Loftslag.is

Tag: Afneitun

  • Er hitastig lægra en spár gerðu ráð fyrir?

    Meðal þeirra fullyrðinga sem heyrast er sú að þróun hitastigs sé lægra en spár hafi gert ráð fyrir. Sá sem er hvað frægastur fyrir svona fullyrðingar er Lord Monckton, en á grafi sem hann hefur gert er sýnd þróun hitastigs samanborið við spár IPCC, og lítur grafið einhvern vegin út, eins og myndin hér við hliðina sýnir.

    Að undanförnu hafa margir skoðað nálgun Monckton við loftslagsvísindin og það virðist ekki vera margt sem stenst nánari skoðun hjá honum, sjá m.a. efni af loftlsag.is, í tenglunum hér í lok færslunnar.

    Heimasíða sem nýlega hóf göngu sína og nefnist Fool Me Once hefur einmitt tekið fullyrðingar eins og þessar sem Monckton hefur verið iðinn við að setja fram og skoðað þær nánar. Í nýjustu færslunni, fer Alden Griffith yfir þá fullyrðingu Moncktons, að þróun hitastigs sé lægra en spár gera ráð fyrir. Það þarf nú varla að taka það fram að (venju samkvæmt, liggur mér við að segja) þá hefur Monckton rangt fyrir sér. Griffith setur upp glærusýningu þar sem er mjög þægilegt að fylgjast með röksemdum hans sem og gögnunum sem hann setur þar fram.

    Hægt er að nálgast glærusýningu Griffith á heimsíðunni hans Fool Me Once, í færslunni (gott er að gefa glærusýningunni eitt augnablik til að hlaðast upp, síðan á þetta að ganga nokkuð smurt):

    Tengdar færslur á loftslag.is

  • Kaupmenn vafans

    Gestapistill eftir Elvar Örn Arason, birtist fyrst á eyjan.is.

    Það hefur vakið heimsathygli að einn þekktasti efasemdamaður um loftlagsbreytingar af mannvöldum hefur skipt um skoðun. Björn Lomborg telur nú að þær séu ein mesta ógn sem steðjar að mannkyninu og að það þurfi stórauknar fjárveitingar til að berjast gegn henni.

    Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér þeirri mynd sem dregin er upp í fjölmiðlum. Eins og hún birtist almenningi þá lítur út fyrir að fylkingar vísindamanna sem telja hlýnun jarðar vera raunverulega ógn og þeirra sem afneita henni séu jafnstórar. Staðreyndin er hins vegar sú að afneitunarsinnar samanstanda af fámennum hópi vísindamanna og öðrum sérvitringum á borð við Söru PalinHannesi Hólmsteini og Rush Limbaugh.  Langflestir vísindamenn telja að vandamálið sé mjög alvarlegt og hluti þeirra telja ógnina mun alvarlegri en sú mynd sem dregin er upp af meginþorra vísindamanna.

    Nýlega kom út bókin Merchant of Doubt sem reynir að svara því hvers vegna umræðan í fjölmiðlum sé ekki í samræmi við það sem á sér stað innan vísindasamfélagsins. Í bókinni kemur fram að fjölmiðlar hafa staðið sig afar illa í að kynna fyrir almenningi niðurstöður vísindamanna og þær sannanir sem liggja að baki hlýnun jarðar.

    Það eru nokkur atriði sem höfundarnir nefna sem valda þessari skökku mynd.  Í fyrsta lagi hafa fjölmiðlar tilhneigingu til að flytja fréttir af ágreiningi, sem leiðir til þess að hann virðist djúpstæðari en efni standa til. Báðir hóparnir fá sama vægi í fjölmiðlum, þó svo að sá sem talar fyrir viðtekinni skoðun sé á sama máli og þorri vísindamanna, en efasemdamaðurinn á sér fáa skoðabræður innan vísindasamfélagsins. Í öðru lagi greina fjölmiðlar ekki frá bakgrunni þeirra einstaklinga sem afneita vandanum. Í bókinni kemur meðal annars fram að sumir efasemdamennirnir eiga oft á tíðum ótrúverðugan feril að baki, t.d. var sami maðurinn ósammála eyðingu ósonlagsins og taldi óbeinar reykingar ekki skaðlegar.

    Hérna er viðtal við annan höfund bókarinnar

    Tengt efni á loftslag.is:

  • CO2 er fæða fyrir plöntur

    Nú tekur Greenman3610 (Peter Sinclair), fyrir þessa lífseigu mýtu um að aukning CO2 sé gott fyrir plöntur og þ.a.l. sé aukning þess í andrúmsloftinu bara jákvæð. Í hans eigin umsögn um myndbandið tekur hann eftirfarandi fram:

    Plöntur nota CO2. Þess vegna er meira CO2 gott. Þetta eru einn af þessum harðgerðu fjölæringum loftslagsafneitunarinnar. Eins og svo margar alhæfingar, þá mun þessi fyrr eða seinna lenda í árekstri við hina raunverulegu veröld.

    Svo mörg voru þau orð hjá honum. Mig langar að benda á að hann kemur sér fyrst að efninu (að mínu mati) u.þ.b. 1/3 inn í myndbandinu, gefið honum þvi smá stund 🙂

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum

    Ein af mýtunum af mýtusíðunni endurbirt hér sem bloggfærsla.

    Það hefur stundum borið á því að fólk afneitar vísindum og kalli þau trúarbrögð. Þetta á t.d. við þegar fólk er á þeirri skoðun að vísindamenn viti ekki sínu viti. Þetta á stundum við þegar talað er um loftslagsbreytingar, þá kemur stundum klausan “þetta eru bara trúarbrögð”. Þarna virðist vera sem fólk sem að öðru leiti er skynsamt, ákveði að vísindin geti á einhvern hátt verið beintengd trúarbrögðum, eða það að taka mark á vísindamönnum hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Lítum nánar á örfáar skilgreiningar á þessum hugtökum.

    prometeusTrúarbrögð: “trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi” (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining “er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni.” (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).

    Vísindi: “athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar” (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)

    Vísindaleg aðferð: “aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum.” (sjá wikipedia)

    Kenning: “er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma.” (sjá wikipedia)

    Samkvæmt þessu þá eru vísindalegar aðferðir og kenningar ósamrýmanlegar við trúarbrögð. Trúarbrögð eru guðsdýrkun eða trú á yfirnáttúrulegar verur samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi, vísindi aftur á móti eru athuganir, rannsóknir framkvæmdar á óhlutdrægan hátt, til að afla þekkingar. Kenningar sem fram eru settar samkvæmt vísindalegum aðferðum með, athugunum, tilgátum og tilraunum hljóta að vera það sem við byggjum vitneskju okkar á, um t.d. loftslagsbreytingar og í fleiri greinum, m.a. náttúruvísindum. T.d. eru afstæðiskenningin og þróunnarkenning Darwins, kenningar sem við notum við útskýringu á ákveðnum fyrirbærum. Eins og fram kemur hér að ofan, þá er í heimi vísindanna ekkert sem telst algerlega sannað, heldur byggjast vísindin á því sem menn vita best á hverjum tíma. Það sama á við um kenningar um loftslagsbreytingar.

    Kenningin um að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi hækkandi hitastigi er sú besta sem við höfum í augnablikinu til að útskýra þá hitastigshækkun sem orðið hefur í heiminum síðustu áratugi. Í raun hafa vísindamenn komið fram með að það séu mjög miklar líkur (yfir 90% líkur) á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi valdið þeirri hækkun hitastigs sem orðið hefur síðustu áratugi. Þetta verða að teljast tiltölulega afgerandi ályktanir hjá vísindamönnum og okkur ber að taka þær alvarlega. Þetta snýst ekki um trúarbrögð heldur vísindalegar rannsóknir og niðurstöður.

    Í þessu sambandi eru margar lausnir viðraðar og persónulega hef ég trú á því að okkur takist að finna lausnir sem hægt verður að nota til lausnar þessa vandamáls. Ég hef trú á því að við manneskjurnar séum nógu vitibornar til að sjá alvöru málsins og taka skref í átt til þess að finna lausnir. Látum ekki tilgátur afneitunarsinna um að vísindi séu einhverskonar trúarbrögð, flækjast fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum sem taka þarf.

    The world is a dangerous place, not because of those who do evil, but because of those who look on and do nothing.” Albert Einstein

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Styðjum prófessor John Abraham

    Prófessor John Abraham sá er hrakti málflutning Lord Monckton varðandi loftslagsmál í glærusýningu hefur nú lent í stormi Monckton o.fl. aðila. Abraham tók fullyrðingar Lord Monckton varðandi loftslagsmál og skoðaði þær í kjölin, með það fyrir augum að sjá hvort gögnin sem hann vitnaði í væru rétt og hvort eitthvað væri til í því sem Monckton heldur fram um loftslagsmál. Við mælum með glærusýningu Abraham – sem er virkilega afhjúpandi hvað varðar rökleysur Moncktons, (sjá nánar Abraham á móti Monckton). Í kjölfarið hefur Monckton svarað fyrir sig, bæði í einhverskonar skýrslu sem hann gaf út og á heimasíðu Anthony Watts (sem er þekktur “efasemdarmaður”). Hann virðist ekki ætla að fara þá leið að vera málefnalegur, heldur ræðst hann að manninum og stofnun þeirri sem hann vinnur við, Háskólann í St Thomas, Minnesota. Í pistli á heimasíðu Watts, gefur hann upp netfang Dennis J. Dease sem er yfirmaður við háskólann í St. Thomas og biður lesendur um að þrýsta á að kynning Abraham verði fjarlægð. Þessi aðferðafræði með að gefa upp netfang til þúsunda lesenda og þannig reyna að hafa áhrif á yfirvöld skólans þykir mörgum ekki mjög heiðarleg og hefur því verið gerð einhverskonar undirskriftarsöfnun til styrktar John Abraham. Á heimasíðu Hot-Topic er hægt að lesa nánar um þetta og skrifa undir í athugasemdir, síðan í gær hafa yfir 700 skrifað undir, sjá nánar Support John Abraham. Einnig hefur Facebook verið virkjuð til hins sama, sjá Prawngate: Support John Abraham against Monckton’s bullying. Sá er þetta skrifar hefur tekið þátt á báðum stöðum og langar að hvetja lesendur hér til hins sama.

    Tengdar færslur á loftslag.is

    Stuðningssíður:

  • Að slá botn í climategate

    Greenman3610 (öðru nafni Peter Sinclair) slær botn í climategate-málið svokallaða í þessu myndbandi. Hann fjallar að vanda á skorinortan hátt um afneitunariðnaðinn og þeirra þátt í því að reyna að koma óorði á vísindamenn með mistúlkunum á því sem vísindin hafa fram að færa, eins og komið hefur berlega í ljós í hinu svokallaða climategate-máli. Að venju notar hann kaldhæðin húmor og fyrir Monty Python aðdáendur, eins og þann sem þetta skrifa, þá eru nokkur atriði úr myndinni Monty Python and the Holy Grail í myndbandinu sem kæta.

    Ítarefni

    Hægt er að nálgast fleiri myndbönd eftir Greenman hér á loftslag.is:  Greenman3610
    Climategate á loftslag.is

    Tengt efni á loftslag.is – Greenman3610 myndbönd:

  • Ósérhæfðir sérfræðingar

    Nýtt myndband frá Potholer54, þar sem hann skoðar ýmsar persónur sem telja sig vita betur en loftslagsvísindamenn og titla sig sumir sem verandi loftslagsvísindamenn þrátt fyrir að fátæklegar heimildir þar um. Hann skoðar meðal annars hina alræmdu Oregon Petition, þar sem talað er um undirskriftir 32.000 vísindamanna. Eru allir vísindamenn á þeim lista og þá við hvaða fræðigreinar? Myndir þú leita til veðurfræðings vegna húðvandamáls? – Nei líklega ekki, en hvers vegna er þó oft leitað til þeirra sem ekki eru sérfræðingar um loftslagsmál um sérfræðiálit þeirra á málinu?

    Jæja, en höfum ekki fleiri orð um þetta, gefum Potholer54 orðið og skjáinn um stund.

    Tengdar færslur á loftslag.is

    Heimildalisti Potholer54 fyrir myndbandið:

    John Coleman listed as media graduate in 1957 – University of Illinois Alumni Association
    http://www.uiaa.org/illinois/honors/c…

    Coleman claiming to be a meteorologist in Weather Channel founder suing Gore? Glenn Beck interview with John Coleman, March 5, 2008 – Transcript at:
    http://www.glennbeck.com/content/arti…

    Certified Broadcast Meteorologist Program – http://www.ametsoc.org/amscert/index….
    list of Certified Broadcast Meteorologist (CBM) – http://www.ametsoc.org/memdir/seallis…

    Oregon Petition found at:
    http://www.oism.org/pproject/

    Steven C. Zylkowski credentials found at:
    http://www.forestprod.org/durability0…
    http://www.forestprod.org/durability0…

    Earl Aaagard web page: http://www.theseventhday.tv/Experts/a…

    John Stossel clip from Global Warming? Really Bad? on YouTube – http://www.youtube.com/watch?v=XUlGoa…

    Bob Carter listed as palaeoclimatologist in US Senate Minority Report – http://epw.senate.gov/public/index.cf…

    Sorry to ruin the fun, but an ice age cometh – Phil Chapman The Australian, April 23, 2008 – Chapman bio on NASA website:
    http://www.jsc.nasa.gov/Bios/htmlbios…

    Tim Ball 28 Years Professor of Climatology at the University of Winnipeg – Letter to Paul Martin
    http://www.john-daly.com/guests/marti…

    Tim Ball: for 32 years I was a Professor of Climatology at the University of Winnipeg. Deniers vs Alarmists in the Eco-Argument – Orato website, May 28th, 2006
    http://www.orato.com/health-science/g…

    Tim Ball letter to Royal Society, listed as professor of climatology
    http://www.pbs.org/moyers/moyersoname… and http://sciencepolicy.colorado.edu/pro…

    University of Winnipeg website:
    http://www.uwinnipeg.ca/

    Geography course units at the University of Winnipeg
    http://www.uwinnipeg.ca/index/cms-fil…

    Tim Ball described as professor of geography – Fraser Institute Website
    http://www.fraserinstitute.org/author…

    Tim Ball letter to Royal Society, listed as retired professor of geography:
    http://www.nhinsider.com/nhigb/2006/9…

    Global Warming, Two Points of View Bio of Tim Ball showing time spent at University of Winnipeg
    http://www.stam.mb.ca/Global_Warming_…

  • Abraham á móti Monckton

    Þótt ótrúlegt megi virðast vera, þá eru ýmsir sem taka mark á Christopher Monckton (Moncton “Lávarður”). Því ákvað einn samviskusamur vísindamaður að nafni John Abraham, sem er prófessor við verkfræðideild Háskólans í St Thomas, Minnesota að skoða hvað Monckton er að segja og hvort eitthvað sé til í því. Við mælum fyllilega með þessari glærusýningu – sem er virkilega afhjúpandi hvað varðar rökleysur Moncktons. Smelltu á myndina hér fyrir neðan til að skoða glærusýninguna (rúmlega klukkutíma löng):

    Tengdar færslur á loftslag.is

  • Efasemdir eða afneitun

    Nýjasta tölublað New Scientist, frá 15. maí, er sérstaklega helgað umræðu um tímaskeið afneitunar (e. Age of Denial). Í blaðinu er rætt um ýmiskonar afneitun á vísindum, þar með talið afneitun á loftslagsvísindum. Það virðast vera svipaðar aðferðir notaðar við afneitun vísinda í sambandi við tengsl krabbameins tóbaksnotkunnar og afneitun á loftslagsvísindum.

    Mig langar að benda á grein úr þessu tölublaði, sem nefnist, Lifað í afneitun: Þegar efasemdarmaður er ekki efasemdarmaður (e. Living in denial: When a sceptic isn’t a sceptic). Í þessari grein er munurinn á efasemdarmönnum og afneitunarsinnum skoðaður. Greinin er skrifuð af Michael Shermer þar stendur meðal annars, í lauslegri þýðingu:

    Hver er munurinn á efasemdarmanni og afneitunarsinna? Þegar ég kalla sjálfan mig efasemdarmann, þá á ég við að ég noti vísindalega nálgun til að leggja mat á rökin. T.d. mun efasemdamaður um loftslagsmál, skoða hverja staðhæfingu fyrir sig og varfærnislega skoða rökin og er tilbúinn að fylgja staðreyndunum þangað sem þær leiða hann.

    Sá sem afneitar loftslagsvísindunum, er með fyrirfram ákveðnar skoðanir og fer í gegnum gögnin með notkun “hlutdrægrar staðfestingar” – sem er hneigðin til að leita að og finna gögn sem staðfesta fyrirfram ákveðnar skoðanir og vísa öðru á bug.

    Í greininni er rætt um efasemdar í sambandi við vísindalegar aðferðir, þar sem nota þarf gagnrýna hugsun til að skoða gögn og mælingar. Það má segja að til að vera vísindamaður, þá þurfi að koma til nokkuð mikið af hugsun byggða á efasemdum og gagnrýnni hugsun. Það koma nefnilega fram fjöldi rannsókna í vísindum sem reynast rangar þegar upp er staðið. En afneitun er öðruvísi, það sem á sér stað þar er afneitun á gögnum, sama hversu góð rök eru til staðar og oft þrátt fyrir mjög góð rök fyrir gagnstæðum hugmyndum.

    Afneitun er að jafnaði drifin áfram af hugmyndafræði eða trúarlegri skoðun, þar sem fylgni við skoðunina er mikilvægari en rökin sem sett eru fram. Skoðunin kemur fyrst, svo röksemdir skoðunarinnar og þær röksemdir eru aðskildar öðrum til að tryggja að skoðunin varðveitist í sinni mynd.

    Ég mæli með grein New Scientist fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar. Við höfum einnig skoðað þessi mál hér á loftslag.is, t.d. í greininni, Rökleysur loftslagsumræðunnar, þar sem við ræðum m.a. um efasemdir eða afneitun:

    Það má hugsanlega færa rök fyrir því að efasemdarmenn eða efahyggja nái hugsanlega ekki nógu vel að skilgreina þá sem afneita vísindunum. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

    1. Samsæriskenningar
    2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
    3. Fals sérfræðingar
    4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
    5. Almennar rökleysur

    Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem búið er að hrekja. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð. Erfitt að sitja frammi fyrir því að þurfa að margendurtaka sömu hlutina, þar sem rökin virðast ekki komast til skila, þ.e. sömu falsanir, sérvöldu gögnin, samsæriskenningar, o.s.frv. koma aftur upp í umræðunni. […] Innantómt málskrúð sem oft einkennir umræðuna, virðist til þess fallið að draga athyglina frá því sem vísindin hafa um málið að segja.

    Það er að mínu mati ábyrgðarleysi að halda á lofti þeirri óvísindalegu nálgun sem oft sést hjá þeim sem telja að vísindin samrýmist ekki þeirra hugmyndafræði. Þar sem notaðar eru þær nálganir sem rætt er um í grein New Scientist og hér að ofan. Það er í raun afar merkilegt að New Scientist hafi ákveðið að tileinka einu tölublaði afneitun vísindanna og að afneitun loftslagsvísindanna skuli hafa fegnið þar háan sess, á stalli með þeim sem afneita vísindalegum gögnum varðandi HIV, vísindum um tengls tóbaksnotkunar og krabbameins og þeirra sem afneita þróunarkenningunni (sköpunarsinna), svo dæmi séu tekin. En það má kannski segja að það þurfi sömu hugmyndafræðilegu nálgunina í öllum þessum tilfellum, þar sem notkun svipaðra rökleysu virðist vera helst á dagsskrá í öllum tilfellunum. Mig langar að enda þetta á annari tilvitnun úr textanum um rökleysur loftslagsumræðunnar:

    Gott er að að hafa nokkur atriði í huga við skoðun á vísindum:

    • Athugun heimilda er mikilvægur þáttur
    • Athugum hvað sérfræðingar segja (helst einhverja sem vinna við fræðin)
    • Skoðum fullyrðingar og heimildir með gagnrýnni hugsun
    • Byggjum rök okkar á sanngjörnum grunni og sanngjörnum efasemdum
    • Pössum okkur á rökleysum og fullyrðingum sem ekki standast skoðun

    Heimildir:

    Tengt efni af loftslag.is:

  • Rökleysur loftslagsumræðunnar

    Hér fyrir neðan er ítarlegri útgáfa á grein sem undirritaður skrifaði og birtist í Morgunblaðinu fyrr í dag. Lesa má greinina eins og hún birtist í Morgunblaðinu hér á loftslag.is.

    Hér verður fjallað um ýmsar rökleysur í loftslagsumræðunni. Á undanförnum mánuðum hefur umræðan varðandi loftslagsmál í kjölfar hins svokallaða Climategate-máls farið á undarlegt stig. Í því máli var tölvupóstum loftslagsvísindamanna stolið og í kjölfarið byrjuðu samsæriskenningar og rangtúlkanir út frá fullyrðingum um hvað það væri sem tölvupóstarnir voru taldir innihalda. Þetta hefur verið mikið í umræðunni síðustu mánuði og margskonar rökleysur orðið til í kjölfarið. Fjölmiðlafólk, bæði erlendis og hérlendis virðist hafa fallið í þá gryfju að draga umræðuna á plan afneitunar, sem helst virðist eiga uppruna sinn hjá ýmsum þrýstihópum með aðra hagsmuni en að hafa vísindin að leiðarljósi. En hvers vegna dregst umræða alvöru blaðamanna á þetta stig? Ég ætla að reyna að svara því í þessari grein, en mig langar fyrst að skoða hvernig hérlendir fjölmiðlar og bloggsíður hafa afvegaleitt umræðuna á köflum.

    Í tilefni umfjallana fjölmiðla og bloggsíðna

    Nýlega birti Morgunblaðið grein eftir Kristján Leósson („Góð vísindi, slæm vísindi, sjúk vísindi og gervivísindi“, 4. apríl 2010, bls. 34-35) þar sem fjallað var um loftslagsvísindin á afar villandi hátt. Þar á bæ gera menn því skóna að falsanir og svindl loftslagsvísindamanna eigi sér almennt stað og í kjölfarið voru nefnd ýmis tilfelli þar sem vísindamenn (ekki loftslagsvísindamenn) falsa niðurstöður. Þessi tenging var gerð á þann hátt að lesandanum var talin trú um að loftslagsvísindin séu byggð á fölsunum og svindli. Þetta var gert þrátt fyrir að engin gögn liggi fyrir um að þetta eigi sér almennt stað eða að gögn og mælingar vísindamanna séu fölsuð. Tvær nýlegar rannsóknir vísindanefndar breska þingsins komu nýverið út, sú fyrri (sem kom út fyrir grein Morgunblaðsins) bar sakir af vísindamanninum Phil Jones, sem er einn af þeim sem verst varð úti í hinu svokallaða Climategate-máli og í hinni skýrslunni (sem kom út eftir grein Morgunblaðsins) kom fram að loftslagsvísindin væru traust og byggðu ekki á fölsuðum niðurstöðum. Niðurstaða nefndarinnar varðandi Phil Jones var nokkuð skýr, hann og aðrir hjá CRU eru ekki taldir hafa falsað niðurstöður í rannsóknum sínum. Samt fullyrðir Morgunblaðið í grein sinni að falsanir loftslagsvísindamanna eigi sér almennt stað, þrátt fyrir að hafa fylgst með málinu og vitað af niðurstöðum fyrri skýrslunnar;

    “…sem þóttu sanna að nokkrir vísindamenn innan stofnunarinnar og samstarfsmenn þeirra hefðu breytt gögnum um hitastigsbreytingar til að falla betur að kenningum sem þeir vildu renna stoðum undir.”

    “Það er alvarlegt brot á þessari viðteknu aðferðafræði þegar vísindaleg kenning er smíðuð en mælingum sem ganga gegn henni er hafnað, breytt eða stungið undir teppi. Tilfellið hjá CRU er því miður ekki einsdæmi í vísindaheiminum þar sem margir keppa um frægð og frama, verðlaun og virðingarstöður.”

    Það hafa ekki komið fram gögn sem sýna fram á að þessar staðhæfingar standist, þó svo margir haldi því fram og þá sérlega á ýmsum bloggsíðum erlendis sem styðja sjónarmið „efahyggjunnar“. Það má því segja að þetta sé bein heimfærsla staðhæfinga þrýstihópa sem hafa önnur markmið en að sýna fram á gildi rökstuddra vísindaniðurstaðna. Við höfum hér á Loftslag.is tvisvar sinnum fjallað um loftslagsfréttir íslenskra fjölmiðla. Viðkomandi fréttamenn fengu tækifæri til að sjá færslurnar eftir birtingu, en þeir sáu ekki sérstakt tilefni til að verja greinar sínar efnislega við þau tækifæri. Sjá nánari umfjöllun um þau mál; Sólvirkni og hitastig og Er jörðin að kólna? – Í tilefni fréttar á Visir.is og Stöð 2.

    Á bloggsíðum má sjá alls kyns útgáfur af loftslagskenningum, þar sem rökleysum ægir oft saman án nokkurs samhengis og eru jafnvel ekki í samræmi hver við aðra. Hvaða samræmi er í því að halda því fram að hlýnunin sé af völdum geimgeisla og í næstu setningu að það sé að kólna, eða þá að ekkert sé að marka mælingar vísindamanna á fornloftslagi á sama tíma og haldið er á lofti úreltu grafi um hitastig á hlýskeiðinu í kringum 1100 sem staðreynd og beina sönnun þess að þá hafi verið hlýrra á heimsvísu (það er í raun ekki aðalatriðið hvort það hefur verið heitara áður, ef hitastigið í dag er að stíga af völdum aukins styrks gróðurhúsalofttegunda).

    Hér undir má lesa hvernig Robert Henson tekur saman rökflutning efasemdarmanna í bókinni The Rough Guide to Climate Change:

    „Hlýnun andrúmsloftsins fer ekki vaxandi og jafnvel þótt sú sé raunin er það vegna náttúrulegra sveiflna; og jafnvel þótt sveiflurnar séu ekki náttúrulegar er hitahækkunin svo lítil að hún skiptir ekki máli; og færi hún að skipta máli vega kostirnir þyngra en gallarnir; og jafnvel þótt þeir gerðu það ekki kæmi tæknin okkur til hjálpar; og jafnvel þótt það gerist ekki megum við ekki leggja efnahaginn í rúst með því að bregðast við vandamáli sem er byggt á jafn ótraustum vísindum.“

    Rökleysur

    Hvað eru rökleysur? Í þessu ljósi eru að rökleysur t.d. þegar staðhæfingum er haldið fram án þess að á bak við þær liggi gögn byggð á rannsóknum gerðar með vísindalegum aðferðum eða fullyrðingar sem haldið er á lofti, þó svo búið sé að hrekja niðurstöður varðandi það eða hreinlega rangfærslur sem maður hefur jafnvel á tilfinningunni að séu settar fram af ráðnum hug  eða í besta falli af vankunnáttu. En er hægt að nefna einhver dæmi um þetta?

    Af fullyrðingum sem ekki byggja á vísindalegum aðferðum má sem dæmi nefna þá yfirlýsingu að það sé að kólna á Jörðinni. Sú fullyrðing vera ansi lífsseig, þó svo að ekki sé byggt á niðurstöðum byggða á vísindalegum aðferðum. Til að ná fram þeirri niðurstöðu, þarf að sérvelja (e. cherry pick) gögn sem falla að þeirri fullyrðingu, sjá t.d. Það er að kólna en ekki hlýna og það getur ekki talist vísindaleg nálgun. Í þessu samhengi má nefna þá staðreynd að síðasti áratugur var sá heitasti síðan mælingar hófust.

    Stundum birtast niðurstöður rannsókna sem blásnar eru upp af bloggurum og/eða fjölmiðlafólki sem einhverskonar sönnun þess að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Þegar betur er að gáð þá virðist oft sem eftirfarandi séu helstu möguleikarnir í stöðunni:

    • Rannsóknin er góð og stangast engan vegin á við hnattræna hlýnun af mannavöldum, en efasemdarmenn taka greinina og slíta úr samhengi
    • Rannsóknin er slæm, þ.e. brotnar eru úrvinnsluaðferðir eða notuð eru gölluð gögn og efasemdarmenn blása upp greinina
    • Rannsóknin fjallar á engan hátt um loftslagsbreytingar, en samt er hún rifin úr samhengi og blásin upp
    • Birtir eru bútar úr gömlum greinum sem búið er að hrekja

    Í þessu sambandi má t.d. nefna rannsókn þar sem því var haldið fram að hlýnun jarðar væri af völdum geimgeisla, það hafa komið fram nokkuð góð rök fyrir því að þetta sé ekki það sem hefur valdið hækkandi hitastigi á síðustu áratugum og jafnvel er talið að áhrif þessa, ef einhver, séu jaðaráhrif.

    Svo eru það rangfærslurnar, þær virðast þrífast á ýmsum bloggsíðum og hjá ákveðnum einstaklingum sem afneita vísindunum. Þar má m.a. nefna Lord Monckton, en hann heldur beinlínis fram rangfærslum og fölsunum til að setja fram rök sín (eða rökleysur).

    Hér hef ég nefnt fáein dæmi um rökleysur í loftslagsumræðunni, sem þó heyrast nokkuð mikið. Ýmsar mýtur sem oft heyrast í umræðunni má finna á Loftslag.is og langar mig að hvetja lesendur til að skoða þær nánar. Það má helst skoða rökleysurnar í því ljósi að skoða þær heimildirnar sem gefnar eru upp. Stundum eru heimildirnar samt settar fram þannig að látið er í veðri vaka að um sé að ræða spár eða heimildir frá IPCC eða öðrum sem gefa út skýrslur um loftslagsmál (Monckton gerir t.d. nokkuð af því). En þá er um að gera að beita gagnrýnni hugsun og t.d. nálgast frumheimildirnar og skoða þær. Þannig má oft sjá hvað er á bak við fullyrðinguna. Mjög gott myndband sem kemur inn á ítarlegri athugun heimilda má skoða hér á síðunum; Hvað er vitað um loftslagsbreytingar?

    Umræða efahyggjunnar

    Yfirlýst efahyggja er vinsæl vafans aðferð til að grafa undan vísindunum. Það virðist vera einhverskonar markmið loftslagsefahyggjunnar að snúa varfærni hinnar vísindalegu orðræðu gegn sjálfri sér. Kenning verður, að mati efahyggjunnar seint eða aldrei fyllilega sönnuð. Þar af leiðandi má nánast engu halda fram og alltaf verður réttlætanlegt að efast um allt. Á sama tíma er reynt að setja fram nýjar kenningar sem eiga út frá mjög einhliða rökum að fella viðteknar vísindaniðurstöður. Það virðist vera sem efahyggjumenn séu að bíða eftir næsta Kepler eða Einstein eða Galíleó, vísindamanninum sem snýr loftslagsfræðunum á hvolf og setur allt í sitt rétta samhengi, sem væntanlega mun þá smellpassa við málsstað og heimssýn efahyggjunnar. Þeir hafa þó ekki getað sýnt fram á að niðurstöður þeirra haldi vísindalega, þó vissulega hafi þeir reynt. Hægt er að lesa nánar um tvö dæmi hér; Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum. Það væri mjög fróðlegt að sjá íslenska fjölmiðla skoða þessar rökleysur þeirra sem afneita niðurstöðum vísindanna, þar er allavega um alvöru falsanir að ræða.

    Fullyrðingum fylgir ábyrgð. Er ekki betra að að hlusta á þá sem hafa vit á vísindunum í stað þess að fara eftir fölsunum þeirra sem hafa virðast hafa önnur markmið en að komast að vísindalegum niðurstöðum. Það þarf að koma til traust til vísindamanna og á gagnrýna hugsun, sem er þó alls ekki það sama og blindandi trú. Það má færa fyrir því rök fyrir því að sérfræðingar sem stunda rannsóknir viti hvað þeir eru að tala um og við sem ekki erum sérfræðingar verðum að gera ráð fyrir að þeir hafi lagt sig fram um að komast að sannfærandi niðurstöðu. Þetta á sérstaklega við í þeim tilfellum þar sem vísindalegum aðferðum er beitt, með mælingum og rannsóknum sem eru vel rökstuddar og jafnvel birtar í ritrýndum tímaritum. Þegar fleiri mælingar sýna sömu niðurstöður, þá er einnig vert að leggja við eyru og augu. Þessi málaflokkur verður áfram áberandi á næstu árum og áratugum, það er því mikilvægt, að mínu mati, að hafa eftirfarandi nokkur atriði að leiðarljósi:

    • Notum gagnrýna hugsun til að skoða þau rök, þær rannsóknir og mælingar sem búa að baki fræðunum. Athugum því hvort rétt er farið með niðurstöður rannsókna.
    • Látum ekki háværar raddir pólitískrar „efahyggju“ trufla gagnrýna hugsun.
    • Ef við erum í vafa, þá skulum við skoða heimildirnar sem fram eru settar.
    • Spyrjum okkur gagnrýnna spurninga um röksemdir sem fram eru settar.
    • Spyrjum okkur hvort viðkomandi aðilar hafi þekkingu til að miðla þekkingunni án falina markmiða
    • Kynnum okkur málin með opnum huga.

    Efahyggja eða afneitun…

    Það má hugsanlega færa rök fyrir því að efasemdarmenn eða efahyggja nái hugsanlega ekki nógu vel að skilgreina þá sem afneita vísindunum. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

    1. Samsæriskenningar
    2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
    3. Fals sérfræðingar
    4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
    5. Almennar rökleysur

    Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem búið er að hrekja. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð. Erfitt að sitja frammi fyrir því að þurfa að margendurtaka sömu hlutina, þar sem rökin virðast ekki komast til skila, þ.e. sömu falsanir, sérvöldu gögnin, samsæriskenningar, o.s.frv. koma aftur upp í umræðunni. Það má segja að þetta komi fram að hluta í þeim greinum sem við höfum gagnrýnt hjá fjölmiðlum hingað til og í raun berum við að þeim brunni rökleysunnar sem ég er að lýsa hér að ofan. Rökleysur þar sem fullyrðingar ná í gegn án þess að þær séu skoðaðar með gagnrýnni hugsun. Innantómt málskrúð sem oft einkennir umræðuna, virðist til þess fallið að draga athyglina frá því sem vísindin hafa um málið að segja. Nokkrir afneitunarsinnar virðast hafa það að starfi að ferðast um heiminn og staðhæfa um vísindin með rangfærslum. Þessir aðilar eru á stundum ansi málhagir, en staðreyndir virðast ekki vera ofarlega í huga þeirra.

    Niðurlag

    Þetta leiðir mig því að spurningunni úr inngangi greinarinnar: Hvers vegna dregst umræða alvöru fjölmiðlafólks niður á þetta stig? Það er ekki til einfalt svar við því, en ætli þeim finnist ekki eins og mörgum öðrum að þetta sé málaflokkur sem erfitt er að setja sig inní. Það tekur aðeins um 15 sekúndur að henda fram fullyrðingu sem ekki stenst skoðun, en það getur tekið langan tíma að hrekja rökleysuna, þar sem til þess þarf oft að benda á alvöru gögn vísindamanna. Gleypum því ekki gagnrýnislaust við rökum efahyggjunnar.

    Ef einhver fullyrðir að Jörðin sé að kólna og bendir á sérvalin gögn sem „sýna“ fram á það, getur verið erfitt að vinda ofan af því og útskýra hvernig hitastig getur sveiflast (vísindamenn halda ekki öðru fram en að sveiflur geti átt sér stað), þar sem náttúrulegar sveiflur eiga sér einnig stað og einnig á þá staðreynd að skoða þarf lengri tíma, en ekki aðeins sérvalið tímabil. En hvað veldur því að fjölmiðlafólk setur sig ekki betur inn í málið en svo að það heldur fram rangfærslum þeim sem upp koma í umræðunni? Kannski hafa fréttamenn ekki nógu góðan grundvöll til að skoða náttúrvísindi með kunnáttu að vopni. En það stendur vonandi til bóta í framtíðinni, þegar betur kemur í ljós hversu augljósar margar rangfærslur afneitunarsinna eru í raun. Ég skora á fjölmiðlafólk sem og aðra til að skoða vísindin á bak við fræðin betur.

    Á ritstjórn Loftslag.is erum við boðnir og búnir að svara spurningum sem kunna að vakna varðandi þessi mál. Svo er líka hægt að nálgast góðar heimildir um lofslagsmál á mörgum öðrum stöðum, enda er til gríðarlegt magn gagna, sem ef vel er að gáð er opið hverjum sem er.

    Það má spyrja sig hvort svona illa hefði farið í íslensku fjármálalífi, hefðu fjölmiðlar spurt sig spurninga varðandi heimildirnar? Það verður að teljast ábyrgðarhluti að fjalla um þessi mál á forsendum þrýstihópa en ekki alvöru vísindamanna. Við verðum að byggja vísindaleg rök okkar á sanngjörnum grunni rannsókna og mælinga. Það er merkilegt til þess að vita að ætlast er til þess að loftslagsvísindin hafi alltaf 100% rétt fyrir sér og ef það kemur upp smávægileg villa í gögnunum þá verður til „Glacier-gate“ eða annað þess háttar og vísindamenn eru settir í hóp falsara og svikara (þó svo að vísindamenn hafi sjálfir komið auga á villuna). Aftur á móti þurfa efahyggjumenn aðeins að hafa rétt fyrir sér í 0,1% tilfella (sem jafnvel tengist vísindunum óbeint), til að stuðningsmenn þeirra sjái fyrir sér sannanir þess að loftslagsvísindin séu byggð á fölsunum og blekkingum.

    Gott er að að hafa nokkur atriði í huga við skoðun á vísindum:

    • Athugun heimilda er mikilvægur þáttur
    • Athugum hvað sérfræðingar segja (helst einhverja sem vinna við fræðin)
    • Skoðum fullyrðingar og heimildir með gagnrýnni hugsun
    • Byggjum rök okkar á sanngjörnum grunni og sanngjörnum efasemdum
    • Pössum okkur á rökleysum og fullyrðingum sem ekki standast skoðun

    Það er ósk mín að loftslagsumræðan komist á hærra plan í framtíðinni, þar sem við skoðum loftslagsvísindin á málefnalegan hátt og beytum til þess gagnrýnni hugsun og sanngjörnum heimildum byggðum á mælingum og rannsóknum vísindamanna en ekki upphrópunum þeirra sem afneita vísindunum.

    Tilvitnanir í textanum af Loftslag.is:

    Aðrar tilvitnanir í textanum: