Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • COP15: Uppnám, þrýstingur og titringur

    Þriðji dagur loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fjallaði að miklu leiti um danska skjalið, sem lekið var til breska blaðsins The Guardian. Í skjalinu voru drög að loftslagssamningi á heimsvísu. Þar sem m.a. annars er lagt til að þróunarþjóðirnar skuli vera með í bindandi samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem er breyting frá Kyoto bókuninni.

    Ban Ki-moon ritari Sameinuðu þjóðanna, hefur staðfest að Sameinuðu þjóðirnar séu í forsvari fyrir loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn, eftir að upp kom vantraust á milli ríkari og fátækari þjóða, vegns skjalsins sem lekið var. Hann sagðist vera sannfærður um að samkomulag næðist um tafarlausar aðgerðir vegna hnattrænnar hlýnunar, sjá nánar í grein the Guardian.

    frontpage_picture

    Helstu atriði þriðja dags loftslagsráðstefnunnar, samkvæmt fréttaritara dr.dk Thomas Falbe:

    1. Þróunarríkin í uppnámi

    Formaður G77, sem er samninganefnd 134 þróunarríkja, kom með harða gagnrýni á Lars Løkke Rasmussen í dag. Lumumba Stanislaus Di-Aping sakaði danska forsætisráðherran um að grafa undan ráðstefnunni og sagði að það væri móðgun við Connie Hedegaard. Hann undirstrikaði einnig að hvorki skjölin né grundvallaratriðin í þeim gætu orðið grunnur að loftslagssamningi. Þessi harði tónn, er nokkuð sem Thomas Falbe telur vera vegna þeirra háu væntinga sem þróunarríkin höfðu um það að hægt yrði að ná samningum. Tónninn var það harður að um tíma var rætt um að ráðstefnunni yrði frestað þar til Connie Hedegaard hefði vísað skjalinu algerlega á bug. Hún þurfti því að nota daginn og nýta alla sína diplómatísku reynslu til að róa niður samninganefndir þróunarlandanna, það gerði hún m.a. með því að leggja áherslu á að skjalið hefði aðeins verið hugsað sem drög.

    2. Aukin þrýstingur á að ná samkomulagi

    Áhugaverð tilhneyging, sem einnig varð ljós í dag, er að aukin þrýstingur er fyrir því að ná samkomulagi. Þrátt fyrir uppnámið sem varð vegna skjalanna sem var lekið, þá er aukin þrýstingur á því að það liggi fyrir samkomulag, þegar ýmsir ráðherrar koma á ráðstefnunnar um helgina og í næstu viku.

    3. Fjögur atriði valda titringi

    Thomas Falbe bendir á fjögur atriði sem valdi titringi við umræðurnar í augnablikinu, sem eru:

    • Hversu mikið og hversu hratt eiga ríkari löndin að draga úr losun koldíoxíðs?
    • Hvernig á að flokka þróunarríkin, svo lönd eins og Indland og Kína verði einnig skylt að draga úr sinni losun?
    • Hversu mikið, fjárhagslega, á að bæta fátækustu ríkjunum það upp, ef þau minnka sína losun?
    • Hvernig verði hægt að tryggja að sú hjálp sem þróunarlöndin fái, fylgi einnig gjörðir?


    [Viðbót við upphaflegu færslunni, 9.12 klukkan 21:45]

    Í eftirfarandi myndbandi eru aðalatriði dagsins eins og þau eru tekin saman á YouTube síðu COP15.

  • COP15: Leki, framlög, bið og barátta

    Yfirlit dagsins

    COP15-A-Haitian-delegatio-001Það var uppi fótur og fit á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn þegar skjöl sem lekið var, komu fram í dagsljósið. Þessi skjöl, eru talin vera drög að samningi sem þjóðarleiðtogar hafa átt að skrifa undir í næstu viku. Samkvæmt heimildum þá eru skjölin talin veita ríkari löndum meiri völd og á sama tíma setja Sameinuðu þjóðirnar á hliðarlínuna í framtíðarviðræðum um loftslagsmál. Einnig lítur út fyrir að í skjölunum sé þróunarlöndunum sett ólík takmörk varðandi losun kolefnis á hvern íbúa, miðað við ríkari lönd árið 2050. Þetta er talið hafa þá þýðingu að ríkari þjóðir geti losað u.þ.b. tvöfalt meira 2050, en þróunarlöndin. Hinn svokallaði Danski texti, var leynilegt skjal, sem aðeins einstaklingar í innsta hring ráðstefnunnar höfðu unnið að. Í þeim hópi eru m.a. lönd eins og Bretland, Danmörk og Bandaríkin. Aðeins þátttakendur frá örfáum löndum höfðu haft möguleika á að líta þennan texta augum, eftir að hann var kláraður nú í vikunni.

    Samkomulaginu í skjalinu sem lekið var til the Guardian, sýnir frávik frá Kyoto bókuninni, en samkvæmt Kyoto áttu þær þjóðir sem í gegnum tíðina hafa losað mest af gróðurhúsalofttegundum, að skila meiri minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda en aðrar þjóðir. Samkvæmt skjalinu þá á Alþjóða bankinn (World Bank) að taka við stjórn fjárstuðnings vegna loftslagsbreytinga, en það er einnig breyting frá því sem var í Kyoto bókuninni.

    Greining á skýrslunni, gerð af þróunarlöndunum, hefur komist í hendur the Guardian. Þessi greining sýnir fram á ýmislegt sem veldur þeim áhyggjum, þar á meðal eftirtaldir punktar:

    • Telja þróunarlöndin að neyða eigi þau til að samþykkja ákveðin losunartakmörk, sem ekki voru í fyrri skjölum
    • Flokka á fátækari lönd frekar, með því að búa til nýjan flokk sem kallaður er “þau mest berskjölduðu”
    • Veikja á áhrif Sameinuðu þjóðanna í að höndla fjármagn vegna loftlagsmála
    • Ekki á leyfa þróunarlöndunum að losa meira en 1,44 tonn af kolefni á ári á mann, fyrir 2050, á meðan ríkari lönd fá að losa 2,67 tonn

    Þau þróunarlönd sem hafa séð textan eru sögð vera ósátt við hvernig staðið er að málinu, án viðræðna við þau.

    Hægt er að lesa nánar um þetta mál á the Guardian, ásamt því að skoða skjalið sjálft hér. Það er spurning hvaða áhrif þetta hefur á viðræðurnar og hvort þetta skjal er eitthvað sem var hugsað sem uppkast að einhverskonar samkomulagi og svo hvort að þjóðirnar geti fundið lausn á málinu þrátt fyrir lekann á skjalinu. En væntanlega verður að telja líklegt að þetta muni hafa einhver áhrif á framgang mála. Samkvæmt þessari heimild, þá er skjalið 10 daga gamalt og gæti hafa tekið breytingum síðan þá.

    Önnur helstu atriði dagsins, samkvæmt fréttaritara dr.dk Thomas Falbe:

    1. Framlag Evrópubandalagsins til þróunarlandanna

    Það var mikið rætt í dag, hversu mikið fjármagn Evrópubandalagið myndi útvega til að hjálpa þróunarlöndunum við að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Deilan snýst ekki minnst um það hvort peningarnir eigi að koma frá núverandi þróunaraðstoð eða með “nýjum leiðum”.

    NGO samtök (nongovernmental organisations) reyndu að auka pressuna á Evrópusambandið, með gagnrýni varðandi það að Evrópusambandið hafi peninga til ráða, en skorti metnaðinn til að gera eitthvað í málunum. Þær fjárhæðir sem rætt er um yfir styttri tíma, eru 10 milljarðar Evrur á ári næstu fjögur árin. Þegar horft er lengra fram á veginn, þá þarf að tryggja hundruðir milljarðar dollara til þróunarlandanna til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga til framtíðar.

    2. Allir bíða eftir Bandaríkjunum

    Dagurinn einkenndist einnig af því að allir biðu eftir því að Bandaríkjamenn legðu tölur á borðið. Það var þó almennt talið jákvætt merki þegar fréttir um að EPA, Umhverfisstofnun BNA, hefði óvænt krafist niðurskurðar á losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. Ástæðan var sögð vera vegna þess að þær hefðu slæm áhrif á heilsufar Bandaríkjamanna. Þetta er talið vera merki til Bandaríkjaþings og fyrirtækja í Bandaríkjunum um að Obama vilji takmarka losunin koldíoxíðs.

    3. Þróunarlöndin slást innbyrðis

    Það þriðja sem Thomas Falbe telur að þurfi að leggja áherslu á í sambandi við daginn í dag, er að það lítur út fyrir að þróunarlöndin séu farin að slást um það fjármagn sem þau vona að komi í þeirra hlut við þessa samninga. Heimsálfan Afríka krefst þess að fá 50% af heildarfjármununum, á meðan talar sendinefnd Bangladesh um að það sé það land sem mest muni finna fyrir loftslagsbreytingum. Þeir krefjast því um 15% af því sem talið er að geti komið út úr samningunum. Í síðustu viku talaði sendinefnd Bangladesh um 10%, það hefur því orðið breyting þar á.

    Annað:

    Hér að neðan má sjá svokallað widget (gaman væri að fá íslenskt orð á þetta) sem sýnir hvernig samningaviðræðurnar ganga. Þetta tól er einhvers konar skortafla þar sem sýnt er hvernig talið er að hitsastig geti þróast til ársins 2100, við þrjár atburðarásir, 1) “viðskipti eins og venjulega”, 2) eins og samningurinn lítur út núna og 3) það takmark sem talið er að þurfi að ná, sjá nánar á climateinteractive.org. Þetta mun verða í hliðarstikunni á Loftslag.is á meðan á loftslagsráðstefnunni stendur. Það eiga að koma fram sjálfkrafa breytingar á því eftir því sem samningaviðræðurnar þróast.

    Að lokum þá komu fréttir í dag af því að áratugurinn sem er að líða verði væntanlega sá heitasti síðan 1880. Þetta er að sjálfsögðu ekki fréttir fyrir okkur hér á Loftslag.is, sjá “20 heitustu ár frá 1880“, þar sem kemur fram að öll árin eftir 2000 eru á topp 10.

  • Myndband: Greenman um Climategate

    Hér er enn eitt myndbandið sem sýnir fram á hversu veik rök efasemdamanna eru varðandi meintar falsanir og efasemdir sem loftslagssérfræðingar CRU í háskólanum í East Anglia áttu að hafa skrifað um. Farið er yfir tvö helstu rökin sem efasemdamenn halda á lofti og hvernig þeir hafa notað þetta til að koma af stað bylgju efasemda um að loftslagsfræðin séu vafasöm. Minnum á svipað myndband frá Potholer.

  • COP15: Bætur, áskoranir og grátur

    Yfirlit dagsins

    Fyrsti dagur ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn er að kvöldi kominn. Einhverjar af fréttum dagsins eru á jákvæðum nótum þar sem talað er um möguleika á einhverskonar samkomulagi í Kaupmannahöfn. Samkvæmt frétt Reuters, þá er heimurinn nær því að ná samningi sem tekur á losun gróðurhúsalofttegunda sem kemur í veg fyrir verstu afleiðingar af hnattrænni hlýnun en talið var. Þar kemur m.a. fram hjá Achim Steiner “Þeir sem halda því fram að samningur í Kaupmannahöfn sé ómögulegur: þeir hafa einfaldlega rangt fyrir sér” sagði hann.

    loekke_cop15_20091207-123931-L_webÍ sama streng tekur Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur í opnunarræðu sinni, þar sem hann sagði “Það er í okkar höndum að ná samningi”. Einnig benti hann á þann fjölda þjóðarleiðtoga sem yrðu samankomnir á ráðstefnunni, og að það væri einstakt tækifæri fyrir þjóðir heims til að ná árangri. Alls hafa 110 þjóðarleiðtogar boðað komu sína.

    Talið er að stefna þurfi að því að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda verði ekki meiri en 44 milljarðar tonna árið 2020. Það markmið er talið vera nauðsynlegt til að halda hitastigshækkun innan við 2°C markið (þá er miðað við það hitastig sem var við byrjun iðnvæðingarinnar). Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir er talið að hægt sé að ná 46 milljarða tonna marki fyrir 2020 ef allar tillögur ná fram að ganga. Síðustu daga og vikur hafa lönd eins og t.d. Bandaríkin, Kína, Indland, Brasilía og Indónesía lagt ný markmið á borðið. Eins og staðan er í dag er, er losun gróðurhúsalofttegunda um 47 milljarðar tonna á ári. Ef ekki kæmi til nokkurra takmarkana á losun, þá er talið að losun yrði um 50 milljarðar tonna 2020.

    Sumir sérfræðingar telja þó eð ekki sé nógu langt gengið og ekki gert nóg til að tryggja að losun gróðurhúsalofttegunda minnki eftir 2020. En þó má segja að þær tillögur sem liggja á borðinu séu nær því marki sem vísindamenn leggja til en áður var talið.

    Helstu atriði dagsins, samkvæmt fréttaritara dr.dk Thomas Falbe:

    1. Sádí Arabar vilja bætur

    Það er ekkert nýtt í því að heimsins stærsti olíuframleiðandi vísi því á bug að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum. Þeir krefjast þess einnig að fá bætur vegna minnkandi tekna af olíusölu. En það þótti einnig eftirtektarvert að samningamaður þeirra skuli hafa notað mest allan tíman í ræðustól til að tala um þetta efni. Sádí Arabar hafa m.a. bent á hið svokallaða Climategate mál, sem einhverskonar sönnun fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hafi ekkert með loftslagsbreytingar að gera.

    2. Eindregnar áskoranir

    Thomas Falbe þótti einnig eftirtektarvert, hversu eindregnar áskoranir um árangur á ráðstefnunni komu frá Connie Hedegaard, Lars Løkke Rasmussen og formanni loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Rajendra Pachauric. Þau töldu öll þrjú að nú væri rétti tíminn til að ná saman um niðurstöðu.

    3. Grátandi ræðumenn úr röðum NGO samtaka

    Það þriðja sem þótti athyglisvert samkvæmt Thomas Falbe, er að nú hafa NGO samtök (NonGovernmental Organisation) fengið möguleika á að koma í ræðustól, þar sem samtökin geta komið fram með sitt sjónarhorn. Sum samtök völdu að setja ekki eingöngu atvinnufólk í pontuna, heldur einnig venjulegar manneskjur með tilfinningahlaðnar sögur. Til dæmis grét Leah Wickham frá Fiji úr regnhlífasamtökunum “tck tck tck” í ræðustólnum. Fiji er eitt af þeim löndum sem talið er að standi ógn af loftslagsbreytingum.

    Annað:

    Það er mikið eftir af fundinum sem hefur dregið fjöldan allan af fólki að. Mikill fjöldi gesta er í Kaupmannahöfn bæði til að taka þátt sjálfri ráðstefnunni og einnig til að standa að alls kyns viðburðum sem tengjast umræðunum. Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu á staðnum, enda þykir jafnvel líklegt að einhver mótmæli verði. Lögreglan hefur fengið rýmri heimildir til að handtaka mótælendur og hafa mannréttindasamtök m.a. gert athugasemdir við það.

  • COP15: Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn

    cop15_logo_b_mÁ mánudag byrjar loftslagsráðstefnan COP15 í Kaupmannahöfn. Ritstjórn Loftslag.is ætlar að fylgjast með framvindu hennar hér á þessum síðum á meðan á henni stendur. Þetta verður bæði í stuttum pistlum og hugsanlega einhverjum nánari fréttaskýringum ef okkur þykir það eiga við. Nú þegar höfum við sett inn tvær færslur þar sem rætt er i stuttu máli um ráðstefnuna og svo vangaveltur um lykilatriði fundarins. Í tenglalínunni hér að ofan má nú sjá COP15 tengil, þar munu allar færslur sem fjalla á einhvern hátt um COP15 vera staðsettar. Það eru ýmsar síður sem hægt er að mæla með fyrir þá sem vilja byrja að fræðast um COP15, má þar helst nefna heimasíðu ráðstefnunnar sem er góður staður til að byrja á og einnig er Guardian með ágæta umfjöllun og fréttir af ráðstefnunni. Lesendum er velkomið að benda á hluti sem þeim þykja fréttnæmir eða góða umfjöllun annarsstaðar frá.

  • Myndband: Um hið svokallaða Climategate

    Climategate er mál sem hefur verið svo kallað, af þeim sem vilja sýna fram á stórt samsæri vísindamanna um falsanir á gögnum og önnur svik. Þetta kom þannig fram að hakkari hakkaði sig inní tölvur Háskólans í East Anglia (CRU) og stal þar gögnum. Málið fór í kjölfarið eins og eldur í sinnu um útkróka netsins og náði að einhverju leiti í fjölmiðla líka. Þar var á ýmsum stöðum staðhæft að fundist hefðu gögn sem sýndu fram á að vísindamenn hefðu stundað falsanir á loftslagsgögnum og hefðu fleira misjafnt í pokahorninu. Við höfum birt færslur um þetta mál; Samhengi hlutanna og Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp. Þetta mál hefur sýnt sig að vera stormur í vatnsglasi þar sem staðhæfingar og rangtúlkanir um innihald og orðalag í gögnunum hefur verið lagt út á versta hátt fyrir vísindamenn háskólans. Það vekur einnig furðu hversu fljótt farið var að túlka orð og annað úr gögnunum. Í myndbandinu hér er farið nánar yfir paranójuna sem myndaðist, aðalega varðandi tvö mest notuðu dæmin úr gögnunum.

  • Gestapistill: Að sannreyna staðhæfingar

    Oft skjóta upp kollinum spurningar um loftslagsbreytingar sem mjög auðvelt er að svara ef maður hefur aðgang að réttum gögnum. Dæmi um þetta sá ég í nýlegri blaðagrein þar sem eftirfarandi fullyrðing kom fram:

    “As the world has already been through two of its coldest winters for decades, with all the signs that we may now be entering a third, the scientific case for CO₂ threatening the world with warming has been crumbling away on an astonishing scale.”

    (Greinina má finna á vefsvæði Daily Telegraph, en hún er slíkt samsafn vafasamra fullyrðinga að það má teljast ábyrgðarhluti að benda á hana)

    Þó fleiri rangar fullyrðingar væru í greininni hjó ég sérstaklega eftir þessari, því ég kannaðist ekki við að þetta væri rétt, auk þess sem  það ætti að vera auðvelt að tékka á henni.

    Nokkrar mismunandi samantektir eru til á hnattrænum meðalhita (sjá greinina  “Hætti hlýnun jarðar eftir 1998” fyrir nánari umfjöllun), en ágæt röð til að nota hér er frá bandarísku veðurstofunni NOAA. Veðurfarsgagnamiðstöðin  (NCDC) heldur úti síðu þar sem nýjustu mánaðargildi eru birt.  Á síðunni má finna ítarlegar upplýsingar um það hvernig gögnin sem aðgengileg eru frá síðunni eru sett saman, en ekki verður farið nánar í þá sálma hér.

    Gagnaröðin sem hér kemur að gagni má finna neðarlega á síðunni og hún er merkt sem

    “The Monthly Global (land and ocean combined into an anomaly) Index (degrees C)”. Ef smellt er á krækjuna fer vafrarinn á FTP svæðið:

    ftp://ftp.ncdc.noaa.gov/pub/data/anomalies/monthly.land_ocean.90S.90N.df_1901-2000mean.dat

    Röðin sýnir hnattræn hitafrávik hvers mánaðar miðað við meðaltal 20. aldarinnar. Ef þessi gögn eru skoðuð sést að fyrstu áratugina (fram yfir 1920) eru frávikin iðulega minni en núll, en þau eru stærri en núll síðustu áratugina (Tölur sem vantar eru merktar -999, en þær eru aftast í röðinni og endurspegla þá mánuði sem vantar af árinu sem er að líða).

    Hefðbundin skilgreining á vetri í veðurfarsfræðum er tímabilið desember til febrúar. Á Íslandi væri meira vit að nota lengra tímabil, en það er önnur saga. Ef tölurnar fyrir þessa mánuði síðustu tvö ár eru skoðaðar og bornar saman við árin á undan er erfitt að sjá að þær séu óvenjulega lágar.

    Til að kanna þetta betur er best að teikna gögnin í töflunni. Hægt er að gera slíkt í töflureikni (t.d. Excel), en ég hef meira gaman af því að nota tölfræði- og teikniforritið R.

    R er forrit sem hlaða má niður frá vefsíðunni www.r-project.org. Það er ókeypis og lítið mál að setja það upp á flestum tölvum (sjá leiðbeiningar).

    Þegar búið er að setja upp forritið og ræsa það er fyrst að ná í gögnin

    >dd=read.table(“ftp://ftp.ncdc.noaa.gov/pub/data/anomalies/monthly.land_ocean.90S.90N.df_1901-2000mean.dat“,
    na.strings="-999.0000",col.names=c("ár","mán","hiti"))

    Þessi skipun les gögnin inn í töfluna dd. Skipunin read.table hefur marga rofa sem hægt er að stilla þegar hún er gefinn. Til að fá upplýsingar um skipanir í R er sett “?” fyrir framan skipunina, t.d.

    >?read.table

    sem gefur meiri upplýsingar um skipunina read.table en góðu hófi gegnir.  Hér gefum við tvo rofa , sá fyrri na.strings segir read.table að meðhöndla -999.000 sem “gildi vantar” (NA).  Seinni rofinn gefur dálkunum nafn. Hvorugur rofinn er nauðsynlegur (sjálfgefin dálkheiti eru V1, V2 og V3) með því að gefa dálkum nafn verða þær skipanirnar sem fylgja læsilegri.

    Skipunin

    > dim(dd)
    [1] 1560    3

    segir okkur að taflan sé 1560 línur og 3 dálkar (þetta breytist milli ára).

    Fyrstu gildin í töflunni má skoða með:

    > dd[1:5,]
    ár mán    hiti
    1 1880   1 -0.0491
    2 1880   2 -0.2258
    3 1880   3 -0.2095
    4 1880   4 -0.1221
    5 1880   5 -0.1279

    og þær síðustu

    > dd[1555:1560,]
    ár mán   hiti
    1555 2009   7 0.5655
    1556 2009   8 0.6053
    1557 2009   9 0.6126
    1558 2009  10 0.5673
    1559 2009  11     NA
    1560 2009  12     NA

    Tölurnar lengst til vinstri eru línunúmer töflunnar, “ár”, “mán” og “hiti” eru dálkheitin. Takið eftir að hitatölurnar í línum 1559 og 1560 vantar, en þetta eru tölur fyrir nóvember og desember 2009 (en þau gildi eru óþekkt þegar þessi pistill er skrifaður). Í stað tölu er NA sem segir R að meðhöndla þær sérstaklega.

    Til að teikna hitagögnin þarf einungis

    > plot(dd$hiti)

    Það hefði mátt nota dd[,3] í stað dd$hiti, fyrri aðferðin vitnar í dálkinn eftir númeri hans, sú seinni eftir nafni (sem er skýrara). Mynd 1 sýnir niðurstöðuna.

    Mynd 1
    Mynd 1

    Þessi skipun teiknar hitann sem fall af  línunúmerum. Greinilega hlýnar með hækkandi línunúmeri. Ef við viljum hafa eitthvað annað en línunúmer á x-ásnum þurfum við að segja plot skipuinni frá því.  Það dugir nota skipunina seq() en hún býr til raðir.

    > tt=seq(1880,2010-1/12, length.out=1560)
    > plot(tt,dd$hiti)

    Hér býr seq(1880,2010-1/12,length.out=1560) til tímaás sem hefur 1560 gildi. Þó þessi ás sé réttur þá hefur R betri aðferðir við að vinna með dagsetningar (meira um það síðar).

    Mynd 2 er því sambærileg við mynd 1 en hefur x-ás sem gengur frá 1880 út árið 2009. Ef mynd 2 er skoðuð sjást tveir óvenju hlýir mánuðir skömmu fyrir aldamótin og eftir aldamótin. Með því að skoða töfluna á vefsíðu NCDC sést að hlýjasti mánuðurinn í röðinni er febrúar 1998, og janúar 2007 sá næst hlýjasti. Í fyrra tilvikinu var öflugasti ElNino sem vitað er um á fullu, í því síðara var snubbóttur ElNino í gangi (lista með mánaðartölum fyrir ElNino má sjá í fyrirlestri sem uppfærður er reglulega  hjá annarri undirstofnun bandarísku veðurstofunnar).

    Mynd 2
    Mynd 2

    Til að kanna fullyrðinguna að síðustu vetur séu óvenjukaldir er best að skoða styttra tímabil. Það getum við gert með því að skorða x-ásinn við árin eftir 1980. Í skipuninni hér að neðan er y-ásinn líka stilltur þannig að gögnin fylli sem best út flötinn, auk þess sem ásar eru eru merktir og myndin titluð.

    plot(tt,dd$hiti,xlim=c(1980,2010),ylim=c(-0.2,0.9),
    main="Mánaðarhitafrávik (NCDC)",xlab="Ár",
    ylab="Hitafrávik (°C)")
    grid()

    Við að skoða mynd 3 er ljóst að nýlega hafa verið einstaka óvenju kaldir mánuðir (sérstaklega janúar og febrúar 2008), og þar þarf að  fara aftur til áranna 1995 fram yfir aldamót til að sjá annað eins. En voru þessir mánuðir nægilega kaldir til að draga vetrarmeðaltalið niður?

    mynd3
    Mynd 3

    Til að kanna það er fljótlegast að reikna þriggja-mánaða miðjað hlaupandi meðaltal. Þannig fæst röð með þar sem hvert gildi er meðaltal þriggja gilda, t.d. verður janúar gildið meðaltal desember, janúar og febrúar í upprunalegu röðinni.  Í R dugir filter skipunin vel fyrir þetta. Þriggja mánaða hlaupandi meðaltal fæst með skipuninni:

    filter(dd$hiti,c(1,1,1)/3)

    og við  bætum þessari línu (rauðlitaðri) á myndina með skipuninni

    lines(tt,filter(dd$hiti,c(1,1,1)/3),col='red')

    Nú eigum við bara eftir að merkja inn janúarmánuðina á rauðu línuna (en þeir eru meðaltal desember, janúar og febrúar frávika, þ.e. þeir eru vetrarmeðaltalið). Til að hirða janúarmánuðina úr tímaásnum má enn og aftur nota seq skipunina til að hirða 12 hvert gildi. Skipunin

    seq(1,1560,by=12) býr til listann 1,13,25,….1549 og 12 hvert gildi í tt fæst með

    tt[seq(1,1560,by=12)]

    Hornklofinn við tt inniheldur tilvísanir á stök vigursins tt. Eitt af því snjalla við R er að hægt er að setja slíkar tilvísanir beint aftan við föll sem skila vigrum sem úttaki. Með því að bæta sömu seq skipuninni aftan við filter skipunina er  má  hirða vetrarmeðaltölin frá úttaki  filter. Til að merkja inn punkta notum við skipunina points, og bætum loks við

    points(tt[seq(1,1560,by=12)],
    filter(dd$hiti,c(1,1,1)/3)[seq(1,1560,by=12)],col='red',pch=19)

    Mynd 4 sýnir niðurstöðuna. Ef við skoðum nýlega vetur þá eru 2004/5, 2005/6 og 2008/9 álíka hlýir, 2006/8 er hlýjasti veturinn á myndinni, en 2007/8 er kaldur. Þessi síðastnefndi er á svipuðu róli og 2000/1, 1995/6 1996/7

    Mynd 4
    Mynd 4

    Svo niðurstaðan er þessi. Síðasti vetur var ekki kaldur. Veturinn þar á undan var álíka kaldur og vetur upp úr aldamótunum og nokkrum árum þar á undan. Hlýjasti vetur raðarinnar var fyrir þremur árum.

    Staðhæfingin

    “As the world has already been through two of its coldest winters for decades, with all the signs that we may now be entering a third…”

    er því röng.

    Það er svo annað mál að höfundur virðist telja að tveir kannski þrír vetur í röð nægi til að   gera út um málið. Slíkt er auðvita af og frá. Ef myndin er skoðuð vel má finna kólnun þrjá eða fjóra vetur í röð skömmu fyrir 1985, 1995 og um aldamótin. Samt er áberandi hlýnun í röðinni.

    Eins og áður sagði er greinin í heild sinni er uppfull af vafasömum og kolröngum fullyrðingum. Þegar ég las hana datt mér í hug að hún væri skriflegt Gish gallop, en sú tækni gengur út á að drekkja andstæðingnum með flóði vafasamra fullyrðinga.  En það má furðu sæta þegar höfundur er með fullyrðingar sem einungis þarf nokkurra mínótna vinnu til að hrekja.

    mynd5
    Mynd 5

    Viðauki

    Fyrir þá sem hafa áhuga á að ná sér í R og prófa að teikna  þessa röð, þá hef ég með R-forrit sem sækir gögnin,  teiknar NCDC hitaröðina, bætir við bestu línu og merkir. Tímaásinn á þessari mynd er gerður með því að nota sérstakt dagsetningarform (en amk. tvö slík eru í R). Þessi útgáfa ætti því ekki að úreldast strax, því hún á að vera rétt þó fleiri mánuðir bætist við í safnið hjá NCDC. Til að nota forritið þarf að hlaða því niður í þá möppu sem R notar sem vinnusvæði

    (getwd() skilar því). Síðan þarf bara að gefa skipunina

    source(“teiknaNCDC.R”)

    Leiðbeiningar um uppsetningu R

  • Léttmeti: Getraun, verðlaun í boði

    Hér fyrir neðan eru þrjár myndir sem sýna eiga breytileika í hitastigi yfir hnöttinn. Getraunin felst í því að giska á hvaða tímabil hver mynd á að sýna, en tímabilið getur verið mislangt og hitastig fengið með ýmsum aðferðum, beinum og óbeinum.

    Hver mynd sýnir frávik frá þeim meðalhita sem reiknaður hefur verið milli áranna 1961-1990. Ef ferningur er t.d. dökkblár, þá var hitinn á því svæði og á þeim tíma um 0,9-2,5°C kaldari en fyrir meðaltal áranna 1961-1990. Vínrauður (dökkrauður) ferningur segir okkur að þá var hitinn á því svæði og á þeim tíma um 0,9-1,4°C heitari en fyrir meðaltal áranna 1961-1990. Hvítir reitir þýða sama hita og var milli áranna 1961-1990.

    Mynd 1
    Mynd 1

     

    Mynd 2
    Mynd 2

     

    Mynd 3
    Mynd 3
    06646Í verðlaun verður einstaklega áhugaverð bók, sem nefnist Mannlaus veröld og er eftir Alan Weisman og er hér í þýðingu Ísaks Harðarssonar, formála ritar Andri Snær Magnason. Bókin fjallar í stuttu máli um það hvernig Jörðinni og lífríki þess myndi vegna ef mannkynið myndi allt í einu hverfa á jörðinni. Sjá heimasíðuna The World Without Us
    .
    Reglur: Þrjú gisk á mann og sá giskari sem er fyrstur að giska rétt – vinnur. Ef rétt svar verður ekki komið eftir viku, þá verður sá eða sú sem er næst lagi vinningshafi getraunarinnar. Gisk þurfa að birtast í athugasemdum hér fyrir neðan.
    .
    Ef það gengur illa að giska, þá má búast við einhverjum vísbendingum frá ritstjórum loftslag.is.
  • Frétt: Ítarleg skýrsla um loftslag Suðurskautsins

    Antarctic climate change and the environmentÚt er komin ítarleg skýrsla eða yfirlitsrit um loftslag Suðurskautsins og hnattræn tengsl þess við loftslagskerfi jarðar, á vegum Vísindaráðs Suðurskautsrannsókna (Scientific Committee on Antarctic Research – SCAR). Yfirlitsritið fer yfir nýjustu rannsóknir sem gerðar hafa verið á Suðurskautinu, fer yfir hvar vantar meiri upplýsingar og tekur á spurningum sem brenna á fólki varðandi bráðnun jökla á Suðurskautinu, sjávarstöðubreytingar og líffræðilega fjölbreytni. 

    Þessi skýrsla er alls ekki stutt, allt í allt er hún 555 blaðsíður að lengd, en eflaust á hún eftir að verða mikill fengur fyrir vísindamenn og áhugafólk um loftslag á Suðurskautinu – í fortíð, nútíð og framtíð.

    Skýrslan er byggð á rannsóknum yfir 100 leiðandi vísindamanna frá 13 löndum og er fókusinn á áhrif og afleiðingar aukinnar hlýnunnar á Suðurskautsskaganum og Suður-Íshafi. Þá er einnig fjallað ítarlega um hörfun jökla og aukningu á hafís í kringum meginlandið, áhrif loftslagsbreytinga á plöntur og dýralíf, vensl hlýnunar af mannavöldum og náttúrulegra sveifla og það sem þykir hvað merkilegast í dag – að það virðist vera sem gatið í ósonlaginu hafi hægt á hlýnun jarðar á Suðurskautinu. Um margt annað er fjallað, enda er þetta mjög umfangsmikil skýrsla.

    Í svona ítarlegri skýrslu er nauðsynlegt að hafa gott yfirlit yfir það hvað sé markverðast í skýrslunni og í ágripi skýrslunnar eru teknir saman 80 punktar yfir það markverðasta sem er í skýrslunni. Fyrir okkur sem höfum ekki tíma til að lesa alla skýrsluna í einni lotu, þá er í fréttatilkynningu um skýrsluna teknir saman 10 meginatriði úr skýrslunni (sem hér er þýtt lauslega):

     1: Gat í ósonlaginu hefur hægt á hlýnun jarðar á Suðurskautinu

    Gatið í ósonlaginu hefur hægt á áhrifum gróðurhúsaáhrifanna á loftslag Suðurskautsins. Breytingar í veðrakerfum í kringum og á Suðurskauti hefur orðið til þess að Suðurskautið hefur einangrast og er ekki í takti við hlýnun jarðar annars staðar á hnettinum. Fyrir vikið hefur hlýnun Suðurskautsins verið mun minni en búast hefði mátt við – ef undan er skilið Vestur-Suðurskautið og þá sérstaklega Suðurskauts-Skaginn (Antarctic Peninsula) en þar hefur hlýnað hratt.

    2: Hlýnun Suður-Íshafsins mun breyta vistkerfi Suðurskautsins

    Hafstraumar umhverfis Suuðurskautið hafa hlýnað hraðar heldur en heildarhlýnun sjávar á hnettinum öllum. Suður-Íshafið bindir mikið af koldíoxíði úr andrúmsloftinu en auknir vestlægir vindar hafa dregið úr getu hafsins til að taka til sín koldíoxíðs. Ef  hlýnun jarðar heldur áfram, þá munu framandi tegundir lífvera aukast á svæðinu og keppa um fæðu við upprunalegar tegundir Suðurskautsins. Lykiltegundir í fæðukeðju svæðisins eru taldar eiga erfitt uppdráttar ef súrnun sjávar eykst.

    3: Aukin umsvif planta á Suðurskauts-Skaganum 

    Hröð hlýnun hefur verið á Suðurskauts-Skaganum, ásamt breytingu frá snjókomu og yfir í rigningu yfir sumartímann. Það hefur leitt af sér aukin umsvif planta og dýra á því svæði.

    4: Hröð jökulhörfun á hluta Suðurskautsins

    Jökulhvel Vestur Suðurskautsins hefur þynnst mikið í kjölfar hlýrri sjávar. Einnig hafa íshellur á Austur Suðurskauts-Skaga minnkað og  90% af jöklum Skagans hafa hopað síðustu áratugi. Hinsvegar hefur meirihluti jökulhvels Suðurskautsins sýnt litla breytingu. 

    5: Hafís umhverfis Suðurskautið hefur aukist um 10%

    Frá 1980 hefur hafís umhverfis Suðurskautið aukist um 10%, sérstaklega á Rosshafi, sem bein afleiðing af sterkari vindum umhverfis meginlandið (vegna gatsins í ósonlaginu). Á móti hefur hafís minnkað vestur af Suðurskauts-Skaganum vegna hlýrri vinda á því svæði.

    6: Koldíoxíð eykst nú hraðar en nokkru sinni síðastliðin 800.000 ár

    Magn CO2 (koldíoxíðs) og CH4 (metans) eru hærri nú en síðastliðin 800.000 ár og aukast hraðar nú en nokkurn tíma á þeim tíma. Suðurskautið var hlýrra á síðasta hlýskeiði ísaldar (fyrir um 130.000 árum) og sjávarstaða var hærri, en  framlag Vestur-Suðurskautsins til þess ástands er óþekkt. Lítilsháttar breytingar í loftslagi síðastliðin 11.000 ár hefur haft töluverð áhrif á jökulmassann, hafstrauma og vindakerfi, sem sýnir hversu viðkvæmt Suðurskautið er fyrir loftslagsbreytingum. Rannsóknir á setlögum undir nýlega horfnum íshellum benda til þess að hvarf þeirra eigi sér ekki fordæmi á því tímabili.

    7: Minnkun hafíss hefur áhrif á magn átu og mörgæsaþyrpingar

     Vestur af Suðurskauts-Skaganum hefur orðið breyting á þörungagróðri og hnignun í útbreiðslu átu. Minnkun hafíss á sama svæði hefur haft þau áhrif að þyrpingar Adélie mörgæsa hafa minnkað en haldið í horfunu annars staðar.

    8: Spáð er að Suðurskautið muni hlýna um sirka 3°C á þessari öld

    Á þessari öld er því spáð að gatið í ósonlaginu muni minnka, svo að áhrif aukningar á gróðurhúsalofttegundum fer að verða nær því sem búast megi við. Hafís er talin muni minnka um þriðjung. Aukning hitastigs er ekki talin vera nóg til að bræða aðal jökulhvel Suðurskautsins og aukning úrkomu í formi snjókomu er talin geta myndað mótvægi um nokkra sentimetra á móti sjávarstöðuhækkunum.

    9: Bráðnun jökuls á Vestur-Suðurskautinu gæti hækkað sjávarstöðu um 1,4 m

    Líklegt er talið að bráðnun jökuls á Vestur-Suðurskautinu eigi eftir að valda sjávarstöðuhækkunum um tugi sentimetra til ársins 2100. Því er búist við sjávarstöðuhækkun um 1,4 m eða meira á þessari öld.

    10: Bætt líkanagerð sem skýrir út ferli á heimsskautunum er nauðsynleg fyrir betri spár

    Breytileiki í loftslagi heimsskautanna er meiri en annars staðar á hnettinum, samt er lítið til um loftslagsgögn fyrir þessi svæði. Þau þarf að vakta mun nákvæmar í framtíðinni til að hægt sé að nema breytingar og auka þekkingu á þeim ferlum sem þar eru að verki – og til að hægt sé að gera betri greinarmun á náttúrulegum loftslagssveiflum og þeim sem eru af mannavöldum. Aukning á þekkingu fornloftslags er einnig mikilvægt til að greina þar á milli, auk þess sem fínstilling loftslaglíkana getur gert gæfumun í að auka þekkingu okkar á loftslagi heimsskautanna.

    Heimildir

    Skýrsluna, ásamt fréttatilkynningu má finna á þessari heimasíðu: Antarctic Climate Change and the Environment

  • Myndband: Grannskoðun á eiginleikum mýtu

    Þetta myndband, frá Potholer54, grannskoðar eiginleika mýtunnar sem fjallar um það að loftslagsfræðingar hafi spáð kólnun jarðar á 8. áratug síðustu aldar.