Hér undir má sjá skopteikningu eftir Marc Roberts, sem hann gerði eftir að stjórnmálamaðurinn John Shimkus, sem er bandarískur þingmaður, kom með ummæli í þessa veru.
Hér undir eru 3 tenglar þar sem fjallað er nánar um þessi ummæli þingmannsins. Maður veit varla hvort að maður á að hlæja eða gráta þegar umræða um loftslagsmál fer á þetta stig…og svo frá þingmanni sem er að reyna að komast í þingnefnd sem hefur m.a. það verksvið að ræða um loftslagsbreytingar af mannavöldum og hugsanlegar mótvægisaðgerðir.
Meðal þess sem kom fram í máli hans var eftirfarandi:
I believe that is the infallible word of God, and that’s the way it is going to be for his creation. […] The earth will end only when God declares its time to be over.
Gleymið öllu um hybrid, rafmagn eða bíla knúna öðrum viðlíka orkugjöfum, nú er það bara spurning um að nota vöðvaaflið.
Aðal hugarfóstur bandaríska verkfræðingsins Charles Greenwood er bíll sem knúður er með allt að fjórum handföngum. Hugmyndin er að bílstjóri og farþegar togi og ýti á einhverskonar vogarstangir, sem minna á handföng á æfinga kappróðrartæki eða handknúna lestarútbúnaðinn sem maður sér oft í teiknimyndum þar sem hjólin eru knúin áfram með handafli. Í fyrstu fréttum af þessum bíl var sagt frá því að það væru holur í gólfinu eins og í Flint Stones, en það er víst ekki alveg rétt.
Hægt er að knýja bílinn áfram af aðeins einum eða tveimur persónum, en það getur væntanlega orðið þreytandi á lengri vegalengdum. Í framtíðinni verður einnig hægt að breyta bílnum í hybrid með því að tengja auka orkukerfi eins og rafmagn (eða jafnvel annarskonar eldsneyti þegar fram líða stundir) sem gerir bílinn upplagðan fyrir þá sem vilja ferðast yfir lengri vegalengdir eða verða bara þreyttir. Hvort þessi hönnun eigi eftir að slá í gegn meðal almennings er enn á huldu, en sjón er sögu ríkari, myndbandið hér undir sýnir gripinn í notkun.
Léttar vangaveltur frá David Mitchell um loftslagsbreytingar. Mitchell er annar helmingur gamanþáttanna Mitchell and Webb, sem einhverjir kunna að kannast við.
Skopteiknarinn Marc Roberts gerði þessa skopteikningu.
Hér undir er lausleg þýðing. Persónur eru þeir Ern og Frank.
Mynd 1: E – Hæ Frank, hvernig gengur með BYGGINGUNA? F – Mjög VEL, takk fyrir.
Mynd 2: E – En…hvað er ÞETTA sem liggur á gólfinu? Brotinn MÚRSTEINN? Þú getur ekki BYGGT með BROTNUM steinum! F – Ég er EKKI að því.
Mynd 3: E – FRANK BYGGIR MEÐ BROTNUM MÚRSTEINUM! FRANK BYGGIR MEÐ BROTNUM MÚRSTEINUM!!! Hann er BRJÁLAÐUR! F – Ertu á LYFJUM, Ern?
Mynd 4: E – Það þarf að RÍFA ALLA BYGGINGUNA NIÐUR, Frank. F – Byggingin er TRAUST Ern. AHTUGAÐU það SJÁLFUR!
Mynd 5: F – UNDIRSTAÐAN er TRAUST. SMÍÐIN er TRAUST og ALLIR ÞESSIR múrsteinar eru TRAUSTIR, nema ÞESSI þarna, ATHUGAÐU málið! E – Engin TÍMI. Verð að hefja NIÐURRIF. F – AFHVERJU?
Mynd 6: E – AFHVERJU?! – Tja, það er MJÖG ÓLÍKLEGT að hún FALLI SJÁLF SAMAN, er það nokkuð?
Undanfarin ár hafa nokkrir vísindamenn og áhugamenn um hafís Norðurskautsins gefið út spár um það hvernig útbreiðsla hafíss verður háttað í lok sumarbráðnunar. Þetta er meira til gamans gert en alvöru, en einnig er þetta nokkur keppni milli þeirra sem taka þátt – til að sýna fram á að þeirra aðferð til að spá um hafísútbreiðslu sé best. Þess ber að geta að sá sem þetta skrifar hefur ekki mikla trú á slíkum spám – því allt of mikið getur gerst sem hefur áhrif á útbreiðsluna – en það er gaman að prófa og sjá spádómsgáfurnar.
Spár um hafísútbreiðslu (mynd frá http://www.arcus.org/search/seaiceoutlook). Smelltu á myndina til að stækka.
Þess ber að geta að til að taka þátt í þessari spá, þá þurftu menn að senda inn tölur í lok maí, en síðan þá hefur margt gerst og bráðnun hafíssins komist á mikið skrið.
Flestir virðist spá því að útbreiðslan verði mitt á milli þess sem hún var árið 2008 (um 4,7 milljónir ferkílómetra*) og 2009 (5,4 milljónir ferkílómetra), en fyrir þá sem ekki vita þá var lægsta útbreiðsla sem mælst hefur árið 2007 (um 4,3 milljónir ferkílómetra).
Hér má sjá þróunina undanfarin ár:
Hafísútbreiðsla í september frá 1979-2009 sýnir stöðuga hnignun (mynd National Snow and Ice Data Center – NSIDC).
Til að setja hámarksútbreiðsluna undanfarna áratugi í sögulegt samhengi þá er hér línurit sem sýnir útbreiðsluna undanfarna hálfa öld eða svo – sumarútbreiðslan er neðsti hluti hverrar árstíðasveiflu á línuritinu:
Það er því greinilegt að það eru miklar sveiflur á milli ára og margt getur gerst á stuttum tíma.
Staðan þegar þetta er skrifað er sú að útbreiðslan í dag er minni en hún var metárið 2007, fyrir sömu dagsetningu:
Hafísútbreiðsla 24 júní 2010
Að auki er rúmmál hafíssins það lægsta sem hefur verið undanfarna áratugi, samkvæmt útreikningum Polar Science Center:
Rúmmál hafíss Norðurskautsins samanber útreikninga fyrir 18 júní 2010. Smella á mynd til að stækka.
Hvað gerist í framhaldinu er óljóst, vindar og skýjahula spila mikla rullu – auk hitastigs sjávar og lofts þar sem hafísinn er. Þykkt og dreifing ræður miklu og óteljandi þætti hægt að taka inn í spárnar.
Mín spá:
Ég ákvað lauslega áður en ég hóf að skrifa þessa færslu að líta eingöngu á eitt og miða mína spá út frá því – þ.e. leitninni undanfarna þrjá áratugi. Ef ég hefði gert það þá hefði spá mín orðið sú að lágmarksútbreiðsla eftir sumarbráðnun yrði sirka svipuð og í fyrra (5,4 milljónir ferkílómetra) – sem er svipað og margir af sérfræðingunum spá. Svo ákvað ég að taka inn í reikningin bráðnunina undanfarinn mánuð og þá staðreynd að útbreiðslan nú er minni en árið 2007 – sem var metárið. Einnig tek ég með í reikninginn að rúmmal hafíssins hefur hreinlega hríðminnkað undanfarna mánuði og því ætti að vera ljóst að það ætti að þurfa minna til að bráðnun nái sér á strik enn frekar. Auk þess erum við stödd núna á ári sem verður mögulega það heitasta frá upphafi mælinga.
Því spái ég hér með að lágmarksútbreiðsla hafíss verði sambærileg við metárið 2007 – þ.e. að það verði í kringum 4,3 milljónir ferkílómetra í lok sumarbráðnunar.
Ég vil að lokum skora á sem flesta til að skrifa spá sína hér fyrir neðan og rökstuðning. Allt í gamni að sjálfsögðu.
*Hér er miðað við tölur frá NSIDC og má búast við lokatölum í október í haust. Bíðum spennt.
Evrópskur gervihnöttur, sem að vaktar raka í jarðvegi, verður fyrir truflun frá ólöglegum útvarpsbylgjum. Í febrúar byrjaði SMOS (Soil Moisture and Ocean Salinity) gervihnötturinn að senda niðurstöður mælinga sinna niður til jarðar, en hingað til hafa verið miklar truflanir af völdum ólöglegra útvarpsbylgja.
Í lok mars kom tilkynning frá vísindamönnunum um þessar truflanir, en sendar sem senda á sömu bylgjulengdum og gervihnettirnir nema, líkt og óleglegar útvarps og sjónvarpsbylgjur eru helstu truflanavaldarnir. Þær bylgjulengdir eru fráteknar fyrir vísindarannsóknir. Einnig hafa verið einhver vandkvæði vegna loftneta sem sett voru upp í kalda stríðinu og eru enn virk.
Frá því í mars, þá hefur orðið nokkur árangur í að loka fyrir þessar ólöglegu bylgjur. Hér fyrir neðan má til dæmis sjá mynd sem sýnir truflanir fyrir og eftir á Spáni – þó enn séu truflanir:
Truflanir af völdum útvarpsbylgja, fyrir og eftir lokunum ólöglegra útvarpssendinga á Spáni.
Suður Evrópa er þó ekki enn orðin “hrein” af ólöglegum útvarpsbylgjum, ennig eru stór vandamál enn í Afríku og Asíu. Það er sérstaklega bagalegt í Afríku þar sem mikilvægt er að fylgjast með raka í jarðvegi og til að halda utan um vatnsforða í Afríku.
Búist er við aukinni pressu á að lokað verði á þessar ólöglegu útvarpssendingar, þar sem Bandaríkjamenn hyggjast senda á loft tvo nýja gervihnetti sem mæla á sömu bylgjulengd, auk gervihnattar frá kínverskum rannsóknaraðilum.
Átakið Hjólað í vinnuna fer í gang miðvikudaginn 5. maí og stendur yfir til 25. maí. Hjólað í vinnuna er orðið að árlegum viðburði, þar sem starfsmenn fyrirtækja landsins eru hvattir til að hjóla, ganga, fara á línuskautum eða á annan hátt nota eigin orku til að komast í og úr vinnu. Undirritaður hefur verið með undanfarin ár og verður með að því marki sem mögulegt er í ár. Hér undir ætla ég að skoða ávinningin af átakinu út frá nokkrum sjónarmiðum. Í útreikningunum tek ég sem dæmi einstakling sem vegur 80 kg og sem þarf að fara 6 km til vinnu, þ.e. 12 km til og frá vinnu. Hann er eigandi ósköp venjulegs skutbíls, með 1600 cl vél, en þó sjálfskipts. Helstu útreikningar eru gerðir með hjálp reiknivélanna á orkusetur.is.
Kolefnissjónarmið
Með því að hjóla 12 km á dag í stað þess að keyra, þá minnkar losun CO2 um 2,3 kg á dag, sem gerir í allt á þessum 13 dögum 29,9 kg minni losun CO2 út í andrúmsloftið en ella af einstaklingnum. Þetta á við um einstakling, en í fyrra voru farnir 493.202 km í allt sem þýðir út frá sömu forsendum að losun CO2 minnkaði um u.þ.b. 94,5 tonn í átakinu.
Hitaeiningasjónarmið
Ef hjólaðir eru 12 km á dag þá er kaloríubrennslan um 406 kal á dag, sem eru um 200 kal hvora leið fyrir sig. Á myndinn neðst í færslunni (af heimsíðunni orkusetur.is) má sjá hvað 200 kal eru í formi hinna ýmsu matvæla. Heildar kaloríubrennslan alla 13 daganna væri því samkvæmt þessu 5.278 kal. Þess má geta að brennslan er meiri ef gengið er.
Sparnaðarsjónarmið
Við að spara bílinn þessa 156 km sem ætla má að bíllinn sitji heima með því að taka þátt dag hvern, má spara í beinhörðum peningum u.þ.b. 2.500 krónur bara í bensín kostnað. Sem eru um 8 milljónir í heildina miðað við tölurnar 2009.
Vellíðunarsjónarmið
Það má kannski segja að mikilvægast fyrir flesta sé sú vellíðun sem fæst út úr því að hreyfa sig á degi hverjum, það er ekki vanþörf á fyrir venjulegar skrifstofublækur eins og t.d. þann sem þetta skrifar.
Heimasíða NASA um hnattrænar loftslagsbreytingar er skemmtileg – allavega fyrir áhugafólk um loftslagsbreytingar og mjög notendavæn. Þar er meðal annars skemmtilegt próf þar sem hægt er að athuga þekkingu sína á hitastigi Jarðar.
Til að taka prófið, smelltu þá á myndina hér fyrir neðan (eða á þennan tengil – NASA Global Climate Change site). Á forsíðunni hægra megin er glugginn “Cool Stuff” og má þar meðal annars finna prófið “Hot Challenge”. Sá sem þetta skrifar fékk ekki fullt hús stiga – þorir þú?
Skemmtileg háðsádeila sem tengist Climategate málinu svokallaða. Eftirfarandi er lýsingin, sem fylgir á YouTube frá Mark Fiore, sem er höfundurinn, á myndbandinu:
Sjáið hverjir aðrir eru viðriðnir hinna svokölluðu “Climategate” tölvupósta sem voru birtir rétt fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn. Hverjir aðrir kalla fólk fífl og láta sínu persónulegu hleypidóma inní bréfaskriftir varðandi rannsóknir sínar? Pólitísk teiknimynd eftir Mark Fiore.