Útbreiðsla hafíss, í júní 2011, á Norðurhvelinu var sú næst minnsta fyrir mánuðinn síðan gervihnattamælingar hófust árið 1979. Þar með er áframhald á hnignandi stöðu hafísins, sem er staðreynd síðustu ára og áratuga. Meðalútbreiðsla hafíss fyrir mánuðinn var undir júnímánuði 2007, en það ár endaði með lægstu útbreiðslu við enda bráðnunartímabilsins hingað til. Samt sem áður er útbreiðsla hafíss í júní í ár meiri en var í júní 2010. Nú nálgast krítískt tímabil varðandi bráðnunina, þar sem veður og vindar munu ráða úrslitum um hvort árið í ár verði nærri lágmarks útbreiðslunni 2007 (sem var um 4,13 milljón ferkílómetrar).
Meðal hafísútbreiðslan í júní 2011 var 11,01 milljón ferkílómetrar. Þetta er 140.000 ferkílómetrum undir núverandi minnstu útbreiðslu fyrir mánuðinn, frá júní 2010 og 2,15 milljón ferkílómetrum undir meðaltalinu fyrir árin 1979 til 2000.
Hafísútbreiðslan í júní 2011 minnkaði að meðaltali um 80.800 ferkílómetra á degi hverjum, sem er um 50% meiri bráðnun en meðaltalið var fyrir árin 1979 til 2000.
Hafísútbreiðsla fyrir júní 2011 er sú næst minnsta frá því gervihnattamælingar hófust, sem er í takt við minnkandi leitni í útbreiðslu hafís síðustu 30 árin. Lægst var hafísútbreiðslan fyrir júní 2010.
Lofthiti í júní var um 1 til 4 gráðum celsius hærri en að meðaltali fyrir mest allt Norðurskautið. Þó má sjá svæði á kortinu, hér að ofan, þar sem er eilítið kaldara en í meðalári. Ísland var einmitt statt á einu af þessum kaldari svæðum, eins og við höfum mörg upplifað hér á landi – og glögglega má sjá á þessu korti.
Að lokum langar mig að benda á ágæta færslu eftir Emil H. Valgeirsson, þar sem hann ræðir um bráðnun hafíss, sjá Af ört bráðnandi hafís á Norður-Íshafinu
Heimild:
Tengt efni á loftslag.is:
- Hafíshámarkinu náð – Lægsta hámarkið frá upphafi mælinga
- Minnsta hafísútbreiðsla á Norðuhveli, frá því mælingar hófust, fyrir janúar og febrúar
- NOAA – ástand Norðurskautsins 2010
- Sigling um bæði Norðaustu- og Norðvesturleiðina á sama sumri heppnaðist
- Íshafsbráðnun og siglingaleiðir
- Tag – Hafís
- Er hafís Norðurskautsins að jafna sig?
Leave a Reply