Gögnin segja sömu sögu

Fyrir stuttu kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er síðasti kafli hans.

Rökin fyrir því að hin hnattræna hlýnun sé af mannavöldum er byggð á beinum athugunum. Fjölmörg óháð og ólík sönnunargögn benda í sömu átt.

Gögn eru samhljóða um að styrkaukning CO2 í lofthjúpnum sé af mannavöldum. Það hefur verið staðfest með mælingum á samsætum kolefnis í andrúmsloftinu. Þannig sést að aukningin er tilkomin vegna bruna jarðefnaeldsneytis.

Gögn eru einnig samhljóða um að styrkaukning CO2 auki á hlýnunina. Gervihnettir mæla minni varma sem sleppur út í geim. Yfirborðsmælingar sýna að meiri varmi kemur aftur að yfirborði jarðar. Það gerist á þeirri bylgjulengd sem CO2 beislar varma: greinilegt fingrafar manna.

 Það eru ekki bara vísindamenn sem eru samhljóða: gögnin eru einnig samhljóða.

Gögn eru einnig samhljóða um að hnattræn hlýnun sé staðreynd. Yfirborðsmælingar og gervihnattamælingar sýna sömu leitni hitastigs. Önnur ummerki um hlýnun finnast víða um hnöttinn: minnkandi jökulbreiður, hörfandi jöklar, hækkandi sjávarstaða og tilfærsla árstíða.

Mynstur hlýnunnar sýnir fram á áberandi einkenni aukinna gróðurhúsaáhrifa. Næturnar hlýna hraðar en dagarnir. Veturnir hlýna hraðar en sumrin. Neðri hluti lofthjúpsins hlýnar á sama tíma og efri hluti lofthjúpsins kólnar.

Þegar spurt er hvort menn valda loftslagsbreytingum, eru vísindamennirnir ekki bara samhljóða: gögnin eru einnig samhljóða.

Rökin fyrir hnattrænni hlýnun af mannavöldum eru byggð á mörgum óháðum gögnum úr mörgum áttum. Efasemdamenn um hnattræna hlýnun einblína oft á tíðum á eitt lítið púsl en afneita heildarmyndinni sem gögnin sýna.
Loftslag okkar er að breytast og við mennirnir berum ábyrgð á því með losun okkar á gróðurhúsalofttegundum. Aukin þekking er nauðsynleg til að skilja heiminn í kringum okkur og til að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðina.

Lýkur þá þessari syrpu upp úr bæklingnum Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir  en búast má við fastri síðu með samantekt á næstu dögum.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál