Hafíslágmark ársins nálgast – Hafísútbreiðsla í ágúst og umhugsunarverð þróun rúmmáls

Meðalútbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var sú næst minnsta síðan gervihnattamælingar hófust árið 1979. Bæði Norðaustur- og Norðvesturleiðin virðast vera opnar fyrir siglingar. Í ágústmánuði var hafísútbreiðslan nokkuð nærri því þegar hafísútbreiðslan var minnst fyirr mánuðinn árið 2007. Það undirstrikar enn fremur þá áframhaldandi bráðnun hafíss sem á sér stað á Norðurskautinu.

Hafísútbreiðslan mun mjög líklega ná lágmarki ársins á næstu 2 vikum og munum við fylgjast með því hér á loftslag.is.

Meðal útbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var 5,52 milljón ferkílómetrar. Það er 160.000 ferkílómetrum meira en fyrra met fyrir mánuðinn, sem var sett í ágúst 2007 og 2,15 milljón ferkílómetrum, eða 28% undir meðaltali áranna 1979 til 2000.

Í ágúst dregur úr áhrifum sólarljós á Norðurskautinu og það byrjar að draga verulega úr bráðnun hafíss. En þrátt fyrir að dregið hafi úr bráðnun í ágústmánuði, þá var bráðnunin meiri en í meðal ári, eða sem samsvarar 67.700 ferkílómetrum á dag. Til samanburðar þá var meðal bráðnun hafíss í ágúst fyrir árin 1979 til 2000 53.700 ferkílómetrar á dag, það munar um minna.

Meðal útbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var sú næst minnsta fyrir mánuðinn. Þegar 2011 er tekin með, er línuleg leitni útbreiðslunar fyrir ágúst -9,3% á áratug.

En útbreiðsla hafíss segir ekki alla söguna, þar sem ísinn hefur einnig orðið þynnri. Hér að ofan er rúmmál hafíssins sýnt, en þynnri hafís þýðir minna rúmmál. Það má nú þegar sjá að rúmmál ársins er komið undir met síðasta árs og tími bráðnunarinnar er enn ekki liðin. Þróunin er ekki mjög uppörvandi og það má sjá töluverðan og marktækan mun á rúmmálinu núna og því sem var bara fyrir nokkrum árum síðan – t.d. í kringum aldamótin. Hér undir má svo sjá þessa þróun á annan hátt:

Já, það er eiginlega bara spurning um hvenær en ekki hvort að við fáum árlegt hafíslágmark þar sem ekki verður hafís að neinu ráði á Norðurskautinu…ef marka má þær leitni línur sem sýndar eru í grafinu.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.