Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Nýlega birtust mistúlkanir á erlendum vefmiðlum, sem hafa fengið að bergmála lítillega hér á landi.

    Þessar mistúlkanir byrjuðu á því að Breska Veðurstofan (Met Office) gaf út nýja spá um hnattrænan hita næstu 5 árin (mynd 1).

    Mynd 1: Mælt hnattrænt hitafrávik (svart, frá Hadley Centre, GISS og NCDC) ásamt spá um hitafrávik samanborið við tímabilið 1971-2000. Fyrri spár frá 1960, 1965, …, 2005 eru sýndar sem hvítar línur með rauðum skugga sem sýnir hvar 90% líkur er á að mæld gildi falli. Nýjasta spáin (blátt) byrjar í nóvember 2012.

    Í þessari spá er gert ráð fyrir minni ákafa í hlýnunni á næstu árum en spáð hefur verið undanfarið. Sem dæmi þá var spáin ögn hærri sem gefin var út í desember 2011. Breska Veðurstofan bendir á að samkvæmt báðum spám megi búast við hitastig sem verði nálægt því að slá met á næstu árum, hins vegar er munurinn á milli þessara spáa aukin þekking á staðbundnum sveiflum í yfirborðshita sjávar, á nokkrum stöðum m.a. í Kyrrahafinu, þótt aðrir þættir spili inn í.

    Í kjölfarið birtust yfirlýsingar  og umfjallanir í bresku pressunni, um að Breska veðurstofan væri búin að “viðurkenna” að hin hnattræna hlýnun af mannavöldum væri hætt. Þær umfjallanir höfðu að engu eitt aðalatriðið í spánni, en þar stóð (lauslega þýtt):

    “Spá þessi er um áframhaldandi hnattræna hlýnun, sem er að mestu leiti knúin áfram af styrkaukningu á gróðurhúsalofttegundum”

    Breska veðurstofan gerir því ráð fyrir því að þeir náttúrulegu þættir sem dempað hafa yfirborðshlýnun jarðar síðastliðin áratug (La Nina fasi ENSO og minni virkni sólar sem dæmi), geti haldið áfram að dempa hnattræna hlýnun næstu fimm árin. Þrátt fyrir dempun á hinni hnattrænu hlýnun vegna náttúrulegs breytileika, þá leikur enginn vafi á því að áframhaldandi hlýnun af mannavöldum á sér stað.

    Nú nýlega bjuggu snillingarnir í Skeptical Science til gott myndband þar sem útskýrt er glögglega hvaða áhrif eldvirkni (og sólvirkni) og sveiflur í La Nina/El Nino (ENSO) hefur á hnattrænt hitastig jarðar og hvað gerist ef þessi áhrif eru fjarlægð:

    Eins og sést á þessu myndbandi, þá bendir ekkert til þess að hnattræn hlýnun af mannavöldum hafi hægt á sér, þó náttúrulegir þættir hafi undanfarin ár náð að dempa hlýnunina. Þegar sú dempun gengur til baka er næsta víst að við taka óvenjuheit ár.

    Heimildir og ítarefni

    Þýtt og staðfært af heimasíðunni Skeptical Science: Resolving Confusion Over the Met Office Statement and Continued Global Warming

    Spá Met Office má lesa hér: Decadal forecast og nánari útskýring Updates to our decadal forecast

    Tengt efni á loftslag.is

  • Formaður VG snýst gegn meginmarkmiðum umhverfisverndar

    Formaður VG snýst gegn meginmarkmiðum umhverfisverndar

    Í aðdraganda loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna í Doha í lok síðasta árs kom fram að meðal iðnríkja hafði losun gróðurhúsalofttegunda aukist mest í Noregi eða um 38% s.l. 20 ár. Nú hyggst hinn vinstri-græni atvinnu- og nýsköpunarráðherra Íslands, Steingrímur J. Sigfússon, taka Noreg sér til fyrirmyndar. Við Morgunblaðið í dag segir hann, að „Þetta eru talsverð tímamót,“ og fagnaði aðkomu norskra að olíuleit á Drekasvæðinu.

    Steingrímur J. Sigfússon virðist – eða þykist vera – ómeðvitaður um þá niðurstöðu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (International Energy Agency) að þegar hefur fundist meiri olía en unnt verður að brenna ef takast á að ná því markmiði alþjóðasamfélagsins – og ríkisstjórnar Íslands – að halda hlýnun andrúmslofts jarðar innan vð 2°C að meðaltali. Alþjóðaorkumálastofnunin telur einsýnt að 2/3 jarðefnaeldsneytis verði að liggja ónýtt í jörðu til að takast megi að nokkur möguleiki sé á að ná þessu markmiði.

    No more than one-third of proven reserves of fossil fuels can be consumed prior to 2050 if the world is to achieve the 2 °C goal, unless carbon capture and storage (CCS) technology is widely deployed.

    This finding is based on our assessment of global “carbon reserves”, measured as the potential CO2 emissions from proven fossil-fuel reserves. Almost two-thirds of these carbon reserves are related to coal, 22% to oil and 15% to gas. Geographically, two-thirds are held by North America, the Middle East, China and Russia. 

    Tal Steingríms J. Sigfússonar um varfærni og virðingu gagnvart umhverfinu ber vott um tvískinnung. Formaður Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs hlýtur að vita að aukin vinnsla jarðefnaeldsneytis mun ekki einungis hafa í för með sér hættur fyrir viðkvæmt umhverfis norðurslóða heldur einnig torvelda mannkyni enn frekar það erfiða verkefni að koma í veg fyrir óafturkræfar loftslagsbreytingar.

    Náttúruverndarsamtök Íslands harma að formaður Vinstri grænna hafi ekki til bera hugrekki og siðferðisþrek til að fylgja þeirri loftslagsstefnu sem Ísland hefur markað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

    —–

    Til frekari upplýsingar:

    Í grein sem birtist í norska Dagbladet þann 29. september dregur yfirmaður Olíustofnunar Noregs (Norges Oljedirektorat) mjög í efa að unnt verði að nýta olíu á Drekasvæðinu.

    Bent er á að ferð norska olíumálaráðherrans til Íslands þá hafi helst verið “en politisk markering av norske interesser, snarere enn starten på et nytt norsk oljeeventyr.

    Þar segir ennfremur
    Troen på store og driveverdige olje- og gassfunn i Nordishavet utenfor Jan Mayen er så liten at Islands tildeling av letetillatelser i området avfeies av flere oljetopper som en «forhastet» eller «desperat» handling, for å tilføre landet kapital i kjølvannet av finanskrisen.

  • Jólakveðja

    Jólakveðja

    Við óskum lesendum okkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

    Það verður rólegt hér á loftslag.is yfir hátíðirnar, þó stöku pistlar geti ratað inn ef tilefni gefst. Við minnum á að töluvert lesefni er að finna hér á loftslag.is, sjá t.d. Leiðakerfi síðunnar og tilvísanir í ýmsar mikilvægar síður hér.

  • Vængjasniglar í vanda

    Vængjasniglar í vanda

    Nú þegar er skel sumra sjávarsnigla í Suðurhöfum byrjuð að eyðast upp vegna súrnunar sjávar, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Í  greiningu á vængjasniglum sem tekin voru í grennd við Suðurskautið árið 2008,  kom í ljós óvenjuleg rýrnun á skeljum dýranna, sem vísindamenn telja að séu mögulega vísbendingar um að súrnun sjávar af völdum aukins styrks CO2, sé nú þegar farin að hafa áhrif á viðkvæmustu sjávardýrin.

    Greiningar á rannsóknastofum hafa sýnt að súr sjór ógni tilveru margra sjávarhryggleysingja, líkt og skeldýra og kóraldýra – því geta þeirra til að mynda skel og utanáliggjandi beinagrind minnkar. Viðkvæmust eru dýr sem, líkt og vængjasniglar, byggja skeljar sínar úr aragóníti, en það er kalsíum karbónat sem er einstaklega viðkvæmt fyrir aukinni súrnun.

    Samkvæmt vísindamönnum, þá er pH stig úthafanna að lækka hraðar nú en nokkurn tíman síðastliðin 300 milljón ár.

    Heimildir og ýtarefni

    Greinin er eftir Bednaršek o.fl. 2012 og birtist í Nature Geoscience: Extensive dissolution of live pteropods in the Southern Ocean

    Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu NewScientist: Animals are already dissolving in Southern Ocean

    Tengt efni á loftslag.is

  • Með styrk frá Noregi?

    Með styrk frá Noregi?

    Í vikunni fagnaði formaður Vinstri Grænna, Steingímur J. Sigfússon, þátttöku Norðmanna í fyrirhugaðri olíuleit á Drekasvæðinu. Hann telur það styrkja verkefnið.

    Það gefur því aukið vægi og það er styrkur í að hafa Norðmenn okkur við hlið í þessu. Þeir búa enda yfir mikilli reynslu á þessu sviði, þá ekki síst í öllu sem snýr að öryggis- og umhverfismálum í tengslum við olíu- og gasvinnslu á hafi úti. Þannig að ég held að það sé akkur í því, auk þess sem við eigum náttúrlega mikið samráð við Noreg og erum með samkomulag við Norð- menn um skiptingu á Drekasvæðinu,“

    sagði Steingrímur J. í viðtali við Morgunblaðið.

    Norska fyrirmyndin?
    Olíuríkið Noregur hefur að undanförnun fengið á sig gagnrýni fyrir að tala með tungum tveim í loftslagsmálum og sitt með hvorri.

    Á sama tíma og norsk stjórnvöld verja gríðarlega háum fjárhæðum til bjargar regnskógum REDD+ og CDM-fjárfestingarverkefni í hreinni tækni í þriðja heims ríkjum sýna ný gögn að markmið norskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru enn langt undan.

    Noregur hefur stært sig af að skattleggja olíutekjur sínar til að fjármagna REDD+ og CDM-verkefni, að viðbættri rausnarlegri þróunaraðstoð. Nýjar tölur frá Alþjóðlegu orkumálastofnuninni (International Energy Agency, IEA) sýna að losun gróðurhúsalofttegunda í Noregi hefur aukist umtalsvert.

    Bård Vegar Solhjell, umhverfisráðherra, mun lenda í Doha síðar í vikunni á 18. loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna, til að kynna metnaðarfull markmið ríkisstjórnar sinnar til að vinna á loftslagsbreytingum, þ.m.t. 20 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda innan landamæra Noregs fyrir árið 2020, skuldbindingar um 500 milljóna dollara framlag á ári til að styðja við vernd regnskóga (REDD+), fjárframlög til að styrkja nýtingu endurnýjanlegrar orku í þróunarríkjum (CDM) og nokkrar milljónir dollara til að auðvelda aðlögun að breyttum heimi í kjölfar loftslagsbreyting; hin fátækari ríki heims augljóslega eiga bágt með að taka á vandamálum í kjölfar veðuratburða á borð við Sandy af sömu festu og Bandaríkin geta gert.

    Hvað sem því líður þá fela tölur IEA í sér að Noregur hefur fallið af stalli sem ofurhetja í umhverfismálum. Losun koltvísýrings frá eldsneytisbrennslu hefur aukist um 38 prósent frá árinu 1990 (viðmiðunar ár Kyoto-bókunarinnar), meira en öll önnur OECD-ríki nema Ástralía, sem lengi vel taldist meðal helstu loftslagsbófa.

    Meiri áhyggjum veldur að losunarspár fram til ársins 2020 sýna að losun gróðurhúsalofttegunda mun aukast og orsökin er losun frá olíu- og gasvinnslu og að brennslu þess konar eldsneytis hefur aukist verulega. Á móti kemur að annar iðnaðar á landi hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.

    Þessi þróun mun skaða hið góða orðspor Noregs í umhverfismáum. Vilji Noregur láta taka mark á sér duga ekki bara metnaðarfullar yfirlýsingar á alþjóðlegum ráðstefnum um hversu ábyrgir heimsborgarar Norðmenn séu. Slíkum yfirlýsingum verður að fylgja aðgerðir heima fyrir; aðgerðir sem fela í sér verulegan samdrátt í losun koltvísýrings.

    Steingrímur J. Sigfússon veit betur en við flest eftir marga og erfiða daga í fjármálaráðuneytinu að Ísland er ekki aflögufært um peninga í sama mæli og Noregur, jafnvel ekki samkvæmt höfðatölureglunni. Hvað varðar loftslagsstefnu væri óskandi að hann sækti fyrirmyndir sínar annað en til Noregs; að hann hefði siðferðisstyrk til að segja kjósendum sínum fyrir norðan að samkvæmt skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar geti mannkyni einungis nýtt þriðjung nýtanlegs jarðefniseldsneytis sem vitað er um fyrir árið 2050. Það er að segja, eigi mannkyninu að takast að halda hækkun hitastigs andrúmsloftsins innan við 2 gráður á Celsíus að meðaltali. Eru ekki Vinstri græn með okkur í því verkefni?

  • Saga loftslagsumræðunnar á 83 sekúndum

    Saga loftslagsumræðunnar á 83 sekúndum

    Á tímum hraða og tímaleysis, þá þarf stundum að hraðsjóða hlutina til að ná athygli. Það er væntanlega einhver vottur af sannleika í þessu myndbandi – en allavega fróðleg framsetning. Þess má geta að loftslagsráðstefnan COP18 er í gangi í Doha þessa dagana, en vegna tímaleysis og frekar lítilla væntinga til raunverulegra niðurstaðna þá verður væntanlega lítið fjallað um loftslagsfundinn í þetta skiptið. En allavega ekki missa af þessum 83 sekúndum, nokkuð athyglisverð nálgun:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára

    Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára

    Endurbirting


    Þýðing á umfjöllun í vefritinu Yale Environment 360.
    Súrnun sjávar er yfirleitt kallað hitt CO2 vandamálið

    Rannsóknaskipið Joides Resolution
    Rannsóknaskipið Joides Resolution

    JOIDES Resolution minnir óneitanlega á furðulegan blending olíuborpalls og flutningaskips. Það er þó í raun rannsóknaskip sem vísindamenn nota til að ná upp setkjörnum úr botni sjávar. Árið 2003 fóru vísindamenn í rannsóknaleiðangur með skipinu á Suðaustur Atlantshafið og náðu upp merkilegu sýni úr setlögum af hafsbotni.

    Þeir höfðu borað niður í setlög sem höfðu myndast á milljónum ára. Elsta setlagið var hvítt og hafði myndast við botnfall kalk-ríkra lífvera og svipar til kalksteins eins og sést í hamraveggjum Dover á suðurhluta Englands (White cliffs of Dover).

    Setkjarni sem sýnir setlög fyrir um 55 milljón árum. Skörp skil á milli karbónat skelja (ljósgrátt) og leirsets (rautt) benda til þess að skeljar hafi leysts upp vegna súrnunar sjávar þess tíma.
    Setkjarni sem sýnir setlög fyrir um 55 milljón árum. Skörp skil á milli karbónat skelja (ljósgrátt) og leirsets (rautt) bendir til þess að skeljar hafi leysts upp vegna súrnunar sjávar þess tíma.

    Þegar vísindamennirnir skoðuðu setlögin sem mynduðust fyrir um 55 milljón árum síðan, þá breyttist liturinn á augnabliki (jarðfræðilega séð).

    “Inn á milli í þessu hvíta setlagi er stór kökkur af rauðum leir” segir Andy Ridgwell, jarðfræðingur hjá Háskólanum í Bristol.

    Með öðrum orðum, hin smágerða skeldýrafána djúpsjávarins nánast hvarf. Flestir vísindamenn eru núna sammála því að þessi breyting hafi verið út af lækkun á pH gildi sjávar. Sjórinn varð það tærandi að stofnar sjávardýra með kalkskeljar hnignuðu töluvert. Það tók síðan hundruðir þúsunda ára fyrir úthöfin að jafna sig á þessu áfalli og fyrir sjávarbotninn að verða hvítan aftur.

    Leirin sem að áhöfn JOIDES Resolution drógu upp má líta á sem viðvörun um hvernig framtíðin getur orðið. Með þeirri miklu losun á CO2 sem nú er, þá er hætt við að sjórinn súrni líkt og þá.

    Fyrr í vikunni birtu Ridgwell og Schmidt rannsókn sína í tímaritinu Nature Geoscience, þar sem þau bera saman það sem gerðist í höfunum fyrir 55 milljón árum við það sem er að gerast nú. Rannsóknir þeirra staðfesta það sem aðrir vísindamenn hafa talið: Súrnun sjávar í dag er meiri og hraðari en nokkuð sem að jarðfræðingar hafa fundið í jarðlögum síðustu 65 milljónir ára. Reyndar ef skoðað er hraði súrnunar og styrkur – Ridgwell telur að núverandi súnun sjávar sé að gerast tíu sinnum hraðar en í upphafi útdauðans fyrir 55 milljónum ára – þá má búast við endalok margra sjávarlífvera, sérstaklega djúpsjávartegunda.

    “Þetta er næstum fordæmalaus jarðfræðilegur atburður,” segir Ridgwell.

    Þegar við brennum jarðefnaeldsneyti, þá dælum við CO2 út í andrúmsloftið, þar sem lofttegundin veldur gróðurhúsaáhrifum. En mikið af þessu CO2 helst ekki við í loftinu, heldur dregur sjórinn það í sig. Ef ekki væri vegna þess, þá telja loftslagsfræðingar að jörðin væri enn heitari en hún er í dag. Jafnvel þótt sjórin bindi mikið af CO2, þá var síðasti áratugur sá heitasti frá því mælingar hófust. En þessi kolefnisbinding sjávarins gæti reynst dýrkeypt, þar sem hún er að breyta efnafræði sjávar.

    Við yfirborð sjávar er er pH gildið venjulega um 8-8,3. Til samanburðar þá er hreint vatn með pH gildið 7 og magasýrur eru um 2. Í vökva er pH gildið ákvarðað út frá hversu mikið af jákvætt hlöðnum vetnisjónum eru flæðandi í efninu. Því meira af vetnisjónum, því lægra er pH gildið. Þegar CO2 binst sjónum, þá lækkar það pH gildi sjávar við efnahvörf.

    Það magn sem menn hafa losað út í andrúmsloftið af CO2, frá upphafi iðnbyltingarinnar hefur nú þegar lækkað pH gildið um 0,1. Það gæti virst lítið, en það er það ekki. Skalinn sem pH kvarðinn byggir á er lógaritmískur (veldisfall), sem þýðir að það eru tíu sinnum fleiri vetnisjónir í vökva með pH 5 heldur en í vökva með pH 6 – og hundrað sinnum meira en í vökva með pH 7. Það þýðir að fall um eingöngu 0,1 pH þýðir í raun að styrkur vetnisjóna í sjónum hefur aukist um 30% síðastliðnar tvær aldir.

    Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar. Mynd fengin af earthtrends.wri.org.
    Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar. Mynd fengin af earthtrends.wri.org.

    Til að komast að því hvernig súrnun sjávar muni hafa áhrif á líf í sjónum, hafa vísindamenn gert tilraunir í rannsóknarstofum þar sem þeir fylgjast með lífverum við mismunandi pH gildi. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa valdið áhyggjum – sérstaklega meðal lífvera sem nota kalk til að byggja brynju sína, líkt og hjá kóröllum og götungum. Aukið magn vetnisjóna við lægra pH gildi hvarfast við kalk sem breytir því í önnur efnasambönd sem gera dýrunum erfitt að byggja skel sína.

    Þessar niðurstöður þykja slæmar, ekki aðeins fyrir þessar ákveðnu tegundir dýra, heldur fyrir vistkerfin í heild sem þau eru hluti af. Sumar þessara tegunda eru mikilvægar fyrir heilu vistkerfin í sjónum. Smásæjar lífverur sem byggja kalkskel eru sumar hverjar undirstöðufæða skelja og fiska, sem síðar eru fæða stærri lífvera. Kórallar á hinn bóginn eru aftur heimkynni um fjórðungs líffræðilegs fjölbreytileika sjávar.

    En tilraunir á rannsóknastofum, sem ná yfir nokkra daga eða vikur, geta aldrei sagt til um það hvernig súrnun sjávar mun hafa áhrif á jörðina. “Það er ekki augljóst hvað þetta mun þýða í raunveruleikanum” segir Ridgwell.

    Ein leið til að fá meiri upplýsingar um mögulegar afleiðingar súrnunar sjávar er að skoða sjálfa sögu sjávar, sem er það sem Ridgwell og Schmidt gerðu í sinni athugun. Við fyrstu sýn þá virðist sagan segja okkur að ekki sé neitt til að hafa áhyggjur af. Fyrir hundruð milljónum ára var mun meira CO2 í andrúmsloftinu og pH gildi sjávar 0,8 einingum lægra en nú. Samt sem áður var mun meira af kalki fyrir götunga og aðrar tegundir. Það var á því tímabili sem sjávarskeldýr mynduðu kalksteininn sem varð að lokum að kalksteinsbjörgunum í Dover (White Cliffs of Dover).

    White Cliffs of Dover
    White Cliffs of Dover

    Það er þó stór munur á jörðinni nú og fyrir 100 milljónum ára. Þá breyttist styrkur CO2 í andrúmsloftinu hægt og á milljónum ára. Þessar hægu breytingar komu af stað öðrum efnahvörfum sem breyttu efnafræði jarðar. Þegar jörðin hitnaði, þá jókst úrkoma, sem gerði það að verkum að meira af uppleystum efnum flutu með farvegum frá fjöllum og niður í höfin, þar sem þau breyttu efnafræði sjávar. Þrátt fyrir lágt pH gildi, þá var nóg af uppleystu kalki í sjónum fyrir kóralla og aðrar tegundir.

    Í dag er styrkur CO2 að aukast svo hratt í andrúmsloftinu að það á sér fáar hliðstæður. Meiri veðrun samfara hlýnun, nær alls ekki að bæta upp þessa lækkun í pH gildi, næstu hundruðir þúsunda ára.

    Vísindamenn hafa grandskoðað steingervingagögn fyrir það tímabil í sögu fortíðar sem gæti hvað helst gefið okkur vísbendingar um það hvernig jörðin mun bregðast við þessum aukna styrk CO2 í andrúmsloftinu. Komið hefur í ljós að fyrir 55 miljónum ára gekk jörðin í gegnum svipaðar breytingar. Vísindamenn hafa áætlað að 6,8 billjónir tonna af kolefni hafi losnað út í andrúmsloftið á um 10 þúsund árum.

    Óljóst er hvað olli því að þvílíkt magn af kolefni barst út í andrúmsloftið, en það hafði töluverð áhrif á loftslagið. Hitastig jókst um 5-9°C og margar djúpsjávartegundir urðu útdauðar, mögulega vegna þess að pH gildi djúpsjávar lækkaði.

    Sveiflur í djúpsjó jarðar. Mynd a sýnir sveiflur í magni súrefnis18 samsætunni og hvenær jöklar á Suður- og Norðurhveli jarðar byrja að myndast. Mynd b sýnir túlkun á hitastigi djúpsjávar miðað við magn súrefnissamsæta í setlögum (Hansen o.fl. 2008). Rauð ör á efri myndinni sýnir PETM atburðinn fyrir 55 milljónum ára, þegar mikill útdauði sjávarlífvera varð (smella á myndina til að stækka).
    Sveiflur í djúpsjó jarðar. Mynd a sýnir sveiflur í magni súrefnis18 samsætunni og hvenær jöklar á Suður- og Norðurhveli jarðar byrja að myndast. Mynd b sýnir túlkun á hitastigi djúpsjávar miðað við magn súrefnissamsæta í setlögum (Hansen o.fl. 2008). Rauð ör á efri myndinni sýnir PETM atburðinn fyrir 55 milljónum ára, þegar mikill útdauði sjávarlífvera varð (smella á myndina til að stækka).

    En aðstæður við þessar fornu náttúruhamfarir (þekktar undir nafninu Paleocene-Eocene thermal maximum – PETM) eru ekki eins og þær eru í dag. Hitastig var hærra áður en kolefnissprengjan sprakk og pH gildi sjávar var lægra. Einnig var lega meginlandanna önnur en hún er í dag, vindakerfi lofthjúpsins önnur og sjávarstraumar aðrir. Allir þessir þættir hafa mikil áhrif á súrnun sjávar. Sem dæmi þá breytast áhrif lágs pH gildi á kalkmyndandi lífverur eftir þrýstingi og hitastigi sjávar. Neðan við visst dýpi sjávar, þá verður sjórinn of kaldur og þrýstingur of mikill að ekkert kalk er til staðar fyrir kalkmyndandi lífverur. Sá þröskuldur er kallaður mettunarlag (e. saturation horizon).

    Til að hægt yrði að gera almennilegan samanburð milli PETM og aðstæðna í dag, bjuggu Ridgwell og Schmidt til líkön af úthöfunum fyrir báða tímapunkta. Þau gerðu sem sagt sýndarútgáfu af jörðinni fyrir 55 miljónum ára og keyrðu líkanið þar til það það sýndi stöðugt ástand. Þá kom í ljós að pH gildi sem líkanið leiddi í ljós passaði vel við það sem áætlað hefur verið, fyrir höfin, fyrir 55 miljónum ára. Einnig bjuggu þeir til aðra útgáfu sem sýndi jörðina í dag – með núverandi legu meginlandanna, meðalhita og öðrum breytum. Þegar líkanið varð stöðug þá var pH gildið það sama og í dag.

    Ridgwell og Schmidt skeltu síðan í þessi líkön mikla innspýtingu af CO2. Þeir bættu 6,8 billjónir af kolefni á 10 þúsund árum á P’ETM tímabilinu. Með því að nota íhaldsamar spár um framtíðarlosun CO2 þá ákváðu þau að bæta við 2,1 billjón tonna af kolefni fyrir næstu aldir í líkanið fyrir jörðina eins og hún er í dag. Þau notuðu síðan líkönin til að áætla á hvaða dýpi kalk myndi leysast upp fyrir mismunandi dýpi sjávar.

    Munur milli þessara tveggja líkana var sláandi. Niðurstaðan var sú að súrnun sjávar nú er að gerast um tíu sinnum hraðar en fyrir 55 milljónum ára. Á meðan mettunarlagið fór upp í 1500 metra dýpi fyrir 55 milljónum ára, þá mun það að öllum líkindum ná upp í um 550 metra að meðaltali árið 2150 samkvæmt líkaninu.

    Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 og (b) við pH gildi 7,8 (mynd úr grein Comeau ofl)
    Sýnishorn af lifandi bertálkna (limacina helicina) (a) við pH gildi 8,09 og (b) við pH gildi 7,8 (mynd úr grein Comeau ofl)

    Súrnun sjávar á PETM var nógu öflug til að koma af stað viðamikilum útdauða í djúpsjónum. Í dag gerist súrnunin hraðar og telja vísindamennirnir að þær breytingar muni setja af stað nýja bylgju útdauða. Steingervingafræðingar hafa ekki fundið útdauða í kóröllum eða öðrum kalkmyndandi tegundum við yfirborð sjávar á PETM. En þar sem súrnun sjávar nú er mun meiri en þá, þá er ekki hægt að útiloka að hún muni hafa áhrif á lífverur á minna dýpi. “Við getum ekki sagt með vissu hver áhrifin verða á vistkerfi grunnsjávar, en það er næg ástæða til að hafa áhyggjur”, segir Ridgwell.

    Ellen Thomas, sérfræðingur í forn-haffræði í Yale University, segir að þessi nýja grein sé “mjög mikilvæg í sambandi við hugmyndir okkar um súrnun sjávar.” En hún bendir á að fleira hafði áhrif á lífverur sjávar á þessum tíma heldur en lækkun pH gildis. “Ég er ekki sannfærð um að þetta sé öll sagan,” segir hún. Hitastig sjávar jókst og súrefni í sjónum minnkaði. Saman þá höfðu allar þessar breytingar flókin áhrif á líffræði sjávar fyrir 55 milljónum árum síðan. Vísindamenn verða nú að ákvarða hvaða sameiginlegu áhrif þau geta haft í framtíðinni.

    Jarðefnaeldsneytis knúið samfélag okkar er að hafa áhrif á líf um alla jörðina, samkvæmt rannsókn vísindamanna eins og Ridgwell – jafnvel lífverur sem lifa á yfir þúsund metra dýpi verða fyrir áhrifum. “Umfang aðgerða okkar geta orðið alveg hnattrænar,” segir Ridgwell. Það er möguleiki að setlög sjávar sem myndast næstu aldir muni breytast frá því að vera hvítt kalk og yfir rauðan leir, þegar súrnun sjávar mun hafa varanleg áhrif á vistkerfi djúpsjávar. “Það mun gefa fólki eftir hunduðir milljóna ára eitthvað til að bera kennsl á samfélag okkar”.

    Ítarefni og heimildir

    Umfjöllunin sem notuð er í þessari færslu, má finna á heimasíðu Yale Environment 360: An Ominous Warning on the Effects of Ocean Acidification

    Greinina sjálfa má finna á heimasíðu Nature Geoscience (áskrift): Ridgwell og Schmidt 2010 – Past constraints on the vulnerability of marine calcifiers to massive carbon dioxide release

    Umfjallanir loftslag.is um Súrnun sjávar má finna hér: Súrnun sjávar Archive og Afleiðingar – Súrnun sjávar

    Þá viljum við minna á áhugaverðan fyrirlestur sem Jón Ólafsson haffræðingur mun halda laugardaginn 20. febrúar, en þar mun hann fjalla um súrnun sjávar auk annars – Sjór, súrnun og straumar.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir

    Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir

    Endurbirting

    Á síðasta ári kom út ítarlegur leiðarvísir hér á loftslag.is. Hann var unninn í samvinnu við við hina stórgóðu heimasíðu Skeptical Science. Það er leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, sem er íslensk þýðing á  The Scientific Guide to Global Warming Skepticism sem John Cook og félagar á Skeptical Science tóku saman.

    Við ritstjórar á loftslag.is unnum að þýðingunni með dyggri aðstoð góðra manna, en Halldór Björnsson og Emil H Valgeirsson lásu yfir textann og bættu málfar og orðaval.

    Við birtum hér aftur fyrsta kafla hans og vísum í næstu kafla í kjölfarið (sjá tengla í lok færslunnar).

    Hvað er efahyggja?

    Vísindalegur efi er heilbrigður. Vísindleg nálgun er grundvölluð á efa. Eitt einkenni heilbrigðrar efahyggju er að vega og meta sönnunargögnin í heild sinni áður en komist er að niðurstöðu. Annað er upp á teningnum þegar rök efasemdamanna um loftslagsbreytingar eru skoðuð. Oft á tíðum velja þeir úr þau gögn sem styðja fyrirfram gefna niðurstöðu, en líta framhjá þeim gögnum sem falla ekki að henni. Þetta telst ekki til efasemda, heldur nefnist það að hundsa vísindi og staðreyndir.

    Þessi leiðarvísir sýnir gögn sem benda til þess að athafnir manna valdi hnattrænni hlýnun. Einnig er skoðað hvernig mótbárur efasemdamanna um loftslagsbreytingar gefa villandi mynd með því að sýna einungis sérvalin brot af heildarmyndinni.

     

    Næstu kaflar

    Lesa má leiðarvísinn í heild hér:  Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, en þeir sem vilja skjótast í einstaka kafla hans og nálgast myndirnar á stafrænu formi er bent á eftirfarandi:

  • Áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á umhverfið og samfélag manna

    Áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á umhverfið og samfélag manna

    Fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 16 nóvember frá klukkan 15:00-17:00 í V101.

    Dagskrá:

    15.00 Orsakavaldar loftslagsbreytinga fyrr og nú
    Jón Egill Kristjánsson, prófessor við Oslóarháskóla
    15.30 Áhrif hnattrænna loftlagsbreytinga á jökla og sjávarborð
    Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands
    15.50 Áhrif loftslagsbreytinga á landvistkerfi á norðurhveli
    Bjarni D. Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
    16.10 Hitamál og kaldar tölur: Afneitun almennings og hættur loftslagshlýnunar
    Guðni Elísson, prófessor við Háskóla Íslands
    16.30 Umræður

    Fundarstjóri: Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða

  • Haparanda – Áskoranir

    Haparanda – Áskoranir

    Borpallar í Norðursjó

    Við komuna til Íslands er gott að líta til baka og skoða hvaða áskoranir þarf að athuga í sambandi við olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum í framtíðinni. Þess ber að geta að sjálfsögðu eru þetta mínar persónulegu nótur, en ekki niðurstaða málþingsins sem slík.

    Það má segja sem svo að öll hinna frjálsu félagasamtaka (NGO’s) á málþinginu í Haparanda setji einhverskonar spurningamerki við olíu- og gasvinnslu á norðurskautinu. M.a. eru rök um hnattræna hlýnun af mannavöldum nefnd, þar sem að aukin vinnsla olíu og gass á norðurslóðum geti mögulega framlengt þann tíma sem við værum háð kolefniseldsneyti og hugsanlega dregið úr áhuga á rannsóknum á öðrum orkugjöfum sem eru nauðsynlegir til að draga úr hnattrænni hlýnun í framtíðinni. Mengunarhætta var líka ofarlega í huga þátttakenda. Flest félagasamtökin gera ráð fyrir að vinnsla auðlinda á norðurskautinu sé veruleiki sem sé óumflýjanlegur (ekki öll þó) og velja því að reyna að vera með í ráðum varðandi það hvernig vinnslan ætti að fara fram, svo hún verði eins farsæl og hægt er. Það samstarf er því bæði við iðnaðinn og stjórnvöld. Það virðist vera sem ýmsum spurningum sé ósvarað þegar kemur að olíu- og gasvinnslu – til að mynda olíuvinnslu á borpöllum út af ströndum ríkja við norðurskautið. Áður en að vinnslu kemur (ef það er í raun hinn óumflýjanlegi veruleiki), þá þarf að mati margra að takast á við ýmis atriði sem skipta máli.

    Hér eru atriði sem ég tel mig geta dregið fram eftir málþingið – Ath. – aðeins er stiklað á stóru hér.

    • Það virðist þurfa að styrkja regluverk í kringum olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum, þannig að hagsmunaaðilar viti betur til hvers er ætlast til af þeim og hvaða rammar gilda um vinnsluna. Eitt af því sem var nefnt varðandi þetta atriði var að mismunandi regluverk eru í gildi og það er t.d. munur á regluverkinu í t.a.m. Noregi og Rússlandi, sem hugsanlega þyrfti að samræma.
    • Það virðist þurfa að koma á öflugu kerfi og áætlunum til að takast á við mengunarslys í sjó, þar sem að aðstæður til björgunar í Norðurhöfum eru ekki góðar í mörgum tilfellum og ekki sjálfgefið að það sé létt að þrífa upp eftir olíuslys langt frá helstu samgönguæðum til hafs og jafnvel á hafsvæði með hafís stóran hluta ársins. Þetta atriði virðist mjög mikilvægt, þar sem að vistkerfi norðurslóða geta verið mjög viðkvæm fyrir mengun. Samræming á milli landa varðandi mengunarslys var líka talið mikilvægt atriði.
    • Loftmengun var nefnd, bæði svokölluð “black carbon” mengun frá bruna á borpöllum og svo losun metans í sambandi við vinnslu, t.d. vegna vinnslu á gasi.
    • Almennt var líka talið að upplýsingar varðandi vistkerfi í norðurhöfum væri ábótavant. Til að mynda þurfi enn meiri upplýsingar um vistkerfin áður en hægt sé að taka ákvörðun um vinnslu og þá hvar. Jafnvel þarf að skilgreina einhver svæði sem lokuð svæði, þ.e. að vinnsla sé ekki leyfileg á skilgreindum svæðum vegna þess að svæðin væru skilgreind sem mikilvæg fyrir vistkerfið og þ.a.l. viðkvæm – m.a. vegna þess hvernig hafstraumar séu.
    • Talið er að stjórnsýslu sé að einhverju marki ábótavant. Til að mynda þyrfti að styrkja stjórnsýslu á milli landa – það er væntanlega einhver munur á stjórnsýslu í Noregi og Rússlandi.

    Hitt er svo annað mál að það er væntanlega töluverð gjá á milli frjálsra félagasamtaka og iðnaðarins varðandi hugmyndir um það hversu langt í ferlinu málið er komið og hversu langt sé í að hægt sé að hefja framleiðslu. Þar af leiðandi er væntanlega mögulegt að iðnaðurinn og félagasamtök séu ekki samstíga í því í hvaða takti ber að stíga í þessum málum, jafnvel þó svo að allir væru fullir vilja til samstarfs til að hefja ferlið.

    Norðurskautsráðið er vettvangur þar sem svona mál eru tekin upp og það er þar sem frjáls félagasamtök munu m.a. rétta athugasemdum sínum til varðandi hugsanlega olíu- og gasvinnslu á norðslóðum í framtíðinni. Norðurskautsráðið hefur þessi mál væntanlega á dagskrá sinni og munu væntanlega taka á móti ábendingum frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Hagsmunaaðilar geta verið ólíkir, svo sem frá iðnaðnum, íbúum á norðusskautssvæðinu (sem geta haft ýmsa hagsmuni fyrir brjósti), frjáls félagasamtök, stjórnvöld landanna ásamt fleirum. Það eru því margir ólíkir hagsmunir sem þarf að hafa í huga varðandi vinnslu auðlinda á norðuslóðum og ekki alveg sjálfgefið að takist að samræma þá.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is: