Loftslag.is

Tag: Loftslagslíkön

  • Hvað er El Nino?

    Þeir sem fylgjast með fréttum af veðurfars- og loftslagsbreytingum hafa eflaust tekið eftir auknum fréttum af því að fyrirbærið El Nino sé væntanlegt – en það hefur áhrif á veður um alla jörð.

    Hvað er El Niño

    Á nokkurra ára fresti, á að meðaltali fimm ára fresti, verða breytingar á staðvindum í Kyrrahafinu sem veldur óvenju háum sjávarhita við miðbaug – en það er kallað El Nino. Ef aftur á móti sjávarhitinn verður óvenju kaldur, þá er það kallað La Nina. Þessi sveifla er kölluð á ensku ENSO (El Nino Southern Oscillation) og ber mikla ábyrgð á hnattrænum sveiflum í veðri frá ári til árs.

    mynd 1
    Yfirborðshiti sjávar við El NIno (vinstri) og La Nina (hægri). Rauðir litaskalar sýna heitt og bláir kalt. [Mynd: Steve Albers, NOAA]

    Hvað gerist við El Nino

    Í hvert skipti sem breytingar verða á ENSO þá hafa þær áhrif á hnattrænan hita (Trenberth o.fl. 2002) og dreifingu úrkomu hnattrænt.

    Við El Nino ár, þá minnkar úrkoman í Indónesíu og Ástralínu, á sama tíma og úrkoma eykst í Suður Ameríku og hluta Bandaríkjanna.

    Kyrrahafið losar hita út í andrúmsloftið við El Nino ár. Þegar það bætist síðan við þá undirliggjand hlýnun af völdum styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda, þá verða El Nino ár meðal þeirra heitustu frá upphafi mælinga. Ef skoðað er myndin hér fyrir neðan, þá sést að fimm af tíu heitustu árunum hafa verið El Nino ár (rauðgulir stöplar).

    mynd2
    Hnattrænt frávik í hitastigi jarðar frá 1950-2013. Þessi mynd sýnir glögglega hvernig hitinn sveiflast milli El nino og La nina ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum (mynd: NASA/GSFC/Earth Observatory, NASA/GISS)

    Á La Nina árum er staðan öndverð. Þá draga straumar heitan yfirborðsjó, niður í neðri lög Kyrrahafsins, sem veldur því að það kólnar hnattrænt.

    Vísindamenn telja að meiri tíðni La Nina síðastliðin 15 ár (bláir stöplar hér fyrir ofan) skýri að hluta hvers vegna hið hnattræna hitastig hefur ekki aukist eins hratt undanfarið og áratugina á undan (Balmaseda o.fl. 2013). Til samanburðar, þá var minna um La Nina atburði frá 1980-2000.

    Líklegt er talið að um séu að ræða áratugasveiflur á milli þess að El Nino er algengur annars vegar og La Nina hins vegar, svokallaðar IPO (Interdecadal Pacific Oscillation)(Meehl o.fl. 2013).

    Hér fyrir neðan má sjá sveiflur í hinni hnattrænu hlýnun (efri myndin). Þrátt fyrir minni hitaaukningu undanfarinn áratug eða svo, þá er síðasti áratugur sá heitasti frá upphafi mælinga (neðri myndin).

    mynd3
    Hnatrænt hitafrávik milli áranna 1850 og 2012, samanborið við viðmiðunarárin 961-1990. Mynd: IPCC AR5 WG1 Summary for Policymakers.

     

    Hvenær verður næsti El Nino

    Síðasti El Nino var árið 2009/2010, en síðan þá hefur Kyrrahafið verið í hlutlausu eða í La Nina fasa. Núverandi hlutlausi fasi er búinn að vera viðvarandi frá 2012. Það gæti bent til þess að kominn sé tími á El Nino – og vísindamenn telja reyndar að hann sé væntanlegur.

    Ástralska Veðurstofan telur að það séu allavega 70% líkur á El Nino í ár (samkvæmt spá í byrjun maí). Helstu einkenni þeirrar hlýnunar sem er undanfari El Nino er í gangi og margt bendir til þess að það haldi áfram næstu mánuði.

    Screenshot 2014-05-07 14.32.45
    Loftslagslíkön spá því hvenær hiti í Kyrrahafinu kemst í El Niño fasa (rauður). Meðaltal líkana er sýnt með grænu. Mynd: Australian Bureau of Meteorology

    Upp úr miðjum síðasta mánuði, þá setti rannsóknastofnun um loftslag í Columbíu (International Research Institute (IRI) for Climate and Society at Columbia University) líkurnar á El Nino í haust upp í 75-80%.

    Hversu sterkur verður næsti El Nino

    Það er enn of snemmt að segja til um hversu stór næsti El Nino verður – en miklar breytingar geta orðið næstu vikur sem hafa áhrif í hvora áttina sem er.

    Tony Barston útskýrir það betur hér:

    April Climate Briefing Highlights, with Tony Barnston from IRI on Vimeo.

    Er heitasta ár frá upphafi mælinga í pípunum?

    Margt bendir til að við næsta El Nino, sem bætist þá ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum, muni hnattrænn hiti verða sá hæsti frá upphafi mælinga. Aðstæður nú eru svipaðar og þær voru þegar síðasti stóri El Nino var (1997/8), en óvíst er hvort næsti verði þó eins stór.

    Þó margt bendi til El Nino, þá er ólíklegt að hann nái hámarki fyrir lok þessa árs og þar með er frekar búist við, ef af verður, að árið 2015 muni verða met í hnattrænum hita.

    Stóra myndin

    Náttúrulegur breytileiki í loftslagi veldur skammtíma hlýnun og kólnun, ofan á langtímaleitni hnattrænnar hlýnunnar – og ENSO sveiflan lætur ekki sitt eftir liggja í þeim bænum. Því er búist við sveiflum í loftslagi á sama tíma og hitinn eykst smám saman.

    Næsti El Nino gæti orðið sá heitasti frá upphafi mælinga, samkvæmt vísindamönnum. Ef það gerist, þá má búast við óvenju miklu öfgaveðri því samfara – auk þess sem hitaaukningin mun að öllum líkindum sækja í sig veðrið. Hvað sem gerist þá verða næstu mánuðir áhugaverðir og um leið spennandi að fylgjast með framhaldinu.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr færslu af heimasíðu The Carbon Brief: Q & A: What’s El Niño – and why does it matter that scientists say one is on the way? Sjá einnig áhugaverða færslu af Skeptical Science: Is a Powerful El Niño Brewing in the Pacific Ocean?

    Trausti Jónsson skrifaði um El Nino fyrir vísindavefinn: Hvað er El Niño?

    Trenberth o.fl. 2002: Evolution of El Niño–Southern Oscillation and global atmospheric surface temperatures

    Balmaseda o.fl. 2013: Distinctive climate signals in reanalysis of global ocean heat content

    Meehl o.fl. 2013: Externally Forced and Internally Generated Decadal Climate Variability Associated with the Interdecadal Pacific Oscillation

    Tengt efni af loftslag.is

  • Komandi munstur loftslagsbreytinga

    Komandi munstur loftslagsbreytinga

    Screenshot 2014-05-02 10.55.23Fyrir stuttu hélt Gavin Schmidt hjá NASA og loftslagsbloggari hjá RealClimate áhugaverðan fyrirlestur á vegum TED. Í fyrirlestrinum kemur í ljós að þekking á loftslagi og loftslagsbreytingum er eins og púsl í púsluspili sem birtist okkur smám saman, þannig að munstur loftslagsbreytinga verður smám saman ljósari.

    Sjón er sögu ríkari:

     

    Tengt efni á loftslag.is

  • Framtíðarhlýnun hærri en áður talið: 4°C möguleg fyrir 2100

    Framtíðarhlýnun hærri en áður talið: 4°C möguleg fyrir 2100

    skyjasvorunJafnvægissvörun loftslags (e. climate sensitivity) er hugtak sem vísar í þá hnattrænu hlýnun sem verður við tvöföldun á styrk CO2 í andrúmslofti jarðar. Það hefur reynst torsótt að finna rétta tölu fyrir jafnvægissvörunina, líklega mest vegna þess að það kemur betur og betur í ljós að hún er ekki ein eiginleg tala, heldur mismunandi tala eftir því hvert ástand jarðarinnar er hverja stund (Armour o.fl. 2012 og Meraner o.fl. 2013).

    Skýrsla IPCC frá 2013 (AR5) birti samantekt ritrýndra greina um jafnvægissvörun loftslags og var niðurstaðan sú að líklegt gildi hennar(með meira en 66% líkum) væri á milli 1,5-4,5°C (fyrir tvöföldun á styrk CO2 í andrúmsloftinu). Það mat var lægra en það sem kom út úr síðustu samantekt IPCC (AR4), vegna þess að sumar rannsóknir sem meta saman loftslagslíkön og mælingar, benda til að jafnvægissvörun loftslags sé lægri (sjá t.d.Otto o.fl. 2013 sem dæmi).

    Nú nýverið birtist ný grein, Sherwood (2014), sem bendir til þess að sú jafnvægissvörun loftslags sem skiptir máli í dag, sé meiri en 3°C – eða nær hærri mörkum þess bils sem kom út úr samantekt IPCC. Loftslagslíkön sýna hátt bil jafnvægissvörunar loftslags og felst stærsti munurinn í því hvernig líkönin takast á við skýjamyndun (e. cloud feedback). Í stuttu máli: aukning í skýjahulu vegna hnattrænnar hlýnunnar myndi valda dempandi svörun (e. negative feedback) – þ.e. skýin myndu endurgeisla meira af sólarljósi út í geim og þar með kæla jörðina. Aftur á móti myndi minnkandi skýjahula verka sem magnandi svörun (e. positive feedback) – þ.e. að meira af sólarljósi myndi ná yfirborði jarðar og auka á hlýnunina.

    Höfundar fyrrnefndrar greinar (Sherwood o.fl. 2014) skoðuðu hvernig mismunandi loftslagslíkön tókust á við svörun vegna skýja og kom í ljós að líkön með lága jafnvægissvörun loftslags voru í mótsögn við athuganir. Það kom í ljós að í þeim var reiknað með því að vatnsgufa drægist hærra upp í lofthjúpinn við hækkandi hita. Í raun (samkvæmt athugunum), þá hefur hlýnun í neðri hluta lofthjúpsins þau áhrif að vatnsgufa dregst neðar og minna verður um háskýjamyndanir. Minnkandi skýjahula í háloftunum veldur svo aukinni hlýnun (magnandi svörun).

    Það skal tekið fram að þetta er aðeins ein grein og fjallar aðeins um einn þátt jafnvægissvörunar og pottþétt ekki síðasta greinin þar um. Þessi grein Sherwood o.fl (2014) er þó í samræmi við aðra nýlega ritrýnda grein (Fasullo & Trenberth 2012), en þeir fundu út að aðeins þau loftslagslíkön með háa jafnvægissvörun náðu að líkja eftir minnkandi vatnsgufu á lykilstöðum lofthjúpsins.

    Einn höfunda, Steve Sherwood ræðir þessa grein í myndbandinu hér fyrir neðan. Ef rétt, þá sýnir þessi grein að áframhaldandi losun á jarðefnaeldsneyti getur leitt til þess að hnattrænn hiti geti verið búinn að hækka um 4°C um 2100 – sem myndi svo sannarlega ógna samfélagi manna og lífríki jarðar í heild.

     

    Heimildir og ítarefni

    Hér er um að ræða þýðingu á færslu sem birtist á Skeptical Science – New Study Suggests Future Global Warming at the Higher End of Estimates: 4°C Possible by 2100

    Spread in model climate sensitivity traced to atmospheric convective mixing – Sherwood o.fl. 2014

    Time-varying climate sensitivity from regional feedbacks – Armour o.fl. 2012

    Robust increase in equilibrium climate sensitivity under global warming – Meraner o.fl.  2013

    Energy budget constraints on climate response – Otto o.fl. (2013)

    A Less Cloudy Future: The Role of Subtropical Subsidence in Climate Sensitivity – Fasullo og Trenberth 2012,

    Myndband frá Peter Sinclair hjá Climate Denial Crock of the Week

    Skýrsla IPCC frá 2013: AR5

     

    Tengt efni á loftslag.is

  • Aukið við yfirlýsingu

    Aukið við yfirlýsingu

    addendumFyrir þremur árum gaf breska jarðfræðafélagið (the Geological Society of London) út yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram að með því að skoða sögu jarðar þá sé ljóst að það stefnir í óefni vegna losunar á CO2. Þar kom fram að nóg væri að skoða jarðfræðileg gögn og að ekki þyrfti að reiða sig á loftslagslíkön eða hitastigsmælingar síðustu áratuga til að staðfesta það sem eðlisfræðin segir okkur: Með því að auka styrk CO2 í lofthjúpnum þá eykst hiti jarðar, sem getur leitt til hærri sjávarstöðu, breytt  úrkomumynstri, aukið sýrustig sjávar og minnkað súrefni sjávar.

    Í viðauka þeim sem birtist nú fyrir skömmu staðfesta breskir jarðfræðingar fyrri yfirlýsingu sína og bæta nokkru við. Í viðaukanum kemur meðal annars fram að með loftslagslíkönum sjái menn hraðar skammtímabreytingar við útreikninga á jafnvægissvörun loftslags (e. climate sensitivity – þ.e. hnattræn hækkun hitastigs við tvöföldun CO2 í lofthjúpnum). Almennt telja vísindamenn að með því að tvöfalda styrk CO2 í andrúmsloftinu, þá hækki hnattrænn hiti um 1,5-4,5°C, þá vegna hraðra breytinga líkt og breytingar á snjóhulu og útbreiðslu íss, auk breytinga í skýjahulu og vatnsgufu.

    Jarðfræðileg gögn sem safnast hafa saman við rannsóknir á fyrri loftslagsbreytingum benda til þess að ef langtímabreytingar eru teknar með í reikninginn, t.d. bráðnun stórra jökulhvela og breytingar í kolefnishringrásinni, þá sé jafnvægissvörun loftslags tvöfallt hærri en loftslagslíkön gefa okkur. Einnig eru í viðaukanum tekin inn ný gögn sem sýna hversu samstíga breytingar á hitastigi og styrk CO2 í lofthjúpnum eru í gegnum jarðsöguna, samkvæmt ískjörnum frá Suðurskautinu.

    Styrkur CO2 í lofthjúpnum er núna um 400 ppm, sem er styrkur sem hefur ekki sést síðan á plíósen fyrir 2,6-5,3 milljónum árum síðan. Á þeim tíma þá var hiti um 2-3°C hærri en hann er í dag og sjávarstaða talin allt að 20 m hærri en nú er, meðal annars vegna þess hve mikið minni jöklar Suðurskautsins voru. Ef áfram heldur sem horfir, þá mun styrkur CO2 í lofthjúpnum ná um 600 ppm í lok aldarinnar, en það væri meiri styrkur en verið hefur á jörðinni síðastliðin 24 milljónir ára.

    Niðurstaðan er meðal annars sú að frekar lítil hækkun í styrki CO2 í lofthjúpnum og þar með hækkun í hitastigi, veldur  töluverðri hækkun í sjávarstöðu – auk þess sem úthöfin verða súrari og súrefnissnauðari. Sambærilegur atburður í jarðsögunni og stefnir í nú*, er PETM (Paleocene-Eocene Thermal Maximum), en sá atburður olli miklum útdauða sjávarlífvera – það tók lífið á jörðinni um 100 þúsund ár að jafna sig á þeim atburði.
    —-
    *PETM var fyrir um 55 milljónum ára og þó hér sé talað um hann sem sambærilegan atburð við þann sem nú er hafinn, þá er hann um margt ólíkur -hann hófst við mun hærri hita og var ekki eins hraður og sá sem nú er hafinn (sjá hér

    Eina líklega skýringin á núverandi hlýnun er hin gríðarlega styrkaukning á CO2 og öðrum gróðurhúsalofttegundum sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingarinnar. Nýjar samantektir á loftslagi fortíðar ásamt útreikningum á breytingum í möndulhalla og sporbaugi jarðar, sýna að þær breytingar hefðu átt að kæla jörðina síðastliðin nokkur árþúsund – og gerðu það, þar til styrkaukning CO2 hófst af mannavöldum. Sú kólnun hefði síðan átt að halda áfram næstu þúsund ár hið minnsta. Þrátt fyrir það þá sýna gögn að tímabilið frá 1950-2000 er heitasta hálfa öldin síðastliðin 2 þúsund ár.

    Shakun_Marcott_HadCRUT4_A1B_500

    Mannkynið er að búa til nýjan heim, heim með loftslagi sem samfélög manna hafa ekki þurft að glíma við áður. Miðað við stöðuna í dag, þá lítur ekki út fyrir að þjóðir heims ætli, né vilji taka á þeim vanda sem við blasir. Til þess þarf festu, en einnig hugrekki til að standast þær freistingar sem skammtímagróði vekur og skynsemi til að sjá kostnaðinn sem þessar athafnir manna munu valda til framtíðar.

  • Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Nýlega birtust mistúlkanir á erlendum vefmiðlum, sem hafa fengið að bergmála lítillega hér á landi.

    Þessar mistúlkanir byrjuðu á því að Breska Veðurstofan (Met Office) gaf út nýja spá um hnattrænan hita næstu 5 árin (mynd 1).

    Mynd 1: Mælt hnattrænt hitafrávik (svart, frá Hadley Centre, GISS og NCDC) ásamt spá um hitafrávik samanborið við tímabilið 1971-2000. Fyrri spár frá 1960, 1965, …, 2005 eru sýndar sem hvítar línur með rauðum skugga sem sýnir hvar 90% líkur er á að mæld gildi falli. Nýjasta spáin (blátt) byrjar í nóvember 2012.

    Í þessari spá er gert ráð fyrir minni ákafa í hlýnunni á næstu árum en spáð hefur verið undanfarið. Sem dæmi þá var spáin ögn hærri sem gefin var út í desember 2011. Breska Veðurstofan bendir á að samkvæmt báðum spám megi búast við hitastig sem verði nálægt því að slá met á næstu árum, hins vegar er munurinn á milli þessara spáa aukin þekking á staðbundnum sveiflum í yfirborðshita sjávar, á nokkrum stöðum m.a. í Kyrrahafinu, þótt aðrir þættir spili inn í.

    Í kjölfarið birtust yfirlýsingar  og umfjallanir í bresku pressunni, um að Breska veðurstofan væri búin að “viðurkenna” að hin hnattræna hlýnun af mannavöldum væri hætt. Þær umfjallanir höfðu að engu eitt aðalatriðið í spánni, en þar stóð (lauslega þýtt):

    “Spá þessi er um áframhaldandi hnattræna hlýnun, sem er að mestu leiti knúin áfram af styrkaukningu á gróðurhúsalofttegundum”

    Breska veðurstofan gerir því ráð fyrir því að þeir náttúrulegu þættir sem dempað hafa yfirborðshlýnun jarðar síðastliðin áratug (La Nina fasi ENSO og minni virkni sólar sem dæmi), geti haldið áfram að dempa hnattræna hlýnun næstu fimm árin. Þrátt fyrir dempun á hinni hnattrænu hlýnun vegna náttúrulegs breytileika, þá leikur enginn vafi á því að áframhaldandi hlýnun af mannavöldum á sér stað.

    Nú nýlega bjuggu snillingarnir í Skeptical Science til gott myndband þar sem útskýrt er glögglega hvaða áhrif eldvirkni (og sólvirkni) og sveiflur í La Nina/El Nino (ENSO) hefur á hnattrænt hitastig jarðar og hvað gerist ef þessi áhrif eru fjarlægð:

    Eins og sést á þessu myndbandi, þá bendir ekkert til þess að hnattræn hlýnun af mannavöldum hafi hægt á sér, þó náttúrulegir þættir hafi undanfarin ár náð að dempa hlýnunina. Þegar sú dempun gengur til baka er næsta víst að við taka óvenjuheit ár.

    Heimildir og ítarefni

    Þýtt og staðfært af heimasíðunni Skeptical Science: Resolving Confusion Over the Met Office Statement and Continued Global Warming

    Spá Met Office má lesa hér: Decadal forecast og nánari útskýring Updates to our decadal forecast

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hverjir verða mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda

    Hverjir verða mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda

    Endurbirting

    Eitt af því sem menn velta fyrir sér þegar rætt er um loftslagsbreytingar er, hvaða áhrif  þær muni hafa á samfélög manna? Nýlega birtist grein þar sem þessari spurningu var velt upp og reynt að áætla hvaða svæði jarðar eru viðkvæmust fyrir komandi loftslagsbreytingum (Samson o.fl. 2011).

    Höfundar þróuðu með sér nýjan stuðul – svokallaðan CDVI (Climate Demography Vulnerability Index). Með honum er bornar saman staðbundnar loftslagsbreytingar og mannfjöldaþróun þeirra svæða. Í ljós kom að viðkvæmustu svæðin voru í miðri Suður Ameríku, mið austurlöndum og suðurhluta Afríku. Minna viðkvæm svæði voru að mestu bundin við norðurhluta norðurhvels jarðar.

    Þar næst gerðu höfundar dæmigert kort sem sýnir losun CO2 miðað við höfðatölu. Þeir fundu þannig út að þeir íbúar ríkja sem losa hvað minnst af CO2 verða hvað mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta sést vel þegar skoðuð eru samsettu kortin hér fyrir neðan. Á efri myndinni sést hverjir losa mest af CO2 (rautt) samanborið við þá sem losa minnst (blátt) – á neðri myndini er þetta öfugt, viðvkæmustu ríkin eru rauð og þau sem talin eru þola loftslagsbreytingar mest eru með bláum lit.

    Ekki var farið nánar í þá spurningu hvaða ríki munu ná að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga – það hlýtur þó að vera ljóst að fátæk vanþróuð ríki eru síst viðbúin að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Því er það svo að þau ríki sem menga minnst og verða fyrir mestum afleiðingum, eru ólíklegust til að ná að aðlagast breyttu loftslagi.

    Sumir halda því blákalt fram að niðurskurður á losun CO2 muni hafa slæm áhrif á fátæku ríkin – þessi rannsókn sýnir nokkuð ljóst fram á hið gagnstæða.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin eftir Samson o.fl. 2011 birtist í Global Ecology and Biogeography: Geographic disparities and moral hazards in the predicted impacts of climate change on human populations

    Umfjöllun á Skeptical Science: Those who contribute the least greenhouse gases will be most impacted by climate change

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hversu viðkvæmt er loftslagið?

    Hversu viðkvæmt er loftslagið?

    Fyrir nokkru kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans. 

    Mismunandi mat á jafnvægissvörun loftslags (41).

    Hversu viðkvæmt er loftslagið?

    Jafnvægissvörun loftslags segir til um hversu mikið hnattrænn hiti geti aukist við tvöföldun á CO2 í lofthjúpnum. Vel þekkt er að bein áhrif tvöföldunar á CO2 (þ.e. án dempandi eða magnandi svörunar) er um 1,2°C. Stóra spurningin er því sú, hver svörunin verður við þeirri hlýnun. Mun magnandi svörun magna upphaflegu hlýnunina? Er dempandi svörun nægileg til að halda hlýnuninni niðri?

    Jafnvægissvörun loftslags hefur verið ákvörðuð með mismunandi aðferðum. Mælingar á hnattrænum hita, gervihnattamælingar, varmi sjávar, eldvirkni, fornloftslag og keyrsla loftslagslíkana eru allt nálganir sem notaðar hafa verið til að reikna út viðbrögð við auknum varma loftslags. Margar óháðar rannsóknir hafa verið gerðar, þar sem stuðst er við mismunandi tímabil og mismunandi þætti loftslags með mismunandi úrvinnsluaðferðum [41].

    Þessar margvíslegu aðferðir veita samkvæma mynd af jafnvægissvörun á bilinu 2 – 4.5°C og með líklegasta gildi um 3°C. Það þýðir að magnandi svörun magnar upp hlýnunina sem verður við aukinn styrk CO2.

    Sumir telja að jafnvægissvörun loftslags sé lægri og benda á rannsókn Lindzen og Choi [44]. Sú rannsókn notar gervihnattamælingar á innrauðri útgeislun frá jörðinni og benda þau gögn til sterkrar dempandi svörunar. Þau gögn skoða þó aðeins hitabeltið. Hitabeltið er þó ekki lokað kerfi því mikil orka dreifist frá hitabeltinu og að heittempruðu beltunum [45]. Til að reikna út hnattræna jafnvægissvörun loftslags þarf að nota hnattræn gögn. Flestar rannsóknir sem nota hnattræn gögn sýna magnandi svörun [46,47].

    Skilningur á jafnvægissvörun loftslags fæst með því að skoða gögnin í heild. Að segja að hún sé lág út frá einni rannsókn, er sama og að hundsa öll hin fjölmörgu gögn sem benda til magnandi svörunar og hárrar jafnvægissvörunar loftslags.

    Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir  síðar.

    Heimildir og ítarefni

    41. Knutti og Hegerl 2008: The equilibrium sensitivity of the earth’s temperature to radiation changes.

    44. Lindzen og Choi 2009: On the determination of climate feedbacks from ERBE data.

    45. Trenberth o.fl. 2010: Relationships between tropical sea surface temperature and top-of-atmosphere radiation.

    46. Murphy 2010 (ágrip): Constraining climate sensitivity with linear fits to outgoing radiation.

    47. Chung o.fl. 2010 (ágrip): Revisiting the determination of climate sensitivity from relationships between surface temperature and radiative fluxes.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins bráðna hraðar

    Jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins bráðna hraðar

    Endurbirting á færslu frá því í vor.
    Samkvæmt nýlegum gögnum þá eru jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins að bráðna sífellt hraðar með hverju árinu.

    Margt bendir til þess – samkvæmt greiningu á fjölbreyttum gögnum (Rignot o.fl. 2011) – að bráðnun frá jökulbreiðum heimsskautanna sé að taka við af fjallajöklum og hveljöklum sem stærsti þátturinn í sjávarstöðuhækkun úthafanna. Það er mun fyrr en loftslagslíkön hafa bent til.

    Hraði bráðnunarinnar hefur verið að aukast töluvert. Á hverju ári, á því tímabili sem skoðað var, bráðnaði að meðaltali um 36,3 gígatonn meira en á árinu áður.

    Heildar massajafnvægi jökulbreiðanna milli áranna 1992 og 2009. Efsta myndin sýnir bráðnun á Grænlandi, miðmyndin sýnir Suðurskautið og neðsta myndin sýnir samtölu beggja jökulbreiðanna í gígatonnum á ári. Notaðar eru tvær aðferðir: Massamælingar samkvæmt aðferð A (svartir punktar) og þyngdarmælingar frá NASA GRACE gervihnettinum aðferð B (rauðir þríhyrningar). Mynd: NASA/JPL-UC Irvine-Utrecht University-National Center for Atmospheric Research

    Það að jökulbreiður verði ráðandi þáttur í sjávarstöðubreytingum er nokkuð sem búist hefur verið við – en hingað til hefur verið talið að aukningin myndi gerast hægar. Þessi rannsókn styður nýlegar rannsóknir sem benda til þess að IPCC frá árinu 2007, hafi vanmetið komandi sjávarstöðubreytingar.

    Höfundar tóku saman gögn fyrir næstum tvo áratugi, af mánaðarlegum gervihnattamælingum bornum saman við gögn úr loftslagslíkönum til að kanna breytingar og leitni í bráðnun jökulbreiðanna.

    Notaðar voru tvenns konar mæliaðferðir. Sú fyrri (aðferð A) bar saman annars vegar gögn um yfirborðsbreytingar með InSAR tækninni,  auk þykktarmælinga þar sem notaðar eru bylgjumælingar (RES) til að áætla hversu mikið jökulbreiðurnar voru að missa og hins vegar staðbundið loftslagslíkan sem notað var til að áætla hversu mikið safnaðist saman á ákomusvæði jökulbreiðanna. Seinni aðferðin (aðferð B) notaði átta ár af gögnum við þyngdarmælingar með GRACE gervihnetti NASA.

    Gögn frá þessum tveimur mismunandi aðferðum sýndu gott samræmi þegar þau voru borin saman, bæði hvað varðar heildarmagn massatapsins og hraða þess – þ.e. þau átta ár sem báðar mælingarnar voru í gangi. Þannig er hægt að álykta að gögnin sýni samfellda niðurstöðu frá árinu 1992.

    Á hverju ári, þau 18 ár sem gögnin ná yfir, þá bráðnaði Grænlandsjökull um 21,9 gígatonnum meira heldur en árið áður. Á Suðurskautinu var það um 14,5 gígatonn meira á ári.

    Það eykur gildi rannsóknarinnar að notaðar voru tvær óháðar aðferðir sem svona mikið samræmi var á milli og sýnir hversu mikið þekking á bráðnun jökulbreiðanna hefur aukist undanfarin ár og hversu mikið betri gögnin eru.

    Ef áfram heldur sem horfir, samkvæmt höfundum, þá munu jökulbreiðurnar tvær auka sjávarstöðu um 15 sentimetra fyrir árið 205o – sem þýðir um 32 sentimetrar ef aðrir þættir eru teknir með í reikninginn. Óvissan er þó enn mikil, en þetta er töluvert meira en t.d. spár IPCC frá 2007.

    Heimildir og ítarefni

    Sjá grein í Geophysical Research letters, Rignot o.fl. 2011 (ágrip):  Acceleration of the contribution of the Greenland and Antarctic ice sheets to sea level rise

    Umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu NASA, Jet Propulsion Laboratory: NASA Finds Polar Ice Adding More to Rising Seas

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

    Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

    Eitt af því sem vísindamenn spá að muni aukast við þær loftslagsbreytingar sem nú eru að verða eru hitabylgjur. Mikil hitabylgja gengur nú yfir Suðurríki Bandaríkjanna sem eru í góðu samræmi við það sem vísndamenn segja.  Af því tilefni rifjum við upp færslu af loftslag.is frá því í fyrra:

    Óvenjulangar hitabylgjur og óvenjumikill hiti gæti orðið algengur í Bandaríkjunum á næstu 30 árum, samkvæmt  nýlegri rannsókn.

    Við rannsóknina voru notaðar umfangsmiklar keyrslur á þriðja tug mismunandi loftslagslíkana, þar sem könnuð var sú sviðsmynd að losun CO2 í andrúmsloftinu myndi auka hnattrænt hitastig jarðar um 1°C frá 2010-2039 – sem þykir frekar líklegt samkvæmt IPCC. Höfundar greindu hitagögn fyrir Bandaríkin milli áranna 1951-1999. Markmið þeirra var að finna lengstu hitabylgjurnar og heitustu árstíðina fyrir seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Þær greiningar voru keyrðar í loftslagslíkönum, meðal annars inn í RegCM3 sem er loftslagslíkan með mikilli upplausn og líkir eftir hitastigi frá degi til dags á litlu svæði (25×25 km).

    Samkvæmt niðurstöðunni, þá munu hitabylgjur – svipaðar og þær lengstu á tímabilinu 1951-1999 – verða allt að fimm sinnum milli áranna 2020-2029 á hluta vesturstrandar og miðríkja Bandaríkjanna. Á milli 2030-2039 verða þær enn viðameiri og algengari.

    Höfundar spá einnig mikilli aukningu í óvenjulegu árstíðabundnu hitastigi á áratugnum sem nú er hafinn, en hitastig sem jafnast á við heitustu árstíðina frá 1951-1999 gæti orðið allt að fjórum sinnum fram til ársins 2019 yfir stóran hluta Bandaríkjanna. Auk þess töldu höfundar líklegt að dagleg hitamet verði tvisvar sinnum algengari á fjórða áratug þessarar aldar en milli áranna 1980-1999.

    Fyrir áratuginn 2030-2039, gæti stór hluti Bandaríkjanna orðið vitni að allavega fjórum árstíðum á áratug, sem verða jafn heit og heitasta árstíðin á tímabilinu 1951-1999. Í Utah, Colorado, Arizona og Nýju Mexíkó gætu mjög heitar árstíðir á áratug orðið allt að sjö.

    Einn aðalhöfunda segir um niðurstöðuna: “Á næstu 30 árum, gætum við séð aukningu á tíðni hitabylgja líka þeirri sem gengur nú yfir Austurströnd Bandaríkjanna (byrjun júlí) eða líka þeirri sem reið yfir Evrópu árið 2003 og olli tugum þúsunda dauðsfalla. Hitabylgjur sem þær, valda einnig töluverðu álagi á ræktun korns, sojabauna, baðmullar og vínberja, sem getur valdið uppskerubrest.” Við þetta bætist að líklegt er talið að breytingar í úrkomu og raka jarðvegs eigi eftir að versna til muna þegar líður á öldina og muni það magna upp afleiðingar hitabylgjanna – þ.e. að meira verði um þurrka og skógarelda í náinni framtíð.

    Miðað við fyrrnefnda sviðsmynd, yrði hnattrænn hiti eftir 30 ár um 2°C heitari en fyrir iðnbyltinguna. Margir hafa talið það ásættanlegt markmið til að komast hjá verstu afleiðingum hlýnunar Jarðar (sjá Tveggja gráðu markið). Samkvæmt þessari rannsókn þá munu svæði í Arizona, Uta, Colorado og Nýju Mexíko verða fyrir allavega 7 hitabylgjum á tímabilinu 2030-2039 – hitabylgjum jafn heitum og þær verstu frá árinu 1951-1999. Þar með telja höfundar að mörg svæði Bandaríkjanna muni verða fyrir alvarlegum afleiðingum hlýnunar Jarðar, þrátt fyrir að tveggja gráðu markið myndi nást.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr frétt af heimasíðu Stanford háskólans: Heat waves and extremely high temperatures could be commonplace in the U.S. by 2039, Stanford study finds

    Diffenbaugh, N.S. and Ashfaq, M., Intensification of hot extremes in the United States, Geophysical Research Letters, doi:10.1029/2010GL043888, in press.

    Tengdar færslur á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar með augum bænda

    Loftslagsbreytingar með augum bænda

    Undanfarna áratugi hafa bændur, í skógivöxnum hlíðum Darjeelings í Himalajafjöllum ,tekið eftir ýmsu undarlegu. Ár og lækir eru að þorna, uppskera minnkar og tré blómstra nokkru áður en vorar. Reynsla þeirra samræmist gervihnattagögnum samkvæmt nýrri grein eftir Chaudhary og Bawa (2011) sem bendir til þess að staðbundin þekking geti í raun hjálpað vísindamönnum að fylgjast með afleiðingum loftslagsbreytinga.

    Höfundar tóku viðtöl við heimilisfólk 250 heimila í 18 þorpum í Himalajafjöllum sem öll eru staðsett í 2000-3ooo metra hæð. Til að skekkja ekki niðurstöðurnar þá var ekki spurt beint út um breytingar í veðrakerfum, heldur kannað hvort einhverjar breytingar hefðu orðið í lífsgæðum síðastliðin 20 ár og þaðan fylgt eftir með spurningum um t.d. þurrka og hitastig.

    Sem dæmi þá sagði hópur kvenna frá þeirri reynslu sinni að þær þyrftu nú að þvo áhöld til geymslu matar oftar en fyrr, vegna þess að maturinn skemmdist fyrr sökum hærra hitastigs. Annað dæmi eru þorpsbúar sem bjuggu hæst, töluðu um óvenjuheit sumur og að það vori fyrr. Neðar í hlíðunum var síðan kvartað yfir auknum ágangi moskítóflugna og algengar plöntur finnast hærra í fjöllunum en áður á sama tíma og aðrar plöntur hafa horfið.

    Breytileiki í landbúnaði er ekki eitthvað sem er óþekkt, en í viðtölunum kom fram að erfitt væri orðið að stunda ræktun vegna þess hversu ófyrirsjáanlegt veðrið er að verða.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin sem til umfjöllunar er, má lesa í Biology letters og er eftir  Chaudhary og Bawa 2011 (ágrip): Local perceptions of climate change validated by scientific evidence in the Himalayas

    Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu Science: Watching Climate Change Through a Farmer’s Eyes.

    Tengt efni á loftslag.is