Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Dagur loftslagsáhrifa – línurnar dregnar

    Dagur loftslagsáhrifa – línurnar dregnar

    Á laugardaginn 5. maí er svokallaður dagur loftslagsáhrifa (e. Climate Impacts Day). Dagurinn er haldin í fyrsta sinn í ár og er kominn til, fyrir tilstilli 350.org og má finna heimasíðu verkefnisins hér, Climate Impacts Day. Á degi loftslagsáhrifa eru haldnir viðburðir víða um heim þar sem ætlunin er að minna á loftlagsáhrif sem tilkomin eru vegna losunar gróðurhúsaloftegunda okkar mannanna. Það er nokkuð ljóst í hugum þeirra sem skoða þessi mál á málefnalegan hátt og út frá því sem vísindin hafa um málið að segja, að maðurinn hefur áhrif á hitastig í heiminum með gríðarlegri losun gróðurhúsalofttegunda og mælingar staðfesta kenninguna. Línurnar eru skýrar og það þarf ekki að velkjast í vafa um að loftslagsbreytingar hafa og munu halda áfram að áhrif á íbúa jarðar.

    Það virðist þó ekki vera neinn viðburður á Íslandi á degi loftslagsáhrifa, eins og sjá má á heimasíðu verkefnisins, en kannski einhver geti tekið að sér að stofna til viðburðar (Höskuldur og ég sjálfur höfum því miður öðrum hnöppum að hneppa nú um stundir). En mig langar þó að hvetja til umhugsunar um þessi mál og jafnvel taka upp umræðu á kaffistofum, afmælis- og skírnarveislum og fleiri stöðum þar sem fólk kemur saman. Hvort sem það er núna á laugardag eða bara hvenær sem er, þá er nauðsynlegt að ræða þessi mál, enda verður vandamálið á borðum okkar í framtíðinni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Umræða um lausnir er ekki síður mikilvæg, enda margar leiðir til þess og margar ólíkar skoðanir um hvernig best er að nálgast þær.

    Á loftslag.is má finna ýmislegt um þessi mál. Fyrst ber kannski að nefna undirsíðu þar sem lesa má ýmislegt um kenningarnar og sögu loftslagsvísinda, Kenningin – þar má finna eftirfarandi undirsíður:

    Sagan
    – Áhrif CO2 uppgötvað
    Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
     Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
    Grunnatriði kenningarinnar
    – Mælingar staðfesta kenninguna
    Loftslag framtíðar

    Á annarri athyglisverðri síðu má finna leiðarvísinn, Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, sem er áhugaverður leiðarvísir um loftslagsmál. Leiðarvísinn má prenta út og hafa með sér hvert sem er, m.a. í strætó, vinnuna, flugvélar, skírnir o.s.frv. – maður verður að sjálfsögðu hrókur alls fagnaðar með hann í farteskinu!

    Það þarf einnig að minnast á mýtusíðuna í þessu tilliti, enda mikið af marg notuðum mýtum í umferð um þessi mál. T.d. má nefna mýtur eins og að það hafi verið loftslagsbreytingar áður (sem er staðreynd) og þ.a.l. þá séu núverandi loftslagsbreytingar bara náttúrulegar eða þá mýtan að þetta hljóti að vera sólin. Báðar mikið notaðar, en hvorug stenst nánari skoðun, enda styðja mælingar ekki þess háttar fullyrðingar.

    Að lokum má kannski benda á eftirfarandi tengli, þar sem finna má þýðingarmikið efni sem ratað hefur á loftslag.is í gegnum tíðina (ekki tæmandi listi).

    En allt í allt má segja að línurnar séu skýrar og gögnin afgerandi, loftslagsbreytingar af mannavöldum er staðreynd – En það er ekki of seint í rassinn gripið, bara um að gera að fara að huga að því hvað er til ráða – það er ekki eftir neinu að bíða. Umræða og upplýsingar eru til alls fyrst.

    Auka lesefni:

  • Dagur umhverfisins 25. apríl

    Dagur umhverfisins 25. apríl

    Sökum anna hjá ritstjórum loftslag.is þá er lítið af nýju efni á loftslag.is þessa daga – en það stendur til bóta. Hér er aftur á móti tilkynning um dag umhverfisins af heimasíðu umhverfisráðuneytisins.

    Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur þann 25. apríl næstkomandi. Að þessu sinni ber daginn upp á 250 ára fæðingarafmæli náttúrufræðingsins og læknisins Sveins Pálssonar sem dagurinn er tileinkaður og bera hátíðarhöldin þeirra tímamóta nokkur merki.

    Dagskráin hefst í raun daginn á undan, þ.e. þriðjudaginn 24. apríl, með málþingi um Svein Pálsson þar sem fjallað verður um hann frá ólíkum verkum hans og hugðarefnum. Að málþinginu standa Læknafélag íslands, Landgræðsla ríkisins, Mýrdalshreppur og umhverfisráðuneytið.

    Eins og kunnugt er var Sveinn annálaður fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur sem var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins og þá sérstaklega jöklunum. Hann er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, og vegna þess var fæðingardagur hans valinn sem Dagur umhverfisins. Málþingið hefst kl. 15 í sal 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og er öllum opið. Nánari upplýsingar má finna hér.

    Á Degi umhverfisins, miðvikudaginn 25. apríl, verður hátíðarsamkoma umhverfisráðuneytisins í Listasafni Sigurjóns kl. 10:30 þar sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhendir viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Kuðungurinn verður veittur fyrirtæki sem hefur skarað fram úr í umhverfismálum og
    Varðliðar umhverfisins er viðurkenning sem veitt er grunnskólabörnum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.

    Þá verður Sveins minnst með veglegum hætti í Vík í Mýrdal, þar sem hann bjó og starfaði um áratuga skeið. Hefst dagskrá þar kl. 15, á Guðlaugsbletti, þar sem umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir mun afhjúpa minnisvarða um Svein. Að lokinni hátíðardagskrá í Félagsheimilinu Leikskálum verður farið að leiði Sveins í gamla kirkjugarðinum á Reyni en gerðar hafa verið endurbætur á legsteini Sveins auk aðkomu garðsins og nánasta umhverfi.

  • Mikil styrkaukning CO2 er talin hafa kynnt undir endalok síðasta kuldaskeiðs ísaldar

    Mikil styrkaukning CO2 er talin hafa kynnt undir endalok síðasta kuldaskeiðs ísaldar

    Styrkur CO2 samanborin við hita á Suðurskautinu og hnattrænan hita við lok síðasta kuldaskeiðs ísaldar.

    Mikil styrkaukning á CO2, þá aðallega úr úthöfum á Suðurhveli Jarðar, er talin hafa kynnt undir endalok  síðasta kuldaskeiðs ísaldar, samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í Nature. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu ráðandi styrkur CO2 er í hitabúskap jarðarinnar.

    Vísindamenn frá Harvard og Oregon háskólanum söfnuðu 80 borkjarnasýnum úr ís og sjávarseti til að setja saman þróun CO2 styrks í andrúmsloftinu og hitastigs í lok síðasta kuldaskeiðs ísaldar. Áður höfðu borkjarnar úr jökli Suðurskautsins bent til þess að hlýnunin þar hafi byrjað áður en CO2 styrkurinn jókst. Hin nýja rannsókn hefur sýnt fram á að aðstæður á Suðurskautinu voru aðrar en hnattrænt og að það var styrkur CO2 sem jókst fyrst.

    Það hefur þó lengi verið vitað að frumástæður þess að ísöldin sveiflaðist frá kuldaskeiði og yfir í hlýskeið er vegna breytinga í möndulhalla sem varð til þess að landmassar Norðurhvels jarðar hitnuðu og jöklar bráðnuðu. Sú hlýnun varð smám saman hnattræn – er mikið magn CO2 fór að auka styrk í andrúmsloftinu.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Nature og er eftir Shakun o.fl. 2012 (ágrip): Global warming preceded by increasing carbon dioxide concentrations during the last deglaciation

    Umfjöllun um greinina má lesa í Nature News and Comment: How carbon dioxide melted the World

    Climate Central fjallaði um greinina, sjá Climate and Carbon: The link just got stronger.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Öfgar í veðri – líkurnar aukast

    Öfgar í veðri – líkurnar aukast

    Undanfarinn áratugur hefur þótt óvenjulegur hvað varðar öfga í veðri. Vísindamenn við Potsdam stofnunina í loftslagsrannsóknum, sem staðsett er í Þýskalandi, telja að þessi háa tíðni öfga í veðri sé ekki tilviljun – sérstaklega hvað varðar úrkomu og hitabylgjur (sjá Coumou og  Rahmstorf 2012). Tengslin milli hlýnunar og vindstyrks er ekki eins augljós – þó ákveðið munstur hafi sést í aukningu á styrk fellibylja.
    Ef tekið er eingöngu árið 2011 í Bandaríkjunum, þá ollu 14  veður tjóni sem var meira en milljarður dollara hvert (yfir 120 milljarðar íslenskra króna). Óvenjumikil úrkoma var í Japan á sama tíma og vatnasvið Yangtze fljótsins í Kína varð fyrir áhrifum óvenjulegs þurrkatímabils. 2010 var öfgafyllra ef eitthvað er, en margir muna eftir hitabylgjunni í Rússlandi og úrhellinu í Pakistan og Ástralíu.

    Spurning um líkur

    Samkvæmt höfundum þá snýst spurningin um hvort þessir öfgar tengjast loftslagsbreytingum meira um það hvort þær auki líkurnar frekar en að hægt sé að segja til um að þær valdi beinlínis öfgaatburði. Því fleiri slíkir atburðir sem verða, því auðveldara er að sjá hvernig loftslagsbreytingar auka líkurnar. Höfundar telja enn fremur að nú þegar sé fjöldi öfgaveðra kominn fram úr því sem telst eðlilegt.

    Annar höfunda líkir þessu við teninga sem búið er að breyta (lauslega þýtt):

    Sexan getur komið hvenær sem er og þú veist ekki hvenær hún kemur. Eftir breytinguna mun hún aftur á móti koma oftar en áður.

    Undanfarin vika sýnir þetta greinilega, en þá féllu hitamet á yfir þúsund stöðum í Bandaríkjunum.

    Þrjár stoðir: Eðlisfræði, tölfræði og líkön

    Vísindamennirnir notuðu þrjár grunnstoðir við að greina áhrif loftslagbreytinga á öfgaveður: Hefðbundna eðlisfræði, tölfræðigreiningu og keyrslur tölvulíkana.

    Hefðbundin eðlisfræði segir okkur að aukinn hiti lofthjúpsins muni valda meiri öfgum. Sem dæmi þá inniheldur heitt loft mun meiri raka og lengur áður en það byrjar að rigna – þar með má búast við meiri öfgum í úrkomu. Hefðbundnar tölfræðilegar leitnilínur sýna síðan greinilega aukningu, sérstaklega í hita og úrkomu. Keyrslur tölvulíkana staðfesta síðan tengsl aukins hita og setningu hita- og úrkomumeta.

    Öfgar í veðri – í þessu tilfelli mjög heitt eða kalt veður – eru sjaldgæfir. En lítil hækkun í meðalhita jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa getur aukið tíðni öfga í hitastigi.

    Samkvæmt nýjustu rannsóknum, þá ættu fellibylir að aukast í styrk en ekki fjölda, þegar úthöfin hlýna. Nokkrir fellibylir hafa slegið met undanfarin ár en ástæður þess er ekki að fullu ljósar, en einnig gæti þar verið um að ræða ónákvæmni í gögnum um fyrri storma. Öfgaköldum atburðum mun, samkvæmt rannsókninni, fækka við áframhaldandi hnattræna hlýnun – en þó ekki jafnhratt og öfgaheitum atburðum fjölgar.

    Öfgaveður tengist oft staðbundnum aðstæðum, líkt og fyrirstöðuhæðum eða náttúrulegum sveiflum líkt og El Nino. Nú bætist við undirliggjandi hnattræn hlýnun sem breytir óvenjulegu veðri í öfgaveður.

    Heimildir og ítarefni

    Coumou og  Rahmstorf (2012): A Decade of Weather Extremes. Nature Climate Change [DOI: 10.1038/NCLIMATE1452]

    Fréttatilkynningin á ensku: Weather records due to climate change: a game with loaded dice

    Umfjöllun á RealClimate: Extreme Climate

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsbreytingar – þekkingin árið 1982

    Loftslagsbreytingar – þekkingin árið 1982

    Nýjasta myndbandið frá Peter Sinclair (greenman3610) sýnir viðtal sem hann tók við  Dr Mike MacCracken sem var framarlega í loftslagsrannsóknum árið 1982. Mjög áhugavert sjónarhorn.

    .

    Tengt efni á loftslag.is

  • Opið bréf frá Hadfield til Moncktons

    Opið bréf frá Hadfield til Moncktons

    Að gamni birtum við hér myndband sem er í raun opið bréf til Christopher Moncktons, sem Peter Hadfield (Potholer54) birti í gær á youtube síðu sinni. Monckton lenti þar í rökræðum við ofjarl sinn og hefur ekki haft getu eða þor til að rökræða við hadfield um loftslagsmál.
    .

     

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Uppfærsla á hitagagnaröð HadCRUT

    Uppfærsla á hitagagnaröð HadCRUT

    Eins og margir vita, þá eru margar hitagagnaraðir í gangi sem mæla þróun hnattræns hitastigs (sjá t.d. GISTEMP, NCDC og Berkeley Earth). Fyrir stuttu kom út ný útgáfa á gagnasettinu frá bresku veðurstofunni (Met Office) og háskólanum í East Anglia – svokölluð HadCRUT gagnaröð. Sú gagnaröð hefur verið mikið notuð og nær allt aftur til 1850, en hefur þótt takmörkuð vegna lélegrar útbreiðslu mælistöðva nálægt Norðurskautinu.

    Nýjasta útgáfan sem kölluð er HadCRUT4 hefur aukið við fjölda mælistöðva – sérstaklega á norðurskautinu (400 stöðvar við Norðurskautið, Síberíu og Kanada). Einnig er búið að lagfæra gögnin vegna breytinga sem urðu á mælingum sjávarhita, sérstaklega þær sem teknar voru eftir seinni heimstyrjöldina (munur var á hvort hent var út fata og hitinn mældur í henni eða hvort mælt var vatn sem tekið var beint inn í vélarúmið).

    Munurinn á HadCRUT3 og HadCRUT4.

    Þrátt fyrir breytingar er heildarmyndin svipuð, frá árinu 1900 hefur hlýnað um 0,75°C.  Þrjú heitustu árin hafa þó sætaskipti en 1998 dettur niður í þriðja sætið yfir heitustu árin – munurinn er þó ekki mikill á þessum árum nú, því hitafrávik heitustu áranna (2010 og 2005) er 0,53°C en 1998 hefur frávikið 0,52°C.

    Hér fyrir neðan útskýrir Peter Stott breytingarnar:

    Heimildir og ítarefni

    Fréttatilkynning Met Office má lesa hér: Updates to hadCRUT global temperature dataset

    CRUTEM4 gögnin má nálgast hér og hér, ásamt tenglum í  hrá gögn og kóða við úrvinnsluna.

    RealClimate er með ítarlega umfjöllun um nýja gagnasettið, sjá: Updating the CRU and HadCRUT temperature data.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hverjir verða mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda

    Hverjir verða mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda

    Endurbirting

    Eitt af því sem menn velta fyrir sér þegar rætt er um loftslagsbreytingar er, hvaða áhrif  þær muni hafa á samfélög manna? Nýlega birtist grein þar sem þessari spurningu var velt upp og reynt að áætla hvaða svæði jarðar eru viðkvæmust fyrir komandi loftslagsbreytingum (Samson o.fl. 2011).

    Höfundar þróuðu með sér nýjan stuðul – svokallaðan CDVI (Climate Demography Vulnerability Index). Með honum er bornar saman staðbundnar loftslagsbreytingar og mannfjöldaþróun þeirra svæða. Í ljós kom að viðkvæmustu svæðin voru í miðri Suður Ameríku, mið austurlöndum og suðurhluta Afríku. Minna viðkvæm svæði voru að mestu bundin við norðurhluta norðurhvels jarðar.

    Þar næst gerðu höfundar dæmigert kort sem sýnir losun CO2 miðað við höfðatölu. Þeir fundu þannig út að þeir íbúar ríkja sem losa hvað minnst af CO2 verða hvað mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta sést vel þegar skoðuð eru samsettu kortin hér fyrir neðan. Á efri myndinni sést hverjir losa mest af CO2 (rautt) samanborið við þá sem losa minnst (blátt) – á neðri myndini er þetta öfugt, viðvkæmustu ríkin eru rauð og þau sem talin eru þola loftslagsbreytingar mest eru með bláum lit.

    Ekki var farið nánar í þá spurningu hvaða ríki munu ná að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga – það hlýtur þó að vera ljóst að fátæk vanþróuð ríki eru síst viðbúin að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Því er það svo að þau ríki sem menga minnst og verða fyrir mestum afleiðingum, eru ólíklegust til að ná að aðlagast breyttu loftslagi.

    Sumir halda því blákalt fram að niðurskurður á losun CO2 muni hafa slæm áhrif á fátæku ríkin – þessi rannsókn sýnir nokkuð ljóst fram á hið gagnstæða.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin eftir Samson o.fl. 2011 birtist í Global Ecology and Biogeography: Geographic disparities and moral hazards in the predicted impacts of climate change on human populations

    Umfjöllun á Skeptical Science: Those who contribute the least greenhouse gases will be most impacted by climate change

    Tengt efni á loftslag.is

  • Ársfundur Veðurstofu Íslands á morgun

    Ársfundur Veðurstofu Íslands á morgun

    Við minnum á ársfund Veðurstofu Íslands, samanber fréttatilkynningu hér fyrir neðan:

    Veðurstofa Íslands heldur ársfund sinn fimmtudaginn 22. mars 2012 í nýju húsnæði Veðurstofunnar að Bústaðavegi 7 og hefst fundurinn kl. 15:00.

    Ársskýrsla Veðurstofunnar kemur út sama dag en þetta er dagur vatnsins, sem haldinn er 22. mars ár hvert. Að loknu ávarpi umhverfisráðherra og kynningu forstjóra verða flutt þrjú erindi.

    Dagskrá:

    • 15:00 Ávarp umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur
    • 15:05 Árni Snorrason forstjóri: Frá Veðurstofunni
    • 15:20 Theodór F. Hervarsson framkvæmdastjóri: Eftirlit og spá
    • 15:40 Sigrún Karlsdóttir náttúruvárstjóri, Evgenia Ilyinskaya eldfjallasérfræðingur og Emmanuel P. Pagneux sérfræðingur í flóðarannsóknum: Eldfjallarannsóknir og áhættumat eldfjalla. Áætlun gerir ráð fyrir að unnið verði að fjórum fagverkefnum á næstu þremur árum: Úttekt á þekkingu á íslenskum eldstöðvum. Forgreiningu á áhættu vegna flóða samfara eldgosum. Forgreiningu á sprengigosum á Íslandi. Forgreiningu á eldgosum sem valdið geta miklu eignatjóni, þ.e. eldgosum nálægt þéttbýli og alþjóðlegum flugvöllum á Íslandi.
    • 16:00 Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur í jöklarannsóknum: Loftslagsverkefnið Climate and Energy Systems. Norræna ráðherranefndin gaf nýlega út skýrslu með niðurstöðum úr samvinnuverkefni loftslagsfræðinga á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum. Eru þar settar fram sviðsmyndir veðurfars fram til miðrar 21. aldar og reiknuð áhrif hlýnunar á endurnýjanlega orkugjafa. Í erindinu verður gerð grein fyrir aðalniðurstöðum verkefnisins og sagt frá öðrum loftslagsverkefnum á vegum Veðurstofu Íslands.

    Eftir fundinn verður boðið upp á léttar veitingar.

  • Glósublók Thoreau sýnir breytingu í vorkomu

    Glósublók Thoreau sýnir breytingu í vorkomu

    Samanburður á nákvæmum glósum sem náttúrufræðingurinn Henry David Thoreau skildi eftir sig og gögn um nútíma veður og blómstur blóma hafa gert vísindamönnum kleyft að sýna fram á breytingu á vorkomu í austur Massacusetts síðastliðin 150 ár.

    Vísindamenn frá Boston háskóla skoðuðu einmitt gögn frá Thoreau og fleiri náttúrufræðingum og komust að því að 43 algengar blómategundir blómstra að meðaltali 10 dögum fyrr nú en fyrir 150 árum síðan. Þær tegundir sem ná ekki að aðlagast eru að hverfa samkvæmt rannsókninni. 21 tegund af orkideum (e. orchid) uxu villtar í nágrenni heimabæjar Thoreau, Concord á þessum tíma – nú eru þær bara sex. Frá árinu 1860 hefur hitastig í Concord aukist um 2,5°C.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í journal BioScience og er eftir Primack og Miller-Rushing (2012): Uncovering, Collecting, and Analyzing Records to Investigate the Ecological Impacts of Climate Change: A Template from Thoreau’s Concord

    Sjá umfjöllun á heimasíðu LiveScience: Thoreau’s Notes Reveal How Spring Has Changed in 150 Years

    Tengt efni á loftslag.is