Svar til Sigríðar Á. Andersen

sigridurSigríður Á. Andersen sendi okkur skilaboð á FB-síðu París 1,5 – þau skilaboð má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. Sigríður virðist telja að við sem stöndum að þessu sem að stunda hagsmunapólitík og að þetta sé eitthvert plott vinstrimanna. Því má halda til haga að eini tilgangur hópsins Paris 1,5 er að ýta undir umræðu og aðgerðir í loftslagsmálum á Íslandi. Við ítrekum að hópurinn starfar EKKI í pólitískum tilgangi. Rýnin er á byggð á samþykktum stefnum flokkanna í loftslagsmálum ásamt því hvernig flokkarnir hafa dregið málið inn í aðdragandi kosninga. Afar ósanngjarnt væri að leggja mat fyrri aðgerðir sem yrði að byggja á huglægu mati á aðgerðum flokka sem hafa setið í ríkisstjórn síðustu árum og jafnvel áratugum.

Við viljum gjarnan fá þetta mál á dagskrá og fögnum því að Sigríður svari, þó svo að við höfum ýmislegt við svör hennar að athuga. Þetta er í fyrsta skipti sem þetta er gert og reiknað svona og ferlið er að okkar mati alveg opið fyrir gagnrýni. Við fögnum umræðunni – enda vildum við fá fram umræðu og erum opin fyrir athugasemdum og jafnvel breytingum (við sendum flokkunum m.a. póst og báðum um þeirra athugasemdir og viðbætur ef einhverjar voru – Sjálfstæðisflokkurinn valdi að svara ekki). Þess ber að geta að samkvæmt okkar stöðlum og með því að skoða stefnur flokkanna og þau svör sem við höfum fengið, þá er staðan nokkuð nærri lagi því að vera svona samkvæmt okkar mati. Þar sem okkur þykir nauðsynlegt að fólk átti sig á því hvernig flokkarnir vilja taka á loftslagsmálum eftir kosningar og hvernig sá áhugi birtis í opinberum stefnum flokkanna, þá gerðum við þetta mat. Við vonum að þeir flokkar sem ekki stóðust prófið muni í framtíðinni setja meiri fókus á þau mál, það má lesa um loftslagsrýnið og aðferðafræðina.

Hér má lesa andsvör okkar við athugasemdum Sigríðar lið fyrir lið og svo má lesa alla athugasemd hennar neðst.

SÁA:
“Vinstri flokkarnir sem settu milljarða af skattfé almennings í málmbræðsluna á Bakka, beindu fólki yfir í meira mengandi bíla með breytingum á sköttum á eldsneyti og stóðu að olíuleyfunum á Drekasvæðinu og fá hæstu mögulega einkunn hjá ykkur fyrir að segjast vera á móti samningunum sem þeir gerðu sjálfir við olíufyrirtækin.”

Það sem við viljum undirstrika að við erum að skoða núverandi stefnur flokkanna – ekki einhverja gamla flokkapólitík sem við höfum ekkert með að gera. Það er vissulega rétt að þeir flokkar sem stóðu að því að hefja olíuvinnsluna á sínum tíma þurfa að hafa það á sinni samvisku – það þýðir þó ekki að opinber stefna á núverandi tímapunkti um að vilja ekki fara í oliuvinnslu sé ómarktæk (ekkert frekar en önnur stefnumál sem sett eru fram fyrir kosningar eftir áhugasviði flokkanna – það er alltaf erfitt að átta sig á því hvernig það mun birtast eftir kosningar). Þegar við skoðum núverandi opinberar stefnur og hvað flokkarnir vilja í þessum efnum, þá getum við ekki annað en gefið einkunnina út frá því sem þar kemur fram – en ekki hvað? Við munum vissulega taka flokkana á orðinu ef efndir verða ekki í takt við stefnur flokkanna síðar og halda þeim við efnið eins og hægt er – það er seinna tíma mál.

SÁA:
Stjórnarflokkarnir fá hins vegar algera falleinkunn hjá ykkur.

Það er þó núverandi ríkisstjórn sem undirritaði Parísarsamkomulagið, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Teljið þið það ekki vera til marks um að þessir flokkar hafi sett sér markmið í þessum efnum?

Það sem við gefum einkunn fyrir er opinber stefna – ekki eitthvað sem hugsanlega er hægt að telja vera til marks um stefnuna (mjög huglægt mat) – þetta kemur allt fram í úttekt okkar og hægt að lesa um það þar. Væntanlega væri stjórnarflokkunum í lófa lagið að skrifa stefnu sína niður í stað þess að láta okkur túlka stefnur þeirra út frá meintum áhuga þeirra – miklu einfaldara fyrir alla kjósendur að hafa það alveg ljóst hvað þið meinið og hvað ekki.

SÁA:
Á fjárlögum 2016 er fjárheimild að fjárhæð kr.67 m.kr. á ári, í þrjú ár, fyrir verkefnið „Rafbílar – átak í innviðum“. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem samþykkt var af ríkisstjórn í nóvember. Fyrir þetta verkefni Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins gefið þið flokknum 2 af 10 mögulegum en Píratar sem aldrei hafa gert neitt í þessum efnum fá auðvitað 9.

Enn og aftur, við getum ekki gefið einkunn fyrir það sem ekki stendur í stefnuskrám – flokkunum er í lófa lagið að móta sína stefnu og gera hana opinbera svo hún sé öllum ljós – þetta á við um allar stefnur flokkanna. Ef stefnan er ekki aðgengileg og ekki til staðar, er það ekki stefna að okkar mati. Annars bara fínt að búið er að setja einhvern aur í innviðina – það ætti því í raun að vera auðvelt að setja í stefnur flokkana eitthvað um málin ef áhugi er fyrir hendi.

SÁA:
Það er líka áhugavert að þið sleppið að „prófa“ í súrnun hafsins sem kann að vera eitt af stóru hagsmunamálum Íslands í þessum efnum. Einn þingmaður sinnti því máli umfram aðra á liðnu þingi og fékk fyrr á árinu samþykkta þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum, Elín Hirst þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Súrnun sjávar er inní þessu mati, enda er ljóst að stefna um að minnka losun mun draga úr súrnun sjávar (það er ljóst að það er losun CO2 sem veldur súrnun sjávar). Enn og aftur vantar að markmið um að minnka losun séu til staðar hjá stjórnarflokkunum – ergo, það hefur áhrif á einkunnina. Við erum mjög meðvituð um súrnun sjávar, en við ákváðum að hafa það óbeint inní matinu, þar sem að það eina sem er hægt að gera til að draga úr súrnun sjávar er að draga úr losun.

SÁA:
Sjálf hef ég fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda, ekki síst frá framræstu landi, í ræðu og riti, fjölmörgum blaðagreinum og viðtölum í útvarpi og sjónvarpi og lagt fram fjórar fyrirspurnir á alþingi á undanförnu ári er málið varða. Auk þess að stóð ég fyrir opnum fundi „Endurheimt votlendis og loftslagsmálin“ nú í haust. Síðasta blaðagrein mín um loftslagmálin birtist aðeins fyrir nokkrum dögum í The Reykjavik Grapevine. Frumvarp sem ég lagði fram ásamt þremur öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna um breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti miðar einnig að því að rétta hlut rafbíla í orkubókhaldi landsins og draga úr þeirri sóun sem lögin hafa því miður haft í för með sér.

Sú stefna sem þú markar persónulega í þínum skrifum er ekki opinber stefna Sjálfstæðisflokksins, en vissulega gæti þín umræða (ef við hefðum vitað af henni) hækkað einkunn flokksins um 2-3 stig (við sendum fyrirspurn á flokkana en fengum ekki svör frá Sjálfstæðisflokknum, hefði kannski hjálpað okkur að finna það sem flokksmenn eru að gera á þessu sviði). En þessi einhliða nálgun um votlendi virðist eiga sinn uppruna í fyrirspurn á Alþingi þar sem þú spyrð um þessi mál og færð svar sem þú túlkar á ákveðin veg. Í svarinu við fyrirspurn þinni kemur hins vegar eftirfarandi fram, en þetta virðist ekki vera ofarlega í huga þínum þegar þú tekur þessi mál fyrir:

“Hins vegar er rétt að benda á að villandi getur verið að birta upplýsingar um losun frá framræstu landi og bera þær saman við losun frá öðrum uppsprettum, svo sem frá bruna jarðefnaeldsneytis eða iðnaðarferlum, án skýringa. Almennt er losun frá landi, bæði framræstu og öðru, ekki talin fram í bókhaldi varðandi skuldbindingar Íslands um takmörkun losunar, eins og þær sem er að finna í Kýótó-bókuninni. Losun frá framræstu landi er að mestu vegna skurða sem grafnir voru fyrir 1990 (sem er viðmiðunarár Kýótó-bókunarinnar) og því er losun frá mestöllu framræstu landi nú ekki vegna aðgerða sem eru í gangi.”

Þessi einhliða nálgun varðandi votlendið er í raun bara útúrsnúningur sem á lítið skylt við lausnir til framtíðar – það þarf að taka á þessu máli frá mörgum hliðum og vissulega líka framræstingu mýra sem átti sér stað fyrir 1990.

SÁA:
Það eru því gróf ósannindi að þessum málum hafi ekki verið sinnt af stjórnarflokkunum og frambjóðendur þeirra hafi ekki tekið málið upp í aðdraganda kosninga.

Til viðbótar við rýni okkar á opinberum stefnum flokkanna, báðum við þá um upplýsingar um þessi mál og að senda okkur upplýsingar um þessa 7 punkta en fengum engar upplýsingar frá stjórnarflokkunum. Fyrst og fremst skoðuðum við bara stefnur flokkana eins og þær birtast kjósendum á vefsíðum þeirra. Það má vissulega skoða þessa þætti betur, en samkvæmt okkar mati hafa stjórnarflokkarnir ekki tekið þessi mál upp svo vel sé – einhliða umræða um votlendi af þinni hendi breyta ekki þessu mati okkar.

SÁA:
Ég hygg að það séu oft á tíðum óvönduð vinnubrögð af þessu tagi sem gera fólk afhuga umhverfismálum á borð við loftslagsmálin. Fólk fær á tilfinninguna að málin hafi verið hertekin af óbilgjörnum hópum sem nota þau til að ná fram ýmsum öðrum pólitískum markmiðum sínum.

Við skoðuðum opinberar stefnur flokkanna og mátum stöðuna út frá því. Við fögnum því ef flokkarnir vilja gera betur  og allri umræðu – takk fyrir að hafa áhuga á málinu Sigríður. Við vonum svo bara að allir flokkar hafi þetta þannig í stefnum sínum í framtíðinni að við getum fyllst stolti yfir því að kjósa þá (hægri eða vinstri eða hvernig sem maður persónulega vill flokka þá). Svo lengi sem að stefnur sumra flokka innihalda lítið sem ekkert um loftslagsmál eða lausnir tengdar þeim, þá þýðir það því miður falleinkunn þeirra flokka. Vonum að hægt verði að gera enn betur í framtíðinni – við hlökkum til að meta stefnu allra flokka í framtíðinni og vonum að þinn flokkur standi sig betur í framtíðinni og að áhugi þinn og annara samflokksmanna þinna muni birtast öllu áhugafólki um umhverfis- og loftslagsmál á skýran og málefnalegan hátt í framtíðinni.

Í ljósi ofangreinds höfnum við gagnrýni SÁA og bendum áhugasömum á að kynna sér það opna verklag sem nýtt var til einkunargjafar á stefnu flokkana, sjá Loftslagsrýni flokkanna 2016 – uppfært.

Hér má lesa athugasemd Sigríðar í heild sinni:

Ágætu aðstandendur París 1,5

Í svonefndri loftslagsrýni ykkar er ekkert litið til þess sem stjórnmálaflokkarnir hafa gert heldur aðeins fagurgala þeirra korter í kosningar. Vinstri flokkarnir sem settu milljarða af skattfé almennings í málmbræðsluna á Bakka, beindu fólki yfir í meira mengandi bíla með breytingum á sköttum á eldsneyti og stóðu að olíuleyfunum á Drekasvæðinu og fá hæstu mögulega einkunn hjá ykkur fyrir að segjast vera á móti samningunum sem þeir gerðu sjálfir við olíufyrirtækin.
Stjórnarflokkarnir fá hins vegar algera falleinkunn hjá ykkur.

Það er þó núverandi ríkisstjórn sem undirritaði Parísarsamkomulagið, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Teljið þið það ekki vera til marks um að þessir flokkar hafi sett sér markmið í þessum efnum? Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra er nýkomin frá New York þar sem hún afhenti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fullgiltan loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna af hálfu Íslands, nokkrum dögum eftir að allir þingmenn flokkanna samþykktu hann á alþingi. En þið segið stjórnarflokkana ekkert hafa sinnt þessum málum í aðdraganda kosninga.

Þið spyrjið um innviði. Á fjárlögum 2016 er fjárheimild að fjárhæð kr.67 m.kr. á ári, í þrjú ár, fyrir verkefnið „Rafbílar – átak í innviðum“. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem samþykkt var af ríkisstjórn í nóvember. Fyrir þetta verkefni Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins gefið þið flokknum 2 af 10 mögulegum en Píratar sem aldrei hafa gert neitt í þessum efnum fá auðvitað 9.

Það er líka áhugavert að þið sleppið að „prófa“ í súrnun hafsins sem kann að vera eitt af stóru hagsmunamálum Íslands í þessum efnum. Einn þingmaður sinnti því máli umfram aðra á liðnu þingi og fékk fyrr á árinu samþykkta þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum, Elín Hirst þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Sjálf hef ég fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda, ekki síst frá framræstu landi, í ræðu og riti, fjölmörgum blaðagreinum og viðtölum í útvarpi og sjónvarpi og lagt fram fjórar fyrirspurnir á alþingi á undanförnu ári er málið varða. Auk þess að stóð ég fyrir opnum fundi „Endurheimt votlendis og loftslagsmálin“ nú í haust. Síðasta blaðagrein mín um loftslagmálin birtist aðeins fyrir nokkrum dögum í The Reykjavik Grapevine. Frumvarp sem ég lagði fram ásamt þremur öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna um breytingar á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti miðar einnig að því að rétta hlut rafbíla í orkubókhaldi landsins og draga úr þeirri sóun sem lögin hafa því miður haft í för með sér.
Það eru því gróf ósannindi að þessum málum hafi ekki verið sinnt af stjórnarflokkunum og frambjóðendur þeirra hafi ekki tekið málið upp í aðdraganda kosninga.

Ég hygg að það séu oft á tíðum óvönduð vinnubrögð af þessu tagi sem gera fólk afhuga umhverfismálum á borð við loftslagsmálin. Fólk fær á tilfinninguna að málin hafi verið hertekin af óbilgjörnum hópum sem nota þau til að ná fram ýmsum öðrum pólitískum markmiðum sínum.

Kær kveðja,

Sigríður Á. Andersen, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.