Loftslag.is

Tag: Fréttir

  • Frétt: Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun

    changing_opinions_GW
    Tafla 1 (smellið á myndina til að fá hana í fullri stærð)

    Þrátt fyrir sífellt fleiri vísindaleg rök, þá eru færri Bandaríkjamenn sem telja að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun undanfarna áratugi. Ný könnun sem gerð var nú október, á vegum Pew Research Center for the People & the Press, gefur til kynna að nú telji 57% Bandaríkjamanna að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun, á móti 71% í apríl  2008. Aftur á móti eru 33% sem telja hana ekki til staðar á móti 21% í apríl 2008. Í töflu 1 má lesa betur út úr tölunum. Úrtakið var 1500 manns.

    Séu þessar tölur skoðaðar eftir stjórnmálaskoðunum, þá er einnig hægt að greina nánar hvernig breytingarnar hafa orðið allt frá 2006. Hjá Demókrötum er línan ekki eins brött niður á við eins og hjá bæði óháðum og Repúplíkönum. En þó er hægt að greina að almenningur telur sig ekki hafa fullnægjandi skýringar og sannanir fyrir því að hnattræn hlýnun eigi sér stað. Sjá graf 1. Einnig er hægt að sjá þar að mesta breytingin hefur orðið undanfarið ár.

    changing_opinions_GWII
    Graf 1 (smellið á myndina til að fá hana í fullri stærð)

    Þetta þykir ekki síst athyglisvert í ljósi þess að á síðustu misserum hafa komið fram sterkari vísindaleg rök sem styrkja kenningar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þess má geta að núna er til umfjöllunar stórt frumvarp á Bandaríkjaþingi, þar sem leitast er við að koma til móts við loftslagsvandann.

    Andrew Weaver, prófessor við Háskólann í Victoria í bresku Kolumbíu, segir að stjórnmál séu að slöra vitund almennings fyrir vandanum. “Þetta er samsetning lélegrar boðmiðlunar af hálfu vísindamanna, lélegs sumars í austur hluta Bandaríkjanna, þar sem fólk ruglar saman veðri og loftslagi og (mjög stór þáttur) almannatengsla fyrirtæki og þrýstihópar sem reyna að sá efasemdum í huga almennings,” segir prófessor Weaver.

    Þrátt fyrir minna traust á vísindin, þá segist helmingur þátttakenda í könnuninni styðja aðgerðir til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir að það geti leitt til hærra orkuverðs. Meirihlutinn, 56%, taldi einnig að Bandaríkinn ættu að taka þátt í aðgerðum með öðrum þjóðum um aðgerðir til að takast á við hnattrænar loftslagsbreytingar.

    Samkvæmt öðrum könnunum þá eru flestar þjóðir á því að loftslagsvandinn sé til staðar og að taka þurfi hann alvarlega og að setja þurfi loftslagsmál í hærri forgang. Sjá t.d. World Public Opinion.

    Ítarefni:
    Umfjöllun á vef The Pew Research Center for the People & the Press

    Frétt á vef COP15
    Könnun World Public Opinion
    Frétt á fréttavef Yahoo

  • Frétt: Haustþing Veðurfræðifélagsins

    hiti_borgaris
    Mynd / Ingibjörg Jónsdóttir

    Veðurfræðifélagið minnir á haustþing sitt sem verður haldið næstkomandi miðvikudag, 21. október. Fundur verður settur kl. 13 í Víðgelmi í Orkugarði að Grensásvegi 9 og honum slitið kl. 16. Þingið er opið öllum sem hafa áhuga á veðri og veðurfari. Að þessu sinni er stór hluti þingsins helgaður fjarkönnun og mælingum á veðri. Hér fyrir neðan er dagskrá þingsins.

    ============ Dagskrá haustþings:——————-

    13:00 Inngangur – Stjórn Veðurfræðifélagsins
    13:15 Fjarkönnun og rauntímaeftirlit með hafís – Ingibjörg Jónsdóttir
    13:30 Greining á gosösku og sandstormum með gervitunglagögnum -Hróbjartur Þorsteinsson
    13:45 Fjarkönnun og veðurfarstengd náttúruvá: Gróðureldar – ÞrösturÞorsteinsson
    14:00 Athuganir á upptökum moldviðris á Austurlandi – Victor Kr. Helgason

    Kaffihlé

    14:45 Meðalvindhraði á landinu. Eru sjálfvirkar og mannaðar stöðvarsambærilegar? – Trausti Jónsson
    15:00 Rok og rigning: áhrif vinds á úrkomumælingar – Þórður Arason
    15:15 Leitni í hitastigi á Íslandi á árunum 1961 til 2006 – BirgirHrafnkelsson
    15:30 MOSO: Veðurmælingar með fjarstýrðri flugvél sumarið 2009 -Haraldur Ólafsson
    15:45 SUMO-glíma við Esjuna: Túlkun vindmælinga frá MOSO – Hálfdán Ágústsson

    Sjá nánar dagskrá og útdrátt erinda hér: Haustþing Veðurfræðifélagsins

  • Fréttir liðinnar viku

    Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.

    Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:

    Nokkrar bloggfærslur litu dagsins ljós í þessari viku og voru spurningar fyrirferðarmiklar. Færsla um loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn (COP15) birtist og var þar í stuttu máli farið yfir helstu atriði ráðstefnunnar sem er á tímabilinu 7. – 18. desember. Þrjár færslur, sem fjalla um 3 mikilvægar spurningar er varða loftslagsmál birtust í vikunni. Spurningarnar eru;

    Þessum spurningum er velt upp og komið er með svör við þeim, sem m.a. er sótt í heim vísinda og mælinga. Gestapistill vikunnar var að þessu sinni eftir Stefán Gíslason framkvæmdastjóra umhverfisráðgjafarfyrirtækisins UMÍS ehf. Environice í Borgarnesi, pistill hans nefnist “Er almenningi sama um loftslagsmál?” og kunnum við honum þakkir fyrir góðan pistil.

    Tvær myndbandafærslur birtust í vikunni, efnið í báðum var sótt til NASA. Á YouTube er rás á snærum NASA, sem nefnist NASAexplorer og þangað sóttum við efni vikunnar. Fyrst ber að nefna myndband um bráðnandi ís og hækkandi sjávarstöðu, sem er stutt myndband, þar sem m.a. eru tekin viðtöl við vísindamenn NASA. Seinni myndbandafærslan er röð myndbanda sem birtust sem hluti Jarðvísindaviku NASA. Þetta eru 6 myndbönd sem að mestu fjalla um mikilvægi hafsins varðandi loftslagsbreytingar.

    Stuttar fréttir

    _46523579_joidesresolution226

    Nýjar rannsóknir á magni CO2 í andrúmsloftinu síðastliðin 20 milljón ár, bendir til þess að núverandi takmörk varðandi losun CO2 séu of skammsýn. Vísindamennirnir notuðu sjávarsetlög til að endurskapa CO2 magn síðustu 20 milljón ár. Það kom í ljós að þegar magn CO2 var svipað og talið er að sé ásættanlegt í dag til að tækla loftslagsbreytingar, þá var sjávarstaða um 25-40 m hærri en er í dag. Greinin, sem mun birtast í Science, eykur vitneskju um tengsl milli CO2 og loftslag. Síðustu 800 þúsund ár eru nokkuð vel þekkt út frá ískjörnum, en hingað til hefur verið erfiðara að nálgast nákvæm gögn fyrir síðustu 20 milljónir ára. Sjá umfjöllun á heimasíðu BBC.

    alpine-lake-324x205Nýjar rannsóknir á setlögum í stöðuvatni í Svissnesku Ölpunum bendir til þess að mengun fortíðar sé að læðast aftan að okkur. Mengunarefni sem hafa verið föst í ís jöklanna í yfir 30 ár eru að koma í ljós núna vegna bráðnunar af völdum hlýnunar jarðar. Efni eins og PCB, Díoxín og mörg klórín efnasambönd með DDT hafa aukist frá tíunda áratugnum eftir að hafa minnkað á þeim níunda vegna banns og stjórnunar á notkun þeirra. Vísindamennirnir hafa áhyggjur af því sem muni gerast ef jöklar Grænlands og Suðurskautsins fara að bráðna í einhverju magni. Sjá umfjöllun á heimasíðu Discovery.

    091008-giant-sea-mucus-blobs_170

    Hlýnun sjávar undanfarna áratugi hefur valdið því að risastórir flákar af slímkenndu efni hafa myndast oftar og hafa enst lengur, í Miðjarðarhafinu. Þessir slímkenndu flákar, sem eru allt að 200 kílómetra langir myndast á náttúrulegan hátt, venjulega á sumrin. Undanfarin ár hafa þeir þó einnig myndast á veturna. Vísindamenn hafa fundið út að þeir eru ekki eingöngu óþægilegir fyrir baðgesti Miðjarðarhafsins og veiðimenn, heldur mynda þeir einnig góðar aðstæður fyrir bakteríur og veirur, þar á meðal E.coli veiruna. Sjá umfjöllun á heimasíðu National Geographic.

    kashmir-glacier-324x205Jöklarnir í Kashmír Indlands eru að bráðna hratt vegna hækkandi hitastigs og talið er að það geti haft slæmar afleiðingar fyrir milljónir manna á Himalaya svæðinu. Jarð- og jarðeðlisfræðingar við Háskólann í Kashmír segja að bráðnunin muni hafa áhrif á tvo þriðju íbúa svæðisins, vegna breytinga sem verði í landbúnaði, garðyrkju, hirðingjalífi og skógum. Stærsti jökullinn Indlandsmegin í Kashmír, sem heitir Kolahoi, hefur minnkað úr 13 ferkílómetrum niður í 11,5 ferkílómetra síðustu 40 ár eða um 18%. Aðrir jöklar á svæðinu hafa minnkað svipað eða um 16%. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu Discovery.

    get-file

    Hitastig yfirborðsjávar við miðbaug Kyrrahafs í september heldur áfram að viðhalda El Nino aðstæðum sem sköpuðust í sumar. Þriggja mánaða frávik hitastigs var enn yfir 0,5°C sem er viðmiðið sem notað er við að skilgreina El Nino, þriðja mánuðinn í röð. Samt sem áður þá eru önnur fyrirbæri sem eru einkennandi í tengslum við El Nino ekki í takt við það sem vanalegt er. Kyrrahafssveifluvísirinn (Southern Oscillation Index – SOI) er tvíræður miðað við hvað menn eru vanir í tenslum við El NIno. Allt í allt þá bendir margt til þess að El Nino í vetur verði veikur eða miðlungs. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu NOAA.

  • Frétt: Fréttaaukinn í Sjónvarpinu sunnudaginn 11. október

    Í Fréttaaukanum í Sjónvarpinu sunnudaginn 11. október verður m.a. rætt við Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðing um bráðnun Grænlandsjökuls. Talið er að Grænlandsjökull sé að bráðna hraðar en áður var talið og yfirborð sjávar hækki fyrir vikið, ástæður og áhrif eru hins vega óljós segir í kynningu þáttarins. Umsjónarmenn þáttarins eru þau Elín Hirst og Bogi Ágústsson. Hérundir má sjá stutta kynningu þáttarins. Einnig er við hæfi að benda á frétt af Loftslag.is um þynningu jökla á Grænlandi og Suðurskautinu.

  • Fréttir liðinnar viku

    Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.

    Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:

    Ýmsar fréttir og blogg hafa birst í vikunni. Fyrst má nefna 2 nýjar fastar síður, undir mýtunum. Þetta eru mýturnar “Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð” og “Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna“. Samhliða seinna efninu var einnig gerð bloggfærsla, þar er hægt að gera athugasemdir og setja umræðu í gang um efnið. Helstu fréttir vikunnar eru m.a. um nýja skýrslu frá umhverfisráðuneytinu, um nýtt verkefni NASA þar sem gerðar eru mælingar á ísnum á Suður- og Norðurskautinu, frétt um sumarbráðnun hafíssins á Norðurpólnum og ekki má gleyma frétt um viðtalið sem við félagarnir fórum í, á Útvarp Sögu, í Vísindaþættinum. Í stað gestapistils vikunnar, sem ekki gat orðið af, þá gerðum við bloggfærslu um það sem við megum eiga í vændum komandi vikur. Ýmis myndbönd og einnig léttmeti komu á vefinn í vikunni, helst ber að nefna 2 fróðleg myndbönd, í fyrsta lagi ber að nefna fræðslumyndband NASA um hafísinn og svo myndband um loftslagssamsærið – hvað er nú það? Síðast en ekki síst má nefna léttmeti vikunnar, dæmi er myndband með Bill Maher, þar sem hann veltir fyrir sér spurningum um efasemdarfólk og svo færsluna um torfþök á öll hús – ætli það geri nú eitthvert gagn?

    Stuttar fréttir

    s-BATHROOM-largeÞað er margt gert til að draga úr losun koldíoxíðs. Japanska flugfélagið All Nippon Airways hefur t.d. hafið tilraun sem gengur út á að flugfarþegum er boðið að pissa áður en gengið er um borð í flugvélar félagsins. Þetta er enn á tilraunastigi hjá flugfélaginu, en gert er ráð fyrir að hægt sé að draga úr heildarþyngd flugvélanna með þessari ráðstöfun. Þetta gengur þannig fyrir sig að sérstakir “klósett verðir” eru til staðar sem minna fólk á að létta á sér áður en gengið er um borð. Flugiðnaðurinn hefur nýlega samþykkt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem svarar 50% frá 2005 losuninni fyrir árið 2050. Bæði á að nota ýmiskonar stefnubreytingar (eins og þessi tilraun er hluti af) og með notkun skilvirkari tækni. Sjá nánar hér.

    storm-mNý rannsókn bendir til þess að frá árinu 1850 þá megi rekja um helming sjávarstöðubreytinga til mannlegra athafna. Einnig fundu vísindamennirnir að einungis fjórir sentimetrar af þeim 18 sentimertum af hækkandi sjávarstöðu væri af náttúrulegum ástæðum. Fyrir 1800 þá er hægt að útskýra allar sjávarstöðubreytingar með náttúrulegum breytingum – t.d. vegna breytinga í hita sem nær til jarðar frá sólinni (sveiflur í virkni sólar eða vegna eldgosa). Sjá nánar hér.

    locusts

    Greining á kínverskum annálum sem spanna yfir tvö þúsund ár, sýna að engisprettufaraldar eru líklegri í heitu og þurru veðri, sérstaklega í norðurhluta Kína.  Vistfræðingar hafa deilt um það hvað hefur áhrif mest áhrif á stofnstærð dýrategunda á löngum tíma – sumir halda því fram að loftslag hafi mest áhrif á meðan aðrir halda því fram að t.d. samkeppni og afrán séu meira ráðandi. Sjá nánar hér.

    Endeavour-460_785396c

    Veðurfarsskýrslur James Cook, sem hann skráði skipulega á hádegi dag hvern á ferð sinni um hið óþekkta, eru taldar geta hjálpað vísindamönnum að spá fyrir um loftslagsbreytingar. Skrár Cooks og fleiri landkönnuða er nú verið að endurrita og setja á stafrænt form og er talið geta hjálpað loftslagsfræðingum að greina breytingar í veðrakerfum. Gögnin sem geymd eru í Kew, innihalda einstök og nákvæm gögn með hitastigi, hafís, loftsþrýstingi og vindstyrk og átt, víða að úr heiminum. Sjá nánar hér.

  • Fréttir liðinnar viku

    Hér er yfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Einnig er hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Þess má einnig geta að á næsta þriðjudag verður viðtal við okkur í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu. Þátturinn er á dagskrá klukkan 17-18 á þriðjudag.

    Stuttar fréttir

    ifpriAFæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnkar töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Hér er á ferðinni umfangsmikil rannsókn á tengslum milli loftslagsbreytinga og fæðuöryggis. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.

    methane1_300Óvenjuhátt hitastig norðurskautsins og miklar rigningar í hitabeltinu er talið líklegur orsakavaldur fyrir hinni hnattrænu aukningu í metani í andrúmsloftinu frá árinu 2007 og 2008, samkvæmt NOAA. Áratuginn þar á undan hafði lítil sem engin aukning verið, en metan er önnur mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin – á eftir CO2 (koldíoxíð). Sjá nánar frétt af vef NOAA.

    3gorgesAVotlendi sem verður til þegar lónstæði stórrar stíflu í Kína þornar að hluta á sumrin er hugsanlega stór uppspretta metans sem er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Vísindamenn hafa haft vaxandi áhyggjur af gróðurhúsalofttegundum frá gróðurlendi sem fer undir vatn við stíflugerð. Þegar slík lífræn efni rotna, þá losnar metan og CO2 sem bæta á þá hlýnun jarðar sem nú þegar í gangi. Aukning í metani er sérstakt áhyggjuefni þar sem áhrif þess er tuttugu sinnum áhrifameira en áhrif CO2. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.

    Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:

    Síðastliðinn laugardag þá birtum við 2 færslur sem fjölluðu beint og óbeint um jökulísinn og hækkun sjávarborðs. Fyrst má nefna myndband um sjávarstöðubreytingar og síðan frétt um nýjar rannsóknir sem skoðuðu þynningu jökulíssins á Grænlandi og Suðurskautinu. Önnur merkileg frétt úr vikunni sem leið var fréttin um fjórar gráðurnar, sem er ný frétt um rannsóknir á vegum Met Office (bresku veðurstofunnar), þar sem því er haldið fram að óheft losun koldíoxíðs geti leitt til allt að 4°C hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót. Myndbönd vikunnar voru nokkur, má þar helst nefna myndband af sýn Carl Sagan á bláa punktinn sem við lifum á, hversu agnarsmár hann er í samanburði við alheiminn, auglýsing frá Bandaríkjunum sem hefur vakið furðu og svo heimildamynd um súrnun sjávar. Einnig skrifuðum við um Sea Level Explorer, þar sem hægt er að skoða áhrif sjávarstöðubreytinga á hina ýmsu staði í heiminum. Síðast en ekki síst þá skrifaði Einar Sveinbjörnsson gestapistil vikunnar, sem fjallar um “Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals” og kunnum við honum þakkir fyrir.

  • Fréttir liðinnar viku

    Ritstjórnin hefur tekið ákvörðun um að útbúa vikuyfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rekumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta verða stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Við munum segja stuttlega frá innihaldi frétta og tengjum svo á þær, svo lesendur geti kynnt sér málið betur ef áhugi er á því. Þetta geta verið ýmsar fréttir sem við rekumst á, en skrifum ekki frekari um í undanfarinni viku. Einnig verður hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is.

    Stuttar fréttir:

    Flóð í Atlanta

    100 ára veður viðburðir eru veðurfyrirbæri sem er svo öfgakennd, að öllu jafna má aðeins búast við því að atburðurinn eigi sér stað einu sinni á hverri öld. T.d. getur þetta átt við um storma, mikla úrkomu og fleiri þess háttar atburði. Það er misjafnt eftir svæðum hvaða atburðir teljast 100 ára veður viðburðir. Í borginni Atlanta í fylkinu Georgíu í BNA, hefur verið fossandi rigning að undanförnu. Þetta er veðurviðburður sem hægt er að flokka sem 100 ára veður viðburð. En verða 100 ára veður viðburðir aðeins einu sinni á hverri öld? Í raun er verið að tala um líkur á að ákveðin atburður geti átt sér stað miðað við fyrri reynslu, en þeir geta í raun gerst með nokkura ára millibili þó slíkt sé mjög sjaldgæft. Sjá nánar frétt af vef Live Science.

    nile_sbsSökkvandi óshólmar er vandamál sem virðist vera að aukast á flestu þéttbýlustu svæðum heims. Hér er þó ekki hægt að kenna hlýnandi loftslagi um, en það gæti aftur aukið á vandan sem hækkandi sjávarstaða í framtíðinni getur valdið og gera svæði sem milljónir manna búa á í aukinni hættu vegna storma og flóða. Ástæðan er talin vera margs konar, meðal annars út af stíflum sem koma í veg fyrir frekari framburð fljótana og vegna aukinnar búsetu á þeim – sem eykur á þyngsli jarðlaganna. Einnig er dæling vatns úr jarðlögum undir óshólmanum líklegur orsakavaldur. Sjá nánar frétt á vef BBC.

    Mikið moldviðri var í Sydney fyrr í vikunni, en Einar Sveinbjörnsson fjallaði um það allvel. Einnig er góða umfjöllun að finna á vef BBC.

    Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:

    Laugardaginn 19. september opnaði síðan Loftslag.is formlega. Fyrsti gestapistillinn er eftir Halldór Björnsson og ber titilinn “Um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra“. Síðan hafa ýmsar fréttir birst í vikunni, m.a. um myndun íshellunnar á Suðurskautinu, hitastig sjávar í síðastliðnum ágústmánuði, um niðursveiflu í virkni sólar og um nýjar rannsóknir varðandi bráðnun í Grænlandsjökli fyrir 6000-9000 árum, svo einhver dæmi séu tekin. Fyrir utan bloggfærslur þær sem birtust á opnunardaginn, þá hefur Höskuldur bloggað um eldvirkni og loftslag. Síðast en ekki síst viljum við nefna gestapistil eftir Emil Hannes Valgeirsson, nefnist pistill hans “Er hafísinn á hverfanda hveli?“.

    Við viljum þakka gestapistlahöfundunum sérstaklega fyrir vandaða pistla. Við hlökkum til að afhjúpa næstu gestapistlahöfunda og gerum við ráð fyrir að birting gestapistla verði fastur liður á fimmtudögum.

  • Frétt: Jökulstraumur þynnist

    rannsókn á einum stærsta jökulstraumi heims (e. ice stream – þetta eru eins konar skriðjöklar, jökulstraumar úr jökulskjöldum) bendir til þess að bráðnunin á suðurskautinu sé dramatískari en áður hefur komið fram (sjá frétt).

    Um er að ræða gervihnattamælingar á Pine island jökli sem er á vestur Antartíku, sem sýna að yfirborð jökulsins er að lækka um allt að 16 m á ári. Frá 1994 hefur jökullinn þynnst um 90 m.

    Íshellan
    Íshellan

     

    Útreikningar á bráðnun jökulstraumsins sem gerðir voru fyrir 15 árum síðan bentu til þess að jökullinn myndi duga 600 ár í viðbót, en samkvæmt þessum nýju gögnum þá gæti hann verið horfinn eftir aðeins 100 ár. Bráðnunin er hröðust um miðbik straumsins, en það sem vekur mestar áhyggjur er ef það fer að hafa áhrif á jökulskjöldinn lengra inn á landi.

    Bráðnun jökulstraumsins sjálfs hefur ekki mikil áhrif á sjávarstöðubreytingar (sjá pælingar um Hækkun sjávarstöðu). Talið er að sú bráðnun skili sér í um 3ja sm hækkun sjávarstöðu. Jökulskjöldurinn sem liggur þar á bakvið gæti aftur á móti valdið 20-30 sm sjávarstöðuhækkun ef hann myndi einnig bráðna.

  • Frétt: Formleg opnun Loftslag.is

    IMG_4140-1Loftslag.is er verkefni sem við í ritstjórninni höfum unnið að síðustu vikurnar af miklu atgervi. Við vonumst til þess að Loftslag.is  muni verða mikilvæg uppspretta upplýsinga fyrir almenning, sem vill kynna sér ýmislegt varðandi loftslagmál. Á síðunum verða sagðar fréttir úr heimi loftslagsvísindanna, einnig mun blogg ritstjórnar verða áberandi. Við höfum verið og erum að setja okkur í samband við fólk sem hefur til að bera þekkingu á þessum málum, bæði sérfræðinga og áhugafólk um efnið. Gestapistlar verða því reglulegir hér á síðunum, u.þ.b. einn pistill í viku. Heiti reiturinn er hugsaður sem vettvangur fyrir málefni sem ekki heyra til sem fréttir, hér geta komið innskot um fróðlegar umræður og tenglar á myndbönd sem okkur þykja fróðleg svo dæmi séu tekin. Heiti reiturinn verður opin fyrir allskyns efni sem ritstjórn þykir fróðlegt í umræðunni sem og léttmeti af ýmsum toga.

    Hornsteinn þessarar síðu eru Vísindin á bakvið fræðin. Þar verður komið inn á sögu loftslagsvísindanna, grunnkenningarnar, afleiðingar, lausnir o.fl. sem viðkemur fræðunum. Skoðanaskipti í athugasemdakerfinu munu ef að líkum lætur gera vefinn lifandi, þar sem fólk getur varpað fram skoðunum á málefnalegan hátt.

    19. september var valinn sem opnunardagur vefsins, þar sem útreikningar ritstjórnar sýndu að þá væru 55.000 dagar síðan Svante Arrhenius fæddis. Arrhenius var sænskur vísindamaður, sem var einn sá fyrsti til að gera útreikninga á því hvað aukin styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu hefði mikil áhrif á hitastig. Samkvæmt hans útreikningum áætlaði hann að við tvöföldun koldíoxíðs í andrúmsloftinu myndi hitastig hækka um 5-6°C, síðar lækkaði hann mat sitt, sama tala hjá IPCC er á bilinu 2-4,5°C.  Hann fæddist þann 19. febrúar árið 1859 og dó 2. október 1927.

    Svante Arrhenius, þriðji frá vinstri í efri röð
    Svante Arrhenius, þriðji frá vinstri í efri röð
  • Frétt: Jarðvísindamenn senda hvatningu til Kaupmannahafnar

    Ráðstefna um bindingu koldíoxíðs í jarðlögum

    Jarðvísindamenn sem voru á 2ja daga ráðstefnu hér á landi um bindingu koldíoxíðs í jarðlögum, sendu hvatningu á ráðstefnu um loftslagsmál í Kaupmannahöfn. Ráðstefnuna munu helstu leiðtogar heims sitja og ræða loftslagsmál og lausnir þar að lútandi. Jarðvísindamennirnir sem sátu ráðstefnuna hér á landi vilja að lagt verði meiri áhersla á að fjarlægja og binda kolefni í jarðlögum, sem mótvægisaðgerð við hlýnun jarðar. Vísindamennirnir telja að þetta eigi að vera ein þeirra leiða sem farin verður til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

    „Við erum í vandræðum með CO2,“ sagði Wallace Broecker, sérfræðingur í loftslagsmálum við Columbia Háskóla í Bandaríkjunum. „Það er mun ódýrara að mæta þeim vandræðum nú en láta þau reka á reiðanum og mæta afleiðingum hlýnunar jarðar síðar“.

    CarbFix

    Rannsóknarverkefni sem miða að því að fanga kolefni voru kynnt á ráðstefnunni. CarbFix verkefnið sem er íslenskt rannsóknarverkefni sem OR hefur tekið þátt í var kynnt sérstaklega. CarbFix verkefnið kannar möguleika á því að binda CO2 sem karbónasteind í basalti. Talið er að möguleikar CarbFix felist m.a. í þvi að hraða náttúrulegu ferli kolefnisbindingar með því að binda kolefnið sem steind í jarðlögum.

    Nú þegar hafa verið þróðar nokkrar leiðir til að geyma kolefni. M.a. hefur olíurisinn Statoil Hydro gert tilraunir og dælt meira en 11 milljón tonnum af CO2 djúpt undir Norðursjó síðan 1996. Tore Torp sérfræðingu Statoil Hydro kynnti m.a. þessar aðferðir á ráðstefnunni.

    Ein af þeim aðferðum sem mikið hefur verið litið til, er sú að fanga útblástur CO2 t.d. beint frá orkuverum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Á ráðstefnunni voru ræddir fleiri möguleikar. M.a. notkun gervi trjáa sem draga í  sig kolefni úr andrúmsloftinu. Það má því segja að það séu margar aðferðir í skoðun varðandi það að fanga CO2 úr andrúmsloftinu.

    Talið er að kostnaðurinn sem hlýst af hlýnun jarðar muni verða meiri eftir því sem lengra líður án aðgerða. Það þarf því að hvetja ráðamenn til að auka fjárveitingar í kolefnisbindingar. Þetta er m.a. það sem fram kom í máli Wallace Broecker í erindi á ráðstefnunni.

    hellisheidi
    Frá Hellisheiðarvirkjun

    CarbFix verkefnið er að kanna hvort hægt sé að draga úr losun CO2 beint frá uppsprettum CO2, eins og t.d. frá Hellisheiðarvirkjun. Kolefninu væri því dælt niður í jarðlögin sem kolsýrðu vatni, t.d. niður í hraunlögin á Hellisheiði. Efnahvörf við málmjónir í basaltberginu mun eiga sér stað sem með tímanum myndast karbónasteindir. Þetta er náttúrulegt ferli sem með aðferðum þeim sem notaðar eru í CarbFix verkefninu verður hraðað. Grannt er fylgst með þessum tilraunum hér á landi víða um heim, þar sem hún miðar að því að binda CO2 með varanlegri hætti en gerlegt hefur verið hingað til.