Loftslag.is

Tag: Afneitun

  • Opið bréf frá Hadfield til Moncktons

    Opið bréf frá Hadfield til Moncktons

    Að gamni birtum við hér myndband sem er í raun opið bréf til Christopher Moncktons, sem Peter Hadfield (Potholer54) birti í gær á youtube síðu sinni. Monckton lenti þar í rökræðum við ofjarl sinn og hefur ekki haft getu eða þor til að rökræða við hadfield um loftslagsmál.
    .

     

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Afneitunargeitin jarmar lágt

    Afneitunargeitin jarmar lágt

    Sveinn Atli skrifaði góða færslu um afneitunargeitina í gær (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate]).  Í tilefni þess að skortur er á umfjöllun fréttamiðla hér á landi um þetta mál og algjöra þögn “efasemdamanna” þá vil ég bæta við eftirfarandi:

    Rök venjulegra “efasemdamanna” gegn hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum eru þessi og þeir fara niður listann eftir því hvernig staðan er í umræðunni hvert skipti og reyna við hvert tækifæri að færa sig ofar í listann:

    1. Það er engin hlýnun.
    2. Það er hlýnun en hún er náttúruleg
    3. Hlýnunin er af mannavöldum, en hlýnunin er góð.
    4. Hlýnunin hefur hætt.
    5. Það er of dýrt að gera nokkuð í þessu.
    6. það væri í lagi að reyni að gera eitthvað… (síðan er ekkert gert).

    Til að finna röksemdir sem styðja við þennan lista, þá leita “efasemdamenn” nær undantekningalaust í smiðju þeirra sem hafa verið dyggilega studdir með gríðarlegum fjárhæðum af Heartland stofnuninni, eins og kemur fram í færslunni hans Sveins Atla.

    Þeir sem fylgjast með umræðunni af einhverju viti ættu að  kannast við þær heimasíður og nöfn sem komu fram í færslu Sveins:

    Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar.

    Hægt væri að nefna fleiri sem hafa fengið styrki til að strá efasemdasykurhúð yfir vísindin (meðal annars má nefna skýrsluna NIPCC en hún hefur meira að segja ratað inn í heimildalista BS-ritgerðar frá HÍ sem er hneyksli út af fyrir sig).

    Þessi efasemdasykurhúð er þunn og undir henni eru bitur og sönn vísindi – vísindi sem sýna fram á að yfirgnæfandi líkur séu á að hlýnunin sé af mannavöldum, að hlýnunin eigi eftir að ágerast með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda (sérstaklega CO2) og að afleiðingar þessara loftslagsbreytinga geti orðið alvarlegar fyrir fjölmörg vistkerfi jarðar og manninn þar með (sjá bæklinginn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir).

    Það sem þessir “kappar” eru því að gera, er ekki að styrkja þekkingaröflun á loftslagi jarðar. Þeir fá borgað fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sýna fram á að, það sem kemur fram í listanum, sé rangt  (sjá 1-6 hér ofar og þá sérstaklega 1-4). Til þessa verks fá þeir nánast ótakmörkuð fjárráð.

    Tilgangurinn:  Að viðhalda skammtímagróða þeirra sem dæla peningum í Heartland stofnunina.

    Heimildir og ítarefni

    Til að sjá byrjunina, kíkið á heimildir við færslu Sveins, neðst á síðunni (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate])

    Ágætar umfjallanir hafa einnig komið t.d. hér:

    Skeptical Science:  DenialGate Highlights Heartland’s Selective NIPCC Science

    NewScientist:  Leaked files expose Heartland Institute’s secrets

    Tengt efni á loftslag.is

  • Afneitunargeitin [Denial-gate]

    Afneitunargeitin [Denial-gate]

    Það virðist vera komið upp nýtt “-gate” mál. Þeir sem hafa fylgst með umræðunni um loftslagsmál hafa vafalaust tekið eftir málum eins og hinu svokallað “climate-gate” máli, þar sem “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun af mannavöldum fullyrtu út og suður um svik og pretti vísindamanna án þess að stoðir reyndust vera fyrir því í raun og veru. Þessi svokölluðu “geita” mál urðu fleiri, þar sem “efasemdamenn” fullyrtu um alls kyns falsanir vísindamanna (m.a. varðandi bráðnun jökla Himalaya og rannsóknir varðandi Amazon). Ekki er hægt að segja að þessum fullyrðingum þeirra hafi fylgt gögn sem gátu stutt mál þeirra (en tilgangurinn helgar jú meðalið). Að mestu leiti voru þetta staflausar fullyrðingar  og einskis verðir útúrsnúningar hjá hinum sjálfskipuðu “efasemdamönnum”. Umræðu um þessi svokölluðu “geita” mál mátti einnig finna á bloggi “efasemdamanna” hér á landi og fóru menn mikinn oft á tíðum. Þegar öllu er á botnin hvolft þá eru þessi “climate-gate” mál hvorki fugl né fiskur. Við höfum hér á loftslag.is fjallað aðeins um þau mál og þann algera skort á rökum sem þau byggðu á. Það má í þessu ljósi líka nefna endalausan straum frétta af vísindamönnum sem voru hreinsaðir af tilbúnum ásökunum “efasemdamannanna”, sjá t.d. Vísindamenn hreinsaðir af ásökunum um óheiðarlega meðferð gagna og Michael Mann sýknaður af vísindalegum misgjörðum svo eitthvað sé nefnt…

    Nú er komið upp nýtt mál sem væntanlega mun ekki heyrast mikið um á síðum “efasemdamanna” – nema þá kannski til að benda á “ofsóknir” á hendur þeim eða um meintar falsanir í þeirra garð (já, það má segja að þeir kasti steinum úr glerhúsi). En hvað sem öðru líður, þá hefur málið fengið hið lýsandi nafn Denial-gate, eða eins og ég vel að kalla það hérna “afneitunargeitin”. Málið fjallar um það að það hafa lekið út skjöl frá Heartland Institute varðandi fjármögnun “efasemdamanna”, þ.e. hverjir standa fjárhagslega að baki “efasemdamönnum” svo og önnur viðkvæm skjöl. Fyrst var fjallað um þetta mál á Desmogblog.com, Heartland Institute Exposed: Internal Documents Unmask Heart of Climate Denial Machine. Það má því segja að hjarta afneitunarinnar í BNA hafi verið afhjúpað og sé í herbúðum Heartland Institute (sem m.a. tók þátt í að afneita tengslum tóbaks og krabbameins á sínum tíma – vanir menn í afneitunar faginu). Þetta mál byggist meðal annars á, því er virðist, skjölum úr ársreikningi Heartland Institute, þar sem m.a. er að hluta til sagt frá því hverjir þáðu styrki svo og hverjir veittu þá.

    Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar. Anthony Watts hefur fengið sem nemur rúmum 11 milljónum króna (um 90.000 USD) til að setja fram sínar “rannsóknir” þar sem hann var m.a. staðin að óvönduðum vinnubrögðum, Graig Idso fær sem nemur rúmri 1,4 milljónum á mánuði (11.600 USD), sem væntanlega er fyrir hans þátt og Miðaldaverkefni hans, Singer fær líka mánaðargreiðslur sem virðast nema minnst 600 þúsundum á mánuði (5.000 USD) plús kostnað. Þetta eru aðeins örfá dæmi um fjármögnun “efasemdamanna” eins og þau líta út í skjölum Heartland…en nánar má lesa um þetta á Desmogblog.com.

    Að sjálfsögðu hefur Heartland Institute tjáð sig um málið og segja að eitt af aðalgögnunum sem lekið var sé tilbúningur (ætli það sé þá staðfesting á að hin skjölin séu úr þeirra herbúðum…ekki gott fyrir þá hvað sem öðru líður), en það var svo sem ekki við öðru að búast, en að þeir myndu klóra eitthvað í bakkann varðandi þetta mál. Ætli það megi ekki leyfa þeim að njóta vafans varðandi það plagg þar til annað kemur í ljós, þó ekki hafi “efasemdamenn” almennt talið nokkurn vafa um að vísindamenn væru með falsanir og svik í hinu svokallað “climate-gate” máli… En jæja, svona er þetta stundum, what goes around comes around, ying og yang og allt það…

    Nánar má lesa um þetta mál á eftirfarandi stöðum:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Climategate mark 2 – Sölumenn vafans snúa aftur

    Climategate mark 2 – Sölumenn vafans snúa aftur

    Sölumaður vafans

    Í eftirfarandi myndbandi má sjá fróðlega greiningu frá Potholer54 um hið nýja plathneyksli sem “efasemdamenn” eru að reyna að spinna upp nú um stundir og hafa kallað climategate 2,0 (frumlegheitin eru í hávegum höfð á þeim vígstöðvum). Það virðist vera sem þeir hafi “fundið” fleiri stolna tölvupósta til að birta – reyndar er eitthvað af því það sama og kom fram fyrir 2 árum og varla nokkuð nýtt í því, en nýtninni er þó fyrir að fara, ekki má taka það frá “efasemdamönnum” í þetta skiptið. En venju samkvæmt taka “efasemdamenn” hlutina úr samhengi og mistúlka af stakri “snild”…ekkert nýtt í því í sjálfu sér – sama aðferðafræðin er notuð aftur nú 2 árum seinna og núna er það rétt fyrir loftslagsráðstefnuna í Durban. Hvers vegna ættu “efasemdamenn” að henda góðu plotti fyrir róða, enda gekk það vonum framar síðast? Spyr sá sem ekki veit…

    En, það má segja að það sé góð flétta hjá Potholer54 í myndbandinu, krydduð með léttri kaldhæðni og nettu líkingamáli. Sjón er sögu ríkari, gjörið svo vel:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Climategate 2.0 – Enn eitt plathneykslið í uppsiglingu?

    Climategate 2.0 – Enn eitt plathneykslið í uppsiglingu?

    Þessi mynd er lýsandi fyrir hugsanagang þeirra sem afneita vísindum og vilja sýna þau í villandi ljósi (google myndaleit – climategate)

    Hér undir er færsla sem var skrifuð fyrir ári síðan, eftir að hafði orðið öllum ljóst (sem það vildu vita) að hið svokallaða climategatemál fara bara stormur í vatnsglasi. Nú er komið upp “nýtt” mál sem afneitunarsinnar kalla climategate 2,0 og því ekki úr vegi að rifja upp niðurstöðu síðasta máls, sjá hér undir. Það má lesa um þetta á fleiri stöðum, sjá t.d. Climategate 2.0: Denialists Serve Up Two-Year-Old Turkey og Two Year Old Turkey ásamt grein í GuardianEitthvað virðist þetta mál vera endurtekning á gömlu góðu útúrsnúningunum sem gerðir voru í nafni “efasemdamanna” (afneitunarsinna). En rifjum nú upp gamla málið áður en lengra er haldið:

     

    Um þessar mundir er liðið ár frá því að gögnum sem stolið var frá CRU var lekið á internetið og hið svokallað Climategatemál kom fram í dagsljósið. Hinar ýmsu heimasíður þeirra sem afneita loftslagsvísindunum sem fræðigreinar, fóru fremstar í flokki þeirra sem töldu að þessi gögn sönnuðu allt mögulegt varðandi svindl og fals loftlsagsvísindamanna. Í kjölfarið komu fram margar ásakanir á hendur vísindamanna sem voru byggðar á litlu öðru en sérvöldum mistúlkunum eða bara almennum misskilningi á því hvernig vísindastörf eru unnin. En hvernig standa málin svo núna ári seinna?

    Tímaritið Nature hefur birt ágæta grein um málið (PDF), þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

    .. More certain is the conclusion that the hack of the server was a sophisticated attack. Although the police and the university say only that the investigation is continuing, Nature understands that evidence has emerged effectively ruling out a leak from inside the CRU, as some have claimed. And other climate-research organizations are believed to have told police that their systems survived hack attempts at the same time.

    En það er nú fleira sem vert er að skoða, t.d. hvað hefur gerst áþreifanlegt á þessu ári sem er liðið.

    Fyrst er að nefna skýrslu Vísindanefndar breska þingsins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Phil Jones, sem er einn af þeim sem var miðpunktur hins svokallað climategatemáls, hafi ekki falsað niðurstöður.

    Næst ber að nefna skýrslu vísindanefndar undir stjórn Lord Oxburgh, sem er fyrrum stjórnarformaður Shell í Bretlandi, sem komst að því að vísindin séu traust og að ekkert bendi til þess að vísindamenn hafi falsað niðurstöður.

    Í enn einni rannsókninni, nú undir stjórn Sir Muir Russell, kom fram að vísindamenn og störf þeirra eru gerð af nákvæmni og samviskusemi og að ekki lægi fyrir vafi um störf þeirra.

    Í Bandaríkjunum, voru gerðar tvær rannsóknir á vegum Penn State háskólans, varðandi störf prófessor Michael Mann þar sem hann var sýknaður af öllum áburði um að hafa staðið að vísindalegum misgjörðum.

    Að lokum má nefna að fyrir nokkrum vikum þá kom fram, frá breskum stjórnvöldum, að upplýsingarnar sem komu fram í hinum illa fengnu tölvupóstum létu ekki í té nein sönnunargögn sem skapaði vantraust varðandi rannsóknir á loftslagsbreytingum af mannavöldum.

    Þannig að í þessari upptalningu er ekki bara eitt tilfelli, heldur ein sex tilfelli þar sem vísindamenn eru hreinsaðir af þeim tilhæfulausu ásökunum sem upp komu í þessu máli. Þetta kemur reyndar ekki á óvart, þar sem að þeir sem afneita loftslagsvísindum virðast fá mikla áheyrn fjölmiðla (sérstaklega í BNA) og vaða uppi með tilhæfulausar staðhæfingar ef það hentar málsstað þeirra.

    En hvað um hin ýmsu “alltmöguleg-gate” sem hafa verið sett upp sem dæmi um vanhæfni IPCC? – Þess ber að geta að við skrifuðum ekki um öll þessi svokölluð hliðamál…enda frekar óspennandi og alls ekki uppbyggjandi í vísindalegu samhengi.

    Það sem m.a. hefur gerst hingað til í hinum ýmsu “alltmöguleg-gate”-málum er t.d. eftirfarandi.

    Sunday Times hefur beðist afsökunar á og dregið til baka fréttir um hið svokallað “Amazongate”-mál. Það er s.s. ekkert Amazongate-mál og regnskógum Amazon stendur því miður enn ógn af breytingum vistkerfa vegna loftslagsbreytinga.

    Hollensk stjórnvöld hafa tekið ábyrgð á því að hafa gefið IPCC rangar upplýsingar varðandi það að 55% af Hollandi sé undir sjávarmál, þegar staðreyndin er sú að “aðeins” 26% er í hættu vegna flóða, þar sem svæði eru undir sjávarmáli, á meðan önnur svæði, 29% eru í hættu vegna flóða frá ám og fljótum.

    BBC hefur einnig beðið CRU afsökunar á því að hafa farið villandi orðum í sinni umfjöllun um “climategate” fals-hneykslið.

    Það sem er eftir af þessum svokölluðu “alltmöguleg-gate” er því aðeins hin neyðarlega villa (já aðeins ein) og hin klaufalega afsökunarbeiðni IPCC í kjölfarið á því, varðandi bráðnun jökla Himalaya, þar sem ártalið 2035 kom fram í stað ártalsins sem talið er líklegra 2350. Sú villa varð öllum ljós, ekki vegna þess að blaðamenn hefðu fundið hana með rannsóknarblaðamennskuna að vopni eða að eitthvert “efasemdarbloggið” uppljóstraði um það, heldur vegna þess að einn af vísindamönnunum og meðhöfundum IPCC skýrslunnar sagði frá villunni (þannig virka alvöru vísindi).

    Það sem eftir stendur, ári eftir climategate er ein stafsetningarvilla og 6 hreinsanir vísindamanna af ásökunum og lítið annað. Í kjölfarið á þessu má setja fram hinar raunverulegu spurningar sem fjölmiðlar og aðrir ættu að spyrja sjálfa sig núna:

    Af hverju?

    Hverjir?

    Eða sagt á annan veg:

    Hverjir há þessa baráttu gegn loftslagsvísindamönnum og af hverju?

    Ítarefni:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Að efast um BEST

    Að efast um BEST

    Nú nýverið sendi rannsóknateymi – the Berkeley Earth Surface Temperature (BEST) – frá sér bráðabirgðaniðurstöðu rannsókna á hnattrænum hita jarðar. BEST verkefnið byrjaði á síðasta ári og þar var ætlunin að kanna hvort gögn um yfirborðshita sýni raunverulega hlýnun eða hvort eitthvað sé til í því sem “efasemdamenn” hafa haldið fram, að í þessum gögnum komi fram kerfisbundin bjögun, í mælingum og leiðréttingum sem myndi falska hlýnun. Verkefnið gekk út á að greina mun stærra gagnasafn yfir hitastig en aðrir höfðu gert og athuga t.d. hvort skekkja væri vegna þéttbýlismyndunar við þær veðurstöðvar sem notaðar eru.

    Hitaröð BEST teymisins (Berkeley) ber nokkuð saman við fyrri hitaraðir sem gerðar hafa verið. Það er helst að HadCRU tímaröðin greini á við hinar.

    Vonir og væntingar

    Í forsvari fyrir teyminu er Richard Muller en hann hefur stundum verið hávær í loftslagsumræðunni. Segja má að þar hafi verið komið eins konar óskabarn “efasemdamanna” þar sem hann skaut sérstaklega föstum skotum í átt til vísindamanna sem hafa unnið að því að setja saman hitaraðir með hnattrænan hita. Eftir að í ljós kom að olíumilljarðamæringarnir Charles og David Koch styrktu teymið að hluta og að þekktir “efasemdamenn” (t.d. Judith Curry) voru að vinna í nánu samstarfi við Muller og félaga, þá má segja að vonir sumra “efasemdamanna” hafi vaknað, um að hér kæmi “hagstæð” niðurstaða fyrir þá.  Sem dæmi sagði forsvarsmaður “efasemda” heimasíðunnar Watts Up With That eftirfarandi í mars 2011:

    And, I’m prepared to accept whatever result they produce, even if it proves my premise wrong. I’m taking this bold step because the method has promise. So let’s not pay attention to the little yippers who want to tear it down before they even see the results.

    Hann var semsagt tilbúinn að bíta á jaxlinn og sætta sig við þá niðurstöðu sem kæmi út úr BEST verkefninu. Annað hljóð kom í strokkinn þegar ljóst var hver bráðabirgðaniðurstaðan varð, sjá orð Watts frá því í október 2011.

    This is sad, because I had very high hopes for this project as the methodology is looked very promising to get a better handle on station discontinuity issues with their “scalpel” method. Now it looks just like another rush to judgement, peer review be damned.

    Vonir “efasemdamannsins” voru brostnar.

    Margt hefur verið skrifað um þessar niðurstöður í erlendum veftímaritum, bloggum og víða – og hefur það að hluta til bergmálast yfir í umræðuna hér á landi. Nýlegar ásakanir Judith Curry um að teymi Mullers, sem hún var hluti af  hafi stundað hálfgerðar falsanir – hefur verið fjallað um á heimasíðu Ágústar Bjarnasonar (Einn höfunda BEST skýrsunnar í loftslagsmálum ásakar aðalhöfundinn um að villa um fyrir fólki…). Þar segir Ágúst meðal annars í athugasemdum:

    Öllu sæmilega sómakæru fólki hlýtur að blöskra hvernig Richard A. Muller kynnti niðurstöðurnar fyrir skömmu og hvernig fjölmiðlar gleyptu það gagnrýnislaust. Hvað gekk prófessor Muller eiginlega til? Þetta er auðvitað verst hans sjáfs vegna.

    Einum meðhöfunda hans, Dr Judith Curry, var greinilega einnig misboðið, enda er hún mjög sómakær vísindamaður.

    Curry sagði meðal annars að teymið – sem hún var partur af – hefði reynt að fela niðursveiflu í hitastigi (e. hide the decline).

    This is “hide the decline” stuff. Our data show the pause, just as the other sets of data do. Muller is hiding the decline.

    Áður hafði Richard Muller sagt í viðtali við BBC að ekki væri hægt að sjá í gögnunum að hin hnattræna hlýnun hefði hægt á sér – eins og “efasemdarmenn” vilja stundum meina:

    We see no evidence of it [global warming] having slowed down

    Spurningin er því – hvort hefur rétt fyrir sér, Muller eða Curry?

    Með ásökunum Curry birtust meðfylgjandi gröf – sem áttu að sýna greinilega falsanir eða hvernig Muller var að villa um fyrir fólki:

    Mynd sem birtist á heimasíðu Daily Mail og síðan á heimasíðu margra "efasemdamanna" og átti að sýna það hvernig Muller var að fela niðursveifluna í hitastigi.

    Óminni eða ólæsi Curryar

    Það er rétt að byrja á því að minnast á það að BEST teymið hafði svarað því hvort hin hnattræna hlýnun hefði stoppað, á heimasíðu þeirra í spurt og svarað:

    “decadal fluctuations are too large to allow us to make decisive conclusions about long term trends based on close examination of periods as short as 13 to 15 years.”

    Semsagt náttúruleg sveifla í gögnunum er of mikil til að hægt sé að segja til um langtímaleitni ef tímabil er minna en 13-15 ár. Því má segja að athugasemd Curryar sé í mótsögn við tölfræðilega greiningu á gögnun BEST teymisins, sem hún hefði átt að vita um – en virðist ekki vita af, þrátt fyrir að vera hluti af teyminu.

    Það er þekkt að yfir stutt tímabil, t.d. áratug, að það er of mikið suð í gögnunum til að finna tölfræðilega marktæka langtíma leitni. Tamino hefur gert ítarlega tölfræði úttekt á BEST gögnunum (sjá Judith Curry Opens Mouth, Inserts Foot) og komst meðal annars að því að óvissan í gögnunum sé of mikil –  yfir þetta stutt tímabil – til að það sé mögulegt að segja að leitnin sé eitthvað öðruvísi en langtímaleitnin.  Svo virðist sem Muller hafi rétt fyrir sér, að það sé ekki hægt að segja með vissu að hin hnattræna hlýnun hafi hægt á sér.

    Að fela uppsveifluna

    Ofangreind mynd, sem birtist á heimasíðu Daily Mail, sýnir hvernig hægt er að sérvelja gögn til að styðja rök – sem standast síðan ekki vísindalega skoðun. Af einhverjum undarlegum ástæðum þá varð fyrir valinu hjá þeim að byrja í janúar 2001 og enda á síðusta punktinum í maí 2010. Þar er því um að ræða tæpan áratug (ekki heilan áratug, heldur 9 ár og fimm mánuði) – undarlegt val á lengd tímabils og greinilegt að um sérvalin gögn er að ræða. Myndin hér fyrir neðan sýnir hversu stór hluti sérvöldu gögnin eru – af heildargagnasafninu:

    Heildar BEST gögnin samanborið við þau gögn sem notuð voru í Judith Curry greininni í Daily Mail.

    Margir taka eftir óvenjulegri tölu við lok gagnaraðarinnar þ.e. í apríl 2010 – en þá virðist samkvæmt gögnunum að hitastig hafi lækkað snögglega um 1,9°C frá mars til apríl og hækkað síðan snögglega aftur um heilar 2,1°C eins og sjá má á eftirfarandi mynd:

    Hitaröð BEST frá janúar 2001 ásamt hinu óvenjulega aprílgildi merktu með rauðu.

    Voru svona miklar sveiflur í hitastigi jarðar milli mars og maí 2010? Engar aðrar hitaraðir sýna sambærileg gildi. Þegar gögnin eru skoðuð nánar, þá kemur í ljós að skekkjan í gögnunum frá apríl og maí 2010 eru 2,8 og 2,9°C. Sú skekkja er langtum meiri en í öðrum hluta gagnanna – sjá breytileika í skekkjunni á næstu mynd:

    Óvissa í BEST gögnunum frá árinu 2011 – augljóst hve óvissan eykst í lok gagnaraðarinnar (apríl og maí 2010).

    Munurinn í óvissunni liggur í því að 14.488 veðurstöðvar liggja t.d. á bak við frávikið fyrir mars 2010 – sem eru dreifðar um allan hnöttinn, á meðan að í apríl og maí lágu eingöngu 47 stöðvar á bak við gögnin, og allar á  Suðurskautinu. Í stuttu máli sagt þá eiga gögnin í apríl og maí ekki heima í þessu gagnasetti – því þau eru ófullnægjandi og óvissan allt of há. Apríl er augljóslega fráviks útgildi (e. outlier).

    Næsta mynd sýnir ágætlega breytingu í leitninni við að taka út þessa tvo punkta í lokin:

    BEST gögnin með leitnilínu frá janúar 2001 með og án apríl og maí 2010

    Við það að kippa út þessum ófullnægjandi gagnapunktum í lok hitaraðarinnar, þá eykst leitnin úr 0,03°C og upp í 0,14°C á áratug.

    Annað sem gott er að hafa í huga, er að samkvæmt NOAA hitaröðinni, sem er sú hitaröð sem er hvað líkust BEST röðinni, þá var árið 2010 hnattrænt heitast (auk ársins 2005).

    Í stuttu máli sagt þá er vandamálið ekki að Muller hafi verið að fela niðursveifluna, heldur er Curry að fela uppsveifluna.

    Hættum að sérvelja gögnin

    Þó ekki sé hægt að segja það með tölfræðilegri vissu, þá lítur út fyrir að leitni í hnattrænni hlýnun hafi minnkað undanfarin áratug – allavega lítur það þannig út ef gögn eru skoðuð yfir stuttan tíma. Fyrir vikið halda “efasemdamenn” því fram að hin hnattræna hlýnun hafi skyndilega hætt. Svo er ekki. Í raun sýndu Santer o.fl. (2011) fram á eftirfarandi:

    Because of the pronounced effect of interannual noise on decadal trends, a multi-model ensemble of anthropogenically-forced simulations displays many 10-year periods with little warming…  Our results show that temperature records of at least 17 years in length are required for identifying human effects on global-mean tropospheric temperature.

    Lauslega þýtt, þá segja þeir að vegna víðtækra áhrifa frá suði í áratugaleitni, þá sýna líkön að geislunarálag af völdum manna inniheldur oft á tíðum áratugi þar sem lítil hlýnun er… Niðurstöður okkar sýna að tímabil hitagagna þurfi að vera allavega 17 ár til að hægt sé að segja fyrir vissu um áhrif manna á meðalhnattrænan hita veðrahvolfsins.

    Næsta mynd sýnir leitni BEST gagnanna ef notað eru gögn frá síðasta 17 ára tímabil sem gögnin spanna og án hinna óáreiðanlegu gagna í lokin – þ.e frá mars 1993-mars 2010.

    Nýjustu 17 ára gögn frá BEST -með leitnilínu

    Nýjasta 17 ára tímabil BEST gagnanna sýnir leitni sem er um 0,36°C á áratug* og sýnir því greinilega hina hnattrænu hlýnun af mannavöldum.

    Það er vissulega áhugavert og jafnvel gagnlegt að skoða breytileika á áratugaskala. En að nota þann breytileika til að rökstyðja mál sitt á þann veg að hin hnattræna hlýnun hafi skyndilega horfið er villandi og bjögun á sannleikanum.

    Á þeim nokkrum dögum frá því að þessar yfirlýsingar komu fyrst fram frá Curry, þá hefur hún dregið sumt í land og annað ekki. Nýleg ummæli hennar um að línuritið frá BEST sem sýnir tíu ára vegið meðaltal (e. 10 year running mean) sé villandi af því að það endar árið 2006 eru undarleg (sjá hér). Línurit sem sýna 10 ára vegið meðaltal – ná aldrei eins langt og gögnin sem þau byggja á – það er einfaldlega staðreynd og mjög algeng framsetning gagna.

    Að saka aðra vísindamenn, í þessu tilfelli samstarfsmenn sýna, um falsanir eða að villa um fyrir fólki – með því eitt að vinna úr gögnunum á hefðbundinn tölfræðilegan hátt er undarlegt í hæsta máta og alls ekki eitthvað sem sómakær vísindamaður kemur fram með.

    ===================

    * Ath: Eldvirknin í Mount Pinatubo hefur einhver áhrif á leitnina fyrir þetta tímabil. Til samanburðar, þá er 15 ára leitnin um 0,3°C, 16 ára leitnin um 0,28°C og 18 leitnin um 0,41°C. 

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr færslu af skeptical science – sjá Baked Curry: the BEST Way to Hide the Incline

    Aðrar nýlegar umfjallanir af skeptical Science um BEST verkefnið: The BEST Kind of Skepticism og Bad, Badder, BEST

    Góð  umfjöllun um tölfræðina má finna á heimsaíðu Tamino: Judith Curry Opens Mouth, Inserts Foot

    Heimasíða BEST verkefnisins – the Berkeley Earth Surface Temperature (BEST)

    Sjá einnig umfjöllun Einars Sveinbjörnssonar um rannsóknina:  Hvað er “óháð” rannsókn ?

    Heimasíða “efasemdamannsins” Ágústar, þar sem tekið er að nokkru leiti undir sjónarmið Curry: Einn höfunda BEST skýrsunnar í loftslagsmálum ásakar aðalhöfundinn um að villa um fyrir fólki…

    Grein Santer o.fl. 2011 (ágrip): Santer et al. (2011) showed

    Tengt efni á loftslag.is

  • Samhljóða álit vísindamanna um hnattræna hlýnun

    Samhljóða álit vísindamanna um hnattræna hlýnun

    Fyrir nokkru kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

    Samhljóða álit vísindamanna um hnattræna hlýnun

    Þú gætir rekist á lista yfir vísindamenn sem eru efins um að hin hnattræna hlýnun sé af mannavöldum. Fæstir þeirra sem skrifa undir slíka lista eru loftslagsvísindamenn. Þar eru læknar, dýrafræðingar, eðlisfræðingar og verkfræðingar svo einhverjir séu nefndir, en fæstir hafa sérhæft sig í loftslagsfræðum.

    En hvað segja loftslagsvísindamenn? Nokkrar rannsóknir hafa farið fram, þar sem álit þeirra sem eru virkir í faginu hefur verið skoðað. Niðurstaðan er sláandi: yfir 97% loftslagssérfræðinga eru sannfærðir um að mannkynið valdi breytingum á hnattrænu hitastigi jarðar [65,66].

    Þetta hefur verið staðfest með ritrýndri rannsókn. Skoðaðar voru ritrýndar greinar frá árunum 1993 til 2003 þar sem stikkorðið „global climate change“ (is. hnattrænar loftslagsbreytingar) er notað. Engin þeirra var í mótsögn við hið samhljóða álit, að athafnir manna valdi hnattrænni hlýnun [67].

    Við kíkjum á síðasta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir fljótlega.

    Heimildir og ítarefni

    65. Doran og Zimmerman 2009 (ágrip): Examining the Scientific Consensus on Climate Change.

    66. Anderegg o.fl. 2010: Expert credibility in climate change.

    67. Oreskes 2004: Beyond the ivory tower: the scientific consensus on climate change.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Er búið að staðfesta kenningar Svensmarks?

    Er búið að staðfesta kenningar Svensmarks?

    Fyrir þá sem ekki hafa fylgst vel með nýjustu fréttum úr heimi “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun af völdum manna, þá birtist nýlega grein í Nature frá þeim sem rannsaka möguleikann á því að geimgeislar geti myndað kjarna sem gætu haft áhrif á myndun skýja og geti þar með haft áhrif á loftslag, en eins og allir vita þá eru ský mikilvægur þáttur í loftslagi jarðar.

    Til að gera langa sögu stutta, þá hafa efasemdaraddir gerst háværar um að þarna sé búið að staðfesta kenningar Svensmarks (sjá Grein í Nature: Kenning Henriks Svensmark um áhrif geimgeisla og sólvirkni á skýjafar virðist hafa verið staðfest hjá CERN…). Fyrir utan fyrirsögnina, þá eru skemmtilegar setningar í þessari færslu, t.d.:

    Niðurstöðurnar eru mjög jákvæðar fyrir kenninguna um samspil geimgeisla, virkni sólar og skýjafars.

    Til hamingju Henrik Svensmark!

    … einnig:

    Var einhver að hvísla, ætli Henrik Svensmark eigi eftir að fá Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði? Hver veit?

    Síðan er vísað í færslur um kenningar Svensmarks, kenningar sem hafa verið marghraktar (sjá Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar).

    En hversu mikla staðfestingu hafa kenningar Svensmark fengið?

    Eins og við höfum áður fjallað um, þá þarf margt að ganga upp til að staðfesta kenningar Svensmark um áhrif geimgeisla á núverandi loftslagsbreytingar:

    Til að kenningin gangi upp, þá þarf að svara þremur spurningum játandi:

    1. Veldur aukning geimgeisla aukinni skýjamyndun?
    2. Breytir mismunandi skýjahula hitastigi jarðar?
    3. Skýrir breyting í skýjahulu þá hlýnun sem orðið hefur undanfarna áratugi?

    Hingað til hefur ekki verið hægt að svara spurningum þessum játandi og því fróðlegt að íhuga hvort eitthvað hafi komið í ljós í þessari nýju grein. Til að byrja með er rétt að taka fram að þessi nýja grein hefur í sjálfu sér ekkert með Svensmark að gera, því þótt höfundar greinarinnar séu fjölmargir þá er Svensmark ekki þar á meðal (sjá Kirkby o.fl. 2011).

    Í stuttu máli sagt, þá kemur í ljós að höfundar fundu aukna kjarnamyndun við meiri jónun (þ.e. eins og búast má við af auknum geimgeislum), sérstaklega við aðstæður eins og í miðju veðrahvolfinu. Minni áhrif voru lægra í lofthjúpnum – þ.e. þar sem áhrifin á loftslag ættu að vera hvað mest (samkvæmt kenningum Svensmark).  Aðalhöfundurinn sagði ennfremur í viðtali við Nature (sjá Nature Podcast) að í raun segði greinin

    …ekkert um möguleg áhrif geimgeisla á ský og loftslag, en væri samt mikilvægt fyrsta skref.

    Hægt er að hlusta á þetta viðtal í þessu nýja myndbandi frá Greenman:

    Fyrst þegar þessi grein kom fram, þá hélt maður, að já kannski að búið væri að staðfesta  1. lið í geimgeislakenningu Svensmarks – en nei, ekki er það enn tilfellið.  2. og þá sérstaklega 3. liður eru einnig víðs fjarri, enda hefur sólvirkni og þar með áhrif frá geimgeislum, verið fjarri því að sýna leitni við hækkun hitastigs:

    Árlegt hnattrænt hitastig jarðar (þunn rauð lína) með 11 ára meðatalslínu (þykk rauð lína). Hitastig frá NASA GISS. Árleg sólvirkni – TSI (þunn blá lína) með 11 ára meðaltalslínu TSI (þykk blá lína). TSI frá 1880-1978 frá Solanki. TSI frá 1979-2009 frá PMOD.

    Því virðist þetta vera, eins og svo oft áður, upphlaup og tilefnislausar staðhæfingar þeirra sem hafa “efasemdir um hnattræna hlýnun af mannavöldum” – sjá t.d. Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun

    Heimildir og ítarefni

    Greinin í Nature eftir Jasper Kirkby o.fl. 2011 (ágrip):  Role of sulphuric acid, ammonia and galactic cosmic rays in atmospheric aerosol nucleation.

    Á Real Climate er fjallað um þessa grein: The CERN/CLOUD results are surprisingly interesting…

    Einnig er umfjöllun um greinina á Skeptical Science, sjá: ConCERN Trolling on Cosmic Rays, Clouds, and Climate Change

    Tengt efni á loftslag.is

  • “Við erum á leið inn í litla ísöld!!” – Jahérna, getur það nú verið…lítum á vísindin…

    “Við erum á leið inn í litla ísöld!!” – Jahérna, getur það nú verið…lítum á vísindin…

    Enn eitt snilldar myndbandið frá Potholer54, en hann lítur hlutina gagnrýnum augum og leyfir sér að efast um fullyrðingar sem settar eru fram án frekari rökstuðnings. Gagnrýnislausar fullyrðingar eru einmitt kennimerki þeirra sem afneita vísindum, en vilja þó láta kalla sig “efasemdamenn”… Jájá, en hvað er til í fullyrðingum sem hafa m.a. tröllriðið sumum fjölmiðlum (vonandi þó ekki íslenskum) um að “við séum á leið inn í nýja litla ísöld”…tja, hvernig ætli sé best að rannsaka svona fullyrðingar? Potholer54 tekur sig yfirleitt til og les með athygli fréttir og tilvísanir sem eru í fréttum um svona mál og skoðar svo vísindalegan bakgrunn fullyrðinganna… Hans eigin lýsing á myndbandinu er eftirfarandi (í lauslegri þýðingu):

    Áður en þú trúir hverju því sem stendur í fjölmiðlum, ættirðu að athugaðu heimildir þeirra fyrir kjánalegum fullyrðingum, eins og einni sem hefur sést að undanförnu. Einnig væri ráð að finna út úr því hvað vísindamenn eru RAUNVERULEGA að segja um meinta smá ísöld á næstunni.

    En höfum ekki fleiri orð um þetta, sjón er sögu ríkari:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Vísindi í gapastokk

    Vísindi í gapastokk

    Endurbirting myndbands.

    Í þessu myndbandi ræðir Greenman3610 (Peter Sinclair), m.a. um hin marg umtöluðu tilfelli rangtúlkana sem fóru í gang varðandi orð Phil Jones, í viðtali við BBC á síðasta ári, um að hlýnunin síðan 1995 til 2009 væri ekki marktæk innan 95% örryggisstigsins (tölfræðileg skilgreining). Það var túlkað af einhverjum sem svo að ekki hefði hlýnað síðan 1995, sem er nett rangtúlkun.

    Ný gögn þar sem árið 2010 er með í talnasafninu, og lengja því tímabilið um einungis eitt ár, sýna nú fram á að hlýnunin síðan 1995 er marktæk innan 95% öryggisstigsins, sjá nánari umfjöllun um það í eftirfarandi tengli, Global warming since 1995 ‘now significant’. Spurningin sem maður spyr sig nú, er hvort þeir sem héldu þessum rangtúlkunum á lofti muni nú sjá að sér og fjalla jafn mikið um þetta og hinar fyrri rangtúlkanir – ég myndi ekki veðja á það sjálfur… En hvort sem hlýnunin var innan 95% öryggisstigsins eða 90% öryggistigsins (sem var tilfellið) fyrir tímabilið 1995 – 2009, þá er nú langt frá því að hægt sé að túlka það sem að það hafi alls ekki verið hlýnun á tímabilinu. En það getur einmitt verið þörf á að skoða lengri tímabil til að fá fram niðurstöður sem eru marktækar á 95% öryggisstiginu, í þessu tilfelli vantaði aðeins eitt ár upp á þá niðurstöðu. En eftir þennan langa formála, skulum við nú snúa okkur að endurbirtingunni:

    Í þessu myndbandi skoðar Greenman3610 (Peter Sinclair) hvar best er að nálgast áreiðanlegar heimildir um loftslagsvísindin og einnig fer hann yfir mál þar sem fram kom frétt, á Daily Mail, um að Phil Jones (loftslagsvísindamaður) hefði fullyrt að engin hlýnun hefði verið síðan 1995, sem reyndist ekki sannleikanum samkvæmt, en það kom þó ekki í veg fyrir að sumir fréttamiðlar og fjöldin allur af bloggsíðum endurómuðu það sem einhverja staðreynd og reyndu setja vísindin á gapastokk, ef svo má að orði komast. En hvernig nálgast maður upplýsingar um vísindin? Eftirfarandi er lýsing Greenman3610 á myndbandinu:

    Þar sem ég er ekki vísindamaður, þá dregur hið mikla magn upplýsinga um hnattrænar loftslagsbreytingar, úr mér kjark þegar kemur að því að skoða þær. Ég hef komist að því að lang áreiðanlegustu heimildirnar koma úr virtum ritrýndum tímaritum. En tímarit hafa mörg löng orð, mikið af smáu letri og lítið af myndum, sem auðveldar mér ekki lífið. Það er því auðvelt að sjá hvers vegna þeir sem afneita loftslagsvísindunum líkar ekki við þau. En það er þar sem staðreyndirnar eru.

    Hvernig er hægt að bera kennsl á góð vísindatímarit?

    Að venju eru myndbönd Greenman3610 nokkuð kaldhæðin, en þau innihalda oft nokkuð fróðlegan vinkil á málin, sjá önnur myndbönd frá honum hér.

    Tengt efni á loftslag.is: