Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Fuglar í vanda

    Fuglar í vanda

    Nokkrar nýjar greinar og skýrslur undanfarið sýna klárlega að vandi fugla er mikill og verður enn meiri við áframhaldandi loftslagsbreytingar og aðrar neikvæðar breytingar af mannavöldum.

    Rauði listinn

    toco-toucan-wild-reallySamkvæmt nýju mati þá er á bilinu fjórðungur til helmingur allra tegunda fugla  mjög berskjölduð (e. vulnerable) fyrir loftslagsbreytingum. Varað er við því að ef áfram heldur sem horfir í losun manna á gróðurhúsalofttegundum,  þá muni þurfa að kosta til miklum verndunaraðgerðum, sem ekki er víst að dugi til.

    Þetta nýja mat (Foden o.fl. 2013) var gert af vísindamönnum á vegum International Union for Conservation of Nature (IUCN), sem eru samtök sem meðal annars útbúa svokallaðan Rauða lista yfir tegundir í hættu (Red List of Threatened Species).

    Í matinu tóku Foden og félagar tillit til ýmissa þátta sem ekki höfðu áður ratað inn í útreikninga þeirra. Þættir eins og hversu fljótt tegundir gátu flust á milli búsvæða, og hvort á milli svæða væru hindranir, t.d. fjallgarðar. Þá var tekið með í reikninginn líkur á því að tegundirnar geti þróast, t.d. þróast þær dýrategundir hraðar sem fjölga sér hratt.

    Niðurstaðan er sláandi, en á bilinu 24 -50% allra fuglategunda eru talin mjög berskjölduð og þá vegna loftslagsbreytinga. Þessi niðurstaða er sambærileg við niðurstöðu rannsóknar sem birtist í Nature fyrir nokkrum árum (Thomas o.fl. 2004), en þar var talið líklegt að um 15-37 % allra dýrategunda yrðu nánast údauðar árið 2050 – vegna loftslagsbreytinga.

    Sérstaklega varasöm svæði eru t.d. Amazon frumskógurinn og Norðurskautið, en þar eru breytingarnar einna mestar og mikið af fuglum sem eru mjög aðlagaðir að því loftslagi.

    Norrænir fuglar við sjávarsíðuna

    Í nýrri tilkynningu frá hinni bandarísku  stofnun Fish and Wildlife Service (USFWS 2013) er sagt frá breytingum sem við íslendingar könnumst við. Meðfram ströndum Maine, nyrst á Austurströnd Bandaríkjanna, hafa stofnstærðir ýmissa fugla hrunið undanfarin ár. Þar eins og hér við Íslandsstrendur eru það meðal annars tegundir eins og lundar og kríur sem hafa farið halloka.

    Ástæðan er talin vera minnkandi fæða, hvoru tveggja vegna fiskveiða og vegna færslu fiskistofna til norðurs vegna hlýnunar sjávar. Erfiðara reynist því fyrir fugla við sjávarsíðuna að fæða unga sína. Kríustofninn við strendur Maine hefur t.d. hnignað um 40 % á síðustu 10 árum.

    Sjávarstöðubreytingar og farflug vaðfugla

    Nýlega birtist grein í Proceedings of the Royal Society B (Iwamura o.fl. 2013) um áhrif sjávastöðubreytinga á farflug vaðfugla.

    Red-Knot-Terek-Sandpipers-Broad-billed-Sandpipers-etcÞað hefur verið vitað í nokkurn tíma að sjávarborð sé að hækka vegna hlýnunar jarðar. Nú hafa Iwamura og félagar sýnt fram á hvernig sjávarstöðubreytingar hafa áhrif á vaðfugla. Milljónir vaðfugla stunda farflug milli hlýrra vetrarstöðva og fæðuríkari sumarstöðva á hverju ári. Viðfangsefni rannsóknarinnar var farflug vaðfugla frá Norðurskautssvæðum Rússlands og Alaska og suður eftir til Suðaustur Asíu og Ástralíu. Skoðaðar voru 10 tegundir vaðfugla.

    Vísindamennirnir hafa áætlað að við sjávarstöðuhækkanir þá muni flæða yfir 23-40% af búsvæðum við ströndina, sem myndi valda allt að 70% fækkun í stofnum sumra tegunda. Sjávarstöðuhækkanir eru taldar hafa mest áhrif á þær tegundir fugla þar sem stór hluti stofnsins stoppar á einum stað í farfluginu, til að matast og endurnýja orkuna fyrir áframhaldandi för. Þessir flöskuhálsar ákvarða í raun stofnstærð þessara tegunda og því mun eyðilegging þeirra vegna sjávarstöðuhækkanna og annarra athafna mannanna hafa úrslitaáhrif í viðhaldi þeirra.

    Fleiri búsvæðabreytingar

    Að lokum er rétt að minnast á skýrslu BirdLife International (2013), en þar kemur meðal annars fram að allt að 1 tegund af hverjum 8 séu í útrýmingahættu – og þá sérstaklega vegna búsvæðabreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga og landbúnaðar.

    BirdLife samstarfið hefur sett niður á kort mikilvæg svæði jarðar fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas). Þau svæði eru nú orðin yfir 12 þúsund að tölu.

    Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) - smellið á mynd til að stækka
    Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) – smellið á mynd til að stækka

    Við endum á orðum eins af forsvarsmönnum BirdLife, Dr Leon Bennun – hér lauslega þýtt:

    Fuglar eru í raun nákvæmir og auðlæsir umhverfismælar sem sýna glöggt það álag sem lífsmynstur nútímamanna hefur á líffræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar.

     

    Heimildir og ítarefni

    Foden o.fl. 2013: Identifying the World’s Most Climate Change Vulnerable Species: A Systematic Trait-Based Assessment of all Birds, Amphibians and Corals

    Rauði Listinn: Red List of Threatened Species

    Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change (PDF)

    USFWS 2013:  Seabirds Warn of Ocean Change

    Iwamura o.fl. 2013: Migratory connectivity magnifies the consequences of habitat loss from sea-level rise for shorebird populations

    BirdLife International 2013: State of the World’s Birds – indicator for our changing worlds

    Tengt efni á loftslag.is

  • Leyndardómur sífrerans

    Leyndardómur sífrerans

    Ný sérhönnuð flugvél á vegum NASA, flýgur þessi misserin hægt og lágt yfir landsvæði Alaska norðan heimskautsbaugar. Hér er um að ræða vél sem notuð er í verkefni sem kallað er Carbon in Arctic Reservoirs Vulnerability Experiment (CARVE), en það er fimm ára rannsókn sem á að varpa ljósi á hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á kolefnishringrás norðurslóða.

    Í vélinni eru nemar sem greina losun á gróðurhúsalofttegundunum CO2 og metangasi úr þiðnandi sífrera.

    Svæði með sífrera ná yfir nærri einn fjórða af meginlöndum norðurhvels jarðar. Verkefnið CARVE (Carbon in Arctic Reservoirs Vulnerability Experiment) sem er á vegum NASA skoðar sífrera norðan við heimskautsbaug í Alaska til að kanna losun á CO2 og methani úr þiðnandi sífrera.Mynd: Hugo Ahlenius, UNEP/GRID-Arendal
    Svæði með sífrera ná yfir nærri einn fjórða af meginlöndum norðurhvels jarðar. Verkefnið CARVE (Carbon in Arctic Reservoirs Vulnerability Experiment) sem er á vegum NASA skoðar sífrera norðan við heimskautsbaug í Alaska til að kanna losun  á CO2 og metani úr þiðnandi sífrera.Mynd: Hugo Ahlenius, UNEP/GRID-Arendal

    Neðanjarðar

    Sífreri, frosinn jarðvegur, er víða neðanjarðar á norðurskautinu. Á hverju sumri þá þiðnar efsti hluti jarðvegsins, mismikið þó. Þar sem er hvað kaldast þiðnar einungis tæplega 10 sentimetra lag, en þiðnunin getur verið nokkrir metrar á hlýrri svæðum. Í þessu efsta lagi jarðvegsins, lifa plöntur norðurskautsins. Hið kalda og blauta loftslag norðurskautsins kemur í veg fyrir að plöntur og dýr nái að rotna, þannig að á hverju ári þá bætist í sarpinn lífrænt kolefni, sem svo sekkur niður í sífrerann.

    Þýdd skematísk mynd úr grein Schaeffer o.fl. 2011 sem sýnir magnandi svörun við bráðnun sífrera.
    Þýdd skematísk mynd úr grein Schaeffer o.fl. 2011 sem sýnir magnandi svörun við bráðnun sífrera.

    Á nokkrum hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum ára , hefur jarðvegur sífrera norðurskautsins, safnað miklu magni af lífrænum kolefnum – sem metið er að sé á milli 1.400-1850 petagrömm (petagramm er einn milljarður tonna). Það er um það bil helmingur alls lífræns kolefnis sem jarðvegur jarðarinnar geymir. Til samanburðar þá hafa um 350 petagrömm af kolefni verið losuð við bruna jarðefnaeldsneytis frá 1850.  Mikill hluti þessa lífræna kolefnis er í efstu þremur metrunum sem er hvað viðkvæmastur fyrir þiðnun.

    Talið er að forskeytið sí í sífrera fari brátt að heyra sögunni til – en norðurskautið og þar með jarðvegur sífrerans er að hlýna hraðar en önnur svæði jarðar. Hlýnunin sem nær smám saman dýpra og dýpra, gerir þessar kolefnisbirgðir óstöðugar og getur losað þær út í andrúmsloftið í formi CO2 og metangass og þar með aukið á gróðurhúsaáhrifin og hlýnun.

    Núverandi loftslagslíkön ná ekki fullkomlega að herma hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á sífrera, né þá hvernig sífrerinn muni hafa áhrif á staðbundið og hnattrænt loftslag. Því er mikilvægt að reyna að mæla breytingar þær sem nú eru að gerast til að hægt sé að áætla meir um framtíðina.

    Með fyrrnefndu verkefni, CARVE, sem nú er á sínu þriðja ári er einmitt verið að auka þekkingu og skilning á því hvernig vatns- og kolefnishringrás norðurskautsins tengist loftslagi. Hingað til hefur vitneskja okkar um hvernig sífrerinn bregst við hlýnuninni, verið takmörkuð.

    Í flugvélinni eru háþróuð tæki sem “lykta” af andrúmsloftinu í leit sinni að gróðurhúsalofttegundum. Einnig eru nákvæmar litrófsmyndavélar sem greina hvernig sólarljós endurkastast frá yfirborði jarðar og mælir þannig styrk CO2, metans og CO í andrúmsloftinu. Þær mælingar eru kvarðaðar með mælingum við jörðu á nokkrum lykilstöðum. Á þessum lykilstöðum eru tekin loftsýni auk mælinga á raka í jarðvegi og hitastigi, til að ákvarða hvort jarðvegurinn er frosinn, þiðinn eða vatnssósa.

    Ekki eru allar gróðurhúsalofttegundir jafnar

    Svarthvít mynd tekin með Gambit gervihnettinum árið 1966 (vinstri) sýnir sífrera með stökum runnum, en mynd tekin árið 2009 (hægri) sýnir mun þéttvaxnari runna.Myndir frá U.S. Geological Survey.
    Svarthvít mynd tekin með Gambit gervihnettinum árið 1966 (vinstri) sýnir sífrera með stökum runnum, en mynd tekin árið 2009 (hægri) sýnir mun þéttvaxnari runna.Myndir frá U.S. Geological Survey.

    Það er mikilvægt að flokka jarðveginn og hver staðan er í yfirborðinu. Það er fylgni milli jarðvegsgerða og hvernig hann losar CO2 og metan. Jarðvegur norðurskautsins hefur í gegnum tíðina bundið meira af kolefni en hann hefur losað. Ef loftslagsbreytingar gera norðurskautið heitt og þurrt, þá búast vísindamenn við að þau muni losa kolefni í formi CO2. Hins vegar ef það hlýnar og verður að auki blautara, þá muni losunin verða að mestu leyti metan.

    Munurinn þar á milli er mikill. Ef borið er saman, sami fjöldi mólikúla af CO2 og metani, þá er metan 22 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en CO2 á 100 árum – en 105 sinnum áhrifameiri ef tekið er 20 ára tímabil. Því er mikilvægt að vita í hvaða magni metan og CO2 losna úr sífreranum. Aðrir mikilvægir þættir sem rannsakaðir eru og hafa áhrif á losun sífrerans, er t.d. tímasetning vorleysinga og lengd þess tímabils sem gróður vex – en það eru þættir sem hafa áhrif á hvort ákvæðin svæði losa eða binda kolefni.

    Fyrstu niðurstöður

    Niðurstöður streyma inn og segja vísindamenn að nú þegar sé ljóst að losunin á metani og CO2 er önnur en líkanareikningar gerðu ráð fyrir. Á stórum svæðum í miðhluta og norður Alaska var meira útstreymi á CO2 og metani úr jarðveginum, en venjulegt getur talist. Sem dæmi var mikið streymi á metani úr mýrum Innoko víðáttunnar og urðu mæligildin á tímabili um 650 ppb hærri en bakgrunnsgildin.

    Líklega munu áframhaldandi rannsóknir á sífreranum auka skilning okkar á því hvort einhvern  vendipunkt (e. tipping point) er að finna í sífreranum, þ.e. hvort hætt sé við að hlýnunin verði það mikil að ekki verði aftur snúið og að sífrerinn taki til við að auka á gróðurhúsaáhrifin óháð okkur mönnunum.

    Víða streymir metan

    Metan sreymir víða úr jarðlögum, meðal annars frá landbúnaði og nú nýlega hefur orðið vart við mikið uppstreymi af sjávarbotni norður af Síberíu (frétt á RÚV). Styrkur metans í andrúmsloftinu hefur verið að aukast jafnt og þétt og er nú orðinn 1800 ppb (parts per billion) en fyrir iðnbyltinguna var styrkur þess í kringum 700 ppb.  Eins og kemur fram í fréttinni um uppstreymið norður af Síberíu, þá er talið að fyrir um 55 milljónum ára (PETM – Paleocene Eocene Thermal Maximum) hafi orðið mikið streymi metans úr metangeymum jarðar. Sá atburður jók hitann um nokkrar gráður, auk þess sem mikill fjöldaútdauði varð hjá sjávarlífverum, vegna súrnunar sjávar (sem var vegna auksins CO2 í andrúmsloftinu). Þó sá atburður hafi verið hraður þá er talið að nú séu úthöfin að súrna 10 sinnum hraðar.

    Hvort og hvenær streymi metans úr sífrera á landi eða hafsbotni fer að nálgast hættuleg mörk eru upplýsingar sem við höfum varla efni á að bíða eftir – svo alvarlegt er það ef farið verður yfir þá vendipunkta. En víst er að á meðan þjóðir heims ströggla við að finna lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá styttist óhjákvæmilega í þá vendipunkta.

    Heimildir og ítarefni

    Þessi færsla er að hluta unnin upp úr heimasíðu NASA Jet Propulsion Laboratory: Is a Sleeping Climate Giant Stirring in the Arctic?

    Heimasíða CARVE

    Schaefer o.fl. 2011  í tímaritinu Tellus: Amount and timing of permafrost carbon release in response to climate warming

    Tengt efni á loftslag.is

  • Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

    Stefna eða stefnuleysi nýrrar ríkisstjórnar varðandi loftslagsmál

    althingishusMikið hefur verið rætt um umhverfismálin og stefnu nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum að undanförnu. Vangaveltur um það hvort að umhverfisráðuneytið fái að lifa eður ei hafa verið áberandi og erfitt er að greina hver stefnan er í þeim efnum enn sem komið er. Það er alveg þess virði að prófa að rýna á málefnalegan hátt í þá stefnu sem stjórnvöld virðast ætla að marka þegar skoðaðar eru ýmsar opinberar yfirlýsingar og gögn um loftslagsmálin.

    Varðandi loftslagmálin, þá eru nokkur atriði sem hafa komið fram, til að mynda sagði háttsettur forsætisráðherra í stefnuræðu sinni:

    Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er eitt af helstu sameiginlegu viðfangsefnum heimsbyggðarinnar.

    Þar getur Ísland lagt mikið af mörkum og gert betur.

    Aukin uppbygging og endurheimt gróður- og jarðvegsauðlinda og efling skógræktar og landgræðslu mun auka kolefnisbindingu. Mikilvægt er að skipuleggja þær aðgerðir vel og stuðla um leið að nýtingu innlendra vistvænna orkugjafa.

    Svona yfirlýsingum er varla hægt annað en að vera sammála, þó manni geti í raun fundist að það þurfi að ganga lengra í varðandi það að minnka losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. En þó er ljóst að Sigmundur Davíð veit að loftslagsbreytingar [af mannavöldum] eiga sér stað og vill í orði berjast gegn þeim – sem er jákvætt. Í öðrum hluta stefnuræðunnar skoðar hann hin meintu tækifæri varðandi loftslagsbreytingar í framtíðinni:

    Mikilvægi matvælaframleiðslu á norðurslóðum mun aukast umtalsvert  í framtíðinni. Þar eiga Íslendingar ónýtt tækifæri, til dæmis með nýsköpun í landnýtingu, auknu fiskeldi og ylrækt.

    Sífellt vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum mun skapa íslenskum landbúnaði ótal sóknarfæri.

    Framleiðsluaukning í landbúnaði getur bæði minnkað gjaldeyrisþörf vegna innflutnings matvæla og gefið aukin tækifæri til útflutnings ef unnið verður kröftuglega að markaðssetningu íslenskra afurða erlendis á næstu árum og áratugum.

    [..]

    Þar þurfum við meðal annars að horfa til aukinnar  áherslu á samstarf við aðrar þjóðir varðandi  nýtingu nýrra tækifæra sem tengjast breyttu loftslagi, nýjum auðlindum og breyttum aðstæðum í heiminum á næstu áratugum.

    Ísland þarf að leggja áherslu á að vera í fararbroddi í norðurslóðasamstarfi,  með tilliti til nýtingar auðlinda á svæðinu, umhverfisverndar og opnunar nýrra siglingaleiða um norðurhöf.

    Ný tækifæri, eins og t.a.m. opnun siglingaleiða, aukin landbúnaðarframleiðsla og nýting auðlinda virðast vera aðal áhersluefnin. Þetta virðist ríma vel við stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, þar sem segir meðal annars í kaflanum um landbúnað að þar séu ýmis tækifæri (sem væntanlega má m.a. rekja til breytinga í loftslagi eins og Sigmundur kemur inná í stefnuræðu sinni):

    Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir.

    [..]

    Til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir matvælum og hækkandi verðlagi verður skipaður starfshópur til að móta tillögur um hvernig auka megi matvælaframleiðslu á Íslandi og tryggja að ávinningur af aukinni eftirspurn og sókn á nýja markaði skili sér í bættum kjörum bænda.

    Starfshópur mun fara yfir og móta tillögur byggðar á þeim tækifærum sem virðast gerðar væntingar til á næstu áratugum. Það er í sjálfu sér gott að vita hvað leynist í framtíðinni, svo langt sem það nær og það leynast alltaf einhver tækifæri í því að hafa sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Ef maður skoðar ályktanir flokksþings Framsóknarmanna [PDF], þá virðist ljóst að þessi tækifæri íslensk landbúnaðar séu vegna breytinga í loftslagi:

    Með hlýnandi loftslagi skapast ný og spennandi sóknarfæri. Aukin akuryrkja, nytjaskógrækt  og fjölbreyttari innlend matvælaframleiðsla er hluti af því að efla íslenskan landbúnað.

    “Spennandi sóknarfæri” eru því í pípunum þegar hlýnun jarðar er skoðuð út frá ályktunum flokksþings Framsóknarmanna. Það er kannski þess vegna sem að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er stefnt að því að:

    Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni.

    Ef það má notast við líkingu varðandi eldvarnir, það á s.s. að stefna að því í orði að koma eldvörnunum upp, en á sama tíma hella bensíni á eldsmatinn og svo vonast eftir “spennandi sóknarfær[um]” í framhaldinu. Þetta rímar ekki vel við þá stefnu að berjast gegn loftslagsbreytingum, eins og háttvirtur forsætisráðherra boðaði í stefnuræðu sinni.

    Varðandi hin “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði í hlýnandi heimi, þá er kannski ekki auðvelt að spá um hvað gerist staðbundið. Hér á Íslandi gætu válynd veður með kali í túnum eins og hafa átt sér stað víða um norðanvert landið í vetur sett strik í reikning hinna “spennandi sóknarfær[a]”. Það er því kannski fullmikil einföldun að fullyrða að hlýnandi loftslag innihaldi endilega “spennandi sóknarfæri”. Breytingar í loftslagi geta líka haft í för með sér neikvæðar breytingar sem erfitt getur verið að bregðast við. Það virðist vera í eðli stjórnmála að einblína á hlutina frá þeirri hlið sem kemur betur út fyrir stjórnmálin sjálf og forðast vandamál sem stjórnmálamönnum hugnast ekki að ræða og/eða almenningur vill ekki hugsa um. Þ.a.l. verður kannski seint reynt að skoða þessi mál með opnum huga á hinu háa Alþingi. Það virðist aðeins eiga að skoða hin “spennandi sóknarfæri” og sleppa neikvæðum hlutum eins og hvaða áhrif loftlagsbreytingar af mannavöldum geta í raun haft og á sama tíma á að stefna að því að stjórnvöld helli bensíni á eldsmatinn með stjórnvalds aðgerðum sem eiga að “stuðla að [..] nýting[u] hugsanlegra olíu- og gasauðlinda”.

    Það er mjög varhugavert að draga línuna á þann hátt að skoða aðeins aðra hlið málsins (og láta líka líta út fyrir að sú hlið sé full af “spennandi sóknarfær[um]”) en sleppa þeim vandamálum sem finna má þegar aðrar hliðar málsins eru skoðaðar. Það er væntanlega vandkvæðum bundið að alhæfa einhliða um aukna landbúnaðarframleiðslu og “spennandi sóknarfæri” þegar óvíst er hvað mun gerast í framtíðinni við hærra hitastig og meiri öfga í veðri. Öfgar í veðurfari eru ekki endilega líklegir til að búa til “spennandi sóknarfæri” í landbúnaði, þó ekki sé hægt að útiloka það staðbundið eða á tímabilum þegar öfgar eru minni. Það er líka ákveðið vandamál fyrir fiskveiðiþjóð eins og Ísland að heimshöfin súrni vegna losunar mannkyns á koldíoxíð. Það er vandamál sem gæti kippt stoðum undan fiskveiðum landsins til framtíðar – en stjórnmálamenn velja frekar að einblína á “spennandi sóknarfæri” sem í þeirra augum hljóta að vera framundan og eiga að styðja við hagvöxt og velsæld í landinu til frambúðar. Það getur vel verið að það séu tækifæri í stöðunni, en það má ekki útiloka umræðu um neikvæðar hliðar málsins eða mögulegar lausnir til frambúðar með fókus á minni losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda, lausnir sem ekki innihalda og ýta undir enn frekari olíu- og gasvinnslu.

    Hitt er annað mál að ég tel að umræða um þessi mál endurspegli að hluta til vilja og upplýsingu þjóðarinnar í þessum efnum og því ekki eingöngu hægt að kenna stjórnmálamönnum um að velja að fylgja straumnum án gagnrýninnar skoðunar á málinu. En það má þó benda málefnalega á mótsagnir í umræðunni og benda á að það ætti alls ekki að líta á loftslagsvandann sem sóknarfæri, heldur vandamál sem þarf að taka föstum tökum á heimsvísu – þar með talið okkar framlag hér á landi. Opin umræða um þessi mál þarf að fara fram og þarf að byggjast á því að skoða allar hliðar málsins – líka neikvæðar hliðar þess, þó það geti orðið erfitt og sé jafnvel ekki líklegt til vinsælda í kosningum.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Fiskitegundir eru að breyta útbreiðslu sína um úthöfin, vegna hlýnunar sjávar.  Áframhaldandi hlýnun getur haft neikvæð efnahagsleg áhrif, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Rannsóknin sem birtist í Nature (Cheung o.fl. 2013), notast við einskonar  úrvalsvísitölu (e. novel index) sem   fiskihitamælir. Með henni er hægt að finna vísbendingar um búferlaflutinga út frá aflatölum veiðiskipa. Í ljós kom töluverð færsla fiskitegunda milli búsvæða, sem var í góðum takti við loftslagsbreytingar.

    Hver fiskitegund hefur sitt ákveðna bil kjörhitastigs. Ef hitastig sjávar á ákveðnu svæði færist frá því bili, þá dregur úr vexti og æxlun misferst, sem smám saman fækkar einstaklingum tegundarinnar á því svæði og breytir smám saman útbreiðslu fiskitegundanna.

    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita  síðastliðin 100 ár. Mynd: Northeast Fisheries Science Center.
    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita síðastliðin 100 ár.
    Mynd: Northeast Fisheries Science Center.

    Við auknar loftslagsbreytingar, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, þá má búast við hraðari búferlaflutningum og illskeyttari deilum vegna færslu fiskistofna milli landhelga. Sem dæmi um stofna sem hafa færst til er þorskur, lýsingur, humar og sardínur út af Nova Scotia, þar sem stofn þeirra hverfur syðst af fyrrum kjörsvæðum tegundanna við færsluna norður. Í íslensku samhengi er skemmst að minnast makríls sem er orðinn ansi áberandi í íslenskri landhelgi.

    Með því að skoða aflatölur undanfarin 40 ár, úr 52 stórum sjávarvistkerfum, var hægt að reikna fyrrnefnda vísitölu, sem vísar í meðalsjávarhita veiða hverrar tegundar. Þegar búið var að taka með í reikninginn breytingar á veiðiaðferðum og sjávardýpi, þá fundu Cheung og félagar tölfræðilega marktæka tengingu milli breytinga í veiðihita og aukningu í yfirborðshita sjávar.

    Hitabeltið er sérstaklega viðkvæmt fyrir breytingum á hitastigi, þá vegna þess hversu lítið bil kjörhitastigs er hjá þeim tegundum sem lifa þar, sem þá flýja fljótt á hærri breiddargráður (til norðurs eða suðurs). Þar koma þá engar nýjar tegundir inn til mótvægis við þær tegundir sem flýja hitann.

    Á hærri breiddargráðum eykst að sama skapi fjöldi hlýsjávartegunda á kostnað kaldsjávartegunda, sem flýja til hærri breiddargráða.

    Heimildir og ítarefni:

    Greinin í Nature, eftir Cheung o.fl. 2013 (ágrip): Signature of ocean warming in global fisheries catch
    Grein Nye o.fl. 2009 (ágrip): Changing spatial distribution of fish stocks in relation to climate and population size on the Northeast United States continental shelf
    Umfjöllun á Climate Central: As Oceans Warm, Fish Are Finding New ZIP Codes

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar, án tölvulíkana og IPCC

    Loftslagsbreytingar, án tölvulíkana og IPCC

    Hér má sjá nýjasta myndband Peter Hadfield (Potholer54), en þar sýnir hann ljóslega fram á að hægt er að sýna fram á loftslagsbreytingar af mannavöldum án þess að notast  við loftslagslíkön eða IPCC (án þess þó að gera lítið úr þeim til að skerpa heildarmyndina).

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • 400

    400

    Það hefur legið í loftinu í þó nokkurn tíma að 400 ppm CO2 gildið í andrúmsloftinu myndi falla á hinni víðfrægu Mauna Loa mælistöð á Havaí. Það hefur nú gerst og mældist styrkur CO2 yfir 400 ppm á stöðinni á Havaí. Það er ekki talið að gildi CO2 hafi verið svona hátt í allavega 800 þúsund ár, jafnvel allt að 15 milljón ár. Fyrir iðnbyltinguna var meðalgildi CO2 í andrúmsloftinu um 280 ppm og hafði þá sveiflast á bilinu 180 ppm til 280 ppm síðastliðin 800 þúsund ár, sjá mynd.

    5_10_13_news_andrew_co2graphic-600x338

    Það er ekki til algilt svar um það hvenær styrkur CO2 í andrúmsloftinu var síðast svona hár, en rannsóknir sýna að það gæti verið á bilinu 800 þúsund til 15 milljón ár síðan þetta gerðist síðast. Talið er líklegt að þetta gæti hafa gerst á Plíosen tímabilinu, fyrir um 2 til 4,6 milljónum ára. Þess má geta að siðmenning nútímamannsins byrjaði fyrir um 12 þúsund árum síðan – þannig að gildi CO2 hefur ekki verið hærra í sögu mannkyns. Nýlegar rannsóknir sýna að það gæti verið enn lengra síðan gildi CO2 fór hærra, eða um 10-15 milljónir ára.

    Um miðja öldina gæti styrkur CO2 verið orðin um 450 ppm, fer eftir því hvernig þróun losunar verður.

    Heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Bill McKibben, 350.org og loftslagsbreytingar

    Bill McKibben, 350.org og loftslagsbreytingar

    bill_mckibbenEinn áhrifamesti fyrirlesari um loftslagsbreytingar, Bill McKibben heldur opinn fyrirlestur í boði Landverndar, Norræna hússins og námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni “Frá vitund til verka” um hugarfarsbreytingu í umhverfismálum og fer fram í Háskólabíó, SAL 1, sunnudaginn 5. maí kl. 12:30. Ef þið hafið möguleika, vinsamlega skráið ykkur á Facebook viðburð sem hefur verið stofnaður um fyrirlesturinn – en annars bara mæta, þetta er opinn viðburður.

    Bill McKibben er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Samtökin hafa samhæft um 15 þúsund fjöldafundi í 189 löndum síðan 2009.

    Bill McKibben er höfundur bókarinnar „The End of Nature“ sem var ein fyrsta bók fyrir almenning um loftslagsbreytingar. McKibben skrifar í fjölmörg tímarit, m.a. The New York Times, The Atlantic Monthly, Rolling Stone og Outside. Hann kemur fram út um allan heim og er afar vinsæll og áhrifamikill fyrirlesari. Time Magazine hefur útnefnt hann sem „The planet’s best green journalist“ og árið 2010 skrifaði Boston Globe að hann væri „probably the country’s [US] most important environmentalist“.

    Hér að neðan eru linkar á upplýsingar um McKibben og um 350.org.

     

  • Sjónrænt hvarf hafíssins

    Sjónrænt hvarf hafíssins

    hafislagmark_1979-2012Í þessu fróðlega myndbandi, sem Andy Lee Robinson gerði, er með sjónrænum hætti sýnd þróun hafíslágmarksins frá árinu 1979 til 2012. Hafíslágmarkið á sér stað í september á ári hverju og hann skoðar hvernig rúmmál hafíslágmarksins hefur verið í september ár hvert. Höfundur myndbandsins samdi sjálfur og lék píanótónlist fyrir myndbandið sem hann kallar “Ice Dreams” (Ísdraumar).

    Hraði hafísbráðnunar hefur verið gríðarlegur. Síðan 1979 hefur rúmmál hafísins minnkað um 80% og er að bráðna hraðar en vísindamenn töldu að gæti gerst og jafnvel meira en talið var mögulegt á þessum tíma. Það er talið mögulegt að fyrsta hafísfría sumarið á Norðurskautinu geti jafnvel orðið veruleiki á árunum 2016 – 2022.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Loftslagskosningar 2013

    Loftslagskosningar 2013

    althingi_kosningar_2013Kosningarnar 2013 virðast ekki fjalla mikið um umhverfismálin, hvað þá loftslagsmálin, í hugum kjósenda og frambjóðenda almennt. Það eru önnur mál sem virðast vera ofarlega í huga fólks og frambjóðenda og ýmis tilboð svo og gylliboð sett fram til að fá atkvæðabært fólk til að setja X-ið við hin ýmsu framboð. Umhverfismálin eru þó almennt málefni sem við ættum að taka alvarlega og hafa ofarlega í huga fyrir kosningar – enda mikilvægt málefni. Það eru aðilar sem hafa reynt að setja þessa umræðu í forgang kjósenda, með því m.a. að spyrja stjórnmálaöflin spurninga um þeirra stefnu og birt opinberlega.

    Okkur á ritstjórninni langar að nefna tvö verkefni sem hafa haft frumkvæði að því að setja umhverfi og loftslag á kortið fyrir þessar kosningar. Fyrst má nefna félag 5 guðfræðinga sem hafa krafist svara um m.a. loftslagsmál og olíuvinnslu – Guðfræðingar krefjast svara. Þau spurðu framboðin um Drekasvæðið, loftslagsvandann og flóttamannamálin og nú þegar aðeins einn dagur er til kosninga þá hafa eftirfarandi framboð svarað – svör má sjá í tenglunum:

    Svör hafa ekki borist frá eftirtöldum framboðum:

    • Framsóknarflokkurinn
    • Hægri græn
    • Píratar
    • Sjálfstæðisflokkurinn

    Það eru fleiri framboð sem bjóða fram og hafa þau væntanlega heldur ekki sent svör, en listinn er af FB-síðu guðfræðinganna. Það er hægt að lesa bréf guðfræðinganna á Facebook síðu þeirra, sjá hér. Guðfræðingarnir völdu að orða þann hluta bréfsins sem fjallar um loftslagsvánna svo:

    Því hefur verði haldið fram að sú loftslagsvá sem nú steðjar að jarðarbúum sé brýnasta áskorun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Við erum því sammála. Þessi staða kallar á bráða úrlausn á ýmsum vandamálum sem lúta að réttlátri skiptingu jarðargæða og heimsskipan, sem og friðsamlegri sambúð þjóða heims. — Þetta eru hin raunverulegu viðfangsefni stjórnmálanna á 21. öldinni. Eruð þið undir það búin að taka þátt í lausn þeirra?

    [..]

    Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gert verði í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?

    Hitt verkefnið sem okkur langar að benda á er xUmhverfisvernd (hægt er að sjá myndböndin í tenglinum), þar sem umhverfisverndarsamtök spyrja framboðin spurninga og birta á YouTube. Þar svara frambjóðendur frá framboðunum spurningum sem lúta að umhverfi og náttúru, m.a. um loftslagsbreytingar, Drekasvæðið og Norðurslóðir.

    Svör stjórnmálahreyfingana eru við spurningum eftirfarandi umhverfisverndarsamtaka:

    Það er virðingavert að einstaklingar og samtök reyni að koma loftslagsmálum og öðrum umhverfismálum á kortið fyrir kosningarnar.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Á þunnum ís – Thin Ice

    Á þunnum ís – Thin Ice

    Í tilefni af Degi jarðar í dag buðu Náttúruverndarsamtök Íslands og Vísindafélag Íslands, í samstarfi við Breska sendiráðið, til frumsýningar á kvikmyndinni “Thin Ice”. Sýnt var í Bíó Paradís og var myndin heimsfrumsýnd sama dag víða um heim.

    Thin Ice er heimildamynd um loftslagsrannsóknir þar sem vísindamönnum sem starfa að slíkum rannsóknum víða um heim – þar á meðal á báðum heimskautum, í Suður-Íshafi, Nýja Sjálandi, Evrópu og Bandaríkjunum – er fylgt eftir við störf þeirra um þriggja ára skeið. Þeir tala af hreinskilni um vinnu sína, vonir og ótta. Þessi nálgun höfunda myndarinnar, sem sjálfir eru vísindamenn, veitir nána innsýn í alþjóðlegt samfélag vísindamanna sem helga sig rannsóknum á loftslagi jarðarinnar. Um leið og veitt er innsýn í heim vísindamanna og fylgst er með þeim brennandi áhuga sem skín úr hverju andliti, þá rekur myndin í raun hversu góð þekkingin er – hvernig við vitum að CO2 er að hækka, hækka af mannavöldum, áhrif þess á hitastig og rakið hvernig hitastig er mælt. Þá er farið yfir framtíðarsýnina og hvernig sveiflur í hitastigi fortíðar benda því miður til hárrar jafnvægissvörunar loftslags (e. climate sensitivity).
    Þrátt fyrir slæmar horfur virðast vísindamenn almennt jákvæðir og bjartsýnir á að hægt verði að snúa þessari þróun við. En sjón er sögu ríkari:

    Lesa má meira um heimildarmyndina á vefsíðunni Thin Ice