Loftslag.is

Tag: Framtíðarsýn

  • Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

    Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

    Loftslagsbreytingar af mannavöldum virðast geta orðið að kosningamáli í kosningunum þann 27. apríl. Það má m.a. nefna ólgusjó Pírata undanfarna daga svo og fróðlegan spurningalista guðfræðinga sem sendur hefur verið til allra framboða. Spurningalistinn fjallar m.a. um loftslagsmálin.

    pirata_FBEfsti maður Pírata í Reykjavík Suður (Jón Þór Ólafsson) hefur fullyrt opinberlega um fals og svik vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum, sjá m.a. frétt á DV, Pírati efast um loftslagsbreytingar af manna völdum. Það er athyglisvert að í athugasemdum við frétt DV hafa nokkrir Píratar tekið til máls og það er ekki að sjá að þau telji nokkuð rangt í skoðunum Jóns Þórs og þau velja að verja frelsi hans til að segja sína skoðun – sem honum er að sjálf sögðu velkomið. Jón Þór hefur sjálfur undirstrikað skoðanir sínar um fals vísindamanna í athugasemdum, þannig að það virðist vera hægt að slá því föstu að hann telji enn að loftslagsvísindi séu byggð á fölsunum og svindli. Þó það sé skýr réttur manna að hafa skoðanir, þá  fylgir því þó ábyrgð og sú ábyrgð er í samræmi við stefnu Pírata – hinn svokallaða Píratakóða – þar sem eftifarandi kemur fram:

    Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.

    Ég vona að Píratar hafi þor og siðferðilegt hugreki til í að axla þá ábyrgð sem þessu frelsi fylgir. Það er ekki hægt að saka heila vísindagrein um fals og svindl án þess að fótur sé fyrir því og vilja svo ekki taka andsvörun upp á málefnalegan hátt – þau andsvör verða Píratar að taka á. Annað sem kemur fram í Píratakóðanum er:

    Píratar eru fróðleiksþyrstir
    Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað.

    Gott mál – það er hægt að styðja þetta – en að sjálfsögðu gefur þetta ekki opið veiðleyfi á vísindalegar niðurstöður sem ekki eru í takt við persónulegar skoðanir einstaklinga. Hitt er annað mál að það má kannski spyrja sig hvenær aðgengi að upplýsingum sé ótakmarkað – til að mynda er nánast allt efni varðandi vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar af mannavöldum aðgengilegt í einhverju formi á einn eða annan hátt. Það má segja að það megi nú orðið finna allar þær “upplýsingar” sem fólk vill nálgast, til að mynda með því að gúgla á netinu – það á ekki síður við um hluti sem ekki standast skoðun. Það mætti því kannski bæta því við í Píratakóðann að vísindaniðurstöður (og fleiri niðustöður) eigi að byggja á gæðum og góðum rannsóknum, en ekki einhverju “kukl gúgli” einstaklinga eða persónulega lituðum skoðunum. Píratapartýið þarf að sjálfsögðu að þola að taka gagnrýni á skoðanir frambjóðenda og flokksins – sama gildir aðra flokka. Það fylgir því nefnilega ábyrgð að setja fram samsæriskenningar eins og Jón Þór gerir og það er komin tími til að hann læri af mistökum sínum, eða eins og Píratar velja að orða það í Píratakóðanum “Píratar læra af mistökum sínum.”

    Hitt er annað mál að Píratar eru svo sem ekki einu stjórnmálasamtökin sem hafa innan sinna raða fólk sem afneitar loftslagsbreytingum af mannavöldum – sjá til að mynda Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar hér á loftlsag.is. Fólk innan raða Sjálfstæðismanna (til að nefna nærtækt dæmi) hafa einnig sett fram háværar efasemdir og það er ekki eitt orð um loftslagsmálin á kosningasíðu þeirra.

    gudfraedingar

    Á Facebook má finna hópinn Guðfræðingar krefjast svara, þar sem hópur 5 guðfræðinga hafa tekið sig saman og sent fyrirspurn til framboðanna varðandi orkumál, loftslagsmál og flóttamannamál. Þetta eru allt málefni sem verða ofarlega á döfunni á næstu árum og áratugum, en þó alls ekki sjálfgefið að stjórnmálamenn hafi forgangsraðað því ofarlega á lista kosningaloforða í ár. Vinstri GrænDögun og Björt Framtíð hafa nú þegar svarað guðfræðingunum – svörin má lesa í tenglunum. Önnur framboð hafa enn sem komið er ekki svarað. Það verður fróðlegt að fá svör frá fleiri stjórnmálaöflum á spurningum guðfræðinganna og vonandi sjá Píratar sér líka fært að svar, enda er spurningalistinn allrar athygli verður og fróðlegur (sama hvaða trúarlegu skoðanir fólk kann að hafa). Við hvetjum framboðin til að svara spurningalista guðfræðinganna.

    Umhverfisverndarsamtök á Íslandi hafa einnig spurt framboðin um megináherslur í umhverfismálum fyrir kosningarnar 2013 – svörin má finna á YouTube-vefnum xUmhverfisvernd – þar sem 9 framboð hafa þegar svarað og er það vel að framboðin skýri sína stefnu – hver sem hún kann að vera.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Hjólastóllinn – ný heildarmynd

    Hjólastóllinn – ný heildarmynd

    Margir kannast við hokkíkylfuna klassísku, en nýjasta heildarmyndin er nokkuð umfangsmeiri en sú mynd og hefur fengið viðurnefnið hjólastóllinn.

    Sú mynd sýnir áætlað hitastig frá því á síðasta kuldaskeiði ísaldar, fyrir um 22 þúsund árum, allan nútíma og fram til loka þessarar aldar sem nú er hafin (til 2100).

    Shakun_Marcott_HadCRUT4_A1B_500

    Mynd 1: Áætlað hnattrænt hitafrávik á síðasta kuldaskeiði ísaldar Shakun o.fl. 2012 (græn lína), hitastig á nútíma Marcott o.fl. 2013 (blá lína), ásamt hnattrænum hita síðastliðna rúma öld samkvæmt HadCRUT4 (rauð lína) og áætlað hitastig samkvæmt IPCC sviðsmynd  A1B fram til ársins 2100 (appelsínugul lína).

    Helsta nýjungin í þessu línuriti er bláa línan, en fyrr í þessum mánuði kom út grein í Science eftir Marcott o.fl. (2013) þar sem höfundar taka saman gögn frá 73 svæðum sem dreifð eru um jörðina og þykja saman gefa góða vísbendingu um breytingu á hitastigi síðastliðin 11 þúsund ára. Þar er um að ræða fyrstu almennilegu tilraunina til að taka saman hitagögn fyrir allan nútíma (e. holocene). Það línurit er því besta nálgun sem við höfum nú um þróun hitastigs á jörðunni, á nútíma. Línuritið endar um miðja síðustu öld og sýnir því glögglega hvernig hitastigið hækkar eftir 1850:

    Hockeystick-Marcott_Mann2008

    Mynd 2: Hitafrávik samkvæmt Marcott o.fl. 2013 (síðastliðin 11 þúsund ár) og ýmsar rannsóknir teknar saman af Mann o.fl. 2008 (síðastliðin 1800 ár), sjá einnig hér.

    Þessi mynd ætti ekki að koma áhugafólki um loftslagsmál á óvart, því til hefur verið mynd sem sýnir samskonar þróun í hitastigi og oft er vísað til.  Hér má sjá þá ágætu mynd sem sýnir samanburð milli þessara tveggja línurita:

    Holocene_Temperature_Variations_Marcott_500

    Mynd 3: Hnattrænt hitastig frá Global Warming Art, með meðalhitafrávik í svörtu, ásamt Marcott o.fl. 2013 í rauðu.

    Samkvæmt rannsókn Marcott og félaga þá er jörðin að hlýna hratt, jarðsögulega séð – hins vegar vara höfundar við að upplausn gagnanna grípi ekki vel fyrri sveiflur, sérstaklega ekki ef þær hafa varað stutt, þannig að ekki er hægt að útiloka að yfir önnur tímabil hafi hitastig breyst jafn hratt og nú. Samkvæmt línuriti þeirra þá reis hitastig upp í hæstu hæðir fyrir um 7 þúsund árum síðan, en eftir það lækkaði það smám saman. Þessi breyting er í takti við breytingar í sveiflum í möndulhalla halla og fjarlægð jarðarinnar frá sólu – svokallaðrar Milankowitch sveiflu (sjá t.d. hér).

    Eftir 1850 eru áhrif losunar manna á gróðurhúsalofttegundum orðin greinileg á mynd Marcott og félaga.

    Jarðsöguleg tímabil hafa upphaf og endi. Ef skoðað er fyrrnefnt línurit, þá má segja að hafið sé nýtt tímabil í jarðsögunni og að það hafi byrjað um 1850. Áður hafa komið fram tillögur um að kalla slíkt tímabil Anthropocene (mannskepnuskeiðið samkvæmt tillögu Trausta Jónsonar Veðurfræðings).

    Ef við lítum aftur á mynd 1 í byrjun þessarar færslu, þá má sjá að mannkynið er að búa til nýjan heim, heim með loftslagi sem samfélög manna hafa ekki þurft að glíma við áður. Miðað við stöðuna í dag, þá lítur ekki út fyrir að þjóðir heims ætli, né vilji taka á þeim vanda sem við blasir. Til þess þarf festu, en einnig hugrekki til að standast þær freistingar sem skammtímagróði vekur og skynsemi til að sjá kostnaðinn sem þessar athafnir manna munu valda til framtíðar.

    Heimildir og ítarefni

    Byggt á færslu á Skeptical Science, sjá The two epochs of Marcott and the Wheelchair

    Shakun o.fl. 2012: Global warming preceded by increasing carbon dioxide concentrations during the last deglaciation

    Marcott o.fl. 2013: A Reconstruction of Regional and Global Temperature for the Past 11,300 Years

    Mann o.fl. 2008: Proxy-based reconstructions of hemispheric and global surface temperature variations over the past two millennia.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Áhrif loftslagsbreytinga á tjón vegna hitabeltislægða

    Áhrif loftslagsbreytinga á tjón vegna hitabeltislægða

    Ein afleiðing aukinnar losunnar gróðurhúsalofttegunda er aukið tjón vegna öfga í veðri.  Í nýlegri grein er reynt að meta áhrif loftslagsbreytinga á tjón af völdum hitabeltislægða/fellibylja (e. tropical cyclone).

    Slóð hitabeltislægða og lágmarksþrýstingur fyrir ákveðið sýnishorn úr loftslagslíkönum.

    Í ljós kom að jafnvel án loftslagsbreytinga myndi tjón aukast af völdum hitabeltislægða, þá vegna aukinna verðmæta á þeim svæðum þar sem hitabeltislægðir fara jafnan yfir . Spár benda einnig til að sterkir stormar muni aukast á mörgum hafssvæðum í framtíðinni – loftslagslíkönum ber þó ekki saman um hversu mikið og hvar. Þó eru loftslagsbreytingar taldar munu tvöfalda efnahagslegt tjón. Megnið af tjóninu yrði staðsett við strendur Norður Ameríku, Austur Asíu og við Karabíuhafið.

    Enn er margt ólært samkvæmt höfundum, t.d. voru sjávarstöðubreytingar og aðlögun ekki tekin með í reikninginn, en hið fyrrnefnda gæti aukið tjónið á meðan það seinna myndi draga úr tjóni.

    Heimildir og ítarefni

    Færslan er unnin upp úr grein sem birtist í Nature Climate Change og er eftir Mendelsohn o.fl. 2012 (ágrip): The impact of climate change on global tropical cyclone damage

    Hægt er að nálgast afrit af greininni hér, allavega tímabundið: The impact of climate change on global tropical cyclone damage

    Tengt efni á loftslag.is

  • 3D Sólarorka

    3D Sólarorka

    Nú um daga er vinsælt að skella sér í 3D bíó. En 3D (alla vega hugtakið 3D) er einnig komið á kort vísindamanna varðandi sólarorku. Vísindamenn við MIT (Massachusetts Institute of Technology) telja að með því að skipta út flötum sólarpanilum fyrir þrívíða uppbyggingu panilanna, þá sé hægt að ná allt að 20 sinnum meiri skilvirkni í sólarsellunum. Í tilraunum rannsakenda kom í ljós að einskonar þrívíð uppbygging á sólarsellum varð til þess að jafnvel sólarljós sem barst við minni vinkil nýttist betur og að endurspeglun í kerfinu hjálpaði til við að fanga sólarljósið. Uppbyggingin getur einnig tvöfaldað þann tíma sem hámarks afköst nást. Vísindamennirnir segja að smávægilega endurbætt kerfi með kassalaga sellum sem standa upp úr panilunum (ekki alveg 3D) geti aukið afkastagetuna um allt að 3,8 sinnum, miðað við flata panila. Þrátt fyrir að flóknari bygging leiði til dýrari panila, þá  segir Marco Bernardi, einn rannsakenda, að aukin afkastageta vinni upp á móti þeim kostnaði.

    Heimildir: 

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Durban og COP17 – Í stuttu máli

    Durban og COP17 – Í stuttu máli

    Við höfum lítið sem ekkert rætt um loftslagsráðstefnuna COP17, sem haldin er í Durban um þessar mundir, hér á loftslag.is. Kannski er það vegna lítilla væntinga til fundarins eða kannski erum við bara önnum kafnir og látum það mæta afgangi. En hvað sem veldur, þá viðurkenni ég fúslega að áhugi minn er dempaður og ég hef lítið fylgst með hingað til. Reyndar byrjuðu “efasemdamenn” með pompi og prakt þegar þeir þyrluðu hinu vanalega ryki í augu fólks rétt fyrir fundinn, sjá Climategate 2.0 – Enn eitt plathneykslið í uppsiglingu? – það virðist þó hafa verið frekar þróttlítið hjá þeim í þetta skiptið…enda vill fólk almennt ekki láta plata sig oft með sömu útúrsnúningunum.

    Það má m.a. finna yfirlit yfir það sem gerist í Durban á vef Guardian, Global climate talks og einnig myndir og stutt yfirlit frá degi til dags hér. Ein af nýjustu fyrirsögnunum á vef Guardian er á þessa leið “Durban talks unlikely to result in climate change deal” – sem segir kannski sitthvað um árangurinn. Það má þó halda í þá von að það verði lagður einhver grunnur að samningi í náinni framtíð, þó skrefin verði hugsanlega smá fyrst um sinn. Það er í raun ekki ásættanlegt að draga þessi mál á langin. Þjóðir heims verða að taka sig saman og finna lausnir í sameiningu og leggja sérhagsmuni til hliðar fyrir heildina.

    Talandi um hænuskref (vonandi í rétta átt), þá má taka þátt í undirskriftasöfnun á netinu til bjargar Jörðinni (hvorki meira né minna), sjá 48 hours to save our dying planet!  – undirritaður hefur þegar ritað nafn sitt þar í þeirri von að margt smátt geri eitt stórt og hvet ég áhugasama til að taka þátt – enda mikilvæg málefni.

    Hér má sjá myndband þar sem gerð er tilraun til að útskýra hvernig svona ráðstefnur fara fram, tekur aðeins 3 mínútur:


    Tengt efni á loftslag.is:

  • IPCC telur að aukin tilfelli öfga í veðri sé tengt hækkandi hitastigi

    IPCC telur að aukin tilfelli öfga í veðri sé tengt hækkandi hitastigi

    Flóð í Bangkok

    Í drögum að skýrslu sem Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna (IPCC) hefur birt, kemur fram að líkurnar séu 2 á móti 3 að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu nú þegar farnar að hafa afleiðingar í átt að auknum öfgum í veðri. Í samantekt skýrslunnar, sem Associated Press hefur komist yfir, kemur fram að aukning illviðra, eins og til að mynda úrhellisins sem hefur valdið miklum flóðum í Tælandi, muni leiða til fleiri dauðsfalla og skemmdum á eignum sem og gera sum svæði að auknum jaðarbúsvæðum í framtíðinni. Í skýrslunni kemur fram að vísindamenn telji sig “því sem næst sannfærða” um að áframhaldandi hlýnunin muni valda, ekki einungis aukningu öfgakenndra hitabylgja og þurrka á sumum svæðum, en muni líka vera ástæða úrhellisrigninga sem muni geta valdið alvarlegum flóðum. Skýrslan sem fer m.a. í það umdeilda efni hvort loftslagsbreytingar hafi nú þegar valdið meiri öfgum í veðri, kemur út eftir nokkrar vikur, fyrir loftslagsráðstefnuna sem haldin verður í Durban í Suður Afríku í desember. “Ég tel að fólk geri sér ljóst að öfgarnir sé það sem við munum sjá varðandi afleiðingar loftslagsbreytinga,” sagði Jerry Meehl, vísindamaður hjá bandarísku lofthjúps rannsóknarmiðstöðinni.

    Heimild:

    YALE Environment360 – EXTREME WEATHER EVENTS LIKELY LINKED TO WARMING, IPCC SAYS

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

    Tíðni hitabylgja gæti aukist í Bandaríkjunum

    Eitt af því sem vísindamenn spá að muni aukast við þær loftslagsbreytingar sem nú eru að verða eru hitabylgjur. Mikil hitabylgja gengur nú yfir Suðurríki Bandaríkjanna sem eru í góðu samræmi við það sem vísndamenn segja.  Af því tilefni rifjum við upp færslu af loftslag.is frá því í fyrra:

    Óvenjulangar hitabylgjur og óvenjumikill hiti gæti orðið algengur í Bandaríkjunum á næstu 30 árum, samkvæmt  nýlegri rannsókn.

    Við rannsóknina voru notaðar umfangsmiklar keyrslur á þriðja tug mismunandi loftslagslíkana, þar sem könnuð var sú sviðsmynd að losun CO2 í andrúmsloftinu myndi auka hnattrænt hitastig jarðar um 1°C frá 2010-2039 – sem þykir frekar líklegt samkvæmt IPCC. Höfundar greindu hitagögn fyrir Bandaríkin milli áranna 1951-1999. Markmið þeirra var að finna lengstu hitabylgjurnar og heitustu árstíðina fyrir seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Þær greiningar voru keyrðar í loftslagslíkönum, meðal annars inn í RegCM3 sem er loftslagslíkan með mikilli upplausn og líkir eftir hitastigi frá degi til dags á litlu svæði (25×25 km).

    Samkvæmt niðurstöðunni, þá munu hitabylgjur – svipaðar og þær lengstu á tímabilinu 1951-1999 – verða allt að fimm sinnum milli áranna 2020-2029 á hluta vesturstrandar og miðríkja Bandaríkjanna. Á milli 2030-2039 verða þær enn viðameiri og algengari.

    Höfundar spá einnig mikilli aukningu í óvenjulegu árstíðabundnu hitastigi á áratugnum sem nú er hafinn, en hitastig sem jafnast á við heitustu árstíðina frá 1951-1999 gæti orðið allt að fjórum sinnum fram til ársins 2019 yfir stóran hluta Bandaríkjanna. Auk þess töldu höfundar líklegt að dagleg hitamet verði tvisvar sinnum algengari á fjórða áratug þessarar aldar en milli áranna 1980-1999.

    Fyrir áratuginn 2030-2039, gæti stór hluti Bandaríkjanna orðið vitni að allavega fjórum árstíðum á áratug, sem verða jafn heit og heitasta árstíðin á tímabilinu 1951-1999. Í Utah, Colorado, Arizona og Nýju Mexíkó gætu mjög heitar árstíðir á áratug orðið allt að sjö.

    Einn aðalhöfunda segir um niðurstöðuna: “Á næstu 30 árum, gætum við séð aukningu á tíðni hitabylgja líka þeirri sem gengur nú yfir Austurströnd Bandaríkjanna (byrjun júlí) eða líka þeirri sem reið yfir Evrópu árið 2003 og olli tugum þúsunda dauðsfalla. Hitabylgjur sem þær, valda einnig töluverðu álagi á ræktun korns, sojabauna, baðmullar og vínberja, sem getur valdið uppskerubrest.” Við þetta bætist að líklegt er talið að breytingar í úrkomu og raka jarðvegs eigi eftir að versna til muna þegar líður á öldina og muni það magna upp afleiðingar hitabylgjanna – þ.e. að meira verði um þurrka og skógarelda í náinni framtíð.

    Miðað við fyrrnefnda sviðsmynd, yrði hnattrænn hiti eftir 30 ár um 2°C heitari en fyrir iðnbyltinguna. Margir hafa talið það ásættanlegt markmið til að komast hjá verstu afleiðingum hlýnunar Jarðar (sjá Tveggja gráðu markið). Samkvæmt þessari rannsókn þá munu svæði í Arizona, Uta, Colorado og Nýju Mexíko verða fyrir allavega 7 hitabylgjum á tímabilinu 2030-2039 – hitabylgjum jafn heitum og þær verstu frá árinu 1951-1999. Þar með telja höfundar að mörg svæði Bandaríkjanna muni verða fyrir alvarlegum afleiðingum hlýnunar Jarðar, þrátt fyrir að tveggja gráðu markið myndi nást.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr frétt af heimasíðu Stanford háskólans: Heat waves and extremely high temperatures could be commonplace in the U.S. by 2039, Stanford study finds

    Diffenbaugh, N.S. and Ashfaq, M., Intensification of hot extremes in the United States, Geophysical Research Letters, doi:10.1029/2010GL043888, in press.

    Tengdar færslur á loftslag.is

  • Nýjar tölur um losun CO2 fyrir árið 2010

    Nýjar tölur um losun CO2 fyrir árið 2010

    Frá Alþjóðaorkustofnuninni (IEA) kom nýlega fram mat á hnattrænni losun á CO2 fyrir árið 2010 og eru þær tölur slæmar fréttir. Milli áranna 2003 og 2008 þá jókst losun CO2 hraðar en verstu spár IPCC höfðu gert ráð fyrir. Í kjölfar efnahagskreppunnar þá hægði umtalsvert á aukningunni og í raun var minni losun árið 2009 (29 gígatonn) heldur en á árinu 2008 (um 29,4 gígatonn).

    Því er það ekki gott, að þrátt fyrir hægan bata í efnahagi þjóða þá var aukningin í losun CO2 frá jarðefnaeldsneeyhti árið 2010 sú mesta frá upphafi mælinga. Vöxturinn milli áranna 2009 og 2010 er um 1,6 gígatonn og var losunin því um 30,6 gígatonn árið 2010. Mesti vöxtur þar á undan var milli áranna 2003 og 2004 en þá jókst losunin um 1,2 gígatonn. Eins og sést á mynd 1, þá var losunin í kringum þær sviðsmyndir IPCC sem sýna miðlungslosun, en aukningin árið 2010 hefur orðið til þess að losunin er á pari við næstverstu sviðsmynd IPCC:

    Mynd 1: Mat á losun CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis plottað ásamt sviðsmyndum IPCC. Sviðsmyndir miða við stöðuna eins og hún var árið 2000.

    Sem stendur, hvort heldur talað er um uppsafnaða losun eða árlega losun, þá erum við á pari við sviðsmynd A2 en lýsingin á henni er svipuð og raunin hefur verið (sjá Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi):

    Í sviðsmyndahópi A2 er samþætting hagkerfa lítil og fólki fjölgar út öldina. Áhersla er á staðbundnar lausnir en tækniþróun og hagvöxtur er hægari en í öðrum sviðsmyndum.

    Bjartsýni sumra sviðsmynda um öra þróun tæknilausna til móts við losun CO2 hefur því ekki ræst. En hvað þýðir það ef að kolefnislosun heldur áfram á sömu braut?

    Mynd 2: Styrkur CO2 í andrúmsloftinu eins og það hefur mælst á Mauna Loa frá árinu 1958 til 2008 (svört brotalína) ásamt mismunandi sviðsmyndum IPCC (IPCC Data Distribution Centre)

    Mynd 3: Ætlað hitastig mismunandi IPCC sviðsmynda út frá loftslagslíkönum.Skygging sýnir ±1 staðalfrávik meðalhitastigs hvers árs. (Heimild: IPCC).

    Sviðsmynd A2 leiðir að styrk CO2 í andrúmsloftinu sem verður í kringum 850 ppm  árið 2100 og meðal hitastig sem yrði um 3,5° C heitara en árið 2000 (eða meira en 4°C heitara en fyrir iðnbyltinguna).

    Áður en efnahagskreppan hófst þá var losun CO2 á pari við A1F1 (mikil brennsla jarðefnaeldsneytis) og ef losun eykst enn á ný upp í þær hæðir, þá erum við að tala um 950 ppm CO2 í lok aldarinnar og um 4°C hnattræn hlýnun frá árinu 2000 (meira en 4,5°C heitara en fyrir iðnbyltinguna).

    Það virðist augljóst að erfitt verður að ná markmiðum sem miða að því að hækkun hitastigs verði ekki meira en 2°C ofan við það hitastig sem var fyrir iðnbyltinguna . Alþjóðlegar stofnanir hafa miðað við tvær gráður sem ákveðin hættumörk sem þó gæti verið of mikið. Loftslagssetur Bresku Veðurstofunnar (UK Hadley Centre Met Office) gaf út nýlega að til þess að halda hitastigi innan við 3°C hækkun hitastigs, þá hefði kolefnislosun þurft að halda áfram að dragast saman árið 2010 (Mynd 4).

     

    Mynd 4: Hlýnun samkvæmt líkönum Hadley Centre fyrir árið 2100 miðað við mismunandi sviðsmyndir (Heimild)

    Eins og staðan er nú, þá fylgjum við gulu og rauðu örunum á mynd 4. Ef fram heldur sem horfir, þá gætu afleiðingarnar orðið slæmar. Afleiðingar skv. IPCC ef hnattræn hlýnun verður 3-4°C ofan við stöðuna fyrir iðnbyltinguna eru meðal annars:

    • Vatnsskortur eykst fyrir hundruði milljóna manna
    • 30-40% tegunda lífvera í útrýmingahættu
    • 30% af votlendi við sjávarsíðuna gæti horfið
    • Aukið tjón vegna flóða og storma
    • Viðamiklir kóraldauðar
    • Minnkandi kornuppskera
    • Dauðsföllum vegna hitabylgja, flóða og þurrka fjölgar

    Ein af niðurstöðum IEA er að 80% af þeim orkuveitum sem munu brenna jarðefnaeldsneyti árið 2020 eru í byggingu eða búið að byggja – sem þýðir að kolefnislosun við bruna jarðefnaeldsneytis mun að öllum líkindum halda töluverðum dampi -en einn þriðji af losun manna á CO2 kemur þaðan. Það þýðir að þeim mun meira þarf að minnka losun á öðrum sviðum – eins og t.d. samgöngum.

    Viðvörunarbjöllur hringja og segja okkur að herða róðurinn í að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar loftslagsbreytinga. Nauðsynlegt er að fara að fylgja grænu örinni á mynd 4, sem þýðir að bregðast þarf við snöggt og strax til að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

    Heimildir og ítarefni

    Þessi færsla er að mestu leiti unnin upp úr færslu á Skeptical Science – IEA CO2 Emissions Update 2010 – Bad News

    Tengt efni á loftslag.is

  • Tvær gráður of mikið

    Tvær gráður of mikið

    Endurbirting

    Nýlega kom út grein (Turney og Jones 2010) um rannsókn á setlögum sem varðveita smáatriði frá síðasta hlýskeiði ísaldar (fyrir um 130–116 þúsund árum). Rannsóknin bendir til þess að tveggja gráðu hækkun hitastigs frá því fyrir iðnbyltingu geti haft óæskilegar afleiðingar.

    Við rannsóknina, þar sem skoðaðar voru setlagamyndanir frá síðasta hlýskeiði ísaldar, þá tókst höfundum að endurgera hnattrænan hitaferil á síðasta hlýskeiði ísaldar. Til að bera hann saman við aðstæður í dag, þá drógu þeir meðalhitastig frá 1961-1990 frá þeim ferli.

    Tveggja gráðu markið. Efri myndin sýnir útblástur CO2 með takmörkunum á útblæstri (blátt) og án takmarkana (rautt). Þar neðan við er líkan sem sýnir hvaða áhrif þessar tvær sviðsmyndir myndu mögulega hafa á hitastig jarðar (mynd af ScienceDayly.com).

    Niðurstaðan sýnir að hitastigið virðist hafa verið meira en 5°C hærra á hærri breiddargráðum, á meðan hitastig hitabeltisins jókst lítillega – sem er mjög svipað og núverandi leitni hitastigs stefnir í. Að auki, þegar skoðað er hnattrænt hitastig hlýskeiðisins, þá var Jörðin um 1,9 °C heitari – samanborið við hitastig fyrir iðnbyltinguna. Þetta hitastig er talið hafa hækkað sjávarstöðu í um 6,6-9,4 m hærri sjávarstöðu en er í dag. Hraði þessarar hækkunar sjávarstöðu er samkvæmt þessari rannsókn talin hafa verið um tvöfalt hraðari en fyrri rannsóknir hafa bent til (Kopp o.fl. 2009).

    Ástæður þessarar hlýnunar er í grunninn vegna breytinga í sporbaug Jarðar og meiri sólgeislunar á norðurhveli Jarðar yfir sumartíman en er í dag. Sú staða virðist hafa valdið magnandi svörun sem keyrði hitastig Jarðar upp í fyrrnefnt ástand. Aukið hitastig virðist hafa breytt samspili hafstrauma í Indlandshafi og Atlantshafi, sem hafi aukið á kraft hita/seltu hringrásar sjávar og þar með magnað upp hlýnunina.

    Þetta háa hitastig sem sást á síðasta hlýskeiði ísaldar er sambærilegt við það sem talið er að geti orðið við lok þessarar aldar, við sviðsmynd sem gerir ráð fyrir minnkandi losun CO2 út öldina. Samkvæmt þessu þá er ljóst að taka verður tillit til þess í samningaviðræðum þjóða heims – en hingað til hefur talan 2°C hækkun hnattræns hita (frá því fyrir iðnbyltingu) oft verið nefnd sem ásættanlegt markmið og reynt hefur verið að semja um minnkandi losun CO2 til að fara ekki yfir það markmið.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Journal of Quaternary Science, Turney og Jones 2010 (ágrip): Does the Agulhas Current amplify global temperatures during super-interglacials?

    Kopp o.fl. 2009 (ágrip): Probabilistic assessment of sea level during the last interglacial stage

    Á heimasíðu celsias er pistill eftir annan höfunda Chris Turney: A Lesson From Past Global Warming

    Umfjöllun Science Daily um greinina: Climate Change Target ‘Not Safe’, Researchers Say

    Tengt efni á loftslag.is

  • Þiðnandi sífreri mun auka á hnattræna hlýnun jarðar

    Þiðnandi sífreri mun auka á hnattræna hlýnun jarðar

    Þýdd skematísk mynd úr grein Schaeffer o.fl. 2011 sem sýnir magnandi svörun við bráðnun sífrera.

    Einn til tveir þriðji af sífrera jarðar gæti verið horfinn fyrir árið 2200 og þar með myndi losna töluvert magn kolefnis, CO2 út í andrúmsloftið, samkvæmt nýrri rannsókn gerð af stofnununum CIRES og NSIDC (Schaefer o.fl 2011).

    Magn CO2 sem myndi losna er svipað og hefur nú þegar verið losað út í andrúmsloftið af mönnum frá því í byrjun iðnbyltingunnar samkvæmt höfundum.

    Kolefni í freðinni jörð, í svokölluðum sífrera, mun ekki bara hafa áhrif á loftslagið sjálft, heldur einnig viðleitni manna til að draga úr loftslagsbreytingum – þar sem taka þarf með í reikninginn magnandi svörun vegna bráðnunar sífrera. Kolefnið kemur úr plöntuleifum sem nú eru frosin og hafa verið frosin í tugþúsundir ára. Frostið hefur varðveitt þennan lífmassa sem mun byrja að brotna niður við það að þiðna og losa kolefni út í andrúmsloftið.

    Til að spá fyrir um hversu mikið af kolefni muni losna út í andrúmsloftið og hvenær, þá gerðu Schaefer og meðhöfundar líkan af þiðnun sífrerans og niðurbroti lífmassans sem nú er frosin – miðað við hugsanlegar sviðsmyndir hlýnunar samkvæmt IPCC. Samkvæmt þessum sviðsmyndum mun 29-59% sífrerans hverfa fyrir árið 2200 – við það myndi um 190 ± 64 gígatonn af kolefni losna út í andrúmsloftið. Sökum þess þá þurfa þjóðir heims að setja sér háleitari markmið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem fyrst – annars verður það sífellt erfiðara að koma í veg fyrir magnandi svörun sífrerans.-

    Sjá myndband með viðtali við einn höfunda rannsóknarinnar, Kevin Schaefer:

    Heimildir og ítarefni

    Umfjöllun um greinina ma lesa á heimasíðu háskólans í Colorado:  Thawing permafrost will accelerate global warming

    Greinin eftir Schaefer o.fl. 2011 má finna í tímaritinu Tellus: Amount and timing of permafrost carbon release in response to climate warming

    Tengt efni á loftslag.is