Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Earth 101

    Earth 101

    earth101Við á loftslag.is viljum vekja athygli á góðu og fróðlegu verkefni sem Guðni Elísson hefur haft yfirumsjón með, en það kallast Earth 101. Fyrir rúmu ári síðan blés hann til málstofu þar sem hann fékk nokkra af fremstu loftslagsvísindamönnum heims í heimsókn og kvikmyndagerðamenn sem hafa verið að skrásetja afleiðingar loftslagsbreytinga, ásamt því að fjalla um hugsanlegar lausnir á vandanum.

    Á heimasíðu verkefnisins má meðal annars horfa á helstu atriði málstofunnar sem var í fyrra, mjög áhugaverðir fyrirlestrar.

    Við höfum heyrt af því að verkefnið sé enn í gangi og að búið sé að festa áhugaverða fyrirlesara, en nánar um það síðar.

    Earth 101

    .
    Tengt efni á loftslag.is

    Michael Mann á Íslandi

  • Enn af afneitun – þáttur Sölva Jónssonar

    Enn af afneitun – þáttur Sölva Jónssonar

    Nýlega skrifaði Sölvi Jónsson grein á visir.is, sem hann nefnir “Um loftslagsbreytingar“, þar sem hann fer í gegnum stöðuna í loftslagsmálunum út frá sínu persónulega sjónarhorni. Hann vísar í heimildalista, þar sem hann virðist nota þekktar afneitunarsíður og rökfræði þá sem þar finnst sem helstu heimildir og efnistök – ég þakka honum fyrir það, þar sem það einfaldar verulega að hrekja skrif hans. Á meðan það eru enn einhverjir sem skrifa á þennan hátt um loftslagsvísindin og vísa í svona einhæfar og óáreiðanlegar heimildir þá er þörf á að svara þeim – þó svo um sé að ræða endurtekið efni, sem oft hefur sést áður í umræðunni.

    japanese_climate_skepticsVið höfum áður skoðað aðferðafræði þeirra sem hafa “efasemdir” um loftslagsvísindi hér á loftslag.is og kannski ágætt að byrja á örlítilli upprifjun áður en grein Sölva er tekin fyrir. Efnistök þeirra sem afneita loftslagsvísindum eru frekar einhæf og aðferðafræðin fyrirséð. Útúrsnúningar á alvöru rannsóknum eru t.a.m. stundum notaðar sem rökfærslur – þar sem að t.d. einstakir þættir eru teknir úr samhengi og reynt að spinna út frá þeim. Stundum eru rannsóknir sem ekki fjalla um loftslagsbreytingar einnig yfirfærðar á þau fræði, með eftirfarandi spuna og útúrsnúningum (Sölvi gerir þetta hvoru tveggja óbeint,  t.d. með því að vísa í afneitunarsíður sem heimildir). Endurteknar rökvillur eru líka algengar í umræðunni og það er líka meðal þess sem Sölvi gerist sekur um.

    Það virðist vera algeng aðferðafræði þeirra sem afneita loftslagsvísindum, að beita nokkrum vel þekktum aðferðum sem er hægt að lesa nánar um á loftslag.is. Til að mynda er að finna eftirfarandi fróðleik í færslu sem nefnist “Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun”, sem er um nálgun þeirra sem afneita vísindum, þar sem þetta er orðað á eftirfarandi hátt:

    Það má vel færa rök fyrir því að efasemdarmenn nái ekki nógu vel að skilgreina þá sem hafa þá nálgun við vísindin sem eru útskýrð hér að ofan, þar sem nýjar röksemdir og mótsagnir virðast ráð ferðinni eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

    1. Samsæriskenningar
    2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
    3. Fals sérfræðingar
    4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
    5. Almennar rökleysur

    Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem þegar er búið að hrekja og eftir þessar pælingar hér að ofan, þá líka 7. liðnum sem eru mótsagnirnar. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð.

    Þessi aðferðafræði virðist vera kjarninn í “rökfærslu” Sölva, það sem hann endurnýtir margar gamlar mýtur og vísar í þekktar afneitunarsíður (fals sérfræðinga) máli sínu til stuðnings, ásamt almennum rökleysum. En nú er ráð að greina grein Sölva. Það má skipta efnistökum hans í nokkra þætti og munum við skoða það í svipaðir röð og hann nefnir það í grein sinni – það er ágætt að hafa aðferðafræðina hér að ofan í huga við lesturinn þar sem efnistök hans falla nánast að flestu leiti inn í flokkunina sem nefnd er.

    Sölvi leggur út með að ræða um að ísinn á Suðurpólnum hafi ekki mælst meiri í 30 ár – sem er rétt ef hann er að ræða um hafísinn (dáldið villandi hjá honum að nefna ekki að hann sé að ræða hafísinn, ef það er tilfellið). Ísinn á íshvelinu á Suðurskautinu er að minnka, enda bráðna jöklar þar eins og á mörgum öðrum stöðum á Jörðinni í hlýnandi heimi. Hafísinn á Suðurskautinu aftur á móti er að aukast, sem getur átt sér ýmsar útskýringar og er þekkt staðreynd og engin sem mótmælir því. Það hafa verið nefndar einhverjar útskýringar á aukinni útbreiðslu hafíss þar, m.a. hefur breytt selta í sjónum (vegna bráðnunar jökulhvelfsins) verið nefnt ásamt breytingum í vindakerfum, svo einhverjar líklegar útskýringar séu dregnar fram. Þetta virðist gerast þrátt fyrir hlýnun, en þetta afsannar í sjálfu sér ekki eðlisfræðina á bak við hlýnun af völdum aukina gróðurhúsaáhrifa af manna völdum. Svo nefnir hann norðurskautið og virðist telja að sveiflur (sem hafa alltaf átt sér stað – líka þegar augljós bráðnun á sér stað) í hafísútbreiðslu á milli ára afsanni þá staðreynd að bráðnun sé í gangi. Svo klikkir hann út með að vísindamenn hafi spáð því fyrir 6 árum að hafís “myndi vera orðin íslaus með öllu sumarið 2013” – heimildin fyrir þessu er grein úr DailyMail eftir þekktan afneitunarsinna að nafni David Rose. Reyndar segir í grein David Rose að “the BBC reported that the Arctic would be ice-free in summer by 2013, citing a scientist in the US who claimed this was a ‘conservative’ forecast.” – sem virðist ekki vera alveg í takt við fullyrðingu Sölva um að “vísindamenn” hafi spáð þessu og reyndar er heldur ekki hægt að finna heimild David Rose fyrir þessari fullyrðingu í grein hans, eða hvaða vísindamann er átt við.

    Hið næsta sem hann ræðst á er stærð ísbjarnarstofnins. Hann telur að ísbirnir hafi verið um 5-10 þúsund á “fimmta og sjötta áratugnum” og svo fullyrðir hann að ísbirnir hafi lifað af tímabil þar sem ísinn á norðurhveli jarðar hafi horfið með öllu. Saga ísbjarna er ca. 110 – 130 þúsund ár og þetta er fullyrðing sem erfitt er að standa við og heimild Sölva fyrir þessu virðist vera skoðun Amrutha Gayathri sem hún birtir á skoðanasíðum International Business Time (það voru nú öll “vísindin” hjá honum). Þess má geta að tala ísbjarna áður en til friðunar kom (s.s. á fimmta og sjötta áratugnum) er nokkuð á huldu, en gæti hafa verið yfir 20 þúsund (sjá Hvað er vitað um ísbirni?). En eftir að þeir voru friðaðir þá fjölgaði þeim eitthvað. Samkvæmt núverandi mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana).

    Sölvi lætur ekki hér við sitja, næst er það fullyrðing um að vísindamenn hafi gert ráð fyrir einhverri ákveðinni hlýnun sem hann endar með að færa rök á móti af því að það hafi farið kólnandi á síðustu árum (reyndar bara staðbundið, samkvæmt hans persónulega áliti). Fullyrðingin er að “[s]pár vísindamanna IPCC” hafi gert ráð fyrir 0,25°C hækkun hitastigs á áratug. Allar náttúrulegar sveiflur (til að mynda á milli ára) virðast í huga hans afsanna þessa spá sem hann fullyrðir að vísindamenn IPCC hafi gert. Þess má geta að vísindamenn er afskaplega varfærnir í spám og gera ráð fyrir allskyns náttúrulegum sveiflum sem geta haft áhrif til skemmri tíma. Svo er það spurningin hvað hægt er að segja um sérval hans á gögnum, þar sem hann velur ákveðið eitt ár (eins og t.d. 1998) og gera það að einhverju viðmiði sem um það sem kom á undan og eftir. Sérval gagna eins og ársins 1998 er mjög algeng rökvilla afneitunarsinna, sjá t.d. graf hér undir:


    Næst er það þáttur hinnar óviðjafnanlegu Oregon Petition, þar sem Sölvi segir að “meira en 30 þúsund vísindamenn [hafi] sett nafn sitt undir yfirlýsingu þar sem kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er hafnað” – ætla nú ekki að hafa mörg orð um það, en eftirfarandi myndband lýsir þessu ágætlega, þarna er þetta m.a. orðað sem svo:

    Hann skoðar meðal annars hina alræmdu Oregon Petition, þar sem talað er um undirskriftir 32.000 vísindamanna. Eru allir vísindamenn á þeim lista og þá við hvaða fræðigreinar? Myndir þú leita til veðurfræðings vegna húðvandamáls? (sjá Ósérhæfðir sérfræðingar).

    Fyrir þá sem ekki vita, þá er þessi alræmda oregon petition ekki nokkurs virði í vísindalegu samhengi, hvað þá annað, nánar á SkepticalScience síðunni – Over 31,000 scientists signed the OISM Petition Project – þar sem þetta er m.a. orðað á eftirfarandi hátt:

    “The 30,000 scientists and science graduates listed on the OISM petition represent a tiny fraction (0.3%) of all science graduates. More importantly, the OISM list only contains 39 scientists who specialise in climate science.”

    Þegar hér er komið við sögu þá kemur að þætti Al Gore hjá Sölva (Al Gore virðist vera í miklu uppáhaldi hjá ýmsum afneitunarsinnum). Hann virðist líta svo á að ef það má finna einhverjar villur í mynd Al Gore “An Inconvenient Truth” þá hljóti það að afsanna loftslagsvísindin í heild sinni. En höfum það á hreinu að Al Gore er ekki vísindamaður, hann er stjórnmálamaður. Ekki það að stjórnmálamenn geti ekki haft rétt fyrir sér um þessi mál svo sem önnur (það er ekki hægt að útiloka það), eins og við flest (þeir eru væntanlega misjafnir eins og fólk er flest). Margir afneitunarsinnar virðast þó laðast að Al Gore og telja að hann sé talsmaður vísinda og jafnvel vísindamaður (sem hann er ekki). Almennt, þá gefur mynd Al Gore nokkuð rétta mynd af því hvað vísindin segja, þó að það hafi slæðst einhverjar villur inn, en það er svo sem ekkert sem haggar sjálfum vísindunum í sjálfu sér. Á SkepticalScience hefur þetta verið skoðað lítillega, sjá t.d. Is Al Gore’s An Inconvenient Truth accurate? – þar sem eftirfarandi kemur fram:

    While there are minor errors in An Inconvenient Truth, the main truths presented – evidence to show mankind is causing global warming and its various impacts is consistent with peer reviewed science.

    Í raun er Al Gore bara hluti af umræðumenginu – svona svipað og ég er hluti af því. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að vísindin myndu breytast mikið þó að ég myndi halda fram einhverri vitleysu eða gera villu einhvers staðar í umræðunni – enda eru loftslagsvísindin byggð á tugþúsundum rannsókna sem gerðar eru með vísindalegum aðferðum (sem stundum uppfærast við nýjar upplýsingar – eins og gengur og gerist), hvorki ég né Al Gore getum breytt því, en okkar viðhorf eru þó í samræmi við almenna niðurstöðu vísindanna um þessi mál. Í þessari málsgrein heldur Sölvi einnig fram endurteknum ruglingi afneitunarsinna um að þar sem að CO2 styrkur hefur hækkað eftir að hitastig byrjar að hækka, á SkepticalScience (sjá CO2 lags temperature – what does it mean?) orða þeir þetta sem svo:

    When the Earth comes out of an ice age, the warming is not initiated by CO2 but by changes in the Earth’s orbit. The warming causes the oceans to release CO2. The CO2amplifies the warming and mixes through the atmosphere, spreading warming throughout the planet. So CO2 causes warming AND rising temperature causes CO2rise.  Overall, about 90% of the global warming occurs after the CO2 increase.

    Áður en Sölvi fer í niðurlag greinar sinnar, þá rifjar hann upp nokkrar algengar mýtur sem hafa oft sést í umræðunni hér og eru hér undir tenglar á umfjöllun um þau efni og tengd í nokkrum tenglum – það er of langt mál að fara út í allar villur hans hér í þessari færslu:

    Í niðurlagi greinarinnar nefnir Sölvi þá augljósu staðreynd að hann er ekki sérfræðingur um loftslagsbreytingar og að hann sé ekki að afsanna kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum, en svo heldur hann áfram að spá í lækkun hitastigs og að það hljóti að vera verra en ef hitastig hækkar (sem hann virðist einungis byggja á sinni persónulegu skoðun á málinu). Sölvi ræðir svo um sjálfan sig sem einlægan umhverfisverndarsinna – hann virðist bara ekki vilja taka mark á vísindamönnum sem vinna við ákveðið svið vísinda (sem er synd fyrir hann).

    Fróðlegt þykir mér reyndar að sjá að hann endar með því að segjast ekki vilja láta “skattleggja [sig] og komandi kynslóðir vegna koltvísýringslosunar á fölskum forsendum” – þarna liggur hundurinn sjálfsagt grafinn, þetta virðist snúast um pólitíska sýn á skattamálum, sem virðist stundum þurfa að endurspeglast í afneitun loftslagsvísinda hjá ákveðnum hópi – sem er einkennilegt í mínum huga. Fólk getur haft ýmsar skoðanir á skattstigi landsmanna og skiptingu opinbers fjárs, en að afneita vísindum vegna pólitískra og/eða persónulegra skoðana sem stundum virðist endurspeglast í einhverri heimsmynd sem virðist ekki vera samrýmanleg við eðlisfræði gróðurhúsalofttegunda finnst mér undarleg nálgun.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Um eldvirkni og loftslagsbreytingar

    Um eldvirkni og loftslagsbreytingar

    Einn af þeim þáttum sem getur haft áhrif á loftslag jarðar er eldvirkni, en þau áhrif eru aðallega tvenns konar.

    Mynd af gosmekkinum í Pinatubo eldfjallinu, júní 1991.
    Mynd af gosmekkinum í Pinatubo eldfjallinu, júní 1991.

    Annars vegar er um að ræða skammtímaáhrif af völdum aukninga arða (e. aerosols), þá mest brennisteinsdíoxíðs (SO2), í lofthjúpnum en þær geta minnkað inngeislun sólar, sem leiðir til kólnunar. Til að eldvirkni nái að hafa kælandi áhrif þarf margt að spila saman. Eldgosið þarf að vera öflugt, gosmökkur hár og þá skiptir efnasamsetning arðanna miklu máli. Staðsetning á hnettinum hefur líka áhrif, en örðurnar dreifast betur um hnöttinn ef staðsetning eldgossins er nálægt miðbaug jarðar. Mikil eldvirkni í langan tíma hnattrænt, getur haft viðvarandi kólnun í för með sér, en örður hreinsast þó úr lofthjúpnum á nokkrum árum eftir að eldvirkni lýkur.

    Hins vegar er um að ræða langtímaáhrif á jarðfræðilegum skala (áratugamilljónir ára), oft í samspili við breytingar á flekahreyfingum. Við þær breytist styrkur koldíoxíðs (CO2) í lofthjúpnum smám saman, sem veldur annað hvort hægfara hlýnun, ef CO2 styrkur eykst eða hægfara kólnun, ef CO2 styrkur minnkar. Þótt langtímaáhrifin séu áhugaverð og sýni okkur hvernig CO2 hefur verið ráðandi þáttur í loftslagi jarðarinnar í gegnum jarðsöguna, þá skipta þau ekki miklu máli fyrir okkur nútímamenn því magn þess CO2 sem jörðin gefur frá sér við eldvirkni er sáralítið miðað við það magn sem menn losa á ári núorðið. Það tekur mennina um 3-5 daga að losa jafn mikið CO2 út í andrúmsloftið og losnar við eldvirkni að meðaltali á ári (Gerlach 2011).

    Áhrif eldvirkni til skamms tíma

    Stór eldgos geta valdið snöggum breytingum í stuttan tíma og þá til kólnunar (frá nokkrum mánuðum og upp í nokkur ár). Mögnuðustu eldgosin spúa örðum,  þ.e. fíngerðri ösku og brennisteinsríkum lofttegundum (SO2) í miklu magni út í andrúmsloftið, sem dreifir sig síðan um veðrahvolfið (e. troposphere) og stundum alla leið upp í heiðhvolfið (e. stratosphere) en mörkin þar á milli eru í um 10-13 km hæð á miðlægum breiddargráðum. Þar dreifa þær sig sem ský um lofthjúp jarðar á nokkrum vikum. Við það dregur úr inngeislun sólar sem nær yfirborði jarðar og meðalhiti jarðar lækkar.

    Gott dæmi um þannig eldvirkni var sprengigosið í Pinatubo 1991 í Filippseyjum, en eldfjallið gaus 12. júní og gosmökkurinn náði í allt að 20 km hæð. Það framleiddi um 5 rúmkílómetra af dasíti (ísúr-súr gosefni) og 20 milljón tonn af lofttegundinni SO2 (brennisteinsdíoxíði) mesta magn sem mælst hefur. Lofttegundin fór upp í heiðhvolfið og var búin að umlykja hnöttinn á þremur vikum. Við það minnkaði inngeislun sólar um heil 10% á Hawaii og hitastig jarðar er talið hafa lækkað hnattrænt séð um 0,5°C í 2-4 ár vegna þess.

    Mynd sem sýnir greinilega kólnunina tengda eldgosinu í Pinatubo.
    Mynd sem sýnir greinilega kólnunina tengda eldgosinu í Pinatubo.

    Þrennt virðist ráðandi um skammtímaáhrif eldvirkni á loftslag jarðar:

    • Eðli eldgossins. Því öflugra eldgos og því meiri sprengivirkni sem er, því meiri kólnun. Ísúr eða súr gosefni eru talin sérstaklega varhugaverð – en þá eykst sprengivirknin og fínu gosefnin ná hærra upp í lofthjúpinn. Mest áhrif hafa þau ef þau ná í miklu magni upp í heiðhvolfið.
    • Framleiðsla brennisteinsdíoxíðs. Magn þess skiptir miklu máli til kólnunar, en áhrif til kólnunar er mest vegna endurkasts sólarljóss af völdum þess.
    • Staðsetning. Eldgos á hærri breiddargráðum dreifa öskunni og brennisteinsdíoxíðinu ekki eins vel og eldgos staðsett á lægri breiddargráðum. Því þarf gosið að verða því meira til að það hafi áhrif. Við miðbauginn þá dreifast þessi gosefni um mun stærra svæði vegna háloftavinda til suðurs og norðurs og því meira endurkast sólarljóss.

    Við fyrrnefnt eldgos í Mount Pinatubo komu allir þessir þættir saman, sem varð til þess að það kólnaði hnattrænt um sirka hálfa gráðu í 1-2 ár.

    Það eru þó ýmsar undantekningar frá þessari þrískiptu þumalputtareglu. Sem dæmi eru Skaftáreldar (1783-1784) sem mynduðu Lakagíga, en þar er ekki um að ræða mikla sprengivirkni, heldur mikið og öflugt basískt sprungugos. Ekki er heldur hægt að segja að staðsetningin sé nálægt miðbaug eins og við vitum. Hins vegar framleiddu Lakagígar mjög mikið magn af brennisteinsdíoxíð á þeim átta mánuðum sem þeir gusu og olli það ekki eingöngu kólnun á norðurhveli jarðar, heldur fylgdu því einnig eiturský og móða – samanber móðuharðindin (sjá t.d. Highwood og Stevenson 2003).

    Samanburður við aðra þætti loftslags

    En getur minnkandi eldvirkni að einhverju leiti verið völd að þeirri hnattrænu hlýnun sem verið hefur undanfarna öld og áratugi?

    Eins og komið hefur fram, þá getur mikil eldvirkni í langan tíma, haft viðvarandi kólnun í för með sér og því réttmætt að velta þeim fleti upp. Ef skoðaðar eru rannsóknir þar sem metnir eru helstu áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar, þá kemur í ljós að breyting í eldvirkni skýrir alls ekki þá hitaukningu sem orðið hefur síðastliðna öld.

    Mynd 2: Prósentuhluti áhrifaþátta á hnattræna hlýnun síðastliðin 100-150 ár, samkvæmt  Tett o.fl. 2000 (T00, dökk blár), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Stott o.fl. 2010 (S10, grár),  Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár) og svo Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur).
    Mynd sem sýnir prósentuhluta áhrifaþátta á hnattræna hlýnun síðastliðin 100-150 ár, samkvæmt Tett o.fl. 2000 (T00, dökk blár), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Stott o.fl. 2010 (S10, grár), Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár) og svo Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur).

    Hlýnun jarðar undanfarna öld er hvorki hægt að tengja við minkandi eldvirkni, né aukningu á CO2 af völdum eldvirkni. Mannlegi þátturinn er ríkjandi og þá sérstaklega losun manna á CO2 út í andrúmsloftið við bruna jarðefnaeldsneytis. Það er þó ljóst að eldvirkni hefur áhrif á loftslag og geta mikil eldgos með mikilli eldvirkni kælt jörðina tímabundið – hvort slíkt eldgos kemur í dag eða eftir 5 ár er óljóst, en yfirgnæfandi líkur eru þá á því að sú kólnun verði skammvinn.

    Heimildir og ítarefni

    Gerlach 2011: Volcanic Versus Anthropogenic Carbon Dioxide

    Highwood og Stevenson 2003: Atmospheric impact of the 1783–1784 Laki Eruption: Part II Climatic effect of sulphate aerosol Eruption: Part II Climatic effect of sulphate aerosol

    Wikipedia: Mount Pinatubo

    Mjög ítarlega er fjallað um samspil eldvirkni og loftslags á heimasíðu Wunderground.com

    Einnig er áhugaverð umfjöllun um samspil eldvirkni og loftslags á heimasíðu RealClimate

    Aðrar heimildir sem vísað er í:

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslag.is á afmæli í dag

    5 árFyrir fimm árum tók til starfa vefmiðillinn loftslag.is en þá hafði það verið í undirbúningi í nokkrar vikur, fyrsta fréttin var náttúrulega um Opnun loftslag.is. Tilgangur okkar var frá upphafi að fjalla um loftslagsmál frá nokkuð víðu sjónarhorni, þ.e. umfjöllun um orsakir, afleiðingar og lausnir. Þá hefur ýmislegt slæðst með, t.d. umfjöllun um stöðuna á hitastigi og hafísútbreiðslu og fleira. Ekki má gleyma gestapistlunum sem voru svo sannarlega skemmtileg viðbót og mæltist vel fyrir.

    Á þeim tíma sem loftslag.is hefur verið starfandi hafa fjölmargar fréttir, pistlar og umfjallanir litið dagsins ljós. Vissulega hefur uppfærslum fækkað síðustu misserin, bæði vegna tímaleysis en einnig vegna þess að fleiri fjölmiðlar fjalla nú margir hverjir af ábyrgð um loftslagsmál, kannski að hluta til okkur að þakka – hver veit?

    Loftslag.is var og er, að okkar mati, málsvari þeirra sem leggja áherslu á að styðja mál sitt með gögnum og rannsóknum, því höfum við farið hart fram gegn þeim sem halda einhverju fram, loftslagstengdu, sem ekki er hægt að rökstyðja með gögnum eða á annan hátt stenst ekki skoðun. Við höfum tekið þátt umræðum ýmsum stöðum, stundum á afkimum veraldarvefsins sem fáir vita um, en einnig á þekktari frétta- og bloggmiðlum. Í dag erum við sennilega einna virkastir í Facebook hópnum Loftslagsbreytingar – umræða og fréttir, sem er opin hópur sem allir geta gengið í. Svo bendum við líka á ýmislegt tengt loftslagsmálunum á Facebook síðunni Loftslag.is.

    Þó eitthvað af síðum loftslag.is séu mögulega orðnar úreltar og hægt að finna nýjar og uppfærðar upplýsingar víða annars staðar, þá mælum við með að fólk kíki á efni síðunnar. Fyrir utan að fletta í gegnum valmöguleika til hægri og efst, þá er leitargluggi efst á síðunni sem er mjög notadrjúgur.

    Við á loftslag.is þökkum samveruna síðastliðin fimm ár og munum halda áfram að uppfæra síðuna eins og tími og aðstæður leyfa.

     Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsganga, 21. September

    Loftslagsganga, 21. September

    Climate0MarchHinn 23. þessa mánaðar munu leiðtogar heims funda í New York um loftslagsbreytingar. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, er gestgjafi fundarins og markmið hans, og um leið alþjóðasamfélagsins, er að gefa ráðamönnum tækifæri til að ræða nauðsyn aðgerða nú rúmu ári fyrir Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í París í lok árs 2015. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi aðildarríkjanna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mun sækja fundinn í New York fyrir hönd Íslands.

    Til að undirstrika kröfur um að Íslendingar axli ábyrgð sína í loftslagsmálum standa nokkur samtök fyrir göngu og útifundi í Reykjavík 21. september n.k. klukkan 14.00. Meðal þeirra er Vefritið Grugg, Náttúruverndarsamtök Íslands, Breytendur á Íslandi svo nokkrir séu nefndir. Safnast verður saman á svo kölluðu „Drekasvæði“ sem staðsett er á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, þaðan sem gengið verður til fundar niður á Austurvöll. Samskonar göngur munu fara fram víða um heim, til að mynda í New York, Kaupmannahöfn, London, Berlín, Nýju Delhi og Melbourne (sjá: www.peoplesclimate.org). Búist er við að þetta verði stærsti viðburður tengdur loftslagsmálum í sögunni.

    Skýrsluhöfundar IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) hafa tekið af öll tvímæli um að verði haldið áfram á sömu braut muni öfgar í veðri valda miklum hörmungum um víða veröld, hvort sem er í formi þurrka, hitabylgna eða æ ofsafengnari fárviðra. Einnig gæti yfirborð sjávar hækkað um allt að einn metra fyrir næstu aldamót og heimshöfin súrna hratt vegna síaukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Súrnun sjávar mun líklega hafa graf alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland sem fiskveiðiþjóð, rétt eins og hækkun yfirborðs sjávar ógnar framtíð þeirra þjóða sem byggja láglendar eyjar í Kyrrahafi.

    Enn er mögulegt að koma í veg fyrir að loftslag jarðar muni raskast varanlega með því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á komandi árum. Krafa loftslagsgöngunnar hinn 21. september er að stjórnvöld axli ábyrgð, virði skuldbindingar landsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og taki undir ítrustu kröfur um frekari samdrátt á vettvangi Evrópusambandsins* og Sameinuðu þjóðanna. Ennfremur að Ísland setji sér metnaðarfull markmið um samdrátt gróðurhúsaloftteguna til að kröfur um aðgerðir verði trúverðugar. Ríkisstjórn Íslands ber að taka undir málflutning Filipseyja og eyríkja sem mest er ógnað af völdum loftslagsbreytinga.

    Ennfremur er þess krafist, þar sem við horfum fram á óhjákvæmilegar afleiðingar útblásturs gróðurhúsalofttegunda á undanförnum 150 árum, að stjórnvöld hafi víðtækt samráð við almenning jafnt sem fyrirtæki og stofnanir um vinnu að aðgerðaáætlun um hvernig best sé að bregðast við breyttu loftslagi, breytingum á lífkerfi sjávar og viðbúnum auknum straumi flóttafólks.

    Mikilvægt er að frjáls félagasamtök, fyrirtæki, sveitarfélög, atvinnurekendur og almenningur leggi sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin ber aftur á móti pólitíska ábyrgð á því að koma nauðsynlegum breytingum í framkvæmd og beita öllum mögulegum mótvægisaðgerðum!

    Fylkjum liði 21. september, klukkan 14.00!

    *Ísland á aðild að loftslagsstefnu Evrópusambandsins. Því fylgja ekki einungis skyldur heldur einnig réttur til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins í loftslagsmálum.

    Sjá einnig:

    Loftslagsganga Reykjavíkur

    Facebooksíða göngunnar

  • Hvað er El Nino?

    Þeir sem fylgjast með fréttum af veðurfars- og loftslagsbreytingum hafa eflaust tekið eftir auknum fréttum af því að fyrirbærið El Nino sé væntanlegt – en það hefur áhrif á veður um alla jörð.

    Hvað er El Niño

    Á nokkurra ára fresti, á að meðaltali fimm ára fresti, verða breytingar á staðvindum í Kyrrahafinu sem veldur óvenju háum sjávarhita við miðbaug – en það er kallað El Nino. Ef aftur á móti sjávarhitinn verður óvenju kaldur, þá er það kallað La Nina. Þessi sveifla er kölluð á ensku ENSO (El Nino Southern Oscillation) og ber mikla ábyrgð á hnattrænum sveiflum í veðri frá ári til árs.

    mynd 1
    Yfirborðshiti sjávar við El NIno (vinstri) og La Nina (hægri). Rauðir litaskalar sýna heitt og bláir kalt. [Mynd: Steve Albers, NOAA]

    Hvað gerist við El Nino

    Í hvert skipti sem breytingar verða á ENSO þá hafa þær áhrif á hnattrænan hita (Trenberth o.fl. 2002) og dreifingu úrkomu hnattrænt.

    Við El Nino ár, þá minnkar úrkoman í Indónesíu og Ástralínu, á sama tíma og úrkoma eykst í Suður Ameríku og hluta Bandaríkjanna.

    Kyrrahafið losar hita út í andrúmsloftið við El Nino ár. Þegar það bætist síðan við þá undirliggjand hlýnun af völdum styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda, þá verða El Nino ár meðal þeirra heitustu frá upphafi mælinga. Ef skoðað er myndin hér fyrir neðan, þá sést að fimm af tíu heitustu árunum hafa verið El Nino ár (rauðgulir stöplar).

    mynd2
    Hnattrænt frávik í hitastigi jarðar frá 1950-2013. Þessi mynd sýnir glögglega hvernig hitinn sveiflast milli El nino og La nina ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum (mynd: NASA/GSFC/Earth Observatory, NASA/GISS)

    Á La Nina árum er staðan öndverð. Þá draga straumar heitan yfirborðsjó, niður í neðri lög Kyrrahafsins, sem veldur því að það kólnar hnattrænt.

    Vísindamenn telja að meiri tíðni La Nina síðastliðin 15 ár (bláir stöplar hér fyrir ofan) skýri að hluta hvers vegna hið hnattræna hitastig hefur ekki aukist eins hratt undanfarið og áratugina á undan (Balmaseda o.fl. 2013). Til samanburðar, þá var minna um La Nina atburði frá 1980-2000.

    Líklegt er talið að um séu að ræða áratugasveiflur á milli þess að El Nino er algengur annars vegar og La Nina hins vegar, svokallaðar IPO (Interdecadal Pacific Oscillation)(Meehl o.fl. 2013).

    Hér fyrir neðan má sjá sveiflur í hinni hnattrænu hlýnun (efri myndin). Þrátt fyrir minni hitaaukningu undanfarinn áratug eða svo, þá er síðasti áratugur sá heitasti frá upphafi mælinga (neðri myndin).

    mynd3
    Hnatrænt hitafrávik milli áranna 1850 og 2012, samanborið við viðmiðunarárin 961-1990. Mynd: IPCC AR5 WG1 Summary for Policymakers.

     

    Hvenær verður næsti El Nino

    Síðasti El Nino var árið 2009/2010, en síðan þá hefur Kyrrahafið verið í hlutlausu eða í La Nina fasa. Núverandi hlutlausi fasi er búinn að vera viðvarandi frá 2012. Það gæti bent til þess að kominn sé tími á El Nino – og vísindamenn telja reyndar að hann sé væntanlegur.

    Ástralska Veðurstofan telur að það séu allavega 70% líkur á El Nino í ár (samkvæmt spá í byrjun maí). Helstu einkenni þeirrar hlýnunar sem er undanfari El Nino er í gangi og margt bendir til þess að það haldi áfram næstu mánuði.

    Screenshot 2014-05-07 14.32.45
    Loftslagslíkön spá því hvenær hiti í Kyrrahafinu kemst í El Niño fasa (rauður). Meðaltal líkana er sýnt með grænu. Mynd: Australian Bureau of Meteorology

    Upp úr miðjum síðasta mánuði, þá setti rannsóknastofnun um loftslag í Columbíu (International Research Institute (IRI) for Climate and Society at Columbia University) líkurnar á El Nino í haust upp í 75-80%.

    Hversu sterkur verður næsti El Nino

    Það er enn of snemmt að segja til um hversu stór næsti El Nino verður – en miklar breytingar geta orðið næstu vikur sem hafa áhrif í hvora áttina sem er.

    Tony Barston útskýrir það betur hér:

    April Climate Briefing Highlights, with Tony Barnston from IRI on Vimeo.

    Er heitasta ár frá upphafi mælinga í pípunum?

    Margt bendir til að við næsta El Nino, sem bætist þá ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum, muni hnattrænn hiti verða sá hæsti frá upphafi mælinga. Aðstæður nú eru svipaðar og þær voru þegar síðasti stóri El Nino var (1997/8), en óvíst er hvort næsti verði þó eins stór.

    Þó margt bendi til El Nino, þá er ólíklegt að hann nái hámarki fyrir lok þessa árs og þar með er frekar búist við, ef af verður, að árið 2015 muni verða met í hnattrænum hita.

    Stóra myndin

    Náttúrulegur breytileiki í loftslagi veldur skammtíma hlýnun og kólnun, ofan á langtímaleitni hnattrænnar hlýnunnar – og ENSO sveiflan lætur ekki sitt eftir liggja í þeim bænum. Því er búist við sveiflum í loftslagi á sama tíma og hitinn eykst smám saman.

    Næsti El Nino gæti orðið sá heitasti frá upphafi mælinga, samkvæmt vísindamönnum. Ef það gerist, þá má búast við óvenju miklu öfgaveðri því samfara – auk þess sem hitaaukningin mun að öllum líkindum sækja í sig veðrið. Hvað sem gerist þá verða næstu mánuðir áhugaverðir og um leið spennandi að fylgjast með framhaldinu.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr færslu af heimasíðu The Carbon Brief: Q & A: What’s El Niño – and why does it matter that scientists say one is on the way? Sjá einnig áhugaverða færslu af Skeptical Science: Is a Powerful El Niño Brewing in the Pacific Ocean?

    Trausti Jónsson skrifaði um El Nino fyrir vísindavefinn: Hvað er El Niño?

    Trenberth o.fl. 2002: Evolution of El Niño–Southern Oscillation and global atmospheric surface temperatures

    Balmaseda o.fl. 2013: Distinctive climate signals in reanalysis of global ocean heat content

    Meehl o.fl. 2013: Externally Forced and Internally Generated Decadal Climate Variability Associated with the Interdecadal Pacific Oscillation

    Tengt efni af loftslag.is

  • Komandi munstur loftslagsbreytinga

    Komandi munstur loftslagsbreytinga

    Screenshot 2014-05-02 10.55.23Fyrir stuttu hélt Gavin Schmidt hjá NASA og loftslagsbloggari hjá RealClimate áhugaverðan fyrirlestur á vegum TED. Í fyrirlestrinum kemur í ljós að þekking á loftslagi og loftslagsbreytingum er eins og púsl í púsluspili sem birtist okkur smám saman, þannig að munstur loftslagsbreytinga verður smám saman ljósari.

    Sjón er sögu ríkari:

     

    Tengt efni á loftslag.is

  • Afdráttalausar yfirlýsingar

    Afdráttalausar yfirlýsingar

    Undanfarnar vikur og mánuðir hafa vakið athygli áhugamanna um loftslagsmál, en upp á síðkastið hafa vísindamenn verið afdráttarlausir  í ákalli sínu til almennings og stjórnmálamanna um að það sé ekki lengur hægt að bíða eftir aðgerðum – draga verði úr bruna jarðefnaeldsneytis og þar með styrkaukningu CO2 í andrúmsloftinu.

    Samstarf Breta og Bandaríkjamanna

    coverÍ febrúar bárust fréttir af því að tvær af virtustu vísindastofnunum heims hefðu útbúið í sameiningu bækling um loftslagsmál, en það eru annars vegar hin breska Konunglega Vísindaakademía (Royal Society) og hins vegar Vísindaráð Bandaríkjanna (National Academy of Science). Þessi bæklingur er settur upp á sem einfaldastan hátt og er fyrri hlutinn byggður upp af lykilspurningum, sem svarað er á einfaldan hátt með nánari útskýringum. Í seinni hluti hans er farið yfir grunnatriði kenningarinnar um hin auknu gróðurhúsaáhrif af mannavöldum.

    Sem dæmi er hér ein spurning úr skýrslunni, ásamt stutta svarinu:

    Þýðir minni hitaaukning undanfarið að loftslagsbreytingar séu hættar?

    Nei. Árið 1998 var mjög hlýtt vegna óvenjulega sterks El Nino og því virðist hitaaukning við yfirborð jarðar ekki eins hröð samanborið við aukninguna áratuginn þar á undan. Þrátt fyrir það, þá var fyrsti áratugur þessarar aldar heitari en seinasti áratugur síðustu aldar. Minni hitaaukning í skamman tima, breytir ekki skilning okkar á langtímabreytingum í hnattrænum hita vegna aukningar á gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum.

    Hér má lesa um bækling Konunglegu Vísindaakademíunnar og Vísindaráðs Bandaríkjanna af heimasíðu Royal Society: Climate Change: Evidence & Causes. PDF: Climate Change: Evidence & Causes. Einnig má lesa fjölmargar aðrar spurningar og svör vísindamannanna hér.

    Hér er kynningarmyndband frá sömu stofnunum um bæklinginn og vísindin sem liggja á bak við hann.

     

    Ein stærstu óháðu vísindasamtök heims stíga einnig fram

    AAAS-What-We-Know-Now-ReportAAAS, The American Association for the Advancement of Science eru alþjóðleg samtök vísindamanna sem, eins og nafnið gefur til kynna, stuðlar að framgangi vísinda, en samtökin gefa meðal annars út hið virta tímarit Science. Í mars opnuðu samtökin heimasíðu og gáfu út bækling sem heitir Það sem við vitum (e. What We Know). Helstu punktarnir eru þessir:
    1. Vísindamenn eru sammála: loftslagsbreytingar eru hér og nú. Á grunni vel ígrundaðra gagna, hafa um 97% loftslagsvísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu í gangi, hér og nú. Þessi samhljómur byggist ekki á einni rannsókn, heldur á stöðugum straumi gagna síðastliðna tvo áratugi..
    2. Við eigum á hættu að keyra loftslagskerfi jarðar í átt að óvæntum, ófyrirsjáanlegum og hugsanlega óafturkræfum breytingum með mjög skaðvænlegum áhrifum. Loftslag jarðar er á braut til hitastigs sem er hærra en jarðarbúar hafa upplifað í milljónir ára. Innan vikmarka þess hitastigs sem núverandi losun við bruna jarðefnaeldsneytis munu valda, eru hitar sem taldir eru geta eyðilegt í stórum stíl samfélög og vistkerfi..
    3. Því  fyrr sem við bregðumst við því minni verður áhættan og kostnaðurinn og það er margt hægt að gera. Að bíða með aðgerðir mun auka kostnað, margfalda áhættu og loka á ýmsa möguleika til að takast á við vandann. Það koldíoxíð sem við framleiðum nú, safnast fyrir í lofthjúp jarðar og er þar í áratugi, aldir og lengur..
    Hér má lesa um verkefnið: What We Know. PDF: What We Know. Nokkur áhugaverð myndbönd eru á heimasíðunni, meðal annars þetta hér:

    Consensus Sense from What We Know on Vimeo.

     

    Alþjóða Veðurfræðistofnunin afdráttarlaus

    WMOÍ lok síðasta mánaðar kom út árleg yfirlýsing Alþjóða Veðurfræðistofnuninni, WMO – World Meteorological Organization um veður síðasta árs. Auk yfirlits um veðurfar síðasta árs sem var öfgafullt víða um heim, var farið sérstaklega yfir óvenjulega hita sem voru á Ástralíu árið 2013 og sérstaklega yfir sumarið.
    Í yfirlýsingunni kemur fram að jörðin haldi áfram að hitna, en 13 af 14 heitustu árum frá upphafi mælinga urðu á þessari öld og að fyrsti áratugur þessarar aldar sé heitastur.  Þó náttúruhamfarir verði án loftslagsbreytinga af mannavöldum, þá er talað um að þær séu að auka líkurnar og styrk öfgaveðurs. Í yfirlýsingunni er fyrrnefnt dæmi um óvenjulega hita í Ástralíu tekið sem dæmi og er WMO frekar afdráttarlaust varðandi þann atburð, en talið er að öfgarnir í hita Ástralíu hefðu verið nánast útilokaðir án loftslagsbreytinga af mannavöldum.

    Auk öfgahitanna í Ástralíu má nefna að víða um heim var óvenjuöfgafull úrkoma, meira um ákafa hita og meira tjón vegna flóða af völdum storma og hækkandi sjávarstöðu.

    Hægt er að lesa yfirlýsingu WMO hér- PDF:  WMO Statement on the status of the global climate in 2013

     

    Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna skilar inn svartri skýrslu

    Ipcc hopur 2Að lokum er nauðsynlegt að nefna það að vinnuhópur II hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er nýbúin að skila inn skýrslu sinni um afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru og samfélög og til hvaða úrræða megi grípa til þess að aðlagast breytingunum. Hér er um að ræða fimmtu úttekt nefndarinnar og er hún mun hispurslausari en fyrri úttektir.

    Skýrslan virðist staðfesta að breytingar eru hraðari en reiknað var með. Skýrslan dregur fram líklegar afleiðingar, breytingar á búsvæðum tegunda til lands og sjávar, mikla fólksflutninga frá svæðum sem verst fara út úr breytingum, sem eru raunar fjölmenntustu landsvæði jarðar, alvarlegan samdrátt í vatnsbúskap og meiri áhrif til hins verra fyrir fæðuframleiðslu og fæðuöryggi jarðarbúa. Sem dæmi um neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á jarðrækt (af heimasíðu Veðurstofunnar):

    Fjöldi rannsókna, frá ólíkum svæðum og á mörgum nytjategundum, sýnir að loftslagsbreytingar hafa oftar neikvæð áhrif á jarðrækt en jákvæð. Þær rannsóknir sem sýna jákvæð áhrif eiga við um köld svæði og er ekki enn ljóst hvort áhrifin þar eru í heildina jákvæð eða neikvæð. Loftslags-breytingar hafa haft neikvæð áhrif á maís- og hveitirækt á mörgum svæðum og í heildina þegar litið er til jarðarinnar allrar. Á hinn bóginn eru áhrif á sojabauna- og hrísgrjónarækt víðast hvar lítil eða ekki merkjanleg. Áhrifin eru einkum á framleiðslu matvara en síður á dreifingu, aðgengi eða aðra þætti sem lúta að fæðuöryggi. Síðan síðasta skýrsla IPCC kom út árið 2007 hafa skyndilegar en tímabundnar verðhækkanir á kornvöru og matvælum fylgt í kjölfar óvenjulegs veðurfars á mikilvægum framleiðslusvæðum. Sýnir það að þessir markaðir eru m.a. viðkvæmir fyrir óvenjulegu veðurlagi.

    Hægt er að lesa samantektarskýrsluna hér-PDF: Summary for Policymakers. Góð samantekt er á heimasíðu Veðurstofunnar, Áhrif loftslagsbreytinga: Úttekt vinnuhóps 2 hjá IPCC

    Tengt efni á loftslag.is

  • Allir í úlpur

    Allir í úlpur

    Við birtum hér pistil sem við ritstjórar loftslag.is fengum birt í Reykjavík vikublað 1.mars síðastliðinn.

    thumb_kaltAlmenn umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um loftslagsmál virðist að hluta til ábótavant, sérstaklega þegar kemur að flóknari viðfangsefnum eins og t.d. sólvirkni eða tilfallandi staðbundnum vetrarkuldum. Oft virðast fréttir íslenskra fjölmiðla um loftslagsmál vera tiltölulega slælegar þýðingar af erlendum netmiðlum (með undantekningum þó). Nýlegt dæmi er umfjöllun á vefmiðlunum pressan.is og mbl.is annars vegar og í Bændablaðinu hins vegar, um minni sólvirkni og samkvæmt þeim fréttum, kólnun af þeim völdum. Fyrrnenfndar umfjallanir virðast við fyrstu sýn eiga sér stoð í frétt af fréttamiðlinum BBC “Is our Sun falling silent?“, sem verður öllu jafna að teljast nokkuð áreiðanleg heimild. En þegar heimildin er lesin og borin saman við fréttaflutning íslensku fjölmiðlanna, þá sýnist eitthvað hafa skolast til. Á vef BBC kemur fram að vissulega sé verið að ræða um að minni sólvirkni sé möguleg á næstu árum og áratugum (20% líkur samkvæmt sérfræðingum) en þar kemur líka fram að það muni væntanlega hafa lítil sem engin áhrif varðandi áframhaldandi hnattræna hlýnun, sem er svipuð niðurstaða og t.d. má lesa úr skýrslum IPCC. Samkvæmt fréttum íslensku fjölmiðlanna sem skrifuðu um sama mál koma fullyrðingar eins og sjást í fyrirsögnunum, Allir í úlpur, húfur, vettlinga og trefla: Er lítil ísöld að hefjast?” [pressan.is], Kaldari veður og sjaldséð norðurljós?” [mbl.is] og “Kólnandi veðurfari spáð næstu 30 til 40 árin [Bændablaðið]. Það er því eðlilegt að spyrja sig hvers vegna þetta orðaval er notað þvert á niðurstöðu og gögn vísindamannanna sem vísað er til samkvæmt frétt BBC?

    Ritsjórn loftslag.is hafði samband við vefmiðilinn pressan.is eftir þeirra umfjöllun og fékk að vita að “Pressan stendur við frétt sína. Margir fjölmiðlar víða um heim hafa verið að birta álíka fréttir undanfarna daga.” [Björn Ingi Hrafnsson]. Hugsunarlausar endurtekningar virðast því í þeirra huga bera vott um góða umfjöllun. Reyndar fylgdi líka ávirðing fyrir ábendinguna um að umfjöllun þeirra væri röng og maður spyr sig hvort þeir hafi eitthvað á móti því að lesendur bendi þeim á að umfjöllun þeirra sé kannski úr takti við það sem réttara reynist. Aðhald lesenda ætti að vera jákvætt, enda mikilvægt fyrir fréttamiðil sem vill skrifa réttar fréttir, þó hann verði að bíta í það súra að viðurkenna mistök. Pressan.is virðist samt ekki taka mikið mark á þeim ábendingum, ef marka má orð Björns

    Eftirfarandi athugun ritstjórnar loftslag.is (eftir að hafa án árangurs beðið um heimildina) á uppruna fréttarinnar sýndi svo fram á að umfjöllun vefsins pressan.is er nánast orðrétt þýðing af fjölmiðlinum dailymail.co.uk, á frétt sem ber titilinn Is a mini ice age on the way? Scientists warn the Sun has ‘gone to sleep’ and say it could cause temperatures to plunge” [dailymail.co.uk]. Það er þá ljóst að vísindaumfjöllun á pressan.is hefur uppruna sinn í breskt göturit sem hefur ekki sannfærandi orðstýr varðandi umfjöllun um loftslagsvísindi. En er það eðlileg þróun mála, að fjölmiðlar endurtaki hugsunarlítið slakar umfjallanir nánast orðrétt í krafti þess að aðrir fjölmiðlar lepja svipaða umfjöllun hugsunarlaust upp? Það verður þó að taka það fram að umfjöllun Bændablaðsins er mun ítarlegri en umfjallanir vefmiðlanna og meðal annars með viðtölum við íslenska veðurfræðinga. Það kemur þó ekki í veg fyrir miklar mistúlkanir blaðamanns Bændablaðsins og ályktanir sem eiga ekki sterkar stoðir í vísindalegum veruleika, meðal annars um samspil eldvirkni og loftslags.

    Fréttir eins og þessar vekja alltaf mikla athygli. Kannski það sé ástæða þess að ekki þótti rétt að draga til baka þessa frétt á pressan.is þótt auðvelt sé að sýna fram á að hún sé röng. Hver sem ástæðan er, þá er ljóst að sumir íslenskir fjölmiðlar þurfa að vanda sig, því ábyrgð þeirra og annarra fjölmiðla er mikil. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að lesendur hafi upplýsingar til að sjá í gegnum svona umfjallanir og munu þeir þ.a.l. ekki sjá hag sinn í því að berjast gegn loftslagsbreytingum, sem eru þó óumdeildar meðal loftslagsvísindamanna, svo lengi sem upplýsingar fjölmiðla eru af vafasömu meiði

    Tengt efni á loftslag.is
  • Fjárlosun, olíuvinnsla og loftslagsmál

    Fjárlosun, olíuvinnsla og loftslagsmál

    Í þessari færslu ætla ég að reyna að svara því hvað fjárlosun (e. divestment) er og hvað það hefur með loftslagsmálin og vinnslu jarðefnaeldsneytis að gera? Fyrst er gott að líta á hvað fjárlosun er og hvernig það hefur verið notað áður?

    divestforourfuture

    Fjárlosun er í raun andstæða fjárfestinga. Það má segja að fjárlosun sé m.a. það ferli að selja eignir, t.d. hlutabréf, fyrirtæki og/eða tæki til þess m.a. að losa fjármuni. Fjárlosun getur t.d. verið notuð til að ná fjárhagslegum og/eða félagslegum markmiðum sem geta m.a. verið vegna breytinga í því umhverfi sem unnið er í.

    Þegar einhver fjárfestir, þá eru settir peningar í viðkomandi fjárfestingu. Sú fjárfesting á helst að skila arði á meðan á fjárfestingunni stendur, þó á því geti verið alls kyns undantekningar. Fyrirtæki hafa stundum notað fjárlosun til að losa sig við einingar innan fyrirtækja sem skila fyrirtækinu ekki tilsettum ávinningi, hvort sem það er vegna breytinga í tekjuflæði eða vegna þess að sú eining er ekki lengur í samræmi við áherslu fyrirtækisins til framtíðar, svo dæmi séu tekin. Áherslubreytingar fyrirtækja geta verið af mörgum toga, m.a. breyttar áherslur í framleiðslu og/eða þjónustu, breyttum áherslum vegna breytinga í þjóðfélaginu sem gæti t.d. verið vegna umhverfismeðvitundar, svo dæmi sé tekið. Fjárlosun gengur því m.a. út á að losa fjármagn með því að hætta fjárfestingum í einingum fyrirtækja, fyrirtækjaheildum, tegundum iðnaðar o.s.frv.

    Sjóðir, eins og t.d. lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestingarsjóðir, fjárfesta í allskyns fyrirtækjum og hlutabréfum til að fá framtíðartekjur fyrir viðkomandi sjóð. Fyrirtæki, bankar, lífeyrissjóðir og sumstaðar (t.d. í Bandaríkjunum) háskólar eru með stóra fjárfestingasjóði sem fjárfesta í ólíkum fjárfestingakostum. Fjárfestingarkostirnir eru oft svipaðir á milli sjóða og er oft keypt í mörgum fyrirtækjum og/eða greinum til að draga úr áhættu. Stundum eru fjárfestingaráætlanir á þann veg að keypt er í eignasöfn sjóðanna á fyrirfram ákveðin hátt í ákveðnum hlutföllum á milli greina (yfirleitt er eitthvað svigrúm til að ákveða hlutföllin). Almenningur sem fjárfestir í fjárfestingasjóðum hefur oft ekki nægilega innsýn í það hvernig samsetning eignasafnsins er nákvæmlega. Hitt er þó líklegt að þrýstingur frá almennum fjárfestum gæti hugsanlega haft áhrif á fjárfestingastefnu sjóðanna. En þá þarf hinn almenni fjárfestir að sjálfsögðu að vera meðvitaður um hvað er í boði og þeim markmiðum sem hann vill ná í sinni fjárfestingu – m.a. fjárhagslegum og félagslegum.

    Gott dæmi um fjárlosun í sögulegu samhengi var þegar hvatt var til sölu fjárfestingakosta í Suður-Afríku sem var hluti af því að þrýsta á félagslegar breytingar í Suður-Afríku til hafa áhrif til að binda endi á apartheid. Þar var fjárlosun notuð í félagslegum tilgangi til að ýta undir breytingar í suður-afrísku þjóðfélagi. Það má færa fyrir því rök að sú fjárlosun hafi haft jákvæð áhrif á þær félagslegu breytingar sem þar urðu. Einnig hefur fjárlosun verið notuð að einhverju leiti innan t.d. tóbaks- og vopnaiðnaðiðarins – væntanlega einnig í félagslegum tilgangi.

    fossilfreeUm þessar mundir er byrjað að þrýsta á fjárfestingasjóði í BNA til að fá þá til að selja í fyrirtækjum sem vinna við vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía, kol og gas). Sá þrýstingur er dæmi um félagslegar breytingar og breyttar áherslur vegna umhverfisáhrifa sem eru af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Umhverfisáhrif af auknum gróðurhúsaáhrifum eru m.a. hækkandi hitastig í heiminum og breytingar á loftslagi jarðar af þeim völdum. Það eru margar ólíkar afleiðingar af auknum gróðurhúsaáhrifum, m.a. hækkandi sjávarborð, bráðnun hafíss og jökla, súrnun sjávar og ýmsar ófyrirsjáanlegar breytingar í veðurfari, svo eitthvað sé tiltekið. Það má færa fyrir því rök að fjárfestingarsjóðir, fyrirtæki og einstaklingar geti haft áhrif í þá átt að losa fé úr fyrirtækjum sem stunda framleiðslu sem ekki fer vel með umhverfið almennt enda má segja að almennir hagsmunir hljóti að vera meiri en núverandi hagsmunir fyrirtækja sem fá gríðarlegan arð á því að selja vöru sem hefur svo víðtæk áhrif á umhverfið eins og brennsla jarðefnaeldsneytis er.

    En það eru í raun fleiri rök fyrir því að losa fjármuni úr jarðefnaiðnaðinum. Til að mynda þá er það jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækja í þessari grein miklu meira en talið er öruggt að brenna í framtíðinni. Það er sennilega á bilinu 3svar til 5 sinnum meira jarðefnaeldsneyti í jarðefnabókhaldi fyrirtækja en talið er að hægt sé að vinna og brenna til að halda sig undir 2°C takmarkinu sem þjóðir heims hafa samþykkt (enn sem komið er án skuldbindinga) að halda hlýnun jarðar undir. Þess má einnig geta að tveggja gráðu markmiðið er pólitískt markmið og það hefur i raun ekki verið sýnt fram á að það sé “örrugt” að setja það svo hátt. Út frá þessum vangaveltum, má því færa fyrir því rök að það sé bóla í bókhald olíufyrirtækja sem ekki sér fyrir endann á. En hvernig lýsir sú bóla sér?

    Bólunni má lýsa þannig að virði fyrirtækja í olíu-, gas- og kolaiðnaðinum sé metið út frá mögulegum framtíðarvæntingum um tekjur og arð fyrirtækjanna, miðað við þá framleiðslu sem gert er ráð fyrir að fyrirtækin muni hafa í framtíðinni af því jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækjanna í dag. Ef þjóðir heims taka loftslagsvandann alvarlega, þá verður ekki hægt að  vinna allt það jarðefnaeldsneyti sem er í bókhaldi fyrirtækjanna úr jörðu, sem getur haft veruleg áhrif á framtíðartekjur þeirra. Ef framtíðar framleiðsla þessara fyrirtækja er einungis fimmtungur til þriðjungur af því sem gert er ráð fyrir í dag (jafnvel þó hlutfallið væri hærra), þá hefur það væntanlega áhrif á tekjur þeirra og þar með virði til lengri tíma. Af þessum völdum einum saman ættu fjárfestar í raun að íhuga alvarlega fjárfestingar sínar í þessum iðnaði til framtíðar. Það er þó alls óvíst að arðurinn minnki til skemmri tíma, en þó er líklegt að sú staðreynd að ekki er hægt að selja þær birgðir sem eru í bókhaldinu (enn í jörðu) muni hafa áhrif á virði fyrirtækjana til lengri tíma litið. Verð vörunnar hefur að sjálfsögðu áhrif á virði fyrirtækjanna, en í heimi þar sem sjálfbær orka, eins og t.d. vind- og sólarorka fara lækkandi frá ári til árs, þá er erfitt að færa rök fyrir því að olíuverð haldist nægjanlega hátt til lengri tíma til að það bæti upp skerta möguleika til vinnslu jarðefnaeldsneytis.

    bubble

    Hversu langur tími kann að líða þar til bólan springur er erfitt að segja til um, en væntanlega þurfa fjárfestar að átta sig á þessu á næsta áratug eða svo. En hversu langur sem tíminn verður, mun væntanlega koma að þeim tímapunkti að markaðurinn mun átta sig á bólunni. Þegar þar að kemur, þá er hugsanlegt að fjárfestar færi fjármagn sitt í aðra geira orkuiðnaðarins sem eru meira sjálfbærir til framtíðar – það er af nógu að taka og væntanlega vöxtur framundan til handa þeim sem koma snemma inn í þann geira.

    En hvað sem líður fjárlosun í dag, þá er verður að teljast líklegt að fjárfestar framtíðarinnar muni á einhverjum tímapunkti átta sig á þeirri bólu sem virðist vera í virði fyrirtækja í jarðefnageiranum. Því fyrr sem það gerist, því betra fyrir umhverfið. Hvort að þetta muni hafa áhrif á olíuvinnslu á Íslandsmiðum skal látið ósagt, en ekki er þó ólíklegt að breytingar verði í umhverfi þessa iðnaðar sem gæti haft áhrif á virði og arð fyrirtækja í geiranum. Allt er breytingum háð og breytingar geta orðið á skömmum tíma, t.d. fjárlosun vegna bólumyndunar og/eða vegna þrýsings af félagslegum ástæðum vegna umhverfisáhrifa. Gott er fyrir fjárfesta og stjórnmálamenn að hafa þetta í huga áður en stórkostlegar fjárfestingar verða gerðar í geira sem framleiðir vöru sem ekki er sjálfbær, né umhverfisvæn. Það er ekki víst að aðeins erlendir fjárfestar taki áhættu ef gerðar verðar miklar fjárfestingar á innviðum í landinu vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Íslandsmiðum. Olíuvinnsla er iðnaður sem er í anda 19. aldar hugsunar og ekki rökrétt að fara í stórkostlegar fjárfestingar á innviðum landsins til að styðja við þess háttar iðnað til lengri tíma.

    Helstu heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is: