Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Frétt: Bráðnun Grænlandsjökuls

    Mælingar með gervihnöttum (GRACE) og nákvæm líkön sem líkja eftir svæðabundnum breytum í lofthjúpnum, staðfesta að Grænlandsjökull er að tapa massa og að það massatap sé að aukast samkvæmt nýlegri grein í Science sem kom út fyrir um mánuði síðan (minnst var á þessa grein í gestapistli Tómasar Jóhannessonar – Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna). 

    Dreifing massabreytingunnar milli áranna 2003 og 2008.
    Dreifing massabreytingunnar milli áranna 2003 og 2008.
    Reiknuð massabreyting Grænlandsjökuls.
    Reiknuð massabreyting Grænlandsjökuls.

    Þetta massatap er bæði vegna aukningu á borgarísjakamyndunum vegna hröðunar jökulstrauma út í sjó og vegna aukinnar bráðnunar við yfirborðið. Undanfarin sumur hafa verið óvenju hlý og því hefur massatapið aukist síðastliðin ár, en á tímabilinu 2006-2008 tapaðist um 273 gígatonn á ári – sem jafngildir 0,75 mm hækkun sjávarstöðu á ári.

     Einn höfunda, Jonathan Bamber segir að það sé greinilegt af þessum niðurstöðum að massatap Grænlandsjökuls hefur aukist hratt síðan rétt fyrir aldamót og að undirliggjandi ástæður bendi til þess að það muni aukast næstu ár.

    Massabreytingar. Gul lína sínir afrennsli, rauð lína úrkomu, græn lína uppgufun og bláa línan samtals massabreytingu.
    Massabreytingar. Gul lína sínir afrennsli, rauð lína úrkomu, græn lína uppgufun og bláa línan samtals massabreytingu.

     Grænlandsjökull inniheldur nóg af vatni til að valda hækkun sjávarstöðu um 6-7 m og þó vitað sé að það gerist ekki á næstu áratugum þá velta menn því fyrir sér hvað muni gerast með áframhaldandi hlýnun jarðar en það veltur einnig á því hversu miklar úrkomubreytingar verða (sjá t.d. áhugaverðan pistil hjá Einari Sveinbjörnssyni um Innlán á jöklum).

    Á sama tíma og afrennsli jókst upp úr 1996 þá jókst úrkoma á sama hraða, þannig að það varð nánast engin massabreyting í næstum áratug.

    Það ræðst því af hversu hratt hlýnunin vex á Grænlandi og í hafinu við Grænland og um leið hversu mikil úrkoma verður á sömu slóðum, hversu mikið Grænlandsjökull bráðnar.

    Heimildir

    Greinina sjálfa má finna hér: Partitioning Recent Greenland Mass Loss

  • COP15: Afglöp, bjartsýni og formannsembætti

    10_dagur_COP15Nú er 10. degi loftslagsráðstefnunar að ljúka. Samkvæmt fréttum dagsins, þá lítur ekki út fyrir að mikillar bjartsýni gæti varðandi það hvort samningar náist. Connie Hedegaard varð að láta formannsembættið í hendur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur í dag. Í ljós hefur komið nokkur óánægja með störf hennar, sérstaklega frá stóru þróunarríkjunum. Á þessum síðustu tímum ráðstefnunnar lítur út fyrir að erfitt verði að ná samkomulagi, m.a. vegna þess að þróunarríkin telja að of lítið fjármagn komi frá ríkari þjóðum. Lars Løkke Rasmussen og Gordon Brown héldu fund í kvöld þar sem þeir fóru yfir málin, ekki hefur enn komið fram, hvað þar fór fram.

    frontpage_picture_III

    Helstu atriði 10. dags loftslagsráðstefnunnar, af dr.dk:

    1. Afglöp í dönsku formennskunni

    Vegna svokallaðrar tæknilegrar aðferðarfræðivillu, gerða í stjórnun hinnar dönsku formennsku, hafa þróunarþjóðirnar brugðist hart við. Tveir vinnuhóparnir voru við vinnu síðastliðna nótt í Bella Center og áttu að leggja framlag næturinnar fyrir Connie Hedegaard um morguninn. Þegar það varð seinkunn á því, ákvað Connie Hedegaard að halda áfram vinnu við að leggja fram tillögur dönsku formennskunnar án þess að vinna og niðurstaða vinnuhópanna væru teknar til athugunar fyrst. Stuttu síðar gagnrýndu stóru þróunarríkin, Kína, Indland, Brasilía og Suður-Afríka aðferðina og stöðvuðu þar með að tillögurnar yrðu lagðar fram. Þar af leiðandi hefur stór hluti dagsins farið í að ræða aðferðafræðina og það er í fyrsta lagi í kvöld sem hægt verður að leggja tillögurnar fram. Samkvæmt nýjustu fréttum er ekki víst hvenær það getur orðið.

    2. Amerísk bjartsýni

    Einn mikilvægasti þátttakandi Bandaríkjanna á loftslagssviðinu, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og núverandi formaður fyrir utanríkisnefnd öldungadeildarinnar, John Kerry, fór í ræðustólinn í Bella Center í dag. Hann hefur trú á því að BNA komi til með að vera virkur þátttakandi í nýju loftslagssamkomulagi. Hann talaði um að á næsta ári muni verða samþykkt lög sem minnki losun BNA.

    3. Forsætisráðherra tekur við formannsembættinu

    Danski forsætisráðherran Lars Løkke Rasmussen tók í dag við formannsembættinu á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn af Connie Hedegaard. Hún neyddist til að draga sig í hlé, þar sem margir þjóðarleiðtogar eru á ráðstefnunni núna. Þar af leiðandi er það talið meira passandi að forsætisráðherrann taki við embættinu, segir fréttaritari DR Thomas Falbe.

    Myndband með aðalatriðum 10. dagsins samkvæmt COP15 á YouTube, má sjá hér.

    Eldri yfirlit og ítarefni:

  • Blogg: Um loftslagsfræðin

    Þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna er nú í hámæli, þá er ekki úr vegi að skoða hver þekkingin er í loftslagsmálum, þó ekki væri nema til að vita hvers vegna vísindamenn hvetja þjóðir heims til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og þá sérstaklega CO2.

    Samkeppni en samt samhljóða álit

    consensusÍ vísindasamfélaginu er mikil samkeppni í hverju fagi fyrir sig um að komast að réttri niðurstöðu eða réttari niðurstöðu en aðrir í faginu koma fram með – menn efast um niðurstöður annarra vísindamanna og reyna að afsanna þær. Þrátt fyrir það, þá myndast alltaf ákveðinn þekkingargrunnur sem flestir aðilar innan greinarinnar eru sammála um – einhverskonar samhljóða álit (e. Scientific consensus). Vísindamenn innan þessa samhljóða álits eru þó ávallt að reyna að hrekja ríkjandi hugmyndir, hugtök og kenningar annarra, með betri mælingum, rannsóknaraðferðum og úrvinnslu. Þótt samhljóða álit geti verið nokkuð sterkt í kjarnanum, þá er þó alltaf deilt um áherslur.

    Loftslagfræðin eru engin undantekning og jafnvel er meiri áhersla lögð á að reyna að afsanna ríkjandi hugmyndir í því fagi – auk þess sem á þau fræði herja öflugir hópar þeirra sem hafa hag af því að reyna að afsanna þær kenningar, sem oft er blásið upp af öflugum efasemdabloggsíðum – stundum eru jafnvel vísindamenn þar framarlega í flokki (reyndar eru þeir fáir og oftast þeir sömu).

    Sökum mikilvægi þess að vita hvaða öfl eru að verki við að breyta loftslagi jarðar, þá eru hópar alþjóðlegra stofnanna að keppast við að afla betri gagna og smíða betri loftslagslíkön.  Það samhljóða álit sem er ríkjandi í dag í loftslagsfræðum er því ekki bundið fámennan hóp vísindamanna né einyrkja sem mögulega gætu framið einhvers konar samsæri eða fiktað við gögn til að ýkja þá hlýnun sem er – til þess eru þessir hópar of stórir og margir.

    Hin viðamikla þekking á loftslagskerfum jarðar er byggð á athugunum, tilraunum og líkönum gerð af efnafræðingum, veðurfræðingum, jöklafræðingum, stjarneðlisfræðingum, haffræðingum, jarðfræðingum, jarðefnafræðingum, líffræðingum, steingervingafræðingum, fornloftslagsfræðingum, fornvistfræðingum svo einhverjir séu upp taldir.

    Að komast að samhljóða áliti innan svona fjölbreytilegs hóps er oft eins líklegt og friðarumleitanir stríðandi fylkinga. Þrátt fyrir það, þá er meginmyndin skýr varðandi loftslagsbreytingar og vísindamennirnir sammála um hana.

    Flókið samspil

    Geislunarálag (í W/m2) frá upphafi iðnbyltingar og helstu orsakaþættir. Rauðar súlur sýna áhrif til hlýnunar jarðar en bláar til kólnunar (mynd úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).
    Geislunarálag (í W/m2) frá upphafi iðnbyltingar og helstu orsakaþættir. Rauðar súlur sýna áhrif til hlýnunar jarðar en bláar til kólnunar (mynd úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).

    Það er vitað að loftslag og hiti jarðar verða fyrir flóknu samspili hitunar frá sólu, sjávar, hafís og jökla, vatnsgufu, skýja, arða í lofthjúpnum, líffræðilegra ferla og gróðurhúsalofttegunda. Að svipta hulunni af þessu samspili og að ákvarða hvert stefnir í loftslagi jarðar út frá þessu samspili hefur krafist samstarfs vísindamanna sem starfa á mjög ólíkum sviðum.

    Það er vitað að CO2 (koldíoxíð) hefur aukist gríðarlega frá upphafi iðnbyltingarinnar og er vegna losunnar manna – og að miklu leiti vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Við vitum að CO2 er gróðurhúsalofttegund sem fangar útgeislun af innrauða sviðinu og hitar upp jörðina. Sem dæmi um gróðurhúsaáhrif þá eru þau mikil á Venus, þar sem yfirborðshiti er það mikill að berg á yfirborði þess lýsir í myrkri. Þrátt fyrir að Venus sé nær sólinni en jörðin, þá er þessi gríðarlegi hiti að mestu vegna þess hve mikið CO2 er í lofthjúpi þess.

    Aukning CO2 í lofthjúpnum setur af stað önnur áhrif, svokallaðar magnandi svaranir (e. positive feedbacks) – sem eru afleiðingar af aukningu í hitastigi. Þegar hitastig eykst, þá gufar meiri vatnsgufa upp úr höfunum. Vatnsgufa er enn ein mikilvæg gróðurhúsalofttegund sem eykur á hitann. Heitari höf eiga einnig erfiðara með að binda CO2 úr lofthjúpnum á meðan bráðnun sífrera getur aukið magn CO2 og metans, en metan er enn ein öflug gróðurhúsalofttegund. Hlýnun minnkar einnig hafís og jökla, hina náttúrulegu spegla sem að spegla sólargeislum aftur út í geiminn – sem verður til þess að jörðing gleypir meira af sólargeislunum og hitnar enn frekar – og meira bráðnar.  Þessar magnandi svaranir valda því aukningu í hitastigi jarðar og talið er að litlar breytingar í ýmsum þáttum sem stjórna loftslagi jarðar – geti þannig magnað upp sveiflur í loftslagi. Auk þess er það ákveðin viðvörun um það að full áhrif aukningarinnar í CO2, gerist ekki samstundis.

    Hvað er óljóst?

    siberia-russia-002Sum atriði í samspili ferla sem stórna loftslagi eru minna þekkt, eins og hvaða áhrif ský og örður hafa á loftslag – til kólnunar eða hlýnunar. Þetta eru mikilvægir ferlar sem mikið hafa verið rannsakaðir undanfarin ár.

    Það má búast við því, að þrátt fyrir minnkandi losun CO2 þá muni halda áfram að hitna – hversu mikið fer eftir því hversu hratt minnkunin verður. Höfin eru gríðarlega umfangsmikil og það tekur þau langan tíma að hitna og ná jafnvægi við hlýnun lofthjúpsins – og þegar það gerist þá munu þau binda minna og minna CO2 og meiri vatnsgufa mun stíga upp úr þeim.

    Það er samt ekki til samhljóða álit um það hversu mikið mun hlýna á næstu áratugum og öldum. Það er háð ýmsum óvissuþáttum líkt og hversu mikið CO2 verður losað út í andrúmsloftið og hver viðkvæmni loftslagsins (e. climate sensitivity) er fyrir aukningu CO2 – þ.e. hvernig hitastig jarðar bregst við áðurnefndum magnandi svörunum. Þótt ekki sé til ákveðið samhljóða álit um viðkvæmni CO2, þá sýna flestir útreikningar  að við tvöföldun á CO2 einu í andrúmsloftinu leiði til þess að hiti hækki um 1,5-4,5°C.

    Fortíð, nútíð, framtíð

    Hér er áætlað hitastig jarðar aftur til byrjun Kambríum fyrir um 540 milljónum ára (af wikipedia).
    Hér er áætlað hitastig jarðar aftur til byrjun Kambríum fyrir um 540 milljónum ára (af wikipedia).

    Loftslagsbreytingar til forna segja mikið til viðkvæmni loftslags og hlutverk CO2 í þeim. Við endursköpum á loftslagi fortíðar, þá sjást tímabil hægra og hraðra loftslagsbreytinga og miklar sveiflur í hitastigi. Þótt mikill hluti fjölmiðla fókusi á síðastliðin hundrað til hundrað þúsund ár og hið mikla samband milli CO2 og hitastigs á þeim tíma, þá er einnig gagnlegt að skoða loftslagsbreytingar milljónir ára aftur í tíman.

    Jörðin hefur í raun verið íslaus stóran hluta sögu sinnar. Sem dæmi þá var jörðin töluvert hlýrri og nánast engir jöklar frá sirka fyrir 65-34 milljónum árum síðan. Fyrir fimmtíu og fimm milljón árum síðan þá varð mikil losun CO2, þannig að höfin súrnuðu (líkt og er byrjað nú) og hiti jarðar jókst um sirka fimm gráður á selsíus á jörðinni, sem þá þegar var mjög heit. Þegar hún var sem heitust, þá syntu krókódílar um Norðuríshafið, þrátt fyrir að útgeislun sólar hafi verið minni þá en nú. Mun hærra magn CO2 var á þessum tíma og lækkun hitastigs þar á eftir fylgdi minnkandi magni CO2 í andrúmsloftinu.

    Saga loftslagsbreytinga segja okkur að CO2 hafi töluverð áhrif á loftslag jarðar – þó ekki eitt og sér – en leiðandi. Hún segir okkur einnig að loftslagsviðkvæmni af völdum CO2 er jafnvel enn hærri en það sem um er rætt meðal þeirra sem nú eru að semja um minnkandi losun þess.  Fyrir fimm miljónum ára var CO2 svipað og það er í dag og jörðin var fjórum gráðum hlýrri en nú og sjávarstaða tugum metrum hærri.

    Það eru miklar vísbendingar og rannsóknir sem segja okkur hver áhrif CO2 er á hitastig jarðar. Í sögu jarðar fylgist oftast að mikil aukning í CO2 og mikill hiti á jörðinni. Það er óvarlegt að áætla að aukning CO2 nú og í framtíðinni, muni af einhverjum undarlegum ástæðum, valda öðruvísi útkomu.

    Ítarefni

    Þessi færsla er að nokkru leiti byggð á færslu sem höfundur sá á SolveClimate – The Big Picture: What Scientists Do and Do Not Know About Climate Change. Túlkun er þó algjörlega á ábyrgð undirritaðs.

  • COP15: Vinnuhópar, stjórnmálaleiðtogar og 48 tímar

    connie_hedegaard_238pxLeiðtogar ýmissa landa streyma nú til Kaupmannahafnar. Í kvöld er opinber athöfn þar sem lokaáfangi ráðstefnunnar er formlega settur. Þetta er sá áfangi þar sem stjórnmálaleiðtogar landanna koma saman og reyna að ná saman um lokaatriði samninganna. Það eru ýmis óleyst mál og aðeins um 48 tímar til að leysa úr þeim. Það hefur mætt mikið á Connie Hedegaard (sjá mynd) formanni ráðstefnunnar á síðustu dögum og ljóst þykir að næstu 2-3 sólarhringar munu einnig verða áskorun fyrir hana. Hún hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að ná samkomulagi í Kaupmannahöfn. Viðræðurnar eru nú að fara yfir á hið pólitíska stig, þar sem endanlegar ákvarðanir verða teknar, ef samkomulag næst.

    Helstu atriði 9. dags loftslagsráðstefnunnar, af dr.dk:

    1. Vinnuhópar vinna að því að ljúka vinnunni

    Í dag hefur farið fram vinna í vinnuhópum, þar sem áhersla hefur verið lögð á að ná saman tillögum að samkomulagi. Þessar tillögur á að leggja fyrir formann ráðstefnunnar, Connie Hedegaard, seinna í kvöld. Samkvæmt Thomas Falbe, fréttaritara dr.dk, þá er ekki margt sem lekur út um það sem rætt er í hópunum. Það eru þó misjöfn stemning í vinnuhópunum. Í augnablikinu (þ.e. við lok vinnudags í Danmörku) var almennt jákvæð stemning í hópunum, einnig meðal afrísku landanna, sem hafa í augnablikinu trú á að hægt verði að ná samkomulagi.

    2. Stjórnmálaleiðtogar taka yfir

    Klukkan 17 í dag, opnaði Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, það sem hefur verið kallað hástigsumræðurnar (d. højniveau-forhandlingerne), við opinbera athöfn, þar sem m.a. Friðrik Krónprins var viðstaddur. Nú er komið að þeim hluta viðræðnanna, þar sem ráðherrar, forsætisráðherrar og aðrir þjóðarleiðtogar setjast við borðið, til að reyna að ná pólitísku samkomulagi og embættismennirnir stíga úr kastljósinu.

    3. 48 tímar eftir

    Síðast en ekki síst hefur dagurinn einkennst af því að það eru aðeins 48 tímar eftir, þar til lausn þarf að liggja fyrir. Connie Hedegaard hefur einnig lagt áherslu á þá staðreynd. Samkvæmt fréttarita dr.dk, Thomas Falbe, þá eru eftirtalin atriði fimm mikilvægustu málefnin sem hún þarf að fá fundarmenn til að ná saman um á næstu 48 tímum.

    1. Hversu mikil eiga losunarmarkmið ríku landanna á CO2 að vera?
    2. Hvernig eiga þróunarþjóðirnar að takmarka aukningu í losun CO2?
    3. Hvernig er hægt að tryggja fjármögnun varðandi kostnað vegna loftslagsbreytinga til lengri tíma?
    4. Er hægt að setja á alþjóðleg gjöld á eldsneyti á skip?
    5. Hvernig er hægt að hafa eftirlitskerfið varðandi losun á CO2 fyrir öll löndin?

    Myndband með aðalatriðum 8. dagsins samkvæmt COP15 á YouTube, má sjá hér.

    Eldri yfirlit og ítarefni:

  • COP15: Vanda afstýrt, mótmæli og biðraðir

    Áframhald var á mótmælum í Kaupmannahöfn í dag, þó meiri ró væri yfir þeim og mun færri handtökur en um helgina. Tölvupóstur sem um tíma var talin vera frá samninganefnd Kanadamanna olli ruglingi, þar sem það kom fram í tölvupóstinum að Kanadamenn ætluðu að draga nokkuð meira úr losun, miðað við fyrri tillögur. Síðar kom í ljós að þessi tölvupóstur var blekkingarleikur og ekki hefur komið í ljós hver sendi hann. Í morgun kom staðfesting frá nokkrum Afríkuríkjum að þau vildu ekki vera með á fundum sem áætlaðir voru í Bella Center í dag, ef ekki yrðu breytingar á viðræðunum. Þetta hefur haft áhrif á viðræður dagsins. Hugsanlegar sjávarstöðubreytingar framtíðarinnar voru einnig í kastljósi dagsins.

    frontpage_picture_II

    Helstu atriði 8. dags loftslagsráðstefnunnar, af dr.dk:

    1. Vanda afstýrt

    Mörg af þróunarríkjunum krefjast þess að haldið verði í ákveðna hluti gamla loftslagssamningsin, þ.e. Kyoto bókunarinnar, þar sem það myndi hafa þau áhrif að ríkari lönd myndu þurfa að draga meira úr losun en þau vanþróuðu. Þetta hafði þau áhrif að nokkur af fátækari ríkjunum drógu sig frá viðræðunum í dag. Hér undir kvöld höfðu Kína, Brasilía og Indland fengið þau aftur að borðinu. Þar með lítur út fyrir að þeim vanda sé afstýrt í bili. Ríkari þróunarríkin fengu hin fátækari til að ganga að málamiðlun. Formaður ráðstefnunnar, Connie Hedegaard mun gefa þeim ræðutíma á alsherjarfundinum (þ.e. á stóra fundarsvæðinu). Þar fá þau möguleika á því að gera grein fyrir því, hversvegna það er mikilvægt, að þeirra mati, að halda áfram með samning sem er á svipuðum nótum og Kyoto bókunin. Þrátt fyrir að vandanum hafi verið afstýrt, þá hefur þetta sett ferilinn að nýjum samning í meiri tímaþröng.

    2. Mótmæli dagsins

    Um það bil 3.000 voru í mótmælagöngum í dag til að sýna samstöðu með þeim manneskjum sem upplifað hafa loftslagsbreytingar. Mótmælagangan sem gekk nokkuð friðsamlega fyrir sig og fór gangan að lokum í áttina að Kristjaníu. Samkvæmt lögreglu, þá var 15 persónum haldið frá mótmælunum, og tveir mótmælendur voru handteknir fyrir að vera með andlitsgrímur, sem er ólöglegt í Danmörku.

    3. Raðir við Bella Center

    Í morgun var röðin við Bella Center svo löng að lögreglan valdi að loka metrostöðinni þar um tíma. Vandamálið kom til vegna þess að allt fólkið stóð í sömu röð. Það er að segja, það voru ekki sérstakar raðir fyrir fólk sem var með aðgangskort að ráðstefnunni í Bella Center.

    Myndband með aðalatriðum 8. dagsins samkvæmt COP15 á YouTube, má sjá hér.

    Eldri yfirlit og ítarefni:

  • COP15: Helgin í hnotskurn

    Protesters-in-Copenhagen-001Það sem aðallega situr eftir, við yfirlestur helstu frétta af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn nú yfir helgina, eru fréttir af mótmælum og handtökum. Það hafa þó einnig staðið yfir stíf fundarhöld og ráðherrar ýmissa landa komu til Kaupmannahafnar til að taka þátt í ráðstefnunni, enda margir lausir endar sem þarf að ganga frá ef einhver von á að vera á því að samningar náist.

    Helstu atriði helgarinnar af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn:

    1. Mótmæli og handtökur

    Um helgina hafa verið mótmælagöngur um götur Kaupmannahafnar þar sem talið er að yfir 60.000 manns hafi tekið þátt, bara á laugardeginum. Á laugardag voru næstum 1.000 mótmælendur handteknir í stærstu aðgerðum dönsku lögreglunnar frá upphafi. Lögreglan fékk víðtækar heimildir til að framkvæma svokallaðar fyrirbyggjandi handtökur. Það hafa margir verið handteknir en fáir ákærðir og flestum hefur verið sleppt eftir varðhaldið. Það hefur komið fram hörð gagnrýni á vinnubrögð lögreglunnar, m.a. þar sem hluti þeirra handteknu á laugardeginum þurftu að sitja á kaldri jörðinni í langan tíma áður en þeir voru fluttir í hin svokölluð loftslagsfangelsi (d. klimafængsel). Mikil umræða hefur orðið í Danmörku um þessar aðgerðir lögreglu og sýnist sitt hverjum. Einnig hefur sú umræða náð í ýmsa fjölmiðla um allan heim.

    2. Umhverfisráðherrar 48 landa hittust

    Forseti COP15, Connie Hedegaard, hefur í dag fundað með loftslags- og umhverfisráðherrum 48 landa, þar sem samningaviðræðurnar á hinu pólítíska plani byrjuðu fyrir alvöru. Þessi fundur fór ekki fram í Bella Center, heldur í Eigtveds Pakhus, sem er við utanríkisráðuneytið. Það var því engin frídagur í dag og haft var eftir Connie Hedegaard í gærkvöldi að ekki væri tími til að taka frí frá viðræðunum, því annars næðist ekki árangur. Hún vildi með þessum fundi með loftslags- og umhverfisráðherrum, reyna að fá þá til að koma fram með áþreifanleg markmið fyrir framtíðarlosun CO2 í þeirra heimalöndum. Einnig á að byrja á viðræðum varðandi leiðir til fjármögnunar. Það er talið nauðsynlegt að sem mest af þessum atriðum verði afgreidd áður en þjóðarleiðtogarnir koma til fundarins á miðvikudag og fimmtudag.

    3. Fulltrúar Afríku landa hóta að yfirgefa viðræðunar

    Fulltrúar nokkura Afríku þjóða gáfu nú í kvöld til kynna að þjóðarleiðtogar þeirra myndu ekki taka þátt í lokadögum ráðstefnunnar, nema að marktækar framfarir yrðu á næstu þremur dögum. Lokaviðræður hefjast á næstu dögum, þegar þjóðarleiðtogar koma til Kaupmannahafnar til að vera í forsvari á lokadögum ráðstefnunnar. Hingað til hafa samningamenn þjóðanna ekki náð að semja um nokkur lykilatriði, eins og t.d. losunar markmið, langtíma fjármögnun og hvenær fátækari þjóðir eiga að byrja að minnka losun. Meira en 110 þjóðarleiðtogar koma til fundarins seinni part vikunnar, þar sem reynt verður að ganga frá samningum.

    Myndband með aðalatriðum 6. dagsins samkvæmt COP15 á YouTube, má sjá hér.

    Eldri yfirlit og ítarefni:

  • COP15: Drög, miljarðar og mótmæli

    800px-AOSIS_membersÍ dag birtum við færslu hér á Loftslag.is, þar sem farið var í gegnum helstu væntingar og kröfur þjóðanna til loftslagssamninganna í Kaupmannahöfn. Þar má sjá að það eru mörg ólík sjónarmið sem þarf að hafa í huga áður en hugsanlegum samningum er náð. Það er misjöfn nálgun á hversu bindandi samningurinn eigi að vera. Sum lönd, eins og t.d. Japan, styðja þá hugmynd að hvert land setji sér eigin takmörk um losun. Annað atriði sem mun verða hindrun er að finna flöt á því hvaða viðmiðunarár á að miða losunina við, sum lönd miða við 1990 og önnur lönd við 2005. Nokkur ríki styðja lægri markmið varðandi hitastigshækkun, þ.e. 1,5 gráðu markið í stað 2 gráður. Þar er fyrst og fremst verið að tala um eyríki og önnur lönd sem eru viðkvæm fyrir sjávarstöðubreytingum. Sjá nánar “Kröfur og væntingar þjóða

    Helstu atriði 5. dags loftslagsráðstefnunnar, af dr.dk:

    1. Fyrstu drög að loftslagssamningi

    Í dag komu fyrstu opinberu drögin að loftslagssamningi fram. Þetta átta síðna langa skjal slær því föstu að draga á úr losun CO2 á heimsvísu um 50% fyrir árið 2050. Þar er einnig lagt til að ríkari þjóðir eigi að draga úr CO2 losun um 25-40% fyrir árið 2020, miðað við 1990. Einnig eru bæði markmiðin, þ.e. 1,5 og 2°C hámarks hækkun hitastigs á heimsvísu. Það eru einkum eyríkin, sem hafa þrýst á lægra markið í endanlega samninginn.

    2. ESB miljarðar til þróunarlanda

    ESB lagði á borðið hversu há fjárhæð, til skamms tíma, kemur til með að ganga til fátækari landa, svo þau geti komið í veg fyrir að hitastig á heimsvísu hækki of mikið. Evrópa mun leggja u.þ.b. 7,2 miljarða evra til verkefnissins á árunum, 2010, 2011 og 2012. Peningarnir eiga fyrst og fremst að ganga til þeirra landa í þriðjaheiminum, sem munu lenda verst í afleiðingum loftslagsbreytinga og eiga erfitt með að leggja til framlag. Peningarnir frá ESB svara til u.þ.b. fjórðungs af þeirri upphæð sem talin er vera nauðsynleg í alþjóðleg framlög vegna loftslagsmála í þrjú ár frá árinu 2010. Bandaríkjamenn hafa ekki lagt tölur á borðið varðandi sitt framlag. Það hefur þó komið fram að þróunarlöndunum finnist þessi upphæð of lág og hafa í raun vísað tillögunni á bug.

    3. Fyrstu mótmælin

    Á degi fimm á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn, fóru fyrstu mótmælin fram á ýmsum stöðum í borginni. Það kom til stöku árekstra á milli mótmælanda og lögreglu. Í byrjun kvölds var búið að handtaka 75 persónur í sambandi við mótmælin. Flestar handtökurnar voru gerðar samkvæmt lögreglulögunum, þ.e.a.s. fyrirbyggjandi. Sex persónur munu væntanlega yfirheyrslu á laugardag, þar sem þær verða hugsanlega kærð fyrir spellvirki eða tilraun til þess. Handtökurnar áttu sér fyrst og fremst stað í miðbænum, og fóru samkvæmt lögreglu fram án átaka.

    Myndband með aðalatriðum dagsins frá COP15 á YouTube, má sjá hér. Þarna er fyrst og fremst verið að ræða fjárframlög til næstu þriggja ára.

    Eldri yfirlit:

  • COP15: Kröfur og væntingar þjóða

    Það er mikill munur á væntingum og kröfum einstakra þjóða og samtaka þjóða til þeirra samninga sem reynt er að ná um loftslagsmál í Kaupmannahöfn. Sjá helstu áherslur varðandi hugsanlega samningagerð fyrir nokkrar helstu þjóðirnar í eftirfarandi yfirliti.

    Kína

    541px-People's_Republic_of_China_(orthographic_projection).svg

    Hvað er í húfi

    • Vilja minnka losun CO2 miðað við hverja þjóðarframleiðslueiningu um 40-45% fyrir 2020 miðað við 2005 (þetta svarar til u.þ.b. 10% minni losun, en ef þeir gerðu ekkert).
    • Krefjast þess að ríkari lönd minnki losun gróðurhúsalofttegunda um 40% undir 1990 stigið, fyrir árið 2020
    • Krefjast þess að ríkari lönd borgi 1% af þjóðarframleiðslu sinni til að hjálpa öðrum löndum við að takast á við loftslagsbreytingar
    • Krefjast þess að vestræn lönd þrói tækni sem getur minnkað losun CO2

    Staðreyndir

    • Mesta losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu (20% af losuninni)
    • Númer 30 á heimsvísu þegar losun er mæld á hvern íbúa
    • Þjóðarframleiðsla 2008 = 4,3 triljónir dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 1.152 tonn
    • Kyoto bókunin: Undirskrifuð sem þróunarland, án krafna um að minnka losun

    BNA

    541px-United_States_(orthographic_projection).svg

    Hvað er í húfi

    • Vilja minnka losun um 17% undir 2005 losunina fyrir 2020 – þetta svarar til u.þ.b. 4% undir 1990 losunina
    • Eru á móti samkomulagi sem, eins og Kyoto, leggur alþjóðlegar skuldbindingar á þjóðir
    • Krefjast þess að Kína, Indland, Suður-Afríka og Brasilía eigi að koma með skuldbindingar um að stoppa vöxtinn í sinni losun
    • Hið nýja lagafrumvarp um loftslagsmál hefur fengið samþykki fulltrúadeildarinnar, en það á enn eftir að taka málið fyrir í öldungadeildinni

    Staðreyndir

    • Næst mesta losun gróðurhúsalofttegunda (15% af losuninni)
    • Númer 5 á heimsvísu þegar losun er mæld á hvern íbúa
    • Þjóðarframleiðsla = 14,2 triljónir dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 441 tonn
    • Kyoto bókunin: Skrifað undir, en ekki staðfest

    ESB

    541px-Locator_European_Union.svg

    Hvað er í húfi

    • Hefur markmið um það að vera í leiðtogahlutverkinu á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn
    • Vilja minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20% undir 1990 losunina fyrir 2020 eða 30% ef aðrar stærri losunar þjóðir verða með
    • Vilja að ríku þjóðirnar minnki losun gróðurhúsalofttegunda um 80-95% fyrir árið 2050
    • Vilja að fátækari þjóðir minnki vöxtinn í losun gróðurhúsalofttegund
    • Eiga von á því að kostnaður verði um 150 miljarðar dollara á ári 2020, þar af borgi ESB 7-22 miljarða

    Staðreyndir

    • Númer 3 í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu (11,8% af losuninni)
    • Númer 17 á heimsvísu þegar losun er mæld á hvern íbúa
    • Þjóðarframleiðsla = 18,3 triljónir dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 315 tonn
    • Kyoto bókunin: Skrifað undir, skuldbundið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 8% undir 1990 losuninni, fyrir 2008-2012

    Indland

    541px-India_(orthographic_projection).svg

    Hvað er í húfi

    • Vilja minnka losun CO2 miðað við þjóðarframleiðslu um 20-25% fyrir árið 2020 miðað við 2005
    • Hafna sjálfir að bindast alþjólegum skulbindingum um minnkandi losun, en vilja að ríkari löndin geri það
    • Segja að loftslagsbreytingar séu ríkari löndum að kenna og bendir á þann stóra mun sem er í losun á hvern íbúa
    • Krefjast þess að ríkari þjóðir dragi úr sinni losun um 40% fyrir árið 2020
    • Eru á móti markmiðum um að minnka CO2 losun á heimsvísu um helming fyrir 2050

    Staðreyndir

    • Númer 6 í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu (5% af losuninni)
    • Númer 66 á heimsvísu þegar losun er mæld á hvern íbúa
    • Þjóðarframleiðsla = 1,2 triljónir dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 655 tonn
    • Kyoto bókunin: Undirskrifuð sem þróunarland, án krafna um að minnka losun

    Japan

    536px-Japan_(orthographic_projection).svg

    Hvað er í húfi

    • Vilja minnka losun CO2 um 25% fyrir árið 2020 miðað við 1990, ef önnur ríki fylgja þeim að
    • Það hefur það í för með sér að losun þarf að minnka um 30% á 10 árum og það er mótstaða við það í iðnaðargeira landsins
    • Med hinu svokallaða “Hatoyama frumkvæði” hefur Japan sett fram áætlun um að auka fjárhags- og tækni aðstoð til þróunarlandanna
    • Styður hugmyndir um að hvert land setji sín takmörk um minnkun á losun CO2

    Staðreyndir

    • Númer 7 í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu (3,3% af losuninni)
    • Númer 15 á heimsvísu þegar losun er mæld á hvern íbúa
    • Þjóðarframleiðsla = 4,9 triljónir dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 301 tonn
    • Kyoto bókunin: Skrifað undir, skuldbundið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 6% undir 1990 losuninni, fyrir meðaltal áranna 2008-2012

    Samtök Afríkuþjóða

    541px-Africa_(orthographic_projection).svg

    – Samtök 52 afrískra þjóða

    Hvað er í húfi

    • Vilja eins og Kína að ríkari löndin skuldbindi sig með alþjólegum samningum til að minnka losun um 40% fyrir árið 2020, miðað við 1990
    • Telur að 20-30% minnkun komi ekki til greina
    • Vilja að 0,5% af þjóðarframleiðslu ríkari landanna fari í að hjálpa þróunarlöndunum við að taka á loftslagsbreytingum
    • Ríkari lönd eigi að borga 67 miljarð dollara á ári í aðstoð og bætur til afrískra þjóða
    • Hóta að yfirgefa samningaviðræðurnar, ef ekki verður komið til móts við kröfur þeirra

    Staðreyndir

    • Löndin í samtökum Afríkulanda, losa 8,1% af heildarlosun á heimsvísu
    • Losun á hvern íbúa á ári er 4 tonn af CO2
    • Þjóðarframleiðsla 2008 = 34 miljarðar dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 1.361 tonn
    • Kyoto bókunin: Undirskrifuð sem þróunarland, án krafna um að minnka losun

    Ríkin við Persaflóa

    623px-Persian_Gulf_Arab_States_english

    – Bahrain, Kuwait, Oman, Qatar, Sádí Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin

    Hvað er í húfi

    • OPEC (samtök olíuútflutningslanda) og Sádí Arabía krefjast fjárhagslegs stuðnings til olíuútflytjenda, ef nýr samningur hefur í för með sér minni notkun jarðefna eldsneytis
    • Vilja samning sem ýtir undir notkun CCS-tækni, sem getur minnkað losun gróðurhúsalofttegunda (carbon capture and storage = CO2 er dælt í jörðina aftur)
    • Árið 2007 settu OPEC löndin 750 miljón dollara í að fjármagna rannsóknir á loftslagsbreytingum
    • Katar og Abu Dhabi hafa gert miklar fjárfestingar í hreinni orkutækni (þ.e. t.d. sólarorku, safna saman CO2 og geyma, kjarnorku og vindorku)

    Staðreyndir

    • Ríkin við Persaflóa, losa 2,3% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu
    • Losun á hvern íbúa á ári er 25 tonn af CO2
    • Þjóðarframleiðsla 2008 = 468 miljarðar dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 875 tonn
    • Kyoto bókunin: Undirskrifuð sem þróunarland, án krafna um að minnka losun

    Samtök smárra eyríkja

    800px-AOSIS_members

    AOSIS – Samtök smárra eyríkja (samanstendur af 42 samfélögum eyríkja og lágtliggjandi strandþjóða sem stendur ógn af loftslagsbreytingum)

    Hvað er í húfi

    • Telja að hækkandi sjávarborð sé ógn við samfélög þeirra
    • Krefjast þess að hnattrænni hlýnun verði haldið undir 1,5°C
    • Vilja að styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu verði aftur 350 ppm, þar sem hættan á hitastigshækkun eykst, því meira CO2 sem er í andrúmsloftinu
    • Vilja að losun CO2 á heimsvísu nái hámarki árið 2015, og eftir það falla um 85% fyrir 2050 miðað við 1990
    • Krefjast minnst 1% af þjóðarframleiðslu ríkari landa til að vinna á móti þeim skaða sem loftslagsbreytingar geta valdið

    Staðreyndir

    • Samtök smárra eyríkja, losa 0,6% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu
    • Losun á hvern íbúa á ári er 4 tonn af CO2
    • Þjóðarframleiðsla 2008 = 46 miljarðar dollara
    • Losun gróðurhúsalofttegunda á hverja miljón af þjóðarframleiðslu = 551 tonn
    • Kyoto bókunin: Undirskrifuð sem þróunarland, án krafna um að minnka losun

    _______________________________________________________________________________________

    Okkar helsta heimild er heimasíða dr.dk, en þeir unnu sínar upplýsingar út frá ýmsum heimildum, eins og t.d.; BBC, Potsdam Institute for Climate Impact Research and the World Bank. Myndir eru fengnar af Wikipedia.com

  • COP15: Eyríki, varagjaldeyrisforði og samstaða

    Taugatitringur sá sem var áberandi fyrstu dagana í Kaupmannahöfn fer nú minnkandi. Samningamenn frá öllum heimshornum sitja fundi og vinna að því að leggja drög að endanlegum samningi, og það lítur út fyrir að eitthvað sé að gerast. Yvo de Boer, loftslagsstjóri Sameinuðu þjóðanna, telur að hinar alvarlegu samningaviðræður séu byrjaðar og að það megi sjá framfarir á ýmsum sviðum.

    Stjórnmálamenn koma til fundarins. Loftslagsstjórinn segir að margir ráðherrar komi strax um helgina. Hugmyndin er að embættismenn hafi þá fundið lausnir á ýmsum af þeim tæknilegu vandamálum sem leysa þarf, áður en stjórnmálamenn geta snúið sér að málunum í stærra og pólítískara samhengi. Nú er verið að vinna að þessum atriðum í öllum krókum og kimum að sögn de Boer.

    COP15-climate-change-and--002Í frétt the Guardian kemur fram að á ráðstefnunni í dag kynntu haffræðingar skýrslu þar sem kynnt er staðan og horfur varðandi súrnun sjávar. Þar kemur meðal annars fram að súrnun sjávar hefur aukist um 30% frá upphafi iðnbyltingunnar og að óheft aukning CO2 í andrúmsloftinu muni hafa alvarleg áhrif á lífríki víða um heim. Vísindamennirnir telja jafnframt að súrnun sjávar sé jafnmikilvægt atriði fyrir afkomu jarðarbúa og hlýnun jarðar.

    Helstu atriði 4. dags loftslagsráðstefnunnar, samkvæmt fréttaritara dr.dk Thomas Falbe:

    1. Eyríki krefjast þess að hitastigshækkun verði í mesta lagi 1,5°C

    Eyríki og strandríki, með lágtliggjandi landsvæðum, sem stendur ógn af hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga, kröfðust þess í dag að hitastigshækkun megi ekki verða meiri en 1,5°C. Markmið það sem Sameinuðu þjóðirnar vinna út frá, er 2°C yfir hitastiginu við upphaf iðnvæðingar. Fulltrúar eyríkja vilja meina að það markmið sé of lágt sett. Þau vilja meina að við 2°C markið verði fleiri af ríkjunum sjávarbreytingum að bráð. Einnig mun það hafa afleiðingar á mörgum stöðum í Afríku, þar sem talið er að þurrkar verði meiri en áður.

    2. Að nota varagjaldeyrisforðann

    Fjármálamaðurinn George Soros lagði það til í dag að tekið yrði af varagjaldeyrisforðanum til að fjármagna þá 100 milljarða dollara, sem talið er að þurfi til að berjast gegn loftslagsbreytingum í þróunarlöndunum. Þetta er enn ein tilraunin sem gerð er til að finna þá peninga sem talið er að þurfa til, vegna loftslagsbreytinga í þróunarlöndunum. Önnur tillaga í þessa áttina, sem Danmörk styður, gengur út á að leggja gjald á skipaeldsneyti, hið svokallað “bunker fuel” gjald.

    3. Evrópusambandið reynir að ná samstöðu

    Mikið af athygli dagsins í Bella Centar var einnig á því, hversu niðurstaða leiðtogafundar Evrópusambandsins í Brussel í kvöld verður. Á þessum fundi leiðtoga Evrópusambandsins, á að setja endanleg markmið varðandi losun koldíoxíðs og hversu miklu fjármagni Evrópusambandið ætlar að leggja til þróunarlandanna. Það er þó nokkurt ósamkomulag meðal Evrópusambandslandanna og þjóðirnar leggja mikið á sig til að ná samstöðu. Þessi samstaða þykir nauðsynleg til að þjóðirnar geti staðið í framlínunni við samningaumleitanirnar á loftslagsráðstefnunni. Hingað til eru ESB þjóðirnar sammála um að sambandið geti skorið losun koldíoxíðs niðurum 30%, svo lengi sem önnur iðnríki setja svipuð markmið. Það ber mest á efasemdum frá austantjaldslöndum og þá helst Póllandi varðandi þessi markmið.

    Myndband með aðalatriðum dagsins frá COP15 á YouTube, má sjá hér. Þarna má m.a. sjá fulltrúa eyríkjana Grenada og Tuvalu.

  • Frétt: Heitasti áratugurinn frá því mælingar hófust

    Það kemur eflaust fáum á óvart sem fylgjast með fréttum af loftslagi jarðar að þessi áratugur sé sá heitasti frá upphafi mælinga. Breska Veðurstofan (Met Office) er búin að gera greiningu, sem staðfestir það.

    average-temps

    Samkvæmt þeirra gögnum, þá er 1998 heitasta einstaka árið síðan mælingar hófust (hjá NASA er það 2005), en þrátt fyrir það hefur fyrsti áratugur þessarar aldar verið sá heitasti í 160 ára sögu mælinga á hitastigi jarðar. Gögnin eru úr gagnasafni Met Office og CRU í East Anglia (CRU er hvað þekktast nú orðið fyrir tölvupóstainnbrotið fyrir skömmu -sjá Climategate). Svipaðar niðurstöður hafa fengist við greiningar gagna frá NOAA og NASA.

    Að auki segir að árið 2009 stefni í að verða fimmta heitasta árið frá upphafi mælinga.

    Ítarefni:

    Fréttatilkynninguna má sjá hér: Noughties’ confirmed as the warmest decade on record