Loftslag.is

Category: Heit málefni

Ýmis málefni sem teljast til heitra málefna

  • Loftslagsrýni flokkanna 2016 – uppfært

    Loftslagsrýni flokkanna 2016 – uppfært

    paris_1_5Hópurinn París 1,5 gerði úttekt fyrir tæpum tveimur vikum á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum fyrir kosningarnar þann 29. október 2016 (sjá hér). Nú er búið að uppfæra stefnuna.

    Fyrst verður rakin aðferðafræðin, þ.e. farið yfir þá þætti sem voru notaðir við loftslagsrýni flokkanna, fjallað um einkunnagjöfina og það hvernig við völdum stjórnmálaflokkana sem eru í úttektinni. Neðst er svo niðurstaða þessa mats og umræða.

    Aðferðafræðin

    Upphaflega var ákveðið að til að stjórnmálaflokkur kæmi til greina í þessari rýni þá yrði hann að hafa möguleika á að komast á þing (samkvæmt skoðanakönnunum). Í uppfærslunni fengu minni flokkar möguleika á að vera með, með því að senda okkur stefnu sína skipta niður í þá sjö liði sem sjá má hér neðar. Loftslagsstefnur eftirfarandi flokka voru rýndar, en Alþýðufylkingin er eini flokkurinn sem bættist við. Dögun var einnig í sambandi við okkur og fá plús í kladdann fyrir það, en sökum mannfæð þá höfðu þeir ekki tíma til að skrá niður ítarlega stefnu í loftslagsmálum, þó þeir hefðu glaðir viljað það.

    Til að gefa flokkunum einkunn þá notuðum við kerfi þar sem við mátum sjö mismunandi þætti og gáfum þeim einkunn á bilinu 0-10, en misjafnt vægi er á milli þátta. Fjórir þættir fá einfalt vægi (mest 10 stig hver þáttur) og þrír þættir fá tvöfalt vægi (mest 20 stig hver þáttur) – í allt 100 stig mest. Einn þátturinn er á bilinu mínus 10 til plús 10, þannig að flokkar geta fengið mínus stig þar (mest 20, þar sem þetta er þáttur með tvöfalt vægi). Nánar er fjallað  um hvern þátt hér á eftir.

    Reynt var að finna stefnur flokkanna í loftslagsmálum á vefsíðum þeirra, ef ekkert kom þar fram þá var ekki gert ráð fyrir að til væri opinber stefna um þann þátt hjá þeim stjórnmálaflokki í kosningunum 2016. Í uppfærslunni sendum við að auki öllum flokkunum tölvupóst þar sem við spurðumst nánar fyrir um þessa þætti – sumir svöruðu, aðrir ekki. Stundum var hægt að finna í stefnum flokkanna eitthvað sértækt þar sem rætt var um loftslagsmál, en stundum þurfti að grafa dýpra til að finna eitthvað fjallað um málin – beint eða óbeint. Við lögðum svo okkar mat á hvern þátt og hvað kom fram hjá hverjum flokki og gáfum einkunnir – sem endaði svo í þeirri einkunn sem hver flokkur fékk varðandi loftslagsmálin.

    Þættirnir sjö eru eftirfarandi:

    1. Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
      • Hér var hægt að fá mínusstig, þar sem þeir flokkar sem taka einarða stefnu með olíuvinnslu fá mínus stig – þeir sem ekkert nefna um málið fá 0 og þeir sem taka einarða afstöðu gegn olíuvinnslu fá plús .
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig og lægst mínus 20 stig
    2. Eru tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2
      • Því nánari markmið, því betra
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    3. Er gert ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    4. Tillögur um breytingu innviða til að taka á vandanum
      • Til að mynda er hér verið að skoða tillögur til að flýta rafbílavæðingu og öðrum breytingum innviða til að taka fyrr á vandanum
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    5. Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt
      • Almennar tillögur varðandi þessa þætti
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    6. Flokkur og/eða frambjóðendur hafa tekið málið upp í aðdraganda kosninga
      • Ef einhverjir frambjóðendur eða flokkar hafa sett þetta mál á oddinn með því að fjalla um það á opinberum vettvangi
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    7. Annað almennt um loftslagsmál
      • Skoðuðum aðra þætti sem flokkarnir töldu vert að nefna varðandi loftslagsmálin og reyndum að meta það á hlutlægan hátt – þarna gátu flokkarnir skorað aukastig
      • Einfalt vægi – mest 10 stig

    Niðurstaða

    Loftslagsstefnur flokkanna voru rýndar og einkunnir gefnar samkvæmt fyrrgreindum forsendum. Eftirfarandi eru tenglar á úttekt hvers flokks fyrir sig, ásamt einkunnum (innan sviga):

    screenshot-2016-10-23-17-59-55

     

    Sex flokkar standast prófið eins og staðan er í dag og eru Píratar með lang metnaðarfyllstu stefnuna. Lítið vantar upp á hjá Viðreisn að standast matið, en bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eru mjög langt frá því og munar mestu um stefnuleysi varðandi minnkandi losun, sem og vilji þeirra til að vinna olíu á Drekasvæðinu.

    Umræður

    13412890_549635985216164_2118920633963755112_nVið í París 1,5 hópnum viljum gjarnan hvetja stjórnmálaflokka og frambjóðendur til að halda áfram að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá og ekki bara sem örfá atriði í stefnuyfirlýsingum, heldur sem eitt af aðalatriðum hjá öllum flokkunum enda skipta loftslagsmál miklu máli. Ef við göngum ekki vel til verks í þessum efnum, þá skipta öll hin málin miklu minna máli – því við erum hluti af borgurum jarðarinnar og við þurfum öll að gera okkar til að minnka kolefnisfótspor af mannavöldum, því fyrr sem við byrjum þá mikilvægu vinnu, því betra.

     

    Viðbót: Við fengum síðbúið svar frá Húmanistaflokknum, en forsvarsmenn hans sendu okkur útlistun á þeirra stefnu út frá liðum 1-7 hér að ofan (sjá hér). Til að gera langa sögu stutta, þá stenst loftslagsstefna Húmanista matið og hefðu þeir fengið um 5,7 í einkunn samkvæmt lauslegu mati.  

  • Loftslagsrýni stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar 2016

    Loftslagsrýni stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar 2016

    paris_1_5

    ATH. Þetta er gamla matið – hið nýja má finna hér.

    Hópurinn París 1,5 hefur gert úttekt á loftslagsstefnu stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar þann 29. október 2016. Hér verður fyrst rakin aðferðafræðin, þ.e. farið yfir þá þætti sem voru notaðir við loftslagsrýni flokkanna, fjalla um einkunnagjöfina og það hvernig við völdum stjórnmálaflokkana sem eru í úttektinni. Neðst er svo niðurstaða þessa mats og umræða.

    Aðferðafræðin

    Til að stjórnmálaflokkur kæmi til greina í þessari rýni þá völdum við að taka þá sjö flokka sem hafa mestan möguleika (samkvæmt skoðanakönnunum) að ná manni á þing. Loftslagsstefnur eftirfarandi flokkar voru rýndar (í stafrófsröð):

    Til að gefa flokkunum einkunn þá notuðum við kerfi þar sem við mátum sjö mismunandi þætti og gáfum þeim einkunn á bilinu 0-10, en misjafnt vægi er á milli þátta. Fjórir þættir fá einfalt vægi (mest 10 stig hver þáttur) og þrír þættir fá tvöfalt vægi (mest 20 stig hver þáttur) – í allt 100 stig mest. Einn þátturinn er á bilinu mínus 10 til plús 10, þannig að flokkar geta fengið mínus stig þar (mest 20, þar sem þetta er þáttur með tvöfalt vægi). Nánar er fjallað  um hvern þátt hér á eftir.

    Reynt var að finna stefnur flokkanna í loftslagsmálum á vefsíðum þeirra, ef ekkert kom þar fram þá var ekki gert ráð fyrir að til væri opinber stefna um þann þátt hjá þeim stjórnmálaflokki í kosningunum 2016. Við sendum að auki öllum sjö flokkunum tölvupóst þar sem við spurðumst nánar fyrir um þessa þætti – sumir svöruðu, aðrir ekki. Stundum var hægt að finna í stefnum flokkanna eitthvað sértækt þar sem rætt var um loftslagsmál, en stundum þurfti að grafa dýpra til að finna eitthvað fjallað um málin – beint eða óbeint. Við lögðum svo okkar mat á hvern þátt og hvað kom fram hjá hverjum flokki og gáfum einkunnir – sem endaði svo í þeirri einkunn sem hver flokkur fékk varðandi loftslagsmálin.

    Þættirnir sjö eru eftirfarandi:

    1. Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
      • Hér var hægt að fá mínusstig, þar sem þeir flokkar sem taka einarða stefnu með olíuvinnslu fá mínus stig – þeir sem ekkert nefna um málið fá 0 og þeir sem taka einarða afstöðu gegn olíuvinnslu fá plús .
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig og lægst mínus 20 stig
    2. Eru tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2
      • Því nánari markmið, því betra
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    3. Er gert ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    4. Tillögur um breytingu innviða til að taka á vandanum
      • Til að mynda er hér verið að skoða tillögur til að flýta rafbílavæðingu og öðrum breytingum innviða til að taka fyrr á vandanum
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    5. Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt
      • Almennar tillögur varðandi þessa þætti
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    6. Flokkur og/eða frambjóðendur hafa tekið málið upp í aðdraganda kosninga
      • Ef einhverjir frambjóðendur eða flokkar hafa sett þetta mál á oddinn með því að fjalla um það á opinberum vettvangi
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    7. Annað almennt um loftslagsmál
      • Skoðuðum aðra þætti sem flokkarnir töldu vert að nefna varðandi loftslagsmálin og reyndum að meta það á hlutlægan hátt – þarna gátu flokkarnir skorað aukastig
      • Einfalt vægi – mest 10 stig

    Niðurstaða

    Loftslagsstefnur flokkanna voru rýndar og einkunnir gefnar samkvæmt fyrrgreindum forsendum. Eftirfarandi eru tenglar á úttekt hvers flokks fyrir sig, ásamt einkunnum (innan sviga):

    screenshot-2016-10-11-14-43-17

    Þrír flokkar standast prófið eins og staðan er í dag, en lítið vantar upp á hjá Pírötum og Viðreisn. Þess ber þó að geta að í kosningakerfi Pírata er mjög metnaðarfull stefna sem getur breytt þessari mynd nokkuð. Ef sú stefna verður samþykkt, þá er mjög líklegt að þeir taki forystu í þessu mati.

    Við munum uppfæra einkunnir u.þ.b. viku fyrir kosningar. Þannig opnum við fyrir að flokkarnir geti hækkað sig með því að setja málið á dagskrá, enda okkar aðalmarkmið að loftslagsmálin verði tekin á dagskrá í kosningunum. Við fögnum allri umræðu og málefnalegri gagnrýni.

    Umræður

    13412890_549635985216164_2118920633963755112_nVið í París 1,5 hópnum viljum gjarnan hvetja stjórnmálaflokka og frambjóðendur til að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá.  Einkunnakerfið hér að ofan er tilraun til að meta stefnur flokkanna.

    Við erum opin fyrir gagnrýni og flokkar og frambjóðendur mega gjarnan benda á efni sem þeir telja að geti lyft einkunn þeirra upp. Við stefnum á að endurskoða einkunnir þegar vika er í kosningar, þ.e. ef einhverjar breytingar eru sjáanlegar.

    Við viljum að allir flokkarnir geri betur og að þessi mál verði á dagskrá fyrir kosningarnar 2016 – ekki bara sem örfá atriði í stefnuyfirlýsingum, heldur sem eitt af aðalatriðum hjá öllum flokkunum og ekki síst fjölmiðlum sem spyrja spurninganna. Ef við göngum ekki vel til verks í þessum efnum, þá skipta öll hin málin miklu minna máli – því við erum hluti af borgurum jarðarinnar og við þurfum öll að gera okkar til að minnka kolefnisfótspor af mannavöldum, því fyrr sem við byrjum þá mikilvægu vinnu, því betra.

    —–

    Vegna athugasemda frá þeim flokkum sem ekki fengu mat á sinni stefnu og þeirra sem telja á sig hallað:
    Aðstandendur geta sent okkur tölvupóst á loftslag@loftslag.is með tilvísunum í hvar viðkomandi lið (1-7) er að finna, þannig að við getum afritað það og metið á einfaldan hátt – hvort heldur til viðbóta eða uppfærslu á stefnunni. Stefnt er að því að uppfæra matið viku fyrir kosningar.

  • Skörum fram úr – höfum þor

    Skörum fram úr – höfum þor

    Hagvöxturinn, olían og loftslagið

    Nú, þegar uppi eru stór áform varðandi leit og hugsanlega vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía og gas) á Drekasvæðinu, þá er vert að spyrja nokkura spurninga og velta hlutunum fyrir sér í ljósi vísindalegra upplýsinga um loftslagsvánna sem við búum yfir í dag. Áhrif brennslu jarðefnaeldsneytis á loftslag jarðar núna og í framtíðinni er vandamál sem við þurfum að takast á við – en það virðist viðtekin hugmynd að minnast helst ekki á þann vanda þegar rætt er um mögulegan hagvöxt og framtíðarhorfur með vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu. Ráðamenn gefa sér væntanlega, eins og margir aðrir, að framkvæmdir og vinnsla á jarðefnaeldsneyti sem hugsanlega leiða til hagvaxtar til skemmri tíma hljóti í hlutarins eðli að vera eðlilegar. Þ.a.l. hljóti sú vinnsla að verða eitt af því sem mun leiða hagvöxt til framtíðar – alveg sama hver kostnaðurinn er til lengri tíma fyrir mannkynið í heild. Úræðaleysi og úrelt sjónarmið “hagvaxtar” virðast því miður vera útbreidd skoðun varðandi þessi mál. Við sjáum núna að umræðan snýst m.a. um að reyna að greiða veg olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu, þannig að sem flestum hindrunum verði rudd úr vegi og búið verði svo um hnútana að ekki verði hægt að snúa þeim ákvörðunum við síðar. En á það að vera svo – viljum við virkilega greiða þá leið?

    Fyrsta spurningin sem kemur í hugann nú, er náttúrulega hversu miklu af jafðefnaeldsneyti má brenna til að við höldum okkur undir 2°C markinu sem þjóðir heims stefna að í dag samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og hversu langan tíma mun taka að ná því marki? Í stuttu og frekar einfölduðu máli, þá er það talið vera um það bil 1/5 af því jarðefnaeldsneyti sem nú þegar er í bókhaldi olíu-, kola- og gasfyrirtækja heimsins og það mun væntanlega taka innan við 20 ár að brenna því magni [Global Warming’s Terrifying New Math]. 4/5 af jarðefnaeldsneytinu þarf því að vera í jörðinni áfram ef við eigum að hafa raunhæfan möguleika á árangri. Eins og staðan er í dag, bendir s.s. allt til þess að það verði strembið að halda okkur innan tveggja gráðanna sem almennt er talið að þurfi til að hnattræn hlýnun verði ekki of mikil. Núverandi spár gera flestar ráð fyrir um 2-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót (svo ekki sé litið lengra fram í tímann eða aðrir þættir skoðaðir, eins og t.a.m. súrnun sjávar sem ekki bætir stöðuna). Hækkun hitastigs um 2-4°C myndi valda töluverðum vandræðum fyrir komandi kynslóðir og það má halda því fram að sú Jörð sem komandi kynslóðir erfa sé ekki lík þeirri sem við tókum við. Það má kannski líta svo á að við fremjum mannréttindabrot við ókomnar kynslóðir með því að skilja Jörðina þannig eftir okkur að við rýrum lífskjör og gerum lífið erfiðara í framtíðinni. Þá kemur náttúrulega að samviskuspurningunni hvort að við viljum hafa það á samviskunni?

    olia_heimurNæsta spurning sem gæti kviknað er hvaða áhættu erum við að taka með því að bæta í brennanlegan forða jarðaefnaeldsneytis? Það er talið nokkuð ljóst að hitastig mun hækka um margar gráður ef ekkert verður að gert og þó svo aðeins sá forði sem nú er í bókum olíu-, gas- og kolafélaga yrði brennt, þá er áhættan á talsverðum loftslagsbreytingum talsverð – svo ekki sé talað um hugsanlega ófundnar lindir, sem við Íslendingar virðumst vilja taka þátt í að nýta til fulls. Áhættan er því veruleg og það er óðs manns æði að ætla sér að kreista jörðina um allt það jarðefnaeldsneyti sem til er – sérstaklega í ljósi þess að við höfum þegar 400% meira í bókhaldinu en þykir rétt að brenna – samkvæmt alþjóðlegum samþykktum þjóða heims!

    Hvað ætlar litla Ísland sér í loftslagsmálunum? Ætlum við að taka þátt í að kreista síðasta dropa jarðefnaeldsneytis úr jörðu eða viljum við sýna þor og dug? Það virðist vera útbreidd skoðun að nýting jarðefnaeldsneytisforðans sem hugsanlega leynist á Drekasvæðinu sé hið besta mál – þrátt fyrir að viðvörunarljós blikki og öll rök hnígi að því að við þurfum að leita annarra leiða en gjörnýtingu jarðefnaeldsneytis í framtíðinni. Erum við upplýst þjóð? Höfum við vilja til að sýna dug og þor eða ætlum við að vera ofurseld úreltu hugarfari skyndi „hagvaxtar”?

    Höfum þor – skörum fram úr – veljum einu réttu leiðina og hættum við allar hugmyndir um olíu- og gasvinnslu á Íslandi í dag – þó svo það sé veik von margra að með henni getum við viðhaldið hagvexti til framtíðar eftir hinar efnahagslegu hamfarir sem við höfum upplifað. Reyndar ber að geta þess að litla Ísland er í dag (eftir hrunið) númer 28 í heiminum ef tekið er tillit til vergrar landsframleiðslu á mann (heimild: CIA Factbook). Ekki er sjálfgefið að hagvöxtur verði að aukast umfram aðra til að Ísland standi á eigin fótum eða að það muni þýða eymd og volæði fyrir landann ef þessi „auðlind“ jarðefnaeldsneytis verði ekki nýtt (“auðlind” sem ekki er enn í hendi).

    Sendum merki um áræðni og þor – hættum að ásælast jörðina sem afkomendur okkar eiga að erfa. Það yrði mikilvægt merki til allra þjóða ef hið litla Ísland, sem nýlega er búið að upplifa hrun fjármálakerfisins, hefði þor og dug til að sýna fordæmi í þessum málum. Segjum því nei við gas- og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

    Persónulega er ég á engan hátt á móti heilbrigðum hagvexti eða alvöru framförum – þvert á móti. En brennsla á gasi og olíu er vart merki um heilbrigða þróun mála eða til merkis um framfarir eins og mál standa. Þar af leiðandi er eina vitið fyrir framtíð okkar að við geymum jarðefnaeldsneytið þar sem það er, enn um sinn. Brennsla jarðefnaeldsneytir er að verða gamaldags og er eitthvað sem við ættum ekki að ýta undir í framþróuðum, upplýstum nútíma samfélögum, sérstaklega í ljósi þess að afleiðingar brennslu jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda eru vel kunnar. Það virðist ekki vera til hið pólitíska afl hér á landi sem hefur þor og/eða vilja til að taka beina afstöðu á móti vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslenska landgrunninu eða hvað þá að telja þá hugmynd vafasama – samanber núverandi hugmyndir stjórnvald varðandi olíuleit á Drekasvæðinu. Það þarf hugrekki til að spyrna við slíkum hugmyndum og taka ákvarðanir sem gætu jafnvel (þótt slíkt sé ekki sjálfgefið) hægt á hagvexti til skamms tíma. Það eigum við þó að sýna og segja nei við gamaldags hagvaxtarhugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis.

    Í ljósi þess að það er ekki í samræmi við niðurstöður vísindamanna um loftslagsvánna að halda áfram að brenna eldsneyti hugsunarlaust, þá eigum við Íslendingar að hafa þor til að skara fram úr á alþjóða vettvangi með því að segja nei við olíu- og gasvinnslu á Íslandsmiðum og þá um leið já við sjálfbærri nýtingu sjálfbærrar orku. Sjálfbær vinnsla orku hefur sína kosti og galla, en brennsla á olíu og gasi hafa nánast bara galla fyrir jarðarbúa í heild – það er því versti kostur sem við getum nýtt okkur – þó svo það ýti hugsanlega undir hagvöxt til skamms tíma. Hitt er svo annað mál að það gæti verið að seinni kynslóðir geti séð kosti við að hafa aðgang að ónýttum olíu- og gaslindum – þegar þar að kemur að við nýtum það ekki til brennslu, heldur sem dýra og eftirsótta afurð í allskyns framleiðsluvörur.

    Horfum fram á veginn og sýnum það þor og þann dug að hafa aðra skoðun en þá viðteknu. Sem upplýst þjóð eigum við að vera í forsvari breytinga, en ekki fylgja í blindni gamaldags hugmyndum um „hagvöxt“ til skamms tíma – hagvöxt sem verður væntanlega þeim dýrkeyptur sem erfa munu jörðina eftir okkar dag – Segjum því nei við vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandsmiðum.

    [Edit 9:42, 19.9.2013 – smávægileg orðalagsbreyting]

    Tengt efni á loftslag.is:

    Annað tengt efni:

  • Loftslagskosningar 2013

    Loftslagskosningar 2013

    althingi_kosningar_2013Kosningarnar 2013 virðast ekki fjalla mikið um umhverfismálin, hvað þá loftslagsmálin, í hugum kjósenda og frambjóðenda almennt. Það eru önnur mál sem virðast vera ofarlega í huga fólks og frambjóðenda og ýmis tilboð svo og gylliboð sett fram til að fá atkvæðabært fólk til að setja X-ið við hin ýmsu framboð. Umhverfismálin eru þó almennt málefni sem við ættum að taka alvarlega og hafa ofarlega í huga fyrir kosningar – enda mikilvægt málefni. Það eru aðilar sem hafa reynt að setja þessa umræðu í forgang kjósenda, með því m.a. að spyrja stjórnmálaöflin spurninga um þeirra stefnu og birt opinberlega.

    Okkur á ritstjórninni langar að nefna tvö verkefni sem hafa haft frumkvæði að því að setja umhverfi og loftslag á kortið fyrir þessar kosningar. Fyrst má nefna félag 5 guðfræðinga sem hafa krafist svara um m.a. loftslagsmál og olíuvinnslu – Guðfræðingar krefjast svara. Þau spurðu framboðin um Drekasvæðið, loftslagsvandann og flóttamannamálin og nú þegar aðeins einn dagur er til kosninga þá hafa eftirfarandi framboð svarað – svör má sjá í tenglunum:

    Svör hafa ekki borist frá eftirtöldum framboðum:

    • Framsóknarflokkurinn
    • Hægri græn
    • Píratar
    • Sjálfstæðisflokkurinn

    Það eru fleiri framboð sem bjóða fram og hafa þau væntanlega heldur ekki sent svör, en listinn er af FB-síðu guðfræðinganna. Það er hægt að lesa bréf guðfræðinganna á Facebook síðu þeirra, sjá hér. Guðfræðingarnir völdu að orða þann hluta bréfsins sem fjallar um loftslagsvánna svo:

    Því hefur verði haldið fram að sú loftslagsvá sem nú steðjar að jarðarbúum sé brýnasta áskorun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Við erum því sammála. Þessi staða kallar á bráða úrlausn á ýmsum vandamálum sem lúta að réttlátri skiptingu jarðargæða og heimsskipan, sem og friðsamlegri sambúð þjóða heims. — Þetta eru hin raunverulegu viðfangsefni stjórnmálanna á 21. öldinni. Eruð þið undir það búin að taka þátt í lausn þeirra?

    [..]

    Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gert verði í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?

    Hitt verkefnið sem okkur langar að benda á er xUmhverfisvernd (hægt er að sjá myndböndin í tenglinum), þar sem umhverfisverndarsamtök spyrja framboðin spurninga og birta á YouTube. Þar svara frambjóðendur frá framboðunum spurningum sem lúta að umhverfi og náttúru, m.a. um loftslagsbreytingar, Drekasvæðið og Norðurslóðir.

    Svör stjórnmálahreyfingana eru við spurningum eftirfarandi umhverfisverndarsamtaka:

    Það er virðingavert að einstaklingar og samtök reyni að koma loftslagsmálum og öðrum umhverfismálum á kortið fyrir kosningarnar.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

    Guðfræðingar, Píratar, kosningar, umhverfismál og loftslagsbreytingar af mannavöldum

    Loftslagsbreytingar af mannavöldum virðast geta orðið að kosningamáli í kosningunum þann 27. apríl. Það má m.a. nefna ólgusjó Pírata undanfarna daga svo og fróðlegan spurningalista guðfræðinga sem sendur hefur verið til allra framboða. Spurningalistinn fjallar m.a. um loftslagsmálin.

    pirata_FBEfsti maður Pírata í Reykjavík Suður (Jón Þór Ólafsson) hefur fullyrt opinberlega um fals og svik vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum, sjá m.a. frétt á DV, Pírati efast um loftslagsbreytingar af manna völdum. Það er athyglisvert að í athugasemdum við frétt DV hafa nokkrir Píratar tekið til máls og það er ekki að sjá að þau telji nokkuð rangt í skoðunum Jóns Þórs og þau velja að verja frelsi hans til að segja sína skoðun – sem honum er að sjálf sögðu velkomið. Jón Þór hefur sjálfur undirstrikað skoðanir sínar um fals vísindamanna í athugasemdum, þannig að það virðist vera hægt að slá því föstu að hann telji enn að loftslagsvísindi séu byggð á fölsunum og svindli. Þó það sé skýr réttur manna að hafa skoðanir, þá  fylgir því þó ábyrgð og sú ábyrgð er í samræmi við stefnu Pírata – hinn svokallaða Píratakóða – þar sem eftifarandi kemur fram:

    Píratar eru friðelskandi, sjálfstæðir, sjálfráðir og hlýða ekki í blindni. Þeir vilja að einstaklingar hafi vald yfir sínum persónugögnum og njóti skoðanafrelsis. Píratar axla þá ábyrgð sem fylgir frelsi.

    Ég vona að Píratar hafi þor og siðferðilegt hugreki til í að axla þá ábyrgð sem þessu frelsi fylgir. Það er ekki hægt að saka heila vísindagrein um fals og svindl án þess að fótur sé fyrir því og vilja svo ekki taka andsvörun upp á málefnalegan hátt – þau andsvör verða Píratar að taka á. Annað sem kemur fram í Píratakóðanum er:

    Píratar eru fróðleiksþyrstir
    Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað.

    Gott mál – það er hægt að styðja þetta – en að sjálfsögðu gefur þetta ekki opið veiðleyfi á vísindalegar niðurstöður sem ekki eru í takt við persónulegar skoðanir einstaklinga. Hitt er annað mál að það má kannski spyrja sig hvenær aðgengi að upplýsingum sé ótakmarkað – til að mynda er nánast allt efni varðandi vísindalegar niðurstöður um loftslagsbreytingar af mannavöldum aðgengilegt í einhverju formi á einn eða annan hátt. Það má segja að það megi nú orðið finna allar þær “upplýsingar” sem fólk vill nálgast, til að mynda með því að gúgla á netinu – það á ekki síður við um hluti sem ekki standast skoðun. Það mætti því kannski bæta því við í Píratakóðann að vísindaniðurstöður (og fleiri niðustöður) eigi að byggja á gæðum og góðum rannsóknum, en ekki einhverju “kukl gúgli” einstaklinga eða persónulega lituðum skoðunum. Píratapartýið þarf að sjálfsögðu að þola að taka gagnrýni á skoðanir frambjóðenda og flokksins – sama gildir aðra flokka. Það fylgir því nefnilega ábyrgð að setja fram samsæriskenningar eins og Jón Þór gerir og það er komin tími til að hann læri af mistökum sínum, eða eins og Píratar velja að orða það í Píratakóðanum “Píratar læra af mistökum sínum.”

    Hitt er annað mál að Píratar eru svo sem ekki einu stjórnmálasamtökin sem hafa innan sinna raða fólk sem afneitar loftslagsbreytingum af mannavöldum – sjá til að mynda Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar hér á loftlsag.is. Fólk innan raða Sjálfstæðismanna (til að nefna nærtækt dæmi) hafa einnig sett fram háværar efasemdir og það er ekki eitt orð um loftslagsmálin á kosningasíðu þeirra.

    gudfraedingar

    Á Facebook má finna hópinn Guðfræðingar krefjast svara, þar sem hópur 5 guðfræðinga hafa tekið sig saman og sent fyrirspurn til framboðanna varðandi orkumál, loftslagsmál og flóttamannamál. Þetta eru allt málefni sem verða ofarlega á döfunni á næstu árum og áratugum, en þó alls ekki sjálfgefið að stjórnmálamenn hafi forgangsraðað því ofarlega á lista kosningaloforða í ár. Vinstri GrænDögun og Björt Framtíð hafa nú þegar svarað guðfræðingunum – svörin má lesa í tenglunum. Önnur framboð hafa enn sem komið er ekki svarað. Það verður fróðlegt að fá svör frá fleiri stjórnmálaöflum á spurningum guðfræðinganna og vonandi sjá Píratar sér líka fært að svar, enda er spurningalistinn allrar athygli verður og fróðlegur (sama hvaða trúarlegu skoðanir fólk kann að hafa). Við hvetjum framboðin til að svara spurningalista guðfræðinganna.

    Umhverfisverndarsamtök á Íslandi hafa einnig spurt framboðin um megináherslur í umhverfismálum fyrir kosningarnar 2013 – svörin má finna á YouTube-vefnum xUmhverfisvernd – þar sem 9 framboð hafa þegar svarað og er það vel að framboðin skýri sína stefnu – hver sem hún kann að vera.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar

    Íslenskar “efasemdir” um hnatthlýnun af mannavöldum rækilega skjalfestar

    Það er ekki óalgengt að fram séu settar “efasemdir” um loftslagsvísindin á opinberum vettvangi eins og til að mynda á vef- og fjölmiðlum hér á landi. Oft er það einhver misskilningur manna varðandi eitthvað sem sumir velja að kalla meint gróðurhúsaáhrif eða einhverjar aðrar ályktanir sem hafa lítið sem ekkert með raunveruleikann að gera. Það er þarft verk að skjalfesta opinberar yfirlýsingar varðandi þessi mál. Það getur vonandi haft það í för með sér að viðkomandi hugsi sig um varðandi þeirra eigin frjálslegu túlkanir á loftslagsfræðunum í framtíðinni.

    Mig langar að leggja út með tilvísunum í þrjá einstaklinga úr hinum títt umtöluðu bloggheimum. Sá fyrsti er góðkunningi okkar á loftslag.is, Ágúst H. Bjarnason. Hann á það til að draga upp einhver sérvalin gögn, til að reyna að draga upp mynd af meintri kólnun eða öðru sem virðist að óathuguðu máli geta dregið úr áhyggjum manna af manngerðum loftslagsbreytingum. Vinsælt hjá honum hefur verið að benda á það þegar smávægileg kólnun verður til skemmri tíma vegna náttúrulegs breytileika eða einhverjar skammtíma sveiflur í sjávarstöðunni. Það er erfitt að finna fullyrðingar hjá honum þar sem hann virðist oft ýja að einhverju, en þær finnast þó, eins og sjá má hér undir:

    Gott er til þess að hugsa til þess að um þessar mundir er ekkert sem bendir til þess að sjávarborð sé að rísa óvenju hratt, nema síður sé.

    [Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari – Hækkun sjávarborðs; engar fréttir eru góðar fréttir…]

    Ágúst var reyndar svo vinsamlegur að vísa í færslu á loftslag.blog.is í athugasemdum (ekki var mögulegt fyrir ritstjórn loftslag.is að gera athugasemdir við þessa færslu hans), þar sem við ræddum aðferðafræði hans, sjá hér. Það er reyndar ekki alltaf auðvelt að finna beinar fullyrðingar eða ályktanir um fræðin hjá Ágústi, enda setur hann oft mikla varnagla á og setur hlutina oft upp í spurnarformi sem ruglar lesendur sem þurfa því stundum að álykta út frá hans orðum – og þær ályktanir geta svo sem farið um víðann völl. Ágúst hefur þó stundum notað eftirfarandi ályktun sína þegar um þetta er rætt…en allavega slær hann þarna mikinn varnagla á fræðin en útilokar í sjálfu sér ekkert:

    Helmingur [hita] hækkunarinnar gæti stafað af völdum náttúrulegra breytinga og helmingur vegna losunar manna á koltvísýringi.  Hugtakið “helmingur” er hér mjög loðið og gæti þýtt nánast hvað sem er.

    [Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari  – Er hnatthlýnunin ógurlega bara hjóm eitt…?]

    Vinsamlega takið eftir varnaglanum, orðalaginu og spurningamerkinu í yfirskriftinni hjá Ágústi… Annars er fátt sem styður þessa fullyrðingu, þar sem gögn styðja ekki svona ályktanir nema síður sé. Hér undir er svo enn ein spurningamerkjafyllt “ályktun” um þessi mál – lesendum sem “efuðust” um fræðin var svo góðfúslega gefið leyfi til að koma með áskanir á hendur Al Gore, umhverfisráðherra og fleiri, ásamt fullyrðingum um trúarbrögð, skattpíningar og fleira sem nefnt var til sögunnar án athugasemda frá Ágústi – en hann vandaði sig þó við að gera athugasemdir við gagnrýnar og málefnalegar athugasemdir ritstjórnar loftslag.is, sem endaði svo með lokun fyrir athugasemdir þegar hann var kominn á endastöð frekari umræðu – en allavega hér er tilvitnunin í Ágúst:

    Hvað varð eiginlega um þessa hnatthlýnun sem allir voru að tala um…?   Nú dámar mér alveg…   Engin hnatthlýnun í 11 ár…?

    [Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari  – BBC spyr: Hvað varð um hnatthlýnunina?]

    Sérval gagna hefur stundum leitt til svona fullyrðinga um enga hnatthlýnun í 5/11/16 ár eða hvað það nú er í hvert og eitt skiptið, sjá til að mynda athyglisvert graf hér undir með “efasemda” rúllustiganum.

    Munurinn á því hvernig "efasemdamenn" og raunsæismenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum sjá núverandi hækkun hitastigs

    Sá næsti sem fær heiðurinn af því að verða rækilega skjalfestur hér á loftslag.is er hæstaréttarlögmaðurinn, Jón Magnússon, sem virðist hafa sterka ályktanaþörf þegar kemur að þessum efnum. Í kjölfar þess að Met-Office uppfærði nýlega spár um hnattrænana hita næstu fimm árin, þá fannst Jóni tilvalið að koma með eftirfarandi fullyrðingar:

    Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð afturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.

    [..]

    Ævintýrið um hnattræna hlýnun af mannavöldum er dýrasta ævintýrið sem mannkynið hefur nokkurn tíma látið sér detta í hug að trúa á.

    [Heimild: Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokks – Breska veðurstofan endurskoðar spár um hnattræna hlýnun.]

    Jahérna hér, þetta eru merkilegar fullyrðingar (úti er ævintýri – bara öll módelin ónýt…hvurslags er þetta…). En þetta er náttúrulega einhver óskhyggja í fyrrverandi þingmanninum, sem ekki fær staðist, eins og kemur t.a.m. fram í eftirfarandi umfjöllun á loftslag.is – Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki

    Að lokum er svo einn af mínum uppáhalds “efasemdamönnum”, enda merkilega berorður um vísindamenn af öllum sortum – hans uppáhald eru reyndar fiskifræðingar og fullyrðingar um þá, en fast á hæla þeim koma svo fullyrðingar hans um loftslagsvísindi og loftslagsvísindamenn – eins og lesa má í eftirfarandi tilvitnun hans:

    Blekkingin um “hlýnun andrúmsloftsins” hefur breyst í kuldamartröð í vetur í Evrópu og USA.

    Veðurguðirninr  virtust móðgast stórlega við loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn og virðast hafa tekið ákvörðun um að  “kæla niður” bullið  um óðelilega hlýnun loftslags – í Evrópu og Ameríku frá því ráðstefnunni lauk með góðu kuldakasti.

    Heimsendaspár um “hækkun á yfirborði sjávar” virðist líka hafa verið “vitlaust reiknað”.. og varla kemur það á óvart… enda skylt skeggið hökunni í blekkingarleiknum….

    [..]

    Það er ágætt ef eitthvað af þessum “vísindahórum”  fara loksins draga í land með  eitthvað af platinu og blekkingunum – en betur má ef duga skal.

    [Heimild: Kristinn Pétursson – fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bloggari og áhugmaður um vandaða þjóðmálaumræðu – Blekkingaleikurinn á undanhaldi í vísindaheiminum?]

    Þarna fer Kristinn Pétursson, sem eldur í sinu í umræðu um loftslagsmál með berorðar fullyrðingar um heila vísindagrein, sem eiga lítið skilt við vandaða þjóðmálaumræðu og þaðan að síður við þær staðreyndir sem blasa við varðandi loftslagsvandann. Ásakanir um heimsendaspár heyrast oft á tíðum þegar “efasemdamenn” ræða um þessi mál, hvað sem veldur…

    Fullyrðingar í þessum dúr sjáum við stundum í hinum títtnefndu og á stundum logandi bloggheimum, svo og í öðrum fjölmiðlum. Að mínu persónulega mati, þá valda svona fullyrðingar ruglingi í umræðunni (sem er hugsanlega ætlunin í sjálfu sér). Það að einhverjir leyfi sér að fullyrða svona án haldbærra gagna stenst að sjálfsögðu engan vegin skoðun. Það er mín ósk að í athugasemdir við þessa færslu verði settar aðrar skjalfestar heimildir um ályktanaglaða “efasemdamenn” á Íslandi og orðaval þeirra. Vinsamlega vísið í orð viðkomandi með heimild/tengli þar sem finna má samhengið, líkt og hér að ofan. Sjálfur mun ég reyna að safna saman einhverjum vel völdum tilvísunum í athugasemdum hér undir, bæði nýjum og gömlum. Það væri fróðlegt að sjá hverju hefur verið haldið fram varðandi þessi mál í gegnum tíðina, af hverjum og í hvaða samhengi.

    Ýmistlegt efni af loftslag.is sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar þessi mál eru skoðuð:

  • Opið bréf frá Hadfield til Moncktons

    Opið bréf frá Hadfield til Moncktons

    Að gamni birtum við hér myndband sem er í raun opið bréf til Christopher Moncktons, sem Peter Hadfield (Potholer54) birti í gær á youtube síðu sinni. Monckton lenti þar í rökræðum við ofjarl sinn og hefur ekki haft getu eða þor til að rökræða við hadfield um loftslagsmál.
    .

     

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Afneitunargeitin [Denial-gate]

    Afneitunargeitin [Denial-gate]

    Það virðist vera komið upp nýtt “-gate” mál. Þeir sem hafa fylgst með umræðunni um loftslagsmál hafa vafalaust tekið eftir málum eins og hinu svokallað “climate-gate” máli, þar sem “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun af mannavöldum fullyrtu út og suður um svik og pretti vísindamanna án þess að stoðir reyndust vera fyrir því í raun og veru. Þessi svokölluðu “geita” mál urðu fleiri, þar sem “efasemdamenn” fullyrtu um alls kyns falsanir vísindamanna (m.a. varðandi bráðnun jökla Himalaya og rannsóknir varðandi Amazon). Ekki er hægt að segja að þessum fullyrðingum þeirra hafi fylgt gögn sem gátu stutt mál þeirra (en tilgangurinn helgar jú meðalið). Að mestu leiti voru þetta staflausar fullyrðingar  og einskis verðir útúrsnúningar hjá hinum sjálfskipuðu “efasemdamönnum”. Umræðu um þessi svokölluðu “geita” mál mátti einnig finna á bloggi “efasemdamanna” hér á landi og fóru menn mikinn oft á tíðum. Þegar öllu er á botnin hvolft þá eru þessi “climate-gate” mál hvorki fugl né fiskur. Við höfum hér á loftslag.is fjallað aðeins um þau mál og þann algera skort á rökum sem þau byggðu á. Það má í þessu ljósi líka nefna endalausan straum frétta af vísindamönnum sem voru hreinsaðir af tilbúnum ásökunum “efasemdamannanna”, sjá t.d. Vísindamenn hreinsaðir af ásökunum um óheiðarlega meðferð gagna og Michael Mann sýknaður af vísindalegum misgjörðum svo eitthvað sé nefnt…

    Nú er komið upp nýtt mál sem væntanlega mun ekki heyrast mikið um á síðum “efasemdamanna” – nema þá kannski til að benda á “ofsóknir” á hendur þeim eða um meintar falsanir í þeirra garð (já, það má segja að þeir kasti steinum úr glerhúsi). En hvað sem öðru líður, þá hefur málið fengið hið lýsandi nafn Denial-gate, eða eins og ég vel að kalla það hérna “afneitunargeitin”. Málið fjallar um það að það hafa lekið út skjöl frá Heartland Institute varðandi fjármögnun “efasemdamanna”, þ.e. hverjir standa fjárhagslega að baki “efasemdamönnum” svo og önnur viðkvæm skjöl. Fyrst var fjallað um þetta mál á Desmogblog.com, Heartland Institute Exposed: Internal Documents Unmask Heart of Climate Denial Machine. Það má því segja að hjarta afneitunarinnar í BNA hafi verið afhjúpað og sé í herbúðum Heartland Institute (sem m.a. tók þátt í að afneita tengslum tóbaks og krabbameins á sínum tíma – vanir menn í afneitunar faginu). Þetta mál byggist meðal annars á, því er virðist, skjölum úr ársreikningi Heartland Institute, þar sem m.a. er að hluta til sagt frá því hverjir þáðu styrki svo og hverjir veittu þá.

    Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar. Anthony Watts hefur fengið sem nemur rúmum 11 milljónum króna (um 90.000 USD) til að setja fram sínar “rannsóknir” þar sem hann var m.a. staðin að óvönduðum vinnubrögðum, Graig Idso fær sem nemur rúmri 1,4 milljónum á mánuði (11.600 USD), sem væntanlega er fyrir hans þátt og Miðaldaverkefni hans, Singer fær líka mánaðargreiðslur sem virðast nema minnst 600 þúsundum á mánuði (5.000 USD) plús kostnað. Þetta eru aðeins örfá dæmi um fjármögnun “efasemdamanna” eins og þau líta út í skjölum Heartland…en nánar má lesa um þetta á Desmogblog.com.

    Að sjálfsögðu hefur Heartland Institute tjáð sig um málið og segja að eitt af aðalgögnunum sem lekið var sé tilbúningur (ætli það sé þá staðfesting á að hin skjölin séu úr þeirra herbúðum…ekki gott fyrir þá hvað sem öðru líður), en það var svo sem ekki við öðru að búast, en að þeir myndu klóra eitthvað í bakkann varðandi þetta mál. Ætli það megi ekki leyfa þeim að njóta vafans varðandi það plagg þar til annað kemur í ljós, þó ekki hafi “efasemdamenn” almennt talið nokkurn vafa um að vísindamenn væru með falsanir og svik í hinu svokallað “climate-gate” máli… En jæja, svona er þetta stundum, what goes around comes around, ying og yang og allt það…

    Nánar má lesa um þetta mál á eftirfarandi stöðum:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Dr. Jeff Masters um öfga í veðri

    Dr. Jeff Masters um öfga í veðri

    Einn þekktasti  veðurfræðingur heims, Dr. Jeff Masters  á Weather Underground– tók saman nýlega ítarlegt yfirlit yfir öfga í veðri árið 2010 og það sem af er þessa árs. Þar má meðal annars sjá lista yfir veðurmet – hita og úrkomu.  Að hans sögn þá eru þetta mestu öfgar í veðri frá því mælingar hófust og miðað við þekkingu manna á loftslagsbreytingum þá sé þetta rétt að byrja.

    Hann segir meðal annars (lauslega þýtt):

    Á hverju ári er óvenjulegt veður einhvers staðar á jörðinni. Met sem hafa staðið í áratugi falla. Flóð, þurrkar og stormar hafa áhrif á milljónir manna og óvenjulegt veður í sögu manna getur orðið. En þessi rússibanaferð öfgafulls veðurs árið 2010 hefur, að mínu mati, gert það ár að óvenjulegasta ári frá því áreiðanleg hnattræn gögn um efri lofthjúp jarðar (e. global upper-air data) voru fáanleg í lok fimmta áratugsins. Aldrei á þeim 30 árum sem ég hef starfað sem veðurfræðingur hef ég orðið vitni að ári líku 2010 – hinn ótrúlegi fjöldi veðurhamfara og óvenjulegar sveiflur í vindafari jarðar er ólíkt öðru sem ég hef séð.

    Í yfirliti hans er þetta markverðast fyrir árið 2010 að hans mati:

    • Heitasta ár jarðar frá því reglulegar mælingar hófust (í lok 19. aldar)
    • Öfgafyllsta vindakerfi norðurskauts – fyrir vikið óvenjuöfgafullur vetur sérstaklega í norðurhluta Evrópu og við austurströnd Bandaríkjanna
    • Hafís norðurskautsins: lægsta rúmmál í sögu mælingaa og þriðja lægsta útbreiðsla
    • Met í bráðnun Grænlandsjökuls og óvenjulega stór borgarísjaki losnaði
    • Önnur mesta sveifla frá El Nino og yfir í La Nina
    • Annað versta ár í bleikingu kóralla (e. coral bleaching)
    • Blautasta árið yfir landi
    • Hitabeltisskógar Amazon lentu í annað skipti á fimm árum, í þurrki sem á ekki að verða nema á 100 ára fresti
    • Minnsta virkni hitabeltislægða frá því mælingar hófust
    • Óvenjuvirkt fellibyljatímabil í Atlantshafi, þriðja virkasta
    • Í Suður Atlantshafi myndaðist fellibylur – sem er mjög sjaldgæft
    • Öflugasti stormur í sögu suðvestur Bandaríkjanna
    • Öflugasti stormur fjarri strandríkjunum í sögu Bandaríkjanna
    • Veikasti monsúntími í austur Asíu og síðastur að enda
    • Engin monsúnlægð í suðvestur monsún Indlands – í annað skipti í 134 ár
    • Flóðin í  Pakistan: verstu náttúruhamfarir í sögu Pakistan
    • Hitabylgjan í Rússlandi og þurrkar: mannskæðasta hitabylgja í sögu mannkyns
    • Úrhellisrigningar í Ástralíu valda mesta tjóni í sögu náttúruhamfara í Ástralíu
    • Mesta úrhelli í sögu Kólumbíu valda verstu flóðahamförum í sögu þess
    • Úrhelli varð með samsvarandi flóði í Tennessee Bandaríkjunum, sem tölfræðilega verða bara einu sinni á þúsund ára fresti

    Heimildir og ítarefni

    Bloggfærsla Dr. Jeff Masters: 2010 – 2011: Earth’s most extreme weather since 1816?

    Tengt efni á loftslag.is