    Dr. Harald J. Sverdrup, verkfræðingur og Frumkvöðull Ársins 2012 í Noregi – Tenging auðlinda og auðs.

    Inn á milli fyrirlestra verða sýnd myndbönd þar sem spurt er; “Hvað er smart við að vera umhverfisvænn?” ásamt myndasýningu Gunnars V. Andréssonar, ljósmyndara af náttúruperlum Íslands.

    Auk þess mun tónlistarfólkið Torgeir Vassvik, Friðrik Karlsson og Íris Lind Verudóttir koma fram.

    Dagskrá hefst klukkan 15:00. Miðaverð í forsölu til 19.apríl er (miði.is)  990 krónur eftir það 1.290 krónur. Allur ágóði af viðburðinum rennur til skógræktarátaksins APRÍLSKÓGAR 2013.

     

    Það eru félagasamtökin Grænn Apríl sem standa fyrir Degi Jarðar 2013

  • Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

    Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

    Ný grein bendir til þess að margar meiriháttar mannlegar hörmungar – stríð og plágur – megi rekja til loftslagsbreytinga. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi – en beinar rannsóknir á orsakasamhengi hafa reynst erfiðar.

    Framfarir í fornloftslagsfræðum hafa nú auðveldað fræðmönnum að horfa lengra aftur til baka en áður. Einn þessara fræðimanna, David Zhang í háskólanum í Hong Kong skoðaði nýlega hvernig heit og köld tímabil hafa áhrif á samfélög manna. Zhang (o.fl. 2011) tóku saman mikið magn tölfræðigagna og notuðu öflug tölfræðitól við að greina gögnin. Notaðir voru 14 mismunandi þættir, líkt og hæð manna, gullverð, trjáhringaþykkt og hitastig frá Evrópu milli áranna 1500 og 1800, auk annarra þátta.   Rannsakað var hvort orsakasamhengi væri á milli þessara þátta. Síðan skiptu þeir tímabilinu niður í styttri tímabil, 40-150 ár hvert, til að sjá hvort stór atburður á þessum tímabilum var í raun vegna hitasmismunar á tímabilinu – en sýndi ekki bara leitni við hitastig.

    Sveiflur í loftslagi reyndist vera tölfræðilega marktæk ástæða félagslegs óróa, stríða, fólksflutninga, plága og hungursneiða – auk þess sem loftslag reyndist mun oftar vera ástæða mannlegra hörmunga en aðrir þættir. Helsta ástæðan er sú, segja höfundar,  að breytingar í loftslagi hafa jafnan áhrif á landbúnað, sem veldur minni uppskeru. Það hefur áhrif á gullverð og verðbólgu. Hungursneið af völdum uppskerubrest eykur síðan oft á plágur – og þegar fólki líður illa af öllum fyrrnefndum ástæðum þá eykst reiðin við yfirvöldin og nágrannaríki. Afleiðingin af því er oft á tíðum stríð.

    Við að skipta tímanum upp í tímabil ákveðins hita, þá gátu vísindamennirnir einnig útbúið einskonar spálíkan fyrir seinni tímabil, sem sýndu hvenær líklegt væri að farið yrði yfir ákveðna þröskulda í hörmungum.

    Vísindamenn úr öðrum fögum eru efins um þessar niðurstöður.

    Stjórnmálafræðingur frá Oslo, Halvard Buhaug telur að rannsóknin sé “góð og fullt af nothæfum gögnum”. Honum fannst þó vanta umræðu um það hvað gerðist í framhaldinu – þ.e. með iðnbyltingunni og hvort samfélög manna urðu fyrir vikið ónæmari fyrir loftslagsbreytingum – við auknar tækniframfarir. Einnig virðist óljóst hvort hægt yrði að yfirfæra þetta yfir á framtíðina og þá miklu hlýnun sem búast má við á næstu áratugum og öldum.

    Sagnfræðingur frá New York, William Atwell finnst það stór biti að kingja – að telja loftslagsbreytingar orsök flestra sögulegra hörmunga manna. Honum finnst vanta í rannsóknina áhrif frá trúarbrögðum, viðskipta og annarra þátta. Sem dæmi þá urðu frumbyggjar Ameríku fyrir miklum skakkaföllum af völdum sjúkdóma frá “gamla heiminum” – erfitt að tengja það við loftslagsbreytingar.

    Fornloftslagsfræðingur frá Þýskalandi, Sebastian Wagner telur að tímaramminn hafi verið of víður af öðrum ástæðum. Teymið byrjaði á því að greina gögnin með því að jafna gögnin (e.smoothing) yfir 40 ára tímabil – sem getur haft áhrif á tölfræðilega marktækni gagnanna. Að auki finnst honum það takmarka niðurstöðuna nokkuð að einungis var litið á hitastig en ekki aðra þætti loftslags sem geta haft mikil áhrif, t.d. úrkoma.

    Ljóst er að engin eining er um þessa rannsókn miðað við viðbrögðin, en þrátt fyrir það er þetta áhugavert og skref í rétta átt við að meta áhrif loftslagsbreytinga á hörmungar fyrri tíma.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr frétt á Science Now: Got war? Blame the weather.

    Greinin birtist í PNAS og er eftir Zhang o.fl. 2011: The causality analysis of climate change and large-scale human crisis

    Tengt efni á loftslag.is

  • Áhrif hnattrænnar hlýnunar

    Áhrif hnattrænnar hlýnunar

    Fyrir nokkru kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

    Áhrif hnattrænnar hlýnunar

    Ef halda á því fram að hnattræn hlýnun sé góð, þarf að loka augunum fyrir neikvæðum áhrifum hennar. Ein af algengustu rökunum er að CO2 sé „fæða planta“ og aukin losun á CO2 sé því af hinu góða. Þau rök hundsa þá staðreynd að plöntur þurfa meira en CO2 til að lifa af. „Áburðaráhrif CO2“ eru takmörkuð og verða fljótlega yfirgnæfð af neikvæðum áhrifum aukins varmaálags og tíðari þurrka í framtíðinni [48,49]. Undanfarna öld hafa alvarlegir þurrkar aukist hnattrænt og er búist við því meiri aukningu í framtíðinni [12]. Plöntur geta ekki nýtt sér aukið magn CO2 í lofthjúpnum ef þær eru að drepast úr þorsta [50].

    Þurrkar í fortíð og framtíð með vísitölu Palmers um alvarleika þurrka. Blá litbrigði þýða blautar aðstæður og rauð þýða þurrka. Talan -4 eða lægri bendir til mjög alvarlegra þurrka (51)

    Margar af afleiðingum hnattrænnar hlýnunar hafa engar jákvæðar hliðar. Milli 18 og 53% núlifandi plantna- og dýrategunda gætu verið í útrýmingarhættu fyrir árið 2050 [52]. Úthöfin gleypa í sig mikið af CO2 úr lofthjúpnum, sem veldur súrnun sjávar [53]. Það er talið munu hafa mikla röskun í för með sér fyrir alla fæðukeðju sjávar, til viðbótar við þau neikvæðu áhrif sem bleiking af völdum hlýnunar sjávar veldur [54]. Það er áætlað að um það bil einn milljarður manna reiði sig á sjóinn fyrir töluverðan hluta (>30%) þeirra próteina sem þeir fá úr fæðu [55].

    Við hörfun jökla og minnkandi snjó í fjöllum minnkar einnig vatnsforði milljóna manna sem treysta á þann ferskvatnsforða, sérstaklega sem áveitu í landbúnaði [33]. Svipað er upp á teningnum ef skoðaðar eru sjávarstöðubreytingar og aukin tíðni sjávarflóða, en það getur haft áhrif á milljónir manna á þessari öld þegar selta eykst í hrísgrjónaökrum, fljótum og brunnum þannig að milljónir manna gætu þurft að flytja sig um set. Þeir flutningar gætu aftur orðið til þess að auka hættu á átökum [56].

    Þegar einhver segir að hnattræn hlýnun sé góð og bendir á staðbundin jákvæð áhrif, er vert að hafa í huga að flest bendir til þess að í heildina verði neikvæðu áhrifin mun meiri en þau jákvæðu.

    Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir  síðar.

    Heimildir og ítarefni

    12. IPCC 2007:  The Physical Science Basis.

    33. Immerzeel o.fl. 2010: Climate change will affect the Asian water towers.

    48. Challinor o.fl. 2010: Increased crop failure due to climate change: assessing adaptation options using models and socio-economic data for wheat in China.

    49. Tubiello o.fl.2007: Crop and pasture response to climate change.

    50. Zhao og Running 2010: Drought-Induced Reduction in Global Terrestrial Net Primary Production from 2000 Through 2009.

    51. University Corporation for Atmospheric Research.

    52. Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change.

    53. Hoegh-Guldberg o.fl. 2007: Coral Reefs Under Rapid Climate Change and Ocean Acidification.

    54. Hoegh-Guldberg og Bruno 2010 (ágrip): Impacts of climate change on the world’s marine ecosystems.

    55. Tibbets, J. (2004). The State of the Oceans, Part 1. Eating Away at a Global Food Source.

    56. Dasgupta o.fl. 2007: The impact of sea-level rise on developing countries: a comparative analysis, World Bank Policy Research Working Paper No 4136.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Víngerðarmenn í vanda

    Víngerðarmenn í vanda

    Hækkandi  hitastig mun valda því að ræktendur hágæðavínviðja í Kaliforníu og fleiri stöðum í Bandaríkjunum munu lenda í vandræðum á næstu 30 árum, samkvæmt nýrri rannsókn sem vísindamenn Stanford Háskóla gerðu.

    Í rannsókninni kemur fram að útlit sé fyrir að landsvæði sem nothæft verður til að framleiða hágæða vínvið í Kaliforníu mun minnka um 50% vegna hnattrænnar hlýnunar. Þessi rannsókn er unnin í kjölfar annarar rannsóknar þar sem spár bentu til að 81 prósent svæða sem framleiða hágæða vínvið myndu ekki henta til þess í lok aldarinnar.

    Önnur svæði eru talin geta tekið við hluta af þeirri framleiðslu, t.d. í Oregon og Washington.  Þrjátíu ár eru skammur tími í landbúnaði og því ljóst að víngerðarmenn í Bandaríkjunum þurfa að halda vel á spöðunum ef framleiðsla á ekki að dragast saman.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Environmental Research Letters og eftir Diffenbaugh o.fl. 2011: Climate adaptation wedges: a case study of premium wine in the western United States

    Ítarleg umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu Stanford Háskóla:  Global warming’s Impact on Premium Wine

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar með augum bænda

    Loftslagsbreytingar með augum bænda

    Undanfarna áratugi hafa bændur, í skógivöxnum hlíðum Darjeelings í Himalajafjöllum ,tekið eftir ýmsu undarlegu. Ár og lækir eru að þorna, uppskera minnkar og tré blómstra nokkru áður en vorar. Reynsla þeirra samræmist gervihnattagögnum samkvæmt nýrri grein eftir Chaudhary og Bawa (2011) sem bendir til þess að staðbundin þekking geti í raun hjálpað vísindamönnum að fylgjast með afleiðingum loftslagsbreytinga.

    Höfundar tóku viðtöl við heimilisfólk 250 heimila í 18 þorpum í Himalajafjöllum sem öll eru staðsett í 2000-3ooo metra hæð. Til að skekkja ekki niðurstöðurnar þá var ekki spurt beint út um breytingar í veðrakerfum, heldur kannað hvort einhverjar breytingar hefðu orðið í lífsgæðum síðastliðin 20 ár og þaðan fylgt eftir með spurningum um t.d. þurrka og hitastig.

    Sem dæmi þá sagði hópur kvenna frá þeirri reynslu sinni að þær þyrftu nú að þvo áhöld til geymslu matar oftar en fyrr, vegna þess að maturinn skemmdist fyrr sökum hærra hitastigs. Annað dæmi eru þorpsbúar sem bjuggu hæst, töluðu um óvenjuheit sumur og að það vori fyrr. Neðar í hlíðunum var síðan kvartað yfir auknum ágangi moskítóflugna og algengar plöntur finnast hærra í fjöllunum en áður á sama tíma og aðrar plöntur hafa horfið.

    Breytileiki í landbúnaði er ekki eitthvað sem er óþekkt, en í viðtölunum kom fram að erfitt væri orðið að stunda ræktun vegna þess hversu ófyrirsjáanlegt veðrið er að verða.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin sem til umfjöllunar er, má lesa í Biology letters og er eftir  Chaudhary og Bawa 2011 (ágrip): Local perceptions of climate change validated by scientific evidence in the Himalayas

    Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu Science: Watching Climate Change Through a Farmer’s Eyes.

    Tengt efni á loftslag.is

  • NASA vaktar fæðuöryggi í heiminum

    NASA vaktar fæðuöryggi í heiminum

    Endurbirting á myndböndum.

    Hér undir má sjá 2 myndbönd sem fjalla um störf NASA og fæðuöryggi í heiminum. Hvernig er hægt að nota gervihnetti NASA til að vakta ræktun í heiminum? Það er komið inn á þetta í eftirfarandi myndböndum. Markmið NASA er að upplýsingar sem verða til við þessa vöktun verði öllum aðgengileg án endurgjalds.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Minnkandi maísframleiðsla við hnattræna hlýnun

    Minnkandi maísframleiðsla við hnattræna hlýnun

    Á sama tíma og heimsmarkaðsverð á matvælum er í hæstu hæðum birtist ný grein þar sem sýnt er fram á það (ekki í fyrsta skipti) að hnattræn hlýnun muni í heildina hafa neikvæð áhrif á landbúnað og fæðuframleiðslu manna í heild. Rannsóknin sýnir að við 1°C hlýnun þá mun framleiðsla á maís í Afríku dragast saman.

    David Lobell og meðhöfundar (2011) greindu gögn frá yfir 20 þúsund tilraunum með maísuppskeru sem gerðar voru víðsvegar í Afríku milli áranna 1999 og 2007. Þessar tilraunir voru upphaflega hannaðar til að kanna ný afbrigði af maís og virðast þær sérstaklega notadrjúgar til loftslagsrannsókna, þá vegna þess hversu dreifðar þessar tilraunir voru og náðu yfir fjölbreytilegt umhverfi víðsvegar um álfuna. Með samanburði við niðurstöður tilraunanna og upplýsinga frá veðurstöðvum gátu höfundar fundið tengsl milli hlýnunar, úrkomu og uppskerubrests.

    Helst kom á óvart að maísplantan, sem er talin óvenju hitaþolin, skyldi sýna jafn mikinn uppskerubrest við hækkun hitastigs þegar hitinn fór yfir 30°C. Á stöðum þar sem vökvun var ákjósanleg, þá þýddi gráðuhækkun yfir 30°C (yfir einn sólarhring) að uppskera minnkaði um 1%. Þar sem aðstæður voru sambærilegar og í þurrkum þá minnkaði uppskeran enn frekar eða um 1,7% að auki við hverja gráðu yfir 30°C.

    Höfundar reiknuðu að auki út áhrif þess á uppskeru ef meðalhiti uppskerutímans í heild myndi hækka um 1°C við ákjósanlegar aðstæður og við aðstæður sem minna á þurrka, sjá mynd:

    Mynd 1 -mat líkans á áhrifum 1°C hlýnun á uppskeru þar sem hitastig er ákjósanlegar (græn lína) og við þurrk aðstæður (rauð lína). Skyggðu svæðin sýna áætlað 95% öryggisbil.

    Í lok rannsóknarinnar var kannað hvaða áhrif aukning um 1°C gæti haft á fæðuframleiðsu í Afríku. Í ljós kom að sum af kaldari svæðum Afríku myndu græða á hækkun hitastigs og framleiðsla aukast, en að meirihluti maísframleiðslusvæða Afríku myndu verða hart úti. Við ákjósanlegar aðstæður vökvunar þá myndi uppskera minnka á 65% þeirra svæða þar sem maísrækt fer nú fram. Ef þurrkar myndu að auki herja á svæðin, þá myndi hnignun verða á öllum svæðum og yfir 20% hnignun á 75% svæðanna.

    Vegna þess hversu umfangsmiklar tilraunirnar voru og landfræðileg dreifing þeirra, þá veitir þessi rannsókn okkur bestu sýn, hingað til, á það hvernig maísuppskera mun verða við hlýnandi loftslag. Sambærileg svæði, líkt og Mið- og Suður Ameríka, þar sem maís er fastur liður í fæðu íbúa eru líkleg til að verða hart úti við hækkandi hita, með minnkandi uppskeru á maís.

    Þetta er enn ein rannsóknin þar sem mýtan þetta er ekki svo slæmt er hrakin: því svo sannarlega er ástandið slæmt.

    Heimildir og ítarefni

    Þýðing af færslu á skeptical science – Maize harvest to shrink under Global Warming

    Rannsóknin birtist online í tímariti Nature Climate, sjá Lobell o.fl. 2011 – Nonlinear heat effects on African maize as evidenced by historical yield trials

    Tengt efni á loftslag.is

  • Fjórar gráður

    Fjórar gráður

    Vísindamenn bresku Veðurstofunnar (UK Met office) hafa áður sýnt fram á möguleika þess að Jörðin geti hitnað um yfir 4°C á seinni hluta þessarar aldar, ef ekki verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nú er nýútgefið  hefti Konunglegu Vísindaakademíunnar (A Philosophical Transactions of the Royal Society) þar sem birtar eru ítarlegar rannóknir á því hvernig búast má við að loftslag Jarðar verði við 4°C hækkun hitastigs og afleiðingar þess.

    Meðal þess sem kemur fram í heftinu er hvernig Amazon frumskógurinn mun verða fyrir töluverðum skakkaföllum, auk þess sem monsún hringrásin mun breytast og að hluta til bregðast. Aðalvandamál Jarðar sem er 4°C heitari en fyrir iðnbyltinguna, er samt skortur á vatni. Með því að draga úr losun CO2  þannig að hitastig hækki ekki upp fyrir 2°C þá mun fjölgun mannkyns hafa mest áhrif á vatnsauðlindir Jarðar, en við 4°C hækkun þá munu þurrkar hafa lang mest áhrif á aðgengi fólks að vatni.

    Annað sem kemur fram í hefti Vísindaakademíunnar er að frjósemi svæðisins sunnan við Sahara í Afríku mun rýrna og fyrir vikið er búist við að maís framleiðsla á því svæði muni minnka um 19 % og framleiðsla bauna minnka um 47 % miðað við núverandi ástand. Þá er búist við að öfgaveður, sjávarstöðuhækkun og vatnsskortur muni valda miklum fólksflutningum og flótta.

    Heimildir og ítarefni

    Þemahefti Konunglegu Vísindaakademíunnar má finna hér: Theme Issue ‘Four degrees and beyond: the potential for a global temperature increase of four degrees and its implications’ compiled and edited by Mark G. New, Diana M. Liverman, Richard A. Betts, Kevin L. Anderson and Chris C. West

    Stutt umfjöllun NewScientist um heftið má lesa hér: Royal Society paints picture of a world 4 °C warmer

    Tengt efni á loftslag.is

  • Þurrkar framtíðar

    Þurrkar framtíðar

    Mörg af fjölmennustu ríkjum heims mega búast við aukinni hættu á alvarlegum og langvinnum þurrkum á komandi áratugum, samkvæmt nýrri grein. Samkvæmt greiningu vísindamannsins Aiguo Dai þá má búast við auknum þurrkum víða um heim á næstu 30 árum og jafnvel má búast við þurrkum sem mannkynið hefur ekki orðið vitni að í lok þessarar aldar.

    Með því að nota 22 loftslagslíkön, ásamt flokkun á alvarleika þurrka – auk þess að greina fyrri rannsóknir, þá kemur í ljós að mikill hluti Ameríku auk stórra hluta Evrópu, Asíu, Afríku og Ástralíu gætu átt á hættu aukna tíðni alvarlegra þurrka á þessari öld. Á móti kemur að svæði á hærri breiddargráðum, t.d. Alaska og Skandinavía eru líkleg til að verða blautari.

    Dai varar þó við að niðurstaðan byggir á bestu núverandi upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda – sem gæti þó breyst í framtíðinni, auk þess sem lítið er vitað hvernig náttúrulegur breytileiki mun hafa áhrif á þurrka í framtíðinni, t.d. El Nino. Dai hefur þó áhyggjur af því að bæði almenningur og vísindasamfélagið geri sér ekki almennilega grein fyrir alvarleika loftslagsbreytinga með tilliti til þurrka og segir: “Ef einungis brot af því sem kemur fram í þessari rannsókn verður að veruleika, þá verða afleiðingarnar á samfélag manna um allan heim, gríðarlegar.”

    Þótt mikill hluti af landsvæðum á hærri breiddargráðum fái aukna vætu, þá eru heildaráhrifin þau að stærri svæði verða fyrir þurrkum en áður og sérstaklega landsvæði þar sem fólksfjöldi er mikill. Svæðið í kringum Miðjarðarhafið er talið verða fyrir mestum þurrkum á næstu áratugum og í lok aldarinnar þá benda líkön til þess að skalinn sem hann notaði (Palmer Drought Severity Index) verði ekki nægur til að gefa mælikvarða á alvarleika þurrkanna þar.

    Þurrkar framtíðar. Þesssi fjögur kort sýna möguleg þurrkasvæði framtíðar, hnattrænt séð – miðað við núverandi sviðsmyndir varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi kort eru ekki ætluð sem spár, þar sem ekki er vitað hver þróunin verður í losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem náttúrulegur breytileiki getur breytt mynstri þess hvar þurrkar verða. Notaður er Palmer vísir (Palmer Drought Severity Index) sem gefur svæðum jákvæða tölu á svæðum þar sem úrkoma er mikil og neikvæða tölu á þurrum svæðum. Talan -4 og neðar er þar sem búist er við óvenjuslæma þurrka. Svæði sem eru blá eða græn eru þau þar sem minni hætta er á þurrkum á meðan svæði með rauðu og fjólubláu eru talin hættust við þurrkum (mynd Wiley Interdisciplinary Reviews/UCAR). Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.

    Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að hin hnattræna hlýnun muni breyta úrkomumynstri og að heittempraða beltið myndi vaxa með tilheyrandi þurrkum og að hærri breiddargráður fengju aukna úrkomu. Að auki benda fyrri rannsóknir til þess að loftslagsbreytingar séu nú þegar farnar að hafa áhrif í auknum þurrkum.

    Það eru ekki eingöngu úrkomubreytingar sem skipta máli, heldur einnig hversu heitt er og þá hversu hratt raki gufar upp, auk annarra þátta. Í kjölfar þess  geturjarðvegur orðið það þurr að í mörgum tilfellum geti hann ekki lengur gefið af sér uppskeru, auk þess sem vatnsforðabúr stöðuvatna og grunnvatns getur minnkað, sem myndi valda vatnsskorti. Margir tala einmitt um að vatnsskortur séu í raun alvarlegustu afleiðingar loftslagsbreytinganna sem nú eru að verða og munu aukast á komandi áratugum.

    Heimildir og frekari upplýsingar

    Umfjöllun um rannsóknina má finna á heimasíðu UCAR: Climate change: Drought may threaten much of globe within decades

    Greinin birtist í tímaritinu Wiley Interdisciplinary Reviews: Climate Change og eftir Dai (2010): Drought under global warming: a review

    Tengdar færslur á loftslag.is

  • Er hlýnun jarðar slæm?

    Er hlýnun jarðar slæm?

    Röksemdir efasemdamanna…

    Hlýnun Jarðar er í raun góð – í raun og veru blómstra samfélög manna á hlýindaskeiðum á sama tíma og það dregur úr lífsgæðum við kólnun (samanber á Litlu Ísöldinni).

    Það sem vísindin segja…

    Neikvæð áhrif hlýnunar Jarðar á landbúnað, heilsu og umhverfi yfirskyggja jákvæðu áhrif hlýnunarinnar.

    Hér fyrir neðan er farið yfir ýmis konar áhrif hlýnunar Jarðar og sýnir þessi upptalning nokkuð vel að fæstar afleiðingar loftslagsbreytinga eru ríkulegum kostum búnar, þvert á móti geta afleiðingarnar orðið slæmar og kostnaðarmiklar.

    Landbúnaður

    Þótt CO2 sé nauðsynlegt fyrir vöxt plantna, þá krefst allur landbúnaður stöðugs framboðs af vatni, en loftslagsbreytingar munu að öllum líkindum raska því framboði með auknum flóðum og þurrkum. Því hefur verið haldið fram að á hærri breiddargráðum – t.d. í Síberíu – muni landbúnaður dafna við hlýnun Jarðar. Því fer fjarri, því jarðvegur á Norðurskautinu og aðliggjandi landsvæðum er frekar snauður til ræktunar, auk þess sem magn sólarljóss sem nær yfirborðinu yfir sumartímann mun ekki breytast sökum möndulhalla Jarðar. Auk þess getur landbúnaður orðið fyrir röskun vegna skógarelda og breytinga í árstíðarsveiflum í náttúrunni. Breytingar í grasvexti og vatnsframboði getur einnig haft áhrif á beit og velfarnað búfénaðs. Aukin hlýnun getur sérstaklega haft slæm áhrif á þau lönd þar sem hitastig er nú þegar við mörk þess sem uppskera getur dafnað við – t.d. í hitabeltinu.

    Heilsa

    Hlýrri vetur mun þýða færri dauðsföll, sérstaklega meðal þeirra samfélagshópa sem eru viðkvæmir fyrir kulda, t.d. hjá öldruðum. Hins vegar eru aldraðir einnig viðkvæmir fyrir auknum hita og dauðsföll tengd hitabylgjum eru talin munu aukast um fimm sinnum hraðar en þau dauðsföll sem að hlýrri vetur koma í veg fyrir. Einnig er talið líklegt að heitara loftslag muni auka útbreiðslu á pestum af völdum skordýra, líkt og moskítóflugna, en malaría er nú þegar farin að finnast á stöðum sem það hefur áður verið óþekkt.

    Bráðnun á skautunum

    Á meðan íslaust Norðurskaut, gæti orðið jákvætt fyrir siglingar milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins, þá munu neikvæðu þættirnir yfirskyggja það. Skaðvænlegir þættir eru t.d. hvarf búsvæða ísbjarna og aukin hreyfing borgaríss sem getur skapað hættu fyrir skipaferðir. Minni útgeislun frá hafís (e. ice albedo) sem gerir það að verkum að sjórin dregur í sig meiri hita, veldur einnig magnandi svörun, þ.e. aukinn hiti sjávar eykur bráðnun grænlandsjökuls (hækkun sjávarstöðu). Auk þess þá eykst hitastig á norðurslóðum sem aftur getur orðið til þess að sífreri þiðnar hraðar og fer að losa metangas í auknu mæli (sem er áhrifamikil gróðurhúsalofttegund). Bráðnun jökulbreiðunnar á Suðurskautinu er enn fremur talin muni auka enn frekar á hækkun sjávarstöðu sem hefur enga sjáanlega kosti í för með sér.

    Súrnun sjávar

    Súrnun sjávar er eitt af því sem vísindamenn hafa áhyggjur af – en það eru engir sjáanlegir kostir við breytingu á sýrustigi sjávar. Súrnun sjávar er að verða vegna þess að úthöfin eru að taka til sín CO2 úr andrúmsloftinu og er talið að það geti haft skaðvænleg áhrif á fæðukeðjur sjávar.

    Jöklabráðnun

    Bráðnun jökla hefur ýmsa ókosti í för með sér og er stærsti ókosturinn sá að um einn sjötti jarðarbúa reiða sig á ferskvatnhringrás sem byggist á bráðnun yfir sumartímann og vöxt jökla á veturna. Sú hringrás – til drykkjar og fyrir landbúnað – getur brugðist.

    Sjávarstöðubreytingar

    Stór hluti yfirborðs jarðarinnar er á láglendi sem mun verða fyrir áhrifum á smávægilegri hækkun sjávarstöðu. Inn í hrísgrjónaakra seitlar sjór, sem getur eyðilagt uppskeru. Sjór getur mengað ár og fljót, eftir því sem það blandast ferskvatninu innar í landið og að auki mengast ferskvatnsbrunnar. Ef tekið er mið að því að síðasta skýrsla IPCC tók ekki með í reikninginn spálíkön um aukna bráðnun jökulbreiðanna á Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu, sökum óvissu þegar hún var skrifuð, þá er talið líklegt að um vanmat hafi verið að ræða hjá þeim. Það eru engir sjáanlegir kostir við hækkun sjávarstöðu.

    Umhverfisbreytingar

    Jákvæð áhrif loftslagsbreytinga geta orðið í átt til grænni regnskóga og aukinn vöxt planta í Amazon, auk meiri gróðurs á norðlægum breiddargráðum. Einnig er talið að það verði meiri þörungablómi á sumum hafsvæðum. Neikvæðu áhrifin eru meðal annars enn meiri stækkun súrefnisfirtra hafsvæða, mengun eða skortur á ferskvatni, aukin tíðni náttúrulegra skógarelda, miklir þurrkar sem valda skemmdum á gróðri, aukin hætta á útdauða kórals, hnattræn minnkun jurtasvifdýra, breytingar í fari fugla og dýra, breytingar í árstíðabundnum atburðum (varpi, blómgun), truflun á fæðukeðjum og útdauði dýra.

    Efnahagur

    Neikvæð efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga gætu orðið töluverðar, en ekki hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif þeirra. Hin svokallaða Stern skýrsla sýndi skýrt hina efnahagslegu lægð sem gæti orðið við frekari loftslagsbreytingar. Þótt deilt sé um hversu nákvæmar tölur um neikvæðu áhrif loftslagsbreytinga yrðu, þá yrði kostnaðurinn við að draga úr loftslagsbreytingum mun minni. Í sumum sviðsmyndum síðustu skýrslu IPCC, er útlit fyrir mikla fólksflutninga vegna hækkandi sjávarstöðu. Truflun á hnattrænni verslun, samgöngum, orkuframboði og vinnuframboði, bankastarfsemi og almennri fjármálastarfsemi, auk fjárfestinga og trygginga gæti skapað óstöðugleika hjá bæði þróuðum og vanþróuðum ríkjum. Markaðir eru taldir geta orðið óstöðugir svo og opinberar fjárfestingar, líkt og lífeyrissjóðir auk tryggingafyrirtækja sem gætu orðið fyrir skakkaföllum.

    Vanþróuðu ríkin, sem sum hver eru nú þegar í stríðsátökum, gætu dregist enn frekar inn í deilur yfir auðlindum líkt og vatni, orku og fæðu, sem myndi enn frekar trufla efnahagslegan vöxt á sama tíma og þau væru að aðlagast loftslagsbreytingum. Það er almennt talið að skaðvænleg áhrif loftslagsbreytinga muni verða mest í þeim ríkjum sem hafa minnsta getu til að aðlagast.

    Heimildir, frekari upplýsingar og tengt efni

    Þessi færsla er þýðing á færslu af Skeptical Science, þar sem reynt hefur verið að einfalda textann fyrir almenna lesendur. Einnig er til upprunalegur texti um það sama og bendum við á þá færslu með frekari heimildir.

    Á heimasíðu National Geographic má sjá áhugaverðan lista yfir  jákvæð og neikvæð áhrif hlýnunar Jarðar á Grænlandi

    Tengdar færslur á loftslag.is