Vísindamenn úr hópnum sem stóð að rannsókninni, frá vinstri til hægri, George Shimizu, Simon Iremonger og Ramanathan Vaidhyanathan.
Kanadískir efnafræðingar eru að rannsaka nýjar leiðir til að binda koldíoxíð sem kemur frá raforkuverum og verksmiðjum og koma því fyrir án þess að nota mikið af orku og vatni, eins og er nauðsynlegt í núverandi frumgerðum þeirrar tækni sem er skoðuð varðandi kolefnisbindingu. Rannsóknaraðilarnir segja frá því í vísindatímaritinu Science, að þeir hafi notast við tækni sem þeir kalla röntgengeisla kristallafræði (e. X-ray crystallography) til að rannsaka hvernig kolefnissameindir bindast í gljúpum, föstum kolefnisjarðlögum. Vísindamenn við Háskólana í Calgary og Ottawa tókst að rannsaka nákvæmlega þá staði þar sem koldíoxíð er í kolefnisjarðlögum, sem þeir líktu við að halda á hafnabolta í hafnaboltahanska. “Við getum séð hvernig hver “fingur” leggur sitt af mörkum til að halda CO2 á sínum stað,” segir George Shimizu, prófessor í efnafræði við Háskólann í Calgary og meðhöfundur rannsóknarinnar. Núverandi kolefnisbindingarbúnaður kemur einskonar loftbólum af CO2 í gegnum vatn sem inniheldur uppleyst efni, svokölluð amin. Aminin ná taki á koldíoxíðinu og þegar það er hitað þá er hægt að binda kolefnið aftur. Sú tækni notar mikið af vatni og orku, og samkvæmt Shimizu þá getur þessi nýja tækni sparað mikið af orku þar sem ekki þarf að hita vatn til að binda kolefnið.
Þegar líður að árslokum er áhugavert að velta fyrir sér hvort árið sem er að líða var heitt í hnattrænu tilliti, og hvar það raðist á listann um hlýjustu ár. Frá aldamótum hafa flest árin verið á top-tíu listanum, og reyndar er eina árið á listanum sem er frá síðustu öld árið 1998. – Eins og lesendum Loftslag.is er kunnugt eru til nokkrar ólíkar samantektir á meðalhita (t.d. NCDC, GISS, CRU) og þeim ber ekki alveg saman um röðina. Rætt er um mismun gagnasafna í greininni „Hætti hlýnun jarðar eftir 1998?“, og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér. Hér verður einfaldlega notast við NCDC gagnasafnið eins gert var í pistlinum “Að sannreyna staðhæfingar” ásamt tölfræðiforritinu R til þess að spá í hvar árið 2010 lendi í röðinni. Það er ólíklegt að það muni mörgum sætum ef notuð eru önnur gagnasöfn.
Pistillinn er skrifaður fyrir þá sem vilja prófa sjálfir að greina þessi gögn og því er farið nokkuð ýtarlega yfir notkun tölfræðiforritsins við greininguna. Þeir sem minni áhuga hafa á notkun R ættu hins vegar að geta lesið pistilinn sér til gagns með því að hlaupa yfir R-skipanirnar en skoða myndina og skýringar sem henni fylgja.
Í upphafi hvers árs eru oft vangaveltur um það hvort árið verði hlýtt. Árið 2007 spáðu t.d. loftslagsvísindamenn í Bretlandi því að árið yrði metár, (sjá 2007 to be ‘warmest on record’) enda töldu þeir að öflugur El Nino (víðtæk yfirborðshlýnun í Kyrrahafi) myndi bæta við þá hlýnun sem þegar er orðin vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. En umræddur El Nino entist stutt, og hafði snúist í andhverfu sýna síðsumars. Fyrir vikið varð 2007 ekkert metár, það 6. hlýjasta fram að því ef miðað er við tölur NCDC. Andhverfa litla drengsins (El Nino) er auðvita litla stúlkan (La Nina) en þá er víðtæk yfirborðskólnun í Kyrrahafi. Áhrif El Nino og La Nina á hnattrænan meðalhita eru lesendum loftslag.is einnig kunnug, um þau fjallað um þau snemma árs þegar velt var vöngum yfir því hvort árið í ár yrði hlýjasta árið til þessa (Hitahorfur fyrir árið 2010).
Sem fyrr hefjum við skoðunina með því að nota R til að ná í gögn frá NCDC. (Sjá leiðbeiningar um notkun R hér, og upplýsingar um gögnin í FAQ NCDC). Þetta er gert með skipuninni:
Þessi skipun les inn hnattræn mánaðarhitafrávik frá 1881 (hita hvers mánaðar frá meðaltali viðkomandi mánaðar á 20. öldinni). Mynd af hitaröðinni fylgdi í fyrri pistli, en nú skulum við skoða 30 ára tímabil sem byrjar í október 1980 og lýkur í september 2010. Það er engin sérstök ástæða þess að velja 30 ára tímabil (nema að veðurfarsfræðin notar oft 30 ár sem viðmið), en þegar þetta er skrifað er september 2010 síðasti mánuðurinn í NCDC gagnasafninu. Til að einfalda okkur vinnuna skulum við teikna hvern mánuð fyrir sig, ásamt meðaltali 12 síðustu mánaða, og merkja sérstaklega 12 mánaða meðaltalið fyrir hvern desember (sem er ársmeðaltalið).
Við byrjum á því að reikna “hlaupandi” meðaltal 12 síðustu mánaða. Það er gert með R skipuninni filter
r12fil=filter(ncdc$hiti,rep(1,12)/12,sides=1)
Fyrsti desember sem við höfum áhuga á er árið 1980. Það er 15. mánuðurinn í ncdc röðinni. Eftir það höfum við áhuga á 12 hverjum mánuði. Við búum til breytu sem vísar á þá desember mánuði sem við höfum áhuga á
iAr=seq(15,length(ncdc$hiti),by=12)
Áður en við teiknum gögnin er gott að gera tímaás til að nota á myndinni. Það má gera með skipuninni
tax=ISOdate(ncdc$ar, ncdc$man, 15)
Við teiknum nú upp hitagögnin, 12 mánaða meðaltölin og ársmeðaltölin
Niðurstöðuna má sjá á mynd 1. Opnu hringirnir sýna hvern mánuð. Eins og við er að búast sýnir myndin sveiflukennda hlýnun síðustu þrjá áratugi. Hlýjasti mánuðurinn (að sjálfsögðu þegar miðað er við meðalhita viðkomandi mánaðar á viðmiðunartímabili á 20. öld) er janúar árið 1998 og næst hlýjastur var febrúar 2007. El Nino á sinn þátt í því hversu hlýir þeir voru.
Mynd 1.
Grænu punktarnir sýna árs meðaltölin, og er árið 2005 hlýjast, en árið 1998 er næst hlýjast. Nánari athugun leiðir í ljós að munurinn á milli þessara tveggja ára er einungis 0.02°C sem er vel innan við eðlileg óvissumörk ársmeðaltala. Í NCDC gögnunum má því segja að munurinn milli þeirra sé ekki tölfræðilega marktækur.
Rauði ferillinn sýnir hinsvegar 12 mánaða hitameðaltölin, og þau sýna að hlýjustu 12 mánaða tímabilin eru frá september 1997 til ágúst 1998, og frá ágúst 2009 til júlí 2010 (munur þessara tveggja er 0.001°). Eins og áður sagði er smávægilegur munur milli gagnasafna og þannig er 08/2009 – 07/2010 hlýjasta tólf mánaða tímabilið í gagnasafnin NASA/GISS (sjá Heitustu 12 mánuðir síðan mælingar hófust).
Hlýindin framan af árinu skýrast af hluta til af El Nino sem lauk á vordögum. Það er merkilegt að hlýindin 1998 eru samfara öflugasta El Nino sögunnar, meðan nýliðin hlýindi eru samfara tiltölulega veikum El Nino. Þetta ætti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem héldu því fram að hlýnun jarðar hefði stöðvast 1998.
Nú, spurningin sem þessi pistill átti að ræða er hvar í röðinni lendir árið 2010 ?
Þó við séum búin að reikna ársmeðaltölin með 12 mánaða meðaltölunum, er hentugt að gera það aftur með tapply skipuninni, sem flokkar gögn í töflu, og notar eitthvað fall á þau. Við viljum flokka hitann eftir ári, og beita meðaltalsfalli á það. Skipunin sem við notum er því
tapply(ncdc$hiti,ncdc$ar,mean)
En í raun höfum við ekki áhuga á þessum 30 ársmeðaltölum, heldur einungis10 hlýjustu árunum. Við röðum því niðurstöðu tapply í minnkandi röð og hirðum 11 fyrstu gildin.
Efst á listanum er 2010, en það árið er ekki liðið svo við lítum framhjá toppsætinu. Næst eru 2005, 1998, 2003 o.s.frv. Það er athyglisvert að munur hlýjasta ársins og næstu 8 á listanum er innan við 0.1°C.
Við getum nú lagt mat á það hversu hlýir október til desember 2010 þurfa að vera svo árið verði hlýrra en árið 2005. Hitafrávik frá janúar til og með september 2010 eru
Ef þetta yrði raunin yrði árið í 2. sæti hjá NCDC, á milli 2005 og 1998. (Það nægir auðvitað að hitafrávikin séu að meðaltali jöfn 0.49°C þau þurfa ekki öll að vera það nákvæmlega)
En er það líklegt að þetta verði raunin? Kólnunin frá því í vor stafar af stórum hluta af La Nina sem verið hefur að þróast síðustu mánuði. Á vefsíðu CPC má finna upplýsingar um þróun El Nino/La Nina hverju sinni. Í nýjustu greiningu þeirra kemur fram að LaNina skilyrði séu nú í Kyrrahafi, og gert er ráð fyrir að þau haldist amk. fram á vor 2011. Frekar en að hitafrávikin haldist að meðaltali jöfn fráviki september 2010 er vel hugsanlegt að kólnun síðustu mánaða haldi áfram. Sú kólnun hefur að jafnaði verið um einn tuttugasti úr gráðu á mánuði (síðan í mars) og haldi svo áfram verður ársmeðaltalið:
Ef þetta gengur eftir verður árið 2010 það 4. hlýjasta, á milli 2002 og 2003.
En hvað þarf að vera hlýtt síðustu þrjá mánuði 2010 til að árið í ár verði metár? Ekki mikið. Það nægir að meðalhitafrávik þeirra verði 0.53°C til að þetta verði hlýjasta árið.
mean(c(ncdc$hiti[352:360],rep(0.53,3)))
0.616525
En hversu líklegt er að síðustu þrír mánuðir ársins verði þetta hlýir?
Þrátt fyrir áframhaldandi LaNina er það ekki útilokað. Það þarf nefnilega ekki mikla hlýnun, því næstu þrír mánuðir þurfa að meðaltali einugis að vera 0.04°C hlýrri en september til að 2010 nái toppsætinu. Þróun síðustu mánaða þýðir samt að er líklegra að næstu mánuðir verði kaldir .
Hitaröðin hefur nefnilega nokkurt “minni” í þeim skilningi að ef einn mánuður er óvenjuhlýr, þá er líklegra að sá næsti sé líka hlýr. Og sama gildir fyrir óvenju kalda mánuði. Þetta minni má meta með því að reikna s.k. sjálfylgni hitaraðarinnar (að teknu tilliti til stöðugrar hlýnunnar) og það er ekki erfitt gera það í R. Það er hinsvegar of langt mál að útskýra hvernig túlka eigi slíka útreikninga til þess að rekja þá hér. Áhugasömum er bennt á að skoða tímaraðapakkann í R (sérstaklega auto.arima og forecast föllin).
Við getum hinsvegar komist áleiðis með að svara spurningunni hvort líklegt sé að þrír síðustu mánuðir ársins séu meira en 0.04° C hlýrri en september með því að skoða hitabreytingar á milli mánaða. Þær eru gefnar með
breytingar=diff(ncdc$hiti)
Við getum nú valið af handahófi eina tölu úr þessari röð og notað hana sem ágiskun okkar fyrir hitabreytinguna frá september til október. Svo veljum við aðra tölu fyrir breytinguna frá október til nóvember og loks þá þriðju fyrir nóvember til desember. Meðaltal þessar þriggja talna er meðalbreytingin síðustu þrjá mánuði ársins. Til að kanna líkur þess að þetta meðaltal sé yfir 0.04°C má endurtaka leikinn 1000 sinnum og skoða dreifingu meðalbreytinga. Í R notar maður skipunina sample til að velja mánuð af handahófi og mean(sample(breytingar,3)) tekur meðaltal þriggja talna sem valdar eru af handahófi. Við búum til Test vigur til að geyma niðurstöðu hverrar endurtekningar og notum for lykkju til að endurtaka leikinn 1000 sinnum. Í lokin finnum við líkindin með því að telja hversu oft niðurstaðan er yfir 0.04°C (hversu oft mánuðurnir þrír eru að meðaltali 0.04°C hlýrri en september). Tilraunin er því eftirfarandi R skipanir:
Test=rep(0,1000)
for (i in c(1:1000)) {Test[i]=mean(sample(breytingar,3))}
likur=sum(Test >=0.04)/1000
Þetta gefur líkur á bilinu 22 – 26%. Þar sem sample dregur tölur af handahófi úr breytingaröðinni, er flökt á líkunum ef tilraunin er endurtekin (fyrir þá sem hafa áhuga er flöktið staðaldreift, með meðaltal 24% og 1.4% staðalfrávik).
Sambærileg tilraun þar sem spurt er hverjar séu líkurnar á því að meðaltal hitabreytinga síðustu þriggja mánaða ársins sé stærri en núll (sem samkvæmt ofanskráðu nægir til að tryggja árinu amk. 2. sætið) gefur líkur á bilinu 46 – 50%.
Loks má spurja hverjar séu líkurnar á að hitabreytingar þriggja síðustu mánaða ársins séu að meðaltali stærri en -0.05°C (sem samkvæmt ofanskráðu tryggir árinu amk. 4 sætið). Svarið við því reynist 79 – 83% líkur.
Niðurstaða þessarar leikfimi er því sú að um fjórðungs líkur eru á að árið verði það hlýjasta, það eru um helmings líkur á að það verði í 1. – 2. sæti og um 4/5 líkur á að það verði í 1. – 4. sæti.
Hér þarf auðvitað að setja allskyns fyrirvara.
Í fyrsta lagi þá eru hér notaðar breytingar milli tveggja samliggjandi mánaða. Ef hitabreytingar tvo eða þrjá mánuði fram í tímann hafa aðra dreifingu, gefur þetta ranga niðurstöðu. Í raun ætti að notast við eins, tveggja og þriggja mánaða breytingu (eins fyrir sept til okt, tveggja fyrir sept til nóv, og þriggja fyrir sept til des). Því er auðveldlega kippt í liðinn með því að reikna breytingar fyrir mismunandi seinkun:
for (i in c(1:1000)) {
Test[i]= mean(c(sample(breytingar1,1),
sample(breytingar2,1),
sample(breytingar3,1))) }
Þetta breytir niðurstöðunum merkilega lítið. Líkurnar á 1. sæti aukast lítillega (um 3 – 4%) aðrar tölur hreyfast ekki mikið.
Í öðru lagi tekur tilraunin hér að ofan ónægt tillit til sjálfylgni í hitabreytingum milli mánaða. Hægt er að gera álíka tilraun og hér að ofan, nema í stað þess að velja þrjú gildi af handahófi er valinn einn mánuður af handahófi, og meðaltal tekið af hitabreytingu þess og næstu tveggja mánaða. Ókosturinn við þessa aðferð er að ekki er hægt að gera tilraunina 1000 sinnum eins og hér að framan, því á 30 ára tímabili eru einungis 356 mismunandi tímabil 3 samliggjandi mánaða, og einungis um 119 tímabil sem skerast ekki. Fyrir vikið verður meira flökt á niðurstöðum.
Test=rep(0,100)
N=length(breytingar) – 3
for (i in c(1:100)) {
pos=sample(c(1:N),1)
Test[i]=mean(c(breytingar1[pos],breytingar2[pos],breytingar3[pos])) }
Þessar tilraunir hækka líkurnar á fyrsta sæti aftur lítillega upp í 30%. Líkurnar á því að árið verði í efstu fjórum sætum lækka lítillega og verða 75%. Líkur á 1. – 2. sæti breytast lítið.
Í þriðja lagi má gagnrýna tilraunina á þeim forsendum að hér séu notuð meðalhitafrávik án þess að leiðrétt sé fyrir hlýnun jarðar, þ.e. hlýnun sé innbyggð í tilraunina. Þetta er auðvelt að laga með því að gera tilraunina fyrir frávik frá línulegri aðfellu að gögnunum. Tilraunir með slík frávik sýna að líkindin lækka lítillega (um 2 – 3%) en ekki nægilega til að kollfella niðurstöðuna hér að framan.
Loks má einskorða útreikningana við La Nina tímabil, en slíkt breytir niðurstöðum ekki verulega.
Öll þessi leikfimi skilar okkur þeirri niðurstöðu að það er ekki óhugsandi að árið verði það hlýjasta (rúmlega fjórðungs líkur), það eru um helmingslíkur að það verði í 1. – 2. sæti og verulegar líkur (7/10) á að það verði meðal efstu fjögurra sæta. Það má deila um hvort gagn sé af þessari vitneskju, en það er önnur saga.
Endurbirting – Loftslag.is gengur í gegnum smávægilega uppfærslu þessa dagana, þannig að gott er að geta gripið í gamalt efni, njótið vel.
Á næstu árum munu, ef áform ganga eftir, rafmagnsbílar (og einnig bílar með aðra orkugjafa) hefja innreið sína á bílamarkaðinn. Það er þó ýmislegt sem þarf að huga að í því sambandi. Það má kannski komast þannig að orði, að það þurfi að verða breyting á hugarfari varðandi notkun og áfyllingu orku á bílana.
Við vitum flest hvernig þeir bílar sem er núna á markaðnum virka (í grófum dráttum). Við erum nánast fædd með upplýsingar um það hvernig bensínstöðvar virka og hvar þær eru staðsettar. Í gegnum árin hefur þróunin einnig verið á þann veg að við sjáum að miklu leiti um að dæla á bílinn sjálf og við lærum að það þarf þrennt til að bíllinn gangi, þ.e. súrefni, neisti og eldsneyti. En hv ernig ætli rafmagnsbílar virki…? Ja, ekki er beint hugmyndin að svara því hérna, en skoða aðeins hvaða áskoranir þarf að skoða við umbyltingu á bílaflota, eins og væntanleg innleiðing rafbíla getur orðið. Það virðist t.d. vera ákveðin hræðsla við að hleðslan klárist í miðjum bíltúrnum. Þannig að staðsetning orkustöðva og hversu langan tíma hleðsla tekur er mikilvæg svo og hversu langt bílarnir komast á hleðslu. Það mun væntanlega taka lengri tíma að hlaða bíla, en að fylla bensín á tankinn, þar af leiðandi er mikilvægt að finna neyslumynstrið, svo innleiðingin verði auðveldari.
Nissan Leaf
Í nýrri rannsókn sem gerð verður í Bandaríkjunum og byrjar núna í sumar, á að fylgjast með 4.700 notendum rafmagnsbíla í 11 borgum staðsettum í 5 ríkjum. Bílarnir eru allir af gerðinni Nissan Leaf. Notendur bílanna hafa samþykkt að gefa upplýsingar um notkun á bílunum, hvernig hleðslu á bílunum er háttað og hvar, svo og aðrar upplýsingar tengda notkun bílanna. Þáttakendum er skipt í hópa og fá mismunandi upplýsingar, sumir fá ýtarlegar leiðbeiningar um hvernig best sé að hlaða og á hvaða tímum, aðrir fá litlar upplýsingar. Svo er skoðað hver munurinn er á milli hópanna. Og reynt verður m.a. að fá svar við því, hvort það verði einhver marktækur munur á því hvernig hóparnir haga notkun sinni?
Það er t.d. munur á því hvort að bílarnir eru hlaðnir á nóttu eða degi. Ef flestir velja að hlaða bílana á daginn, þá þyrfti að koma til aukin fjárfesting og bygging fleiri raforkuvera, til að anna eftirspurninni, en ef flestir hlaða á nóttunni, þá eru meiri möguleikar á því að raforkunetið anni eftirspurninni án fleiri raforkuvera og þar með minni losun CO2 en ella. Þetta er eitt af því sem vonast er til að hægt verði að kortleggja í rannsókninni og einnig hvort hægt er að hvetja notendur til að nýta frekar næturnar t.d. með upplýsingagjöf og/eða mismunandi á verði. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari rannsókn og hvernig þróunin verður í framtíðinni, en gera má ráð fyrir því að þróunin verði í áttina að bílum og samgöngutækjum sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti í framtíðinni.
Nýlega kom út grein (Turney og Jones 2010) um rannsókn á setlögum sem varðveita smáatriði frá síðasta hlýskeiði ísaldar (fyrir um 130–116 þúsund árum). Rannsóknin bendir til þess að tveggja gráðu hækkun hitastigs frá því fyrir iðnbyltingu geti haft óæskilegar afleiðingar.
Við rannsóknina, þar sem skoðaðar voru setlagamyndanir frá síðasta hlýskeiði ísaldar, þá tókst höfundum að endurgera hnattrænan hitaferil á síðasta hlýskeiði ísaldar. Til að bera hann saman við aðstæður í dag, þá drógu þeir meðalhitastig frá 1961-1990 frá þeim ferli.
Tveggja gráðu markið. Efri myndin sýnir útblástur CO2 með takmörkunum á útblæstri (blátt) og án takmarkana (rautt). Þar neðan við er líkan sem sýnir hvaða áhrif þessar tvær sviðsmyndir myndu mögulega hafa á hitastig jarðar (mynd af ScienceDayly.com).
Niðurstaðan sýnir að hitastigið virðist hafa verið meira en 5°C hærra á hærri breiddargráðum, á meðan hitastig hitabeltisins jókst lítillega – sem er mjög svipað og núverandi leitni hitastigs stefnir í. Að auki, þegar skoðað er hnattrænt hitastig hlýskeiðisins, þá var Jörðin um 1,9 °C heitari – samanborið við hitastig fyrir iðnbyltinguna. Þetta hitastig er talið hafa hækkað sjávarstöðu í um 6,6-9,4 m hærri sjávarstöðu en er í dag. Hraði þessarar hækkunar sjávarstöðu er samkvæmt þessari rannsókn talin hafa verið um tvöfalt hraðari en fyrri rannsóknir hafa bent til (Kopp o.fl. 2009).
Ástæður þessarar hlýnunar er í grunninn vegna breytinga í sporbaug Jarðar og meiri sólgeislunar á norðurhveli Jarðar yfir sumartíman en er í dag. Sú staða virðist hafa valdið magnandi svörun sem keyrði hitastig Jarðar upp í fyrrnefnt ástand. Aukið hitastig virðist hafa breytt samspili hafstrauma í Indlandshafi og Atlantshafi, sem hafi aukið á kraft hita/seltu hringrásar sjávar og þar með magnað upp hlýnunina.
Þetta háa hitastig sem sást á síðasta hlýskeiði ísaldar er sambærilegt við það sem talið er að geti orðið við lok þessarar aldar, við sviðsmynd sem gerir ráð fyrir minnkandi losun CO2 út öldina. Samkvæmt þessu þá er ljóst að taka verður tillit til þess í samningaviðræðum þjóða heims – en hingað til hefur talan 2°C hækkun hnattræns hita (frá því fyrir iðnbyltingu) oft verið nefnd sem ásættanlegt markmið og reynt hefur verið að semja um minnkandi losun CO2 til að fara ekki yfir það markmið.
Ég skellti mér á heimildarmyndina Hverfult haf (e. A Sea Change) í Hafnarhúsinu í gærkvöldi. Hverfult haf er sýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF og er hluti af þeim kvikmyndum sem eru í flokknum Nýr heimur, sjá nánar hér. Ekki veit ég hvernig aðrir bíógestir þekktu til súrnunar sjávar fyrir sýninguna, en ég hef allavega grunnþekkingu á því vandamáli og var búinn að hlakka lengi til að sjá þessa mynd, fróðlegt væri að heyra frá öðrum sem sáu eða eiga eftir að sjá myndina um þeirra upplifun.
Það sem mér fannst merkilegast við myndina, var þessi óbilandi áhugi Sven Huseby á vandamálinu súrnun sjávar og hugsanlegar afleiðingar þess í framtíðinni. Hann fléttar afastráknum sínum inn í söguna sem fulltrúi framtíðarinnar og skrifar póstkort og bréf til hans á meðan hann ferðast um heiminn og kynnir sér efnið nánar og myndar það einskonar ramma um efnið. Þannig er að sjálfsögðu reynt að ná til tilfinninga áhorfandans, en það þarf þó alls ekki að vera neikvætt. Það sem myndin skyldi eftir sig hjá mér var að súrnun sjávar er vandamál sem er nýlega komið á kortið hjá vísindamönnum og óvissa varðandi afleiðingarnar af því er mikil enn sem komið er. En það bendir þó sitthvað til þess að áhrif súrnunar sjávar geti orðið veruleg á afkomu sjávarlífvera, þar sem skeljar sumra sjávarlífvera sem mynda grunn vistkerfanna eru viðkvæmar fyrir súrnun sjávar. Þær lífverur sem eru í neðstu þrepum fæðukeðjunnar eru mikilvægar fyrir efri þrepin og þ.a.l. er óvissa varðandi verri afkomu þeirra og áhrif á vistkerfin í heild nokkur.
Ég fór á myndina í Hafnarhúsinu, það hús er í sjálfu sér ekki gert til bíósýninga og fannst mér á stundum erfitt að fylgjast með töluðu máli (myndin er á ensku og ótextuð). Ég geri fastlega ráð fyrir að skilyrði varðandi hljóðið verði betri á þeim sýningum sem verða í Bíó Paradís og Háskólabíói, þar sem það er í bíósölum sem eru gerðir til bíósýninga, hugsanlega með betri sætum líka.
Ekki ætla ég að gefa stjörnur, en ég mæli með myndinni fyrir alla, enda er súrnun sjávar eitthvað sem að við þurfum að spá í á Íslandi þar sem við erum fiskveiðiþjóð og lifum þ.a.l. á afurðum sjávar. Þrjár síðustu sýningarnar verða sem hér segir:
Reykjavík International Film Festival (RIFF) hófst í gærkvöldi með pompi og prakt. Af heimasíðu RIFF kemur eftirfarandi fram um hátíðina í ár:
Á hátíðinni í ár verða um 140 kvikmyndir sýndar, og koma þær myndir frá 29 löndum. Alls verður um u.þ.b. 350 kvikmyndasýningar að ræða á þeim 11 dögum sem hátíðin fer fram. Þá verða fimm málþing haldin í tengslum við hátíðina, sjö masterklassar og umræður, fernir tónleikar og átján sérviðburðir af ýmsu tagi.
Myndunum er skipt niður í 14 mismunandi flokka, en þar ber keppnisflokkinn Vitranir hæst. Þar keppa 12 myndir um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllta lundann. Einn flokkur á hátíðinni er nýr af nálinni, en sá nefnist Betri heimur og í honum eru sýndar myndir sem fjalla um mannréttindamál með einum eða öðrum hætti.
Við í ritstjórn höfum sérstakan áhuga á einum flokki á hátíðinni sem nefnist Nýr heimur (e. World Changes). Það er mikil gróska í kvikmyndum sem fjalla um umhverfismál á einhvern hátt. En núna er þriðja árið í röð sem RIFF veitir þessum flokki sérstaka athygli og munu verða veitt verðlaun fyrir bestu myndina í flokknum. Ein kvikmynd í þessum flokki er okkur í ritstjórn ofarlega í huga og nefnist hún Hverfult haf (e. A Sea Change) og fjallar um súrnun sjávar. Í dagskránni sem nálgast má á heimasíðu RIFF (þessi flokkur er á bls. 54-56) má lesa eftirfarandi um myndina:
Ímyndið ykkur veröld án fiska. A Sea Change er fyrsta heimildarmyndin sem gerð er um hækkun sýrustigs hafsins, sem kalla má hina hliðina á hnattrænni hlýnun. Í myndinni ferðast Sven Huseby um heiminn og leitar svara við því hvernig megi hægja á eða stöðva þessa ógn. Þess á milli heimsækir hann barnabarn sem erfir höf framtíðarinnar.
Hér undir má sjá stutt myndbrot úr myndinni.
Myndin verður sýnd í fjögur skipti á eftirtöldum tímum og stöðum:
Aðrar myndir í flokknum Nýr heimur, eru Borgin yfir hafinu (e. Oil Rocks – City Above the Sea), Blóð rósarinnar (e. The Blood of the Rose), Plasthöf (e. The Mermaid’s Tears: Oceans of Plastic), Verndarar Jarðar (Earth Keepers) og Vindar sandsins, konur grjótsins (e. Winds of Sand, Women of Rock). Nánari upplýsingar um sýningartíma og annað á heimasíðu RIFF, dagskráin síður 54-56. Nálgast má miða á hátíðina í Eymundsson ásamt á sýningarstöðum.
Við sögðum stuttlega frá því hér að tveir leiðangrar væru að reyna siglingu um bæði Norðvestur- og Norðausturleiðina á sama sumri. Þetta voru norskur leiðangur á Borge Ousland og svo rússneskur leiðangur á snekkjunni Peter I. Það er skemmst frá því að segja að ferðalaginu lauk núna þriðjudaginn 21. september. Er þetta í fyrsta skipti sem einhverjum tekst að sigla báðar leiðirnar sama sumarið.
Í færslu á heimasíðu áhafnar Borge Ousland, kemur eftirfarandi fram:
Today, on the 21st of September, we enter Lancaster Sound and reach the 74th parallel, considered by most as the exit (or entrance) to the Northwest Passage. We are proud of being the first sailing vessel, together with “Peter 1st”, that ever has sailed through both the Northeast and Northwest Passage in one short Arctic summer.
[…]
It is, unfortunately, the dramatic changes in Arctic sea ice conditions in recent years that have made this trip possible. On the time of Roald Amundsen it took five to six years to complete the same distance, due to the extremely difficult and demanding ice conditions. Now we have proven that it is possible to make the voyage in a 31-foot fibreglass sailing boat, equipped with a 10 horsepower outboard motor for emergencies. This shows how dramatic and how fast these changes are happening. The changes that we are witnessing will influence climate on a global scale, in addition to the whole range of animal life in the Arctic – especially seals and polar bears, whose lives are dependent on the sea ice.
Nánar er hægt að lesa um þetta á heimasíðu Borge Ousland. Það má fastlega gera ráð fyrir því að með áframhaldandi bráðnun hafíss á Norðurskautinu gerist þetta oftar í framtíðinni.
Áhugavert myndband úr TED-fyrirlestrarröðinni, þar sem Rob Dunbar skoðar m.a. loftslagið 12.000 ár aftur í tímann. Hann finnur m.a. vísbendingar á fornum sjávarbotnum og kórulum. Störf hans eru mikilvægur grunnur varðandi loftslagsfræði okkar tíma og einnig að frekari vitneskju varðandi það sem er enn ógnvænlegra í hans huga, sem er hin aukna og yfirvofandi súrnun sjávar, með allt sem henni getur hugsanlega fylgt. Súrnun sjávar er eitthvað sem að við Íslendingar ættum að hugsa um, enda er vistkerfi sjávar mikilvægt fyrir okkur og atvinnuvegi landsins.
Í tilefni nýrra frétta af skýrslu um endurskipulagningu starfa Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), þá viljum við endurbirta færslu af loftslag.is síðan í janúarmánuði. Við munum ræða skýrsluna um endurskipulagningu IPCC fljótlega, en það virðist vera margt gott í þeirri skýrslu sem mun væntanlega styrkja störf IPCC í framtíðinni. Loftslagsnefndin hefur starfað í um 22 ár, án mikilla breytinga á stjórn og skipulagi og er því barn síns tíma. Það má kannski segja að hvatinn að þessum hugsanlegu breytingum hafi verið sú gagnrýni sem kom fram m.a. varðandi villuna um jökla Himalaya, en það er þó ljóst í mínum huga að þessar breytingar hafi í raun verið óhjákvæmilegar óháð þessari villu. Öll fyrirtæki og stofnanir fara í gegnum skipulagsbreytingar þegar fram líða stundir, þannig að það er svo sem ekkert nýtt í því. Vísindin á bak við fræðin eru nú sem fyrr traust, hvað sem verður um Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna í framtíðinni eða hvaða skipulag sem þar er. Það má lesa aðeins nánar um þessa skipulagsbreytingu á vef New Scientist, en þar kemur m.a. fram:
Shapiro told reporters: “An organisation like the IPCC needs to have its leadership constantly changed” to maintain its “overall virility”. He said that the suggested changes “were not motivated by or connected with Dr Pachauri or any other leader”.
Þannig að ekki er hægt að túlka það sem svo að væntanlegar breytingar séu til höfuðs Dr. Pachauri, heldur hluti eðlilegrar þróunnar.
En til að koma sér að efninu, þá er hér undir endurbirting færslu síðan í janúar.
…
Álitshnekkir IPCC
Trúverðugleiki loftslagsvísindanna og þá sérstaklega IPCC varð fyrir álitshnekki þegar fram kom villa í 4. matsskýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Villan er tiltölulega mikilvæg og er sú að í skýrslunni er sagt að það sé líklegt (sem merkir 66-90% líkur) að jöklar Himalaya muni minnka úr 500.000 í 100.000 ferkílómetra fyrir árið 2035. Einnig er nefndur möguleikinn á því að þeir verði horfnir fyrir 2035. (IPCC, vinnuhópur II, 2007).
Samkvæmt fréttum, þá er villan upphaflega komin úr grein New Scientist frá 1999, sem byggð var á stuttu tölvupóstsviðtali við þekktan Indverskan jöklafræðing (Syed Hasnian) sem sagði að miðað við þáverandi bráðnun þá myndu jöklar í Mið- og Austur Himalaya hverfa fyrir árið 2035. Svo virðist sem WWF (World Wide Fund for Nature) hafi síðar skrifað skýrslu – þar sem þessum ummælum var haldið á lofti, en þar segir:
The prediction that “glaciers in the region will vanish within 40 years as a result of global warming” and that the flow of Himalayan rivers will “eventually diminish, resulting in widespread water shortages” (New Scientist 1999; 1999, 2003) is equally disturbing
Sem lauslega þýðist: Sú spá að “jöklar á svæðinu muni hverfa innan 40 ára vegna hlýnunar jarðar” og að fljót sem renna frá Himalaya muni “að lokum verða hverfandi, svo það verður viðamikill vatnsskortur” (New Scientist 1999; 1999, 2003) er truflandi.
IPCC vísaði í þessa skýrslu WWF (sem ekki var ritrýnd), en í IPCC segir meðal annars:
Glaciers in the Himalaya are receding faster than in any other part of the world (see Table 10.9) and, if the present rate continues, the likelihood of them disappearing by the year 2035 and perhaps sooner is very high if the Earth keeps warming at the current rate. Its total area will likely shrink from the present 500,000 to 100,000 km2 by the year 2035 (WWF, 2005).
Sem lauslega þýðist: Jöklar Himalaya eru að hopa hraðar en jöklar annarsstaðar í heiminum og ef núverandi hraði bráðnunar helst þá eru miklar líkur á að þeir verði horfnir fyrir 2035 eða jafnvel fyrr ef jörðin heldur áfram að hlýna á núverandi hraða. Heildar flatarmál þeirra mun líklega minnka frá núverandi 500.000 km2 og að 100.000 km2 árið 2035 (WWF, 2005).
En staðreyndin er sú að engar rannsóknir birtar í ritrýndum greinum staðfesta þessa setningu. Því miður þá hefur verið vitnað í þessa skýrslu í öðrum vísindagögnum og því hefur villan dreifst víðar.
Röð mistaka
En hvað sýnir þetta atvik okkur?
Hér hafa greinilega orðið röð mistaka:
Fyrstu mistökin hljóta að liggja hjá Indverska vísindamanninum – en þau eru ekki alvarleg, hverjum sem er hlýtur að vera leyfilegt að koma með svona fullyrðingar í viðtali við New Scientist (sem er vísindarit fyrir almenning) og það er þeirra að meta hvort það sé birtingarhæft. Nema vísindamaðurinn hafi síðan fylgst með þróun mála og séð hvernig orð hans hafa hlotið meira og meira vægi – og ekki gert neitt í málinu.
Næstu mistökin eru stærri, en það að WWF notaði orð í tímaritsgrein New Scientist í skýrslu sinni. WWF skýrslan er þó augljóslega ekki ritrýnd, auk þess sem það virðist vera sem að þar sé meira verið að velta vöngum yfir þessum orðum frekar en að taka þau sem vísindalegar staðreyndir. Það er þó greinilegt að WWF gerði mistök, sem hefðu átt að koma fram í ferlinu þegar skýrslan var undirbúin til birtingar. Höfundar sem fóru yfir skýrsluna eftir á hefðu átt að skoða frumgögnin og hefðu átt að sjá villuna – en skýrslan er ekki ritrýnd, þannig að þar liggja ekki stærstu mistökin.
Stærstu misstökin hljóta að liggja hjá IPCC. Setningin sem skýrsla IPCC notaði er augljóslega ekki byggð á neinum ábyggilegum gögnum og það hefði ritrýningakerfi IPCC átt að sjá. Þar sem skýrsla WWF er ekki ritrýnd, þá hefðu þeir átt að skoða heimildir WWF en ekki taka það hrátt upp sem að stóð í þeirri skýrslu – þótt mögulega hafi menn það á tilfinningunni að mögulegt sé að stór hluti jökla Himalaya sem þekja um 30.000 ferkílómetra geti horfið fyrir árið 2035, þá er það engin afsökun á meðan gögn liggja ekki á baki þeirri fullyrðingu. Ábyrgð IPCC er mikil.
Í fyrstu drögum af 4. matsskýrslu IPCC var notað mun varfærnara orðalag um bráðnun þessara jökla, þar kom t.d. fram “jöklar í háum fjöllum Asíu hafa almennt hopað á breytilegum hraða” og því óljóst hvernig þetta kom allt í einu inn í skýrsluna.
Umbætur og eftirköst
Þetta eru eftirsjáarverð mistök, sem sýna það helst að það er pláss fyrir umbætur á ferli og rýni á skýrslum IPCC. Samkvæmt fréttum fer væntanlega fram einhvers konar rannsókn og endurmat á þessum hluta skýrslunnar – en ekki hefur verið sýnt fram á sambærileg mistök í öðrum hlutum IPCC skýrslanna. Það er reyndar kominn tími á endurmat á öllu sem viðkemur bráðnun jökla – en frá því skýrslurnar komu út hafa hlaðist upp vísbendingar um að bráðnun jökla sé mun hraðari en kemur fram í IPCC skýrslunum, enda hefur það sýnt sig ef skoðuð eru gögn um sjávarstöðubreytingar – að IPCC hefur vanmetið þátt bráðnunar jökla.
Það má samt segja að það sé nokkuð góður árangur fyrir jafn viðamiklar skýrslur og 4. matskýrsla IPCC er, að fyrst núna, næstum þremur árum eftir birtingu hennar hafi fundist áberandi galli í henni þar sem ofmat á afleiðingum hlýnunar jarðar kemur fram. Sérstaklega þar sem vísindamenn hafa aðallega séð galla í henni hvað varðar vanmat á t.d. bráðnun jökla og hafíss.
Það verður þó að rekja það hvernig mistökin urðu og læra af þeim, enda er það ein sterkasta hlið vísindanna að þau leiðrétta sig á einhvern hátt þegar nýjar upplýsingar koma fram. Það hlýtur t.d. að teljast alvarlegt mál að jörðin sé að hitna með þeim afleiðingum að jöklar í Himalaya séu að bráðna hratt, jafnvel þó sú bráðnun taki kannski yfir 100 ár (í stað þessara 30 sem talað er um í skýrslu IPCC).
Þetta mál á væntanlega eftir að gefa efasemdarmönnum byr í seglin, þar sem þeir munu væntanlega taka djúpt í árina og oftúlka merkingu þessa atviks. Jafnvel mun verða reynt að tengja þetta Climategate málinu svokallaða, þar sem ummæli vísindamanna í tölvupóstum voru oftúlkuð og rangtúlkuð í mörgum tilfellum og af ýmsum talin grafa undan sjálfum vísindunum, sem þó er fjarri lagi.
Frétt á visir.is í gær ber merki um það að höfundur hafi sterkar skoðanir á málinu og þar af leiðandi virðist sem hinn málefnalegi grundvöllur fari forgörðum þegar sú frétt er lesin. Þetta virðist stundum vera sá farvegur sem fréttir um loftslagsmál lenda í, jafnvel hjá reyndum fréttamönnum. Það væri virðingarvert ef hægt hefði verið að segja frá villunni og reyna að brjóta upp hvað þetta þýðir, hvaða orsakir upplýsingarnar hafa og hvernig sviðsmyndin breyttist við þessar breyttu upplýsingar.
Jöklar Himalaya
Hver örlög jöklanna í Himalaya verða er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem búa á vatnasvæði Himalaya. Þrátt fyrir mikilvægi jöklanna hefur alþjóðleg stofnun um vöktun jökla, World Glacier Monitoring Service, bent á að of lítið sé gert af mælingum og rannsóknum á jöklum Himalaya, með það fyrir augum að fylgjast með þróun þeirra.
Ljóst er að bráðnun jöklanna í Himalaya er hröð ef marka má þær rannsóknir og mælingar sem gerðar hafa verið. Þó er hluti af umfangi þessara breytinga og hraða þeirra enn sem komið er á huldu, vegna of lítilla mælinga og rannsókna.
Það eru nokkrir mánuðir síðan ég ákvað að gera einhvers konar úttekt á öfgaveðri og hvort einhverjar vísbendingar væru um að það væri að verða hnattræn veðurfarsbreyting. Undanfarna mánuði hafa síðan hrannast upp fréttir af hitabylgjum, úrhellisrigningum og þurrkum víða á Norðurhveli Jarðar – auk kuldakasta á afmörkuðum svæðum á Suðurhveli. Öfgarnir hafa þó verið meiri hvað varðar hitann og hitamet hafa fallið af miklum móð.
Til að þessi færsla verði ekki of löng, þá ákvað ég að fjalla bara um hitabylgjuna í Moskvu og eingöngu í stuttu máli. Í fréttum víða um heim hafa menn ekki komist hjá því að – í minnsta lagi – velta því upp hvort hitabylgjan í Moskvu sé að einhverju leiti tengd hlýnun Jarðar.
Loftslagsvísindamenn eru almennt séð frekar varkárir í yfirlýsingum sínum, þó fjölmiðlar eigi það til að blása slíkt upp. Því heyrir maður oft hjá þeim, að ekki sé hægt að tengja einstaka atburði sem þessa við hnattræna hlýnun, þótt keyrslur loftslagslíkana hafi einmitt bent á að slíkir atburðir verði sterkari við aukið hnattrænt hitastig. Tölfræðilega hefur reynst erfitt að henda reiður á það hvort hér sé um að ræða beina afleiðingu hnattrænnar hlýnunar – til þess er náttúrulegur breytileiki of mikill.
Einn tölfræðingur skoðaði hitabylgjuna í Moskvu, þ.e. hitastig í júlí undanfarin 60 ár eða svo og fékk þessa mynd (sjá Red hot):
Það má ljóst vera að júlí 2010 var töluvert heitari en önnur ár á tímabilinu. Reyndar kom í ljós við þessa tilraun að hitastig fyrir daglegan hita í júlí 2010 er um 3,6 staðalfrávik frá meðaltalinu. Fyrir normaldreifð gildi, þá eru líkurnar á öfgunum í Moskvu um 0,0003 – eða um 1 á móti 3000.
Því má álykta sem svo að hér sé mögulega kominn atburður í safnið sem tölfræðilega má álykta að sé beintengdur hnattrænni hlýnun. Það má þó búast við því að loftslagsvísindamenn og tölfræðingar eigi eftir að rýna betur í gögn sumarsins þegar líður nær vetri, en margt bendir til þess að hlýnun Jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda, lítil virkni sólar (og þar með breytingar í vindakerfum) og ENSO Kyrrahafssveiflan hafi allt átt sinn þátt í þessum veðuröfgum.
Líklegt má telja að veðuröfgar þessa árs séu eitthvað sem búast má við að aukist á næstu áratugum og öldum (sjá tengla hér fyrir neðan).