Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Haparanda – Örstuttar vangaveltur af vettvangi

    Haparanda – Örstuttar vangaveltur af vettvangi

    Hótel Svefi í Haparanda – þar sem málþingið fer fram

    Fyrri deginum af tveimur var að ljúka á málþinginu hér í Haparanda. Það gefst væntanlega lítill tími til að skrifta núna, þar sem þátttakendum er boðið til málsverðs í kvöld. Meðal þess sem hefur borið mikið á góma í dag er Norðurskautsráðið, en Íslendingar eru þátttakendur á þeim vettvangi. Hér undir má lesa tvær tilvísanir varðandi Norðurskautsráðið, fyrri af wikipedia:

    Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra landa sem liggja á eða að Norðurslóðum. Drög að slíku samstarfi voru lögð 1991 meðRovaniemi-ferlinu sem gengur út á samstarf um umhverfismál á Norðurslóðum. Norðurskautsráðið var síðan stofnað með Ottawa-yfirlýsingunni1996. Ályktanir ráðsins hafa fyrst og fremst gengið út á umhverfismál, einkum loftslagsbreytingar, en á síðustu árum hefur verið rætt um að ráðið fjalli líka um álitamál varðandi nýtingu auðlinda og landakröfur á Norðurslóðum. [heimild wikipedia]

    Og svo almennt um Norðurskautsráðið af vef Alþingis:

    Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu og auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Undir merkjum ráðsins starfa ýmsir vinnuhópar er vinna að rannsóknum á þróun mannlífs og umhverfis á norðurskautssvæðum, og reglulega koma út viðamiklar skýrslur um tiltekin málefni.

    Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda, en Ísland fór með formennsku í ráðinu frá nóvember 2002 til nóvember 2004.

    Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Þar mætti fyrst telja Háskóla norðurslóða sem var stofnaður við hátíðlega athöfn í Rovaniemi 12. júní 2001, en stofnun skólans hafði þá verið fjögur ár í undirbúningi í aðildarlöndunum. Háskólanum er fyrst og fremst ætlað að vera tengiliður á milli annarra háskóla, rannsóknarstofnana og samtaka sem sérhæfa sig í rannsóknum á löndum við norðurskaut. Líkt og Háskóla norðurslóða er Rannsóknarþingi norðursins ætlað að auka samráð á milli vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Eins konar samstarfsnet þessara aðila hefur verið byggt upp og annað hvert ár er efnt til formlegs rannsóknarþings. Þátttakendur á rannsóknarþinginu koma víða að og eru þar m.a. vísindamenn, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, stjórnendur fyrirtækja og athafnamenn í auðlindanýtingu.

    Upplýsingar um þingmannanefndina má finna á heimasíðu hennar á slóðinni http://www.grida.no/parl. [heimild althingi.is]

    Almennt má segja að hagsmunir þeirra ríkja sem koma að nýtingu auðlinda norðuskautsins séu ekki alltaf hinir sömu. Þau ríki sem liggja að norðurskautinu líta svo á að auðlindir tilheyri þeirra lögsögu og séu hluti þeirra landssvæðis og þar af leiðandi beri vinnsla og nýting svæðisins að heyra undir þeirra lögsögu (allavega þess sem er innan þeirra landhelgi). Önnur ríki vilja einnig hafa áhrif á gang mála, til að mynda Evrópubandalagið og Kína.

    Það eru ýmis flókin tæknileg atriði sem þarf að huga að áður en farið er út í mikla vinnslu náttúruauðlinda á norðurslóðum, til að mynda varðandi verkfræðilega þekkingu á vinnslunni, öryggi þeirra sem koma að vinnslunni, mengunarhættu og hvernig tekist er við á hana þvert á landamæri, umhverfissjónarmið (sem einnig  á við varðandi áhrif mengunarslysa á umhverfið) og síðast en ekki síst varðandi loftslags tenginguna.

    Að þessu máli koma svo ýmsir hagsmunaaðilar, eins og til að mynda ríki í Norðurskautsráðinu, áheyrnarfulltrúar annarra landa í því, ýmis frjáls félagasamtök o.fl.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Haparanda – Málþing um olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum

    Haparanda – Málþing um olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum

    Mér hefur boðist einstakt tækifæri til að taka þátt í málþingi (e. workshop) um framtíð olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum sem haldið er í Haparanda í Svíþjóð. Í gögnum varðandi málþingið sem mér hafa borist kemur m.a. eftirfarandi fram (þýðing úr ensku):

    Það er áætlað að undir hafsbotni á norðurslóðum megi finna allt að fjórðung allra óupgötvaðra olíu- og gasbirgða í heiminum. Hratt hop eldri og þykkari hafíss ásamt meiri eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti hefur dregið athygli að Norðurskautinu sem aldrei fyrr. Jafnvel á sama tíma og heimurinn ræðir um nauðsyn þess að skipta í loftslagsvænni orku, þá eru öflugir efnahagshvatar fyrirtækja og stjórnvalda til að hrinda af stað könnun Norðurslóða, til að mynda könnun staða eins og í Alaska, Vestur Kanada, Grænlands- og Barentshafi ásamt Norður-Rússlandi.

    Málþinginu er ætlað til að auka þekkingu og byggja upp getu meðal frjálsra félagasamtaka (NGOs) á sviði olíu- og gas notkunar og bjóða upp á tækifæri fyrir viðkomandi samtök til stefnumótunar um málefnið.

    Ráðstefnudögunum tveimur verður skipt í þrjá þematengda fundi/efni, þar sem eftirfarandi efni verða höfð að leiðarljósi.

    1. Olía og gas á norðurslóðum í hnattrænu samhengi – umfangið í dag og þróun til framtíðar, ásamt umræðu um þá hvata sem að baki liggja
    2. Tekist á við áskoranir – dæmi um núverandi stefnu og frumkvæði
    3. Horft fram á við –  hlutverk frjálsra félagasamtaka og hvernig hægt er að hafa áhrif á umræðuna

    Málþingið verður haldið dagana 12.-13. nóvember og mun ég skrifa um upplifun mína hér á loftslag.is undir liðnum Haparanda. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig (og vonandi fyrir lesendur líka) til að setja mig inn í hvernig umræðan um þetta málefni er að þróast. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi núverandi umræðu hér á landi um hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ég kem að þessu sem óbundinn einstaklingur og vona að ég geti komið boðskapi fundarins á framfæri hér á loftslag.is. Ég fer á fundinn í boði UNEP GRID-Arendal, en milliliður og aðal hvatamaður að þátttöku minni á málþinginu er Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

    Á málþinginu verða aðilar frá frjálsum félagasamtökum, iðnaðinum, stjórnvöldum, háskólum, sjóðum og öðrum áhugasömum einstaklingum. Þátttökulistinn inniheldur m.a. fólk frá Shell, Greenpeace, Háskólum frá m.a. Laplandi og Danmörku og opinberum stofnunum frá ýmsum löndum.

    Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Langvinnar sjávarstöðubreytingar vegna bruna jarðefnaeldsneytis

    Langvinnar sjávarstöðubreytingar vegna bruna jarðefnaeldsneytis

    Ný rannsókn bendir til þess að bruni á öllum jarðefnaeldsneytisbirgðum jarðar myndi valda hækkun sjávarstöðu um allt að fimm metra og að sjávarstaða myndi haldi áfram að rísa í 500 ár eftir að bruna þeirra lýkur.

    Loftslagsbreytingar, þar á meðal sjávarstöðubreytingar, eru yfirleitt settar í samhengi við næstu 100 ár. Nýleg grein sem birtist í tímaritinu Geophysical Research Letters skoðar hversu langvinnar núverandi loftslagsbreytingar geta orðið.

    Í greininni er skoðað hvernig sjávarstaða gæti breyst yfir lengri tíma, vegna hlýnunar sjávar. Höfundar fundu að yfirborðshlýnun og sjávarstöðubreytingar tengdar eðlismassabreytingum sjávar (varmaþennslu þar á meðal) –  aukast nánast línulega í takt við uppsafnaða losun á CO2, – þ.e. ef horft er til framtíðar eftir að bruna jarðefnaeldsneytis lýkur. Sérstakur þáttur í greiningunni voru ýmis viðbrögð loftslagskerfa, meðal annars þau sem verða við súrnun sjávar og breytingar í uppleysni sjávar.

    Sú sjávarstöðubreyting er á bilinu 0,7-5,0 m, þ.e. ef allt hefðbundið jarðefnaeldsneyti væri brennt – sem myndi að öllum líkindum ná hámarki um 500 árum eftir að brennslu lyki. Nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því að þessi grein byggir eingöngu á sjávarstöðubreytingum vegna fyrrnefndra eðlismassabreytinga, en ekki er tekin með bráðnun stóru jökulbreiðanna á Grænlandi og Suðurskautinu.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Geophysical Research Letters og er eftir Williams o.fl. 2012 (ágrip):  How warming and steric sea level rise relate to cumulative carbon emissions.

    Umfjöllun má lesa á heimasíðu NOC (National Oceanogaphy Centre): Long term sea level rise due to fossil fuels assessed

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar og samsæriskenningar

    Loftslagsbreytingar og samsæriskenningar

    Ný rannsókn sem gerð var við Háskólann í vestur Ástralíu sýnir ákveðin tengsl milli þess að afneita loftslagsvísindum og vilja til að samþykkja samsæriskenningar. Niðurstaða rannsóknarinnar byggir á spurningalistum sem birtur var á ýmsum bloggum milli ágúst og október 2010.

    Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar þá var mikil fylgni á milli þess að aðhyllast fjölda samsæriskenninga og að afneita loftslagsvísindum. Að sama skapi virðist sú afneitun sýna töluverða fylgni hjá þeim sem aðhyllast markaðshyggju (e. free-market economics).

    Þessi rannsókn styður að mörgu leiti fyrri rannsóknir sem tengt hafa samsæriskenningar við afneitun vísinda, en oft virðist fólk sem aðhyllist samsæriskenningar einmitt nota skort á sönnunargögnum – sem styður þeirra eigin sýn á raunveruleikanum –  sem rök fyrir því að samsæriskenningin sé sönn.

    Heimildir og ítarefni

    Lesa má niðurstöðu rannsóknarinnar hér: NASA faked the moon landing|Therefore (Climate) Science is a Hoax: An Anatomy of the Motivated Rejection of Science

    Umfjöllun um rannsóknina má lesa á heimasíðu Desmogblog: Research Links Climate Science Denial To Conspiracy Theories, But Skeptics Smell A Conspiracy

    Tengt efni á loftslag.is

  • Fyrirlestur um sjávarstöðubreytingar

    Fyrirlestur um sjávarstöðubreytingar

    Hér fyrir neðan má horfa á myndband þar sem Jerry Mitrovica prófessor við Harvard háskóla fjallar á aðgengilegan hátt um ýmislegt sem skiptir máli þegar fjallað er um sjávarstöðubreytingar.

    Þessi fyrirlestur var haldinn í Washington árið 2011, en þar fer hannn sérstaklega í saumana á nokkrum punkta sem efasemdamenn um hnattræna hlýnun halda oft á lofti þegar fjallað er um sjávarstöðubreytingar og hrekur þau rök á einfaldan og auðskiljanlegan hátt.

    Það er vel þess virði að horfa á þennan fyrirlestur, en hann er um hálftíma langur.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Sumarhiti á Svalbarða ekki verið hærri í 1800 ár

    Sumarhiti á Svalbarða ekki verið hærri í 1800 ár

    Sumarhiti á Svalbarða hefur undanfarna áratugi verið hærri en nokkurn tíman áður síðastliðin 1800 ár, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Í rannsókninni voru skoðaðar leyfar þörunga í botni stöðuvatns, en hópur vísindamanna boruðu í setlög og tóku sýni. Með því að skoða hlutfall transfitu í setinu,  sem þörungar framleiða, þá gátu þeir áætlað hitastig síðastliðin 1800 ár. Hlutfall mettaðrar og ómettaðrar transfitu breytist við það hitastig sem er sem þörungarnir lifa í. Því hærra hitastig sem er, því hærra er hlutfall mettaðrar transfitu.

    Í  ljós kom að sumarhiti á Svalbarða hefur verið að meðaltali 2-2,5°C hærri  síðastliðin 25 ár, en á hlýjustu áratugum miðalda (MWP – Medievel Warm Period), sem skilgreint er sem tímabilið um það bil 950-1250. Til aldursgreininga voru notaðar efnavísar (e. chemical marker) úr öskulögum þekktra eldgosa frá Íslandi.

    Þó aðeins sé um staðbundna rannsókn að ræða, þá er hér enn ein vísbending þess að miðaldarhlýnunin svokallaða hafi ekki verið eins mikil og útbreidd og áður var talið.

     

    Heimildir og ítarefni

    Góð umfjöllun um greinina er á heimasíðu Háskólans í Columbíu: High-Arctic Heat Tops 1,800-Year High, Says Study

    Greinin birtist í fagtímaritinu Geology (ágrip):  Mild Little Ice Age and unprecedented recent warmth in an 1800 year lake sediment record from Svalbard

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • RIFF – Á eftir ísnum

    RIFF – Á eftir ísnum

    James Balog

    Á kvikmyndahátíðinni RIFF í ár, má sjá fróðlega mynd sem tengist loftslagsmálum. Á eftir ísnum (Chasing ice) er mynd leikstjórans Jeff Orlowski. Í myndinni er með hjálp ljósmyndatækni ljósmyndarans James Balog skoðað hvernig jöklar og ísbreiður breytast við hækkandi hitastig. Við höfum áður skrifað um James Balog á loftslag.is, sjá Ted | Myndskeið af hreyfingu jökla.

    Umfjöllun af vef RIFF:

    Ljósmyndarinn James Balog var efins um gróðurhúsaáhrifin þegar hann hélt á norðurpólinn til að mynda ísbreiðuna þar fyrir sjö árum. Í dag er hann eldheitur baráttumaður gegn hlýnun andrúmsloftsins. Með aðstoð ljósmyndatækninnar sýna Balog og Orlowski okkur jökla hopa á örfáum mánuðum og heilu ísfjöllin hreinlega gufa upp svo áhorfandinn situr gapandi eftir. Á eftir ísnum er óyggjandi – en gullfalleg – sönnun þess að andrúmsloft jarðar breytist með leifturhraða.

    Um leikstjórann

    Jeff Orlowski lauk námi frá Stanford háskóla og hefur unnið til verðlauna sem leikstjóri og kvikmyndatökumaður. Hann er hluti af Extreme Ice Survey verkefninu sem ljósmyndarinn James Balog kom á laggirnar til að rannsaka jökulhop með því að nota yfir 300 klukkustundir af efni. Verk Orlowski hafa m.a. verið sýnd á NBC, CNN, PBS og National Geographic Channel.

    Sjá nánar á vef RIFF.

    Hér undir er stutt kynningarmyndband um myndina, gjörið svo vel.

    Sýningartímar

    28.9.2012 – 16:00
    Bíó Paradís 2
    29.9.2012 – 16:00
    Norræna Húsið
    30.9.2012 – 18:00
    Bíó Paradís 2
    6.10.2012 – 16:00
    Bíó Paradís 2

    Tengt efni á Loftslag.is:

  • Hafíslágmarkið 2012 – nýtt met, 18% undir metinu frá 2007

    Hafíslágmarkið 2012 – nýtt met, 18% undir metinu frá 2007

    Það eru liðnar þó nokkrar vikur síðan ljóst varð að hafíslágmarkið í ár myndi slá öll fyrri met, með minni útbreiðslu en áður hefur mælst. Það stendur heima og vel það, þar sem metið frá því 2007 var slegið rækilega og var hafís útbreiðslan í ár 18% undir metinu frá því þá, eða 3,41 milljón ferkílómetrar (metið árið 2007 var 4,17 milljón ferkílómetrar) – sjá töflu hér undir.

    Þann 16. september 2012 fór hafísútbreiðslan í 3,41 milljón ferkílómetra. Þetta virðist vera lágmark ársins í ár. Vegna kólnandi veðurs og lækkandi sólarstöðu mun hafísútbreiðslan líklega byrja að aukast að venju, þó slá megi þann varnagla að veður og vindar gætu enn ýtt lágmarkinu aðeins neðar.

    Hafíslágmarkið í ár er 760 þúsund ferkílómetrum lægra en fyrra met frá 2007, sem átti sér stað 18. september 2007. Þetta jafngildir um það bil 7,6 sinnum stærð Íslands. Lágmarkið í ár er 3,29 milljón ferkílómetrum undir meðaltali hafíslágmarksins fyrir tímabilið 1979 – 2000. Lágmarkið í ár er því 18% undir 2007 mælingunum og 49% undir meðaltali tímabilsins 1979 til 2000.

    Í allt var heildar bráðnun hafíssins í ár um 11,83 milljón ferkílómetrar af hafís, frá því hámarkinu var náð þann 20. mars í ár og þar til lágmarkinu var náð. Þetta er mesta hafísbráðnun frá því gervihnattamælingar hófust og meira en 1 milljón ferkílómetrum meiri en mælingar frá fyrri árum hafa sýnt. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig aðstæður eru í ár, borið saman við miðgildi áranna 1979 til 2000 – klikkið á myndina til að stækka hana.

    Sex lægstu lágmörk hafísútbreiðslu hafa öll mælst á síðustu 6 árum (2007 til 2012). Hér undir má sjá samanburð á nokkrum árum og tímabilum.

    Í töflunni hér undir má sjá samanburðinn á milli ára og tímabila í tölugildum:

    Tafla 1. Fyrri hafís lágmörk á Norðurskautinu
     ÁR LÁGMARKS HAFÍS DAGSSETNING
    MILLJÓN FERKÍLÓMETRAR
    2007 4,17 18. september
    2008 4,59 20. september
    2009 5,13 13. september
    2010 4,63 21. september
    2011 4,33 11. september
    2012 3,41 16. september
    1979 – 2000 meðaltal 6,70 13. september
    1979 – 2010 meðaltal 6,14 15. september

    Sá veruleiki sem við blasir er undir þeim framtíðarspám sem hafa verið gerðar, sjá mynd hér undir. Það má jafnvel spá í það hvort að verstu spár varðandi þróun hafísútbreiðslu geti orðið að veruleika. Þess má geta að hafísinn er þynnri en áður og það bendir til að það geti orðið stutt í að við upplifum Norðuskaut án hafíss á þessum tíma árs.

    Nánari upplýsingar, heimildir og ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

    Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

    Í kjölfar mikillar bráðnunar hafíssins á Norðurskautinu nú í sumar, má búast við röskun í veðrakerfi norðurhvelsins í vetur og þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er mat Jennifer Francis sem er sérfræðingur í lofthjúpi jarðar í háskólanum Rutgers í New Jersey. Aukinn hiti á Norðurskautinu er þannig talinn geta haft áhrif á skotvinda (e. jet stream) sem gæti aukið tíðni öfgaatburða á fyrrnefndum svæðum.

    Hin mikla bráðnun sem orðið hefur á þessu ári, svo slegið hefur fyrri met, er að auka hitainnihald Norður-Íshafsins og andrúmsloftsins, að sögn Jennifer og líkt og að bæta við nýrri orkuuppsprettu fyrir lofthjúpinn.

    Hafísútbreiðslan þann 3. sept 2012 (mynd: nsidc.org)

    Þann 26. ágúst náði útbreiðsla hafíss nýjum lægðum, en fyrra metið var slegið í september 2007 og enn er útbreiðsla hafíssins að minnka þegar þetta er skrifað. Þessi bráðnun veldur magnandi svörun sem þekkt er sem Norðurskautsmögnunin (e. Arctic amplification). Því meira sem bráðnar af hafís, því meiri orku dregur Norðurskautið til sín – því þar sem áður var hafís sem speglar sólarljósinu aftur út í geim, er nú opið og dökkt haf. Þetta eykur hitastig sjávar og lofthjúpsins á Norðurskautinu – sem svo bræðir enn meiri hafís.

    Á haustin, þegar sólin sest yfir Norður-Íshafinu og það byrjar að frjósa aftur, þá losnar hitinn aftur út í lofthjúpinn. Þar sem fyrrnefndir skotvindar eru knúðir áfram af hitamismun milli Norðurskautsins og svæða sunnar á hnettinum, þá hafa allar breytingar á þeim hitamismun áhrif á vindana – með tilheyrandi afleiðingum.

    Samkvæmt Francis, þá virðist sem sveiflan aukist í skotvindakerfinu þ.e. í stefnu norður-suður – með öðrum orðum þá eykst bylgjulengd skotvindanna á haustin og yfir vetrartímann. Aukin bylgjulengd getur valdið auknum öfgum í veðri, en öfgar í veðri eru oft tengdir veðrakerfum sem eru lengi að breytast. En þó vísbendingar séu um að skotvindar séu að hægja á sér og auka bylgjulengd sína, þá er erfitt að segja til um hvaða áhrif það hefur á komandi vetur.

    Staðsetning skotvindanna ræðst af öðrum þáttum, samkvæmt Francis – meðal annars Kyrrahafssveiflunni (ENSO) og Atlantshafssveiflunni (AO) – en líklega megi þó búast við mjög óvenjulegu veðri í vetur. Óvenjulega kaldur og snjóþungur vetur árið 2009-1010 og 2010-2011 á austurströnd Bandaríkjanna og í Norður-Evrópu, er samkvæmt Francis, nátengdur hlýnun Norðurskautsins. Það að veturinn 2011-2012 var ekki eins öfgakenndur veldur því að efasemdir eru uppi um þessi tengsl meðal sumra loftslagsfræðinga. Aðrir hafa bent á, meðal annars Jim Overland hjá NOAA, að ekki sé hægt að útiloka tilgátu Francis út af einum vetri – ekki sé alltaf beint samband á milli orsaka og afleiðinga.

    Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni í haust og fram á vetur.

    Heimildir og ítarefni

    Þýtt og staðfært úr frétt Climate Central:  ‘Astonishing’ Ice Melt May Lead to More Extreme Winters

    Hafísmetið fellur: Arctic sea ice extent breaks 2007 record low

    Ástand hafíssins í ágúst: Arctic sea ice falls below 4 million square kilometers

    Áhugavert viðtal við Jón Egil Kristjánsson í speglinum um öfgakennt veðurfar

    Tengt efni á loftslag.is

  • Tafir í fjölgun laxa

    Tafir í fjölgun laxa

    Hin hnattræna hlýnun virðist vera byrjuð að hafa áhrif á fjölgun laxa. Veiðitölur frá stangveiðimönnum 59 áa í Noregi sýna að sífellt fleiri laxar halda til í sjónum í tvo eða fleiri vetur – í stað eins vetur – áður en farið er upp árnar til æxlunar.

    Leitnin fylgir vel hlýnun í Norður-Atlantshafi milli áranna 1991 og 2005.

    Lax þarf nægilegt framboð af fæðu um haustið til að kynfæri hans nái að þroskast fyrir næsta vor.  Breytingar í fæðuframboði af völdum hitastigsbreytinga eru taldar orsökin og að það taki lengri tíma fyrir laxinn að þroskast áður en hann nær að fjölga sér.

    Að laxinn neyðist til að vera lengur í opnu hafi getur hafa haft áhrif á heildarfækkun stofnsins.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í tímaritinu Ecology an Evolution og er eftir  Otero o.fl. 2012: Contemporary ocean warming and freshwater conditions are related to later sea age at maturity in Atlantic salmon spawning in Norwegian rivers

    Tengt efni á loftslag.is