Átakalínur
Miðvikudaginn 29. október var viðtal við mig (Svein Atla Gunnarsson) um loftslagsumræðuna á Harmageddon, sem er á X-inu, FM 977. Ernu Ýri Öldudóttur blaðamanni á Viljanum var einnig boðið í þáttinn sem fulltrúi þeirra sem ekki taka mark á loftslagsvísindum, sem einnig er kallað að vera í afneitun á loftslagsvísindum. Uppleggið í þættinum hjá þeim Frosta og Mána var að fá fram átök sem væru gott útvarpsefni og var ég meðvitaður um það frá upphafi. Áður en viðtalið hófst gaf ég þáttarstjórnendum og Ernu leiðarvísinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, sem við hér á loftslag.is þýddum fyrir nokkrum árum og er ágætt lesning fyrir alla sem vilja fá innsýn í fræðin og afneitunina.
Eins og svo oft áður þá fullyrti Erna Ýr um allskyns hluti sem mest minna á samsæriskenningar, en eitt aðalatriðið hjá henni virtist vera að stilla hlutunum upp á einhvern hátt þannig að viðmælendur hennar þurfi að svara fullyrðingum sem ekki eru svaraverðar, að fá aðra til neita staðhæfingum sem hún setur fram og/eða setja fram hluti sem hafa á stundum litla sem enga rót í sjálf loftslagsvísindin eða í besta falli mistúlkanir á fræðunum. Eins og oft vill verða þá eru rangfærslur afneitunarinnar þannig að það er tímafrekt að hrekja þær (þó vissulega sé búið að marg hrekja flest allt oft áður) og verður því ekki gert efnislega í stuttu útvarpsviðtali þar sem tíminn er af skornum skammti. En hvað um það, í byrjun rifjaði ég upp hvernig ýmsar af fyrri fullyrðingum Ernu Ýrar svipaði til samsæriskenninga, m.a. um fullyrðingar hennar um að loftslagsvísindi væru svindl þar sem vísindamenn væru samkvæmt Ernu að fela gögn til að græða á vandanum, ásamt fullyrðingum um að Al Gore hefði fundið loftslagsvandann upp til að græða pening! Svona staðhæfingar eru auðvitað tómar samsæriskenningar (sjá meira t.d. hér og hér).
Iðnaður, gróði, dýrtíð og ríkisstyrkir
Frosti nefndi að það væri kannski hægt að segja að umhverfisvernd væri orðin iðnaður sem væri bara að græða á tá og fingri. Jú, jú einhverja peninga (jafnvel líka strit, svita og tár) þarf til að taka á vandanum og kannski ná einhverjir aðilar að græða á því eða hafa sitt viðurværi í því að finna lausnir, það er ekki útilokað. Ég er þó afskaplega efins um að það séu margir í þessum geira að stórgræða á því að taka á loftslagsvandanum og allra síst harðduglegir vísindamenn sem þurfa nánast að betla hverja krónu til rannsókna og það er geysileg samkeppni um þá aura. En það er nú samt bara eins og það er og það er varla bannað að vera séður í viðskiptum eða hugsanlega stofna fyrirtæki utan um lausnir til að taka á vandanum eða á annan hátt skapa störf og arð eða er það kannski bannað? Svo var aðeins farið yfir það að það væri svo rosalega dýrt að taka á vandanum og það myndi bitna á þeim fátækustu (sem virtist vera Ernu mikið kappsmál að koma að). Það má alveg færa rök fyrir því að það sé sjálfsagt að ræða hvernig þeir sem menga greiða fyrir mengunina eða hvernig er á annan hátt hægt að reyna að draga úr eftirspurninni eftir jarðefnaeldsneyti. Það má ræða hvernig og hvort það má minnka eftirspurnina með gjöldum og sköttum (og auðvitað ef fólk hefur aðrar hugmyndir þá eru þær vel þegnar og um að gera að ræða þær). En það er einföldun að taka það eitt og sér út fyrir sviga og gera að einhverju aðalatriði. En vissulega má endilega ræða það bara vel og ítarlega hvernig við viljum standa að því að minnka losun, með eða án skatta eða bara hvað getur minnkað eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti almennt. Eftirspurn er einn þátturinn og þar hefur verðið áhrif, þannig að skattar og gjöld eru sjálfsagt hluti af vopnabúrinu til að finna lausnir, og um að gera að ræða það nánar, en þá auðvitað án þess að einstakir viðmælendur kategórískt afneiti vandanum. Svo er heimurinn auðvitað að breytast og við stefnum á að nota enn meira af grænni orku í framtíðinni. Græn orka eins og vind- og sólarorka er líka að verða ódýrari með hverju árinu sem líður. Heimurinn stefnir því í átt að meiri sjálfbærni og þeim breytingum getum við tekið fagnandi. Þeim breytingum fylgir auðvitað atvinna og vonandi arðsemi, þannig að eitt tekur við af öðru (einu sinni var jú hvalafita notuð til að lýsa upp híbýli manna, en það breyttist sem betur fer og eftirspurnin eftir hvalafitu hvarf og þróunin hélt áfram). Þess ber einnig að geta að olíuiðnaðurinn fær ríkisstyrki (e. subsidies) sem gætu verið um 4,7 trilljónir dollara á ári, sem er jú upphæð sem er alvega fáránlega há og sem mætti vel endurskoða. Tilfæring styrkja gæti einnig komið sér vel til að taka á loftslagsvandanum, enda er þessi upphæð margfalt hærri en það sem loftslagsmálin fá til málaflokksins og þar að auki miklu hærri upphæð en ég nefndi í viðtalinu (sem voru 300 – 600 milljarðar dollara sem ég hafði séð einhversstaðar áður). Svona upphæðir eru einmitt hreyfiafl í umræðunni eins og Frosti nefndi og ef Erna eða aðrir vilja “follow the money” þá er þetta auðvitað upplögð byrjun.
Innantómar fullyrðingar
Erna fullyrti svo að Kína og Indland hefðu frítt spil innan Parísarsamkomulagsins og myndu/gætu aukið losun tvöfalt til 2030 (eða í raun eins og þjóðirnar sjálfar vildu samkvæmt Ernu). Það er efnislega rangt, það eru viðmið í Parísarsamkomulaginu varðandi losun og öll ríki hafa sín viðmið. Samkvæmt eigin viðmiðum Kína í takt við Parísarsamkomulagið þá stefnir Kína að því að losað ca. 10-20% meira um 2030 miðað við í dag (og það er ekki útilokað að gera betur), sjá nánar hér, Indland fær að auka losunina meira, en samt er Indland að standa betur við samkomulagið en margar aðrar þjóðir, miðað við hvernig samkomulagið er sett upp, betur en t.d. Kína og ýmis vesturlönd, sjá hér. En það er kannski ekki aðalmálið, enda er innan Parísarsamkomulagsins settir rammar fyrir öll lönd sem taka þátt í samkomulaginu (líka BNA sem er enn innan samkomulagsins), og losun á að byrja að dragast saman í heild bæði til 2030 og svo eftir þann tíma. Sum þróunarlönd fá að auka losun til 2030, enda er það hluti af því að viðurkenna að vesturlönd bera ábyrgð á langmestri losun, bæði uppsafnaðri losun og á mann og því er það einhverskonar verkfæri til að minnka aðstöðumuninn á milli landa. Losun á mann á vesturlöndum er almennt miklu meiri en í þróunarlöndum bæði á ársgrundvelli en ekki síður uppsafnað frá iðnbyltingu, sjá meira um losun og uppsafnað losun hér.
Mistúlkanir, rangfærslur og moðreykur
Erna fullyrti svo einnig að Goldman Sachs sé að kaupa kvóta á markaði og ætli að græða verulega á því í framtíðinni. Það er auðvitað ekki beinn partur af loftslagsvandanum þó einhver hugsanlega græði á því að kaupa kvóta á markaði (þó að það séu nú ekki endilega sterkar vísbendingar um að það standist heldur), en hér má lesa grein sem fjallar eitthvað um aðkomu Goldman Sachs að verðmati á kolefnislosun. Erna gat heldur ekki nefnt dæmi um hvernig almannafé komi inní svona viðskipti í viðtalinu, þrátt fyrir að ég spyrði að því. Ég mæli með að þeir sem telji að losunarkvótar hækki verulega á næstu árum og áratugum kaupi sér einfaldlega kvóta og græði síðar (reyndar veit ég ekki hvernig það fer fram að einhverjir kaupi og hangi á kvóta í skúffu til þess að græða síðar, en það er svo önnur saga).
Eðlisfræði sem skilur ekki pólitík
Hvað sem líður einhverjum fullyrðingum um að einhverjir séu að ljúga, græða og fela vandann, þá er vandinn jú bara að það er aukning gróðurhúsalofttegunda sem er af mannavöldum sem hækkar hitastigið. Eðlisfræðinni er jú nokk sama um pólitískt þref, enda eru gróðurhúsaáhrifin staðreynd og þau eru að aukast af mannavöldum, sjá t.d. hér, hér, hér og hér.
Að sá vafa
Frosti nefndi næst til sögunnar þessa 500 “vísindamenn” sem sendu skjal til Sameinuðu þjóðanna þar sem þeir efuðust um fræðin, en því hefur auðvitað verið margsvarað víða, enda lítið nýtt í því, sjá t.d. þessa grein þar sem farið er ítarlega yfir villur þessara 500 vísindamanna (sem eru jú fæstir með gráður tengdar loftslagsvísindum, eins og ég nefni í viðtalinu). Það að það séu til 500 sjálfskipaðir fræðingar á allskyns sviðum (flest ótengt loftslagsvísindum) sem vilja setja nafn sitt við afneitun kemur mér ekki á óvart. Þessi aðferð hefur verið við lýði í tugi ára og var í raun fullkomnuð af sígarettuframleiðendum uppúr miðri 20. öld þegar “sérfræðingar” lögðu nafn sitt við að reykingar væru nánast skaðlausar. Þess má geta að einhverjir sérfræðingar vafans varðandi loftslagsmálin komu einmitt upprunalega frá sígaretturframleiðendum þegar byrjað var að sá vafa um loftslagsvísindin, þannig að loftslagsafneitunin byrjaði með veganesti mjög þróaðrar aðferðafræði beint úr ranni sígarettuframleiðanda. Frosti virtist sjá ljósið þegar hann áttaði sig á því að til eru verkfræðingar sem aðhyllast 9/11 samsærið og leggja nafn sitt við það í hundraða tali, þannig að það er kannski ekki svo erfitt að fá 500 ósérhæfða “sérfræðinga” til að leggja nafn sitt við svona plagg.
Gífuryrði og barnaskólastærðfræði
Erna tók það illa upp að það væri búið að nefna samsæriskenningar í loftslagsumræðunni frá afneituninni (ég hafði þó mest nefnt það almennt, en auðvitað líka út frá hennar fyrri staðhæfingum) og fór svo að viðhafa stór orð um að það séu aðeins til 102 loftslagsspálíkön innan allra loftslagsvísindanna sem öll væru röng (nema eitt, sem er rússneskt) og að heimurinn í spálíkönunum sé miðaður út frá því að jörðin sé flöt! Hér, hér hér og hér svo má lesa aðeins nánar um spálíkönin (auðvitað ekki tæmandi listi), þar sem kemur vel fram að spálíkön hafa verið góð í að líkja eftir bæði fortíð og framtíð (s.s. við getum núna séð að spár sem voru gerðar fyrir 20-30 árum hafa gengið tiltölulega vel eftir). Þar á eftir fer Erna að ræða um að það væri rangt að 97% loftslagsvísndamenn væru sammála um að jörðin væri að hlýna af mannavöldum og jafnvel að þetta séu bara örfáir vísindamenn sem séu sammála um þetta, en restin hlýtur þá að þegja þunnu hljóði og taka þátt í “þögguninni” (ætli það sé ekki skilgreining á samsæri). Það er búið að marg hrekja þann málatilbúnað, sjá t.d. nýlega grein á loftslag.is sem nefnist “Eru vísindamenn ekki sammála?” og svo enn meira t.d. hér og hér. Erna var svo sek um undarlega reiknivillu þegar hún sagði að rúmlega 3000 vísindagreinar af ca. 11000 vísindagreinum væru 3,2%! Hún sagðist meira að segja hafa reiknað það í huganum, en hún var þó með allar tölurnar á blaði fyrir framan sig og hefur væntanlega þurft að hafa fyrir því að reikna þetta áður en hún kom á staðinn. Hugarreikningurinn var þó ekki betri en svo að hún átti erfitt með að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér í þessu, þó það sé nú augljóst hverjum sem það vill sjá og getur reiknað barnaskólastærðfræðina skammlaust.
Fórnarlambið og dónaskapurinn
Erna fór því næst að saka mig um dónaskap fyrir það að segja að rangfærslur hennar væru rangar (það er vandlifað í þessum heimi). En það vill nú oft verða þannig að þeir sem halda fram rangfærslum varðandi loftslagsmálin og eru staðnir að verki við það grípa til þess að leika fórnarlömb fyrir það eitt að þurfa að hlusta á að einhver segi að þeirra fullyrðingar séu rangar (ó, hin viðkvæmu blóm afneitunarinnar). En á sama tíma þá er auðvitað fullkomlega eðlilegt í þeirra heimi að fullyrða að tugþúsundir vísindamanna séu að ljúga og séu bara að þessu til að græða persónulega og það sé verið að fela sannleikann bara til að leggja skatta á allan hinn saklausa almenning sem á sér einskis ills von (auðvitað er það góðmennskan ein hjá þeim)! En það er eins og það er, en auðvitað ber okkur að opinbera rangfærslur afneitunarinnar og ekki leyfa þeim að komast upp með mistúlkanir, samsæriskenningar og innantómar fullyrðingar án þess að opinbera vitleysuna. Fullyrðingar afneitunarinnar verða ekki að sannleika þó þær séu endurteknar þúsundum sinnum, sem mig grunar reyndar að þau haldi sjálf. Endurómur bergmálshellis afneitunarinnar er sterkur og hefur staðið yfir í tugi ára. Í lokin fór hún að segja að ég ætti að virða skoðanir annarra (s.s. hennar), en það er eins og að biðja um að allar skoðanir séu jafn réttháar, alveg sama hverjar þær eru. Samkvæmt því þá hafa t.d. 9/11 samsæriskenningar fullkomið vægi af því að einhver hefur þá skoðun, flatjarðarkenningar eru væntanlega líka fullkomlega eðlilegar og við eigum að bera virðingu fyrir þeim þar sem einhver hefur þá skoðun, hugmyndir um falsaðar tunglferðir hljóta líka að vera virðingarverðar enda getum við fundið einhvern með þá skoðun o.s.frv. Ég ber að sjálfsögðu virðingu fyrir því að við búum við skoðanafrelsi, en það þýðir ekki að ég þurfi að bera virðingu fyrir samsæriskenningum og rangfærslum bara af því að einhver hefur þá skoðun og telur hana hafa sama vægi og vísindagreinar, mælingar og rannsóknir.
Gagnrýnin
Það sem ég hef m.a. gagnrýnt varðandi umræðuna er einmitt það þegar samsæriskenningarnar eru settar upp með sama vægi og vísindin, s.s. eins og að þetta sé eitthvað 50:50 dæmi sett upp í einhverskonar morfískeppnisstíl. Þegar ég hafði samband við þá félaga á Harmageddon, þá gagnrýndi ég það að Erna hefði fengi hálfgert drottningarviðtal þar sem hún fékk pláss til að fara með mistúlkanir, rangfærslur og samsæriskenningar óátalið og án sjáanlegrar gagnrýni frá þáttastjórnendum. Þeir svöruðu því sem svo að þeir væru engir sérfræðingar, sem er svo sem gott og blessað og þeir þurfa ekki að vita allt. En það er þó ágætt í okkar nútíma heimi að útvarpsfólk með yfir áratuga reynslu kannist við aðferðafræði afneitunarinnar og vonumst við til þess að þeir félagar taki sig til og lesi leiðarvísinn sem ég gaf þeim og jafnvel þessa grein hér og kynni sér málin þannig að þeir þurfi ekki að spyrja “eins og saklaus börn” sem hafa aldrei heyrt um afneitun loftslagsvísinda áður. Mér fannst eins og að þeir áttuðu sig á líkingu 9/11 samsæriskenningana og aðferðafræði loftslagsafneitunarinnar í viðtalinu og það er þá allavega skref í rétta átt ef það var tilfellið.
Annars var mín nálgun að reyna að hafa áhrif á þá félaga Frosta og Mána, Erna er algjört aukaatriði í þeirri viðleitni minni, og að fá þá til að hugsa gagnrýnið varðandi það að bjóða til sín einhverjum sem einhliða afneitar vísindum og hafnar loftslagsvandanum. Ég hef fulla trú á því að þeir félagar hafi þá gagnrýnu hugsun sem þarf til að sjá í gegnum falskan málatilbúnað afneitunarinnar og þá allavega sýna þá viðleitni að reyna að kynna sér vel afneitun og hafa gagnrýni að leiðarljósi í sambandi við umræðu sem byggir á afneitun. Loftslagsváin er stærsti vandi mannkyns nú um stundir og ég persónulega neita að gefa afneituninni frjálsar hendur til að mistúlka og afvegaleiða umræðuna um loftslagsvandann. Loftslagsvandinn er of stórt mál til að við gefum afneiturum frítt spil. Afneitun hefur núna fengið frítt spil í meira en 3 áratugi, nú er kominn tími til að allir verði mjög gagnrýnir á afneitunina, jafnvel þó að það hafi áhrif á átakalínur í svokölluðu “góðu útvarpi”.
Tengt efni á loftslag.is
- Eru vísindamenn ekki sammála?
- Fimm einkenni loftslagsafneitunar
- Hraðari hnattræn hlýnun og samsæriskenningar
- Samhljóða álit vísindamanna styrkist
- Kaupmenn vafans (gestapistill)
Leave a Reply