Loftslag.is

Tag: Sjávarhiti

  • 2014 var hlýjasta ár í sögu mælinga og hnatthitaspámeistari ársins

    2014 var hlýjasta ár í sögu mælinga og hnatthitaspámeistari ársins

    Byrjum þessa færslu á algerri endurtekningu frá síðasta ári.

    “Enn og aftur er komið að því að skoða árið sem var að líða með fókus á hitastig í heiminum. Það virðist vera orðið venja að það ár sem er nýliðið í hvert og eitt skiptið sé meðal 10 heitustu ára frá upphafi og á því varð engin breyting í ár” [2013 – enn eitt hlýtt ár og hnatthitaspámeistari ársins]. 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga í gagnasafni NASA GISS og endaði árið með hitafráviki upp á +0,68°C og einnig í gagnasafni NOAA, en þar endaði árið með hitafráviki upp á +0,69°C.

    Hitafrávik 1880 - 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]
    Hitafrávik 1880 – 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal.
    [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]

    Janúar 2015

    Nýjustu tölur um hitafrávik í byrjun árs 2015 eru komnar í hús og er hitafrávikið 0,75°C í gagnaröð NASA GISS og 0,77°C hjá NOAA. Í báðum tilfellum var mánuðurinn í öðru sæti yfir hlýjustu janúarmánuði frá upphafi mælinga.

    Hnatthitaspámeistarinn 2014

    Undanfarin ár höfum við á loftslag.is verið með smá leik á upphafi árs þar sem er spáð fyrir um komandi ár. Spáð er í hitafrávik ársins sem er nýhafið og höfum við notað NASA GISS sem viðmið. Á síðasta ári voru fjórir sem treystu sér í að spá fyrir um 2014 og var spáin eftirfarandi:

     Spá 2014 Spá
    Höskuldur Búi +0,63°C
    Sveinn Atli +0,64°C
    Jón Erlingur +0,66°C
    Emil Hannes +0,68°C

    Þar sem árið 2014 endaði í +0,68°C þá er augljóst að Emil Hannes negldi þetta og er því hér með krýndur Hnatthitaspámeistari 2014. Hann var einnig meistari ársins 2013 og hefur því endurtekið leikinn frá síðasta ári og óskum við á loftslag.is honum hjartanlega til hamingju.

    Það væri gaman að fá enn fleiri hnatthitaspámenn þetta árið, líka þeir sem telja að kólnun sé í nánd og jafnvel byrjuð – það væri spennandi að sjá þeirra spár til samanburðar.

    Árið 2015 – vangaveltur og spá

    Þá er komið að því að setja sig í spámannsstellingar á ný eins og undanfarin ár. Með hættu á því að endurtaka mig, þá ætla ég að byrja á því að ræða um El Nino ástandið í Kyrrahafinu sem gæti haft áhrif í ár, það hefur yfirleitt þau áhrif að hitastig á heimsvísu hækkar. Þar sem talið er líklegt að El Nino verði í gangi fyrri hluta ársins, þá ætla ég að spá því að það ástand fari í gang í ár og að það muni hafa áhrif til hækkunar frá árinu 2014. Það er svo spurning hversu langan tíma af árinu það ástand gæti varað. Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég að spá lítilsháttar hækkun hitastigs árið 2015, frá því sem var 2014, eða um +0,02°C hærra en 2014 endaði í, sem er þá hitafrávik upp á +0,70°C fyrir árið 2015. Sem yrði þá heitasta ár frá upphafi mælinga árið 1880 ef litið er á gögn NASA GISS. Miðað við byrjun ársins, hitafrávik janúarmánaðar var +0,75°C, þá er þetta kannski ekki svo fjarstæðukennd spá, en það getur allt gerst.

    Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari fyrir árið 2015? Spár má setja inn í athugasemdir við færsluna og mun það gilda sem skráning. Það væri líka fróðlegt að fá spár frá kólnunarsinnum.

    Heimildir:

    NASA – http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

    NOAA – Global Analysis – Annual 2014

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Engin pása í hnattrænni hlýnun!

    Engin pása í hnattrænni hlýnun!

    Að undanförnu hefur farið fram lífleg umræða um það hvað mælingar á lofthita við yfirborð jarðar hefur að segja um það hvort að það sé “pása” í hnattrænni hlýnun um þessar mundir. Þessa meintu “pásu” er hægt að sjá, með góðum vilja, yfir skemmri tíma – en þýðir það að hnattræn hlýnun hafi stöðvast. Í eftirfarandi myndbandi setur hópur leiðandi vísindamanna á sviði loftslagsvísinda hlutina í samhengi.

    .

    Tengt efni á loftslag.is

  • Fuglar í vanda

    Fuglar í vanda

    Nokkrar nýjar greinar og skýrslur undanfarið sýna klárlega að vandi fugla er mikill og verður enn meiri við áframhaldandi loftslagsbreytingar og aðrar neikvæðar breytingar af mannavöldum.

    Rauði listinn

    toco-toucan-wild-reallySamkvæmt nýju mati þá er á bilinu fjórðungur til helmingur allra tegunda fugla  mjög berskjölduð (e. vulnerable) fyrir loftslagsbreytingum. Varað er við því að ef áfram heldur sem horfir í losun manna á gróðurhúsalofttegundum,  þá muni þurfa að kosta til miklum verndunaraðgerðum, sem ekki er víst að dugi til.

    Þetta nýja mat (Foden o.fl. 2013) var gert af vísindamönnum á vegum International Union for Conservation of Nature (IUCN), sem eru samtök sem meðal annars útbúa svokallaðan Rauða lista yfir tegundir í hættu (Red List of Threatened Species).

    Í matinu tóku Foden og félagar tillit til ýmissa þátta sem ekki höfðu áður ratað inn í útreikninga þeirra. Þættir eins og hversu fljótt tegundir gátu flust á milli búsvæða, og hvort á milli svæða væru hindranir, t.d. fjallgarðar. Þá var tekið með í reikninginn líkur á því að tegundirnar geti þróast, t.d. þróast þær dýrategundir hraðar sem fjölga sér hratt.

    Niðurstaðan er sláandi, en á bilinu 24 -50% allra fuglategunda eru talin mjög berskjölduð og þá vegna loftslagsbreytinga. Þessi niðurstaða er sambærileg við niðurstöðu rannsóknar sem birtist í Nature fyrir nokkrum árum (Thomas o.fl. 2004), en þar var talið líklegt að um 15-37 % allra dýrategunda yrðu nánast údauðar árið 2050 – vegna loftslagsbreytinga.

    Sérstaklega varasöm svæði eru t.d. Amazon frumskógurinn og Norðurskautið, en þar eru breytingarnar einna mestar og mikið af fuglum sem eru mjög aðlagaðir að því loftslagi.

    Norrænir fuglar við sjávarsíðuna

    Í nýrri tilkynningu frá hinni bandarísku  stofnun Fish and Wildlife Service (USFWS 2013) er sagt frá breytingum sem við íslendingar könnumst við. Meðfram ströndum Maine, nyrst á Austurströnd Bandaríkjanna, hafa stofnstærðir ýmissa fugla hrunið undanfarin ár. Þar eins og hér við Íslandsstrendur eru það meðal annars tegundir eins og lundar og kríur sem hafa farið halloka.

    Ástæðan er talin vera minnkandi fæða, hvoru tveggja vegna fiskveiða og vegna færslu fiskistofna til norðurs vegna hlýnunar sjávar. Erfiðara reynist því fyrir fugla við sjávarsíðuna að fæða unga sína. Kríustofninn við strendur Maine hefur t.d. hnignað um 40 % á síðustu 10 árum.

    Sjávarstöðubreytingar og farflug vaðfugla

    Nýlega birtist grein í Proceedings of the Royal Society B (Iwamura o.fl. 2013) um áhrif sjávastöðubreytinga á farflug vaðfugla.

    Red-Knot-Terek-Sandpipers-Broad-billed-Sandpipers-etcÞað hefur verið vitað í nokkurn tíma að sjávarborð sé að hækka vegna hlýnunar jarðar. Nú hafa Iwamura og félagar sýnt fram á hvernig sjávarstöðubreytingar hafa áhrif á vaðfugla. Milljónir vaðfugla stunda farflug milli hlýrra vetrarstöðva og fæðuríkari sumarstöðva á hverju ári. Viðfangsefni rannsóknarinnar var farflug vaðfugla frá Norðurskautssvæðum Rússlands og Alaska og suður eftir til Suðaustur Asíu og Ástralíu. Skoðaðar voru 10 tegundir vaðfugla.

    Vísindamennirnir hafa áætlað að við sjávarstöðuhækkanir þá muni flæða yfir 23-40% af búsvæðum við ströndina, sem myndi valda allt að 70% fækkun í stofnum sumra tegunda. Sjávarstöðuhækkanir eru taldar hafa mest áhrif á þær tegundir fugla þar sem stór hluti stofnsins stoppar á einum stað í farfluginu, til að matast og endurnýja orkuna fyrir áframhaldandi för. Þessir flöskuhálsar ákvarða í raun stofnstærð þessara tegunda og því mun eyðilegging þeirra vegna sjávarstöðuhækkanna og annarra athafna mannanna hafa úrslitaáhrif í viðhaldi þeirra.

    Fleiri búsvæðabreytingar

    Að lokum er rétt að minnast á skýrslu BirdLife International (2013), en þar kemur meðal annars fram að allt að 1 tegund af hverjum 8 séu í útrýmingahættu – og þá sérstaklega vegna búsvæðabreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga og landbúnaðar.

    BirdLife samstarfið hefur sett niður á kort mikilvæg svæði jarðar fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas). Þau svæði eru nú orðin yfir 12 þúsund að tölu.

    Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) - smellið á mynd til að stækka
    Hér hafa verið kortlögð mikilvæg svæði fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas) – smellið á mynd til að stækka

    Við endum á orðum eins af forsvarsmönnum BirdLife, Dr Leon Bennun – hér lauslega þýtt:

    Fuglar eru í raun nákvæmir og auðlæsir umhverfismælar sem sýna glöggt það álag sem lífsmynstur nútímamanna hefur á líffræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar.

     

    Heimildir og ítarefni

    Foden o.fl. 2013: Identifying the World’s Most Climate Change Vulnerable Species: A Systematic Trait-Based Assessment of all Birds, Amphibians and Corals

    Rauði Listinn: Red List of Threatened Species

    Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change (PDF)

    USFWS 2013:  Seabirds Warn of Ocean Change

    Iwamura o.fl. 2013: Migratory connectivity magnifies the consequences of habitat loss from sea-level rise for shorebird populations

    BirdLife International 2013: State of the World’s Birds – indicator for our changing worlds

    Tengt efni á loftslag.is

  • Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Útbreiðsla fiskitegunda breytist við hlýnun sjávar

    Fiskitegundir eru að breyta útbreiðslu sína um úthöfin, vegna hlýnunar sjávar.  Áframhaldandi hlýnun getur haft neikvæð efnahagsleg áhrif, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Rannsóknin sem birtist í Nature (Cheung o.fl. 2013), notast við einskonar  úrvalsvísitölu (e. novel index) sem   fiskihitamælir. Með henni er hægt að finna vísbendingar um búferlaflutinga út frá aflatölum veiðiskipa. Í ljós kom töluverð færsla fiskitegunda milli búsvæða, sem var í góðum takti við loftslagsbreytingar.

    Hver fiskitegund hefur sitt ákveðna bil kjörhitastigs. Ef hitastig sjávar á ákveðnu svæði færist frá því bili, þá dregur úr vexti og æxlun misferst, sem smám saman fækkar einstaklingum tegundarinnar á því svæði og breytir smám saman útbreiðslu fiskitegundanna.

    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita  síðastliðin 100 ár. Mynd: Northeast Fisheries Science Center.
    Yfirborðshitafrávik ársins 2012, á Norður-Atlantshafi, frá meðalhita síðastliðin 100 ár.
    Mynd: Northeast Fisheries Science Center.

    Við auknar loftslagsbreytingar, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, þá má búast við hraðari búferlaflutningum og illskeyttari deilum vegna færslu fiskistofna milli landhelga. Sem dæmi um stofna sem hafa færst til er þorskur, lýsingur, humar og sardínur út af Nova Scotia, þar sem stofn þeirra hverfur syðst af fyrrum kjörsvæðum tegundanna við færsluna norður. Í íslensku samhengi er skemmst að minnast makríls sem er orðinn ansi áberandi í íslenskri landhelgi.

    Með því að skoða aflatölur undanfarin 40 ár, úr 52 stórum sjávarvistkerfum, var hægt að reikna fyrrnefnda vísitölu, sem vísar í meðalsjávarhita veiða hverrar tegundar. Þegar búið var að taka með í reikninginn breytingar á veiðiaðferðum og sjávardýpi, þá fundu Cheung og félagar tölfræðilega marktæka tengingu milli breytinga í veiðihita og aukningu í yfirborðshita sjávar.

    Hitabeltið er sérstaklega viðkvæmt fyrir breytingum á hitastigi, þá vegna þess hversu lítið bil kjörhitastigs er hjá þeim tegundum sem lifa þar, sem þá flýja fljótt á hærri breiddargráður (til norðurs eða suðurs). Þar koma þá engar nýjar tegundir inn til mótvægis við þær tegundir sem flýja hitann.

    Á hærri breiddargráðum eykst að sama skapi fjöldi hlýsjávartegunda á kostnað kaldsjávartegunda, sem flýja til hærri breiddargráða.

    Heimildir og ítarefni:

    Greinin í Nature, eftir Cheung o.fl. 2013 (ágrip): Signature of ocean warming in global fisheries catch
    Grein Nye o.fl. 2009 (ágrip): Changing spatial distribution of fish stocks in relation to climate and population size on the Northeast United States continental shelf
    Umfjöllun á Climate Central: As Oceans Warm, Fish Are Finding New ZIP Codes

    Tengt efni á loftslag.is

  • Nokkur áhugaverð erindi

    Nokkur áhugaverð erindi

    Við á loftslag.is viljum minna á nokkur áhugaverð erindi sem eru í boði á næstu dögum. Fyrst er að nefna ráðstefnu með fjölbreyttum erindum:

    Hafrannsóknastofnun stendur fyrir ráðstefnu um “Veðurfar og lífríki sjávar á Íslandsmiðum” í fyrirlestrasal stofnunarinnar, Skúlagötu 4, 1. hæð, fimmtudaginn 21. febrúar 2013 frá 9 – 16.

    Ráðstefnan er öllum opin.

    Veðurfar og breytileiki hefur mikil áhrif á ástand sjávar, lífsskilyrði í sjónum og göngur og stærð fiskistofna á Íslandsmiðum. Hlýviðrisskeið var hér við land á árunum 1925-1945, kuldaskeið frá 1965-1971 og frá árinu 1996 hefur verið hlýviðrisskeið. Á þessum tímabilum hafa einnig orðið verulegar breytingar á vistkerfi sjávar við Ísland.

    Nýlegar breytingar á sjávarhita og seltu hafa haft áhrif á allt vistkerfið frá svifi til fiska og spendýra. Sum bein áhrif veðurfarsbreytinga á lífríki hafsins eru þannig nú þegar merkjanleg en önnur þarf að greina betur með auknum rannsóknum og líkanagerð.

    Á ráðstefnunni verða flutt 12 erindi um áhrif veðurfars á lífríki sjávar á Íslandsmiðum. Dagskrána og ágrip erinda má finna á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar hér

    Þá er áhugavert föstudagserindi Jarðvísindastofnunar og Norvulk:

    Föstudagur, 22. febrúar kl. 12:20 – Guðfinna Aðalgeirsdóttir: 
    “Challenges in modelling the future of the Greenland Ice sheet”

    Föstudagserindi Jarðvísindastofnunar og Norræna eldfjallasetursins.
    Fundarstaður: Náttúrufræðahús, Askja – fundarherbergi 3. hæð, vesturendi.  Allir velkomnir!

  • Enn og aftur eru fingraför mannkyns á hnattrænu hlýnunina staðfest

    Enn og aftur eru fingraför mannkyns á hnattrænu hlýnunina staðfest

    Enn og aftur kemur fram rannsókn sem staðfestir mannleg áhrif á hnattræna hlýnun, í þetta skiptið varðandi hlýnun sjávar á heimsvísu. Hér undir má sjá stutt yfirlit á ensku og tengil á frétt Skeptical Science um málið.


    Gleckler et al Confirm the Human Fingerprint in Global Ocean Warming (via Skeptical Science)

    Posted on 27 June 2012 by dana1981 Although over 90% of overall global warming goes into heating the oceans, it is often overlooked, particularly by those who try to deny that global warming is still happening.  Nature Climate Change has a new paper by some big names in the field of oceanography,…

    (more…)

  • Vindhæð og ölduhæð eykst

    Vindhæð og ölduhæð eykst

    Endurbirt færsla frá því í vor

    Vindstyrkur og ölduhæð úthafanna hefur verið að aukast undanfarinn aldarfjórðung samkvæmt nýrri rannsókn. Óljóst er þó hvort um er að ræða skammtímasveiflu eða langtíma áhrif vegna loftslagsbreytinga.

    Ian Yong o.fl. 2011 greindu gervihnattagögn milli áranna 1985 og 2008 og reiknuðu út ölduhæð og vindstyrk yfir úthöfin. Samkvæmt rannsókninni þá er vindstyrkur að aukast og um 0,25-0,5 % að meðaltali hvert ár. Í heildina þá er vindstyrkur um 5-10 % meiri í dag en hann var fyrir 20 árum. Leitnin var meiri fyrir meiri vindstyrk en minni.

    Mynd sem sýnir leitni í ölduhæð stærstu alda (% á ári). Vindstyrkur á efri mynd og ölduhæð fyrir neðan (mynd 3 í Young o.fl. 2011)

    Ölduhæð jókst líka, en ekki eins – en það var eins að stærstu öldurnar sýndu mestu leitnina.

    Niðurstaðan var borin saman við hefðbundnar öldumælingar og líkön og kom í ljós viss breytileiki milli aðferða, sem þó var sambærilegur í heildina séð. Notaðar eru radarmælingar frá gervihnöttum sem mæla hæð yfirborðs sjávar og geta mælt ölduhæð nákvæmlega – sem síðan er notað til að reikna út vindstyrk. Ákveðinn munur er á leitninni eftir hnattstöðu – t.d. er bæði ölduhæð og vindstyrkur að aukast hraðar á suðurhveli jarðar en á norðurhveli.

    Hægt er að leiða líkur að ástæðum þessarar aukningar – úthöfin eru að hlýna – sú orka eykur styrk storma sem um leið eykur vindstyrk og ölduhæð. Gögn fyrir þetta stuttan tíma eru þó ekki nægjanleg til að ákvarða hvað veldur þessari aukningu.

    Heimildir og ítarefni

    Umfjöllun NewScientist um greinina: World’s wind and waves have been rising for decades

    Á Skeptical Science er fjallað ítarlega um þessa grein o.fl. hér: More wind, bigger waves, changing marine ecosystems

    Greinin sjálf birtist í Science, Young o.fl. 2011 (ágrip):  Global Trends in Wind Speed and Wave Height

    Tengt efni á loftslag.is

  • El Nino og loftslagsbreytingar út þessa öld

    El Nino og loftslagsbreytingar út þessa öld

    Ekki er búist við að loftslagsbreytingar hafi áhrif á tíðni eða umfang El Nino/La Nina sveifluna – ENSO ( El Niño/Southern Oscillation) út þessa öld, en afleiðingar sveiflunnar gætu þó versnað. Þetta er niðurstaða nýlegrar rannsóknar sem birtist í Journal of Climate (Stevenson o.fl. 2011).

    Sterk ENSO sveifla verður á 4-12 ára fresti, þegar yfirborðhiti sjávar við miðbaug Kyrrahas verður óvenjulega hár – vestur af strönd suður Ameríku. Fyrirbærið hefur áhrif víða um heim – með óvenjulegu veðurfari sem veldur gríðarlegu tjóni, sérstaklega af völdum flóða og þurrka. Því er mikilvægt að vita hvernig ENSO sveiflan getur breyst við þær loftslagsbreytingar sem nú eru í gangi og væntanlegar eru út þessa öld.

    Vísindamennirnir notuðu loftslagslíkön NCAR (Community Climate System Model -CCSM) og líktu eftir loftslagsbreytingum og mögulegum áhrifum sem það myndi hafa á ENSO út öldina. Í stuttu máli þá fundu þeir engar breytingar á umfang eða tíðni ENSO sveiflunnar.

    Aftur á móti er búist við, að heitara og blautara andrúmsloft framtíðar, geti gert ENSO atburðina öfgafyllri. Sem dæmi spáir líkanið því að fyrirstöðuhæð suður af Alaska, sem myndast við La Nina vetur (kaldari hluti sveiflunnar), muni styrkjast í framtíðinni sem þýðir að kalt loft norðurskautsins á greiðari leið að norður Ameríku í framtíðinni.

    Heimildir og ítaerefni

    Umfjöllun á heimasíðu UCAR/NCAR: El Niño and climate change in the coming century

    Greinin sem birtist í Journal of Climate, Stevenson o.fl. 2011: Will there be a Significant Change to El Nino in the 21st Century?

    Tengt efni á loftlsag.is

  • Áhrif hnattrænnar hlýnunar

    Áhrif hnattrænnar hlýnunar

    Fyrir nokkru kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

    Áhrif hnattrænnar hlýnunar

    Ef halda á því fram að hnattræn hlýnun sé góð, þarf að loka augunum fyrir neikvæðum áhrifum hennar. Ein af algengustu rökunum er að CO2 sé „fæða planta“ og aukin losun á CO2 sé því af hinu góða. Þau rök hundsa þá staðreynd að plöntur þurfa meira en CO2 til að lifa af. „Áburðaráhrif CO2“ eru takmörkuð og verða fljótlega yfirgnæfð af neikvæðum áhrifum aukins varmaálags og tíðari þurrka í framtíðinni [48,49]. Undanfarna öld hafa alvarlegir þurrkar aukist hnattrænt og er búist við því meiri aukningu í framtíðinni [12]. Plöntur geta ekki nýtt sér aukið magn CO2 í lofthjúpnum ef þær eru að drepast úr þorsta [50].

    Þurrkar í fortíð og framtíð með vísitölu Palmers um alvarleika þurrka. Blá litbrigði þýða blautar aðstæður og rauð þýða þurrka. Talan -4 eða lægri bendir til mjög alvarlegra þurrka (51)

    Margar af afleiðingum hnattrænnar hlýnunar hafa engar jákvæðar hliðar. Milli 18 og 53% núlifandi plantna- og dýrategunda gætu verið í útrýmingarhættu fyrir árið 2050 [52]. Úthöfin gleypa í sig mikið af CO2 úr lofthjúpnum, sem veldur súrnun sjávar [53]. Það er talið munu hafa mikla röskun í för með sér fyrir alla fæðukeðju sjávar, til viðbótar við þau neikvæðu áhrif sem bleiking af völdum hlýnunar sjávar veldur [54]. Það er áætlað að um það bil einn milljarður manna reiði sig á sjóinn fyrir töluverðan hluta (>30%) þeirra próteina sem þeir fá úr fæðu [55].

    Við hörfun jökla og minnkandi snjó í fjöllum minnkar einnig vatnsforði milljóna manna sem treysta á þann ferskvatnsforða, sérstaklega sem áveitu í landbúnaði [33]. Svipað er upp á teningnum ef skoðaðar eru sjávarstöðubreytingar og aukin tíðni sjávarflóða, en það getur haft áhrif á milljónir manna á þessari öld þegar selta eykst í hrísgrjónaökrum, fljótum og brunnum þannig að milljónir manna gætu þurft að flytja sig um set. Þeir flutningar gætu aftur orðið til þess að auka hættu á átökum [56].

    Þegar einhver segir að hnattræn hlýnun sé góð og bendir á staðbundin jákvæð áhrif, er vert að hafa í huga að flest bendir til þess að í heildina verði neikvæðu áhrifin mun meiri en þau jákvæðu.

    Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir  síðar.

    Heimildir og ítarefni

    12. IPCC 2007:  The Physical Science Basis.

    33. Immerzeel o.fl. 2010: Climate change will affect the Asian water towers.

    48. Challinor o.fl. 2010: Increased crop failure due to climate change: assessing adaptation options using models and socio-economic data for wheat in China.

    49. Tubiello o.fl.2007: Crop and pasture response to climate change.

    50. Zhao og Running 2010: Drought-Induced Reduction in Global Terrestrial Net Primary Production from 2000 Through 2009.

    51. University Corporation for Atmospheric Research.

    52. Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change.

    53. Hoegh-Guldberg o.fl. 2007: Coral Reefs Under Rapid Climate Change and Ocean Acidification.

    54. Hoegh-Guldberg og Bruno 2010 (ágrip): Impacts of climate change on the world’s marine ecosystems.

    55. Tibbets, J. (2004). The State of the Oceans, Part 1. Eating Away at a Global Food Source.

    56. Dasgupta o.fl. 2007: The impact of sea-level rise on developing countries: a comparative analysis, World Bank Policy Research Working Paper No 4136.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

    Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

    Fyrir stuttu kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

    Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg

    Staðsetningar veðurstöðva nærri loftræstikerfum húsa og á malbikuðum bílastæðum er af sumum talið geta útskýrt stærstan hluta hnattrænnar hlýnunar. Það eru margar ástæður fyrir því að við vitum að svo er ekki. Við getum til að mynda borið saman hitamælingar frá vel staðsettum og illa staðsettum veðurstöðvum. Mælingar sýna álíka hlýnun í báðum tilvikum [28].

    Önnur leið til að sannreyna gögn frá veðurstöðvum er samanburður við mælingar gervihnatta. Hvoru tveggja sýnir sambærilega hlýnun [29]. Þetta staðfestir að athuganir veðurstöðva gefa réttmæta mynd af þróun lofthita á jörðinni.

    Fyrir utan sannfærandi gagnaraðir frá veðurstöðvum sýna víðfeðm gögn ýmissa náttúrukerfa, breytingar sem eru í samræmi við hlýnun jarðar. Jökulbreiður bráðna um milljarða tonna á ári [30]. Sjávarstaða hækkar sífellt hraðar [31]. Lífverur flytja sig um set í átt til heimskautasvæða og jöklar hörfa (sem getur ógnað stöðugleika vatnsframboðs milljóna manna) [32,33].

    Til að öðlast skilning á loftslagi er mikilvægt að skoða gögnin í heild. Það sem þá kemur í ljós eru margskonar ólíkar athuganir sem allar hníga að sama brunni: Hnattræn hlýnun er raunveruleg.

    Parmesan & Yohe 2003 (32) , NOAA (34).

    Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir síðar.

    Heimildir og ítarefni

    28. Menne o.fl. 2010: On the reliability of the U.S. surface temperature record.

    29. Karl o.fl. 2006: Temperature Trends in the Lower Atmosphere: Steps for Understanding and Reconciling Differences.

    30. Velicogna 2009: Increasing rates of ice mass loss from the Greenland and Antarctic ice sheets revealed by GRACE

    31. Church o.fl. 2008: Understanding global sea levels: past, present and future.

    32. Parmesan og Yohe 2003: A globally coherent fingerprint of climate change impacts across natural systems.

    33. Immerzeel o.fl. 2010: Climate change will affect the Asian water towers.

    34. NOAA National Climatic Data Center, State of the Climate: Global Analysis for September 2010.

    Tengt efni á loftslag.is