Við viljum vekja athygli á áhugaverðri dagskrá sem er í tengslum við Dag Jarðar og félagasamtökin Grænn Apríl standa fyrir, í Háskólabíói þann 21.apríl en dagskrá hefst klukkan 15:
Þema dagsins er „Birting loftslagsbreytinga“ og um það verður fjallað í stuttum fyrirlestrum af okkar færustu vísindamönnum.
Fyrirlesarar eru:
Dr. Tómas Jóhannesson, Jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands – Áhrif loftslagsbreytinga á veðurfar.
Dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Áhrif loftslagsbreytinga á jökla og hækkun sjávarstöðu.
Dr. Bjarni Diðrik Sigurðarson, prófessor og brautarstjóri skógfræði og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands – Skógar og loftslagsbreytingar: hver er tengingin?
Dr. Jón Ólafsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Súrnun sjávar.
Dr.Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Verndun jarðvegs.
Dr. Harald J. Sverdrup, verkfræðingur og Frumkvöðull Ársins 2012 í Noregi – Tenging auðlinda og auðs.
Inn á milli fyrirlestra verða sýnd myndbönd þar sem spurt er; “Hvað er smart við að vera umhverfisvænn?” ásamt myndasýningu Gunnars V. Andréssonar, ljósmyndara af náttúruperlum Íslands.
Auk þess mun tónlistarfólkið Torgeir Vassvik, Friðrik Karlsson og Íris Lind Verudóttir koma fram.
Dagskrá hefst klukkan 15:00. Miðaverð í forsölu til 19.apríl er (miði.is) 990 krónur eftir það 1.290 krónur. Allur ágóði af viðburðinum rennur til skógræktarátaksins APRÍLSKÓGAR 2013.
Það eru félagasamtökin Grænn Apríl sem standa fyrir Degi Jarðar 2013
Loftslagsbreytingar af mannavöldum virðast geta orðið að kosningamáli í kosningunum þann 27. apríl. Það má m.a. nefna ólgusjó Pírata undanfarna daga svo og fróðlegan spurningalista guðfræðinga sem sendur hefur verið til allra framboða. Spurningalistinn fjallar m.a. um loftslagsmálin.
Efsti maður Pírata í Reykjavík Suður (Jón Þór Ólafsson) hefur fullyrt opinberlega um fals og svik vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum, sjá m.a. frétt á DV, Pírati efast um loftslagsbreytingar af manna völdum. Það er athyglisvert að í athugasemdum við frétt DV hafa nokkrir Píratar tekið til máls og það er ekki að sjá að þau telji nokkuð rangt í skoðunum Jóns Þórs og þau velja að verja frelsi hans til að segja sína skoðun – sem honum er að sjálf sögðu velkomið. Jón Þór hefur sjálfur undirstrikað skoðanir sínar um fals vísindamanna í athugasemdum, þannig að það virðist vera hægt að slá því föstu að hann telji enn að loftslagsvísindi séu byggð á fölsunum og svindli. Þó það sé skýr réttur manna að hafa skoðanir, þá fylgir því þó ábyrgð og sú ábyrgð er í samræmi við stefnu Pírata – hinn svokallaða Píratakóða – þar sem eftifarandi kemur fram:
Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.
Ég vona að Píratar hafi þor og siðferðilegt hugreki til í að axla þá ábyrgð sem þessu frelsi fylgir. Það er ekki hægt að saka heila vísindagrein um fals og svindl án þess að fótur sé fyrir því og vilja svo ekki taka andsvörun upp á málefnalegan hátt – þau andsvör verða Píratar að taka á. Annað sem kemur fram í Píratakóðanum er:
Píratar eru fróðleiksþyrstir
Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað.
Gott mál – það er hægt að styðja þetta – en að sjálfsögðu gefur þetta ekki opið veiðleyfi á vísindalegar niðurstöður sem ekki eru í takt við persónulegar skoðanir einstaklinga. Hitt er annað mál að það má kannski spyrja sig hvenær aðgengi að upplýsingum sé ótakmarkað – til að mynda er nánast allt efni varðandi vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar af mannavöldum aðgengilegt í einhverju formi á einn eða annan hátt. Það má segja að það megi nú orðið finna allar þær “upplýsingar” sem fólk vill nálgast, til að mynda með því að gúgla á netinu – það á ekki síður við um hluti sem ekki standast skoðun. Það mætti því kannski bæta því við í Píratakóðann að vísindaniðurstöður (og fleiri niðustöður) eigi að byggja á gæðum og góðum rannsóknum, en ekki einhverju “kukl gúgli” einstaklinga eða persónulega lituðum skoðunum. Píratapartýið þarf að sjálfsögðu að þola að taka gagnrýni á skoðanir frambjóðenda og flokksins – sama gildir aðra flokka. Það fylgir því nefnilega ábyrgð að setja fram samsæriskenningar eins og Jón Þór gerir og það er komin tími til að hann læri af mistökum sínum, eða eins og Píratar velja að orða það í Píratakóðanum “Píratar læra af mistökum sínum.”
Hitt er annað mál að Píratar eru svo sem ekki einu stjórnmálasamtökin sem hafa innan sinna raða fólk sem afneitar loftslagsbreytingum af mannavöldum – sjá til að mynda Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar hér á loftlsag.is. Fólk innan raða Sjálfstæðismanna (til að nefna nærtækt dæmi) hafa einnig sett fram háværar efasemdir og það er ekki eitt orð um loftslagsmálin á kosningasíðu þeirra.
Á Facebook má finna hópinn Guðfræðingar krefjast svara, þar sem hópur 5 guðfræðinga hafa tekið sig saman og sent fyrirspurn til framboðanna varðandi orkumál, loftslagsmál og flóttamannamál. Þetta eru allt málefni sem verða ofarlega á döfunni á næstu árum og áratugum, en þó alls ekki sjálfgefið að stjórnmálamenn hafi forgangsraðað því ofarlega á lista kosningaloforða í ár. Vinstri Græn, Dögun og Björt Framtíð hafa nú þegar svarað guðfræðingunum – svörin má lesa í tenglunum. Önnur framboð hafa enn sem komið er ekki svarað. Það verður fróðlegt að fá svör frá fleiri stjórnmálaöflum á spurningum guðfræðinganna og vonandi sjá Píratar sér líka fært að svar, enda er spurningalistinn allrar athygli verður og fróðlegur (sama hvaða trúarlegu skoðanir fólk kann að hafa). Við hvetjum framboðin til að svara spurningalista guðfræðinganna.
Umhverfisverndarsamtök á Íslandi hafa einnig spurt framboðin um megináherslur í umhverfismálum fyrir kosningarnar 2013 – svörin má finna á YouTube-vefnum xUmhverfisvernd – þar sem 9 framboð hafa þegar svarað og er það vel að framboðin skýri sína stefnu – hver sem hún kann að vera.
Margir kannast við hokkíkylfuna klassísku, en nýjasta heildarmyndin er nokkuð umfangsmeiri en sú mynd og hefur fengið viðurnefnið hjólastóllinn.
Sú mynd sýnir áætlað hitastig frá því á síðasta kuldaskeiði ísaldar, fyrir um 22 þúsund árum, allan nútíma og fram til loka þessarar aldar sem nú er hafin (til 2100).
Mynd 1: Áætlað hnattrænt hitafrávik á síðasta kuldaskeiði ísaldar Shakun o.fl. 2012 (græn lína), hitastig á nútíma Marcott o.fl. 2013 (blá lína), ásamt hnattrænum hita síðastliðna rúma öld samkvæmt HadCRUT4 (rauð lína) og áætlað hitastig samkvæmt IPCC sviðsmynd A1B fram til ársins 2100 (appelsínugul lína).
Helsta nýjungin í þessu línuriti er bláa línan, en fyrr í þessum mánuði kom út grein í Science eftir Marcott o.fl. (2013) þar sem höfundar taka saman gögn frá 73 svæðum sem dreifð eru um jörðina og þykja saman gefa góða vísbendingu um breytingu á hitastigi síðastliðin 11 þúsund ára. Þar er um að ræða fyrstu almennilegu tilraunina til að taka saman hitagögn fyrir allan nútíma (e. holocene). Það línurit er því besta nálgun sem við höfum nú um þróun hitastigs á jörðunni, á nútíma. Línuritið endar um miðja síðustu öld og sýnir því glögglega hvernig hitastigið hækkar eftir 1850:
Mynd 2: Hitafrávik samkvæmt Marcott o.fl. 2013 (síðastliðin 11 þúsund ár) og ýmsar rannsóknir teknar saman af Mann o.fl. 2008 (síðastliðin 1800 ár), sjá einnig hér.
Þessi mynd ætti ekki að koma áhugafólki um loftslagsmál á óvart, því til hefur verið mynd sem sýnir samskonar þróun í hitastigi og oft er vísað til. Hér má sjá þá ágætu mynd sem sýnir samanburð milli þessara tveggja línurita:
Mynd 3: Hnattrænt hitastig frá Global Warming Art, með meðalhitafrávik í svörtu, ásamt Marcott o.fl. 2013 í rauðu.
Samkvæmt rannsókn Marcott og félaga þá er jörðin að hlýna hratt, jarðsögulega séð – hins vegar vara höfundar við að upplausn gagnanna grípi ekki vel fyrri sveiflur, sérstaklega ekki ef þær hafa varað stutt, þannig að ekki er hægt að útiloka að yfir önnur tímabil hafi hitastig breyst jafn hratt og nú. Samkvæmt línuriti þeirra þá reis hitastig upp í hæstu hæðir fyrir um 7 þúsund árum síðan, en eftir það lækkaði það smám saman. Þessi breyting er í takti við breytingar í sveiflum í möndulhalla halla og fjarlægð jarðarinnar frá sólu – svokallaðrar Milankowitch sveiflu (sjá t.d. hér).
Eftir 1850 eru áhrif losunar manna á gróðurhúsalofttegundum orðin greinileg á mynd Marcott og félaga.
Jarðsöguleg tímabil hafa upphaf og endi. Ef skoðað er fyrrnefnt línurit, þá má segja að hafið sé nýtt tímabil í jarðsögunni og að það hafi byrjað um 1850. Áður hafa komið fram tillögur um að kalla slíkt tímabil Anthropocene (mannskepnuskeiðið samkvæmt tillögu Trausta Jónsonar Veðurfræðings).
Ef við lítum aftur á mynd 1 í byrjun þessarar færslu, þá má sjá að mannkynið er að búa til nýjan heim, heim með loftslagi sem samfélög manna hafa ekki þurft að glíma við áður. Miðað við stöðuna í dag, þá lítur ekki út fyrir að þjóðir heims ætli, né vilji taka á þeim vanda sem við blasir. Til þess þarf festu, en einnig hugrekki til að standast þær freistingar sem skammtímagróði vekur og skynsemi til að sjá kostnaðinn sem þessar athafnir manna munu valda til framtíðar.
Á kvikmyndahátíðinni RIFF á síðasta ári, mátti sjá fróðlega mynd sem tengist loftslagsmálum. Á eftir ísnum (Chasing ice) er mynd leikstjórans Jeff Orlowski. Í myndinni er með hjálp ljósmyndatækni ljósmyndarans James Balog skoðað hvernig jöklar og ísbreiður breytast við hækkandi hitastig. Við höfum áður skrifað um James Balog á loftslag.is, sjá Ted | Myndskeið af hreyfingu jökla.
Á eftir ísnum verður sýnd aftur þann 20. mars á Háskólatorgi, HÍ, stofu 105, kl. 20. Sjá nánari umfjöllun um sýningu myndarinnar þann 20. mars á natturuvernd.is. Við loftslags ritstjórarnir ætlum að skunda á Háskólatorgið og sjá þessa fróðlegu heimildarmynd.
Umfjöllun af vef RIFF:
Ljósmyndarinn James Balog var efins um gróðurhúsaáhrifin þegar hann hélt á norðurpólinn til að mynda ísbreiðuna þar fyrir sjö árum. Í dag er hann eldheitur baráttumaður gegn hlýnun andrúmsloftsins. Með aðstoð ljósmyndatækninnar sýna Balog og Orlowski okkur jökla hopa á örfáum mánuðum og heilu ísfjöllin hreinlega gufa upp svo áhorfandinn situr gapandi eftir. Á eftir ísnum er óyggjandi – en gullfalleg – sönnun þess að andrúmsloft jarðar breytist með leifturhraða.
Um leikstjórann
Jeff Orlowski lauk námi frá Stanford háskóla og hefur unnið til verðlauna sem leikstjóri og kvikmyndatökumaður. Hann er hluti af Extreme Ice Survey verkefninu sem ljósmyndarinn James Balog kom á laggirnar til að rannsaka jökulhop með því að nota yfir 300 klukkustundir af efni. Verk Orlowski hafa m.a. verið sýnd á NBC, CNN, PBS og National Geographic Channel.
Reglulega koma upp fullyrðingar um hik í hnatthlýnuninni (stundum er talað um kólnun) eða aðrar vafasamar fullyrðingar sem byggja á sérvali gagna og þess að hunsa heildarmyndina með innantómum staðhæfingum. Stundum koma líka fram getgátur sem virðast eiga sér órökstuddar stoðir í huglægri óskhyggju sem einu uppistöðuna.
Þarna ægir saman mörgum línuritum í einni mynd og erfitt að sjá hvað er hvað – það má kannski segja að UAH gagnaröðin sé einna mest áberandi á þessari mynd (þó það sé ómögulegt að segja til um það í þessu spaghettígrafi). Svarta línan sýnir 37 mánaða (um þrjú ár) meðaltal hitastigsins (sennilega reiknað út frá meðaltali allra gagnasettanna – þó ekki komi það fram sérstaklega). Reyndar má segja sem svo að það val á útreikningi meðaltalsins dragi verulega úr öllum sveiflum og geti jafnvel falið hækkun (eða lækkun) hitastigs til skemmri tíma, enda sveiflast hitastig á milli ára og með þessu vali verða þær sveiflur vel faldar þegar til skamms tíma er litið – t.d. þegar líta á til fullyrðinga um hik í hnatthlýnun síðustu 10 árin sem færsla Ágústar fjallar óneitanlega um. Til dæmis má nefna að bæði árin 2005 og 2010 eru ein heitustu ár frá upphafi mælinga samkvæmt einhverjum gagnasettum – en það sést ekki á myndinni. Út frá þessari mynd fullyrðir hann svo um 10 ára hik í hnattrænni hlýnun án þess að hika hið minnsta.
Þess ber að geta að það hefur svo sem aldrei verið fullyrt um það af nokkrum sem vill láta taka sig alvarlega í þessari umræðu að það geti ekki hægt á hlýnuninni eða hún jafnvel hætt til skemmri tíma (nokkur ár og jafnvel yfir áratug), enda munu náttúrulegar sveiflur alltaf vera til staðar og þær hafa áhrif á þróun mála (sjá t.d. umfjöllun realclimate.org sem lesa má um hér neðar). En það er þó vert að minna á að sérval gagna eins og þessi 10 ár, sem samkvæmt hans fullyrðingum eiga að styðja það að það sé hik í hnattrænni hlýnun, er ekki talin góð latína – betra að skoða lengri tíma og skoða samband við önnur gögn og einnig að nota meðaltal sem gefur einhverja meiningu. Það er til að mynda staðreynd að það er of skammur tími til að fullyrða eitthvað um hik í hnattrænni hlýnun að benda á sérvalinn tímabil og sérvalin útreikning á meðaltali til að sýna fram á hik í hnatthlýnun á 10 árum – ekki einu sinni 15 ár eru nægilega langur tími til þess að fullyrða óyggjandi um breytingu hitastigs. Betra er að skoða heildardæmið og það til lengri tíma svo það gefi einhverja raunverulega meiningu. Til að mynda er gott að velta fyrir sér hvað gæti hafa orðið af hlýnuninni (sjá svar nánar neðar í pistlinum) og líka þarf að hafa í huga náttúrulegar sveiflur. Ágúst nefnir að hluta til sveiflur í eftirfarandi þremur liðum sem hann tiltekur, 1. ytri þættir (t.d. sólin), 2. innri þættir (t.d. hafstraumar) og svo 3. koltvísýringur – og svo klikkir hann út með eftirfarandi:
Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja. Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur…
[Heimild – Ágúst H. Bjarnason]
Hann telur s.s. að það sé ómögulegt að segja eitthvað til um þessa þætti og setur svo fram þessa órökstuddu ágiskun (fínt að vita að hún er órökstudd með öllu – og það er þakkar vert að hann heldur því til haga fyrir lesandann). Þessi órökstudda ágiskun er í anda við ályktanir þeirra sem afneita loftslagsvísindum – s.s. þeirra sem afneita því að koldíoxíð hafi að miklum hluta valdið hlýnuninni síðustu áratugina. Svo lætur hann eins og þessir þættir hafi ekkert verið skoðaðir af vísindamönnum almennt og þ.a.l. sé í lagi hjá honum að koma fram með sína órökstuddu ágiskun. Í eftirfarandi grafi má sjá muninn á því hvernig “efasemdamenn” og svo við raunsæismennirnir (“alarmistar” í huga sumra) sjáum hnatthlýnunina:
Þetta er endurtekið efni hjá Ágústi, sem einnig kemur oft beint eða óbeint frá erlendum “efasemdasíðum”, sjá t.d. Brrr – Enn kólnar í heimi hér…, Gervihnattamæling á hitastigi sýnir kólnun í október… og svo Hvers vegna hefur hnatthlýnunin staðið í stað það sem af er þessari öld…? svo fátt eitt sé nefnt úr safni Ágústar í gegnum árin. Svona til að benda á það, þá er að sjálfsögðu gefið leyfi í athugasemdum til að skjóta á hina svokölluðu “alarmista”. En “alarmistar” í huga “efasemdamanna” eru til að mynda menn eins og við hér á loftslag.is sem teljum að loftslagsvísindi hafi með vísindalegum aðferðum sett fram sönnunargögn varðandi það hvernig manngerð aukning gróðurhúsalofttegunda veldur hlýnun jarðar og mun halda áfram að gera það á næstu áratugum og árhundruðum ef ekkert verður að gert. Þessar upplýsingar virðast hræða einhvern hóp “efasemdamanna” það mikið að þeir kalla það hræðsluáróður. En það virðist vera viðtekið hjá honum að það sé sjálfsagt mál að fullyrða um hina svokölluðu “alarmista” og hann birtir því oft á tíðum þess háttar ómálefnalegar athugasemdir – þrátt fyrir ritstjórnar reglur hans segi til um annað. Þess ber þó líka að geta að hann hefur leyft þeim Brynjólfi Þorvarðssyni og Emil Hannes Valgeirssyni að koma með gagnmerkar og málefnalegar athugasemdir – þannig að ekki er þetta allt á einn veginn, svo því sé til haga haldið. Í athugasemd við færsluna (svar til Emils) kemur Ágúst inn á þátt koldíoxíðs og segir m.a. eftirfarandi:
Þetta er sá þáttur sem mestu púðri hefur verið eytt í. Menn eru almennt sammála um að hver tvöföldun á styrk CO2 valdi hækkun hitastigs um 1,1°C EF ekkert annað kemur til. Þetta “annað” er til dæmis rakastig loftsins og skýjafar. Hér kemur til hugtakið sem kallast feedback á enskri tungu en ég hef vanist að nefna afturverkun. Það er með hjálp þessarar afturverkunar sem sumir álíta að hækkun hitastigs geti magnast jafnvel þrefalt og verið þá 3°C fyrir hverja tvöföldun í styrk CO2.
Hér deila menn hart og mikið. Sumir telja þessi áhrif mun minni, og þeir eru til sem álíta að afturverkunin magni ekki upp heldur dragi úr hitahækkun. Þessu hef ég gaman af því hér er ég á heimavelli, en ég kenndi reglunartækni (Feedback and control systems) í nokkur ár við HÍ. Til að kynnast hvað liggur að baki þessara fræða þar sem allt snýst um afturverkun eða feedbak er kjörið að skoða þetta skjal frá HR: Prófdæmi. Hér er mikil stærðfræði notuð. Einnig má skoða smá ágrip á síðu Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Control_theory
Ég hef grun um að margir þeirra sem fjalla um afturverkun í loftslagsfræðum mættu gjarnan kunna meira fyrir sér í þessum fræðum þar sem fjallað er um afturverkun, stöðugleika kerfa, o.m.fl., því stundum verður umfjöllunin dálítið skrautleg.
Jæja, ég ætlaði ekki að hafa þetta svona langt, en þetta eru vissulega skemmtileg fræði og áhugaverð, sérstaklega vegna þess að þau eru ekki beinlínis einföld og auðskilin. Það er auðvelt að gleyma sér.
[Heimild – Ágúst H. Bjarnason]
Þarna beinlínis dregur Ágúst fram sínar “efasemdir” um kunnáttu loftslagsvísindamanna í ákveðnum fræðum sem hann telur sig hafa mikinn skilning á, vegna þess að hann hefur kynnt sér hvernig ákveðnir þættir virka innan verkfræðinnar út frá stærðfræði á blaði. Hann myndi sjálfsagt ekki vera sáttur við það að sérfræðingar í t.a.m. tannlækningum myndu segja honum til verka í verkfræði vinnunni sinni – enda gæti það farið illa í sambandi við ýmsa hönnun og útreikninga. Samt telur hann sjálfsagt að fullyrða um loftslagsfræðin út frá sinni sérfræðiþekkingu á reglunartækni…merkilegt nokk. Reyndar ber þess að geta að það er ekki deilt mjög hart á þessi fræði eins og Ágúst fullyrðir, allavega ekki á meðal breiðs hóps vísindamanna og allavega ekki á þann veg að það breyti heildardæminu að nokkru ráði – Heildarmyndin er sú staðreynd að jörðin er að hlýna af mannavöldum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Á loftslag.is má t.d. lesa nánar um jafnvægissvörun loftslags sem virðist vera sá hluti sem Ágúst hefur miklar “efasemdir” um í athugasemd sinni og líka Mælingar staðfesta kenninguna.
Á realclimate.org var fjallað um náttúrulegar sveiflur og hvernig þær hafa áhrif á þróun hitastigs, sjá til að mynda eftirfarandi mynd þar sem reynt er að fjarlægja áhrif ENSO sem er sterkasta náttúrulega sveiflan til skemmri tíma og hefur verið í La Nina fasa (sem hefur almennt áhrif til kaldari hitastigs á heimsvísu) lengst af á þessari öld:
Annað sem maður þarf að spyrja sig að, ef maður vill skoða hugsanlegt hik í hnatthlýnun, er hvort að það finnist einhver mælanleg stærð þar sem finna má hlýnunina (ef hún skyldi nú vera týnd í huga einhvers). Og eins og m.a. Brynjólfur bendir á í athugasemdum hjá Ágústi þá má finna þær þekktu mælingar í hafinu, eins og sjá má á eftirfarandi mynd, þá fer yfir 90% af hlýnuninni í hafið:
Og svo má spyrja sig hvernig sú þróun hafi orðið…sem er væntanlega gagnleg spurning þegar þessi mál eru skoðuð. Eins og sjá má á eftirfarandi mynd þá hækkar varma innihald hafsins:
Og sjá – hnattræna hlýnunin er fundin, ekki það að hún hafi nokkurn tíma verið týnd í huga annarra en sjálfskipaðra “efasemdamanna” með órökstuddum tilgátum sem liggja langt fyrir utan sérsvið þeirra. Sjá t.d. nánar um svipað mál á SkepticalScience.com – Did Murdoch’s The Australian Misrepresent IPCC Chair Pachauri on Global Warming?
Nú er talið líklegt að hækkun hitastigs um 1,5°C, geti leit til aukalosunar á meira en eitt þúsund gígatonnum af CO2 og metani, samkvæmt nýrri grein sem byggir á rannsóknum á frosnum hellum í Síberíu. Þessar gróðurhúsalofttegundir eru taldar geta losnað úr núverandi sífrera Síberíu og hraðað hinni hnattrænu hlýnun jarðar.
Rannsakaðir voru dropasteinar í ísköldum hellum Síberíu, en dropasteinar vaxa eingöngu þegar regn- og leysingarvatn lekur inn í hellana. Þeir sýna því ákveðinn breytileika í loftslagi í Síberíu síðastliðin 500 þúsund ár og þar með vísbendingu um þróun sífrerans.
Samkvæmt niðurstöðu vísindamannanna þá benda gögnin til þess að fyrir um 400 þúsund árum hafi verið óvenju hlýtt tímabil. Vísbendingar benda ennfremur til þess að hækkun hitastigs um 1,5°C miðað við núverandi hita, myndi hleypa af stað keðjuverkun þiðnunar sífrera langt norðurfyrir syðstu mörk hans nú. Sífreri er um 24% af yfirborði Norðurhvels jarðar og því er um töluvert magn að ræða í losun CO2 og metans ef sífrerinn þiðnar í miklu magni.
Þessi aukna þiðnun sífrerans þýðir ennfremur mikil jarðtæknileg vandamál við vegagerð, járnbrautagerð og við viðhald olíu og gasleiðsla um sífrerann.
Við á loftslag.is viljum minna á nokkur áhugaverð erindi sem eru í boði á næstu dögum. Fyrst er að nefna ráðstefnu með fjölbreyttum erindum:
Hafrannsóknastofnun stendur fyrir ráðstefnu um “Veðurfar og lífríki sjávar á Íslandsmiðum” í fyrirlestrasal stofnunarinnar, Skúlagötu 4, 1. hæð, fimmtudaginn 21. febrúar 2013 frá 9 – 16.
Ráðstefnan er öllum opin.
Veðurfar og breytileiki hefur mikil áhrif á ástand sjávar, lífsskilyrði í sjónum og göngur og stærð fiskistofna á Íslandsmiðum. Hlýviðrisskeið var hér við land á árunum 1925-1945, kuldaskeið frá 1965-1971 og frá árinu 1996 hefur verið hlýviðrisskeið. Á þessum tímabilum hafa einnig orðið verulegar breytingar á vistkerfi sjávar við Ísland.
Nýlegar breytingar á sjávarhita og seltu hafa haft áhrif á allt vistkerfið frá svifi til fiska og spendýra. Sum bein áhrif veðurfarsbreytinga á lífríki hafsins eru þannig nú þegar merkjanleg en önnur þarf að greina betur með auknum rannsóknum og líkanagerð.
Á ráðstefnunni verða flutt 12 erindi um áhrif veðurfars á lífríki sjávar á Íslandsmiðum. Dagskrána og ágrip erinda má finna á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar hér
Þá er áhugavert föstudagserindi Jarðvísindastofnunar og Norvulk:
Föstudagur, 22. febrúar kl. 12:20 – Guðfinna Aðalgeirsdóttir: “Challenges in modelling the future of the Greenland Ice sheet”
Hin ameríski húmoristi og samfélagsrýnir Stephen Colbert tekur frumlegan snúning á loftslagsmálunum og afneituninni í þætti sínum The Colbert Report, sjá myndband:
Árið 2012 var ár öfga, en öfgar aukast með hækkandi hitastigi. Árið í ár var það níunda heitasta frá upphafi mælinga samkvæmt NASA GISS, en öll þau ár hafa orðið eftir 1998 (það ár meðtalið). Hnattrænt hitafrávik árið 2012 var +0,56°C miðað við viðmiðunartímabilið 1951-1980 – þrátt fyrir sterk La Nina áhrif.
Hnattrænt hitafrávik samkvæmt NASA GISS. Á myndinni má sjá helstu áhrifavalda náttúrulegra sveifla í hitastigi, þ.e. eldgos (grænt) og ENSO (blár og kaldur La Nina fasi og appelsínugulur og hlýr El Nino fasi).
Ein helsta ástæða þess að ekki var sett hitamet á síðasta ári er sú að Kyrrahafssveiflan (ENSO) var í La Nina fasa, en sú sveifla hefur kælandi áhrif á hnattrænan hita. Því er talið víst að við næstu El Nino sveiflu þá verði sett hitamet, því nokkur hitaaukning er í pípunum, sem náttúrulegar sveiflur hafa deyft undanfarin ár.
Öfgahitar
Þessi áframhaldandi hái hiti hefur orðið til að auka tíðni öfgaveðurs og þá sérstaklega óvenjumikinn hita víða um heim, eins og sjá má á þessari fróðlegu hreyfimynd sem sýnir í lokin hitafrávik 2012:
Fyrir nokkrum dögum kom út grein sem virðist staðfesta áhrif hækkunar hnattræns hita af mannavöldum á öfgahita, en vísindamenn frá Potsdam stofnuninni komust að þeirri niðurstöðu að það hafi orðið fimmföld meiri aukning í metmánuðum hnattrænt, en væri ef engin áhrif væru af mannavöldum (Coumou o.fl.2013). Sú niðurstaða er byggð á 131 ári mánaðarmeðaltala á yfir 12 þúsund mælistöðum víðs vegar um heim. Gögnin sýna einnig náttúrulegar sveiflur, líkt og hitamet El Nino ára, en niðurstaðan er sú að náttúrulegar sveiflur hafi ekki úrslitaáhrif á heildarfjölda meta.
Breytingar á fjölda meta eftir tímaás (þunn rauð lína sýnir fjölda meta, þykka rauða línan fimm ára meðaltal). Spágildi líkansins sem þeir nota er sýnt með bláu (ljósblár skuggi er frávik). (Mynd PODSDAM)
Samkvæmt rannsókninni þá má búast við að eftir 30 ár, þá verði mánaðarleg hitamet um 12 sinnum algengari en án aukningar í hnattrænum hita af mannavöldum.
Hnatthitaspámeistarinn 2012
Undanfarin ár höfum við notað áramótin til að spá fyrir um komandi hitafrávik og höfum við notað NASA GISS sem viðmiðun. Í fyrra voru bara þrír sem treystu sér í að spá fyrir um 2012. Árið 2011 hafði endað í +0,51 og einn spáði lítilsháttar kólnun árið 2012, einn lítilsháttar hlýnun og einn aðeins meiri hlýnun.
Niðurstaðan árið 2012 var síðan hitafrávik upp á +0,56°C. Því er ljóst að enginn er með nákvæma tölu en einn er þó lygilega nálægt endanlegri niðurstöðu. Í þriðja sæti er Emil Hannes, en hann var -0,08°C fjarri lagi, í öðru sæti er Höskuldur Búi sem var +0,05°C frá endanlegri niðurstöðu en Sveinn Atli er engöngu -0,03°C frá hitafráviki ársins 2012.
Sveinn Atli er því hér með krýndur sem hnatthitaspámeistari ársins 2012.
Þess ber að geta að enginn af þeim sem spá mikilli hnattrænni kólnun (þvert á það sem vísindamenn segja) treysti sér til að taka þátt í spánni – en líklega hefði þannig spá ekki verið vænleg til árangurs.
Horfur 2013?
Sá sem þetta skrifar endar þessar áramótayfirlitsgreinar á því að fabúlera sjálfur um næsta ár og hvetja aðra til að taka þátt, enda er þetta einungis til skemmtunar og umræðu. Við munum áfram notast við NASA GISS hitaröðina.
Nú hafa komið tvö ár í röð með köldum fingraförum La Nina á sér (þ.e. köld sveifla) en samt hefur hitastig haldist nokkuð hátt – því tel ég líklegt að á næsta ári verði hitastig hærra en undanfarin tvö ár. Í fyrra reiknaði ég með því að náttúrulega sveiflan í ENSO myndi færast yfir í hlutlausan fasa og því reiknaði ég með að sú sveifla myndi skila +0,05°C hærra fráviki. Ég held mig við það miðað við þetta ár.
Mér finnst líklegt að sveiflur í sólinni verði litlar og skili sér í hvorki hlýnun né kólnun.
Eins er með eldvirkni eins og í fyrra og hitteðfyrra:
Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.
Ég ætla áfram að veðja á að hlýnunin af völdum gróðurhúsalofttegunda sé um +0,03°C.
Ef lagt er saman hitafrávik ársins 2012 (0,56°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,03°C), sólvirkni (enigin hlýnun nú) og ENSO (mögulega +0,05°C að þessu sinni), þá fæst um +0,64°C, en það yrði þriðja heitasta árið samkvæmt NASA GISS frá upphafi mælinga – en einungis árið 2005 (+0,65°C) og 2010 (+0,66°C) hafa hærri frávik. Það skal tekið fram eins og í fyrra að ef ENSO sveiflan fer á árinu upp í sterkan El Nino fasa, þá má búast við heitasta árinu frá upphafi mælinga – en hér er því samt ekki spáð.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari árið 2013?
Það er ekki óalgengt að fram séu settar “efasemdir” um loftslagsvísindin á opinberum vettvangi eins og til að mynda á vef- og fjölmiðlum hér á landi. Oft er það einhver misskilningur manna varðandi eitthvað sem sumir velja að kalla meint gróðurhúsaáhrif eða einhverjar aðrar ályktanir sem hafa lítið sem ekkert með raunveruleikann að gera. Það er þarft verk að skjalfesta opinberar yfirlýsingar varðandi þessi mál. Það getur vonandi haft það í för með sér að viðkomandi hugsi sig um varðandi þeirra eigin frjálslegu túlkanir á loftslagsfræðunum í framtíðinni.
Mig langar að leggja út með tilvísunum í þrjá einstaklinga úr hinum títt umtöluðu bloggheimum. Sá fyrsti er góðkunningi okkar á loftslag.is, Ágúst H. Bjarnason. Hann á það til að draga upp einhver sérvalin gögn, til að reyna að draga upp mynd af meintri kólnun eða öðru sem virðist að óathuguðu máli geta dregið úr áhyggjum manna af manngerðum loftslagsbreytingum. Vinsælt hjá honum hefur verið að benda á það þegar smávægileg kólnun verður til skemmri tíma vegna náttúrulegs breytileika eða einhverjar skammtíma sveiflur í sjávarstöðunni. Það er erfitt að finna fullyrðingar hjá honum þar sem hann virðist oft ýja að einhverju, en þær finnast þó, eins og sjá má hér undir:
Gott er til þess að hugsa til þess að um þessar mundir er ekkert sem bendir til þess að sjávarborð sé að rísa óvenju hratt, nema síður sé.
Ágúst var reyndar svo vinsamlegur að vísa í færslu á loftslag.blog.is í athugasemdum (ekki var mögulegt fyrir ritstjórn loftslag.is að gera athugasemdir við þessa færslu hans), þar sem við ræddum aðferðafræði hans, sjá hér. Það er reyndar ekki alltaf auðvelt að finna beinar fullyrðingar eða ályktanir um fræðin hjá Ágústi, enda setur hann oft mikla varnagla á og setur hlutina oft upp í spurnarformi sem ruglar lesendur sem þurfa því stundum að álykta út frá hans orðum – og þær ályktanir geta svo sem farið um víðann völl. Ágúst hefur þó stundum notað eftirfarandi ályktun sína þegar um þetta er rætt…en allavega slær hann þarna mikinn varnagla á fræðin en útilokar í sjálfu sér ekkert:
Helmingur [hita] hækkunarinnar gæti stafað af völdum náttúrulegra breytinga og helmingur vegna losunar manna á koltvísýringi. Hugtakið “helmingur” er hér mjög loðið og gæti þýtt nánast hvað sem er.
Vinsamlega takið eftir varnaglanum, orðalaginu og spurningamerkinu í yfirskriftinni hjá Ágústi… Annars er fátt sem styður þessa fullyrðingu, þar sem gögn styðja ekki svona ályktanir nema síður sé. Hér undir er svo enn ein spurningamerkjafyllt “ályktun” um þessi mál – lesendum sem “efuðust” um fræðin var svo góðfúslega gefið leyfi til að koma með áskanir á hendur Al Gore, umhverfisráðherra og fleiri, ásamt fullyrðingum um trúarbrögð, skattpíningar og fleira sem nefnt var til sögunnar án athugasemda frá Ágústi – en hann vandaði sig þó við að gera athugasemdir við gagnrýnar og málefnalegar athugasemdir ritstjórnar loftslag.is, sem endaði svo með lokun fyrir athugasemdir þegar hann var kominn á endastöð frekari umræðu – en allavega hér er tilvitnunin í Ágúst:
Hvað varð eiginlega um þessa hnatthlýnun sem allir voru að tala um…? Nú dámar mér alveg… Engin hnatthlýnun í 11 ár…?
Sérval gagna hefur stundum leitt til svona fullyrðinga um enga hnatthlýnun í 5/11/16 ár eða hvað það nú er í hvert og eitt skiptið, sjá til að mynda athyglisvert graf hér undir með “efasemda” rúllustiganum.
Munurinn á því hvernig "efasemdamenn" og raunsæismenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum sjá núverandi hækkun hitastigs
Sá næsti sem fær heiðurinn af því að verða rækilega skjalfestur hér á loftslag.is er hæstaréttarlögmaðurinn, Jón Magnússon, sem virðist hafa sterka ályktanaþörf þegar kemur að þessum efnum. Í kjölfar þess að Met-Office uppfærði nýlega spár um hnattrænana hita næstu fimm árin, þá fannst Jóni tilvalið að koma með eftirfarandi fullyrðingar:
Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð afturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.
[..]
Ævintýrið um hnattræna hlýnun af mannavöldum er dýrasta ævintýrið sem mannkynið hefur nokkurn tíma látið sér detta í hug að trúa á.
Jahérna hér, þetta eru merkilegar fullyrðingar (úti er ævintýri – bara öll módelin ónýt…hvurslags er þetta…). En þetta er náttúrulega einhver óskhyggja í fyrrverandi þingmanninum, sem ekki fær staðist, eins og kemur t.a.m. fram í eftirfarandi umfjöllun á loftslag.is – Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki
Að lokum er svo einn af mínum uppáhalds “efasemdamönnum”, enda merkilega berorður um vísindamenn af öllum sortum – hans uppáhald eru reyndar fiskifræðingar og fullyrðingar um þá, en fast á hæla þeim koma svo fullyrðingar hans um loftslagsvísindi og loftslagsvísindamenn – eins og lesa má í eftirfarandi tilvitnun hans:
Blekkingin um “hlýnun andrúmsloftsins” hefur breyst í kuldamartröð í vetur í Evrópu og USA.
Veðurguðirninr virtust móðgast stórlega við loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn og virðast hafa tekið ákvörðun um að “kæla niður” bullið um óðelilega hlýnun loftslags – í Evrópu og Ameríku frá því ráðstefnunni lauk með góðu kuldakasti.
Heimsendaspár um “hækkun á yfirborði sjávar” virðist líka hafa verið “vitlaust reiknað”.. og varla kemur það á óvart… enda skylt skeggið hökunni í blekkingarleiknum….
[..]
Það er ágætt ef eitthvað af þessum “vísindahórum” fara loksins draga í land með eitthvað af platinu og blekkingunum – en betur má ef duga skal.
Þarna fer Kristinn Pétursson, sem eldur í sinu í umræðu um loftslagsmál með berorðar fullyrðingar um heila vísindagrein, sem eiga lítið skilt við vandaða þjóðmálaumræðu og þaðan að síður við þær staðreyndir sem blasa við varðandi loftslagsvandann. Ásakanir um heimsendaspár heyrast oft á tíðum þegar “efasemdamenn” ræða um þessi mál, hvað sem veldur…
Fullyrðingar í þessum dúr sjáum við stundum í hinum títtnefndu og á stundum logandi bloggheimum, svo og í öðrum fjölmiðlum. Að mínu persónulega mati, þá valda svona fullyrðingar ruglingi í umræðunni (sem er hugsanlega ætlunin í sjálfu sér). Það að einhverjir leyfi sér að fullyrða svona án haldbærra gagna stenst að sjálfsögðu engan vegin skoðun. Það er mín ósk að í athugasemdir við þessa færslu verði settar aðrar skjalfestar heimildir um ályktanaglaða “efasemdamenn” á Íslandi og orðaval þeirra. Vinsamlega vísið í orð viðkomandi með heimild/tengli þar sem finna má samhengið, líkt og hér að ofan. Sjálfur mun ég reyna að safna saman einhverjum vel völdum tilvísunum í athugasemdum hér undir, bæði nýjum og gömlum. Það væri fróðlegt að sjá hverju hefur verið haldið fram varðandi þessi mál í gegnum tíðina, af hverjum og í hvaða samhengi.
Ýmistlegt efni af loftslag.is sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar þessi mál eru skoðuð: