Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Blogg: Samhengi hlutanna

    Alla síðustu viku þá var umræðan sterk í ýmsum bloggmiðlum og fréttamiðlum, bæði hér heima og erlendis, um að vísindamenn við Háskólann í East Anglia (CRU) hefðu stundað falsanir á loftslagsgögnum og hefðu fleira misjafnt í pokahorninu (sjá Blogg: Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp).

    Svo virðist sem þetta mál sé þannig að vexti að sumir telja að hægt sé að afneita heilli öld loftslagsrannsókna og afgreiða hlýnun jarðar af mannavöldum sem eitt risastórt samsæri. Því miður er það mikill misskilningur á því hvernig vísindin virka.

    Þótt við þyrftum að henda öllu því sem þau hjá CRU hafa gert (sem ekkert bendir til) þá hefði það lítil sem engin áhrif á stöðu málanna í dag. Það eru aðrar stofnanir sem stunda loftslagsrannsóknir, t.d. má finna óháðar hitastigsmælingar á heimasíðu NASA, NOAA og JMA – sem sýna svipaða sögu og gögnin frá CRU.

    Þetta eru ekki einu gögnin sem sýna að hitastig fer hækkandi, sem dæmi má nefna gögn um hörfun jökla, sjávarstöðubreytingar, úr ískjörnum, snjóalög, sjávarhita og hafísmælingar, svo við nefnum nokkur af þeim gögnum sem vísindamenn nota til að staðfesta hlýnun jarðar. Út frá þessum gögnum hafa þúsundir vísindamanna skrifað tugþúsundir greina um vandamálið: Hlýnun jarðar af mannavöldum.

    Það verður að teljast ansi langsótt að vísindamenn séu búnir að fikta við öll þessi gögn og séu allir í einhverju stórkostlegu samsæri. Ef það kemur svo í ljós að vísindamenn CRU hafi átt við gögnin, þá er það vissulega ámælisvert fyrir þá vísindamenn – en það segir ekkert um alla hina.

    Hér hefur verið safnað saman tenglum á öll helstu loftslagsgagnasöfn sem í boði eru: Data Sources

    Í því samhengi er gott að rifja upp frétt frá því í síðustu viku, en þá kom út áhugaverð skýrsla um stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum sem orðið hefur frá því að IPCC skýrslurnar árið 2007 komu út. Þessi skýrsla er unnin upp úr ritrýndum greinum og mikið af þeim gögnum sem vísað er í hér fyrir ofan voru notuð við gerð greinanna sem að skýrslan byggir á.

    Hér eru nokkrar myndir úr skýrslunni, en þær tala sínu máli (ásamt texta).

    Efri myndin sýnir meðal hitastigsbreytinguna fyrir 2001-2007 samanborið við meðaltal áranna 1951-1980. Neðri myndin sýnir meðalhitastig jarðar frá 1850-2009. Síðasti punkturinn eru bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2009 (rauður kassi).
    Efri myndin sýnir meðal hitastigsbreytinguna fyrir 2001-2007 samanborið við meðaltal áranna 1951-1980. Neðri myndin sýnir meðalhitastig jarðar frá 1850-2009. Síðasti punkturinn eru bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2009 (rauður kassi).
    Diagnosis-mynd04
    Hnattrænn hiti jarðar samkvæmt gögnum frá NASA GISS frá 1980 og til dagsins í dag. Rauða línan sínir gögn á ársgrundvelli, rauði ferningurinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009. Græna línan sýnir 25 ára línulega leitni gagnanna (0,19°C á áratug). Bláa línan sýnir tíu ára leitnilínur fyrir árin 1998-2007 (0,18°C á áratug) og fyrir árin 1999-2008 (0,19°C á áratug). Þetta sýnir mikið samræmi við það sem kom fram í spám loftslagslíkana sem IPCC notaði.
    Heildarsvæði Grænlandsjökuls þar sem afkoma jökulsins er neikvæð hefur aukist um 30% milli 1979 og 2008. Mest varð bráðnunin árið 2007. Um 33-55% af massaminnkun Grænlandsjökuls er vegna bráðnunar og afrennslis.
    Heildarsvæði Grænlandsjökuls þar sem afkoma jökulsins er neikvæð hefur aukist um 30% milli 1979 og 2008. Mest varð bráðnunin árið 2007. Um 33-55% af massaminnkun Grænlandsjökuls er vegna bráðnunar og afrennslis.
    Septemberútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í milljónum ferkílómetra. Rauða línan sýnir beinar mælingar, en svarta línan spár loftslagslíkana IPCC ásamt óvissu. Eins og sést þá hefur bráðnun hafíss farið fram úr svörtustu spám IPCC. 2009 gildið var ekki teiknað inn, en það var hærra en 2008 gildið - eða um 5,1 milljón ferkílómetrar sem er töluvert neðan við spá IPCC.
    Septemberútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í milljónum ferkílómetra. Rauða línan sýnir beinar mælingar, en svarta línan spár loftslagslíkana IPCC ásamt óvissu. Eins og sést þá hefur bráðnun hafíss farið fram úr svörtustu spám IPCC. 2009 gildið var ekki teiknað inn, en það var hærra en 2008 gildið – eða um 5,1 milljón ferkílómetrar sem er töluvert neðan við spá IPCC.
    Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár.  Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.
    Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár. Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.

    Heimildir:

    Skýrslan þaðan sem myndirnar voru fengnar má finna á heimasíðunni www.copenhagendiagnosis.com en hún er troðfull af fróðleik um loftslagsvísindin.

  • Myndband: Að mæla hita jarðar

    MynNASA_taking_temperaturedbandið hér undir er frá NASA þar sem sagt er frá því hvernig fylgst er með hita jarðar og útskýrt hvernig vísindamenn nota tölvulíkun til að kanna loftslagsbreytingar.

  • Léttmeti: Loftslagsdeilan tekur óvænta stefnu

    Það er ekki ofsögum sagt að þetta séu líflegar rökræður á milli Al Gore og Lord Monckton í þessu myndbandi.

    .

  • Frétt: Skýrsla – Kaupmannahafnargreiningin

    LOGO_SÁrið 2007 kom síðasta stóra matsskýrslan um loftslagsmál út hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC). Sú skýrsla var fjórða í röðinni og von er á þeirri fimmtu árið 2014. En frá því skýrslan kom út 2007 hafa komið fram nýjar rannsóknir um ástand mála. Í raun þá þurfti efnið sem er í skýrslunni frá 2007 að vera tilbúið 2006 til að vera með í skýrslunni, enda um stórt verk að ræða sem ekki er haspað af á stuttum tíma. Kaupmannahafnargreiningin (Copenhagen Diagnosis) er skýrsla 26 vísindamanna frá öllum heimshornum sem gefin var út 24. nóvember. Skýrslan er hugsuð sem viðbót við IPCC skýrsluna, og er um það sem gerst hefur í loftslagsrannsóknum síðan 2007. Eins og í matsskýrslum IPCC, þá er allt efni í Kaupmannahafnargreiningunni unnið út frá ritrýndu efni. Það er því ekki hægt að segja að þarna sé um nýtt efni að ræða, heldur samantekt á því sem höfundar telja skipta máli fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn (COP15) í desember.

    Helstu atriði skýrslunnar

    Þýðingarmestu atriðin varðandi loftslagsrannsóknir frá síðustu skýrslu IPCC eru:

    Koldíoxíðslosun á heimsvísu er næstum 40% hærri í dag en hún var árið 1990. Jafnvel þó það takist að ná jafnvægi í losun koldíoxíðs strax í dag, þá er talið að aðeins 20 ára losun í viðbót muni þýða að það séu 25% möguleikar á því að hitastig hækki um meira en 2°C í framtíðinni, jafnvel þó lítil losun yrði eftir 2030. Hvert ár sem aðgerðir tefjast þýða meiri möguleika á því að hitastig hækki um meira en 2°C.

    Hitastig á heimsvísu nú, sýnir fram á að hitastig hækkar af manna völdum: Á síðustu 25 árum hefur hitastig hækkað um 0,19°C á áratug, sem er nokkuð nærri þeim spám sem gerðar eru vegna meiri losunar gróðurhúsalofttegunda. Jafnvel á síðustu 10 árum, þrátt fyrir minni styrk sólar, þá er leitni hitastigsins upp á við. Náttúrulegar sveiflur hafa komið nú sem áður, en það hefur ekki verið nein marktæk breyting í leitni hitastigs.

    Hröðun í bráðnun jökla og ísbreiðna: Stórt magn gagna frá gervihnöttum og ís mælingar sýna nú án vafa, að bæði Grænlandsjökull og ísbreiðan á Suðurskautinu eru að missa massa á auknum hraða. Bráðnun jökla um allan heim hefur líka aukist síðan 1990.

    Hröð bráðnun hafíssins á Norðuskautinu: Sumarbráðnun hafíssins á Norðurskautinu hefur verið hraðari en spár gerðu ráð fyrir. Flatarmál hafísbráðnunar á tímabilinu 2007-2009 var u.þ.b. 40% meiri en gert var ráð fyrir í matsskýrslu 4 frá IPCC.

    Hækkun sjávarborðs vanmetin: Gervihnettir sýna að sjávarborð á heimsvísu hefur hækkað meira, um 80% hraðar, en fyrri spár IPCC gerðu ráð fyrir (3,4 mm/ári á síðustu 15 árum).

    Sjávarborðshækkun endurmetin: Fyrir árið 2100, er líklegt að sjávarborð muni hækka 2. sinnum meira en áætlanir vinnuhóps 1, í matsskýrslu 4 hjá IPCC gerðu ráð fyrir, án nokkurra mótvægisaðgerða gæti sú tala farið yfir 1 meter. Efri mörk hafa verið áætluð um 2 metra sjávarborðshækkun fyrir 2100. Sjávarborð mun hækka í margar aldir eftir að jafnvægi er komið á hitastig, og nokkra metra sjávarborðshækkun á næstu öldum er því talið líklegt.

    Seinkun aðgerða gera meiri hættu á óafturkræfum skaða: Nokkrir viðkvæmir þættir í loftslagskerfinu (t.d. Amazon frumskógurinn, Vestur Afríku monsúninn o.fl.) gætu komist nærri þeim mörkum að skaðinn gæti orðið óafturkræfur, ef hitastig hækkar í takt við business-as-usual ferlið restina af öldinni. Hættan af því að fara yfir fyrir ákveðna vendipunkta (tipping points) eykst stórlega við áframhaldandi loftslagsbreytingar. Þar með er hætta á, að áframhaldandi bið eftir frekari vísindalegri þekkingu, geti þýtt að farið yrði yfir suma vendipunktana áður en borin eru kennsl á þá.

    Viðsnúningnum verður að ná fljótlega: Ef takast á að stöðva hnattræna hlýnun af mannavöldum við mesta lagi 2°C, þá þarf losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu að ná hámarki á árunum 2015-2020 og svo að minnka hratt eftir það. Til að ná jafnvægi í loftslaginu, þá þarf að ná því að losun verði nánast engin áður en öldin er úti. Með meiri nákvæmni, þá þarf árleg losun hvers einstaklings að verða undir einu tonni fyrir árið 2050. Þetta er 80-95% af losun í þróuðum löndum árið 2000.

    Heimildir:

    Byggt á samantekt skýrslunnar; Kaupmannahafnargreiningin (Copenhagen Diagnosis) sem finna má á heimasíðunni www.copenhagendiagnosis.com.

    LOGO_CD

  • Frétt: Sameiginleg yfirlýsing þriggja breskra stofnana

    Í dag, 24 nóvember, gáfu þrjár stærstu rannsóknarstofnanirnar á Bretlandseyjum út sameiginlega yfirlýsingu til þeirra sem eru að fara að funda um loftslagsmál í Kaupmannahöfn. Það eru Met Office (Breska Veðurstofan), The Royal Society (Konunglega Vísindaakademían) og Natural Environment Research Council (Náttúru- og umhverfisrannsóknastofnun Bretlands).

    Stutt samantekt yfirlýsingarinnar er svona:

    The 2007 IPCC Assessment, the most comprehensive and respected analysis of climate change to date, states clearly that without substantial global reductions of greenhouse gas emissions we can likely expect a world of increasing droughts, floods and species loss, of rising seas and displaced human populations. However even since the 2007 IPCC Assessment the evidence for dangerous, long-term and potentially irreversible climate change has strengthened. The scientific evidence which underpins calls for action at Copenhagen is very strong. Without co-ordinated international action on greenhouse gas emissions, the impacts on climate and civilisation could be severe.

    Í lauslegri þýðingu er hún svona:

    Samantekt IPCC frá árinu 2007, sem er yfirgripsmesta og virtasta greining á loftslagsbreytingum til þessa, segir greinilega að án minnkunar á hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda sé hægt að búast við að jörðin verði fyrir meiri þurrkum, flóðum og útdauða dýrategunda, hækkandi sjávarstöðu og fjöldafólksfluttningum. Frá því samantektin kom út, þá hafa vísbendingar aukist um að hættulegar langtíma og óafturkræfar loftslagsbreytingar geti orðið. Þessar vísindalegu vísbendingar undirstrika kröfur um aðgerðir í Kaupmannahöfn. Án sameiginlegra alþjóðlegra aðgerða við minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda, þá geta áhrif á loftslag og þjóðfélög orðið mikil.  

    Aðrir punktar í yfirlýsingunni eru meðal annars að frá því að IPCC samantektin árið 2007 kom út, þá hafa vísindamenn komist að eftirtöldu:

    • Koldíoxíð hefur haldið áfram að aukast í andrúmsloftinu, auk þess sem magn metans hefur aftur byrjað að aukast eftir nærri áratugs jafnvægi
    • Áratugurinn 2000-2009 er hlýrri að meðaltali en nokkur annar áratugur síðastliðin 150 ár
    • Breytingar í úrkomu (minnkun úrkomu í heittempraða beltinu og aukning á hærri breiddargráðum) hefur verið við efri mörk spáa loftslagslíkana
    • Lágmarksútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu minnkaði skyndilega 2007 og 2008, sem leiðir af sér að hafísinn er mun viðkvæmari en áður var talið
    • Auknar vísbendingar eru um áframhaldandi og hraðari sjávarstöðubreytingar

    Auk þess er búist við því að áhrifin verði þannig að náttúrulegur breytileiki magnist upp – þannig að staðbundin áhrif verði verri. Ár hvert aukast vísbendingar um að veðratengdir atburðir séu að aukast vegna hlýnunar jarðar og það sé þegar farið að hafa áhrif á samfélög og vistkerfi. Sem dæmi er nefnt:

    • Á Bretlandseyjum hefur dagsúrkoma aukist með afleiðingum líkt og gerðist sumarið 2007, en þá urðu mikil flóð
    • Aukning á sumarhitabylgjum eins og gerðist sumarið 2003 í Evrópu
    • Um alla jörð hefur öfgaveðrum fjölgað, með meira tjóni en þekkst hefur á samfélög og innviði þess. Í ár hafa orðið óvenju sterkir fellibylir í Suðaustur Asíu og þótt ekki sé óyggjandi hægt að tengja það við loftslagsbreytingar, þá sýnir það greinilega viðkvæmni samfélaga þegar slíkir atburðir verða
    • Sjávarstaða hækkar og hefur aukið á hættu fyrir samfélög eins og í Bangladesh, Maldives og fleiri eyjaríki
    • Viðvarandi þurrkar hafa orðið, sem aukið hafa á vatnsskort og vandræði við fæðuöflun, auk þess sem skógareldar hafa aukist á svæðum þar sem búist hefur verið við minnkandi úrkomu, t.d. í Suðvestur Ástralíu og við Miðjarðarhafið

    Yfirlýsinguna má lesa í heild hér: Climate science statement from the Met Office, NERC and the Royal Society

  • Blogg: Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp

    Við skrifuðum um ansi heitt málefni fyrir tveimur dögum (sjá Hakkarar afrita tölvupósta og skjöl). Sem sagt í stuttu máli sagt: Hakkarar náðu að afrita tölvupóst loftslagsvísindamanna sem starfa við rannsóknarmiðstöð háskólans í East-Anglia (CRU) í Norwich. Þessir tölvupóstar – eða hluti af þeim hefur birst á vefsíðum sem sérhæfa sig í að efast um hlýnun jarðar af mannavöldum og margir fjölmiðlar eru nú farnir að bergmála það sem efasemdamennirnir segja – oft án þess að kynna sér hvað vísindamennirnir voru í raun og veru að segja.

    Við fjölluðum í raun ekki ítarlega um þetta í upphafi, því okkur fannst líklegt eftir dálítinn lestur að það þyrfti ansi hreint magnaða samsæriskenningasmiði til að sjá eitthvað samsæri og falsanir út úr þessum tölvupóstum.

    Meðal annars hafa íslenskir fjölmiðlar birt skrumskældar útgáfur af þessum fréttum – það selur víst að skrifa svona fréttir, þótt þær séu illa unnar. Hér er ágætt sýnishorn úr íslenskum fjölmiðli, feitletrað það sem augljóst er að þeir sem skrifa fréttina eru mataðir á rangfærslum:

    visir.is – Loftslagsfræðingar sagðir ýkja stórlega:

    Breski háskólinn University of East Anglia hefur staðfest við New York Times að hundruðum tölvupósta hafi verið stolið af vefþjóni skólans.
    Þetta eru meðal annars póstar sem gengið hafa á milli þekktra breskra og bandarískra vísindamanna þar sem fjallað er um loftslagsmál.
    Þar kemur ýmislegt fram sem efasemdarmenn um hlýnun jarðar segja að sýni ljóslega að vísindamennirnir stundi blekkingar til þess að ýkja áhrif mannsins á loftslagsbreytingar.
    Í einum póstinum segir vísindamaður að hann hafi notað tölfræðilega brellu til þess að sýna framá skarpa hlýnun.
    Birtir eru nokkrir póstar sem fóru á milli Kevins Trenberth loftslagsfræðing og annarra vísindamanna. Trenberth er loftslagsfræðigur við National Center for Athmospheric Research í Bandaríkjunum.
    Vísindamennirnir tala um skort á skilningi á hitasveiflum sem mælst hafa undanfarið, sem benda til þess að jörðin sé nú að kólna. Trenberth segir meðal annars -Staðreyndin er sú að við getum ekki gert grein fyrir því hvers vegna jörðin er ekki að hitna núna og það er skrípaleikur.
    Margir vísindamannanna sem nafngreindir eru í tölvupóstunum hafa staðfest við New York Times að þeir hafi skrifað þá.

    Það sem er kannski einna helst athugavert  þessa frétt – er að höfundur þess gefur sér að það sem hann les um málið – annað hvort á bloggsíðum efasemdamanna eða í erlendum fjölmiðlum sem að vísa á bloggsíður efasemdamanna – sé eitthvað sem sé fullkomlega rétt og satt. Ekki er hafið fyrir því að leita upplýsinga um hvað í raun og veru var sagt í þessum tölvupóstum og hvað lá að baki þeim orðum sem að þar hafa nú birst.

    Við skulum byrja á að kryfja það sem er feitletrað í þessari frétt.

    Í einum póstinum segir vísindamaður að hann hafi notað tölfræðilega brellu til þess að sýna framá skarpa hlýnun

    Pósturinn sem um er rætt má sjá hér, það sem er grunnurinn í þessari setningu hér fyrir ofan er feitletrað:

    Dear Ray, Mike and Malcolm,
    Once Tim’s got a diagram here we’ll send that either later today or
    first thing tomorrow.
    I’ve just completed Mike’s Nature trick of adding in the real temps
    to each series for the last 20 years (ie from 1981 onwards) amd from
    1961 for Keith’s to hide the decline.
    Mike’s series got the annual
    land and marine values while the other two got April-Sept for NH land
    N of 20N. The latter two are real for 1999, while the estimate for 1999
    for NH combined is +0.44C wrt 61-90. The Global estimate for 1999 with
    data through Oct is +0.35C cf. 0.57 for 1998.
    Thanks for the comments, Ray.

    Cheers
    Phil

    Hér er Phil Jones að vísa í “brellu” við framsetningu gagna (ekki tölfræðilega) sem hann rakst á í Nature grein Manns o.fl. 1998 (Global-scale temperature patterns and climate forcing over the past six centuries) og snýst um að teikna á sömu mynd hitastig fengna með mælingum veðurstöðva og svokallað proxý-hitastig sem fengnar voru með óbeinum mælingum. Með því móti sást samhengi þessara gagna betur. Gögnin sem þetta átti að “fela” eru gögn sem vel eru þekkt að séu ekki góð fyrir árin eftir 1961 og þetta vandamál hefur verið kallað “divergence problem” (samleitni vandamálið). Þetta vandamál hefur verið þekkt frá 1998 og meðal annars rætt um það í grein Briffa o.fl 1998 (Reduced sensitivity of recent tree-growth to temperature at high northern latitudes – ágrip), en það er grein þeirra sem fyrst byrjuðu að nota þessi gögn, en þar mæla þeir með að ekki séu notuð gögn eftir 1961.

    Það er því meira en viðeigandi að nota þá “brellu” að teikna ekki gögnin öll, sérstaklega þar sem ekki er mælt með að þau séu notuð (þ.e. gögnin eftir 1961).

    Næsta setning:

    Vísindamennirnir tala um skort á skilningi á hitasveiflum sem mælst hafa undanfarið, sem benda til þess að jörðin sé nú að kólna. Trenberth segir meðal annars -Staðreyndin er sú að við getum ekki gert grein fyrir því hvers vegna jörðin er ekki að hitna núna og það er skrípaleikur.

    Það sem verið er að vísa í er úr eftirfarandi tölvupósti (feitletrað það sem við á):

    Hi all

    Well I have my own article on where the heck is global warming? We are asking that here in Boulder where we have broken records the past two days for the coldest days on record. We had 4 inches of snow. The high the last 2 days was below 30F and the normal is 69F, and it smashed the previous records for these days by 10F. The low was about 18F and also a record low, well below the previous record low. This is January weather (see the Rockies baseball playoff game was canceled on saturday and then played last night in below freezing weather).

    Trenberth, K. E., 2009: An imperative for climate change planning: tracking Earth’s global energy. Current Opinion in Environmental Sustainability, 1, 19-27, doi:10.1016/j.cosust.2009.06.001. [1][PDF] (A PDF of the published version can be obtained from the author.)

    The fact is that we can’t account for the lack of warming at the moment and it is a travesty that we can’t. The CERES data published in the August BAMS 09 supplement on 2008 shows there should be even more warming: but the data are surely wrong. Our observing system is inadequate.

    That said there is a LOT of nonsense about the PDO. People like CPC are tracking PDO on a monthly basis but it is highly correlated with ENSO. Most of what they are seeing is the change in ENSO not real PDO. It surely isn’t decadal. The PDO is already reversing with the switch to El Nino. The PDO index became positive in September for first time since Sept 2007. see [2]http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/GODAS/ocean_briefing_gif/global_ocean_monitoring_current .ppt

    Kevin

    Hér er Kevin Trenberth að lýsa vangetu vísindamannanna í að mæla heildar geislunarjafnvægið (e. radiation balance) í efri lögum lofthjúpsins með nægilegri nákvæmni til að geta lýst orkubúskap (e. energy budget) jarðarinnar nægilega vel á stuttum tímakvarða. Þ.e. þær athuganir og mælingar sem til eru, nægja ekki til þess. Hægt er að skoða þessar pælingar Trenberths í grein sem kom út fyrr á árinu (An imperative for climate change planning: tracking Earth’s global energy).

    Hér er því um að ræða skortur á nægjanlega góðum athugunum og mælingum sem gera það að verkum að ekki er hægt að reikna út orkubúskap jarðarinnar. Rímar ekki alveg við það sem ofangreind frétt á visir.is segir – eða hvað?

    Niðurstaða

    Eins og sést á þessum tveimur setningum sem eru hér greindar, þá er ekkert sem bendir til að um einhverskonar falsanir sé að ræða af hálfu þessara vísindamanna. Þarna urðu þeir í fyrsta lagi fyrir árás hakkara og í öðru lagi síðan fyrir árás efasemdablogga og fjölmiðla sem hafa reynt að snúa út úr orðum þeirra af mikilli vanþekkingu.

    Vel getur verið að við skrifum um fleiri punkta sem skrumskældir verða úr þessum tölvupóstum – en á erlendum efasemdabloggum er verið að snúa og skrumskæla orð þessara vísindamanna í tugavís og því líklegt að fleiri punktar komi fyrir sjónir hér.

    Eftir þennan lestur, þá ætti fyrirsögn bloggfærslunnar að skýra sig sjálf.

    Ítarefni

    Útskýringarnar eru að mestu fengnar af RealClimate – sem er bloggsíða skrifuð af loftslagsvísindamönnum, sem sumir hverjir hafa einnig orðið fyrir því að þeirra tölvupóstar hafa verið teknir úr samhengi. Sjá t.d. eftirfarandi bloggfærslur og athugasemdir þeirra: The CRU hack og The CRU hack: Context

  • Frétt: Austur-Suðurskautið líka að missa massa?

    antarctic_dome_a_226Í nýjasta hefti Nature Geoscience sem er hliðarrit Nature, er bréf til tímaritsins um nýjar niðurstöður á úrvinnslu úr þyngdarmælingar með nýrri kynslóð gervitungla sem nefnist GRACE (Gravity Recovery and Climate Experiment). Hingað til hefur verið vitað að Vestur-Suðurskautið væri að missa massa hratt – en gögn hingað til hafa bent til þess að Austur-Suðurskautið væri tiltölulega stöðugt.

    Þessar nýju rannsóknir benda til þess að Austur-Suðurskautið sé búið að vera að missa massa síðastliðin þrjú ár, en rétt er að benda á að óvissa er nokkuð mikil.  

    Hér eru plottaðar saman massabreytingar Austur-Suðurskautsins og Vestur-Suðurskautsins eins og það var út árið 2005. Eins og sjá má, þá var Austur-Suðurskautið í jafnvægi, á meðan mikil bráðnun var á Vestur-Suðurskautinu.
    Hér eru plottaðar saman massabreytingar Austur-Suðurskautsins (græn lína) og Vestur-Suðurskautsins (rauð lína) eins og það var út árið 2005. Eins og sjá má, þá var Austur-Suðurskautið í jafnvægi, á meðan mikil bráðnun var á Vestur-Suðurskautinu.

    Til að hafa tölurnar á hreinu, þá þýðir algjör bráðnun Grænlandsjökuls og Vestur-Suðurskautsins um 6-7 m hækkun í sjávarstöðu, en Austur-Suðurskautið er talið geta valdið um 50-60 m hækkun í sjávarstöðu. Það býst þó enginn við að slík bráðnun geti orðið á næstu nokkuð hundrað árum, en þarna er þó komin vísbending um að þetta geti gerst hraðar en áður hefur verið talið.

     Samkvæmt þessari nýju úrvinnslu þá hefur Austur-Suðurskautið, frá 2006, verið að missa um 57 gígatonn á ári (reyndar er óvissan um 52 gígatonn á ári og því gæti þetta legið á bilinu 5-109 gígatonn á ári). Þetta er samt lítið miðað við það sem Grænlandsjökull og Vestur-Suðurskautið hafa misst undanfarin ár, en þær tölur eru um 270 og 130 gígatonn á ári.

    gracedata_226x320

    Það sem gerir úrvinnslu og túlkun á svona gögnum enn erfiðari en ella, er að jöklar á síðasta jökulskeiði ísaldar voru enn þykkari en þeir eru í dag og landið undir er að jafna sig af þeirri fargléttingu sem hefur orðið síðan þá og því að rísa. Annað sem gerir túlkun erfiða er sú klassíska spurning með gögn sem ná yfir svona stutt tímabil – eru þetta breytingar í veðri, reglubundin hegðun í jöklinum – eða loftslagsbreytingar?

     Massabreytingin virðist vera mest við ströndina, en ekki er ljóst hvað veldur því. Eitt er víst að ekki getur það verið vegna bráðnunar af völdum lofthita, því hitastig á þessum slóðum er töluvert fyrir neðan frostmark. Mögulegt er að einhverskonar tengsl við breytingar í sjávarstraumum eða veðrakerfum valdi aukinni bráðnun við ströndina, en enn ein tilgátan er að stöðuvötn undir jöklinum geti með reglubundnum hætti valdið einskonar neðanjökulshlaupum sem að smyrja undirlagið og valda hröðun jökulstrauma í átt til sjávar. Það er því alls ekki víst að um sé að ræða loftslagstengdan atburð.

    Hver svo sem ástæðan er, þá er ljóst að það verður að fylgjast með þessu enn frekar því þetta gæti verið vísbending um að það geti farið að hitna í kolunum í bráðnun jökla og ef þetta heldur áfram í nokkur ár, þá er ljóst að möguleikar á mun hraðari sjávarstöðubreytingum eru inni í myndinni ef Austur-Suðurskautið fer að bráðna og missa massa í einhverju magni – það er þó ekkert við þessa rannsókn sem nægir til að draga svo dramatískar ályktanir.

    Heimildir og ítarefni

    Ágrip bréfsins til Nature Geoscience:  Accelerated Antarctic ice loss from satellite gravity measurements

    Gestapistill Tómasar Jóhannessonar:  Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna

    Um breytingar í sjávarstöðu:  Sjávarstöðubreytingar

  • Heitt: Hakkarar afrita tölvupósta og skjöl

    email_logoKomið hefur upp mál, þar sem hakkarar náðu meira en 1.000 skjölum af tölvuþjóni og endurbirtu á netinu. Þessi skjöl, sem eru m.a. tölvupóstar, voru geymd í tölvukerfi á einni af leiðandi rannsóknarstöðvum varðandi loftslagsrannsóknir í Bretlandi. Það lítur út fyrir að þessi “sýndar” árás hafi það að markmiði að reyna að skaða orðspor virtra loftslagsvísindamanna.

    Rannsóknarmiðstöð háskólans í Austur “Anglia” varðandi loftslagsmál (CRU) í Norwich, staðfesti í dag að tölvupóstum og skjölum úr tölvuveri þeirra hefðu verið ólöglega afrituð og birt á netinu á ónafngreindum rússneskum tölvuþjóni. Tenging á rússneska tölvuþjóninn kom fyrst fram þann 19. nóvember á lítt þekktu bloggi sem fjallar um loftslagsmál á skeptískan hátt. Tölvuþjóninum var lokað nokkrum klukkutímum síðar, en efninu sem var stolið var þá þegar komið í dreifingu annars staðar á netinu. Staðfest hefur verið að skjölin séu dagsett frá 1991 – 2009.

    Talsmaður háskólans staðfestir að hakkarar hafi komist inn í tölvukerfið og náð í upplýsingar þaðan án leyfis. Hann tekur fram að rannsókn standi yfir og að lögreglunni hafi verið tilkynnt um atvikið. Hann segir einnig að magnið sé of mikið til að hægt sé að staðfesta að það efni sem birst hafi sé ekta.

    Nokkur blogg sem fjalla um loftslagsmál á efasemdarnótum, hafa nú þegar birt efni úr þessum skjölum. M.a. er að finna tölvupósta sem taldir eru eiga rætur að rekja til framkvæmdastjóra CRU, Phil Jones, til samstarfsmanna sinna, m.a. Michael Mann. Mann er m.a. þekktur fyrir rannsóknir sýnar á fornloftslagi og er einn af sem kom fram með hokký-kylfu grafið.

    Þeir sem efast um hlýnun jarðar af mannavöldum hafa túlkað sum orð í þessum tölvupóstum, þannig að hægt sé að skilja að um einhverskonar falsanir sé að ræða. Einnig er í þessum, oft persónulegu, tölvupóstum sitthvað sem ekki var hugsað til útgáfu. M.a. þar sem rætt er um ákveðnar persónur, þar sem skipst er á skoðunum um ákveðin mál eða jafnvel notað sérstakt orðfæri þar sem væntanlega þarf að vita hvað um er verið að ræða til að skilja samhengið. En það er mikið skrifað um þetta mál á netinu og sýnist fólki sitthvað um þetta mál.

    Ef að satt reynist að um einhvers konar falsanir sé að ræða – þótt smávægilegar geti verið, þá er það vissulega alvarlegt mál fyrir viðkomandi vísindamenn. Rétt er að draga ekki strax ályktanir um það, þetta gæti verið stormur í vatnsglasi sem blásinn er upp af þeim sem vilja ekki minka losun CO2 út í andrúmsloftið. Þá má vissulega setja spurningamerki við tímasetninguna svo rétt fyrir loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn.

    Ýtarefni:

    Frétt á vef BBC
    Frétt á vef Nature.com

    Umfjallanir:

    RealClimate
    Greenfyre og Meiri Greenfyre
    DeSmogBlog

    Efasemdarraddirnar:

    Roy Spencer
    WattsUpWithThat?

  • Frétt: Fræðsluvefur Námsgagnastofnunnar um loftslagsmál

    Nýr loftslagsvefur Námsgagnastofnunnar opnaði á dögunum. Þann 11. nóvember opnaði fræðsluvefur Námsgagnstofnunar um loftslagsmál. Efnið á vefnum er þríþætt. Þar er fjallaðu um Þemaheftið  CO ₂ – framtíðin í okkar höndum, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur tók saman. Heftið er væntanlegt í janúar. Á vefnum er fróðleg fræðslumynd á íslensku sem fjallar um loftslagsbreytingar af mannavöldum, myndin heitir Gróðurhúsaáhrif – loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar og fjallar um veðurfarsbreytingar sem hafa orðið á jörðinni. Einnig er í henni fjallað um gróðurhúsaáhrifin og hlut mannanna í aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Á vefsíðunni CO ₂ – framtíðin í okkar höndum, verða meðal annars kennsluleiðbeiningar, krækjur og myndefni, auk verkefna sem hægt er að vinna í tengslum við efni fræðslumyndarinnar.

    Ritstjóri verksins er Sigríður Wöhler en grafíska vinnslu og umbrot annaðist PORT hönnun.

    Slóðin á vefsíðuna er http://nams.is/co2/ og það má horfa á fræðslumyndina Gróðurhúsaáhrif – loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar á vefnum, myndin er í 3 hlutum og er u.þ.b. 25 mín. í allt.

    co2_is


  • Gestapistill: Eru loftslagsmálin einföld eða flókin?

    Hlýnun af mannavöldum
    Hlýnun af mannavöldum í sinni einföldustu mynd.

    Eins og flest annað í þessum heimi geta loftslagsmálin í senn verið einföld og flókin. Þau geta líka verið auðskilin eða torskilin en mjög oft eru þau líka misskilin. Fyrir mér eru hugmyndir um hlýnandi loftslag af mannavöldum í sinni einföldustu mynd eitthvað svipaðar því sem sést hér á myndinni. Við erum með hitalínurit sem sýnir nokkuð sveiflukenndan feril, nema hvað myndinni hefur verið lyft upp hægra megin með olíutunnu, en þannig hefur jafnvæginu verið raskað af mannavöldum sem ýtir undir hlýnun. En það eru ýmis atriði sem gera málin flókin, ekki síst fyrir okkur sem fylgjumst með af hliðarlínunni. Hér ætla ég að velta mér upp úr nokkrum atriðum, ekki síst hinum náttúrulegu þáttum sem hafa áhrif á hita jarðar – án þess þó að komast að nokkurri niðurstöðu.

    Hvað er vitað og hvað ekki?

    Það er allavega tvennt sem engin ástæða er til að efast um í sambandi við loftslagsmálin. Í fyrsta lagi þá hefur hlýnað á jörðinni undanfarin 100 ár eins og allar mælingar staðfesta og í öðru lagi þarf varla að deila um að aukin koltvísýringur í lofti veldur auknum gróðurhúsaáhrifum sem leiðir til hlýnunar. Það eru samt mikilvæg atriði sem óvissa er um. Hversu mikil eru t.d. áhrifin af auknu CO2 í lofthjúpnum og hversu mikið eiga náttúrulegir þættir í þeirri hlýnun sem orðið hefur. Hversu stór ætti tunnan að vera á myndinni hér að ofan? Annað mikilvægt atriði er hvers vegna hlýnunin hefur ekki verið stöðug, en á þessum síðustu 100 árum hefur hlýnunin aðallega átt sér stað í tveimur rykkjum á tímabilunum 1915-1945 og 1977-2005 með lítilsháttar kólnun þess á milli. Vita menn almennilega hvers vegna þetta gerist?

    Hitaþróun jarðar 1880-2008 samkvæmt NASA-GISS. Tímabilaskiptingu hefur verið bætt við myndina
    Hitaþróun jarðar 1880-2008 samkvæmt NASA-GISS. Tímabilaskiptingu hefur verið bætt við myndina en greinileg umskipti urðu síðast árið 1977.

    Náttúrulegar sveiflur.

    Að þekkja það sem veldur hinum stærri hitasveiflum hlýtur að vera mikilvægt atriði til að skilja hvað getur gerst í framtíðinni og hver sé þáttur náttúrunnar í þessu dæmi. Það er t.d. vel þekkt hvernig El Nino og La Nina fyrirbærin á Kyrrahafinu hafa áhrif til skamms tíma á hita jarðar. Þegar þessar Kyrrahafssveiflur eru skoðaðar áratugi aftur í tímann kemur í ljós að tíðni hinna hlýju El Nino hefur verið mun meiri eftir 1977, öfugt við áratugina þar á undan þegar hin kalda La Nina var oftar uppi. Þessi fasaskipting í Kyrrahafinu kemur merkilega vel saman við hnattræna hitalínuritið enda tók hlýnun jarðar mikinn kipp eftir 1977. Þarna gætu verið á ferðinni einhverjar áratugasveiflur í Kyrrahafinu sem stýra því hvort hinir köldu eða hlýju fasar ráða ríkjum yfir lengra tímabil. Slíka sveiflu þykjast menn reyndar sjá og kalla hana Pacific Multidecatal Oscillation sem einmitt á að hafa skipt um ham um 1977 og þar áður á fimmta áratugnum. Hér í Norður-Atlantshafi er síðan talað um aðra áratugasveiflu sem nefnist Atlantic Multidecatal Oscillation og hefur ekki síst áhrif hér á landi. Í framhaldi af þessu má spyrja að því hvort við getum á ný átt von á tímabili stöðnunar í hita jarðar ef köldu fasarnir verða ríkjandi á ný.

    ENSO_index1977
    Fasaskipting á tíðni El Nino og La Nina í Kyrrahafinu. Hvað gerist árið 1977?

    Önnur eldri útskýring, eða viðbótarútskýring á hitasveiflunum snýst um sótagnir í lofti vegna mengunar. Þar er gert ráð fyrir því að þegar aðgerðir hófust til að minnka sótmengun í útblæstri á áttunda áratugnum, hafi loftið orðið hreinna og því sólskinið sterkara, án þess að útblástur CO2 hafi minnkað að sama skapi og því hafi hitinn rokið upp eftir 1977. Þessi sótmengun gæti verið að aukast á ný vegna megna mikillar iðnvæðingar í Asíu sem aftur gæti dregið úr hlýnun. Lítið finnst mér þó hafa farið fyrir umræðum um þetta undanfarið.

    Þessar tvær skýringar á náttúrulegum sveiflum geta báðar verið réttar – eða jafnvel hvorug. Þær eru þó ólíkar að því leyti að önnur gerir ráð fyrir aðgerðum mannsins en hin ekki. Stundum er síðan talað um tilviljunarkenndan breytileika sem reyndar þýðir ekkert annað en breytileika af óþekktum ástæðum.

    Svo er það blessuð sólin

    Það er ekki langt síðan hugmyndir um afgerandi tengsl sólarinnar við hlýnun jarðar komu fram af alvöru en enn sem komið er hafa þær hugmyndir ekki fengið almennan hljómgrunn meðal vísindamanna. Aðallega vegna þess að hlýnun undanfarinna áratuga er ekki í samræmi við þróun sólvirkni á sama tíma. Hinsvegar skapar það óvissu í allri þessari umræðu að síðasta öld einkenndist af mikilli sólvirkni sem þýðir að 20. öldin hefði að öllum líkindum verið eitthvað hlýrri en undanfarnar aldir hvort sem inngrip mannsins hefði komið til eða ekki. Að þekkja áhrif sólarinnar skiptir auðvitað miklu máli ekki síst ef sólvirknin fer minnkandi á næstu áratugum. Hvað gerist síðan ef sólin fer í mjög djúpa lægð eins og sumir eru jafnvel að  spá? Eru áhrif sólarinnar örugglega nógu vel þekkt?

    Sólvirkni síðustu 400 ára að viðbættri svartsýnisspá frá Rússneskum vísindamönnum um virknina framundan.
    Sólvirkni síðustu 400 ára og svartsýnisspá Rússneskra vísindamanna um virknina framundan.

    Hvað gera höfin og sólin í sameiningu?

    Ef mikil sólvirkni á síðustu öld hefur átt sinn þátt hlýnun jarðar, má spyrja hversu mikið eimir ennþá eftir af þeim hita. Getur verið að úthöfin varðveiti ennþá hluta af þeirri aukavarmaorku sem sólin gaf okkur á liðinni öld eða er allur sá aukavarmi horfinn út í veður og vind? Það er vitað að vegna stærðar sinnar og dýptar, eru úthöfin frekar svifasein að bregðast við utanaðkomandi hitabreytingum og því ekki hægt að ætlast til að hitajafnvægi úthafana fylgi alveg sveiflum í virkni sólarinnar. Kannski spila þarna líka inní áratugalangir andardrættir úthafana þar sem höfin ýmist gleypa í sig hita eða geisla honum frá sér eftir því hvernig kaldur djúpsjórinn og hlýr yfirborðssjórinn blandast á löngum tíma.

    – – – – –

    Til að setja þetta saman í eitt, þá erum við með aukin gróðurhúsaáhrif, minnkandi sólvirkni, hitasveiflur í úthöfunum, breytilega sótmengun auk fjölda annarra þátta sem hafa áhrif á hitafar jarðar á næstunni. Loftslagsmálin geta kannski verið einföld í grunninn, en í sinni flóknustu mynd eru þau auðvitað langt fyrir ofan minn skilning. Hinsvegar verðum við að vona og treysta á að þau séu ekki of flókin fyrir þá vísindamenn sem fást við þessi fræði. Ef það er þeirra skilningur almennt að mannkynið sé að valda hættulegri hlýnun á jörðinni er varla um annað að ræða en að gera eitthvað í því ef mögulegt er, að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós.